Þú hefur verið fryst ...

ÖldurHúsfundurinn árlegi var haldinn í síðustu viku en það tekur mig sífellt lengri tíma að jafna mig eftir þessa mergjuðu fundi sem eru hámark alls skemmtanalífs míns ár hvert. Ekki að rækjusalatið og hraunbitarnir fari illa í okkur en mögulega það sem rennur og þá er ég ekki að tala um magasleða eða skíðasleða. Nýi íbúinn reyndist ansi hress og hefur frumlegar hugmyndir. En svo nenntum við ekki að tala lengur um þakviðgerðir og gluggaklárelsi, okkur þríeykinu, formanni, gjaldkera og riddara, tókst áður en allir sofnuðu að fá samþykkt að nota megnið af viðgerðasjóðnum í Hawaii-ferð fyrir okkur þrjár til að læra sitt af hverju um húsfélög og hvernig eigi að stjórna þeim á sem hagkvæmastan hátt. Það var líka samþykkt að við færum þangað með Norwegian Epic, skemmtiferðaskipinu góða, og sigldum um allt Karíbahafið á leiðinni. Húsið verður vissulega stjórnlaust í margar, margar vikur á meðan en við komum reynslunni ríkari til baka. Og talsvert dekkri á hörund svo litakort Útlendingastofnunar gæti mögulega og eiginlega vonandi lengt dvöl okkar í hlýrra loftslagi, að minnsta kosti þar til við nálgumst fyrrum undanrennubláan lit okkar aftur. 

 

„Hvað eigum við svo að gera þessa daga okkar í Liverpool?“ spurði systir mín eldhress fyrir nokkrum dögum þegar við spjölluðum saman í síma. Hún hélt áfram: „Fara á pöbb nálægt leikvanginum til að heyra öskrin þegar Liverpool skorar gegn Arsenal og sjá svo hvert mark í sjónvarpinu fjórum sekúndum síðar, það yrði nú stemning, kíkja á Bítlasafnið, fara í búðir, út að borða, í skoðunarferðir? Held að þetta geti orðið mjög skemmtilegt.“

„Ég nenni ekki að fara á pöbb rétt hjá leikvanginum, hvað ef Arenal veitir mótspyrnu, jafnvel skorar mark? Það yrði nú lítil stemning,“ sagði ég áhyggjufull og skynsöm - en greinilega hundleiðinleg, að mati systur minnar. Ég hafði nefnilega komist að því að þegar tugþúsundir áhorfenda, af leikvangi eða pöbbum í grennd, vilja komast niður í bæ eða heim eftir leikinn er hægt að gleyma strætó eða leigubíl. Gönguferð á mínum hraða (nær snigli en héra) á hótelið myndi taka tvo klukkutíma. Minnst. Og ég hata að ganga. 

„Á ég ekki bara að leigja hjólastól handa þér?“ sagði systir mín og flissaði, ég fann nú samt á mér að nú væri grimmdarlegt blik í augum hennar, minnug litla rúsínupakkans sem ég hef enn ekki fundið í Himnaríki eftir að hún faldi hann Í GRÍNI. Og ég hata rúsínur.

Abbey roadHún hélt áfram tuðinu og sendi mér slóð á hvað gera skyldi í Liverpool væri maður túristi. Ég kíkti og áttaði mig á því að gangbrautin á Abbey Road (sjá mynd) væri ekki í Liverpool, heldur í London og klökknaði. Engin töff mynd á Facebook til að birta af sér. 

„Fjandans vesen,“ bölvaði ég, „getur fólk ekki bara haft það kósí yfir páskana á fína og flotta hótelherberginu sínu, horft á BBC, snætt egg og beikon í morgunmat, Shepherds Pie í hádegis- og kvöldmat, og svo bara íslensk páskaegg þess á milli, þið rúsínumöndludöðluoghnetu-fólkið viljið kannski Christmas Pudding? Ég vil hafa það þannig. Punktur!“ Þar sem ég er eldri, feitari og frekari vissi ég að systir mín samþykkti þetta. Kósí og yndislegt. Tveir fimmtu hópsins gætu farið á leikinn (löngu uppselt) og gengið heim á hótel en þrír fimmtu yrðu sannarlega ekki í grennd til þess eins að þurfa að afplána margra kílómetra göngu, það án nestis, álpoka og áttavita. Þá var það ákveðið.

Hélt ég.

 

Tveimur dögum seinna hringdi Hilda í mig og kom sér beint að efninu. Rödd hennar var herská. Hún kvaðst ætla að rústa mér ef ég væri ekki til í að gera eitthvað „skemmtilegt“ með henni í útlöndum. Hún hafði fengið splunkunýtt fyrirtæki, Skammarkreddur ehf, til að neyða mig til hlýðni, þetta væri nýjasta nýtt, sagði hún. Ég starði á símtólið og var eins og eitt stórt spurningamerki en áður en ég gat gúglað og satt forvitni mína tók hún til máls:

„Til að tortíma þér og blogginu þínu svífst ég einskis ef þú gerir ekki það sem ég segi þér, ferð að mínum vilja, og nú hef ég fundið flest ef ekki öll þín leyndarmál,“ sagði þessi fyrrum annars ágæta systir mín og hélt áfram: 

„Númer eitt: Þegar fólk talar um að það hafi farið upp á Esjuna, kinkar þú kolli og segir að þú hafir líka gert það. Nema þú lætur þess aldrei getið að þú hafir bara farið EINU SINNI og ÞAÐ MEÐ ÞYRLU!“ sagði hún. „Þetta heitir að ljúga! Hagræða sannleikanum. Skrökva. Plata,“ hélt samheitaorðabókin systir mín áfram.

Og númer tvö ... Á blogginu þínu talar þú oft um að þú hafir átt svo marga eiginmenn, svona eins og allir karlar séu brjálaðir í þig, sem er alls ekki raunin. Þú hefur bara gift þig EINU SINNI og það í fornöld,“ bætti hún við og reyndi ekkert til að fela grimmdina og illgirnisgleðina yfir því að vera sextán mánuðum yngri.

„Sko ... það að þér var bara boðið í eitt brúðkau-,“ reyndi ég að segja en hún greip frekjulega fram í:

„Skammarkreddur fann sannleikann, fór í gamlar kirkjubækur til öryggis, las allt um þig á Internetinu og hringdi í alla vini þína, Facebook-vini og ættingja okkar og sorrí, gamla geit, aðeins ein gifting fannst. Ég fann fyrrum manninn þinn þótt hann hafi flúið land, og hlakka til að fá allan sannleikann um hjónabandið ef með þarf. Ég les greinilega bloggið þitt of oft því ég var farin að trúa þér og hélt að allar giftingarnar og skilnaðirnir hefðu átt sér stað á meðan ég bjó fyrir norðan ...“

„Ja, þú veist hvernig opinberir starfsme-“ mótmælti ég á því sekúndubroti sem ég komst að, hún ætti að vita að skráning giftinga getur tekið langan tíma, jafnvel misfarist. 

„Viltu að ég kasti á þig númer þrjú, fjögur, fimm og bara áfram, lygalaupurinn þinn? Að við gröfum upp meiri subbuskap um þig, fleiri lygar og ýkjur?“ spurði hún. „Þú hefur verið fryst, frostuð, opinberuð, ef mér þóknast svo, sættu þig við það. Annaðhvort kemurðu með mér í Bítlasafnið, á leikvanginn og í búðir og veitingahús, eða ég segi frá öllu. Þá hættir fólk að líta á þig sem áhrifavald og frábæra fyrirmynd og þú getur bara gleymt því að fá kannski einhvern tímann sent heim ókeypis skyr eða snyrtivörur sem þú hefur beðið eftir svo lengi.“

„Allt í kei,“ sagði ég og lést vera gjörsigruð. „Ég skal gera allt sem þú segir mér.“

Ég mun nú samt finna leið til að klekkja á henni. Teiknibóla í sæti hennar í flugvélinni eða eitthvað annað snilldarlegt. Allt um það á blogginu síðar. Sæt hefnd, á sú færsla að heita. Ekki fara langt.        


Rómantískur stjórnarfundur og góð kaup á fjalli

Stjórnarfundur í himnaríkiRiddari húsfélagsins er ein af fjölmörgum nafnbótum mínum og svo höldum við formaður og gjaldkeri fundina okkar þriggja oft hér í Himnaríki, eins og til dæmis í gær. Ég vissi auðvitað að kettirnir myndu heilsa upp á meðstjórnendur mína en kannski ekki jafnástúðlega og raun bar vitni. Formaðurinn heillaði Mosa upp úr skónum, eða enn meira en áður (sjá sönnunargagn 1 - hann liggur til hálfs ofan á gögnum gjaldkerans og malar hátt). Hvort þetta þýði að hann langi að flytja til hennar hef ég ekki hugmynd um, en sums staðar myndi þetta kallast lauslæti hjá gaurnum, rómantík, jafnvel ástreitni.

Jú, við erum að undirbúa aðalfundinn sem verður á morgun. Það er kominn alla vega einn nýr íbúi, í hinn stigaganginn reyndar, og það er alltaf æsispennandi. Það er endalaust gaman að hitta skemmtilegu íbúana hér, ég datt í nágranna-lukkupottinn þegar ég flutti í Himnaríki.

 

Nýlega ákvað ég að láta reyna á eitt af því skrítna sem fær að viðgangast hér á landi og nýta í leiðinni gáfur mínar og nýfengna snilli í viðskiptum. Ég falaðist eftir að fá að kaupa Skarðsheiðina, eitt fegursta fjall landsins, ég sé það út um baðgluggann hjá mér. Mér datt í hug að kalla mig G. Harolds og breytti röddinni í kontratenór (kemst ekki neðar nema fá hóstakast) þegar ég hringdi í Allt til sölu og kó ehf. þar sem fæst bókstaflega allt frá súkkulaði til tígrisdýra (eða er það í Harrods?) Ég millifærði síðan sautján milljónir (ég get verið svo klók þegar kemur að viðskiptum) yfir á reikning fjallseigandans sem vill svo skemmtilega til að er einmitt að vinna hjá Allt til sölu ehf. og svaraði í símann. Svo nú á ég fjall. Kvittun og afsal mun berast fljótlega, lofaði inn elskulegi Diddi dökki, eins og hann kallar sig. Reynsla mín segir þó að það geti tafist vegna blýantsnags hins opinbera. Sautján ár og rúmlega það eru síðan ég keypti smávegis landhelgi hér við Langasandinn, eða minn eigin sjó, og hluta af strandlengjunni, og enn er afsalið ekki komið. Mögulega gæti þetta skrifast á sífellt skertari þjónustu hjá Póstinum. Ég átti öll mín póstviðskipti á búðarkassa í Hagkaup á Eiðistorgi um svipað leyti og ég flutti til Akraness.

Annars frétti ég að þetta væri allt misskilningur með kaupin á Skessuhorni. Ritstjóri Skessuhorns og nágranni minn sagði á Facebook að þetta hefðu verið ákveðin mistök, eða um hvaða Skessuhorn væri að ræða, og grannkona mín sagði að landið sem forríki útlendingurinn hefði keypt, næði smávegis upp á eina hlíð Skessuhorns, hann hefði í raun ekki keypt fjall. Mér finnst fyrri skýringin miklu skemmtilegri en ég sé samt ekki hvernig hægt væri með góðu móti að byggja þúsund fermetra hús og sex hundruð fermetra gestahús við Garðabraut þar sem ritstjórn Skessuhorns er til húsa, eins og kaupandinn hyggst gera. Jafnvel þótt KFUM-húsið á lóðinni hinum megin við götuna verði rifið ... sem stendur reyndar til að gera, og byggja þar stóra blokk en það má auðvitað alltaf breyta ef fjársterkir auðkýfings-jafnvel-útlendingar eru spenntir fyrir einhverju. 

Veðráttuteppi 2016

 

Veturinn 2022-2023 (ekki meðtalinn hinn hlýi nóvember) verður lengi í minnum hafður fyrir frosthörkur og pikkfasta norðanátt en stöku snjóa til tilbreytingar ... Ég fann mynd frá 2016, af veðráttuteppinu sem ég heklaði þá, hver litur tengdist hitastigi. Ég man að rauður stóð fyrir 18 stiga hita og af því að ég var svo mikill asni að velja hádegi sem viðmiðunartíma sést ekki rauður litur í teppinu. Fjólublár (ég veit, hann er ógeð með rauðum) stóð fyrir 5 stiga frost og kaldara. Aðeins ein umferð í þeim lit, mér sýnist það vera 3. janúar sem sá fjólublái kom í teppið en ég hefði fengið alla vega þrjár rauðar rendur (mun ofar og í hæfilegri fjarlægt frá fjólubláa) hefði ég heklað tímann kl. 15 sem var vinsæll að velja. Teppið varð langt (og mjótt) enda 365 umferðir, og virkilega hlýtt. Þetta var skemmtilegt verkefni og minnisvarði um venjulegan íslenskan vetur - og sumar. 

 

Ég er byrjuð að hlusta á bók nr. 2 í Doggerland-seríunni (Birgitta Birgisdóttir les - og gerir það mjög vel). Þetta er svo ávanabindandi að ég varð að setja mér reglur, hlusta ekki nema við húsverkin eða komin upp í rúm á kvöldin (er nokkuð of snemmt að fara upp í klukkan átta?) Svo sé ég að spennandi bækur eru að koma út núna og bíð m.a. spennt eftir nýrri bók eftir Dean Koontz, á Storytel sem sagt. Kemur vonandi fyrir páska - þótt maður skreppi þá á ögn hlýrri slóðir (Liverpool) þarf að lesa. Alltaf. Fer ekki á leik, því miður, en sennilega skundum vér systur á pöbb og horfum á mögulegan annan 7-0 sigur, og þá yfir Arsenal. Sætti mig samt alveg við 1-0 eða 2-1.       


Opin rými andskotans

Opið vinnurýmiAfsakið orðbragðið en að máli málanna: Það þykir víst afar truflandi fyrir einbeitingu og sköpun að vinna í opnu rými og ég er hjartanlega sammála því. Einhverjir hafa góð heyrnartól á eyrunum til að lifa það af, aðrir ná einhvern veginn að loka á umheiminn sem er flottur hæfileiki. 

Talsmenn þess opna virðast m.a. ganga út frá því að við þurfum svo rosalega mikið á öðru fólki að halda að þetta geri okkur bara gott ... Ég varð vör við það eftir að sonur minn dó, þegar mér var sagt að sorgin yrði svo miklu verri eftir útförina, sennilega af því að þá hætti fólk að mestu að koma í heimsókn og ég yrði svo einmana. Þetta var hin mesta firra, það var bæði gott að fá gesti og líka gott að vera ein, þetta var öðruvísi, ekki verra. En þessi setning truflaði mig og sat lengi í mér. 

Við mannfólkið skiptumst víst gróflega í extróverta og intróverta - þá sem blómstra mest og best í félagsskap annarra og svo okkur hin sem erum ekkert endilega þar þótt við séum engir mannhatarar.

 

Ég hef góða reynslu af því að vinna á eigin skrifstofu - fyrir aldamót, og hafði nú yfirleitt opið fram nema þegar ég þurfti frið. Svo um aldamótin, eftir frábært ár í hagnýtri fjölmiðlun í HÍ, fór ég að vinna sem blaðamaður, draumastarfið mitt nánast síðan ég las Beverly Gray-bækurnar hennar mömmu. Rósa Bennett gerði hjúkrunarstarfið líka girnilegt og Ráðskonan á Grund gerði rauðhærða menn ómótstæðilega - svo gagnsemi bóka komist nú að ... Ég fór að vinna á sex manna opinni skrifstofu en þar voru sem betur fer skilrúm sem gáfu frið frá sjónrænu áreiti á meðan maður stóð ekki upp. Vissulega var stundum talað saman, það þarf í þessu starfi, en mér gekk nokkuð vel að einbeita mér við að skrifa greinar, lífsreynslusögur, viðtöl og alls konar. Skrifstofan okkar á Seljaveginum sneri í suðaustur, hún var ansi heit og loftlaus og ekkert skrítið þótt við hefðum haldið að við værum að komast á breytingaskeiðið, flestar þá tíu árum of snemma miðað við meðaltal. Svo fór Hreinn ljósmyndari að kvarta yfir alls kyns einkennum breytingaskeiðs þegar hann kom inn á skrifstofu til okkar og ekki löngu seinna voru skilrúmin fjarlægð til að auka loftgæði. Það varð vissulega snyrtilegra á skrifstofunni og allir sáu alla, en alveg sami hitinn og svitinn ríkjandi, fannst mér, bara einn lítill gluggi og ég syrgði sárt skilrúmin því það varð erfiðara að einbeita sér. Eftir það voru það bara opin rými á næstu vinnustöðum (hjá sama vinnuveitanda), í 110 Rvík og 210 Gbæ. Höfðabakki, Lyngháls og Lyngás - alls staðar galopið, en í Lyngási fékk Vikan sérskrifstofu fyrir okkur sex þar sem sólin skein ekki á okkur allan daginn. Skemmtilegur vinnustaður, frábært samstarfsfólk en ég beið með ansi margt af vinnunni minni þar til ég komst heim í friðinn.

 

Á kvöldin og um helgar þegar ég átti að hvíla mig eða gera eitthvað enn skemmtilegra vann ég, mikið skömmuð af vinum og vandamönnum fyrir að vera ALLTAF AÐ VINNA. Ég kenni opnum vinnurýmum um það í mínu tilfelli. Ég hef aldrei komist upp á lag með heyrnartól og loka mig þannig af, en starfið fólst vissulega í því líka að tala saman og það var auðvitað líka hægt að vinna sitt af hverju sem krafðist ekki mikillar einbeitingar á vinnustaðnum. Ég hef verið einstaklega heppin með samstarfskonur (og Haffa Haff sem sá um tískuna á tímabili) á Vikunni - ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta hefði annars verið. En þetta breytti mér smám saman í sívinnandi og síþreytta vél og þótt það væri gaman í strætó tóku ferðirnar Akranes - Garðabær - Akranes alveg þrjá tíma á dag, og jafnvel rúmlega það. Ég gat lesið síðupróförk í strætó - og stundum fékk ég safaríkar lífsreynslusögur þar þannig að ég vann oft líka á heimleiðinni í strætó. En sjaldnast í 6.20-vagninum frá Akranesi - þá var ég enn sofandi.

 

 

NKLÞetta aukaálag í hátt í tuttugu ár gaf ekki mikið færi á því að hlaupa uppi kærasta og eiginmenn, eins og móðir mín heitin benti mér stundum á (í gríni), henni fannst ég vinna allt of mikið. Ég hefði svo sem getað verið duglegri að djamma og daðra þrátt fyrir þrældóminn en leið kannski of vel heima hjá mér, jafnvel þegar ég var búin að klára heimavinnuna, svo það sé viðurkennt.

 

Vonandi missa háskólakennarar ekki einkaskrifstofurnar sínar, það yrði eitthvað sagt ef þeir tækju vinnuna með sér heim eins og ég gerði, viðtöl við nemendur og slíkt. Læknar eiga víst að að sætta sig við eitthvað álíka bjánalegt á nýja háskólasjúkrahúsinu, ef ég skil það rétt. Þetta getur bara ekki verið gott fyrir fólk í flestum störfum. Ég held að allir tapi þegar upp er staðið, starfsfólk og vinnuveitendur. 

 

Ég er enn að reyna að finna út úr því hvað ég eigi að gera við allan tímann sem mér finnst ég hafa núna - eftir að hafa nánast unnið tvöfalt í tvo áratugi. Samt hef ég reyndar verið nokkuð snögg að taka að mér verkefni sem leysa það ekki-vandamál ... stundum einum of. Ég var svo vön að vera nánast alltaf að vinna og það er erfitt að breyta því. Það var gaman að hekla yfir sjónvarpinu hér í denn en nú nenni ég ekki lengur að horfa á sjónvarp. Núna um helgina byrjaði ég að hlusta á Doggerland-glæpaseríuna. Steingerður almáttugur, frábæri fv. ritstjórinn minn, bloggar reglulega um bækur og æsir upp í mér löngun eftir þeim, ég kaupi þær ýmist eða hlusta í gegnum Storytel. Mæli með skemmtilegu bloggfærslunum hennar hér á blog.is.

 

HúsverkirÉg skrapp í bæinn (Kópavog) á föstudaginn og skreið svo inn úr dyrunum heima á miðnætti í gær, köttum til mikillar gleði en allar mottur hér eru úr lagi gengnar vegna brjálaðra eltingaleikja þeirra eftir að ég var komin í bólin og að reyna að sofna. Alltaf gaman að heimsækja Hildu og kó - meira að segja raða með henni bókhaldinu mínu sem við gerðum með glæsibrag í gær.

Orðið "skreppa" þýðist ansi illa í google translate. Ég hef bæði fengið fyrirspurn um það frá hinni dönsku Kamillu minni um og uppskorið hlátur á námskeiðum í Íslensku I ... því þýðingin (á úkraínsku, dönsku, arabísku og spænsku) tengist bara því að skreppa saman. Ég ætla að skreppa saman út í Einarsbúð, verð fljót. 

Strætóbílstjórinn minn í gærkvöldi frá Mjódd er dásemdin sem benti mér á Trésmiðju Akraness á sínum tíma þegar ég leitaði að iðnaðarmönnum til að gera upp Himnaríki 2020. Það var mikil gæfustrætóferð því Diddi var ekki bara hirðsmiðurinn minn, heldur hringdi þegar þurfti í aðra iðnaðarmenn SEM MÆTTU. Sparaði mér mikinn hausverk. Svo var auðvitað eitthvað um kunningsskap og greiðasemi. Rafvirkinn minn fær t.d. alltaf reglulega þakklætiskassa af krimmum sem hafa safnast upp hjá mér - það er kominn tími á enn einn bókakassann handa honum.  Hann er mikill lestrarhestur og þótt ég dái og dýrki bækur, finnst mér líka ansi gott að fá notið þeirra í gegnum Kindle-lesbrettið (gjöf), Storytel-lesbrettið (afmælisgjöf), símann eða iPadinn - það þarf ekki endilega að eiga allar bækur sem maður les. Það var frelsandi að átta sig á því. 

 

Jæja, helgarþvotturinn (setja í þvottavél, þurrkara, brjóta saman og ganga frá) bíður ekki endalaust ... og mig langar að halda áfram að hlusta á Doggerland á meðan. Það varð svo miklu auðveldara að hlusta á bækur þegar ég uppgötvaði (takk, Hilda) hraðastillingarnar, nú hlusta ég á allt á 1,2x. Fyrsta bókin í Doggerland-flokknum heitir Feilspor - höfundur Maria Adolfsson. Ég sé að það eru komnar þrjár bækur í seríunni inn á Storytel og ein nýkomin í bókabúðir. Held að húsverkin verði ansi mikið og vel unnin á næstu dögum á meðan ég gleypi þær í mig - að hlusta á bók setur eins konar sjálfstýringu af stað hjá mér og það leiðinlegasta, að brjóta saman þvottinn og ganga frá honum - verður leikur einn á meðan dularfull morðmál leysast.

Neðsta myndin á ættir sínar að rekja til Snapchat (gurrih), stundum birti ég FYRIR-mynd til að hvetja mig til dáða (aumingja snappvinir mínir sem vilja kannski bara eitthvað um kettina og sjóinn minn) og svo eftir ótrúlega stuttan tíma kemur EFTIR-myndin og allt orðið voða fínt - þetta var eftir afmælisveislu drengsins. Þetta er sem sagt ekki mont, heldur er snappið gott verkfæri til að drífa hlutina af - og með Storytel gerast hreinlega kraftaverk!


Heilaþvottur í íslenskukennslu ... múahahaha

hópurinnSíðasti kennsludagur var í dag eftir að hafa varið fjórum vikum með dásamlegum einstaklingum sem mér tókst að heilaþvo - sagði þeim að íslenska væri nú frekar auðveld miðað við svo mörg tungumál. Þau tóku miklum framförum í kjölfarið.

 

Dásamlegur hópur sem samanstóð af fólki frá Úkraínu, Sýrlandi, Súdan og Venesúela (ekki alveg allir á myndinni). Húmoristar og gæðablóð upp til hópa. Mikið vildi ég að yfirvöld stigju stundum niður á plan til okkar hinna og sæju hvers konar dýrgripi við fáum hingað til lands - oft með algjörum naumindum ... ef þau eru til dæmis ekki í réttum lit er meiri hætta á höfnun, virðist vera. Þau eru næstum öll að byrja í vinnu á næstunni svo ég gat með naumindum haldið þeim út námskeiðið ... Það fjölgar alltaf þeim sem mögulega kaupa sér bíl og aumka sig yfir gamla "kennarann" og skutla henni heim í hálku næsta vetur. Jess. 

 

Þetta var óhefðbundinn dagur á námskeiðinu, smávegis upprifjun fyrir kaffi, þau voru með allt á hreinu, auðvitað, og svo leyfði ég þeim að horfa á fyrsta þáttinn af Brot (1/8 - á RÚV.is, kannski halda þau áfram heima. Ég var auðvitað búin að steingleyma djúsí kynlífssenu í upphafi fyrsta þáttarins. Stunurnar heyrðust þó illa fyrir „Úps, ææ, afsakið, afsakið, afsakið, sko, gulur bíll!“ í mér sem var viljandi til að draga úr dónaskapnum en blóðug og hrottaleg morð tóku sem betur fer við eftir smástund, sjúkk.

 

jesssssÞau skildu glettilega mikið (íslenskur texta á) og þeim fannst ofboðslega sætar konur í löggunni (a.m.k. í íslenskum lögguþáttum). Ég sýndi þeim líka hluta af einum þætti af Landanum en þegar kom að kynfræðslu í grunnskóla í Vestur-Húnavatnssýslu, slökkti tepran ég og ætlaði að setja Ófærð á en fékk bara upp veðurfréttir við leit ... sá síðan Brot og minnti að þeir hefðu verið spennandi en ... kannski hefði kynlífsfræðslan verið skárri ... Þegar var svo sem bara skyndihugdetta hjá mér að sýna þeim íslenskt sjónvarpsefni. Þau fengu að hlusta á Kaleo, Bubba, Bríeti og fleiri (jú, pínku Skálmöld en líklega bara andlegur úkraínskur tvíburabróðir minn í tónlist kunni að meta það).

 

 

Ég gat frætt þau á því að allar konur á Íslandi væru mjög fallegar, ekki bara íslenskar leikkonur í glæpaþáttum. Ég benti á mig því til sönnunar og allir kinkuðu kolli samþykkjandi. Já, meirihluti nemenda hjá mér var karlkyns að þessu sinni. Í fyrstu kveið ég fyrir því - eftir allan geggjaða kvennafansinn í fyrra og í þeirri skemmtilegu stemningu sem ríkti hjá okkur stelpunum. En svo rifjaðist upp fyrir mér að ég kann virkilega vel við karlmenn svo ég tók gleði mína aftur.

Í kaffipásunni í dag skildi ég ekkert hvað hafði orðið um Úkraínukarlana mína þrjá, ég sem hafði keypt íslenskt sælgæti (hraunbita og tilbúið mix: bland í poka) og Hver-dásemdirnar á þriðju hæð í gamla Landsbankahúsinu voru búnar að hella upp á. Birtust svo ekki gaurarnir og það með blómvönd handa leiðbeinandanum. Það gladdi mig mjög mikið og ... „Mjög, mjög til eftirbreytni,“ möluðu kettirnir í Himnaríki sem glöddust yfir litríku kattagrasinu ... sem endaði niðri á palli í bili eftir ítrekaðar árásir þeirra á vöndinn.

Hér ofar er mynd með flestum á námskeiðinu og allir samþykktu að mætti birtast opinberlega. Einn Úkraínugaurinn er með algjörlega sama tónlistasmekk og ég, spurning hreinlega um að ættleiða hann. Við gátum talað um rapp og rokk á íslensku ... líka ögn eldra rokk - Metallica og Scorpions og þar sem hann var mættur svo snemma gátum við hlustað á Still loving you þar til klukkan sló níu. Mikið á ég eftir að sakna þeirra allra.


Að stela afmæli ... enn og aftur

Rostik kisuguð„Ansi hef ég komið illa undan vetri,“ kvartaði ég við eina af systrum mínum. Hafði verið að skoða myndir af okkur systrunum, teknar í afmælisveislu stráksa um helgina. Systurnar voru nógu asskoti sætar á meðan ég minnti einna helst á vélsagarmorðingja sem hefur ekki farið í klippingu síðan hann missti síðast sögina á hausinn á sér.

„Hvaða vitleysa,“ sagði ægifögur systirin huggandi, en hún gat samt ekki hafa meint það í fullri alvöru miðað við skýrar hryllingsmyndirnar í fullkomnum fókus og í réttri lýsingu, einmitt þegar það var engin þörf á því.

„Nei, mér fannst ég ótrúlega ljót á þeim miðað við þá sýn sem blasir við mér í speglinum,“ dæsti ég, orðin nokkuð brattari, enda úr Þingeyjarsýslu en fólk þaðan leyfir engum (nema sjálfu sér, varla þó) að segja eitthvað niðrandi um sig, við vitum að við erum best, alla vega við ættuð úr Flatey. Ég er ólík sumum öðrum að því leyti að þegar ég horfi í spegil finnst mér ég bara ágæt. Alls ekki of feit, alls ekki ljót. Það tryggir ekki bara gott skap heldur líka fjaðrandi göngulag. Það er vissulega langt liðið frá jólaklippingu og öðrum fínheitum og það sést en ég á tíma í vikunni. Verð samt að taka harðar á fólki sem er með gemsann á lofti. Það sem sést ekki - er ekki. Ég hef til dæmis lagt gífurlega mikið á mig í gegnum tíðina við að halda hrukkum í skefjum, með því að innbyrða m.a. rjóma og súkkulaði, en það virðist ekki skila sér nema sem Óskarsverðlaun í einhverjum tilfellum.

„Ef ég hefði nú bara áhyggjurnar yðar, frú Guðríður,“ mjálmaði Mosi en hann hefur sérstakt lag á því að segja eitthvað smellið sem kemur vitinu fyrir mann. Myndin efst er af nágranna mínum, Rostik, en hann er dáðurr og dýrkaður kattarguð himnaríkis, eins og sést. Miðmyndin er af stráksa við veisluborð helgarinnar. Stóra tertan er úr Kallabakaríi. Ég vakti margar nætur við að baka hitt. Neðsta myndin er gömul, held alveg örugglega að Bernhöftsbakarí eigi heiðurinn af tertunni.

Afmælisbarnið

 

Afmælisveisla fyrir drenginn var sem sagt haldin á laugardaginn og án efa gleymdi ég að bjóða einhverjum. Svo 25 manna marsipantertan var í það stærsta og mesta með tveimur marenstertum, 60 snittum, bananatertu, bollakökum og franskri súkkulaðiköku í litlum brownies-sneiðum. Hafði vit á að bjóða nokkrum (tveimur) í eftirpartí, senda sneiðar heim með gestum sem það þáðu þannig að það er bara smávegis eftir af afmælistertunni. Geri aðrir betur. Stráksi er alsæll með helgina og hefur vart talað um annað, hann vildi ekki veislu fyrir ári svo hann finnur muninn núna og mun aldrei sleppa afmælisveislu úr.

 

Ég er komin úr æfingu og var allt of stressuð. Fannst ég vart sest niður til að spjalla þegar ég þurfti að þjóta á fætur aftur og færa gestum kaffi, teppi, vatnssopa, álteppi, landakort, herðatré, öskubakka (djók) eða eitthvað. Bauð einhverjum í veisluna klukkan tvö en langflestum klukkan þrjú svo það var ekki allt tilbúið klukkan tvö sem stressaði mig svolítið. Ég tók kannski ekki á móti fyrstu gestum á nærbuxunum með tusku í annarri og klósettbursta í hinni (lýsing vinkonu sem fékk fyrstu gestina tveimur klst. of snemma) en næstum því. Fljótlega eftir að þrjú-gestirnir komu spurði ein frænkan hvort ég ætti íbúfen og um leið vildi sonur hennar vita hvar kettirnir væru. Ég dró mæðginin með mér, sýndi drengnum hvar Mosi, Keli og Krummi héldu sig, ætlaði svo að fara inn á bað í leiðinni og sækja íbúfen fyrir elsku frænku en gleymdi því - einhver þurfti kaffi eða knús í austurendanum. Ef ég held veislu í sumar væri snjallt að fá einhvern í eldhúsið. Sonur minn sá alltaf um þrældóminn hér áður fyrr, Hilda systir var hrikalega hjálpleg og oft tók mamma góða rispu. Þegar síðustu gestirnir voru farnir ákvað ég að vera algjör drusla, slökkti ljósið í eldhúsinu (það var samt enn bjart úti) og elsku hjartans uppvaskið beið mín rólegt þar til ég hafði sofið út á sunnudeginum, í gær. Við stráksi réðumst í þetta í sameiningu - það þurfti að flokka, taka pappa og plast sér, leifar fyrir fuglana (leifar af diskum afmælisgesta sko) og fara með allt út, rest fór í uppþvotttavél og hviss bang, allt varð fínt á hálftíma eða svo. Ég keypti pappadiska sem flýtti fyrir frágangi. 

 

 

Ekki í fyrsta sinn sem hommarnir ste...Þetta var samt ágæt „æfing“, svona ef ég held venjulegt (f.covid) alvörufullorðinsafmæli nú í ágúst EF DALVÍKINGAR ERU EKKI BÚNIR AÐ EYÐILEGGJA ÞAÐ FYRIR MÉR! Fkngs Fiskidagurinn mikli verður nebblega laugardaginn 12. ágúst - á afmælinu mínu. Takk kærlega!!! Friðrik Ómar fær sko ekki að koma í afmælið mitt í ár! Eflaust hafa svo ónefndir skipuleggjendur á suðvesturhorninu ákveðið að hafa Gleðigönguna þann sama dag eins og stundum áður, bara af kvikindisskap. Kæmi mér heldur ekki á óvart. Ég bíð bara eftir tilkynningu um að Írskir dagar á Akranesi verði færðir til 12. ágúst. Það væri samt sniðugt, þegar ég hugsa út í það, stutt fyrir gesti mína að fara með mallakút fullan af kökum og almennilegu kaffi, beint út á þyrlupallinn minn þar sem brekkusöngurinn mun hljómar um kvöldið. Eða standa úti á svölum og taka undir sönginn þar. 

Ef forríkir hótelbyggjendur fá einhverju ráðið, verður öllu snúið við á hlaðinu hjá mér, þyrlupalli eytt, fótboltavöllur færður, og fínasta hótel byggt (mér finnst verðlaunatillagan reyndar miklu flottari). Þá verður stutt fyrir mig að fara út að borða og skreppa eftir latte - þ.e.a.s. ef liðið hefur vit á því að vera með GOTT kaffi á boðstólum, ekki eitthvað sem sumt kaffisölufólk segir að sé gott. Talið bara við mig. 

 

Ég átti erindi í apótekið fyrir nokkru, tók strætó og ætlaði að taka þann næsta heim eftir hálftíma. Þá rakst ég að indælan mann frá Sýrlandi, kunningja minn sem hefur búið á Akranesi í tæpt ár. Hann bauð mér far heim og ég þáði það með þökkum. Þetta frost!!! Hann, konan hans og barnið eru búin að koma sér ágætlega fyrir. Hann vinnur reyndar í Reykjavík, ekki fulla vinnu, því miður, og leitar grimmt að fullri vinnu, helst á Skaganum. Hann umgengst mest útlendinga í gegnum starfið, og lærir þar meiri ensku en íslensku, öfugt við það sem hann langar. Einhver, greinilega algjör húmoristi, ráðlagði honum að hlusta á Útvarp Sögu í bílnum til að læra íslensku enn hraðar og betur, þar væri svo mikið talað mál. Á meðan ég sat í bílnum hans heyrði ég eiginlega ekkert nema formælingar í garð hælisleitenda og þá sérstaklega múslima sem legðust upp á okkur og heimtuðu allt frítt. Það var ótrúleg upplifun - heyra eitt og upplifa hið gagnstæða við hliðina á duglegum, vingjarnlegum, greiðviknum og ljúfum manni sem finnst allt æðislegt við Ísland, hér er ekki stríð. Borgar sína leigu, leikskólagjöld fyrir barnið, tryggingar af bílnum og bara allt. Kvartar ekki einu sinni yfir veðrinu, gleðst bara yfir lífinu. Ég þyki jákvæð en þetta langvarandi endalausa frost finnst mér viðbjóður og bara ekkert gott við það. Vonandi kemur gott sumar EN ekki of heitt samt (fyrirgefið, elskurnar), ég á þrjár viftur svo ég myndi sennilega lifa af 15°C hita í einhverja daga en alls ekki hlýrra en það. Hér með sendi ég þessa ósk mína út í alheimsorkuna (segir maður það ekki?). Þið sem viljið lamandi hita, hafið Tenerife og sólbaðsstofur. Ef sumarið verður svalt og notalegt megið þið alveg kenna mér um það.


... svo vond að hún hafði ekki auga fyrir náttúrufegurð

storytelMikið er ég farin að njóta þess að hlusta á sögur í gegnum Storytel og mikið svakalega skiptir miklu máli hvernig lesarinn er. Hann má ekki vera áhugalaus, heldur ekki áhugasamur, leiklestur er algjört eitur og getur breytt lífi manns, held ég. Eins og blogglesendur mínir vita er ég ansi hreint hrifin af karlkyninu og reyndar kvenfólki líka, en ég hef verið afskaplega heppin með nánast allt karlkyns sem hefur komið inn í líf mitt en mér var farið að vera illa við karla eftir að hafa hlustað á nokkrar bækur eftir sama höfund. Eiginlega konur líka, því lesarinn (kona) breytti röddinni alltaf eftir því hver talaði í sögunni. Stundum hækkaði hún röddina ef karlmaðurinn var sérlega vondur og talaði með svo ljótri rödd að ég fann hatrið magnast upp. Konuraddirnar voru varla mikið skárri því ef einhver konan var sérlega góð var hún látin tala eins og manneskja sem stælir og gerir grín að væmnu fólki. Það var ekki hægt að stilla á hálftíma eða 45 mínútur og ætla sér að sofna við þetta. Alltaf þegar vondur karl brýndi raustina hrökk ég við í rúminu og nánast stökk upp beinstíf af stressi. Þessar bækur voru talsvert betri til að hlusta á þegar þvottur var brotinn saman eða stórtiltekt í gangi. Samt er ekki hægt að kenna lesurum um allt, stundum mættu höfundar aðeins passa sig. Þarna í einni bókinni var ein konan svo vond að hún hafði ekki auga fyrir náttúrufegurð. 

Ég hlustaði nýlega á bók sem ég prófarkalas fyrir löngu og lesarinn bjó til nokkrar villur. Aldrei hefði ég hleypt UNGA-barni í gegn, hvað þá að kona leit niður á fæturnaR á sér! Fljótlega fæ ég spennandi verkefni, en það er að prófarkahlusta bók, það er greinilega nauðsynlegt. Ég hef lent í að hlusta oftar en einu sinni á sumar setningar ...

Ég finn fjarsýnina læðast inn. Því fleiri bækur að hlusta á, þeim mun færri bækur eru lesnar upp á gamla mátann - því minni æfingu fá augun og þá kemur ellifjarsýnin loksins sem hefur látið bíða eftir sér í alla vega 20 ár.

 

1920_ccphilipoconnorMikill annríkisdagur í gær. Við stráksi plús fleiri stefnum á nokkurra daga frí í ögn hlýrra loftslagi, ekki sólarströnd þó, í kringum páska, og þar sem ég vil alltaf hafa allt á hreinu ákvað ég að sækja um nýtt vegabréf fyrir drenginn þótt hans gamla rynni ekki út fyrr en í maí, gilti í mánuð frá komu. Það reyndist þjóðráð því okkur hefði annars verið snúið við á vellinum, sögðu dásemdarstarfskonurnar hjá sýslumanni, þetta land heimtaði minnst þriggja mánaða gildistíma eftir af vegabréfinu við komu þangað. Magnað hvað það er alltaf góð og hlýleg þjónusta á opinberum stöðum hér á Akranesi. Konan hjá skattstjóra á næstu hæð fyrir neðan var ekki síður mikil hjálp við okkur því allt varð svo flókið eftir að stráksi varð átján ára.

Við hlupum svo upp á spítala. Ég hafði hringt daginn áður til að panta örvunarbólusetningu fyrir okkur, við fórum síðast í ágúst. Þegar ég pantaði spurði ég indælu konuna: „Er ekki mælt með að fólk geri þetta, sérstaklega áður en það fer til útlanda?“

Eftir smáþögn kom kurteislega: „Hver og einn verður að gera það upp við sig.“ 

Ég lét þetta svar ekki hræða mig frá því að panta og þegar ég mætti í gær voru þar tvær indælar konur, sú sem sprautaði var sérlega mjúkhent. Ég þekki ekki alltaf jarðsprengjusvæðin til að varast þau og spurði alveg hugsunarlaust:

„Hvernig er það aftur, eru ekki tvær vikur í að þetta verði virkt?“

Þögn. „Það er best að þú gúglir það,“ var svarið. 

Ég kinkaði kolli og þakkaði fyrir okkur. Ég var svolítið ringluð og ákvað að leita huggunar í Einarsbúð, þar er alltaf áfallahjálp að fá og almennilegt avókadó. Mér fannst ég finna samsærisþef. Kannski var þetta tilviljun en kannski hafði heilsugæslan verið tekin yfir ... en þá af hverjum, Trump, Margréti? Eða hafði sóttvarnarlæknir sent minnisblað með áminningu um að gæta ískalds hlutleysis - sem virkaði svona svakalega ruglandi? Þarf að nota hlutleysi á fólk sem hringir sjálft og pantar tíma? Mér fór að líða eins og ég hefði gert mistök, mögulega misst af einhverju mikilvægu í fréttunum, ekki lesið réttu greinarnar á netinu, pottþétt með allt of bjartsýna og glaða feisbúkkvini, hætt að horfa á sjónvarp að mestu og komin með 5G í símannn án þess að biðja um það, allt svo spúkí.

Það var eins og við manninn mælt, rétt áður en ég gekk inn í Einarsbúð fór Kanaútvarpið að hljóma í einum jaxlinum í mér.


Fólkið með frasana og Ölver minnir á sig

Himnaríki 6. mars 2023Skagamær hef ég verið í 17 ár í þessari þriðju umferð búsetu hér síðan 1961 og nú hefur fóstursonurinn búið hjá mér í 6 ár, upp á dag. Á þessum 17 árum hef ég gert margt skemmtilegt en ansi hreint lítið um djamm hérna. Pöbbinn sem ég man ekki hvað heitir var á horni Skólabrautar og Vesturgötu sem allir vita að er ekki í göngufjarlægð fyrir t.d. mig í 170 Akranes, hvað þá 210 Akranes uppi í Grundum og enn nýrri hverfum. Barinn var rétt hjá kirkjunni en staðsetningin skýrir eflaust arfalélega kirkjusókn þeirra bíllausu af því að innanbæjarstrætó tekur ekki bara síestu um miðjan morgun virka daga, heldur ekur hann hvorki á kvöldin né um helgar. Vínbúðin er aftur á móti lengst austur í rassgati, rétt hjá Húsasmiðjunni og þar, þannig að ég gerðist bara bindindiskona og einbeitti mér að kaffidrykkju. Það er eitthvað sjoppulegt við að burðast með bokkur í bónuspoka í strætó. Hælaskór, varalitur, pels og Benz, eða sleppa því.

Vissulega einir rokktónleikar með Dúndurfréttum rétt fyrir covid, nokkrum sinnum í bíó, upplestur á jólabókum í bókasafninu í nóvember, afmælisveislur, málverkasýningar. Allt skemmtilegt og án sukks. Svo fór doktor Kamilla að vinna á Akranesi. Hún er dönsk og við kynntumst yfir úkraínskri máltíð hjá Rauða krossinum. Hún er nánast altalandi á íslensku eftir átta mánaða búsetu hér, hef ekki tölu á því hve mörg tungumál hún talar ... en það er ekki málið. Var það ekki einmitt í desember á síðasta ári sem ég datt kylliflöt í sollinn, glötunina, djammið, sukkið, eftir að hafa verið stillt og prúð í áratugi, þegar hún dró mig með á pöbbkviss á Útgerðinni? Ansi hrædd um það. Hún bætti svo um betur síðasta föstudag. Sendi mér skilaboð: „Viltu koma með á blústónleika í Reykjavík?“ Ég er alltaf að reyna að tosa mig út úr þægindahringnum (án þess þó að samþykkja að fara með nokkrum í sund) svo ég sagði bara já. Enda er ég mjög hrifin af blústónlist. 

Ölver í dagsbirtuÉg rak samt upp stór augu þegar ég kíkti í símann minn í bílnum á leiðinni í bæinn, hún hafði sent mér allt um viðburðinn á meðan ég var í sturtu. Ég spurði hana og hollenska manninn hennar sem er listamaður og heldur með Ajax, samt ágætur:

„Ha! Farið þið stundum í Ölver? Hafið þið kannski áður farið á blústónleika þar?“

„Nei, við höfum aldrei gert það, er þetta ekki allt í lagi staður?“ 

„Þetta er eða var karaókíbar, held ég, eða sportbar, hann er í kjallara í verslunarmiðstöð. Ég vissi ekki að það væru haldnir tónleikar þar,“ sagði ég og eldgamlar minningar fóru að rifjast upp.

 

Ölver í myrkriÞau hjónin höfðu haldið að þetta væri einn af þessum stöðum í miðborginni en þau hafa sótt tónleika nokkuð grimmt, blús og jazz. Þótt ég fengi örfá minningarleiftur frá fornri tíð þegar við ráfuðum um í kringum Glæsibæ í leit að innganginum að Ölveri, tókst okkur að skunda fram hjá innganginum. Ef ekki hefði verið fyrir hjálplegan fastagest sem gargaði á okkur: „Þið eruð komin fram hjá. Dyrnar eru hérna!“ hefðum við eflaust lent í vandræðum og værum kannski enn ráfandi um Heima-Sund. Fjöldi fólks var inni á staðnum, samt var klukkan bara átta og tónleikarnir ekki byrjaðir. Ekki reyndist mögulegt að fá almennileg sæti því sumir voru búnir að taka bestu borðin frá fyrir vini sem voru á leiðinni. Við enduðum á því að setjast við fremsta borðið í salnum, við hlið sviðsins, og sáum hljómsveitina mest á hlið (sjá mynd) en bara bakið á sumum. Þetta var skemmtileg lífsreynsla, ágæt músík en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Þarna voru tveir sem ég þekkti, báðir nokkuð tengdir bandinu, held ég, og þarna gerði ég játningu:

 

Fyndið að vera hér,“ sagði ég. „Síðast kom ég hingað 26. júlí 1980.“ Þau störðu hissa á mig. Við höfum svo sem ekki þekkst lengi en ég efast um að þau hafi átt von á einhverju svona frá mér. „Sko, ég giftist einum af fyrstu eiginmönnum mínum heima hjá mömmu á Rauðalæk og hún heimtaði að halda veisluna hérna í Ölveri,“ játaði ég og roðnaði glettnislega. „Ég held að það hafi ekki verið svona dimmt þá,“ bætti ég greindarlega við. Þvílíkt minni eftir alla vega 15 ár og jafnvel rúmlega það, hugsaði ég með sjálfri mér, ég man samt ekki hvort kaffið var drekkandi sem mér finnst lykilatriði í dag, enda ógift í augnablikinu. „Við erum sko fínir vinir, ég og allir mínir fyrrverandi,“ tók ég fram. Hjónunum létti stórlega. 

Ég drakk tvo bjóra sem er meira en ég hef gert í mörg, mörg, mörg ár, nema í desember og með þessari sömu manneskju. Tilviljun? Held ekki. Ef ég verð alki veit ég hverjum ég get kennt um það. En samt ... ég held að sökin sé í rauninni hjá fólkinu með frasana, sjá sérstaklega nr. 2:

1. Þú ert nóg ...

2. Drífðu þig út úr þægindahringnum ...

3. Lifðu lífinu lifandi ...

4. Vertu þú sjálf og láttu allt flakka ...

5. Morgunstund gefur gull í mund ...

 

Ég reyni svooo mikið til að enginn geti sagt við mig að ég sé vanaföst (gömul) og þoli ekki breytingar (feit). En þau hjónin gætu þó ALDREI í lífinu platað mig með í sund þannig að minn eigin vilji fyrirfinnst þarna einhvers staðar.

- - -  - - - - - - - - - - - - - -


Bráðum of háöldruð fyrir myndatöku

1900Muna ekki hjartkærir blogglesendur mínir eftir því þegar Krabbameinsfélagið fórnaði okkur Skagakonum fyrir kannski tíu árum og vildi fá okkur til borgarinnar í brjóstamyndatöku? Einhverjar ástæður voru taldar upp, þær héldu ekki vatni, en þetta fækkaði Skagakonum sem mættu í myndatöku sem virðist hafa verið ætlunin. Getur orðið dýrkeyptur sparnaður ... Ég gladdist innilega þegar Heilsugæslan tók við þessu í fyrra en sama ruglið virðist vera í gangi þar og vér Skagakonur ekkert of góðar til að skutlast í bæinn. Frekar mikið vont fyrir bíllausar skvísur og tekur aldrei minna en rúma fjóra tíma, ef miðað er við mætingu kl. 10 og að allt gangi upp, veður, stundvísi strætó og lítil bið á Lansa. Ég hélt að sólin væri farin að skína á mig í þessum málum þegar elsku frábæra Jóhanna Harðar, fyrrum ritstjórinn minn með miklu meiru, aumkaði sig yfir mig nýlega og bauð mér far til Reykjavíkur þegar hún færi næst ... hún hafði séð mig spyrjast fyrir um þetta á netinu - en heilsugæslan á Facebook virti mig ekki svars.

 

Myndin er bara til að gleðja ... tengist ekki umræðuefninu.

 

Úps! Í ljós kom að Jóhanna má éta það sem úti frýs, ekki svo dýrmæt lengur, hún er víst orðin sjötug og það „tekur því ekki að mynda svo "háaldrað" kvenfólk“, skildist mér á henni nema hún notaði mun sterkari orð. Þá á ég ekkert of mörg ár eftir í að naga þröskuldinn ... Ég hef spurt vinkonur hér á Skaga af og til ... en þær hafa þá verið búnar að fara suður eða ætla að sjá til, ég spyr yfirleitt þegar ég fæ boðun. Það er sérstaklega eitt sem veldur því að ég á erfitt með að vera lengi að heiman - en því styttri tími sem ferðin tekur, því betra og minna stresssandi fyrir mig ... og aðra manneskju.

Er það bæjarstjórnin hér á Akranesi eða Heilsugæslan sem getur mótmælt þessu fyrir hönd Skagakvenna? Eða skiptir engu að ná upp góðri mætingu aftur? „Skreppirí“ í bæinn er ekki til í minni orðabók, ekki  með strætó, veðrið þarf að vera gott, eða strætófært og það tekur alltaf einhverja klukkutíma. Fór einu sinni í bíó með syni mínum - á laugardegi, minnir mig, og við vorum í sjö tíma í bænum - misstum reyndar af einum vagni. Myndin var ekki þess virði sem var verst. Það var ekki Da Vinci code, heldur sú sem kom á eftir, Tom Hanks og fornir leyndardómar-eitthvað, mér leið eins og ég væri að horfa á tölvuleik ... leysa þetta borð, svo næsta, og næsta ... 

Er ég virkilega eina manneskjan sem er svekkt yfir þessu myndatökurugli? Ég mætti eins og klukka á tveggja ára fresti frá því ég varð fertug og alveg þangað til þessi furðulega ákvörðun var tekin. Regína bæjarstjóri mótmælti þessu harðlega á sínum tíma en án árangurs. Þá hét ég því að Krabbameinsfélagið fengi aldrei krónu frá mér, eða nokkra velvild nokkurn tíma og hef staðið við það.

Nú þarf ég að skreppa á fund ... mér liggur samt margt á hjarta, eins og fáránlegar bækur ... ég hef komið mér upp skelfilegum bókmenntasmekk á síðustu árum ... og sitthvað fleira. Meira á morgun. 


Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 223
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 1767
  • Frá upphafi: 1453926

Annað

  • Innlit í dag: 181
  • Innlit sl. viku: 1469
  • Gestir í dag: 168
  • IP-tölur í dag: 167

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband