Færsluflokkur: Bloggar

Sokkar og sumarbúðir + hetjusaga um vídeótæki

Hrikalega gaman að vera í sumarfríi en það finnst líklega ekki almennilega fyrir því fyrr en á morgun og næstu daga þegar vekjaraklukkan hringir ekki kl. 7.15. Hún baulaði árangurslaust í gærmorgun, ég rumskaði ekki, sá bara í gærkvöldi að hún var stillt á hringingu.

Húllumhædagur setturNú er stefnan tekin á að fara í sumarbúðirnar á eftir og hjálpa til við að koma upp skrifstofunni. Fjöldi fólks er þar núna að skrúfa saman kojur, baka skúffukökur og slíkt. Fyrsti barnahópurinn kemur eftir nokkra daga.

Davíð frændi hringdi og grátbað mig um að fara í búð og kaupa sokka, hann steingleymdi að pakka sokkataui niður. Svona snyrtipinni skiptir um sokka mun oftar en kærustur án þess að ég viti nokkuð um kærustumálin hans. Davíð mun halda utan um kvikmyndagerðina í sumar, held ég. Alla vega tæknihliðina. Tengir líka allt fyrir karaókíkeppnirnar á sunnudagskvöldum, myndakvöldin, lokakvöldvökurnar, er bara gjörsamlega ómissandi.

Man þó eftir því þegar Hilda keypti sér nýtt vídeótæki og ég tengdi það. Leiðbeiningabæklingurinn var á sænsku, dönsku og finnsku .... Ákvað samt að verja einni kvöldstund í að tengja fokkings tækið í stað þess að bíða eftir Davíð. Það tókst með svo miklum ágætum að hægt var að taka upp efni úr sjónvarpinu af öllum stöðvum en það var líklega í fyrsta sinn í sögu vídeótækja heimilis Hildu sem það hefur verið hægt. Sterkur vilji og hetjuskapur. Segir líka ekkert annað en að systir hennar er snillingur. Það var stórmál að tengja tækið. Ég man þegar ég þurfti að standa á annarri löppinni og gala til að ná inn RÚV, tala tungum fyrir Stöð 2 og eitthvað þaðan af verra fyrir SkjáEinn. Vona að einn daginn verði afturhvarf til gömlu, góðu takkanna. Það þarf þotupróf á þessar fjarstýringar, svo mikil er tæknin.

Jamm, best að drífa sig. Tek myndir og skelli í bloggið í kvöld.  


Kröfur til karla á hverju aldursskeiði ...

Boldið rúllar í endursýningu í sjónvarpinu og ég sá loks fangann, konuna sem dæmd var til langrar fangelsisvistar fyrir að keyra full og valda dauða. Hún leit hroðalega illa út, hárið allt ruglað og svona en varirnar voru þó bólgnar og sexí. Frábært að hafa lýtalækna í fangelsum í Bandaríkjunum, vantar bara almennilega hárgreiðslustofu. Þarf flýta mér að slökkva á sjónvarpinu áður en Nick fer að syngja.

Ég ætla að njóta þess að vera í síðasta fríinu mínu áður en ég verð ábyrg og fullorðin núna í ágúst. Ætti kannski að reyna að ná mér í mann á meðan ég hef einhverjar kröfur.

Fann gamlan lista sem skýrir þetta betur. Hann segir til um þær væntingar og vonir sem við stelpurnar höfum til strákanna á mismunandi aldursskeiðum. Kröfurnar minnka eðlilega með árunum. En hér kemur þetta, fyrst kemur upprunalegi listinn og síðan endurskoðaðir listar á tíu ára fresti:

BrúðkaupUpprunalegur listi, 20 ára

Mjög myndarlegur.

Spennandi.

Alltaf klæddur samkvæmt nýjustu tísku.

Þekktur eða á þekkta foreldra.

Á flottan bíl.

Rómantískur.

Fer létt með að segja góða brandara.

Bráðgáfaður.

Er í arðbæru námi eða stefnir á það.

Býður stundum út að borða.

 

Endurskoðaður listi, 30 ára

Myndarlegur.

Heillandi.

Vel stæður

Umhyggjusamur hlustandi.

Fyndinn.

Í góðu líkamlegu formi.

Smekklega klæddur.

Kann gott að meta.

Hugulsamur og kemur á óvart.

Hugmyndaríkur og rómantískur elskhugi.

 

Endurskoðaður listi, 40 ára

Myndarlegur, helst með hár á höfðinu.

Opnar bíldyr.

Á nóg af peningum til að bjóða upp á góðan kvöldverð.

Hlustar meira en hann talar.

Hlær að bröndurunum þínum

Getur auðveldlega haldið á innkaupapokum.

Á að minnsta kosti eitt bindi.

Kann að meta góðan, heimatilbúinn mat.

Man afmælisdaga og brúðkaupsafmæli.

Er rómantískur minnst einu sinni í viku.

 

Endurskoðaður listi, 50 ára

Ekki of ljótur en má vera sköllóttur.

Ekur ekki af stað fyrr en þú ert komin upp í bílinn.

Er í föstu starfi og splæsir stundum í pylsu.

Kinkar kolli þegar þú talar.

Getur yfirleitt sagt brandara án þess að gleyma aðalatriði hans.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulagi til að geta fært til húsgögn.

Gengur í skyrtum sem hylja ístruna.

Veit að það á ekki að kaupa kampavínsflösku með skrúfuðum tappa.

Man eftir að setja klósettsetuna niður.

Rakar sig yfirleitt um helgar.

 

Endurskoðaður listi, 60 ára

Snyrtir nasahárin og hárin í eyrunum á sér.

Ropar hvorki né klórar sér á almannafæri.

Fær ekki of oft lánaða peninga hjá þér.

Sofnar ekki á meðan þú rausar yfir honum.

Segir ekki sama brandarann of oft.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulegi til að komast upp úr sófanum um helgar.

Er yfirleitt í íþróttasokkum og hreinum nærfötum.

Kann að meta góðan örbylgjumat yfir sjónvarpinu.

Man yfirleitt alltaf nafnið þitt.

Rakar sig stundum um helgar.

 

Endurskoðaður listi, 70 ára

Hræðir ekki lítil börn.

Man hvar baðherbergið er.

Þarfnast ekki mikilla peninga til framfærslu.

Hrýtur lágt í vöku en hátt þegar hann sefur.

Man hvers vegna hann er að hlæja.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulagi til að geta staðið upp hjálparlaust.

Er venjulega í fötum.

BrúðkaupVill helst mat sem ekki þarf að tyggja.

Man hvar hann skildi tennurnar eftir.

Man að það er helgi.

 

Endurskoðaður listi, 80 ára

Andar.


Tvöfaldir menn og dass af Dexter í nýju B-lífi

readingwomanNú er ég opinberlega orðin B-manneskja og ætla að fara seint að sofa, vakna seint, fá mér latte á kvöldin, lesa eins og brjálæðingur, horfa á EM í fótbolta, heimsækja sumarbúðirnar hennar Hildu (Ævintýraland), horfa á sjóinn og vonast eftir flottum öldum, taka til, kannski mála, horfa á sjónvarpið, sitja á svölunum, blogga, lesa blogg, kommenta, dekra tryllingslega við kettina og kenna erfðaprinsinum fleiri mataruppskriftir. Þetta er samt bara rétt byrjunin.

Ég steingleymdi hreinlega að vera ofsaglöð og syngja í strætó á leiðinni heim rétt fyrir kl. 19 en þá hófst sumarfríið mitt. Ný bók um Dexter, geðþekka fjöldamorðingjann sem drepur bara vont fólk, var að koma út og ég sökkti mér niður í hana.

Tvær löggurNýi Skagamannsstrætóbílstjórinn var undir stýri og ók eins og engill, verst þó að hann kveikti ekki strætóljósin í Hvalfjarðargöngunum, Heimir hefði gert það enda vill hann halda okkur farþegunum uppteknum við lestur svo að við gerum ekkert af okkur á meðan. Sniðugur strákur. Strætóbílstjórarnir voru tveir í kvöld þótt bara einn hefði keyrt, annar sat við hlið nýja bílstjórans, líklega til öryggis, mögulega ný stefna þegar ég er um borð. Þetta er nákvæmlega eins og þegar ég fæ sendingar úr Einarsbúð þá koma þeir alltaf tveir saman með vörurnar. Vottar Jehóva koma líka alltaf tveir saman og sama má segja um lögguna. Þótt ég sé brjáluð í karlmenn, eins og ég hef alltaf sagt, þá hef ég aldrei í lífinu daðrað við strætóbílstjóra undir stýri, það er eitthvað svo ábyrgðarlaust og setur aðra farþega og vegfarendur í hættu!

GummiHitti Gumma Ben fyrir utan Útvarpshúsið í dag. Hann fölnaði nú bara þegar ég spurði um jarðskjálftann en Gummi býr í Hveragerði. Hann reyndi ekkert að leika töffara og sagði að þetta hefði verið algjör hryllingur. Nógur var nú hristingurinn í himnaríki, ansi mörgum kílómetrum í burtu. Ungur, alveg hreint frábær starfsmaður bókarbúðarinnar í Iðu, var þarna líka og sagði að svo furðulega hefði viljað til að heima hjá bróður hans í Hveragerði hefði allt brotnað en litlar sem engar skemmdir orðið á heimili móður hans sem býr annars staðar í Hveragerði.

Jæja, Dexter bíður. Vona að kvöldið ykkar verði dásamlegt!


Óþarfaviðkvæmni kannski ... og loksins smá bold

Fékk far heim með unga blaðamanninum, þessum sem er stundum samferða mér í strætó á morgnana og vinnur hjá dv.is. Farið munaði heilmiklu og ég var komin heim fyrir kl. 4. Náði meira að segja að horfa á boldið um leið og ég skrifaði síðustu nýju lífsreynslusöguna í bókina. Nýju sögurnar verða 15 talsins og þær gömlu 35. Ákvað að sleppa einni gamalli og setja nýja sem ég fékk í gær í staðinn. Þetta verður dúndurbók, þótt ég segi sjálf frá ... hehehhe

womens-murder-club„Hvað er eiginlega að þeim á Stöð 2?“ spurði ég sárhneyksluð þegar ég var að skoða dagskrársíðuna þeirra fram í tímann. Þar var umsögn um nýjan þátt sem fer að hefjast, Woman´s Murder Club. Fjórar vinkonur eru ekki í neinum venjulegum saumaklúbbi ... og áhugamál þeirra slúður og sakamál. Eitthvað fannst mér ég kannast við aðrar lýsingarnar á konunum, ein rannsóknarlögga, önnur saksóknari,  þriðja réttarmeinafræðingur og sú fjórða rannsóknarblaðakona. Ég hringdi í Forlagið og spurði hvort það verið gæti að þessir þættir tengdust eitthvað bókum James Patterson um vinkonurnar fjórar sem hefðu tekið saman höndum til að leysa morðmál. Það reyndist rétt. Annað hvort hafa persónurnar breyst svona frá bókunum yfir í sjónvarpið en ég held samt ekki.

Sl��ra� um mor�Íslenskir saumaklúbbar eru heilagt fyrirbæri og algjör misskilningur að halda að þótt nokkrar konur hittist yfir kaffibolla sé það sjálfkrafa saumaklúbbur. Þar sem standa tvö tré er skógur ... þar sem sitja tvær konur er saumaklúbbur ... AllyMér finnst þetta að vissu leyti gera lítið úr saumaklúbbum ... og konum. Slúður hefur alltaf þótt ansi neikvætt, hvort sem karlar eða konur eru staðin að því, og hvers vegna eru þessar konur, sem leysa hin flóknustu morðmál, sagðar hafa slúður sem áhugamál? Ekki er það þannig í bókunum. Ég veit að Stöð 2 reynir að selja konum áskrift grimmt núna, það eru frábærir „kvennaþættir“ fram undan og ég ætla sannarlega að horfa á einhverja þeirra milli EM-leikjanna (Ally McBeal og fleiri). Þetta með að vísa til saumaklúbba og slúðurs laðar konur ábyggilega ekkert frekar að þessum þáttum, gæti frekar virkað öfugt á margar okkar. Ef ég vissi ekki að þessir þættir væru eftir bókum James Patterson myndi ég líklega sleppa þeim.

James PattersonRitstjórinn minn glotti bara að mér og sagði að ég væri allt of viðkvæm fyrir þessu, það getur svo sem alveg verið rétt. Ég tek það fram að ég verð líka grautfúl ef mér finnst vegið að karlmönnum á einhvern hátt eða reynt að gera lítið úr þeim. Líklega er þetta bara hugsunarleysi hjá Stöð 2 eða röng markaðssetning. Ætla samt að horfa á þessa þætti, enda eru bækurnar æsispennandi! Karlar í þessu annars ögn minnkandi staðalímyndaþjóðfélagi munu þó eflaust margir halda sig frá skjánum þar sem þetta eru greinilega algjörir stelpuþættir ... svona slúður-saumaklúbbadæmi eitthvað ... þeir sem vita ekkert um saumaklúbba ímynda sér held ég margir að þar fari bara fram kjaftagangur og slúður. Vissulega spjöllum við um ýmsa hluti í Sunnudagsklúbbnum mínum í þau fáu skipti sem við hittumst en ég myndi aldrei skilgreina það sem slúður. 

Takk fyrir að leyfa mér að fá útrás. Smile

taylor&hectorÆtlar þú að segja Thorne þetta?“ spyr Phoebe móður sína í þrítugasta skiptið.
„Hann á skilið að fá að vita sannleikann,“ svarar Taylor í þrítugasta skiptið. Nú ætlar hún að játa fyrir Thorne að það hafi verið hún sem ók á Dörlu.
Baker lögga, sem fann vínlykt af Taylor á sjúkrahúsinu eftir slysið, hefur hana sterklega grunaða um verknaðinn og hefur gengið hart að henni og líka Hectori brunaliðsmanni að viðurkenna þetta. Hann hefur meira að segja sáð fræjum efa í huga Stefaníu, mömmu Thorne. Baker finnst grunsamlegt að Hector skuli hafa farið með Taylor og Phoebe í heimsókn til konu í fangelsi, konu sem fékk langan dóm fyrir að keyra drukkin á manneskju og drepa hana. Ég missti greinilega af þeim þætti en hugsa að Hector hafi ætlað sér með þessu að koma í veg fyrir að Taylor játaði á sig verknaðinn.
Bíll fannst í Mexíkó sem passar við upplogna lýsingu Phoebe. Stolinn bíll sem fyrrum fangi ók, gæti mögulega verið sá seki ... en Baker heldur ekki.

Taylor biður Ridge, fyrrum mann sinn, að koma í heimsókn og lætur hann lofa því að hugsa vel um börnin. Hún segir honum ekkert meira og hann virðist áhyggjufullur.
Hector kemur til Taylor þegar Ridge er farinn og þau þrátta um málið enn einu sinni. Hector segir að Thorne muni aldrei fyrirgefa henni og að hún muni sitja í fangelsi í tíu ár. Hann muni sjálfur lenda illa í því, enda samsekur þar sem hann vissi allt um málið. Taylor segir að Thorne nái ekki að halda áfram að lifa lífinu nema vita hver drap konuna hans.

Hector býðst til að skutla Taylor heim til Thornes til að segja sannleikann, það minnsta sem hann getur gert ... hmmm. Þess í stað rænir hann henni og segir að hún megi aldrei segja neinum frá þessu og hann sleppi henni ekki fyrr en hún lofi ... Hún situr hrædd en hlýðin í bílnum. Þau slást síðan heima hjá honum og hann bindur hana við handriðið. Hún gargar og veinar en hann langar ekki í fangelsi og að missa vinnuna. Var búin að sjá hvað gerist á youtube-myndbandinu sem fylgdi síðustu færslu. Eldsvoði, Stefanía, Hector með bundið fyrir augun á sjúkrahúsi, mikið drama.

NickP.s. Best að vera hreinskilin. Ástæðan fyrir því hversu langt er síðan ég hef boldað er sú að Nick tók upp gítarinn í einum þættinum nýlega og söng ástarljóð til Brooke. Það tók 15 slökkviliðsmenn tvo tíma að laga hjartslátt minn og ég þurfti að drekka fimm kókflöskur til að hætta að kasta upp. Eða hefði þurft ef ég væri ekki svona hörð af mér. Ég hef ekki enn getað hlegið eftir áfallið og þetta atriði úr boldinu mun fylgja mér alla ævi, líka orsaka martraðir, skertan svefn eða hroðalegar andvökunætur. 

Nick með gítarinn sinn. 


Stoppistöðin G.U.R.R.Í.

G.U.R.R.Í.Ósköp róleg ferðin í bæinn eftir ótrúlega einmanalega bið á stoppistöðinni Gurrí, eins og Tommi, fv. bílstjóri, kallar hana.  Nafngiftin á stoppistöðinni við Garðabraut er þó ekki mér til heiðurs, þótt auðveldlega mætti halda það, heldur okkur öllum sem bíðum þar. Tommi elskar ekki bara mig, heldur alla farþegana!

G-ið stendur fyrir göfugmennsku okkar eða jafnvel góðvild (man aldrei hvort), U-ið fyrir hvað við erum unaðsleg, fyrra R-ið þýðir rósemd, enda eiginlega aldrei slagsmál í þessu skýli á morgnana, hitt R-ið fyrir röskleika, en við látum ekkert segja okkur það tvisvar að hoppa upp í vagninn þegar hann kemur, heldur berum við okkur rösklega að. Í-ið er svo auðvitað vegna þess að við erum svo íturvaxin eða íðilfögur, man heldur aldrei hvort.  Enginn beið sem sagt með mér á Stoppistöðinni Gurrí  í morgun og frekar fáir voru í vagninum. Enginn kom heldur upp í vagninn á sætukarlastoppistöðinni (sem er ekki skammstöfuð stoppistöð, ... sjúklega ælandi tyggjótöffarar ..., nei, það er ekki hægt að skammstafa sætukarlana mína)

Lesið í strætóMaðurinn sem starði á mig í gær í strætó númer 15 kom EKKI upp í vagninn í Mosó í morgun. Fálæti mitt hefur líklega orðið til þess að hann keypti sér bíl. Eða fékk bílprófið aftur í morgun eftir að hafa misst það. Eða hann er kominn í sumarfrí. Eða þetta var bara draugur sem bara við Lilja sáum þó báðar.

Náði að lesa allar 24 stundir og hálft Fréttablaðið á leiðinni. Snilld! Og hluta af Morð í Betlehem ... óvenjuleg spennubók sem lofar góðu!!

Ég náði að skrifa heilar 14 nýjar lífsreynslusögur í lífsreynslusögubókina en þar verða 50 stykki alls, eins og í fyrra. Ótrúlega gaman að rifja upp þegar ég var að safna þessum gömlu saman. Flissaði yfir Danska draumaprinsinum, einstaklega nískum manni sem vinkona mín deitaði ... það er bara ein saga sem ég man ekki eftir hver sagði mér, líklega hefur komið bréf til okkar eða einhver hringt.

Þetta lag hljómaði í strætó í morgun, þegar við vorum nýkomin niður í Kollafjörðinn. Mikið hélt ég upp á það í gamla daga:


Heimildamynd, sumarbúðir, frændamont og afmæli

JustinMikið var sérstök heimildamynd á dagskrá seint í gærkvöldi. Ég sá hana ekki frá upphafi en samt nógu mikið ... Hún fjallaði um Justin nokkurn, ungan og trúaðan mann, sem fer um Bandaríkin og frelsar unglinga hægri, vinstri. Hann virðist hafa næstum ótakmarkaðan aðgang að skólum, ja, nema einum, þar sem hann var beðinn um að koma kannski mögulega að ári liðnu þegar búið væri að koma á fót áfallahjálp. Hann grætti og stuðaði krakkana á samkomu þar og foreldrarnir urðu brjálaðir. Aðferðir hans eru umdeildar, hann er hörkutól, enda heitir herinn hans Harðjaxlarnir. Á samkomum er grátið og öskrað. Harðjaxlarnir „krossfesta“ hver annan, hæða, spotta ... og reyna að leika eftir ýmsa atburði sem gerðust fyrir 2000 árum, samkvæmt biblíunni.
Þegar Justin komst að því að Guð fórnaði syni sínum fyrir hann gerðist eitthvað innra með honum, sagði hann.

hardSvo fann Justin konu sem nú er farin að predika með honum. Hún hefur greinilega lítið álit á kynsystrum sínum og segir konur aðeins hafa tvo kosti í lífinu ... að freista (karlmanna) eða fela öðrum (karlmönnum) valdið. Sorrí, þannig er það bara, sagði hún. Svo er verið að tala um kvennakúgun hjá múslimum ... hehehe Justin er trúaður en líka bisnissmaður og klökknar og grætur á réttum stöðum. Honum tókst t.d. að fella gleðitár þegar hann fékk vænan fjárstyrk frá trúuðum ríkisbubba en hann hágrætur svo sem á samkomum líka, hardnailsen sýnt var frá nokkrum þeirra. Finnst flott hjá Stöð 2 að sýna svona myndir. Engin dómharka gagnvart Justin kom fram í myndinni ... og það gerði hana eiginlega áhrifameiri. Justin er af ríku fólki kominn og er afar ósáttur við miðaldra foreldra sína sem safna fé og hafa það allt of gott, að hans mati og vilja auk þess ekki frelsast. Hann hefur sannfæringarkraft og nær unga fólkinu með sér með því að græta það, niðurlægja það og byggja upp aftur, tala fjálglega um kynlíf, vera einn af því ... o.s.frv. Í lok myndarinnar kom fram að kaþólikkar hafa bannað honum að predika í kirkjum sínum þarna í sýslunni/fylkinu þannig að hann hefur snúið sér að því að frelsa þá lúthersku. Sjá Justin í youtube-myndbút hér neðst.

Sumarbúðirnar ÆvintýralandÞegar erfðaprinsinn sótti mig í sjúkraþjálfun í gær sátu tveir litlir strákar í aftursætinu, mér til mikillar furðu. Þeir komu til hans þegar hann var að leggja af stað og spurðu hvort þeir mættu vera samferða niður í banka þar sem mamma annars þeirra, kunningjakona erfðaprinsins, átti að vera en var ekki. Annar strákanna er nágranni minn héðan frá Akranesi og hinn býr á Hellissandi. Ég spurði þá hvað þeir ætluðu að gera í sumar. „Við erum að fara í Sumarbúðirnar Ævintýraland,“ sögðu þeir og bættu við að þeir hlökkuðu rosalega til. Mikið verður gaman hjá þeim, enda bestu sumarbúðir í öllum heiminum þótt víðar væri leitað!

Smá frændamont: Kolbeinn frændi, sem leit varla í bók í vetur, náði þrátt fyrir það fínasta árangri í vorprófunum (samræmdu?). Hann var í Grundaskóla sem er í næsta nágrenni við himnaríki. Kolbeinn gerði sér síðan lítið fyrir og gekk langa vegalengd, frá Akranesi upp í Skorradal, með 10 öðrum skátum. Tilgangur ferðarinnar var að safna fé handa blindum dreng hér á Skaga og þeim tókst að safna um 200 þúsund krónum. Bara frábært!

Elsku Anna vinkona á afmæli í dag. Sendi henni hugheilar afmæliskveðjur nær og fjær til sjávar og Ungverjalands þar sem hún dvelur reyndar þessa dagana.


Vandræðagangur í strætó - óþægileg orðnotkun 24 stunda ...

Blaðalestur í strætóMig langar að beina þeim eindregnu tilmælum til fyrirsagnahöfunda dagblaðanna að setja ekki orðið kynæsandi á forsíðu eða baksíðu blaðanna. Það getur verið ótrúlega óþægilegt í strætó ... Á baksíðu 24 stunda mátti sjá þetta orð frekar áberandi í morgun.

Við Lilja sátum í sakleysi okkar í leið 15 þegar karl á besta aldri (45-99 ára, hvað veit ég ...) settist við hlið mér, hinum megin við ganginn. Ég sneri frá Lilju til að blöðin okkar flæktust ekki saman og las græðgislega og sama gerði hún með sitt eintak. Eitthvað (miðilsgáfa?) varð til þess að ég lét blaðið síga örlítið og sá þá manninn sem starði á mig virkilega áfergjulega og var með subbulegt bros á andlitinu. Mér dauðbrá en var róleg, þótt ég sé ekki vön SVONA. Aðdáendur mínir eru yfirleitt þessi föla og interisant-týpa. Ég veit að ég var ekki með ljótuna í morgun ... þetta er ekkert grobb, bloggóvinir mínir sjá alveg um að halda mér á jörðinni og gæta þess að ég verði ekki of montin.

Fjör hjá öldruðum í strætóÉg held í alvöru að einhver hugrenningartengsl hafi orðið vegna orðanna á baksíðu blaðsins. Maðurinn sá þarna æðislega konu, nýklippta og alles, lesa blað þar sem mátti lesa æsandi orð (kynæsandi). Lilja tók eftir slefandi manninum og við vorum næstum eins og flissandi smástelpur afganginn af leiðinni, nema hann var of nálægt okkur til að við kynnum við að flissa.

„Af hverju tókstu hann ekki á löpp?“ spurði ritstjórinn minn. Ég held að henni finnist að ég eigi að grípa tækifærið og grípa þessa menn sem gefa mér auga. Ég er náttúrlega orðin 49 ára en hún ætti að prófa að taka strætó ... Ég ætti sko milljónir eiginmanna og kærasta ef ég tæki svona strætóaðdáun alvarlega. Með árunum hefur aðdáunin reyndar minnkað á einhvern óskiljanlegan hátt en spennandi atburðir gerast þó næstum því á hverjum degi.  Bara í strætóskýlinu á Skaganum í morgun keyrði Tommi, fyrrum bílstjóri, fram hjá og veifaði, það kalla ég uppákomu og aðdáun.

Fólkið við borðið mitt í matsalnum var ekki á eitt sátt um ísbjörninn. Flestir syrgðu hann en Hallgerður, falleg, ung og fíngerð stúlka, sagði: „Af hverju máttum við ekki éta hann?“ Svo frétti ég af lögreglumanni á landsbyggðinni sem fylgdist með kollegum sínum elta „manninn“ þarna uppi í fjallinu. (Hann kom seint inn í talstöðvasamskiptin) Skyldi honum hafa brugðið þegar þeir skutu hann?


Býflugur og Bandaríkjamenn ...

kl. 14.26Án efa verður fjöldi fólks á Langasandinum í dag. Veðrið er gjörsamlega himneskt og það svolítið spælandi að nú er villtur vinnudagur hjá mér. Að vísu náði ég að sitja í smástund úti í sólinni fyrir utan hárgreiðslustofuna mína en ég var í klippingu og skoli í morgun. Lítill köttur kom og settist hjá mér og þáði örlítið klapp. Afbrýðisöm býflugnadrottning kom þá fljúgandi og vildi láta klappa sér líka en ég hljóp nú bara inn, ekki öskrandi þrátt fyrir að hún hafi verið ansi nærgöngul. Þetta var líklega býflugnakóngur. Mikið fjör var á hárgreiðslustofunni að vanda og eiginlega skemmtilegra að vera innandyra.

Beta bjargaði endanlega deginum í sjúkraþjálfuninni og kenndi mér að auki nokkrar hallærislegar æfingar til að gera t.d. úti á strætóstoppistöð og heima. Kannski í lagi að láta samfarþegana flissa en veit ekki með kettina, þeir eru enn taugaveiklaðir eftir jarðskjálftann á fimmtudaginn. Beta vill meina að þessir jarðskjálftar viti á eldgos!

Hér fyrir neðan kemur myndband um konur í fjölmiðlum í Bandaríkjunum. Innihald þess er algjörlega öfugt við það sem á sér stað hér heima. Þá dáist ég t.d. að Ingibjörgu Sólrúnu fyrir gáfuleg og skynsamleg tilsvör en hneykslast hrikalega ef Geir H. Haarde sést oftar en einu sinni í sömu jakkafötunum.

 


Sumar á bið og hlaupandi feitabolla

Hvasst í MosóAnsi hvasst var á leiðinni frá Skaganum í morgun, við fukum til og frá Kjalarnesinu en hviður voru þó ekki mikið yfir 20 m/sek. Gummi bílstjóri stýrði okkur örugglega alla leið þótt hviðurnar tækju harkalega í á köflum. Á biðstöðinni í Mosó ákváðum við Lilja að sumarið væri á hold. Það var hvasst og kalt og eiginlega komið peysu- og vettlingaveður aftur. Ég lét veðrið þó ekki eyðileggja fyrir mér daginn, ég var nefnilega nýbúin að fatta mér til mikillar gleði að græna kortið mitt dugir akkúrat út þessa viku, eða til 06.06.08,en þá á Bubbi Morthens afmæli og ég byrja í sumarfríi.

Run fatboy runHorfði á mjög skemmtilega breska DVD-mynd í gær, Run Fatboy Run, og hló hástöfum að henni. Hún segir frá öryggisverði nokkrum sem yfirgaf ólétta konu sína við altarið fyrri fimm árum. ... Hann hittir son sinn reglulega og hefur ákaft reynt að vinna aftur hjarta konunnar. Hann fær sjokk þegar hún lendir á alvarlegum séns með öðrum manni. Sá er myndarlegur, í góðri vinnu og stundar ræktina. Hann stefnir meira að segja á að taka þátt í maraþonhlaupi eftir mánuð. Okkar maður, lúserinn, tekur til sinna ráða og ákveður að hlaupa maraþonið ... Ferlega skemmtileg mynd! Mjög fyndin og full af góðum og skemmtilegum leikurum.

Jæja, það verður nóg að gera í dag. Best að halda áfram að vinna. Megi dagurinn ykkar verða frábær og megi þessi ósk verða að áhrínsorðum. Ég er alla vega 50% góð í því, náði Svíaleiknum en klikkaði á ÍA-leiknum!


Að rústa Svíum, öðlast ofursjón ... og kvikmynd kvöldsins

Handbolti„Ætlar þú ekki að horfa á leikinn?“ spurði erfðaprinsinn um miðjan dag. „Æ, og láta Svíana rústa okkur, held ekki,“ svaraði móðirin. „HA?“ hváði erfðaprinsinn og himnaríki hrímaði. „Ég sagði að við myndum rústa Svíum,“ áréttaði ég með þjóðernisstolti í röddinni. „Vá, ég ætlaði að segja það,“ sagði prinsinn. Svona getur maður nú bjargað heiðri sínum á lymskulegan hátt og mögulega tryggt íslenska handboltaliðinu sigur með þessum áhrínsorðum. Það náðist myndbandsupptaka af þessu samtali. Tek fram að ég er afar ungleg í útliti og erfðaprinsinn ansi hreint karlalegur miðað við að vera á þrítugsaldri.

Ofursj�nFyrr sama dag:
„Sérðu einhverja breytingu á mér?“ spurði ég skömmu eftir hádegi. Erfðaprinsinn mændi á mig og svaraði neitandi. Ég hafði sett linsurnar í mig í fyrsta sinn í ábyggilega tvö ár en hann sá ekkert athugavert. Annars hef verið með arnarsjón í dag, sá m.a. bát úti á reginhafi og tilveran hefur á allan hátt verið mun skýrari. Er aðeins að hvíla mig á gleraugunum. Mér líður eins og súperhetju sem getur leyst upp málm. Spangirnar á gleraugunum eru farnar að særa mig á bak við eyrun, einhver málmhúð orðin löskuð. Ég setti límband þar rétt fyrir brottför í vinnuna á föstudagsmorgun og það var ekki fyrr en um hádegisbil sem einhverjum samstarfsfélaga varð að orði: „Það er límband í hárinu á þér.“ Held að til séu plasthlífar til að bjarga svona málum, fer í það síðar.

Hér kemur svo kvikmynd kvöldsins með texta fyrir þá sem skilja ekki mælt mál:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 7
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 160
  • Frá upphafi: 1529043

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 136
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband