Yfirgefinn við ræðupúltið

dame-mary-barbara-hamilton-cartland-9th-july-1901-21-may-2000-WHB1E1Breytingar í bókum svo þær verði kórréttar og í takt í tímann hafa farið misvel í fólk. Ekkert meira: "Þeir" í löggunni (þótt lögreglustjórinn í bókinni hafi verið kvenkyns)  og svo framvegis. Það er sennilega það meinlausasta. Annars langaði mig ekki að verða strákur þótt ég dáði og dýrkaði Georgínu í fimmbókunum, eða Georg eins og hún vildi láta kalla sig. Þetta er ekki jafnsmitandi og sumir vilja meina ...

 

Hvernig í ósköpunum væri hægt að breyta bókum Barböru Cartland yfir í eitthvað nútímalegt sem engan særði? Yrði gengið svo langt að breyta greifum í gröfukarla, jörlum í járnsmiði og prinsum í pípara til að við almúginn (já, ég er búin að jafna mig eftir Saga Class) þurfum ekki að öfunda ríka fólkið? Ein bók sem ég man ekki hvað heitir yrði ansi erfið, ef ég yrði beðin um að breyta henni myndi ég víxla kynjunum, láta aðalsöguhetjuna vera karlkyns, og karlkynsprinsinn vera konu og ... láta söguna gerast á Íslandi.

BC skrifaði vel yfir 700 bækur á sínum 99 árum. Ég dáist að bjartsýni íslenska bókaforlagsins sem gaf út á íslensku eina bók eftir hana á ári. Þrátt fyrir langlífi í ættinni minni finnst mér ólíklegt að ég nái bara 200 ára aldri og þá er enn hellingur eftir.   

Prufa:

Jóhann Smjattchestpjatten pípulagningamaður horfði á sig í speglinum, hann var kominn í giftingarfötin, hafði samþykkt að giftast forríkri kaupsýslukonu sem átti allt nema ættarnafn og það skorti sárlega iðnaðarblóð í fjölskyldu hennar. Á móti gátu peningar hennar bjargað honum frá blankheitum eftir covid og þá forkastanlegu ákvörðun BB að endurgreiða ekki lengur vaskinn af vinnu að fullu. Foreldrar þeirra beggja höfðu gert allar ráðstafanir og eftir að Tinder varð ónothæft app vegna allra þeirra giftu sem héngu þar, var þetta eiginlega það besta. 

Jóhann leit ekki nógu vel út, andlitið var rautt og þrútið og jakkafötin fóru honum hræðilega, bunguðu alls staðar út. Hann var orðinn svo þéttur á velli, eins og pabbi hans grínaðist stundum með. Hann gat ekki hafa fitnað stækkað svona mikið frá því hann keypti fötin - fyrir aðeins mánuði ... en spegillinn laug ekki. Honum fannst hann vera álíka breiður og 50 tommu tölvuskjárinn sem mamma hans notaði í vinnunni og það var meira en gott gat talist. Nú yrði það bara ketó, föstur og vegan - eftir brúðkaupsferðina. Kæmist hann í eitt flugsæti? Sennilega tæki hann tvö sæti á Saga Class en Aðalheiður kaupsýslukona, tilvonandi eiginkona hans, hafði efni á því. Myndi hún ekki örugglega bjóða honum í brúðkaupsferð? Aðalheiður hafði verið svo upptekin í kauphöllinni og á Twitter að hún hafði ekki enn litið hann augum og þau höfðu heldur aldrei talað saman. Hann hafði gúglað hana - hún var greinilega ekki mikið fyrir athyglina en á þessum fáu myndum sem hann fann virkaði hún sæt. Skyldi henni lítast á mig? hugsaði Jóhann og strauk tár sem hafði stolist niður á kinn. Hvað ef ég fell í ómegin, það getur ekki nokkur kona reist mig við, ég er svo þungur. Hvað varð um venjulega mig? Voru það rólegheitin í Covid og sífelldar lokanir í ræktinni sem orsökuðu þessar líkamsbólgur og núna síðast helvítið hann Bjarni og virðisaukaskattsbreytingin? Hann taldi hægt upp á tvær milljónir til að róa sig niður. Hann yrði ansi mörgum milljónum ríkari eftir athöfnina, minnti hann sig á.

Bók bcAðalheiður viðskiptafræðingur leit hann augum við púltið hjá Siðmennt og það brá fyrir furðu í svip hennar. En bara eitt augnablik, hún var siðfáguð. Mögulega hafði hún gúglað hann og séð gömlu myndirnar af honum. Hann, aftur á móti, hafði aldrei séð fegurri konu ... einbeittar hrukkurnar á milli augna hennar sem stöfuðu af of miklu skjáglápi í vinnunni, voru eitthvað það kynþokkafyllsta í heimi og hvasst augnaráðið seiðandi, þetta var kona sem lét engan segja sér fyrir verkum. Jóhann fór að nötra í hnjánum af hrifningu. Selma athafnarstjóri lék á als oddi á meðan hún gaf þau saman en Jóhann var mjög óöruggur sem eyðilagði fyrir honum þessa stund. Þótt hann hafi ekki beint hlakkað til að giftast, var hann vongóður um að þau yrðu ástfangin með tíð og tíma, hann sá sjálfan sig fyrir sér í örmum hennar og það var svo notalegt.

Aðalheiður viðskiptafræðingur var afar ákveðin á svip eftir athöfnina þegar þau gengu saman í átt að fjórum fagnandi ættingjum og þremur vinum. Hún stoppaði skömmu áður en þau komust í heyrnarfæri við þau og sagði stuttaralega: „Ég legg inn á þig milljarð og byrja að nota ættarnafnið þitt frá og með deginum í dag. Þú munt hafa það gott í húsinu mínu við Bakkaflöt, póstnúmer 210, en ég mun halda til í höllinni við Hrólfskálavör, póstnúmer 170,“ sagði hún greindarlega. „Ég stend við mitt en við munum sennilega ekki sjást framar ...“ Hún lauk ekki við setninguna heldur lét sig hverfa. Hvað með snitturnar heima hjá pabba, hugsaði Jóhann en það var síðasta hugsun hans um langa hríð. Hann féll í ómegin. Í dá.

Átta mánuðum seinna, á Sjúkrahúsi Akraness:

Jóhann Smjattchestpjatten pípulagningamaður vaknaði og áttaði sig á að hann lá á sjúkrahúsi, hann var með næringu í æð og brá svolítið þegar hann sá rýran handlegg sinn. Samt hafði Ingibjörg sjúkraþjálfari þjálfað hann daglega, eins og hann komst að síðar. Hann leit niður eftir líkama sínum og sá að hann var kominn í kjörþyngd, hvað hafði gerst? Inga, eins og hún var alltaf kölluð, var sú fyrsta til að uppgötva að Jóhann pípari var vaknaður úr dáinu sem hann hafði legið í síðan Aðalheiður yfirgaf hann við ræðupúltið. Hún gat ekki leynt hrifingu sinni og-

(Í styttra máli: Jóhann einsetti sér að ná ástum Aðalheiðar, lærði að ganga upp á nýtt eftir kómað og gerði hana ástfangna af sér en hún þekkti auðvitað ekki þennan stórglæsilega mann sem Jóhann var orðinn eftir að hafa losnað við ... bólgurnar. Þegar hún dreif sig í Garðabæinn til að fá skilnað frá Jóhanni pípara og giftast nýja manninum beið hann eftir henni, glæsimennið sjálft, og minnti meira á 30 tommu sjónvarp að umfangi eða breidd ...)

 

Ég þarf að ákveða / hugsa betur hvað það er sem orsakar yfirgefelsið við ræðupúltið, get eiginlega ekki haft það tengt ofþyngd, held ég, það svekkir okkur sumar, er það ekki? ... frekar kannski að hann hafi verið með hallærislega klippingu, brúnar og skemmdar tennur, í ljótum skóm, með tásvepp, smjatt er líka dauðasynd.

Þetta er eina bók BC þar sem fólk svaf saman án þess að vera gift, eða það hélt greifinn, ég meina Aðalheiður, eða að hún væri að halda fram hjá Jóhanni. Sennilega langdjarfasta bók Barböru - og komnir áratugir síðan ég las hana. Alveg spurning hvort það væri gerlegt að breyta henni ... 


Játningar lúxusgellu og hverjir voru hvar ...

Saga ClassÝmislegt leggur maður á sig til að komast í réttu flugferðina með rétta fólkinu til Manchester á leið sinni til Liverpool, eins og núna um páskana. Vélin var sennilega nánast full þegar vér systur og stráksi ákváðum að koma með, svo systir mín sem ég kalla nú hinn freistandi Satan, stakk upp á því að við sætum á Saga Class, þar væru til næg sæti. Það kitlaði vissulega, ég hef setið þar tvisvar eða þrisvar en aldrei borgað fyrir það áður, bara verið heppin. Sataníuhilda sagði að sætin væru ekki á hámarksverði þennan dag, mögulega sagði hún það bara til að lina höggið svo ég héldi að allt minna en milljón væri ódýrt. Til að geta orðið samferða frændunum sem voru á leið á páskaleikinn góða (Liv-Ars) ákváðum vér systur semsagt að greiða "ögn" meira fyrir ferðina og upplifa svona einu sinni lúxus í lífinu ...

Jú, það tók allt styttri tíma, engin röð í innritun en einhverfu-sólblómahálsmen drengsins hjálpaði pottþétt líka til. Saga-lánsinn, eða snobb-athvarfið á flugvellinum olli þó vonbrigðum. Þar var allt fullt af fólki (allt of margar morgunflugferðir) og við þrjú sátum eins og hænur á priki (á barstólum) allan tímann, ekkert spes hlaðborð af morgunmat en kannski í þrengslunum (seðlabankastjóri, hættu að lesa) yfirsást manni eitthvað. Mér fannst meira úrval af víni og slíkum drykkjum en gosdrykkjum en eins og ég sagði, ég sá svo sem ekki allt fyrir öllu þessu lúxusliði sem hefði sennilega haft það jafngott frammi og jafnvel fengið betri sæti. Jú, vissulega var allt ókeypis en þegar áfengið laðar ekkert sérstaklega mikið ... þá ... Kannski geri ég of miklar kröfur til lúxuss ... andlitsnudd, fashanar í gullflögusósu, gjafapoki ... Sætin í vélinni voru alveg þægileg og nóg pláss fyrir fæturna, ágætur morgunmatur og alvöruhnífapör. Elskulegar freyjur sem voru vonandi miklu betri við okkur en almúgann aftur í! Það hefði verið alvörulúxus ef okkar farrými hefði flogið beint til Liverpool.

 

ManchesterlánsinnÁ vellinum í Manchester eftir okkar góðu daga í Liverpool horfði konan í innrituninni hneyksluð á mig, töskurnar voru svo léttar ... mín með gjöfum og allt fyrir kattapassara, vó vel innan við 20 kg. og taska drengsins innan við 10. Samt fannst mér þetta rosalega þungt miðað við fimm daga ferðalag. Ég bað hana afsökunar og gaf í skyn að ég hefði ekki verið nógu dugleg í búðarápi (í Manchester), þorði ekki að segja henni að við hefðum dvalið í Liverpool, ekki heimabæ hennar, þá hefði hún örugglega brjálast. Okkur langaði að prófa lánsinn (snobb-dæmið) á Manchesterflugvelli, SJÁ MYND, og þar var nú aldeilis munur. Ef það er of margt fólk þar er hreinlega lokað í bili, sem sagt ekki of mörgum hleypt inn. Við fengum að bjóða strákunum okkar með, þessum tveimur af almúgagerð, og greiddum 33 pund á hvorn, ef ég man rétt, og þar sátum við í alla vega tvo tíma í góðu yfirlæti og það var meira að segja alveg ágætt kaffi þarna. Pastaréttur í hádegismat, afskaplega bragðlaus og vondur en greinilega mest áhersla lögð á flottan bar. Hilda fékk þó ekki sitt Grand sem er nauðsyn fyrir flug hjá sumu fólki, þessu sem er ekki jafnbrjálæðislega hrifið af flugtaki og flugferðum almennt og til dæmis við stráksi. Leifsstöð klikkaði ekki á grandinu ...

Við systur ætlum aldrei að ferðast framar nema á Saga Class svo næsta ferðalag okkar verður trúlega eftir tíu ár ef okkur gengur vel að safna. Óska hér með eftir mjög vel borgaðri en auðveldri og skemmtilegri aukavinnu. Nánast allt kemur til greina nema fluguhnýtingar. Það er ávanabindandi að finnast maður svona miklu fínni en aðrir. Ferðatöskurnar eru enn í stofunni í Himnaríki, merktar fínu fólki, og allir gestir spyrja: Ó, sastu á Saga Class? og ég breiði úr mér og verð enn montnari. Hvenær er hæfilegt að ganga frá ferðatöskum - í síðasta lagi? Spyr fyrir vinkonu.

 

HVERJIR VORU SVO HVAR?

Fræga fólkið sem ég sá á flugvellinum og steingleymdi að segja frá í síðasta bloggi:

Marta María í Smartlandi og Páll Winkel fangelsismálastjóri, áhrifavaldurinn Katrín Edda, líkamsræktarkona og vélaverkfræðingur í Þýskalandi, ásamt manni sínum og barni, Sindri Sindrason sjónvarpsmaður og svo sjálfur Siggi Hlö. Ég veit ekkert hvert þau voru að fara - mér sást alveg örugglega yfir marga fræga (sorrí) og kenni sjóninni á mér um það. Lenti nýlega í því að bíða eftir því að ókunnug kona í hvítum bíl sækti mig og þegar kom grár bíll ... (þau sem vita allt um liti á hestum skilja þetta), þetta dugar, hugsaði ég, en horfði samt á konuna sem sat undir stýri í sjö skrefa fjarlægð frá mér og ég benti svo á mig, ertu að sækja mig?-látbragðið. Hún hristi höfuðið, þreytulega, sýndist mér. Þegar hún kom út úr bílnum sagði hún þreytulega: „Æ, ertu alveg hætt að þekkja mig ... og ég sá að þetta var nágrannakona mín til margra, margra ára. Ég er hvorki mann- né bílglögg en ef ég legg á minnið bílnúmerin og sirka litinn þekki ég bílana í hvelli. Hvíti bíllinn reyndist vera hvítur í alvöru þegar hann kom mínútu seinna. Og við fórum saman á fund hjá Lions þar sem ég hafði verið beðin um að flytja fyrirlestur. Var beðin um það skömmu fyrir Liverpool-ferðina og var alveg andlaus en konan sem hafði samband stakk upp á Brexit og Harry prins svo ég hafði þetta svolítið breskt bara, konunglegt, eitthvað um ferðina sjálfa og svo lítið eitt um hvernig er að vinna fyrir hefðardúllurnar í Buckingham-höll. Reyndi að vera með upplýsingar sem sjást ekki daglega í fréttum. Rifjaði upp gamalt royal-hneyksli sem allir eru búnir að gleyma nema fílar og ég. Hitti þarna skemmtilegar konur og fékk góðan mat - fínasta kvöldstund daginn eftir komuna frá Englandi. Það býr svo gott fólk hérna á Akranesi.   


Kraftaverkahálsmen og hugumstórar helgarpælingar

Stráksi með hálsmenið góðaNýlega lauk ég við að hlusta á skemmtilega bók á Storytel en um miðbik hennar rak ég mig þó á slæm mistök sem lögreglan gerði og var þar með komin með sterkan grun um hver væri morðinginn. Þótt sú myrta hafi svarað í dyrasíma og skömmu áður opnað öryggishlið með síma sínum er ansi hreint auðvelt að líkja eftir röddum og nappa símum sem maður skilar svo laumulega ögn seinna. Þetta er einn allra fyrsti stóri sigur minn í morðgátu og þarna í bókinni keppti ég við klára sveitalöggu og líka besta rannsóknarlögreglumanninn í Stokkhólmi sem var þarna í fríi ... Að gleypa þetta hrátt eins og þau gerðu beindi athygli þeirra í hvelli frá rétta morðingjanum.

Ef lögreglan á Vesturlandi vill nýta ályktunarkrafta mína er það velkomið. Alla vega í flóknustu ráðgátunum. Það er frekar pirrandi að ná þessu allt of snemma, ég er týpan sem elskar að láta plata mig, ég vil hrífast á töfrasýningum og ekki vita galdurinn á bak við platið. Mikið er hann Kristján Franklín Magnús góður lesari. Hann missir sig eiginlega aldrei í leiklestur sem eru mikil meðmæli. Maður vill láta lesa fyrir sig á Storytel, ekki leika. Vildi að fleiri lesarar áttuðu sig. En þau eru mörg ansi góð sem ég hef hlustað á, megnið af þeim, held ég.

 

Eitt var það sem auðveldaði svo mikið ferðina okkar til Liverpool og aftur heim. Í Leifsstöð við innritun spurði ég hvort ég gæti talað við einhvern um einhverfu drengsins til að hann yrði ekki stressaður í vopnaleit og öðru. Við höfum nokkrar fjörur sopið í þeim málum. Konan rétti mér grænt "hálsmen" með myndum af sólblómum og sagði að hann ætti að hafa það um hálsinn. (Sjá mynd ofar, við nýkomin á hótelið ytra) Þetta reyndist vera algjört galdratæki því alls staðar spratt upp yndislegt starfsfólk á flugvellinum og hjálpaði okkur á allan hátt, á einum stað fram fyrir langa biðröð. Við sluppum auðvitað ekki við eftirlit eða vopnaleit en við vorum sneggri í gegn og allir sýndu þolinmæði, þetta var auðveldasta utanlandsferðin með honum hingað til.

 

Kunningjakona mín á Facebook hefur farið þar mikinn upp á síðkastið. Hún er á móti bólusetningum og þá sérstaklega við covid. Það er hennar skoðun og hún má að sjálfsögðu hafa hana - og hennar sjálfsagði réttur, svo það sé á hreinu. En ég hef tekið eftir því að hún hefur smám saman bætt við sig fleiri skoðunum sem sum skoðanasystkini hennar gegn-bóló hafa einnig, sýnist mér, ekki öll. Hún er farin að tala gegn trans fólki, hælisleitendum, hún heldur með Pútín í Úkraínustríðinu og finnst málflutningur Trumps forseta ansi hreint trúverðugur, Saga er eina almennilega útvarpsstöðin (útvörður sannleikans) og hún hlær að öllu tali um loftslagsbreytingar. Það ríkir auðvitað skoðanafrelsi, málfrelsi, en þegar hún deildi nýlega einhverjum andstyggilegheitum og lygi um trans fólk, fleygði ég henni loks út af Facebook hjá mér. Ég hef ekki reynt að ræða þetta við hana, enda þekkjumst við lítið, hún trúir sínu, ég mínu og hvorugri hægt að hnika, tel ég. Mér hefur þótt mjög áhugavert að fylgjast með breytingunum á henni eftir að hún fann "sannleikann". 

Miðað við skrif hennar er hún ein fárra sem hugsa sjálfstætt og hún veit hlutina svo miklu betur en flestir aðrir, líka sérfræðingarnir. Einhver merkilegur sagði eitt sinn að ein stærsta hættan sem mannkynið stæði frammi fyrir væru falsfréttir og ég sé ekki betur en þær séu heldur betur farnar að tröllríða öllu.

Keli tv og MosiÞetta eru pælingarnar í Himnaríki þessa helgina. Hvernig er hægt að trúa því að allt sé rétt sem fer gegn almennum viðhorfum og skoðunum? Hefur meirihlutinn þá alltaf rangt fyrir sér - í öllu? Erum við öll (meirihlutinn) heilaþvegin? Er öllum læknum og vísindamönnum í heimi mútað til að lyfjafyrirtækin græði? Er einhver sérstök tegund fólks sem kýs að trúa þessu en ekki hinu? 

Ég græði á stafsetningarvillum annarra ... Væri þá réttast að afnema stafsetningarreglur til að ég græði ekki? Af hverju treysti ég mér ekki lengur til að horfa á Bold and the Beautiful? Er Bill Gates enn á lausu? Dæs. 

 

Keli af Kattholti er kominn á verkjalyf. Hann er frekar smár og léttur (grár og hvítur) svo hann fær bara einn dropa á dag af þessu lyfi, til að byrja með. Ingunn í næsta húsi, mikil dýrakona, kom til mín í gær og aðstoðaði mig við að finna út réttan skammt, betur sjá fjögur augu en tvö, tveir heilar en einn, mamma hennar var líka á kantinum með góð ráð og hægt að hringja í hana ef þyrfti. Svo hugsa ég að ég hringi á morgun í indæla, nýbyrjaða dýralækninn í Hamraborg í Kópavogi sem sendi mér lyfin með sjúkrafæðinu hans Kela. Það er svoooo vont að hafa ekki dýralækni á Akranesi, í átta þúsund manna bæ. Held (en er ekki viss) að þessar tvær sem eru að koma sér upp aðstöðu í hesthúsahverfinu séu ekki sérmenntaðar í gæludýrum. Kela gengur illa að stökkva núorðið, hann klifrar t.d. upp í rúmið mitt og notar klærnar sér til aðstoðar. Það er eins og afturlappirnar á honum séu orðnar veikburða, gæti verið gigt, sagði doksinn ljúfi. Hér eru stólar víða í Himnaríki til að auðvelda Kela allt hopp og skopp. Hann er frískur að öðru leyti. Gljáandi heilbrigð augu og fallegur feldur, svo hann virðist ekki vera veikur. Hann tekur enn stöku eltingarleik við Mosa og stundum hinn virðulega Krumma. En Keli er elstur, orðinn 13 ára sem telst frekar hár aldur hjá köttum, held ég. En vonandi virka verkjalyfin - hann kvartar samt aldrei eða vælir, það er frekar að ég kvarti ... yfir því að þurfa að beygja mig eftir öllu því sem hann hendir niður á gólf þegar hann er á leiðinni eitthvert, ákveðinn í fasi þótt bókabunkar séu í veginum, kertastjakar, bókhaldsgögn, jarðskjálftamælar (því miður djók) og alls konar fyrirstaða ... Keli minn, rústarinn, draslarinn, krúttmolinn.

Neðri myndin er af Kela (framar) og Mosa. Nýleg mynd sem sýnir hvað Keli lítur annars vel út miðað við mögulega gigt, svo unglegur og sætur. Hann á það sameiginlegt með mér að hann virkar þybbinn á flestum myndum - en ekki þessari. 


Fínasta páskaferð og ástæður ógiftelsis

Liverpool 2Páskarnir í ár voru öðruvísi en allir aðrir páskar, enda fórum við stráksi ásamt ættingjagengi í fótboltaferð til Liverpool, ferð þar sem aðeins 2/5 gengisins auðnaðist að vera á Anfield til að sjá Liverpool rústa Arsenal 2-2. Við Hilda og stráksi fórum á pöbb í næsta nágrenni við hótelið okkar til að horfa á leikinn og flúðum næstum öskrandi út eftir korter þótt við hefðum náð frábærum sætum. Vorum of snemma á ferð svo við treystum okkur alls ekki til að hlusta á raftónlist með kvenmannsöskrum til skrauts dynja á okkur í næstum klukkutíma Á HÆSTA. Þetta er alls ekki aldurinn, heldur bara góður tónlistarsmekkur. Skálmöld, Nirvana, Eminem, ja, eða Bítlarnir í sjálfri Bítlaborginni, flest annað en þetta hefði verið dásamlegt alveg á hæsta. Hilda hristist enn eftir að hafa neyðst til að fara í íþróttavörubúð sem bauð upp á svona hroðbjóð í græjunum. Mjög hátt stillt ... til að laða að fátæka unglinga? Sá eða sú sem hélt því fram að tónlist yki söluna hafði kannski ekki endilega rangt fyrir sér en það er alls ekki sama hvernig tónlistin er.

Ég var búin að gúgla besta kaffið í borginni, auðvitað, en er ekki alveg sammála því að það væri best þarna á Malmo eins og kaffihúsið heitir og er rétt hjá hótelinu (Novotel). Mjög góð afgreiðsla vissulega, flottar og góðar belgísku pönnsurnar (mín með lemon curd mínus bláberin) og allt í fína lagi með kaffið frá Brasilíu. Það sem eiginlega bjargaði kaffilífi mínu ytra var Nero, ítölsk kaffihúsakeðja. Drengurinn gladdist mjög yfir MacDonalds og fékk tvisvar hamborgara þaðan í hádegismat. Við versluðum nú ekki mikið, það þurfti samt að kaupa gjafir handa úkraínsku kisupössurunum og eitthvað smávegis fata-, súkkulaði- og bókakyns. Ég keypti Spare á 7 pund.

Ég elti Hildu, nánast hlekkjaði mig við hana til að missa ekki af neinu, hún er svo mikill snillingur að finna góða hluti. Þegar við förum saman í Costco, kannski einu sinni á ári, kem ég iðulega út með aðeins einn hlut (oftar en ekki sítrónu-sódakökuna guðdómlegu) en hún með sjúklega flott dót á fáránlega góðu verði - ég missi lífsviljann svo hratt og eiginlega dríf mig út svo fljótt ... og verð "fúl" þegar ég sé ofan í körfuna hennar. Ég reyni vissulega að hanga í henni þar - en það var auðveldara úti.

 

Ég hafði hugsað mér að lesa yfir hausamótunum á flugstjóranum vegna almennra fordóma sem flugmenn búa yfir, en einn þeirra sagði að aðeins hlussur væru á lausu. Las ekki viðtalið við hann, sá bara fyrirsögnina sem nægir auðvitað alveg til að brjálast. En á leiðinni út til Liverpool (lentum í Manchester) stjórnuðu flugkonur vélinn og svo karlar á á heimleiðinni en þá var mér runninn hláturinn.

Hótelið var alveg ágætt og verulega vel staðsett. Joe á barnum hélt með Newcastle en var samt ágætur. Morgunmaturinn allt í læ en við kusum frekar að fara út að borða á kvöldin en snæða þar eftir eitt skiptið ... Settum okkur þá reglu að fara ekki á staði sem voru líka til á Íslandi, uuu, kannski var það bara Subway.

Liverpool og fleira

 

Ég svaf ekkert nóttina fyrir brottför, dreif mig á fætur hálffjögur og fór í sturtu, svo hinir gætu komist til að pissa klukkan fjögur þegar almennt vakn hafði verið ákveðið. Þetta svefnleysi bitnaði hroðalega á mér því ég var hálfdauð um kvöldmatarleyti og vildi bara sofa. 

Á kvöldin voru heilu mávatónleikarnir sem bárust inn um gluggann. Sem betur fer voru engir Garðbæingar í hópnum, annars hefðu mávarnir verið skotnir, hugsa ég. Nei, það var ekki að sjá neitt dýrahatur, allt fullt af hundum nánast alls staðar. Rólegum og góðum hundum sem voru velkomnir inn á flesta staði. Þeir virtust vanir fólki og vanir að þurfa að haga sér vel í fjölmenni, ekki hataðir eins og á Íslandi og óvelkomnir af því bara. Vissulega spurði fólk hvort það mætti taka með sér hund, t.d. inn á kaffihús, og það fékk bara já, þar sem ég sá til. Það var sem sagt enginn í losti yfir of mörgum hundum eða mávum ... en heldur ekki hræðilegri tónlist sem mér fannst vera lögreglumál. Bretar virðast svo rólegir í tíðinni. Ég fór t.d. einu sinni á Starbucks og þar var sannarlega ekki afgreiðslumanneskja sem ég ég þurfti að segja ofboðslega hratt við: „Double tall latte with regular milk, not too hot,“ eins og þarf úti í Bandaríkjunum. Ég var komin með sterkan breskan hreim og talaði mikið, frá fyrsta degi ... en skildi samt varla stakt orð í tveggjahæðastrætó-túristaferðinni um Liverpool, því eina ferðamannalega sem við gerðum. Liverpool-hreimurinn er svolítið erfiður en ég veit þó eftir þessa ferð að pabbi Bobs Marley var frá Liverpool en ekkert annað. Missi af Penny Lane og allt ... svo var skítkalt. En ég ætla að fara aftur, alveg ákveðin í því, helst á leik og líka sjá Bítlasafnið. Við náðum ekki safninu, tíminn flaug frá okkur. 

Það var gott að komast heim þótt ég sé mjög hrifin af Englandi en ég er ekki til í sumarveður alveg strax (um 10 gráður allan tímann). Sonur minn átti afmæli þann 12. apríl sl., hefði orðið 43 ára. Þann dag pantaði ég mér plakat eftir listamanninn Prins Polo heitinn, með: Líf, ertu að grínast? og það kom nú í kvöld, tveimur dögum seinna. Mig hafði lengi langað í það, var líka spennt fyrir Fannstu skjálftann? en valdi þetta. Kannski verður þetta hefð, kannski ekki, að gefa mér gjöf á afmæli sonarins. Ég er samt alls ekki mikið fyrir hefðir, eða nokkuð annað sem mér finnst bindandi. Ahhh, þarna kemur sennilega skýringin á spretthlaupunum á mér þegar einhver sætur karl byrjar að daðra við mig. Þetta útskýrir mjög sennilega ógiftelsið í mér, en alls ekki hlussuskapurinn!         


Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 324
  • Sl. sólarhring: 380
  • Sl. viku: 2286
  • Frá upphafi: 1455989

Annað

  • Innlit í dag: 287
  • Innlit sl. viku: 1888
  • Gestir í dag: 274
  • IP-tölur í dag: 267

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • Ástarsaga
  • Sofandi köttur
  • 1. maí fyrir nokkrum árum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband