Færsluflokkur: Bloggar
1.6.2008 | 13:02
Rafmagnsbíll, matarboð, 1986 og sumarfrí ...
Vinnudeginum lauk einstaklega skemmtilega í gær. Ritstjórinn minn keyrði mig á rafmagnsbíl niður í bæ og var gaman að sjá viðbrögð fólks við bílnum sem er lítill og krúttlegur. Hundrað kílómetra akstur á honum kostar 78 krónur! Það færðist blíðusvipur yfir aðra vegfarendur við að sjá þennan líka sæta bíl og fögru konurnar inni í honum. Við vorum þó ekki sammála um þennan sem flautaði á okkur á Miklubrautinni, ég held að þetta hafi verið aðdáunarflaut en Elín var viss um að einhver hafi verið að reka á eftir okkur. Hann kemst nú alveg upp í 70 þessi litli sæti dúllubíll en er svo sem ekki sá kraftmesti í brekkum, sé þungu steypubílana fyrir mér taka fram úr í Hvalfjarðargöngunum ... en 78 krónur fyrir 100 kílómetra ... þetta er framtíðin! Til eru bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni, aðrir þyngri og stærri sem komast á 90 km/klst. Elín skutlaði mér á Grettisgötuna til Nönnu Rögnvaldar í mat en það er orðið ansi langt síðan við höfum hist. Maturinn var fáránlega góður, þrírétta gómsæti með önd í aðalrétt. Hekla var stödd hjá ömmu sinni, skemmtileg og klár stelpa sem ég hef þekkt frá fæðingu. Ég hef eiginlega þekkt mömmu Heklu frá fæðingu. Hekla er að vinna að skemmtilegu skólaverkefni um árið 1986, tísku og fleira. Gaman var að rifja það ár upp yfir matnum, enda eitt skemmtilegasta ár lífs míns.
Það hittist svo vel á að brottfarartími okkar erfðaprins hentaði vel Lilju strætóvinkonu sem vinnur á Laugaveginum og alltaf fram á kvöld á föstudögum. Við gátum því gefið 20.45 strætó frá Mosó langt nef þegar við brunuðum þrjú heim á leið.
Nú er bara vika í sumarfrí hjá mér og EM í fótbolta ... já, og krúttlega stelpuþætti á milli leikjanna. Tek það fram að ég hef ekkert á móti sætum, væmnum og dúllulegum þáttum, sem eru líklega vinsælli af kvenþjóðinni, en mér finnst leiðinlegt hvernig þetta er sett fram hjá Stöð 2 og SkjáEinum. Veit til þess að fólk hefur sagt upp áskrift að Stöð 2 vegna þessa. Við stelpur höfum áhuga á miklu fleiri hlutum en tilfinningaríku efni, sem reynt er svo mikið að halda að okkur, við fílum líka alveg stjórnmál, bókmenntir, íþróttir og spennuþætti. Kannski er þetta ekkert stórmál en þetta litla skiptir samt líka máli.
Það skrýtnasta finnst mér þó að ef maður gagnrýnir þetta þá koma miður kurteislegar ásakanir um beiskju, offitu og skort á innihaldsríku lífi, jafnvel karlhatur. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska karlmenn, er eiginlega alveg vitlaus í karlmenn þótt ég sé ekki nógu dugleg að blaka augnhárunum framan í þá í veiðiskyni! Ég hlakka reyndar mikið til að sjá Ally McBeal-þættina aftur, þótt þeir séu flokkaðir sem kvenvænlegir, en ætla samt ekki að láta þá stela mér frá boltanum ef það hittist þannig á (sem ég vona ekki). EM er á fjögurra ára fresti og er algjör veisla. Annars ætla ég að njóta útiveru á svölunum í sumarfríinu (já, líka í rigningu), gera vorhreingerningu í himnaríki og lesa einhver ósköp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.5.2008 | 23:50
Tengdamamma frá helvíti, stjórnsamir vinir og morðóðar fyrrverandi!
Hingað til hefur hið mikla álag og þær gífurlegu hremmingar sem ungar konur þurfa að þola, sumar jafnvel fram á áttræðissaldur, legið í þagnargildi. Fyrir eitthvert kraftaverk tekst þeim flestum að komast klakklaust í gegnum þetta víti sem margir kalla bestu ár konunnar. Hahahahaha!!!
Útlitskúgun
Til að sleppa við samúð og/eða fyrirlitningu samborgara þinna þarftu að vera GRÖNN. Þér ber engin skylda til að vera gáfuð, góð, snjöll eða skemmtileg, bara GRÖNN. Ef þú ert GRÖNN færðu afgreiðslu í tískuvöruverslunum, kemst í betri vinnu og eignast fleiri kærasta.
Launamisrétti
Við kennum þeim starfið og áður en við vitum af eru þeir komnir með helmingi hærri laun en við.
Þeir verða yfirmenn okkar og reka okkur síðan til að rýma til fyrir ungum frænda sínum!
Mamma
Mömmur líta á dætur sínar sem keppinauta um hylli karla og daðra óspart við kærastana þína. Mamma þín er ómeðvitað að hefna sín á þér síðan þú varst þriggja ára og ástfangin af pabba þínum. Snúðu taflinu þér í hag og notaðu mömmu þína sem tæki til að prófa strákana. Þeir sem ekki falla fyrir henni komast áfram á næsta stig.
Tengdamamma
Þessar elskur kunna milljón aðferðir við að niðurlægja þig og gagnrýna án þess að nokkur annar verði var við það, síst af öllu sonurinn!
Þú munt örugglega ekki verða svona slæm tengdamóðir þótt þú vitir fullvel að engin kona verði nokkurn tíma nógu góð fyrir son þinn.
Vinir þínir
Vinir þínir eru tilætlunarsamir, lævísir, eigingjarnir og stjórnsamir. Þeir eru afbrýðisamir út í manninn því að nú þarftu ekki lengur á þeim að halda. Þeir reyna hvað þeir geta til að skemma sambandið, aðallega til að þú haldir áfram með víðfrægu, erótísku Evróvisjónpartíin þín fyrir einhleypa.
Vinir hans
Þarna leynist hreinræktað hatur! Þú ert vond kona sem sér til þess að hann hætti karlmannlegum lífsstíl sínum; fótbolta- og formúluglápi, jeppaferðum og bjórdrykkju. Þetta eru soddan fávitar, þeir ættu bara að vita að þú missir ekki af West Ham-leik, ert margfaldur sigurvegari í drykkjukeppni Vitabars, heiðursfélagi í Jeppaklúbbnum 4x4 og hefur veitt lax undanfarin sumur með Michael Schumacher (sem beitu).
Fyrrverandi hans
Fyrrverandi kærustum finnst nálgunarbann vera ögrandi svo að þú þarft að taka til þinna ráða:
1. Láttu tékka daglega á bremsunum í bílnum þínum eða skoðaðu ökuskírteini og starfsleyfi strætóbílstjórans þíns kvölds og morgna.
2. Hafðu alltaf dregið fyrir þegar þú ert heima.
3. Fáðu þér grimman varðhund, ógnvekjandi fuglahræðuvélmenni við alla innganga heimilis þíns eða tengdamömmu í forstofuherbergið.
4. Plantaðu nokkrum jarðsprengjum í bakgarðinn til öryggis ef henni tækist að komast yfir rafmagnsgaddavírsgirðinguna.
Fyrrverandi þinn
Halldór VEIT fullvel að þið eruð EKKI hætt saman, þú ert bara að ganga í gegnum erfitt tímabil. Halldór trúir því staðfastlega að þið giftið ykkur fyrr eða síðar og finnst það ekki skipta máli að þú giftist Gumma þínum fyrir fimmtán árum ... eða fimm árum eftir að þú hættir með honum sjálfum.
(Birtist sem grein í Vikunni fyrir nokkrum árum. Á enn fullt erindi til ungra kvenna)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
30.5.2008 | 13:53
Vinnuraunir - játningar eineltara
Í dag er síðasti dagurinn hennar Bryndísar í vinnunni. Hún tók einhver mannréttindi fram yfir tísku, snyrtingu, lífsreynslu og góðan móral hérna með okkur ... en hún er víst menntuð í slíkt.
Sannleikurinn er reyndar sá að mér tókst með miklum lúmskheitum að hrekja hana úr starfi. Skrifborðið hennar er við hliðina á skrifborðinu mínu sem gerði mér auðveldara fyrir að níðast á henni. Hún er alveg indæl og allt það en ég þoli ekki að vinna með manneskju sem hefur sama hringitón í gemsanum og ég. Síminn hennar hringdi oft og ég hélt alltaf að þetta væri síminn minn.
Nýja blaðakonan, Íris Hrund, er líka svona yndisleg eins og Bryndís en ég komst að því mér til mikils hryllings að hún er með þessa sömu hringingu líka. Þannig að ég þarf að byrja á ofsóknunum að nýju. Skil ekki hvers vegna ég bað ekki ritstjórann um að hafa þetta í huga við ráðninguna, nei, hún spurði bara hvort sú nýja væri ekki örugglega djammari! Að auki borðar sú nýja harðfisk, eins og Hrund og ritstjórinn minn. Hvenær ætli ég fái samstarfskonu sem borðar Smarties eins og venjulegt fólk (og alltaf að bjóða) og hefur símann sinn á silent? Held mér líki best við Björk, eða lyktina af henni. Hjá Nýju lífi er bannað að borða harðfisk í vinnunni fyrr en eftir kl. 17 en þá fá líka allir lestir að þrýstast fram og öll lykt/fýla er velkomin, skilst mér.
Að lokum kemur hérna dásamlegt föstudagslag og nú ætti mannskapurinn bara að drífa sig út á dansgólfið:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
30.5.2008 | 10:54
Að elda saman gráan kött ...
Morguninn var bara rólegur og ljúfur og ferðin í bæinn gekk vel. Ég sat umkringd eintómum Erlum og Liljum og pólskri konu sem fékk símtal akkúrat þegar áttafréttirnar hljómuðu eftir Göng. Skjálftinn var orðinn eitthvað svo yesterday hjá mér að ég gleymdi að spyrja Indverjann minn í leið 18: Há didd jú læk ðe örthkveik? Held reyndar að bílstjórinn hafi átt sök á óvenjudapurlegri stemmningu. Hann var Allir út að aftan-týpan þótt vantaði alveg miðjudyr á vagninn, bara fram- og afturdyr. Samt ósköp sætur karl. Ég veit að ekki er öll fegurð í andliti fólgin.
Tókst að sjokkera tvo unga, alvörugefna menn (með strætósvip) sem sátu fyrir framan mig í leið 18. Þeir fálmuðu eftir bjöllunni skömmu fyrir komu á stoppistöðina mína en ég náði að hringja og sagði ofsaspennt "Ég var fyrst!!!" svona eins og grobbinn krakki. Þeir höfðu nú alveg húmor fyrir þessu, dúllurnar. Aldrei of illa farið með góða menn ...
Einhvern veginn barst í tal í vinnunni hvernig fólk getur klikkað á enskunni og með því skemmt meðborgunum sínum konunglega. Björk vissi um einn sem heitir Hlynur og hringdi úr símaklefa í einhvern enskumælandi og sagði: My name is Hlæn, I´m calling from telephone klæf! Svo var það íslenski fótboltamaðurinn í sjoppunni í útlandinu sem ætlaði að fá bland í poka, svona hlaup fyrir afganginn. Hann sagði: I´m going to have Run for the Rest! ... og var ekki að grínast.
Svo er auðvitað alltaf fólk sem ruglar orðatiltækjum saman, eins og fyrrverandi eiginmaðurinn sem sagði við þá gömlu: Við höfum nú lengi eldað gráan kött saman ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2008 | 18:17
Dramatískar lýsingar erfðaprinsins og nýtt skjálftamyndband
Mikið hef ég hugsað sterkt til fólksins fyrir austan Fjall í dag. Ástandið var ekki gott í himnaríki, hér á Akranesi, lýsingar erfðaprinsins eru mjög dramatískar. Hann gat varla staðið uppréttur og horfði á sjóndeildarhringinn vagga til og frá. Þegar hann heyrði hluti detta úr hillum var honum öllum lokið og flýtti sér út. Ragnar á hæðinni fyrir neðan var honum samferða út, sem er skemmtileg tilviljun þar sem dóttir hans hún Lilja sat við hliðina á mér á leiðinni upp á Skaga áðan. Hún var einmitt stödd hjá honum þegar sá stóri reið yfir 17. júní 2000 og sagði að húsið hefði hrist mikið!
Gamla, þunga afaklukkan mín, sem er ofan á hárri bókahillu í vinnuherberginu, datt aftur fyrir sig (sjá mynd), bækur fóru úr hillum og niður á rúm erfðaprinsins. Jólagjöfin frá Úlfi og Ísaki, tvíburunum fallegustu, datt í gólfið en glerið brotnaði þó ekki. Ramminn er aftur á móti ónýtur. Það er eins og skjálftinn hafi verið meiri í vesturhluta himnaríkis, en ekkert datt úr hillum eða skápum í eldhúsinu. Þótt ég þjáist ekki af taugaveiklun ætla ég að færa rúmið mitt á eftir. Það stendur undir glugganum og ef kemur annar skjálfti harðari þá í versta falli myndi ég rúlla út um gluggann og næstum niður í sjó.
Hrund var að taka símaviðtal þegar skjálftinn reið yfir og sagði við viðmælandann að þetta væri ógleymanlegasta viðtal sem hún hefði tekið só far. Íris Hrund var inni í matsal og fann ekki neitt, grútspæld. Ein í vinnunni fékk SMS um að hús hefði hrunið í Hveragerði. Svo fékk ég fallegar kveðjuóskir þegar ég kvaddi samstarfsfólkið: Vá, hvernig þorir þú að fara í göngin?
Á stoppistöðinni í Mosó talaði fólk ekki um annað. Ein samferðakona mín á Skagann var akkúrat að teygja sig upp í hillu eftir möppu þegar hún fékk hana og nokkrar í viðbót yfir sig. Við hlustuðum á útvarpið á leiðinni og Kiddi bílstjóri sá til þess að enginn stór skjálfti kæmi á meðan við vorum stödd þar. Hann fann heldur betur fyrir skjálftanum, var enn á Akranesi að taka upp farþega á leið í bæinn. Hann hélt að stýrið væri að gefa sig. Sem betur fer var þetta nú bara jarðskjálfti ... eða þannig, verra ef rútan hefði verið biluð. Svo hrundi grjót úr Akrafjalli, samkvæmt manni sem var á leiðinni þar fram hjá.
Sendi Sunnlendingum góðar stuðningskveðjur. Elsku Ásdís bloggvinkona situr nú úti í garði hjá vinafólki sínu, heimili hennar á Selfossi illa farið og enginn má vera innandyra!
Varð að bæta Ingva Hrafni við, jarðskjálfti í beinni hjá honum:
![]() |
Skelfingarástand á Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.5.2008 | 15:56
Brothljóð og læti í himnaríki, svalirnar þó enn fastar við húsið
Sat hér í rólegheitum þegar allt fór að skjálfa. Strákarnir á Séð og heyrt öskruðu, fannst þetta bara stuð, meiri mannalætin, heheheh. Þetta var mikill skjálfti, ekkert ósvipað þeim stóra árið 2000, nema stóð ekki jafnlengi!
Ég hringdi í erfðaprinsinn, aðallega til að tékka á því hvort ekki hefði verið spennandi í himnaríki. Það var það spennandi þegar fór að hrynja úr hillunum að hann dreif sig út! Lagði ekki í að vera inni, minnugur skjálftanna í Kína. Mynd sem ég var ekki búin að hengja upp en stóð á bókahillu datt niður á gólf og brotnaði!
Djöfull var þetta svakalegt, sagði erfðaprinsinn, allt lék á reiðiskjáfi en svalirnar hanga enn á húsinu. Kettirnir voru enn eins og klósettburstar í útliti þegar hann druslaðist inn aftur.
Fyrri eigandi himnaríkis sagði mér að ástandið hefði verið ansi skelfilegt þar uppi í fjórðu hæð þegar stóri skjálftinn kom, er nú bara á jarðhæð í vinnunni! Jamm, vona að allt sé í lagi með ykkur, elskurnar mínar.
Viðbót: Vá, hringdi í mömmu, móður mína jarðskjálftahræddu, hún býr á 8. hæð í Asparfelli og var rosalega fegin að heyra í stelpunni sinni. Henni fannst þetta hræðileg upplifun, ef hún hefði ekki setið við borðstofuborðið hefði hún dottið, sagði hún. Æ, dúllan!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2008 | 13:06
Yfirsof, stoppistöðvarfréttir og Saga ástarinnar ...
Í himnaríki var ákveðið yfirsofelsi í gangi (hmmmm) sem tafði brottför um tvo tíma þótt munaði bara fimm mínútum að ég hefði náð 7.41 vagninum. Næsti strætó 9.41. Það var þó hægt að vinna í lífsreynslusögum þangað til. Svona yfirsof virðist núorðið vera eina leiðin til að hitta ástkæra heimabílstjórana, en Gummi Hafnfirðingur er næstum sá eini sem ég hitti. Þótt hann sé frábær er tilbreytingin alltaf best. Heimir krútt var undir stýri og kom okkur örugglega í Mosó.
Heimir hafði margt áhugavert að segja. Í fyrsta lagi verður endastoppistöðin ekki lengur við upplýsingamiðstöðina (Skrúðgarðinn), heldur færð til, Akratorg kom til greina en ekki varð samkomulag með það, spennandi að vita hvar hún endar. Vonandi stoppar strætó samt við Skrúðgarðinn, eina staðinn sem fólk getur beðið af sér hrikaleg vetrarveðrin. Svo er búið að færa stoppistöðina við íþróttahúsið nokkrum metrum austar og þar er komið biðskýli. Aðeins lengra fyrir Sigþóru að labba en hún fer létt með það, göngugeitin sjálf. Það eru byrjaðir tveir nýir bílstjórar, Haukur og svo kona sem Heimir man ekki hvað heitir. Vona að ég hitti á þau fljótlega og geti farið að elska þau eins og Heimi og Kidda ... já, og auðvitað Gumma.
Í leið 15 dökkhærð, hugguleg og glaðleg kona undir stýri... sem mig grunar að sé systir Röggu bloggvinkonu en þori ekki að fullyrða það, hvað þá rjúka á hana og spyrja.
Barbíkjú-kjúklingabringur, bollufranskar, kokkteilsósa og salat var á boðstólum í matsalnum. Fékk mér kjúllann og svo bara salat, mjög óvenjulegur fimmtudagsmatur, allir alsælir með þetta. Kokkurinn fékk marga plúsa í kladdann fyrir þetta. Við borðið sem ég sat var rætt um sumarfrí, hvað eigi að gera í fríinu og svona. Ein samstarfskonan ætlar til Fíladelfíu þar sem vinur þeirra hjóna býr. Hann hefur það greinilega nokkuð gott í lífinu, býr í stóru húsi með sundlaug og hefur hesta svo hægt verður að skreppa í reiðtúra um þjóðgarðinn í bakgarðinum hjá honum. Önnur ætlar að taka með sér fimm börn (og karl) til sólarlanda og hlakkar mikið til. Sú þriðja ætlar að liggja allan tímann á sænginni sinni á svölunum í sólinni. Þegar ég sagðist ætla að lesa, sofa og horfa á fótbolta bjóst ég við hneykslisaugnaráði en það kom nú ekki.
Það sem olli yfirsofelsinu morgunsins var líklega nýja bókin (kiljan) sem ég byrjaði að lesa í gærkvöldi. Ætlaði bara að lesa í svona 10 mínútur en gat ekki slitið mig frá bókinni fyrr en eftir klukkutíma. Hún er eftir Nicole Krauss og heitir Saga ástarinnar. Virkilega GÓÐ bók, titillinn segir voða lítið um hana. Persónusköpun er æðisleg og þetta er svo mikill konfektmoli að ég náði ekki að lesa hana í strætó í morgun, fannst ég missa af of miklu í truflandi umhverfi. Í kvöld mun ég bakka aðeins og endurlesa í friði og ró. Held að ég hafi ekki upplifað þetta áður, að hafa ekki undan að lesa bækur að sumri til. Það er náttúrlega ekkert annað en dásamlegt! Fékk í gær sniðuga bók sem hetir Viðurnefni í Vestmannaeyjum. Maðurinn (Guðjón í Hólum) kom með hana til mín og ég spurði náttúrlega hvort Einsi klink væri ekki í bókinni og hann var ekki viss. Auðvitað er Einar klink þarna, en hann er gamall samstarfsmaður minn úr Ísfélagi Vestmannaeyja síðan ég var 16 ára. Virkilega sniðug bók eftir Sigurgeir Jónsson sem var blaðamaður á Vikunni árið 1965, sagði Guðjón mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.5.2008 | 18:40
Bold úr himnaríki og hitt boldið - varúð
Himnaríkisbold: Erfðaprinsinn er með tannpínu dauðans og er stokkbólginn. Hann fékk neyðartíma hjá Ingjaldi tannlækni snemma í fyrramálið. Ingjaldi sem ég stökk upp úr stólnum hjá fyrir 40 árum þegar hann ætlaði að deyfa mig. Mömmu var nær að hræða mig til hlýðni með óþekktarsprautu þegar ég var lítil. Ég þjáðist af mikilli sprautuhræðslu til 21 árs aldurs. Svona voru bara tímarnir þá. Mér fannst strax heilbrigðara þegar ég hótaði syni mínum ungum að slíta af honum handleggina ... og honum fannst það svo fyndið að hann hætti að vera óþekkur.
Hitt boldið: Bridget ræðir ástamál sín við Nick, fyrrum eiginmann og núverandi stjúpföður, en Nick segir henni að Dante hafi aldrei verið nógu góður fyrir hana en Dante hefur snúið aftur til Feliciu, barnsmóður sinnar og hálfsystur Bridgetar, sem hann gat ekki hugsað sér að giftast fyrir nokkrum þáttum af því að hann elskaði Bridgeti heitast af öllu.
Taylor er búin að viðurkenna fyrir Thorne að hún hafi ekið á Dörlu, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir Hectors sjúkrabílaslökkviliðsmanns (var Hector ekki sætari, er búið að skipta um leikara? Eða er það hárgreiðslan?)
Varstu drukkin þegar þú myrtir konuna mína? spyr Thorne alveg brjálaður. Ég vildi bara að þú vissir sannleikann, þetta var slys, Darla datt út á götu og í veg fyrir bílinn minn, kveinar Taylor. Ásakar þú Dörlu fyrir að detta? Þú kemur hingað til að hugga mig og ert síðan bara að friða eigin samvisku.
Taylor vaknar æpandi, þetta var bara draumur. Phoebe huggar hana og hughreystir.
Thorne hringir í Taylor og ítrekar klikkað þakklæti sitt. Til að kvelja Taylor enn meira segir hann að nú sé Darla örugglega að horfa niður úr himnaríki á hana, þakklát fyrir stuðninginn sem hún veitir ekklinum og barninu hans. Hver myndi viðurkenna að hafa óvart drepið Dörlu í þessum sporum? Ekki ég.
Bridget tekur á sig sökina vegna sambandsslitanna við Dante, hann vildi hjónaband, barn og allan pakkann, karlmenn eru svo giftingarsjúkir. Bridget er útskrifaður læknir, það gerðist í kringum andlát Dörlu og Bridget vildi ekki gera veður út af því. Ég hef reyndar aldrei séð hana opna skólabók í þessum þáttum, bara vera á kafi í flóknum ástamálum þegar mamma hennar hefur stolið hverjum kærastanum af öðrum af henni .... ókei, tveimur. Nick vill halda upp á Dr. Forrester-nafnbótina en Dr. Bridget er ekki til í það.
Donnu og Ridge kemur vel saman og þau spjalla mikið saman, daðra pínku. Nick heyrir í þeim og segir fúll við Donnu: Ættir þú ekki að vera farin? Ridge er bara að leika sér að þér.
R.J. litli vaknar, sonur Brooke og Ridge. Donna fer upp og þá geta hanarnir rifist. Þú notar Donnu bara til að gera Brooke afbrýðisama. Er þetta rétt, Ridge? Ertu að nota mig til að gera systur mína afbrýðisama? spyr Donna sem kemur niður stigann, búin að hugga krakkann. Hún virðist sár.
Að lokum kemur hér æsispennandi myndband, klippa af atburðum sem hafa nýlega átt sér stað og munu gerast í framtíðinni:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.5.2008 | 11:33
Kremja, höfnun, ótíðindi + óvænt gleði&frábærar fréttir
Strætóferðin var svolítið sjokkerandi í morgun, höfnun, kremja, vondar fréttir af sumaráætlun ... Harpa harðneitaði mér um að setjast hjá henni þegar 25 krakkar úr Grundaskóla komu inn við íþrótthúsið. Hún vildi frekar fá vinkonu sína, var búin að veifa henni og vinkonan að koma inn í vagninn, alsæl yfir að hitta Hörpu. Ég gat því miður ekki velt mér upp úr því, Hafði ekki tekið eftir vinkonunni og gerði mig að fífli þegar ég bauð henni félagsskap minn. Ég settist fyrir aftan meinleysislega, svolítið góðlega konu en nú veit ég að útlit segir ekki rassgat! Þessi sakleysislega, næstum góðlega kona gerði sér lítið fyrir og hallað sætisbakinu aftur. Mér brá svo mikið þegar hnén krömdust að ég öskraði upp yfir mig, kvenlega þó og ekki mjög hátt.
Svona er að vera vaxin eins og fyrirsæta, eða með langar lappir. Hnén eru enn í hálfgerðri kássu eftir óhappið 2006 þegar ég datt á ógæfumölinni, sneri mig á vinstra og gataði það hægra (9 spor). Konan leit grimmdarlega á mig og setti sætisbakið upp aftur. Ég reyndi að segja henni að þetta væri allt í lagi, ég gæti setið útglennt alla leiðina í bæinn en hún svaraði mér ekki. Ég var viss um að ég hefði eignast óvin. Á Kjalarnesi kom kona inn í vagninn, settist brosandi hjá "óvinkonu" minni og ég heyrði mér til léttis að þær töluðu útlensku. Ekkert hatur í gangi, bara smá málleysi.
Aðalsjokkið var svo eftir: Nágrannakona mín sagði mér að ferð strætisvagns númer 15 sem við tökum alltaf í Mosó, verði lögð niður í sumar og að við þyrfum að bíða í 20 mínútur eftir þeim næsta! Þá verða allir of seinir í vinnuna sína og ég missti af leið 18 og þyrfti að bíða í 20 mínútur í Ártúni líka. Ef þetta er rétt og óbreytanlegt þá verð ég að leita að einhverjum Skagamanni sem fer í bæinn á bíl, ég nenni þessu ekki. Skrýtið að Strætó bs miði ekki við vinsælustu leiðina sína (27 Akranes) og finnist í lagi að láta 40 manns (eins og í morgun) bíða svona lengi og verða of seina í vinnuna.
Íþróttaþýðandinn hugumstóri svaf í leið 18 þegar ég kom inn. Aðeins tveir Indverjar voru í vagninum að þessu sinni. Ég vakti þýðandann á leiðarenda en syfja hans var vegna nokkurra sænskra stelpna sem höfðu gist heima hjá honum undanfarið og vöktu hann svo fyrir kl. 6 í morgun. Ég kvartaði yfir sumaráætlun strætó við hann og dagurinn byrjaði að skána. Ég lét það ekki ergja mig þótt sölumannskvikindi gærkvöldsins hefði lækkað stólinn minn niður á gólf og gert bakið laust. Nei, þetta verður góður dagur, hughreysti ég sjálfa mig. Ég tala bara við strætó, Gurrí mín, og segi þeim að ef þessi ferð leiðar 15 verði lögð niður þá muni allir Skagamenn verða of seinir í vinnuna sína, þeir hljóta að breyta því. Þeir eru svo góðir. Og fallegir. Já, og líta einstaklega vel út í dag. Þarna var ég komin í gírinn.
Þegar ég var að tékka póstinn minn sá ég eitthvað gullfallegt koma inn á sjónarsviðið, eða sjálfan Hermann Hreiðarsson. Ekki nóg með þetta ... Jói dreifingarstjóri fór á Kaffi París með frúnni sinni í gærkvöldi og hún sat næstum því í fanginu á Viggo Mortensen leikara, bara fréttin af þessu gladdi mig, enda fannst mér Viggó ákaflega huggulegur í Lord of the Rings-myndunum.
Samstarfskonur mínar hakka nú í sig harðfisk þannig að viðkvæmt morgunofurlyktnæmi mitt er í hálfgerðu sjokki. Ilmvatn (rakspíri) er stranglega bannað í kirkjukórum en lögin ná ekki yfir harðfiskát á vinnustöðum. Ég ætti kannski að sníkja bita af þeim, þá verður lyktin léttbærari.
Maður dagins er þó sá sem dúllaði sér á skurðgröfunni í Ártúnsbrekkunni á leið til Reykjavíkur. Löggan stoppaði hann, líklega fyrir of hægan akstur á annatíma. Skyldi hann hafa rifið kjaft við lögguna, eins og ungi maðurinn í 10/11, eða kunni hann mannasiði?
P.s. Viðbót til varnar strætó. Kíkti á sumaráætlunina og sé ekki betur en að við náum leið 15 á sama tíma og venjulega í Mosó. Mikið er ég ánægð með það. Hitt hefði ekki staðist, nema hugsunarhátturinn sé orðinn: Aldrei of illa farið með góða Skagamenn. Nýjasta eineltið: Gurrí, er það rétt að það sé búið að stofna fámenningarhús á Skaganum? Hehehe
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.5.2008 | 12:43
Tölvuvesen ... og lífsreynslusögur óskast!!!
Nú þjáist blessuð tölvan mín af minnisleysi. Reglulega kemur upp aðvörun um að minni hennar sé too low. Ég lenti í þessu í fyrra, minnir mig, og þá gaf Guðmundur bloggvinur mér gott ráð til að þjappa saman á tölvunni en ég get ómögulega fundið ráðleggingarnar hans þrátt fyrir leit. Hef eflaust skrifað milljón færslur síðan. Veit einhver hvað best er að gera? Ég man að þetta var mjög einfalt og fljótlegt, svona miðað við tölvu-fávita eins og mig. Tölvan uppfærir einhver forrit í hvert skipti sem ég slekk á henni, ég er þó búin að læra það ...
Mikið vona ég að okkur Skagamönnum fari að ganga betur í Landsbankadeildinni. Við erfðaprins ókum fram hjá þeim á æfingu í gær þar sem þeir skokkuðu á túninu við risaíþróttahúsið og hann flautaði ... vona að strákarnir hafi áttað sig á því að þetta var stuðningsflaut. Við elskum strákana okkar bæði í blíðu og stríðu. Held ég mæti bara í eigin persónu á næsta leik, það er hálfgert svindl að standa í einkastúkunni minni (svölunum) þaðan sem gargið í mér heyrist ekki alla leið. Nágrannar mínir horfa alltaf undarlega á mig í nokkra daga eftir heimaleiki.
Elsku bloggvinir. Lumið þið á skemmtilegri lífsreynslusögu í Vikuna? Hún (þær) má vera dramatísk, fyndin, krúttleg, sorgleg, spennandi eða hvað sem ykkur dettur í hug, stutt eða löng. Auðvelt er að breyta aðstæðum svo ekki þekkist hver á í hlut á meðan sagan skilar sér. Í þakklætisskyni fyrir sögu/sögur fær viðkomandi lífsreynslusögubókina 2007 og líka 2008 en nú er einmitt verið að undirbúa nýja bók. Í fyrra voru gefnar út 50 gamlar lífsreynslusögur sem seldust grimmt þótt bókin hafi aðeins verið til sölu í bókabúðum. Af þeim hafði Steingerður almáttugur (ritstjóri Hann Hún tímarits) skrifað 18 stykki á meðan hún var blaðamaður á Vikunni. Að þessu sinni langar mig að hafa nýjar sögur í bókinni, helst helminginn. Er búin að skrifa tvær. Sendið mér endilega línu, ég get hringt og tekið niður söguna í gegnum símann. Að sjálfsögðu er algjör nafnleynd. Ég er með netfangið gurri@birtingur.is og koma svo!!! Allir eiga sér sögur.
Einu sinni hitti ég nokkrar vinkonur mínar og bað þær í byrjun kvölds að segja mér nú einhverja sögu, ég þyrfti að skrifa lífsreynslusögu daginn eftir. Þær urðu algjörlega tómar og mundu ekki eftir neinu. Þegar við fórum á flug í spjallinu fékk ég heilar tvær sögur út úr kvöldinu, önnur tengdist einelti og hin hættu á ferðalagi. Vinkonur mínar og ættingjar hafa verið mikil uppspretta sagna og svo berast okkur stöku sinnum nafnlausar sögur frá lesendum, allt of sjaldan þó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 22
- Sl. sólarhring: 22
- Sl. viku: 175
- Frá upphafi: 1529058
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 149
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni