Færsluflokkur: Bloggar
Nýlega komst ég yfir nokkur nýleg, erlend tímarit og er æf út í Moggann og fleiri fyrir að halda svona merkilegum fréttum um Hollywood-stjörnurnar frá okkur lesendum. Að sjálfsögðu deili ég þeim með bloggvinum mínum. Finnst það eiginlega vera samfélagsleg skylda mín.
Ekki vissi ég t.d. að Robbie Williams væri orðinn kærulaus um ímynd sína og hefði bætt á sig heilmörgum kílóum. Honum hættir víst til að fitna og þarf að hafa mikið fyrir því að halda sér í formi. Hann sást kyssa einhverja Sophiu á dögunum og hvað með kærustuna Aydu Fielding, konuna sem hann hreifst svo af vegna þess að hún vissi ekki hver hann var?
Svo langar David Beckham ógurlega í enn eitt barn en þau hjónin hafa alltaf þráð stóra fjölskyldu.
Það náðist mynd af aumingja Liz Hurley á dögunum sem sýnir að hún er komin með skallablett á hnakkann.
Jeremy Clarkson, aðalgæinn í Top Gear, bílaþættinum skemmtilega á SkjáEinum, þjáist víst af miðaldurskrísu, hann gengur a.m.k. um í grænum, forljótum mokkasíuskóm.
Rachael Ray og Oprah Winfrey eru orðnar svarnar óvinkonur en sú fyrrnefnda á frægðina þeirri síðarnefndu algjörlega að þakka. Oprah sagði víst við Rachel: You make me sick. Rachel segir um þessa fyrrum vinkonu sína: Oprah er stjórnsöm tík!
Meiri fitufréttir: Í Chicago er verslun sem heitir Oprah´s Closet og þar eru seld notuð föt af sjónvarpskonunni. Oprah hefur víst fitnað um 30 kíló síðustu þrjú árin en vakið hefur athygli að aðeins föt síðan hún var sem grennst eru til sölu þar.
Leikarinn Nick Nolte, 68 ára, hefur átt við mikið áfengisvandamál að stríða og leitaði til Hare Krishna-sértrúarhópsins eftir hjálp og segist hafa verið edrú um tíma í kjölfarið. Kærasta hans, Clytie Lane, 39 ára, kynnti hann fyrir hópnum. Þau Clytie eiga saman 7 mánaða barn.
Dóttir Whitneyjar Houston, Bobbi Kristina, reyndi að fremja sjálfsmorð á dögunum og ekki í fyrsta sinn. Í þetta skiptið gerði hún tilraun til að stinga móður sína með hnífi fyrst. Hún vill ekki búa hjá mömmu sinni að sögn heimildamanna.
Kirstie Alley er hætt í megrun og bætir hratt á sig. Hún sýndi sig í bikiní í fyrra einmitt í þætti Opruh Winfrey. Kirstie finnst mjög gott að borða snakk og ís fyrir framan sjónvarpið og segja heimildamenn að henni hafi tekist á þann hátt að þyngjast um næstum 40 kíló.
David Hasselhoff féll fyrir einum keppanda í America´s Got Talent, Corinu Brouder sem er 29 ára. Þau deita nú grimmt. Þau sáust á sama hóteli og saman á tónlistarhátíð þar sem David leit hræðilega illa út en var allur á hjólum í kringum Corinu. Systir Corinu var með í för og vakti þríeykið mikla athygli.
Mariah Carey grætti 8 ára stúlku (ég græt reyndar líka þegar ég heyri hana syngja). Hún var að kynna plötu sína á Hard Rock Café í Hollywood og mætti tveimur og hálfum tíma of seint. Hún harðneitaði að árita nokkuð nema plötuna sína og lét eins og algjör díva. Litla daman hafði beðið í röð í nokkra klukkutíma með plakat af söngkonunni og þegar kom að henni hrakti söngkonan hana á brott með dónaskap og svo lét hún sig hverfa ... meira að segja áður en þeir sem keyptu þó geisladisk gátu fengið áritun á þá. Sumir af aðdáendunum urðu svo reiðir að þeir köstuðu geisladiskunum á jörðina og trömpuðu á þeim.
Martha Stewart mun fljótlega giftast milljarðamæringnum Charles Simonyi, þau náðu víst saman aftur. Þegar hann bað hennar sagði hún JÁ, JÁ, JÁ, JÁ! samkvæmt heimildum hins virta tímarits National Enquirer. Enda er hún orðin 66 ára ... Charles er bara 59 ára unglamb.
Systir Marks Wahlberg leikara sat í fangelsi fyrir tryllt rifrildi við kærastann og komu vopn við sögu ... hún beið róleg eftir að litli bróðir borgaði hana út en ekki fylgdi sögunni hvort hann gerði það.
Megan Fox leikkona, ein kynþokkafyllsta kona heims, stal 500 króna gloss úr Wal-Mart og má ekki koma þangað framar, aldrei í lífinu!
Adam Sandler er víst ökklabrotinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.6.2008 | 21:35
Gott að koma heim í "kvenlega" kvennamorðklúbbinn
Það var frábært að koma heim. Kettirnir mjálmuðu í hálftíma og þar sem ég kann kattamál veit ég að Kubbur og Tommi skömmuðu mig fyrir að vera svona lengi að heiman, heilmarga daga. Svo sögðust þau vera sársvöng og þá skellti erfðaprinsinn upp úr enda hefur hann dekrað við þau í fjarveru minni í mat og drykk.
Mikið umferðareftirlit var og var erfðaprinsinn stoppaður á leiðinni í sumarbúðirnar að sækja mig. Alltaf missi ég af öllu svona skemmtilegu, ég hefði a.m.k. mælst með vöfflur í blóðinu. Við vorum reyndar stoppuð í vetur á leið heim á Skaga eftir Útsvarsþátt númer 2 enda á föstudagskvöldi. Nú er löggan með mikil umsvif vegna Bíladaga á Akureyri og enginn er óhultur, sem betur fer. Flott hjá löggunni. Við erfðaprins rétt sluppum við alla umferðina að norðan og var beinn og breiður vegur heim á elsku Skagann. Góða veðrið var greinilega á Kleppjárnsreykjum, sól og blíða, en um leið og við nálguðumst þjóðveg 1 hjá Borgarfjarðarbrúnni var orðið skýjað og stöku regndropi féll.
Mikið var þetta notaleg helgi þrátt fyrir að hafa verið umkringd 80 hressum og kátum börnum. Eins gott að ég vinn ekki í sumarbúðunum, ég yrði gjörsamlega hnöttótt á nokkrum vikum. Maturinn er allt of góður.
Fólk er enn að hringja og skrá inn börn og þannig mun það vera fram eftir sumri. Það er enn eitthvað laust í viku 5 og 6, held ég. Frábær starfsemi þarna og gaman að sjá krakkasnúllurnar blómstra. Það hefði verið gaman að vera í kvöld og fylgjast með lokakvöldvökunni, sjá stuttmyndina sem Davíð frændi flissaði svo yfir þegar hann var að klippa hana en hún fjallar um dularfullan stein og ræningja. Handritið samið af krökkunum sem leika í henni líka. Einn glæpóninn var í gamalli kápu af mömmu, mjög heimilislegt!
Ég lauk við bókina Morðin í Betlehem í sveitasælunni og þetta er dúndurbók. Hefði viljað ögn meiri yfirlestur á bókinni en hún var svo góð að nokkrar stafsetningarvillur skemmdu ekkert fyrir mér. Það var gaman að fá innsýn inn í framandi menningarheim og fylgjast um leið með miðaldra kennara leysa morðmál.
Nú er komið að saumaklúbbs-þættinum, eins og Stöð 2 auglýsir hann, eða Kvennamorðklúbbnum. Hann á að vera sambland af Sex and the City og Cold Case. Ég hef lesið bækurnar og það er ekkert um tísku í þeim eða gömul óleyst mál. Bara fjórar klárar konur sem taka höndum saman og leysa fersk morðmál. Vona að þáttunum verði ekki klúðrað í eitthvað bull! Well, nokkrar mínútur búnar ... veit ekki alveg hvað mér finnst, ég sit alla vega ekkert stjörf yfir honum!
Held ég sé sammála Stöð 2, ekki þeim að kenna að þættirnir eru svona kvenvænlegir og fullir af tilfinningum. Mjúkir, sexí og konurnar kláru úr bókunum svolítið óöruggar með sig og hikandi, ekki mjög fagmannlegar, kasta upp þegar þær sjá lík og svona ... Líklega þykir það bera vott um kvenleika og hljóti að höfða til kvenna. Klára að horfa á þennan fyrsta þátt en sýnist að sunnudagskvöldin verði sjónvarpslaus að mestu í sumar ... reyni kannski að ná fótbolta, fréttum, Monk og Boston Legal. Heheheh
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.6.2008 | 13:39
Kveðja úr sveitasælunni ...
"Ert þú spákonan?" spurðu börnin sem biðu í spákonubiðröðinni, ég hélt nú ekki og ruddist inn til spákonunnar til að taka mynd. Spákerlingin var ógnvekjandi í svona Harry Potter-stíl ... en krökkunum var nú alveg sama um það sem hún sagði, vildu bara vita hver af starfsmönnunum þetta væri, heheheh!
Það hefur verið nóg að gera á skrifstofunni. Frábært að vera hérna í sólinni og hitanum. Geri ráð fyrir að fara heim á morgun í boði erfðaprinsins.
Ég er í helv.... makkanum hennar Hildu og get því ekki sett inn myndir eða bara nokkuð ...
Kveð í bili úr sumarbúðunum!!! Hef bloggað þar fyrir Hildu undanfarið: www.sumarbudir.blog.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.6.2008 | 18:16
Góð bæjarferð - rétt sloppið við ökuníðing
Maður má ekki bregða sér af bæ, þá verður allt vitlaust! Jú, við erfðaprins brugðum okkur í bæjarferð um hádegisbil í þeim tilgangi að hitta hana Löllu vinkonu. Hún leggst í ferðalög í næstu viku og kvaddi okkur með stæl, eða matarboði á Þremur frökkum. Að sjálfsögðu fengum við okkur sveppasúpuna góðu í forrétt og svo var erfitt að velja aðalrétt, mikið úrval af girnilegum réttum.
Lalla fékk sér rauðsprettu, erfðaprinsinn plokkfisk og ég steinbít. Eftirréttur var Créme brulei úr skyri, algjört gómsæti. Held í alvöru að ég þurfi ekki að borða í marga, marga daga. Þetta var mjög svo gott og félagsskapurinn náttúrlega dásamlegur. Rebekka, dóttir Löllu, kom líka og var með litabók og liti sem bjargaði alveg hádeginu hjá henni. Sama hressa og góða þjónustan var á Þremur frökkum, sama konan stjanaði við okkur og síðast (sjá mynd t.h. af henni og Rebekku), en núna var hún ekki á leið til Bandaríkjanna seinnipartinn, eins og síðast.
Ég kíkti aðeins upp í vinnu og fann að ég sársakna samstarfsfólksins. Þau reyndu að gleðja mig og sögðust sakna mín líka. Ég held samt að ég sé ómissandi ... því að blómið sem Bryndís gaf okkur í kveðjugjöf er dautt, ég sá um að vökva það fyrir frí, svona viðkvæm blómstrandi Lísa þolir varla helgi án vökvunar. Þegar Bryndís hætti spurði Halldór frændi (minn og hennar) hvers vegna. Ég sagði honum að hún hefði tekið einhver mannréttindi (Amnesty) fram yfir tísku, förðun, viðtöl og slíkt. Ohh, hún er svo undirborðskennd, sagði hann þá. Bryndís flissaði bara þegar ég blaðraði þessu í hana, enda er hún stóraðdáandi hans.
Veðmálspottur EM lokaði kl. 16 í gær í vinnunni. Ég hefði veðjað á Þýskaland, sjúkkitt! Það er ógóspennandi forsíðuviðtal í Vikunni sem er að koma út í dag. Konan þar segir m.a. frá því að hún var yfir sig ástfangin af frábærum manni sem hún hafði verið með í tvö ár eða svo. Ég man ekki alveg hvað karlinn heitir sem kom til Íslands og hélt rándýr námskeið þar til Landlæknir bannaði honum það, rótaði í sálarlífi fólks og skildi það eftir á röngunni, einhverjir lentu inni á geðdeild í kjölfarið. Nú þessi maður hafði mikil áhrif á manninn sem viðmælandinn (Íris Hera Norðfjörð) elskaði og trúði honum þegar hann sagði að Íris væri ekki rétta konan fyrir hann, heldur önnur sem hann benti á. Djúsí viðtal við kjarnorkukonu. Flott að vara við svona fólki sem reynir að ná valdi yfir öðrum, hafa af þeim stórfé og jafnvel rústa þeim andlega. Jamm. Svo fylgir hrikalega flott grillblað aukalega með. Held að ég kaupi lítið einnota grill og prófi einhverjar uppskriftanna. Ekki get ég tekið þátt í krossgátunni og unnið flotta grillið sem er í verðlaun núna, það væri bara siðlaust.
Við mættum tveimur eða þremur lögreglubílum í Mosó á heimleið, kannski voru það aukalöggur að koma af Skaganum. Mikið ofboðslega er ég fegin að við mættum þessum manni ekki á 180 km/klst. þegar við vorum á leið í bæinn, það munaði bara klukkutíma, segir erfðaprinsinn, líka dauðfeginn. Gott hjá löggunni að hægja ferðina í þeim tilgangi að hægja á manninum. Ég er mjög ánægð með lögguna hérna á Skaganum, hún böstar hvern ökumanninn af öðrum fyrir of hraðan akstur og fleira rugl.
![]() |
Bíl veitt eftirför á Akranesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
12.6.2008 | 01:26
Gray´s, bækur, bæjarferð, Kjötborg og draumur um Rúmfatalager
Dásamlegur lokaþátturinn af Gray´s Anatomy. Myndin fraus í fimm mínútur og akkúrat þá var eitthvað dramatískt að fara að gerast. Held að speglun í sjónum á milli mín og útsendingarmastranna á Sementsturninum valdi þessu. Erfðaprinsinn sagði beiskur að þetta væri alveg týpískt, alltaf þegar eitthvað mjög spennandi væri í sjónvarpinu þá gerðist þetta. Af hverju fraus t.d. ekki þegar leiðindaþátturinn á undan var á dagskrá?
Ég lauk við ansi góða bók í gær, Kona fer til læknis. Hún er með betri bókum sem ég hef lesið, svei mér þá bara. Nú get ég haldið áfram með spennandi strætóbókina mína, Morðin í Betlehem. Dexter var lesinn upp til agna nýlega og var alveg magnaður. Ég óttaðist svolítið að sjónvarpsþættirnir um hann væru byggðir á þessarri bók en svo er sem betur fer ekki.
Svo hef ég verið að hlusta á ansi hreint skemmtilega plötu/disk sem mér áskotnaðist nýlega og inniheldur tónverk eftir Einar Braga, bloggara, tónlistarmann og skólastjóra Tónlistarskólans á Seyðisfirði. Tónverkið heitir Draumar.
Bæjarferð er fyrirhuguð á morgun, aðeins að viðra sig, hitta góða vinkonu og borða með henni hádegisverð. Svo finnst mér ekki ólíklegt að ég fari til Hildu í sumarbúðirnar. Það er svo brjálað að gera að hún annar því varla. Fólk hringir allan daginn og skráir börn ofan á allt annað og lausum plássum fækkar ört. Oft um miðjan júní og í byrjun júlí eru komnir biðlistar.
Erfðaprinsinn fór í litlar og sætar sumarbúðir í Tungu í Svínadal eitt árið. Allt var fullt en Linda aumkaði sig yfir mig og stráksi fékk að vera með en gista í húsi við hliðina, hjá mömmu Lindu, yndislegri konu. Hann á frábærar minningar frá þessum stað. Vona að hann muni eignast jafnfrábærar minningar frá ferðinni til tannlæknisins sem fyrirhuguð er kl. 10 í fyrramálið. Sem minnir mig á, ætli Ósk tannlæknir sé búin að henda mér út af kúnnalistanum sínum? Ég þarf að kanna það, komin rúm tvö ár síðan ég fór síðast til hennar. Hún er það eina sem ég ætla að halda í frá Reykjavík, fyrir utan vinnuna, vinina og árlega Þorláksmessuheimsókn í Kjötborg. Allt annað fyrirfinnst hér á Skaganum ... nema auðvitað Rúmfatalagerinn. Vona að færeyski snilldarkaupmaðurinn fái hugljómun um að opna stað hérna, t.d. þar sem BT var þar til kreppan skall á fyrir nokkrum vikum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.6.2008 | 19:25
Uppnám á svölum vegna klæðaburðar, smá sjónvarp og oggu bold
Náði góðu korteri á svölunum í dag ... sem er gott miðað við að sólböð eru ekki á dekurlistanum í himnaríki. Klæðaburður minn var skelfilegur. Blátt mynstrað pils og eiturgrænn fleginn bolur ... mávarnir görguðu af viðbjóði. Svo kom hafgola ég fauk inn enda lauflétt af hungri. Reyni að ná öðru korteri á morgun, þá er þetta orðið gott í sumar.
Eitt kvöldið fyrir stuttu horfði ég á spennuþátt sem heitir Missing. Skil ekki hvers vegna Stöð 2 kallar hann ekki saumaklúbb ... tvær konur í aðalhlutverkum, líklega af því að yfirmaður þeirra er karlkyns. Nema hvað, önnur konan fær alltaf flóknar sýnir um horfið fólk og þarf að reyna að ráða í þær með aðstoð samstarfskonu sinnar áður en týnda fólkið hverfur alveg. Ég var farin að hlæja eftir smátíma því að samstarfskonan truflaði alltaf sýnirnar með því að spyrja umhyggjusöm hvort allt væri ekki örugglega í lagi þegar sýna-konan stóð og horfði stjörf út í loftið eins og hún hefur gert til einhverra ára þegar hún fær sýnir. Þar með vaknaði sjáandinn sífellt upp úr transinum, samt ráðin í lögguna vegna þessarra hæfileika sinna. Frekar fyndið.
Nú verður tveggja tíma lokaþáttur Gray´s Anatomy í kvöld og hér ríkir mikil tilhlökkun. Erfðaprinsinn lætur engan segja sér hvað honum finnst skemmtilegt í sjónvarpinu og horfir á það efni sem hann fílar, hvort sem það heitir kjéddlínaefni eða kaddlaefni. Nú horfir hann á Simpsons á meðan ég fylgist með boltanum. Mikið rignir á aumingja fótboltamennina, þeir eru rennblautir.
Sumarbúðirnar hennar Hildu systur eru komnar á fullt og geta áhugasamir kíkt á sumarbúðabloggið (www.sumarbudir.blog.is) og dáðst að handbragðinu á skrifunum. Jú, einmitt, mín skrifaði þetta eftir fréttum úr sveitinni. Ég spurði Hildu hvernig hópurinn, sem kom í gær, væri og hún sagði að hann væri einstakur, gjörsamlega frábærir krakkar. Hún segir þetta alltaf í hverri viku og mér finnst það svo fyndið. Um 80 börn eru hjá henni núna en þegar hún var á Hvanneyri hafði hún pláss fyrir yfir 100. Ég man eftir því þegar sumarbúðirnar voru að byrja fyrir 10 árum og þá komu 30-40 börn á viku fyrsta sumarið. Svo jókst fjöldinn sífellt og síðustu árin þar voru alltaf 70-100 börn.
Það er allt að verða vitlaust í boldinu enn eina ferðina. Þegar Taylor ætlaði að fara að kjafta öllu í Thorne rændi Hector henni og batt við handriðið. Svo fór hann að sveifla eldi til og frá, hún sparkaði í hann, hann rotaðist og bæði hefðu brunnið inni ef ekki hefði verið fyrir Stefaníu. Hún leysti ekki Taylor frá handriðinu fyrr en sannleikurinn var kominn í ljós, eða að Taylor hefði ekið á Dörlu. Þetta verður greinilega ættarleyndarmál, Stefanía er meira að segja búin að biðja löggumanninn um að hætta rannsókninni. Þegar Taylor kíkir á Hector á sjúkrahúsinu kemur í ljós að hann er orðinn blindur! Hún segir honum að Stefanía vilji að þessu verði áfram haldið leyndu og Hector er feginn að þurfa ekki að fara í fangelsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.6.2008 | 17:26
Kaldranalegt heilbrigðiskerfi
Langt síðan ég hef tekið innanbæjarstrætó og það var sama stuðið og vanalega. Hress bílstjóri og þægileg ferð. Í vetur eftir að strætó varð gjaldfrjáls var yfirleitt þröng á þingi. Sumir krakkarnir gerðu að leik sínum að fara hring eftir hring eftir hring ef það komu eyður í stundaskránni. Þar sem hér búa eingöngu þæg og vel uppalin börn held ég að bílstjórarnir hafi ekkert verið ofurpirraðir í barnfóstruhlutverkinu. Þetta er örugglega bara nýjabrumið á þessu. Lengi vel sat ég ein í vagninum í dag en svo komu nokkrar konur með börn upp í vagninn á leiðinni upp í Skógrækt í góða veðrinu. Sjá mynd.
Ákvað að skreppa í elsku Skrúðgarðinn eftir mjög svo faglega meðhöndlun Betu á dettíógæfumölinni-fætinum. Þar sat Ásta ásamt fleiri konum og var þrusugaman að sitja þarna og spjalla við þær. Ein konan var nýkomin úr aðgerð vegna brjóstakrabbameins, eða fyrir viku ... og var þetta fyrsti góði dagurinn hennar. Hún lenti í sama ógeðinu og ég árið 2004 og aðrar konur sem þurfa að leggjast á Kvennadeildina, sem þurfa að sprauta sig sjálfar með blóðþynningarlyfi daginn áður. Hún var svo heppin að skólahjúkka hér á Skaganum gerði það fyrir hana, svo hún þurfti ekki að fara inn á starfsvið hjúkrunarfræðinga, lögverndað að ég hélt, ... sem virðist þó þykja í lagi í þessu tilviki. Í hádeginu, daginn eftir aðgerð, var konunni svo hent út (útskrifuð). Maðurinn hennar enn að vinna en hún sárlasin þurfti að leita á náðir ættingja í Reykjavík fram á kvöld.
Mig langar svo rosalega mikið að vita hvort þessi sparnaður, eins og að láta konur sprauta sig sjálfar, nái yfir allar deildir og bæði kynin. Tek það fram að ef ég fæ sykursýki eða slíkt þá myndi ég bara læra að sprauta mig, ekkert mál, en þegar þetta kemur sem aukaálag ofan í slæmar fréttir þá er þetta ekki í lagi. Ég sat heima heilan dag og grét við þetta aukaálag, búin að vera svo æðrulaus að öðru leyti, vissi hreinlega ekki hvort ég væri að deyja eða þetta væri góðkynja. Hef hingað til ekki verið baggi á þessu kerfi og átti inni betri meðferð. Konan sagði að starfsfólkið á Kvennadeildinni hefði verið æðislegt, læknirinn hennar með vængi og vel hefði farið um hana á allan hátt en hún var þó allt of veik til að fara heim á hádegi. Þegar hún ók heim á Skaga með manninum sínum um kvöldið fannst henni þessi stutta leið óbærilega löng, henni leið svo illa. Hún var enn í hálfgerðu lyfjamóki þegar henni var leiðbeint um hvernig hún átti að hugsa um sárin á báðum brjóstum og mundi ósköp
lítið þegar heim var komið. Því miður var ekki hægt að fá þessa aðgerð gerða hér á Skaganum þar sem allt er mun mannlegra, alla vega enginn sendur fárveikur heim. Spítalinn hérna er frægur fyrir góða umönnun og hingað koma konur víðs vegar að af landinu til að fæða börn. Líka úr Reykjavík.
Ráðamenn þjóðarinnar tala fjálglega um að við eigum besta heilbrigðiskerfi í heimi. Kerfið okkar er vissulega gott að því leyti að við þurfum ekki að bíða í nokkrar/margar vikur eftir uppskurði við t.d. brjóstakrabbameini eins og tíðkast í sumum löndum. Hér er gripið inn í í hvelli og annars frábært starfsfólkið fer bara eftir sparnaðarreglum, skera, sofa, útskrifa!
Ásta var í miklu stuði og þegar maður úr bæjarstjórn settist hjá okkur í sólinni lét hún hann heldur betur heyra það. Svona meira í gríni. Ekki allir sem kunna að meta kaldranalegan húmor en Ásta getur sko verið meinfyndin þegar hún tekur sig til. Ég varði manninn með kjafti og klóm, enda bæði huggulegur og skemmtilegur. Ég sakna sárlega ferðanna með Ástu og Led Zeppelin kl. 6.40 á morgnana til Reykjavíkur þótt strætó sé frábær.
Er að horfa á leikinn Rússland-Spánn og myndin fraus reglulega þar til ég fattaði að setja RÚV á í sjónvarpstækinu, ekki í gegnum myndlykilinn, og rétt náði seinna marki Spánverja í fyrri hálfleik. Ég er karlinn í netabolnum með bringuhárin á þessu heimili með bjór í annarri og flögur í hinni (staðalímynd fótboltabullunnar). Erfðaprinsinn hefur engan áhuga, hlakkar til að sjá úrslitaleikina og búið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.6.2008 | 02:14
Harla óvenjuleg fjölskylda ...
Jim Bob og Michelle Duggar giftust 21. júlí 1984. Þau langaði ekki til að eignast börn alveg strax og fannst þau hvorki hafa efni á því né vera tilbúin. Fjórum árum síðar ákváðu þau að drífa í því. Michelle missti fóstur og komst að því að það var getnaðarvarnarpillunni að kenna sem hún hafði tekið fram að þessu. Trúaður heimilislæknir þeirra sagði þeim frá þessu með pilluna og hjónin iðruðust sárlega og fannst þau sjálfselsk með afbrigðum ... áttu að heita kristið fólk. Síðan hafa þau ekki hætt að eiga börn og það 18. á að fæðast í janúar á næsta ári.
Michelle er 41 árs og hefur verið ófrísk í rúm 11 ár eða í 137 mánuði. Að meðaltali eru 18 mánuðir á milli barnanna. Bleiur á börnin eru orðnar 90 þúsund talsins. Setja þarf 200 sinnum i þvottavél á mánuði.
Nöfn fjölskyldumeðlima hefjast öll á J nema mömmunnar. Öll börnin læra að spila á fiðlu og píanó. Í hópnum eru tvennir tvíburar. Hér kemur listi yfir krúttmolana, aldur þeirra og svo í réttri röð: eftirlætisdægradvöl, uppáhaldsmatur og hvað þau ætla að verða þegar þau verða stór:
Joshua, 20 ára, f. 3. mars 1988. Búa til myndbönd, mexíkómatur, lögmaður.
Jana, 18 ára, f. 12. janúar 1990. Passa börn, kjúklinganúðlusúpa, ljósmóðir.
John-David, 18 ára, f. 12. janúar 1990. Broomball, kjúklingaspagettí, verktaki.
Jill, 16 ára, f. 17. maí 1991. Að lesa, taco og trúboði.
Jessa, 15 ára, f. 4. nóvember 1992. Að sauma, pickles og snyrtifræðingur.
Jinger, 14 ára, f. 21. desember 1993. Á hestbaki, lasagna, kokkur.
Joseph, 13 ára, f. 20. janúar 1995. Hafnabolti, lasagna, trésmiður.
Josiah, 11 ára, f. 28. ágúst 1996. Sund, lasagna, trúboði.
Joy-Anna, 10 ára, f. 28. október 1997. Hjólreiðar, hrærð egg, hjúkrunarfræðingur.
Jedidiah, 9 ára, f. 30. desember 1998. Leika með hundinum, pítsa, pabbi.
Jeremiah, 9 ára, f. 30 desember 1998. Leika á róló, mjúkar kringlur, listamaður.
Jason, 8 ára, f. 21. april 2000. Á hestbaki, vanilluís og slökkviliðsmaður.
James, 6 ára, f. 7. júlí 2001. Vera í baði, kjúklingafylling, lögreglumaður.
Justin, 5 ára, f. 15. nóvember 2002, Taka til í leikherberginu, kjúklinganúðlusúpa, smiður.
Jackson, 3 ára, f. 23. maí 2004. Vera í baði, kjúklingafylling, stóri bróðir.
Johannah Faith, 2 ára, f. 18. október 2005.
Jennifer Danielle, 10 mánaða, f. 2. ágúst 2007.
Hvað ætli yngsta barnið verði látið heita?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.6.2008 | 15:06
Lævíslegt plott spákvenna og sjónvarpsfólks
A 2nd Chance for 7th Heaven Will be Here on June 26th hjá þér, kæra Gurri, ef þú aðeins kaupir eitthvað dótarí af okkur. Svona hljóðaði pósturinn sem ég opnaði áðan. Þetta minnir mig á spákonuna sem ég heimsótti í New York fyrir rúmum tíu árum. Eins og ég hef áður sagt frá virðist vera hægt að lesa mikla heimsku út úr svip mínum og í gegnum tíðina hefur mikið verið reynt að frelsa mig á allan hátt.
Spákonan í New York las mig þannig að ég væri hentugt fórnarlamb fyrir lævíslegt plott hennar. Ég var á skólaferðalagi og við vorum nokkrar staddar í Greenwich Village þar sem við sáum auglýsingaskilti í glugga. Konan bauð upp á lófalestur og tatorspil. Við ákváðum að skella okkur í spá til hennar í algjöru gríni. Þær sem voru hjá mér fengu eðlilega spá en það dimmdi yfir svip spákonunnar þegar hún las í spilin mín. Ég kann á tarotspil og veit að engan hrylling var þar að finna. Hún bullaði eitthvað sem ég man ekki hvað var og bætti svo áhyggjum sínum inn í lesturinn. Áhyggjum af framtíð minni. Eftir spádóminn rétti hún mér nafnspjaldið sitt og bað mig um að hringja í sig þegar ég væri komin til Íslands aftur. Ég ætlaði ekki að gera það en ein skólasystir mín manaði mig til þess og ég var líka pínu spennt yfir erindinu. Spákonan sagði að ef líf mitt ætti ekki verða táradalur þyrfti ég að senda henni fullt af peningum, í kringum 200.000 krónur að mig minnir. Hún ætlaði að láta nokkrar nornir gala seið yfir kristallssteinum, senda mér þá, ég ætti að hugleiða yfir þeim og síðan senda henni þá til baka þar sem nornirnar myndu ljúka verkinu.
Ég var móðguð yfir því að að konan héldi virkilega að ég félli fyrir þessu en gat svo sem sjálfri mér um kennt. Eins og þegar Guðsbörnin héldu að þau gætu frelsað mig inn í söfnuð sinn, söfnuðinn sem í útlöndum var víst mikið fyrir kynlíf með börnum samkvæmt heimildamynd um Guðsbörnin sem ég skrifaði um nýlega. En hva ... alltaf gaman að komast að því hvað lífið getur verið fjölbreytilegt. Algjör óþarfi þó að falla í allar gildrurnar.
Í vinnunni á föstudaginn var verið að tala um sjónvarpsþætti og samstarfsmaður minn ráðlagði okkur að fylgjast ekki með Traveler-spennuþáttunum á Stöð 2 þar sem framleiðslu var hætt á þeim í miðjum klíðum ... af því að ekki nógu margar milljónir fylgdust með honum í Bandaríkjunum. Ef þetta er rétt þá skil ég ekki hvers vegna þættirnir voru keyptir til landsins, þetta lá víst fyrir við kaupin og hefur gert í ár, að sögn samstarfsmannsins. En líklega er aldrei of illa farið með sumar-sjónvarpsáhorfendur. Fólk á að vera í ferðalögum á þessum árstíma eða úti í kvöldsólinni. Svona eins og á gamlárskvöld þegar endursýndar bíómyndir eru á dagskrá eftir miðnætti fyrst hvort eð er ALLIR eru úti á djamminu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.6.2008 | 02:54
Skemmtileg fórn ...
Fórnaði bæði Formúlu og fótbolta í dag fyrir skrepp í sveitina. Mikið var gaman að fara í bíltúr í fjölbreytilegu veðri, sól og rigningu til skiptis, og hitta sumarbúðafólkið. Nú er allt að breytast í sannkallað ævintýraland á Kleppjárnsreykjum. Skrifstofan er að verða voða fín og herbergin hvert af öðru fallegri.
---- o ---- o ---- O ---- o ---- o ----
Annars fólst aðstoð mín helst í því að senda foreldrum tölvupóst með undirbúningslista. Lítið hægt að gera annað, bakið slæmt, eflaust eftir að hafa legið of lengi í rúminu í morgun. Rúmið mitt er harður húsbóndi, þegar ég vakna þarf ég að fram úr strax, annars verður mér refsað grimmilega. Ég má ekki einu sinni lesa í korter, bara fram úr í hvelli! Hver framleiðir eiginlega svona rúm?
Þetta var frábær dagur þótt bökunarilmurinn frá Sigurjónu og co í eldhúsinu hafi verið að gera alla brjálaða (úr græðgi). Við fengum nýbakaða volga sandköku í kaffitímanum ... sem bætti fyrir allt. Mikið hlakka ég til að fara aftur um næstu helgi, eða fyrr. Þá verður fyrsti barnahópurinn kominn og mikið, mikið fjör. Mmmm, ég elska sumarbúðirnar (www.sumarbudir.is)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 3
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 156
- Frá upphafi: 1529039
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 132
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni