Færsluflokkur: Bloggar
27.5.2008 | 12:43
Tölvuvesen ... og lífsreynslusögur óskast!!!
Nú þjáist blessuð tölvan mín af minnisleysi. Reglulega kemur upp aðvörun um að minni hennar sé too low. Ég lenti í þessu í fyrra, minnir mig, og þá gaf Guðmundur bloggvinur mér gott ráð til að þjappa saman á tölvunni en ég get ómögulega fundið ráðleggingarnar hans þrátt fyrir leit. Hef eflaust skrifað milljón færslur síðan. Veit einhver hvað best er að gera? Ég man að þetta var mjög einfalt og fljótlegt, svona miðað við tölvu-fávita eins og mig. Tölvan uppfærir einhver forrit í hvert skipti sem ég slekk á henni, ég er þó búin að læra það ...
Mikið vona ég að okkur Skagamönnum fari að ganga betur í Landsbankadeildinni. Við erfðaprins ókum fram hjá þeim á æfingu í gær þar sem þeir skokkuðu á túninu við risaíþróttahúsið og hann flautaði ... vona að strákarnir hafi áttað sig á því að þetta var stuðningsflaut. Við elskum strákana okkar bæði í blíðu og stríðu. Held ég mæti bara í eigin persónu á næsta leik, það er hálfgert svindl að standa í einkastúkunni minni (svölunum) þaðan sem gargið í mér heyrist ekki alla leið. Nágrannar mínir horfa alltaf undarlega á mig í nokkra daga eftir heimaleiki.
Elsku bloggvinir. Lumið þið á skemmtilegri lífsreynslusögu í Vikuna? Hún (þær) má vera dramatísk, fyndin, krúttleg, sorgleg, spennandi eða hvað sem ykkur dettur í hug, stutt eða löng. Auðvelt er að breyta aðstæðum svo ekki þekkist hver á í hlut á meðan sagan skilar sér. Í þakklætisskyni fyrir sögu/sögur fær viðkomandi lífsreynslusögubókina 2007 og líka 2008 en nú er einmitt verið að undirbúa nýja bók. Í fyrra voru gefnar út 50 gamlar lífsreynslusögur sem seldust grimmt þótt bókin hafi aðeins verið til sölu í bókabúðum. Af þeim hafði Steingerður almáttugur (ritstjóri Hann Hún tímarits) skrifað 18 stykki á meðan hún var blaðamaður á Vikunni. Að þessu sinni langar mig að hafa nýjar sögur í bókinni, helst helminginn. Er búin að skrifa tvær. Sendið mér endilega línu, ég get hringt og tekið niður söguna í gegnum símann. Að sjálfsögðu er algjör nafnleynd. Ég er með netfangið gurri@birtingur.is og koma svo!!! Allir eiga sér sögur.
Einu sinni hitti ég nokkrar vinkonur mínar og bað þær í byrjun kvölds að segja mér nú einhverja sögu, ég þyrfti að skrifa lífsreynslusögu daginn eftir. Þær urðu algjörlega tómar og mundu ekki eftir neinu. Þegar við fórum á flug í spjallinu fékk ég heilar tvær sögur út úr kvöldinu, önnur tengdist einelti og hin hættu á ferðalagi. Vinkonur mínar og ættingjar hafa verið mikil uppspretta sagna og svo berast okkur stöku sinnum nafnlausar sögur frá lesendum, allt of sjaldan þó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
26.5.2008 | 12:11
Sætir Indverjar, ruslaföturæningi og beiskjufliss yfir
Eins gott að stoppistöð Grundaskóla og íþróttahússins kemur á eftir himaríkisstoppistöðinni við Garðabraut ... Ég var rétt búin að koma mér vel fyrir með öryggisbelti og bók þegar yfir 20 unglingar þustu inn og næstum fylltu strætó. Þeir voru á leið í Árbæjarsafnið með nokkrum kennurum. Stilltir og góðir krakkar sem eltu mig úr leið 27 yfir í 15, síðan úr 15 niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna í Ártúni. Það var freistandi að segja kennurunum að taka leið 6 (í Grafarvog) með hópinn en það hefði verið svo grimmdarlegt með allan hópinn, svo er fyrsti apríl liðinn. Elsku Indverjarnir mínir sætu voru í strætó og m.a. maðurinn sem ég spjallaði við á stoppistöðinni um daginn. Við heilsuðumst eins og ævafornir vinir og aðrir farþegar störðu á okkur! Úr augnaráði Íslendinganna skein: "Hvað er hún að tala við útlendinga?" Og úr augnaráði Indverjanna: "Hvað er hann að tala við innfædda?" Ef ekki munaði svona 20 árum á okkur, mér í hag, hefði ég kysst hann bless til að sjokkera en það er víst ljótt að fara illa með unga menn svona snemma á morgnana.
Fékk taugaáfall við komu í vinnuna. Ruslafatan mín er horfin og ekki nóg með það heldur er búið að stela stól markaðsstjórans líka. Við Ási skælum í kór. Það hressti aðeins upp á líðanina að vita að það verður steiktur fiskur með remúlaði í hádegismatinn.
- - - - - - - -
Núorðið flissa ég bara (pínku beisklega þó) þegar ég sé nýjar bloggfærslur fólks um "skömm" Skagamanna vegna flóttamannanna. Fólk þarf enn að fá útrás fyrir gremju sína út í skoðanir eins manns, eða fyrrum formanns félagsmálaráðs á Skaganum. Kannski er ég ekkert skárri, mögulega hefði ég sjálf tekið upp heykvíslina og gargað ef t.d. formaður félagsmálaráðs í Keflavík hefði lýst yfir áhyggjum sínum af komu flóttamanna ... og dæmt allt bæjarfélagið rasista, óhæfa til að taka á móti flóttakonunum og börnum þeirra. Held þó ekki. Skil ekki svona heift út í saklaust fólk. Maður var nýlega dæmdur í fangelsi fyrir að myrða mann á Hringbrautinni. Getur verið að allir sem búa við Hringbraut séu morðingjar? Er ekki verið að kreista og kreista til að ná sem mestu úr þessu máli og jafnvel refsa okkur Skagamönnum fyrir að leyfa manni með "svona skoðanir" að búa hér? Ég skil þetta samt ekki, það varð allt vitlaust í bæjarstjórn yfir þessu og Magnús látinn hætta vegna skoðanna sinna. Af hverju þá að velta sér svona upp úr vondum Skagamönnum? Ég er kölluð rasisti í vinnunni minni en finnst það bara fyndið, engin meining þar að baki, bara góðlátlegt grín. Samt hefur þetta skaðað bæjarfélagið alveg helling og engin lógík á bak við það!!! Sumir virðast hafa bitið í sig að við viljum ekki taka við flóttamönnunum! Miðað við hvað bæjarstjórnin greip hratt inn í þetta þá eigum við ekki svona skilið! Frétt RÚV um þetta mál var illa unnin og léleg, bara gerð til að staðfesta þennan orðróm um rasismann´á Akranesi ... en kvöldið eftir var frétt Stöðvar 2, miklu betur gerð, en þar var viðtal við Magnús Þór og síðan götuspjall við fjölda Skagamanna sem öllum fannst frábært að fá flóttafólkið!
Útrás dagsins var í boði frú Guðríðar! Og ég lem ykkur ef þið reynið að skamma mig fyrir að vera Skagamaður!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.5.2008 | 13:21
Óvænt stefnumót við mjólkurkælinn og Formúlujátning
Okkur erfðaprins langaði í eitthvað gott til að maula með Evróvisjón í gær og skruppum í Krónuna. Við sleiktum út um þegar við sáum óverðmerkt Tiramisú í kælinum og skelltum í körfuna. Skiluðum því síðan ... það kostaði yfir 1.000 kall. Keyptum einn snakkpoka á 189 krónur en útlenska tegundin kostaði næstum 400 kall. Þó að ég hafi verið á kafi í verðpælingum fylgdist ég samt vel með umhverfinu og sá mann koma gangandi framhjá ostakælinum og áleiðis að mjókinni þar sem ég stóð. Eitthvað fannst mér ég kannast við hann og spurði hvort hann héti kannski Þröstur bloggvinur, www.motta.blog.is. Hann svaraði ekki strax svo ég stakk upp á fleiri fuglsnöfnum. Már? Valur? Magnús, Sigurður? Gottsveinn? Guðmundur? Nei, ég heiti Þröstur! sagði hann illskulega. Ég kynnti mig og brosti breiðu himnaríkisbrosi sem ég hef æft margoft ef ég skyldi nú lenda í spennandi uppákomum. Ekki hafði brosið nokkur áhrif á Þröst sem sagði reiðilega: Ég veit ekki betur en að ætluðum að hittast fyrst í Einarsbúð? Þetta var hárrétt hjá honum, við áttum stefnumót í Einarsbúð inni í framtíðinni, en það var ekki bara hægt sisona að afkynna sig og láta sem ekkert hefði gerst. Maður hittir ekki bloggvini sína í mannheimum á hverjum degi.
Umhverfi skiptir síðan öllu máli og ég get ekki verið fegnari yfir að hafa ekki hitt Þröst hjá t.d. klósetthreinsiefnunum eða dömubindunum. Ef þetta hefði gerst í apótekinu og ég að kaupa gyllinæðarkrem, pilluna, lúsasjampó eða pensílín ... kræst, það hefði verið skelfilegt. Nei, mjólkurkælirinn var ágætisrammi fyrir þessi fyrstu bloggvinakynni. Á ekkert að klípa mig í rassinn? spurði hann svo. Kannski var hann að gantast, kannski ekki. Áður en ég gat svarað, hvað þá gert nokkuð, kom erfðaprinsinn hlaupandi og eyðilagði þessa fallegu stund. Hvaða maður er þetta? Hvað hef ég ekki sagt þér um ókunnuga menn? Hann nánast skellti mér í innkaupakörfuna og hljóp með mig að kassanum. Jamm, svona voru nú fyrstu kynni okkar Þrastar bloggvinar.
Nú er Evróvisjón eitthvað svo gærdags og komið að Formúlunni. Mér finnst keppnin í Mónakó alltaf leiðinlegust. Það hefur þó verið óvenjumikið fútt í henni núna þar sem rignir ... en vanalega er ekki séns að fara fram úr hinum bílunum ... þannig að án rigningar, óhappa eða tafa á viðgerðasvæðinu rúllar þetta bara hring eftir hring eins og mislitur þvottur í þvottavél.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.5.2008 | 22:45
Sannir vinir og svo hinir sem fá senda þorrabakka
Bretland 6, Lettland 2, Portúgal 7, Noregur 8, Spánn 4, Malta 6, Finnland 7, Svíþjóð 8 og
Danmörk 12.
Þessi lönd eru vinir okkar, alvöruvinir. Til þessara landa skulum við fara í sumarfrí, knúsa, kyssa og þakka fyrir okkur. Hinir fá senda þorrabakka við fyrsta tækifæri. Já, ég hélt sko bókhald yfir þetta.
Fann fyrir ógurlegri þakklætistilfinningu þegar elsku Danir gáfu okkur fullt hús og komu okkur upp úr 17. sæti (held ég) og upp í það 14. (held ég).
Nú er það bara spennubók, Griðastaður eftir Raymond Khoury. Hún er í Da Vinci-lykilsstíl, sýnist mér.
Um bókina: "Napólí árið 1750. Í skjóli myrkurs ryðjast þrír vopnaðir menn undir forystu prinsins af San Severo inn í höll eina og krefjast þess að íbúi hennar ljóstri upp leyndarmáli sem hann einn þekkir. En hann sleppur og eftir stendur prinsinn, heltekinn af trylltri löngun til að komast yfir leyndarmálið.
Bagdad árið 2003. Í brennandi eyðimerkurhitanum rekst herfylki í eftirlitsferð á leynilega rannsóknarstofu þar sem tugir karla, kvenna og barna hafa verið myrtir á hryllilegan hátt. Vísindamaðurinn sem ber ábyrgð á voðaverkinu kemst undan en skilur eftir vísbendingu, dularfullt tákn sem virðist búa yfir ógnarmætti.
Í Berút er fornleifafræðingnum Evelyn Bishop rænt og Mia dóttir hennar leggur upp í háskalega ferð til að finna hana og komast að leyndarmáli táknsins."
Nýbúið er að ræna Evelyn þar sem komið er sögu hjá mér og Mia, dóttir hennar, er enn í yfirheyrslu.
Megi annars kvöldið verða gott hjá ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.5.2008 | 14:14
Hver skipuleggur eiginlega konunglegt brúðkaup á Evróvisjóndegi?
Ef ég væri Jóakim prins væri ég ansi fúl út í dönsku hirðina. Hver skipuleggur eiginlega konunglegt brúðkaup á Evróvisjóndegi? Alveg er ég viss um að brúðarmeyjan unga hefur harðneitað að taka þátt í þessum mistökum. Brúðkaupið hefur algjörlega í skuggann af keppninni þegar fólk um allan heim keppist við að undirbúa hátíðina. Matar- og kökuilmur berst nú frá hverju húsi og yfirgnæfir hreingerningalyktina. Hátíðin gengur í garð kl. 19 og þá hafa prúðbúnir Íslendingar í hátíðarskapi sest fyrir framan sjónvörpin sín, nema þeir sem eru auðvitað á síðustu stundu með allt. Mikið vona ég að áfengisdrykkja setji ekki svip sinn á hátíðina eins og stundum áður. Mér finnst þetta of heilagur dagur til að hafa áfengi um hönd. Við þurfum líka að vera með vel á hreinu hvaða lönd gefa okkur stig upp á að geta ákveðið hvert á að fara í sumarfríinu. Kannski það eina góða við brúðkaupið á þessum degi er að ef Ólafur og Dorrit eru þarna þá geta þau hringt úr veislunni og gefið Íslandi atkvæði sín.
Þegar ég kom heim í gær lá erfðaprinsinn í svarta sófanum og hélt blíðlega utan um ... skrúfjárn. Ég argaði upp yfir mig, enda langar mig í alvörutengdadóttur. Þetta er skrúfjárnið sem kom uppþvottavélinni í lag, útskýrði hann. Ég hringdi í Smith og Norland og spurði út í bilunina (ekki hægt að loka vélinni) og þeir sögðu að ég gæti auðveldlega lagað þetta með skrúfjárni, sagði hann himinglaður og kossunum rigndi yfir skrúfjárnið. Eins gott að ég var ekki búinn að vaska allt upp úr þvottavélinni. Skipting heimilisverka í himnaríki er einföld. Erfðaprinsinn gerir allt! Ég tilkynnti honum þegar hann var 27 ára að síðustu 2027 árin hefðu konur séð um heimilisverk. Næstu 2027 árin væri komið að körlunum. Það yrði mér sönn ánægja að taka við þeim aftur þá. Hann er í þessum skrifuðum orðum að bóna ... húsþakið.
![]() |
Brúðarmeyjan mætir ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.5.2008 | 21:40
Ég var misnotuð af Halldóri frænda - sjokkerandi frásögn
Halldór frændi þekkir alla og veit um allt sem er í gangi í þjóðfélaginu. Hann er sá sem segir mér stundum kjaftasögur. Þótt nánasti vinnustaður minn innihaldi bara konur og Haffa Haff heyri ég sjaldan slúður í vinnunni. (Nú er ég örugglega búin að eyða þeirri mýtu að allar konur slúðri en allir karlar þegi.) Um daginn benti Halldór mér á frétt á www.dv.is þar sem fram kom að heyrst hefði auglýsing (af hverju fattaði ég þetta ekki þá?) á Bylgjunni þar sem Sturla væri að sverja af sér einhver læti um komandi helgi. Halldór sagðist hafa heyrt að það yrði allt snarvitlaust hjá trukkabílstjórum, svo brjálað að Sturla sjálfur ætlaði ekki að koma nálægt þessu. Þetta fór að síast
út og við vorum alla vega tveir nytsamir sakleysingjar sem skelltum þessu á bloggið okkar, við Jens Guð. Í ljós kom að þetta var auglýsingaherferð fyrir EJS sem ætla að verða með læti á morgun, eða verðlækkun á tölvum. Af þessum útsölum öllum sem tröllríða þjóðinni hefur Halldór greinilega ætlað að skera sig aðeins úr með því að niðurlægja okkur flottustu bloggara landsins, okkur Jens Guð. Ég er ekkert voða reið út í Halldór ... en kannski reiðast einhverjir. Nú verður óeirðalöggan gjörsovel að afpanta skriðdrekana og kannski skemmir þetta alla möguleika á að við fáum rafbyssur, alla vega í bili!
Horfði vel og vandlega á Evróvisjónkeppnina í gærkvöldi, nýböðuð og í upphlut, og kaus síðan siðprúðasta lagið, Portúgal. Ekki endilega af því að svo lítið var af holdi (erfðaprinsinn var farinn að kvarta yfir notkun holds til að fela lélega tónlistarhæfileika ...), heldur af því að búningar Portúgals minntu svo á sloppana (risastóru, víðu pilsin sem náðu frá hálsi og niður að hnjám og hefði komið rok hefðum við tekist á loft) í skemmtilegu krabbameinsskoðuninni á Skaganum um daginn. Flott að norrænu þjóðirnar komust loksins allar í úrslit, djöfull skulum við kjósa hver aðra!
Ég vona að það verði ekki framlenging, stundi erfðaprinsinn skömmu áður en tilkynningin sem breytti öllu var lesin upp (Iceland!) og leit órólegur á klukkuna, enda Bones að hefjast á Stöð 2.
Við farþegarnir í strætó veifuðum íslenska fánanum í morgun þeim sem við mættum og þeir voru líka með fána, veifur, blöðrur og hátalara ofan á bílunum sem spiluðu í sífellu This is my life. Fínn undirbúningur fyrir hinn sigurinn (annað kvöld), nú verður að spýta í lófana til að klára nýja tónleikahúsið. Æ, við erum svo mikil krútt. Hvaða þjóð sturlast svona yfir því að komast í Evróvisjón nema við? Well ... Við erum reyndar þjóðin sem bauð kynlífsráðgjafa á Bessastaði í móttöku hjá forsetanum okkar. Ekki sé ég fyrir mér að Englandsdrottning bjóði Jónu Ingibjörgu í teboð eða George Bush haldi móttöku fyrir hana í Hvíta húsinu ... þótt hún sé án efa alveg jafnfrábær og Dr. Ruth.
Talandi um drottningu. Áður en ég fékk ritgerðina góðu í yfirlestur í fyrrakvöld hafði móðir tilvonandi stúdents breytt ýmsu, m.a. því að einhver kóngur í Bretlandi hefði kastað upp öndinni úr lungnakrabbameini. Sonurinn fékk rúmlega 7 í einkunn fyrir ritgerðina ... sem er bara kraftaverk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.5.2008 | 13:30
Hollasta Evróvisjónsnakkið, heitar umræður um hádegismat og Vikuauglýsingar á youtube.com
Jóhannes tæknimaður settist við borðið hjá mér í hádeginu og ég beið spennt eftir viðbrögðum hans þegar hann fékk sér fyrsta bitann af bakaða reykta fiskinum í hvítu sósunni. Þar sem við vorum fyrstu gestirnir í matsalnum vildi ég getað varað aðra við ef liði yfir Jóhannes. Jóhannes brosti, þessi elska, og sagði þetta vera í fínu lagi. Þá mundi ég eftir því að hann er úr sveit og niðri í kjallara heima hjá honum hefur örugglega verið tunna með súrmat sem börnin stálust í ...
Matarminningar mínar, öllu heldur martraðir, tengjast einmitt reyktum fiski, súru slátri, köldum hafragraut með skán, hræringi, heitum vanillugraut með skán og saft, grásleppu, rauðmaga, hrognum, lifur, jólaköku, nætursöltuðum fiski, saltfiski, hamsatólg og slíku.
Börn, sem alin voru upp á sjöunda áratugnum, hafa skipst í tvo flokka, þau sem eru enn á lífi eftir þetta og vöndust þessum mat þangað til hann þótti góður (Tommi í BYKO) og hin sem naumlega lifðu þetta af og fá hjartslátt við það eitt að minnst sé á matinn (allir hinir).
Þegar Bryndís kom að borðinu og settist við hlið mér gaut ég augunum að diskinum hennar og sá reyktan fisk. Kræst, þetta var spennandi Bryndís er fædd á áttunda áratugnum, ( soðin ýsa-kynslóðin en hakk og spagettí á hraðri leið inn) fölnaði eftir fyrsta bitann og spurði hræðslulega hvað þetta væri. Beisk og gömul í matarhettunni gat ég nú sagt henni að þetta væri reykt ýsa, heillin. Ég sat og hakkaði í mig hollusturéttinn á meðan ég gerði þessa mannfélagsfræðitilraun í huganum. Hollusturétturinn var svo góður. Innbakað spínat og svo fullt af góðu salati með. Elín bættist í hópinn með spínatið og varð skrýtin á svip þegar hún smakkaði. Hvaða kanilbragð er þetta? sagði hún hneyksluð, eins og manneskja sem kann ekki gott að éta. Ég var búin að borða tvo svona spínatkodda með bestu lyst en Elín var ekki hrifin. Hún sagði að mötuneytið hefði örugglega villst á sæta smjögdeiginu og því ósæta. Þar sem mér finnst allt sætt æði (sætar kökur, sætir strákar ...) fannst mér sætt bragð ekkert skemma grænmetisréttinn ... ´
Á markaðinn er að koma nýr Toppur og við Vikukonur fengum sendan einn kassa. Ég tek með mér flösku heim og kæli vel áður en ég smakka yfir Evróvisjón í kvöld. Samstarfsstelpurnar, sem ætla í Evró-partí í kvöld á vegum vinnunnar eru stórhrifnar af þessum drykk, tveimur tegundum: (með eplum og með ferskjum). Hrund sagði þetta hollasta Evróvisjónsnakk sem hún hefði heyrt um þannig að ég verð líklegast eina manneskjan með viti í vinnunni í fyrramálið.
Svo voru að koma sjónvarpsauglýsingar fyrir Vikuna. Ilmur snillingur er í aðalhlutverki og ferst það vel úr hendi, eins og annað. Þessar auglýsingar gera út á að við séum alvörublað með alvöruviðmælendur og með alvörulesendur. Vörum við eftirlíkingum ... heheheheh Ég var stressuð en svo sá ég Ilmi og óttinn hvarf. Fólk hér innanhúss er mjög hrifið. Fyrri auglýsingin var sýnd á SkjáEinum í gærkvöldi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
22.5.2008 | 11:24
Bensínhækkun og söguleg hefðardúlluritgerð
Læddist hægt út úr himnaríki í morgun til að forðast truflanir á borð við kaffi og dekkað morgunverðarborð frá erfðaprinsinum. Enda náði ég strætó án nokkurrar miskunnar. Gummi bílstjóri lék á als oddi, var með Bylgjuna á hæsta en sem betur var ekki umræða um kynsjúkdóma í Danmörku eins og í gær þegar Gummi hækkaði til að refsa mér fyrir að hafa komið með kaffi í strætó. Stundum eru umræðuefnin svolítið ógeðsleg í morgunútvarpinu, sérstaklega þegar maður dormar í sætinu og hugsar um ísbirni. Vill maður láta trufla sig með ógeðsfréttum við það?
Ein samstarfskona mín frétti á bensínstöð í morgun að það ætti að hækka bensínið í dag enn og aftur. Ég lyfti annarri augabrúninni af hneykslun og kreisti græna strætókortið mitt ástúðlega.
Ég var lömuð af þreytu eftir leikinn í gær og tölvan var eitthvað slöpp líka, svo hæg og leiðinleg að ég nennti ekki að blogga. Nú vantar mig góðu ráðin frá Guðmundi almáttugum sem kenndi mér eitt sinn í kommentakerfinu mínu frábæra leið til að þjappa efni í tölvunni saman þegar hún er orðin soldið full. Hún hefur ekki æmt eða skræmt í rúmt ár eftir að ég snillingaðist svona. Held að það taki of langan tíma að leita í milljón færslum og enn fleiri kommentum ... nú ef Guðmundur sér þetta og man ....
Vinkona mín hringdi rétt eftir að seinni hálfleikur hófst í gærkvöldi og bað mig um að lesa yfir ritgerð sem sonur hennar átti að skila nú í morgun. Mér fannst það lítið mál, ætlaði að gera það yfir Gray´s Anatomy og jafnvel Medium á Stöð 2 plús ... og varð ekki einu sinni stressuð þegar vinkonan sagði mér að hún héldi stundum að sonurinn kynni ekki orð í íslensku. Hún flissaði blíðlega, svona eins og mæður gera sem þykjast tala illa um börnin sín. Fyrstu mistökin í ritgerðinni voru bara krúttleg þótt ég hafi verið nokkra stund að átta mig á þeim, eða notkun orðsins ríkidæmi í stað konungsríkis, það getur verið mikill munur á þessum orðum í ritgerð um hefðardúllur, karlinn minn, og hefðu lækkað þig niður um fjóra heila í einkunn fyrir að reyna að rugla kennarann þinn í ríminu. Alla vega sat ég spennt og og las yfir þessa tíu síðna ritgerð af græðgi ... og klukkan var farin að ganga tvö í nótt þegar ég hætti. Þetta var svo spennandi, engin leið að hætta.
Held að vinkonan hefði ekki beðið mig um þetta ef hún vissi hvað ég get misst mig stundum ... Hver komma þurfti að vera rétt, samræma þurfti allt innan sviganna og svona ... hvað vitum við nema kennarinn hans sé með Merkúr í Meyju eins og ég? Ég man ekki nákvæmlega hvað það þýðir en held að það tengist svona klikkun og smámunasemi. það er auðvitað ekki hægt að vera fullkomin í öllu! Eða jú, þetta er fullkomnunarátrátta sem tengist því að vera fullkomin, hvernig læt ég ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2008 | 15:00
Skemmtilegur Simmi, sprengja við skóla og spennandi sótboltaleikur ...
Hér hefur sko verið unnið af kappi í dag og enginn tími til að kíkja á fréttir eða blogg. Því brá mér í brún þegar ein samstarfskonan í húsinu rauk út rétt áðan til að sækja barnið sitt því rýma átti Snælandsskóla. Tölvan mín fraus í fyrsta sinn í örugglega ár þegar ég ætlaði að kíkja á netfréttamiðlana en með hjálp unga, ljúfa tölvumannsins tókst að laga það á innan við mínútu.
Í hádeginu var mikið talað um Evróvisjón og ansi misjafnar skoðanir á lögunum, keppendum, klæðnaði, brúnku og slíku. Mér fannst Simmi gjörsamlega frábær kynnir, fyndinn án þess að rakka fólk niður á niðrandi hátt, bara skemmtilegur. Hlakka helling til annað kvöld. Vonandi kemst Ísland áfram, þá verður fyrst alvörustemmning þegar sjálf keppnin hefst! Spennandi leikur verður svo í OPINNI dagskrá í kvöld kl. 18.45, eða MU-Chelsea ... aðalleikurinn, úrslitin, arggggg. Skyldi maður ná Grey´s Anatomy?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
21.5.2008 | 11:01
Ungleg í strætó og pirrandi morgunlyktarskyn
Missti næstum af strætó í morgun. Erfðaprinsinn truflaði einbeitingu mína með því að gefa mér kaffi í götumáli, grunlaus um þær afleiðingar sem það átti eftir að hafa í för með sér. Ég þaut niður stigann og var næstum búin að velta nágrannakonu minni um koll. Hún bauð mér bílfar út á horn sem ég þáði í gríni af því að það er svo hallærislega stutt vegalengd. Þessi bíltúr bjargaði reyndar deginum. Þegar við granna komum út á horn var strætó kominn á stoppistöðina! Mikil hlaup í morgunsárið skemma algjörlega alveg fyrir mér daginn ... virðuleikinn fer veg allrar veraldar og kannski hleyp ég hallærislega ...
Gummi bílstjóri hefur stofnað hagsmunafélag strætóbílstjóra gegn fokkings kaffidrykkjufólki og horfði grimmdarlega á næstum því uppáhaldsfarþegann sinn sem kom inn með kaffi. Auðmjúk himnaríkisdrottning sagði að málið væri eiginlega tómt (það var hálft), bara tveir sopar eftir, þegar Gummi ætlaði að vera svo "sætur" í geðillsku sinni að fleygja málinu í ruslið fyrir mig. Ég þorði þó ekki annað en að drekka restina í tveimur sopum og var búin með allt áður en við komum að sætukarlastoppistöðinni. Þetta er lokað mál með pínulitlu gati til að drekka úr, ég sitjandi með öryggisbelti í rútu, ekki með glanna undir stýri ... hvert er vandamálið? Líklega er bara verið að sýna Gísla Marteini að hann hafi ekkert vit á strætómálum ... svona attitjúd! Mér leið eins og lítilli (jafnvel spastískri) stelpu með ís þegar Gummi fór að nöldra. Svo rann allt í einu upp fyrir mér ljós. Honum finnst ég (49) bara svo rosalega ungleg og var í raun og veru hræddur við að ég hellti kaffi út um allan vagn. Þegar ég fattaði það sem bjó að baki nöldurins varð dagurinn sólríkari og ég brosti sætt til Gumma sem tók ekkert eftir því. Við komu í Mosó reis ég virðulega úr sæti mínu, tók tómt götumálið úr tösku minni, veifaði því fyrir framan Gumma og fleygði því með attitjúdi í ruslatunnuna í Hátúni. Aðeins að sýna honum að ég væri fullorðin og ábyrg, eins og lang-, langflestir farþegar Skagastrætó!
Aðeins þrír Indverjar voru í strætó 18 en enginn þýðandi og enginn blaðamaður. Annað hvort hefur þýðandinn sofið yfir sig, farið upp í rangan eða er ekki á vakt í dag. Sama að segja um DV-blaðamanninn, sem mig minnir reyndar að hafi verið sá sem bjargaði mér upp á gangstétt í vetur þegar bíll kom hratt á móti mér á götunni og ég komst ekki sjálf upp á gangstéttina vegna snjóruðnings. Hann var eins og Indiana Jones, notaði handlegginn eins og svipu og vippaði mér upp á gangstétt sekúndubroti áður en ljóti jeppinn hefði keyrt á mig, eða flautað á mig ... Finnst of langt síðan til að spyrja hann, líklega hversdagslegur atburður hjá honum en ógleymanlegur hjá mér. Ég gat því engu nesti rænt og varð að kaupa mér rándýran morgunverð.
Ég er eitthvað svo rosalega lyktnæm í dag ... (ábyggilega ólétt) og fannst bókstaflega allir á stoppistöðinni í Mosó reykja (tveir, langt í burtu) og reyna að blása á mig þótt það væri á móti vindi. Þótt ég reyki sjálf (lítið) þá finnst mér þetta sjokkerandi lykt á morgnana þegar maður er svo ferskur. (Reykingafasistar athugið: Ég blæs ekki reyk á reyklausa eftir hádegi, frábið mér slík komment, takk).
Ritstjórinn minn setti svo á sig ilmvatn í morgun, einhverja prufu sem ég hafði prófað á föstudaginn og fundist viðurstyggð. Af og til gaus upp skrýtinn fnykur fyrr í morgun en held að hún hafi hlaupið öskrandi inn á bað til að þvo lyktina af. Mætti ég þá heldur biðja um Búsjerón eða Cartíer perfjúm.
Svo fór Hrund blaðamaður að borða harðfisk, nýbúin að loka glugganum. Harðfiskur er skárstur af þessu en þá þarf Hrund helst að garga: "Harðfisksaðvörun" áður en hún opnar pokann, lyktin verður skárri ef maður þarf ekki að uppgötva sjálfur uppruna hennar. Held ég verði að fjárfesta í þvottaklemmu. Ef hún er með marglitum steinum gæti ég komið nýju trendi af stað, tískunefklemmur fyrir viðkvæmt lyktarskyn. Þetta er svona prinsessuábauninni-dæmi sem undirstikar enn og aftur að ég er hefðardúlla.
P.s. Mikið ofboðslega er bókin Laxveiðar í Jemen skemmtileg bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.7.): 82
- Sl. sólarhring: 103
- Sl. viku: 223
- Frá upphafi: 1529140
Annað
- Innlit í dag: 75
- Innlit sl. viku: 199
- Gestir í dag: 75
- IP-tölur í dag: 73
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni