16.9.2023 | 23:49
Át-helgin mikla og sönn saga af leigubílstjóra
Bæjarferð í gær með strætó kl. 17.30, sótt í Mjódd og ekið sem leið lá í lúgu á skyndibitastað. Ég hitti sem sagt akkúrat á dag þar sem systir mín bauð upp á mjög góða laukhringi og kjúklingaborgara, ekkert uppvask, allir saddir. Um kvöldið horfðum við systur á bíómyndina Barbie sem var alveg frábær, en Hilda þurfti að kaupa hana á Vodafone, ekki leigja, kannski af því að hún er enn í bíó. Ferlega skemmtileg og í raun allt öðruvísi en ég hélt sem er líka alltaf gaman.
Mynd: Eggs Benedict og Rósin - dýrlegheit úr Apóteki.
Þetta var bara rétt upphafið að áthelginni miklu. Systir mín fékk gjafakort í jólagjöf, í bröns (er búið að ákveða íslenska orðið, kannski árdegisverður?) á Apóteki. Frænka og maki slógust í för með okkur sem gerði þetta auðvitað helmingi skemmtilegra. -Af hverju var enginn búinn að segja mér hversu æðislegur staður þetta er? spurði Hilda beisk, búin að missa af svo mörgum flott-út-að-borða-skiptum. Hún kannski hættir með Aktu taktu og býður upp á Apótek í take away? Það voru komin einhver ár síðan ég fór síðast í Apótek en ég mundi enn eftir rósinni, eftirrétti sem ég MYNDI og SKYLDI fá mér þótt ég yrði of södd, ALVEG SAMA HVAÐ!
Eggs Benedict á önd á vöfflu var fínasta val og þótt þetta sé ekki matarblogg vil ég endilega hrósa matnum þótt eggin hefðu mátt vera minna elduð, samt var þetta afskaplega gott. Við vorum öll frekar mikið södd eftir matinn, sem var virkilega vel útilátinn og ég var ansi fegin því að hafa sleppt morgunverði, en mér tókst að sannfæra gengið mitt góða um að prófa kaffi og RÓSINA (sturlaður eftirréttur), Hilda vildi þó bara kaffi.
Kaffið? Staðir af þessu kaliberi ættu ekki að kaupa kaffibaunir af gosdrykkjafyrirtæki. Punktur. Fyrsti sopinn var allt í lagi og þeir næstu en þegar komið var ögn niður í bollann og kaffið tekið að kólna aðeins kom óbragð. Ég er eini kaffinördinn í hópnum en þau hin voru sammála mér um að kaffið væri ekkert sérstakt. Stílbrot, miðað við gæðin í matnum, þjónustunni, umhverfinu sem allt var upp á tíu!
Vér systur bættum okkur þetta kaffidæmi upp og fengum okkur góðan kaffibolla nokkru seinna, hjá Te og kaffi í Garðabæ, eftir að hafa prufukeyrt (ekki ég) fínasta Toyota Highlander. Tæknin er svo klikkuð nú til dags að sirka tíu sekúndum áður en við komum til baka með bílinn til að skila honum og lyklunum, lokaðist fyrirtækið sjálfkrafa, og við með lykla að geggjuðum bíl. - Tökum hann bara, sagði ég, og förum á rúntinn, gætum boðið fimm sætum körlum upp í og hver veit hvað gerist, (sjö manna bíll) en Hilda bankaði eins og bjáni á dyrnar þar til elskulegi sölumaðurinn kom og opnaði.
Við skruppum næst í Jysk upp á Höfða - það á að bera það fram JUSK, sagði starfsmaður þegar ég spurði. Ekki verra nafn en IKEA eða Costco ... Ég sá margt smart en keypti ekkert (strætóandi konan) en Hilda fann fínt sófaborð og hliðarborð í sumarbústaðinn.
Það hlýtur að ríkja afskaplega góður andi ríkjandi hjá starfsfólkinu hjá Jysk, Höfða, því það var svo frábær þjónustan, allir glaðir og almennilegir, ein komin í jólaskap sem gladdi jólabarnið Hildu.
Ef Heimahúsið væri ekki uppáhaldsbúðin mín núna eftir að ég fann þar lampa drauma minna, væri Jysk það ... Ég sá meira að segja flottan og skemmtilegan ruggustól í Jysk, kannski næst?
En Einarsbúð er auðvitað í allra fyrsta sæti, alltaf.
Mynd af Mark Harmon: Í alvöru, Facebook?
Ég hef löngum kvartað yfir öllum þeim fjölda sálfræðinga í fjölskyldunni, ættinni og eiginlega allt í kring. Og í leiðinni skortinum á t.d. lögfræðingum (eftir að pabbi dó) og pípurum (okkar pípari býr á Siglufirði) en ég heyrði góða sögu frá einum sálanum í klaninu mínu. Hún fór út á djammið eitt föstudagskvöldið, ekki alls fyrir löngu, með vinnufélögum. Þau fóru á hótel í Reykjavík. Þegar leið á kvöldið, hún orðin þreytt og langaði heim, hringdi hún á leigubíl.
Leigubíllinn mætti og hún settist inn.
Bílstjóri: Hvað var um að vera á hótelinu?
Hún: Ekkert sérstakt, vinnan mín skellti sér á happy hour eftir vinnu.
Bílstjóri: Hvar vinnur þú?
Hún: Á Sálfræðistofunni xxx.
Bílstjóri: Já, ókei, ég fer ekki til sálfræðings eða neitt. Ég nota bara sýru.
Hún: Uuu, já, ok, uuu, vil ég vita það?
Bílstjóri: Já, já.
Hún: Notarðu það þá til að hreinsa hugann eða eitthvað?
Bílstjóri: Já! Viltu heyra? Þetta lagar allt!
Hún: Vil ég heyra sýru?
Bílstjórinn: Já!
Hún: Ummm, allt í lagi þá.
Bílstjóri: Þetta! (hækkar græjurnar í botn)
Þungar bassadrunur hristu bílinn í um það bil eina mínútu áður en hressilegt píkupopp á hæsta hófst, svipuð tónlist og frá Aqua sem gerði Barbie girl-lagið, hún hélt að þetta væri remix af lagi með Toy-box. Þetta sem hann var að spila var víst yfir klukkutímalangt remix með einhverjum Basher. Tarzan og Jane-sýrumix eitthvað ...
Þegar ég tók svo leið 57 frá Mjódd rétt fyrir kl. 20 í kvöld með urinary-kattamat upp á 3,5 kg, sat sjálfur Guðjón undir stýri og þar var nú engin vitleysan, ekki einu sinni útvarp í gangi. Mikið vildi ég að strætómiðarnir væru enn notaðir sem greiðslumáti, það komu t.d. nokkrir hressir unglingar, kannski fimm eða sex, inn í vagninn í Mosó og það tók alveg nokkrar mínútur að afgreiða þá, þeir voru allir með debitkort. Guðjón sagði mér að sá greiðslumáti tefði vagninn stundum, alveg um korter ef kæmu margir með kort, stundum frysi posinn og þá færi allt í klessu. Við sem tökum landsbyggðarvagnana megum sem sagt borga með korti eða peningum (og fáum til baka, bílstjórarnir eru með skiptimynt).
Í nafni bættrar þjónustu kom svo Klappið (í Reykjavík) sem alltaf er að bila ... Bílstjórarnir á 57 elskuðu mig í gamla daga því ég var alltaf með strætómiða (kostaði tvo miða í bæinn) eða sérstakt mánaðarkort sem þurfti bara að sýna, og hviss, bang, var bara eina sekúndu að koma mér inn í vagninn. Nú er ég yfirleitt talsvert lengur nema ég sé með fargjaldið í peningum, upp á krónu, sem ég reyni stundum. Gæti ég kannski mögulega fengið miðakerfið aftur, eða eitthvað sem virkar betur? Ætti tæknin ekki að bæta hlutina? Mikið held ég að bæði bílstjórar og farþegar myndu gleðjast ef miðarnir yrðu teknir upp aftur.
Bloggar | Breytt 17.9.2023 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2023 | 15:04
TheresuCharles-sjokkið og marglesinn spítalarómans
Haustlegra verður það með hverri lægðinni og nú er ein að koma að strönd Himnaríkis um helgina. Hún kemur einmitt þegar ég þarf að skreppa í bæinn til að sinna einu erindi, reyndar tveimur, það er orðið lítið eftir af kattamat, fína urinary-sjúkrafæðinu hans Kela sem Krummi og Mosi njóta góðs af. Dýralæknirinn í Hamraborg verður sem sagt heimsóttur líka, þessi ljúfi maður sem elskar dýr. Samkvæmt systur minni táknar koma mín í bæinn bara enn eitt dekrið. Það verða sennilega bröns-dýrlegheit á Apóteki, en þangað hef ég ekki komið árum saman. Gæti þurft að gista í bænum vegna veðurs, eða óhagstæðrar vindáttar, láréttrar SA-rigningar sem fer svo hratt yfir að strætó treystir sér ekki til að skutla mér heim. Þá flytur bara granninn góði inn til kattanna á meðan. Þegar ég kom heim eftir eftir síðasta sukk (sumarbústaðsferðina) horfðu þeir á mig nánast með vonbrigðasvip: Nú, nú, ert þetta þú? Enginn til að leika með leiser eða klappa í klessu ... Þegar ég bauðst til þess sneru þeir upp á sig og héldu áfram að sofa. Þeir flytja kannski bara niður á aðra hæð. Hrmpf ... djók.
Nú hlusta ég á bækur sem ég hélt mikið upp á í denn, og hef lesið þær flestar. Kláraði Berlínaraspirnar í gær og er byrjuð á Kuðungakröbbunum. Frábærar bækur eftir Anne B. Radge. Ágætt að hvíla sig frá morðum og drykkfelldum löggum (í bókum) og einhenda sér í svona sögur. Gamli maðurinn á heimilinu þarna í fyrstu sögunni kemur með óvænta bombu yfir óvænta jólamatnum með óvæntu komu yngsta bróðurins og dóttur þess elsta sem ekki allir vissu að væri til, og sú bomba talar alveg inn í samtímann og þann ljótleika sem samfélagsmiðlar hafa verið fullir af síðustu daga. Einn helsti kosturinn við að vera hraðlesari er sá að efnið og atburðir festast ekki svo glatt í minni, alla vega ekki til margra ára, svo auðvelt er að lesa bækur aftur. Sumar les ég viljandi aftur á örfárra ára fresti til að fá stemninguna, hitta gamla vini (söguhetjurnar). Eitt sinn skrifaði ég grein um Theresu Charles og bækur hennar og var í hálfgerðu sjokki á eftir. Theresa reyndist vera gervinafn og hjón sem skrifuðu. Ég endurlas og nýlas einhverjar bækurnar, meðal annars um Patrick skurðlækni sem mér fannst svo æðislegur. Dularfullur, þögull og spennandi ... Þegar ég endurlas bækurnar um hann varð ég fyrir svo miklum vonbrigðum, að Inez skyldi ekki leyfa Úrsúlu, leiðindafrekjunni með fullkomnunaráráttuna, að hirða frekjuhundinn og leiðindapúkann Patrik. Bækurnar höfðu auðvitað ekkert breyst, bara lesandinn ... og samtíminn. Mig langar samt að endurlesa bækur sem ég held að ég hafi látið frá mér í grimmdarlegu grisjuninni 2020, Hulin fortíð og Sárt er að unna. Mögulega sömu vonbrigðin en mikið sem ég hélt upp á þær hér áður fyrr. Ég les bókina Vinur minn prófessorinn á u.þ.b. fimm ára fresti. Hún segir frá ungri konu sem er að læra hjúkrun á fínu sjúkrahúsi ... þar má alls ekki tala við læknana (allir karlkyns) nema vinnutengt en í gönguferð skellur á þrumuveður og hún rétt sleppur inn í lítið hús uppi á hæðinni þar sem fyrir er indæll maður. Þau fara í kjölfarið að skrifast á og hann veitir henni ómetanleg ráð sem nýtast henni vel í náminu.
Mynd: Kaffibollinn minn með til að búa til meiri stemningu. En forsíðumyndin er villandi, Frances og prófessorinn hittust aldrei á þeim deildum sem hún vann, til að daðra svona eins og gefið er í skyn. Hún hefði verið rekin úr námi - nema þetta sé ríka vinkonan (Estella) sem vinur Frances, læknaneminn, elskaði, nei, Estella var alltaf svo vond við hann þótt hún elskaði hann á móti, af ótta við að ríki afi hennar leyfði henni ekki að halda áfram hjúkrunarnáminu en prófessorinn hélt að Frances elskaði læknanemann ... Ekkert nema misskilningur. Líklega hefur kápuhönnuðurinn ekki lesið bókina, bara fengið að vita að þetta væri spítalarómans.
Ég átti tvö eintök af henni en gaf annað í fyrra konu sem hafði elskað hana og endurlesið frá barnæsku en langaði til að eiga hana. Sé enn á bókasíðum að auglýst er eftir henni. Hér áður hefði ég bent á nytjamarkaðinn Búkollu (Akranesi) sem hætti einhverra hluta vegna að bjóða upp á gamlar bækur. Eina ástæðan fyrir heimsóknum mínum þangað var að finna gamla og góða gullmola, en sumir sjá ekki fjársjóðinn í gömlum bókum. Því miður. Ég fékk til dæmis Alfræðiorðabókina frá Erni og Örlygi (í 3 bindum) í Búkollu á 300 kr. áður en þessu var breytt. Þá voru innbundnar bækur á 100 kall og kiljur á 50 kall. Svo var verðið hækkað til muna og bækur hættu að seljast eins vel, og líklega þá var hætt að taka við gömlum bókum af því að enginn vildi þær ... Dæs. Þess vegna fóru heilu kassarnir af bókum frá mér, bæði nýlegum og eldri, til Reykjavíkur í grisjuninni grimmu og Davíð frændi skipti þeim á milli markaðanna, þar sem þeim var alltaf afskaplega vel tekið. Góði hirðirinn tekur ekki við bókum og virðist hafa breyst í fokdýra verslun með notaða hönnunarhluti og -húsgögn á uppsprengdu verði, auk þess flutti þessi fyrrum fíni markaður þangað sem enginn kemst nema fuglinn fljúgandi (nálægt Sundahöfn) eða fólk á bíl. Eins og Strætó gerði til að losna við ónæði af viðskiptavinunum.
MYND:
Hvað er að gerast á Facebook?
Jú, það er tekist á um kristinfræðikennslu í skólum, áfram um meinta kynfræðslu, spurt um gagnsemi húsflugunnar, frétt um verkfall fanga, birt mynd sem sýnir fegurð Akraness úr lofti og skv. myndinni hér fyrir ofan er Facebook loksins farin að ota að mér almennilegum hópum. Ég sem fer aldrei í sund væri til í að vera í þessum hópi - enda elska ég allt við V-Hún., fólkið þar, kaupfélagið á Hvammstanga, minningar frá réttarböllum og fleira og fleira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2023 | 18:08
Örlagaríkar setningar og rokkhjarta í molum
Ótrúlega fá, raunar allt of fá, ár eru síðan ég fór að meta ljóðlist að einhverju ráði, gæti verið að utanbókarstagl í skóla hafi gert mig og pottþétt fleiri fráhverfa ljóðum. Svo eitt árið barst mér í hendur ljóðabók eftir Ingunni Snædal og varð ekki söm eftir það. Ekki mjög löngu seinna féll ég fyrir ljóðum Þórdísar Gísladóttur ... Ég hef ekki verið dugleg að kaupa mér ljóðabækur, gríp helst ódýra krimma handa mér en hef þó stundum gefið ljóð í jólagjöf, ljóðelskum vinum. Svo var mér eitt sinn næstum fleygt út úr strætó á leið í Garðabæ af því að ég veinaði úr hlátri ... yfir ljóðabók eftir Bjarka Karlsson. Þurfti þá í alvöru að troða upp í mig treflinum og loka bókinni, ámátleg kveinin (hlátur sem reynt er að bæla niður) voru farin að vekja athygli viðstaddra.
Ég er alls ekki sú besta í ensku, rétt fær til að spjalla þótt mig vanti oft orð, og lesa Stephen King og Dean Koontz. Það tók mig ansi mörg ár að uppgötva að það væru engir dýralæknar í hernum, eins og ég hef sagt frá áður (ruglaðist á: fyrrum hermaður / dýralæknir) og svo orðið hika sem ég las eitt sinn í frekar lélegri hryllingssögu þar sem allt var svo spúkí að enginn gat talað heila setningu án þess að hika nokkrum sinnum, við að lesa þá bók lærði ég hvað hesitate þýðir.
Svo fór Facebook að ota að mér ljóðum á ensku ... og nú þegar fylgi ég þremur ljóðasíðum sem eru ágætar. Sum ljóðin eru nú samt kvót í eitthvað sem einhver frægur hefur kannski sagt, well ... en sumt af þessu enska dæmi hittir nokkuð vel í mark. Næst þegar ég lendi í ástarsorg mun ég örugglega finna þarna mikla huggun, er ég viss um. Held að ís og átakanlegar bíómyndir nægi ekki alltaf.
Hér er eitt sem ég sá reyndar á hannyrðasíðu og á alltaf við: Sometimes you just need to sit on the couch and crochet for a couple of years ... (Hvað ætli ég hafi setið oft og lengi í sófanum og heklað?)
Og þetta: If you love someone, set them free. If they come back, it means nobody else liked them. Set them free again.
Ég sé mikið eftir að hafa ekki tekið skjáskot af einni setningu sem hrærði í kollinum á mér og varð sennilega til þess að ég komst að niðurstöðu. Nú hef ég t.d. hætt að láta eins og allt sé eðlilegt í vissum óeðlilegum kunningsskap, áður ágætum vinskap. Ég sleppti hreinlega takinu og sárindunum, og veit að viðkomandi tekur ekkert eftir því, en nú er mér sama. Reyndar, ef ég hefði rætt þau mál við afar ráðagóða vinkonu veit ég að útkoman hefði orðið sú sama. Töfrasetning á Facebook varð bara á undan.
En ... ég lofa staðfastlega að fara ekki að tala í ljóðum, kvótum og klisjum, finnst þó líklegt að ég birgi mig upp af ljóðabókum og njóti í lægðunum í vetur.
Nokkrar töfrasetningar hafa komið inn í líf mitt og opnað augu mín, orsakað góðar breytingar, m.a. eflt tískuvitund mína. Ég er innilega þakklát fyrir þær allar. Hér eru þær helstu:
- Þú ert sem sagt þessi leiðinlega fylgikona sem gerir engar kröfur? (tengt ástum, sorgum og örlögum á síðustu öld)
- Úps, Gurrí, það eru allir hættir að ganga í steinþvegnum gallabuxum.
- Það er aldrei of seint að hætta að reykja.
Sjálf er ég langt frá því að vera fullkomin eða frábær þegar kemur að vinskap, er mjög ódugleg við að hringja í fólk og hitta, sérstaklega síðustu árin og jafnvel vel áður en ég fór að vinna alveg heima (2017), ég var komin svo nálægt kulnun sem ég áttaði mig á löngu seinna. Ég fann t.d. engan mun á lífi mínu í samkomubanninu, hef skiljanlega enn ekki smitast af covid (1-17-20) en sjáum hvað Glasgow gerir eftir mánuð. Ef ég væri ögn félagslyndari ... þá væri eflaust einhver sem ég gæti beðið um að koma með mér á útgáfutónleika Skálmaldar í Háskólabíói annað kvöld - en mér dettur enginn í hug! Hugsa að ég verji því kvöldi í að horfa á Barbie í sjónvarpinu hjá Hildu, vissulega alsæl og spennt fyrir myndinni ... en samt, rokkhjartað er í molum.
Ég verð bara að lifa á gamalli ofsaheppni:
Gamall samstarfsmaður og vinur hringdi: - Fékkstu miða á Rammstein?
-Nei, því miður, ég náði ekki í gegn, allt uppselt, sagði ég.
-Ég er með aukamiða á seinni tónleikana, vinkona mín kemst ekki, kemurðu ekki bara með mér? spurði hann.
-JÚ!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2023 | 15:52
Hremmingar í morgunsárið
Morgunninn var ótrúlega erfiður. Stráksi gat sofið út til 8.15 og þá hringdi klukkan fyrst, að vanda. Síðan átti hún að hringja á kortersfresti, til öryggis, hér er ekki sofið yfir sig. Hann elskar að fá að vera í friði (fyrir mér) frammi á morgnana, snæða sinn morgunverð í friði og fara í skólann í friði. En ef ég ætti að lýsa morgninum í einu orði kæmi friður langsíðast upp í hugann. Allt í einu, kannski klukkan 8.17, hringdi dyrabjallan, stráksi enn óklæddur, ég undir sæng að fjarstýra. Stráksi ýtti á opna-takkann á bjöllunni og ég setti nýtt stúlknamet í hraðklæðun og beið ótannburstuð með Monu Lisu-bros eftir komumanni. Sko, í gær kom Einarsbúð alveg óvart með léttmjólk (nú hlæja vinirnir sem þekkja hatur mitt á léttmjólk út í kaffi), sú létta var tekin strax til baka og ég sagði að það lægi alls ekki lífið á að fá þá bláu þungu, bara þegar þau væru næst á ferðinni í grennd, á morgun væri fínt ... jamm.
Mynd: Vettvangur morgunhremminga áður en búið var um.
Ekki séns að ég leyfði þessu að koma mér á fætur, næstum tveimur tímum of snemma, svo ég háttaði aftur á meðan stráksi klæddi sig í sínu herbergi. Hann fór út klukkan níu og ég andvarpaði af létti, nú yrði friður, hvíld.
Þá byrjaði gemsinn. Ég treysti mér ekki til að hafa slökkt á honum á nóttunni, maður gerir það ekki nema þjást af algjöru ábyrgðarleysi. Jarðskjálftahópurinn minn spjallaði eitthvað, það kom bling! kl. 9.03 og aftur kl. 10.11! Þá hafði klukkan mín hringt kl. 9.50, á áætluðum fótaferðartíma. Annar hópur sem ég er í, hringdi óvart (messenger-símtal) í mig kl. 11.47, (ég svaraði ekki af því að ég vissi að þetta var óvart) og svo fékk ég spurningu frá vinkonu sem vinnur í bókasafni, bling! kl. 12.53 og þá loksins dreif ég mig fram úr, frekar hissa á því hvað klukkan var! Geðprýði mín er greinilega gífurleg, þess vegna á ég enn gemsa, ekki brotajárn úti í horni.
Keli, minn heittelskaði elsti köttur, kom upp í til mín sirka tvisvar, man ekki tímasetningar, og klappaði mér á kinn, ekki laust við eina kló með svo ég setti sængina yfir höfuðið. Það er verið að dýpka eitthvað hjá höfninni með miklum látum, gott ef öskukarlarnir komu ekki líka með sínum skellum ... Er samt ótrúlega hress þrátt fyrir þessar hremmingar. Hvar er konan sem reif sig á fætur kl. 5-eitthvað á morgnana til að ná 6.20-strætó í bæinn, í heil tíu ár? Sennilega enn að jafna sig eftir það og bæta sér það upp. Heimsóknir og klapp Kela með kló átti sér eðlilegar skýringar. Hann var bara að láta mig vita að kattadallarnir væru tómir. Svo er ég ekki með almennilegar gardínur til að myrkva herbergið, sem gæti líka skýrt eitthvað, ég er að versna með að geta sofið í birtu, kannski hressari eftir að ég hætti að reykja. Sjá mynd af gardínustöðunni.
Fólk kemur fram við mig (gerir kröfur til mín) eins og manneskju sem er vöknuð kannski um átta, níu eða fyrr ... ég er frekar tíu-týpan, jafnvel ellefu- um helgar ef bókin kvöldið áður var spennandi. Ég lýsi eftir kostum þess að eldast ... loforðinu um að þurfa minni svefn! Hvar og hvernig gæti ég mögulega komið því inn í líf mitt? Þegar ég gerist leiðbeinandi á námskeiði, kannski tvisvar á ári í mánuð í senn, er ekkert mál að vakna upp úr klukkan sjö og hoppa og skoppa eins og leikari í kornfleksauglýsingu til hádegis.
Svo verð ég að fá nýjan kodda. Þegar ég þaut á fætur kl. 8.17, svimaði mig svo mikið að ég varð að halda mér í kommóðuna til að detta ekki. Vöðvabólguviðbjóður, svo er kannski hægt að minnast á þyngslin framan á mér (ég er ekki að tala um bumbu, sjá mynd, nei, ekki gítar heldur eða hatt) og drauminn gamla um minnkunaraðgerð sem kostar milljón nema takist að semja við sérfræðilækna. Koddinn skiptir líka máli, ég finn ekki þann rétta. Sá á að vera þunnur og frekar harður, ekki með neinu fiðri í, svona gamaldags eins og ég svaf með í gamla daga. Hann er því miður ögn of þykkur sá sem ég keypti vongóð um leið og nýja rúmið. Sá besti er koddinn sem ég svaf á úti í Conway, WA, USA, hjá Elfu vinkonu síðast. Þess virði að fara út og sækja hann. Hún bauð mér að eiga hann, mér fannst það hálffrekt að þiggja, sagðist pottþétt geta fundið svona kodda á Íslandi ... og fann ég hann? Nei, aldeilis ekki. Hér fást bara lúxusdúnkoddar, sérstakir heilsukoddar og annað í þeim dúr.
Lindumorðið (bókin sem ég kláraði í gær) er rifin niður af nokkuð mörgum sem hafa lesið hana á Storytel svo ég er farin að efast um eigin smekk ... djók, hún er grínádeila jafnframt því að löggurnar leysa morðmál. Algjör synd ef koma ekki fleiri, hún var auglýst sem fyrsta bókin í flokki en ef móttökur eru ekki betri en þetta, er ekki víst að útgefandi haldi áfram. Hún fær aðallega gagnrýni fyrir mikla karlrembu aðalsöguhetjunnar og lítilsvirðingu gagnvart öllu og öllum, en þar er einmitt grínið fólgið, bara hlusta betur! Svo voru það bara ómerkilegar löggukerlingar sem kláruðu málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2023 | 14:02
Plebbaskapur og sjónvarpsforðun
Aldrei að hlusta á of háværa tónlist, þá skaðar þú heyrnina, aldrei horfa of mikið á sjónvarp, þá verða augun í þér ferköntuð, aldrei lesa við lítið ljós, þá verður þú sjónlaus, aldrei þetta og aldrei hitt, hljómaði í eyrum okkar 78-kynslóðarinnar og ég áttaði mig þann 11. september 2001 að litla systir hafði tekið mömmu helst til of hátíðlega. Þar sem ég sat stjörf við útvarpstækið í bílnum hennar og fylgdist með fréttum af flugvél sem hafði flogið á tvíburaturn, sagði hún ofurlítið pirruð: - Ertu til í að lækka? Jú, vissulega var útvarpið hátt stillt en þetta var stórfrétt! Við sáum seinni turninn falla í smástoppi í sjoppu í Borgarnesi.
Enn sé ég eftir sparnaði mínum varðandi sjónvarpsefni því um mánaðamótin ágúst, september þetta ár hafði ég sagt upp fjölvarpinu og var því ekki með aðgang að Sky eða CNN. Þetta úrskýrir kannski eyðslusemi mína núna varðandi sjónvarpsstöðvar, með aðgang að öllu nema Viaplay og Vodafone-bíódæminu (og opnað fyrir Barbie-myndina þar í dag, skrambans). Kannski er þetta ótti við að missa af einhverju, svo sterkur að þó að ég sé nánast alveg hætt að horfa á sjónvarp, er ég áskrifandi að þessu öllu saman. Mig langar svoooo mikið í Viaplay, bara út af sniðugum þætti um Norðmann sem breytir íbúðum og húsum og er svo skemmtilegur, bæði maðurinn og þátturinn. Já, og af hverju er Fine Living-stöðin hætt á fjölvarpi Símans? Löngu hætt! Þá stöð gat ég horft mikið á og skemmt mér yfir alls konar endurbótaþáttum, held að þeir hafi ekki síst átt þátt í því að ég lét vaða í að gera upp Himnaríki. Hvernig væri ef t.d. Byko, Húsasmiðjan, Bauhaus, Jysk og IKEA, já, og miklu fleiri, sameinuðust um að pressa á sjónvarpsstöðvarnar að sýna fleiri svona þætti? Ég gúglaði HGTV, ýtti á þar sem stóð þættir og fékk ... só sorrí, landið þitt hefur engan rétt til að horfa á þessa þætti, eitthvað slíkt. En á YouTube er reyndar að finna fjölda gamalla þátta með tvíburunum Scott og Jonathan, Property Brothers, My Dream House og mögulega með fleiri endurbóta-stjörnum en þeim tveimur. Ég hef horft svo mikið á þætti tvíburanna að ég þekki þá auðveldlega í sundur ... þeir eru sko eineggja. Ég er ekki að tala um klisju-vinnuskyrtuna sem Jonatan smiður klæðist yfirleitt og klisju-jakkafötin sem Scott fasteignasali er oftast í. Stöð 2 hefur sýnt t.d. My Dream Home með þeim (takk, elsku Stöð 2) og svo er auðvitað Gulli byggir mjög skemmtilegur þáttur. Einhverjir keppnisþættir á milli tvíburanna hafa verið sýndir líka en þeir voru ekki jafnskemmtilegir, fannst mér, og þessir nefndir hér að ofan.
Eitt sinn í blaðamannafríi heimsótti ég Elfu vinkonu til Bandaríkjanna í mánuð og festist þar yfir HGTV (Home and Garden tv), sjónvarpsstöð sem sýndi eingöngu slíka þætti. Elfa og Tom unnu auðvitað bæði og þar sem ég er sjálfrisérnæg-gestur sem þarfnast ekki endalausrar athygli og skemmtunar frá gestgjöfum mínum, fannst mér frekar gaman suma dagana að hekla yfir endurbótaþáttunum. Það gaman, að þegar þau buðu mér kannski (ókei, einu sinni) að koma niður í stofu þar sem stóra sjónvarpið var og horfa á áhugaverða sænska vandamálamynd, jafnvel sannsögulega, afþakkaði ég ... vildi ekki vera þriðja hjól undir vagni í þjáningunni ... Þá var nú meira gaman að sjá Jónatan brjóta niður veggi og byggja upp með bróðurinn á kantinum sem seldi kannski flottheitin. Heitir þetta ekki að vera plebbi? Jú, ég er plebbi.
Svo voru þættirnir Fixer Upper, Love it or List it, Good Bones og fleiri frábærir. Best að tékka líka á þeim á YouTube, þar fyrirfinnst allt, djásn sem drasl. En þar eru bara fyrstu tíu mínúturnar af Max, myndinni um sjefferhundinn sem átti að horfa á sl. föstudagskvöld í bústaðnum og tæknilegar ástæður réðu því að við prófuðum YouTube með þessum ömurlega árangri.
Úti í Frakklandi 2018, horfði ég á ótal þætti með tvíburunum knáu, þar sem við sátum, ég og gestgjafinn, hámhorfðum á þá á YouTube og reyktum á okkur gat. Nú eru komin rúm þrjú ár síðan ég hætti að reykja, jesss.
Þetta sjónvarpsglápsleysi mitt er ekkert alslæmt endilega. Innst inni er ég viss um að það safnist upp svakalega mikið magn af stórfenglegu efni sem ég, þegar ég fæ löngun aftur til að horfa, helli mér út í af miklum krafti. Það eru nokkrir þættir, eða þáttaraðir, sem ég er spennt fyrir. Eins og The Lincoln Lawyer, lögguþáttur á RÚV, Happy Valley, sem bíður mín í Sarpinum og fleira og fleira. Einn daginn fékk ég hreinlega ógeð. Lengi vel kveikti ég á fréttunum, nú gerist það kannski einu sinni í viku, varla það, ég sem var fréttasjúk. Kannski "óverdósaði" ég, fékk mig fullsadda af eldgosum og covidum? en samt, fyrr má nú vera. Veit að stráksi saknar hljóðsins í sjónvarpinu á kvöldin og kveikir stundum, honum finnst það, held ég, eðlilegra ástand en þögnin, Storytel eða Skálmöld.
Mamma hafði þó mögulega rétt fyrir með eitt ... eða tvennt, ekki þó sjónvarpsforðun mína, en ég stalst oft til að lesa með götuljósið sem einu lýsinguna, þegar búið var að slökkva og ég átti að vera sofnuð, og ég er sú eina systkinanna sem er nærsýn (pabbi og mamma voru heldur ekki nærsýn) ... Kannski tilviljun, kannski ekki. Ég hef líka farið á marga háværa tónleika, bæði rokk og sinfóníu, og hlustað á tónlist heima mjög hátt stillta. Það gæti hafa gert eyrunum skaða ... en ástæðan fyrir því að ég lendi ekki á séns nema á heimatilbúnu táknmáli á djamminu, er sú að ég heyri nánast ekkert tal ef hávaði er í bakgrunni, t.d. músík. Að öðru leyti heyri ég mjög vel. Ég hefði átt að læra varalestur og ég get í raun bara giskað á það sem strákarnir sögðu við mig á Gauknum og Borginni fyrir nokkrum árum ...
-Þú ert svo svakalega fögur, viltu dansa? -HA?
-Viltu sopa? -HA?
-Má bjóða þér í glas eða viltu bara peninginn? -HA?
-Ekki dansa? Ertu lesbía? -HA?
-Eigum við að koma heim til mín og skoða frímerkið mitt? -HA?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2023 | 22:22
Fb-njósnir og eldað fyrir þjóðhöfðingja
Sumarbústaðaferðin um helgina tafði mig frá því að hlusta á fyndnu löggusöguna sem fékk svo hræðilega dóma hjá einni á Storytel. Ég ætla að reyna að klára hana í kvöld. Flissaði áðan yfir samtali einnar úr bókhaldinu hjá löggunni við yfirmann þar sem farið var yfir undarlega reikninga frá okkar löggu (karlrembunni). Ekki síst allt það sem hann sendi í þvottahús fyrsta daginn í bænum þar sem morðið var framið. Hann átti ekkert hreint þegar málið kom upp og tók því þvottinn með sér ... hann á ótrúlega margar nærbuxur ... sem kannski gerist ef maður nennir sjaldan að þvo. Reyndar var listinn og heilmikill texti í kringum hann, lesinn tvisvar því það hefur greinilega gleymst að yfirhlusta bókina, lesari kannski byrjað að lesa á röngum stað daginn eftir og ekki áttað sig á endurtekningunni ... Hef nokkuð oft, eiginlega of oft, lent í því að hlusta á málsgrein aftur, og stundum miklu lengri texta eins og núna. Bókin góða heitir Linda - eða Lindumorðið og fær mig til að brosa með reglulegu millibili, líka flissa og hlæja.
FRÉTTIR AF FACEBOOK:
-Viltu fjarlægja mig af vinalista þínum! skrifaði maður nokkur á fb-síðu fb-vinkonu minnar. Hún sagðist gera það með glöðu geði. Hann álítur alla sem dreifa skrifum frá Samtökunum 78 þar sem rangfærslur eru leiðréttar, vera að samþykkja klám fyrir börn. Ég sparaði honum tíma og fjarlægði hann af mínum vinalista svo hann þurfi þá ekki að henda mér út (fyrir misskilning, því miður).
Annar skrifar (Illugi): -Ömurlegt er að sjá það fordóma- og fáviskuklám sem allt í einu vætlar úr fúaspýtum samfélagsins. Jahérna. Ég hélt að við værum lengra komin.
Vona bara að það færist ró yfir samfélagið og Eldur finni sér t.d. dökkhærðar Skagakonur sem þola hvorki sund né heita potta og eru brjálaðar í Engjaþykkni með Nóakroppi, til að leggja fæð á, ég er ekki viðkvæmur hópur í sjálfsvígshættu.
Tuttugu og tvö ár eru síðan árásirnar voru gerðar á Tvíburaturnana í New York og Pentagon í Virginíu. Í tilefni dagsins er skrifað á síðuna Til stuðnings skólamunastofu Austurbæjarskóla:
-Þetta var langur dagur í Austurbæjarskólanum, m.a. kynningar kl. fimm síðdegis í Bóíósalnum fyrir foreldra sex ára barna sem voru að hefja sína skólagöngu. Þegar Guðmundur Sighvatsson skólastjóri rölti niður Laugaveginn heim á leið var komið kvöld. Hann hafði myndarlegt yfirskegg og leit kannski út fyrir að vera frá Balkanskaganum eða jafnvel enn fjarlægari slóðum. Allt í einu stoppaði bíll við hliðina á honum og farþegi í bílnum gerði hróp að skólastjóranum:
-Go home to the place where you were born!
-Ha, svaraði Guðmundur með hægð á íslensku, -meinarðu til Húsavíkur? Fátt var um svör og bíllinn brunaði í burtu.
Þórunn nokkur stingur upp á sniðugu nýyrði í fb-hópnum Málspjall, eða að setja orðið ásigkomulag í fyrstu persónu. -Ég er í góðu ámigkomulagi.
Eldum rétt kom í dag og ég eldaði í kvöld rjómalagaðan taíkarrí-þorsk með bökuðu grænmeti (blómkáli, brokkolí og rauðlauk). Sjá mynd af vettvangi.
Hrísgrjónin sem fylgdu voru ekki soðin með, heldur bygg, sem við (ég) viljum frekar en grjón. Veit ekki hvernig stráksi tekur því en það verður aftur fiskur annað kvöld ... Bökuð bleikja með hlynsírópsgljáðum sætkartöflum og mandarínusalati. Mér líður stundum eins og ég sé að elda fyrir þjóðhöfðingja, drottningar eða konunga, jafnvel að mikilvægir samningar verði aðeins undirskrifaðir ef liðið fær nógu fínt að borða. Enda tekst mér yfirleitt alltaf að semja við stráksa um að fara út með ruslið, ryksuga niður að næsta palli og fremja fleiri hetjudáðir.
Þriðji rétturinn þessa vikuna er nú bara fljótlegt Pestó bolognese með ferskri basilíku og parmesan ... það er afar vinsæll réttur hér, fljótlegur, bragðgóður og yfirleitt svo vel útilátinn að hann nægir í hádegisverð fyrir einn daginn eftir. Stráksi fær fínan hádegismat í skólanum svo það dæmist á mig að vera þessi einn. Jesss.
P.s. RB-rúmið er dýrlegt, dásamlegt, frábært, magnað, geggjað, stórkostlegt, stórfenglegt, meiriháttar, þægilegt, yndislegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2023 | 22:17
Logandi netheimar og stórhættulegt þykkni ...
Kettirnir hafa sýnt nýja rúminu í Himnaríki hina mestu elsku og aðdáun. Sofa þar dagana langa og það þarf sennilega að beita lagni og lymsku til að komast sjálf í ból í kvöld. Kattanammi er kjörið sem mótlymska. Rúmteppið mitt ýtir frá sér hárum og ég tek það til hliðar á kvöldin, tek það ekki af rúminu, því ég vil að kettirnir liggi ofan á því, til hliðar við mig, ekki á rúmfötunum mínum. Þeir hafa tekið þessu af stóískri kattmennsku og virðast skilja þetta.
Netheimar hafa logað í dag þar sem lögmaður manns sem er virkilega í nöp við trans fólk skellir inn bombu sem ótrúlega margir láta sér líka við án þess endilega að vita hver er skjólstæðingur hennar, eða hvort þetta er heilagur sannleikur.
Kannski ekkert skrítið að fólk stökkvi á vagninn, málið er sett þannig fram að verið sé að ráðast á saklaus börn með kynfræðslu án þess að þau hafi aldur eða vit til að skilja þetta. Samtökin 78 hafa aldrei séð um kynfræðslu í skólum og munu ekki gera það, svo þetta eru rangfærslur. Skólar hafa fengið fræðsluefni frá samtökunum, hafa pantað þessa fræðslu til að kenna börnum að við séum ekki öll eins. Fræðsla er besta leiðin til að eyða fordómum. Börnin fá að vita að fólk sé alls konar og ekkert til að skammast sín fyrir. Skömm sem hefur verið ríkjandi í þessu er líklegri til að ýta undir vanlíðan en opin fræðsla, allt of mörg hinsegin ungmenni hafa svipt sig lífi í gegnum tíðina.
Eftir því sem ég heyri meira frá "þessum manni", þeim mun hættulegri finnst mér málflutningur hans vera. Það er varla að ég tími að eyða dýrmætu bloggplássi í hann en ég gat ekki setið á mér. En að nenna að eyða tíma sínum og orku í að hata vissan hóp og gera allt til að fá aðra til þess líka. Oj bara.
Meðfylgjandi mynd hér að ofan er skjáskot af grein um þessa fræðslu sem virðist sannarlega ekki vera jafnhættuleg börnum og þessi maður og lögmaður hans hrópa um á torgum Internetsins.
Jæja, yfir í eitthvað ögn léttara ... ekki mig þó, því ef það er eitthvað sem á eftir að hafa slæm áhrif á fataskápinn minn og þörf fyrir stækkun fatanúmera er ... Engjaþykkni með Nóakroppi. Hverjum datt í hug að búa til eitthvað sem er svona hættulega gott? Það eru tvær dollur af þessu til inni í ísskáp Himnaríkis og ég sagði stráksa í kvöld að hann ætti þær báðar svo ég freistaðist ekki. Það er ekki nokkur leið að ræna neinu frá honum. Það yrði seint fyrirgefið.
Ég kynntist þessu í ferðinni um helgina, eiginlega mér að kenna að við keyptum því ég spurði systur mína þar sem við vorum staddar í Bónus í Hveragerði:
-Hefurðu smakkað þetta?
-Nei, sagði hún, eigum við kaupa?
Ahh, þetta er henni að kenna, ekki mér. Nú þarf ég að hringja í Einarsbúð á morgun og um leið og ég panta nauðsynjar að biðja þau að segja alltaf við mig að þetta nóaþykkni andskotans sé því miður uppselt og verði það eftirleiðis. Þau gera allt fyrir mig í Einarsbúð.
Ég viðurkenni (ófús) að ég er ekki orðin sannur áhrifavaldur. Ekki enn alla vega, það hefði verið kúl að geta skrifað með pínuoggulitlu letri neðst að þetta hér að ofan um engjaþykknið, væri kostuð auglýsing ... og ég gæti montað mig af því að ég fengi fullt af þessu sent heim. En svo er nú aldeilis ekki. Samt veit ég af áhrifum mínum, til dæmis að allir bloggvinir mínir munu kippa svona með sér heim til að prófa, trúa því ekki að þetta sé svona hroðalega gott, og verða svo háðir því. Þá gætum við nú aldeilis stofnað hóp. Kröftugan og "breiðan" hagsmunahóp um víðari dyraop, stærri og sterkari lyftur, almennilega rúlluskauta með hjálpardekkjum og annað slíkt sem gæti farið að vanta fyrr en síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2023 | 23:21
Stórskemmtilegt Suðurland í miklum vindgangi
Fimmtudagurinn fór í að verða föstudagur því okkur stráksa var boðið í ferðalag þann dag, eða í ferð sem gæti orðið að sjóferð til Eyja daginn eftir. Við komum heim núna í kvöld eftir tvær nætur í bústað en samt er ekki mánudagur á morgun! Græddum sem sagt heilan dag með þessari lævísi. Stefnan hafði verið tekin á Vestmannaeyjar, í dagsferð í gær, föstudag, en vegna veðurs og vindáttar (suðvestan) fannst okkur réttara að fresta för, sem reyndist rétt, einhverjar ferðir féllu niður því ófært var í Landeyjahöfn, sennilega vegna ölduhæðar.
Sólheimar í Grímsnesi urðu fyrir valinu í gær, fínasta heimaræktað og -brennt kaffi þar, ég keypti ilmandi góða handsápu og nokkur póstkort. Við hittum Ólaf okkar og spjölluðum við hann, sáum að það var verið að rampa allt upp þarna og það var alveg þörf á því, sagði Ólafur okkur. Góður bíltúr þrátt fyrir rok og rigningu.
Á leiðinni til baka í bústaðinn stoppuðum við í Reykholti. Fórum inn í Bjarnabúð þar sem allt fæst. Íbúfen, Húsblanda frá Kaffitári, skóflur, mergjuð olía á stífa og verkjaða vöðva og svona þúsund aðrir nauðsynjahlutir. Á afgreiðsluborðinu lágu súrmjólkur- og mjólkurfernur með miðum á þar sem á stóð: Hverabakað brauð Ernu í fernu. Systir mín gat ekki stillt sig um að kaupa eitt svona rímað brauðstykki en í ísskápnum í bústaðnum átti hún til þetta fína smjör og kringlóttan Havarti-ost. Fyrirhugað var kósíkvöld þar sem átti að horfa saman á mynd um séfferhundinn Max.
Við heimkomu fengum við okkur rúgbrauð með smjöri og osti og nutum þess mjög, enda hvað er betra en hverabakað rúgbrauð með íslensku smjöri og klikkaðslega góðum útlenskum osti? Líklega voru það tvær sneiðar á mann og svo var lagst í leti í sveitasælunni, ég las frekar ofmetna ástarsögu sem ég keypti fyrir nokkrum vikum og kemst ekkert áfram með og hinir fundu sér eitthvað enn skemmtilegra að gera.
Um áttaleytið fór rúgbrauðið að gefa ... úr öllum áttum, eins og maður segir pent um vindgang. Ögn seinna skruppu allir nema ég, fjórir sem sagt, í heita pottinn og mig grunar staðfastlega að um tíma hafi hann breyst í kröftugan nuddpott ... if you know what I mean ... Ég fór inn í herbergið mitt, opnaði gluggann til öryggis, og lokaði dyrunum, en ég er bara of mikil dama til að ... þið vitið, eins og einhver óhemja, svo það voru óþarfar ráðstafanir.
Stráksi hefur alist upp á miklu tepruheimili síðan í mars 2017 svo ég veit hreinlega ekki hvað hann hefur haldið um þennan fret-sumarbústað gærkvöldsins en hann hefur samt verið ansi brosleitur síðan og margir stórgóðir prumpbrandarar bæst í safn Himnaríkis. Mæli ekki með miklu rúgbrauðsáti í sumarbústað, svona í alvöru talað. Vegna tækniörðugleika urðum við að horfa á The Italian Job sem við höfðum svo sem séð áður en hún var samt skemmtileg, Max bíður þar til í næstu Kópavogsferð.
Í dag ókum við um Suðurland, heimsóttum Stokkseyrarbakka á leið okkar til Hveragerðis þar sem átti að snæða snemmbúinn kvöldverð. Mikið var gaman að heimsækja þessa fallegu bæi sem S og E eru og í sjoppunni á Stokkseyri fengum við okkur góðan ís. Þar sveif á mig stórhuggulegur maður. -Þekkirðu mig virkilega ekki? En ef ég segi þér að vinkona þín sé háöldruð stóra systir mín? Og þegar hann hafði loks sagt fullt nafn sitt bar ég kennsl á hann og var virkilega fegin því að hafa ekki spurt hvort við hefðum kannski verið saman í skóla ... Hann er áratugum yngri en ég en samt orðinn of gamall til að birta fæðingarár sitt á Facebook (ég gáði), og of ungur til að vera skítsama, eins og mér. Jamm, Alfreð, skemmtilegi bróðir hennar Elfu vinkonu sem er hreint ekkert háöldruð. Um leið og hann sagði nafn sitt, rann einhver slæða frá andliti hans og ég þekkti hann - auðvitað! Við höfum svo sem ekki hist neitt reglulega, aðallega sést í gegnum ljósmyndir, en samt, Gurrí þó!
Hundarnir og flest þeirra tvífættu fóru í hressandi gönguferð rétt hjá Hafinu bláa. Þar voru sjáanlegar leifar ölduróts gærdagsins í fjarska. Sjá mynd.
Í Hveragerði borðuðum við strangheiðarlegan* mat.
*Skýring: Allt í lagi-matur, frekar gamaldags, og á allt í lagi-verði, það er strangheiðarlegur matur, held ég. Svo héldum við áleiðis heim. Hilda skilaði okkur í Mjóddina og innan skamms birtist leið 57.
Undir stýri sat nýr bílstjóri, ég forvitnaðist um heimaland hans og hann tjáði mér að hann væri hreinræktuð vampíra. -Aha, frá Rúmeníu, sagði ég hrifin. -Þú veist sem sagt, sagði hann og hló blóðsugulegum hlátri á meðan ég fann augntennur mínar titra.
Ungur strákur kom í vagninn rétt fyrir brottför.
Til að bílstjórinn gæti rukkað hann um rétt gjald sagði hann: - Akranes!
- Are you sure? spurði bílstjórinn steinhissa.
- Hmmmmm, heyrðist í móðgaðri Skagakonu í annarri sætaröð til hægri (mér). Ég veit ekki hvort strákurinn skildi brandara bílstjórans, mér fannst hann harla góður - ég held að bílstjórinn hafi svo ekki skilið minn brandara (hummið mitt).
Svo kl. 19.59 stillti bílstjórinn útvarpið hátt sem gladdi stráksa sérlega mikið (ég hefði frekar viljað Skálmöld) og ók sem leið lá til Akraness. Það var sturlað dásamlegt að koma heim til fagnandi kattanna. Nýja rúmið mitt var ekki draumur, eins og ég hafði óttast, heldur blákaldur (hrósyrði) og geggjaður veruleiki sem ég hlakka til að njóta næstu áratugina. Þegar ég vaknaði eftir þessa fyrstu og einu nótt sem ég hef sofið í því, (þó með næturgest) fannst mér næsta morgun eins og stoðkerfi mitt hefði styrkst og eldgömul meiðsl* væru þegar á undanhaldi (*skýring: að sofna í sófa sem var 1,60 m á lengd og ég 1.70 m, og reyna í svefni að rétta úr mér þar til eitthvað lét undan og það var ekki sófinn).
Kemur í ljós í fyrramálið eða einhvern næstu morgna hvort þetta er og verður svona mikil breyting ... ég tel að svo verði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2023 | 14:28
Óvæntur næturgestur - ævintýrarúmið
Unaðslegt var að leggjast til svefns í gær, á nýja rúminu sem kom seinnipartinn í gær. Líklega hafði ég sofið í klukkutíma, aldrei þessu vant sofnaði ég fyrir miðnætti, þegar barn í nálægri blokk gerði sig tilbúið til að koma í heiminn. Foreldrarnir höfðu verið handvissir um barnið fæddist á meðan þriggja ára stóri bróðir væri í leikskólanum eða um helgi. Einmitt.
Allir bloggvinir mínir vita núorðið hversu mikilvægt ég tel að fólk sé með plan B, alltaf í öllu, en slíkt hefur farið mjög svo dvínandi í þjóðfélaginu með tilkomu tækni sem er dásamleg en getur klikkað. Þegar t.d. lyfjagáttin bilaði fyrir einhverjum mánuðum, skildi ég ekki uppnámið, væri ekki hægt að nota handskrifaða lyfseðla ... en það hefur ekki verið mögulegt mjög lengi, allt komið á netið. Svo ef Pútín (já, ég legg hann í einelti) ákveður að ráðast á innviði okkar erum við ótrúlega viðkvæm fyrir því og allt færi í kaldakol (svo segja tölvunarséníin sem ég þekki). Nú, þegar á að hætta víða með peningaseðla gegn svartri vinnu og þvætti, gagnast kortin lítið ef rafmagn og net fer. Ég gæti auðvitað borgað með kossi í Einarsbúð en efast um að það gengi alls staðar upp.
Hjónin samþykktu með vissri vantrú á nauðsyn þess, að ég yrði plan B, sem sagt ef barnið gerði sig líklegt til að koma á asnalegum tíma, eins og um nótt sem myndi bara alls ekki gerast. Faðirinn hafði samband, einmitt um eittleytið í nótt, ég vaknaði við lágvært bling! og hafði fimm mínútur til að búa mig undir komu tilvonandi stóra bróður. Ég kveið því mest að kettirnir gerðu drenginn ofurspenntan en hann var ósköp góður og alveg til í að lúlla í nýja, fína rúminu hennar Gurríar. Við sofnuðum þó ekki fyrr en eftir tvo tíma. Kettirnir voru bæði hneykslaðir og hissa á þessari innrás sem lyktaði samt alls ekkert illa, komu og þefuðu og lögðust svo til svefns inni í stofu. Ég vaknaði annað slagið með tærnar á drengnum uppi í munninum á mér, fingurna í eyrunum á mér, fætur hans í hryggnum á mér og annað slíkt en hann fór nú samt ekki að slá fyrir alvöru til mín fyrr en um sjöleytið í morgun, allt í svefni samt. Ég var furðanlega hress, og hann líka um hálfníu í morgun svo við vorum samferða stráksa út rétt fyrir níu, hann var að fara í skólann (fær að sofa út á fimmtudögum). Ég hafði hringt í leikskólann áður því vanalega er mæting klukkan átta en við vorum bæði frekar þreytt ... fullur skilningur ríkti á því.
Ég rataði nokkurn veginn á Vallarsel, leikskólann hans, en kunni ekkert á hliðið þar svo við biðum bara róleg eftir næsta foreldri sem kom 14 sekúndum seinna. Það reyndist vera ungur og hress maður sem starði hissa á mig, var með barn en ekki kunnug flóknu opnunarathöfninni sem þurfti til að komast inn, en þegar ég sagði honum að barnið hefði orðið stóribróðir í nótt og ég væri nágranninn sem passaði, lyftist á honum brúnin og hann kenndi mér á galdralásinn sem var svo ekkert flókinn.
Næsta verkefni var að finna deild barnsins ... stór leikskóli, en alls staðar var hjálpsamt fólk sem vissi hvert guttinn átti að fara. Það ríkti mikil ró inni á deildinni hans þrátt fyrir fjölda barna og almennt annríki, það segir rosalega mikið um gæði starfsins, heyrði ég eitt sinn sálfræðing tala um.
Já, þetta var ævintýraleg nótt og ekki grunaði mig að ég fengi félagsskap fyrstu nóttina í nýju rúmi. RB-rúmið fær tíu, ég svaf vel, þannig séð, og bakið hefur verið ótrúlega gott í dag. Ég gekk vissulega löturhægt með drenginn á leikskólann en frekar hratt heim og bakið kvartaði ekkert. Veit vonandi á gott. En eftir þessa nótt er ég orðin ansi fráhverf því að giftast enn einu sinni. Kostir þess að sofa ein í rúmi eru mér nú algjörlega ljósir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2023 | 14:19
Dyrabjöllufrelsun og misjafn húmor ...
Dyrabjallan hringdi um ellefuleytið. Gat verið að nýja rúmið væri að koma, fjórum klukkutímum of snemma? Var þetta kannski litli krúttmolinn í næsta húsi sem ætlaði að koma í heimsókn á meðan litli bróðir kæmi sér í heiminn? Var hann ekki í leikskólanum? Dyrasíminn er ekki sá allra besti en mér tókst að heyra hluta af því sem ljúfmælt kona sagði: Sæl og ble- ... ég heit- ... mig langar að ... mjög mikilvæ- setningu úr Biblí-.
Búsett í Himnaríki og allt sagði ég samt kurteislega: Nei, því miður. Vona að henni hafi ekki heyrst ég segja: Svei, fýkur fiður. Hún var kurteis og verðskuldaði kurteisi á móti, ekki síst fyrst hún kom ekki snemma í morgun. Þá hefði nú fokið fiður. Það mætti alveg fara að endurnýja dyrasímann, eða kannski frekar dyrabjöllukristniboð ... Hélt að netið væri aðalverkfærið, en það var kannski í covid. Kannski var þetta eina tækifæri mitt til að hafna ekki í neðra - og ég sem þoli ekki hita. Síðastliðinn ágústmánuður og reyndar júlí líka hafa þó vanið mig ögn við.
Samsetta myndin: Efra plötuumslagið er ófalsað, hitt ekki. Svona er nú gott að lesa bloggið mitt, afhjúpun lyga og falsana, sannleikurinn í hávegum.
Bókin krassandi úr síðasta bloggi, þessi sem fékk hræðilegu dómana ... ég fór að hlusta á hana fyrir alvöru í gærkvöldi, og aðeins við tiltekt í morgun, og hef skellt nokkrum sinnum upp úr. Þetta er ekki háðsádeila en ritstíllinn er virkilega skemmtilegur, svona ísmeygilegur, og jú, það er gert grín að ýmsu, fólki, kerfinu í Svíþjóð og bara svo mörgu á meðan morð á ungri lögreglukonu er rannsakað. Aðallögginn er svo mikil risaeðla að ég elska hann. Jú, hann hugsar mikið um hjásofelsi og er svo mikil karlremba að það er fyndið, ekki hræðilegt. Ég er ekki komin langt (rúmir 3 tímar) og er mjög hrifin. Eina sem ég get kvartað yfir er að ég get ekki hlustað mig í svefn, að þurfa að flissa og hlæja annað slagið vekur fremur en svæfir. Bókin heitir LINDA - eða Lindumorðið og er eftir Leif Gw Persson. Jakob S. Jónsson þýddi og gerði það vel. Konan á Storytel sem kvartaði yfir klukkutímanum hræðilega sem hún eyddi í bókina og fær aldrei aftur, ætti að gefa henni séns og fjölga stjörnunum. Reyndar gerði umsögn hennar mig enn spenntari en ... hún gæti samt fælt einhverja frá sem er algjör synd. Við höfum svo sem misjafnan smekk og kannski er konan ekki hrifin af þessum stíl. Grínið sem laumað er víða inn, eyðileggur ekki glæpasöguna sjálfa, ef ég get orðað það svo, heldur skemmtir manni bara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 5
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 356
- Frá upphafi: 1527013
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 299
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni