Færsluflokkur: Bloggar

Lógó-mistök, óorðnir Sturlu-atburðir og bold-hneyksli

Logo 1Logo 2Einu sinni gekk sú saga að stjórnendur Morgunblaðsins hefðu látið stoppa prentvélarnar í ofboði til að laga tvíræða fyrirsögn á forsíðu: Drottning reið tengdadóttur sinni. Held samt að þetta sé flökkusaga. Fyndin samt. Auglýsendur geta verið óheppnir í sambandi við prentvillur, orðalag og slíkt. „Líttu við ... hjá okkur“. Þetta er vissulega smásmuguháttur af verstu gerð. Ég fékk sendar nokkrar myndir um daginn af lógó-mistökum, útlenskum auðvitað, sem sjá má ýmislegt út úr sem lógósmiðurinn ætlaði sér örugglega ekki. Þessar lógó-myndir munu prýða þessa færslu og tengjast í engu Sturlu, hvað þá boldinu.

Logo 3Á www.dv.is er spennandi frétt: Fyrirsögnin er:

Sturla sver af sér óorðna atburði
Sjálfsagt hefur einhverjum brugðið í brún síðdegis þegar útvarpsstöðin Bylgjan spilaði auglýsingu þar sem Sturla
Logo 4Jónsson vörubílstjóri kynnti sig til leiks. Síðan staðfesti hann, það sem alþjóð, veit að hann hafi staðið fyrir mótmælum undanfarið en vildi að það kæmi skýrt fram að hann bæri enga ábyrgð á atburðum sem munu eiga sér stað á laugardaginn.
Ætla mætti að vörubílstjórar, eða aðrir hópar, væru að ráðgera aðgerðir á laugardaginn sem eru svo svakalegar að sjálfur Sturla, sem hefur ekki gefið þumlung eftir í mótmælum hingað til, treysti sér ekki til þess að koma nálægt þeim. Sturla sagðist í samtali við dv.is ekki hafa hugmynd um hvað væri í vændum á laugardaginn og neitaði að tjá sig frekar um málið.

Get ég ekki beðið eftir helginni ...

Logo 5Hneyksli í Boldinu. Brooke er friðlaus. Verið er að forsýna nýju línuna hennar, Brooke´s Bedroom, sem hún hefur aldrei séð. Nick vill ekki að hún fari en hún segist kannski hafa hætt sem módel en ekki sem stjórnandi fyrirtækisins. Nick ákveður að fara með henni. „Karlarnir munu elska þig og konurnar vilja vera eins og þú,“ segir Ridge ástríðufullur við Donnu sem tekst nú á við frumraun sína í módelbransanum. Kynþokkinn hríslast af henni í byrjunaratriði sýningarinnar þar sem hún liggur og engist í rúminu í undirfötum eftir Ridge, hún nuddar sér upp við súlu og meira að segja Brooke, systir hennar, virðist í vægu taugaáfalli, eins og Stefanía. Ridge andar ótt og títt bak við tjöldin. Nokkrir tískublaðamenn láta sig hverfa af staðnum en auðvitað bara beiskar, ljótar kerlingar og hommar. Donna fer út í sal á korsilettinu og gælir við nokkra karlmenn, m.a. Eric, Nick og ókunnan kaupsýslumann.
„Þau gátu ekki litið af þér,“ segir Ridge við Donnu. „Þetta var niðurlægjandi,“ hnussar í Brooke við Nick. Hin módelin eru miklu siðsamari. „Þú áttir að sýna föt en ekki hlykkjast um eins og fatafella,“ segir Brooke við systur sína baksviðs og ... rekur hana úr starfi. Donna drekinn verður send heim til San Fransisco á morgun! Sá ekki boldið í gær en þessi þáttur var sæmilega djúsí!


Hægri brúnka, Stöð 2 og flottir tónleikar í Tónbergi í kvöld

Svona ...Mikið ofboðslega er heitt að sitja hérna við tölvuna. Glugginn nær yfir næstum allan suðurhluta vinnuherbergisins og þegar sólin skín verður hreinlega ólíft. Hef ekki tímt að kaupa almennilegar gardínur vegna útsýnisins og skortur á borvélarkunnáttu veldur því að ekki hanga hér rúllugardínur. Hægri höndin á mér, sú sem er nær glugganum þegar ég vinn, er strax orðin talsvert útiteknari en sú vinstri sem segir mér að hægt sé að verða brúnn í gegnum gler, ekki reyna að telja mér trú um annað. Þetta var líka svona í fyrra. Ég var kolbrún á hægri en næpuhvít á vinstri. Þegar ég tók svona kornflexpakkapróf á Netinu einu sinni til að ganga úr skugga um hvort heilahvelið ég notaði meira fékk ég þá útkomu að ég notaði þau jafnmikið sem þýðir að ég gat ekki hallað mér að brúnu hendinni hægra megin og sætt mig við að vera brún og sæt, eða til vinstri og sætt mig við að vera hvít og fögur. Nei, þetta kostaði mikla tilvistarkreppu allt sumarið. Það kemur ekki til greina að snúa skrifborðinu til að fá jafnan lit, líklega verð ég bara að vinna með hanska.  

VaralitirFékk langþráðan varalit í pósti frá Ásdísi bloggvinkonu í gær en hún hefur selt slíka dýrgripi til styrktar Krabbameinsfélaginu. Takk, Ásdís, flottur litur. Vissi ekki að hann væri frá YSL ... sem er flott merki!
Mun breytast hægt og rólega, eða kannski rosalega hratt, í algjöra gellu með þessu áframhaldi.

Þegar ég fór í sjúkraþjálfun um hádegisbil sá ég að bíll frá Stöð 2 var í bænum. Vona að þeir geri góða og rétta frétt um flóttamannamálið, ræði við þá aðila sem halda utan um hlutina en ekki bara þá sem eru enn illa upplýstir um málið og hafa jafnvel smitast af hræðsluáróðri. Ekki komum við sérlega vel út úr fréttum RÚV í gærkvöldi, það hefði mátt vinna þá frétt mun betur. Bíð spennt eftir fréttum Stöðvar 2 í kvöld!

Tónleikar Þjóðlagasveitarinnar verða í kvöld og annað kvöld kl. 20 í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Tónleikarnir heita Elíft andartak og þar verður fallegur flutningur í tali, tónum og söng. Ég get sannarlega mælt með Þjóðlagasveitinni, hef verið á tónleikum með henni og hreifst mjög!  


Bíóferð, laxveiðar og pistill Sigrúnar Óskar

ironmanVið erfðaprins brugðum okkur í bíó í dag og sáum Iron Man. Myndin er hin besta skemmtun og það fór ágætlega um okkur í SAM í Álfabakka þótt við tímdum ekki að fara í lúxussalinn, enda kostar slíkt 2.000 á mann. Annars hefur popp, kók og nammi hækkað svo mikið (veit þó ekki síðan hvenær) að það munaði minnstu að við næðum upp í lúxusmiðaverðið.

 ---     --------        --------        ----------         ---------        ---------

eurekaNáðum heim áður en Eureka byrjaði, nýr þáttur á SkjáEinum. Hann var skemmtilega spúkí. Annars er ég að lesa bráðskemmtilega bók sem heitir Laxveiðar í Jemen. Hún trekkir nú aðeins meira að en sjónvarpið þessa dagana þótt alltaf séu uppáhaldsþættir skoðaðir. Sem minnir mig á að Evróvisjón verður annað kvöld. Mikið vona ég að Ísland komist áfram. 

PalestinianRefugeeCampIraqSyria022708Langar að benda ykkur á frábæran pistil Sigrúnar Óskar, ritstjóra Skessuhorns. Hún hefur náð að kynna sér málið vel og nú er ljóst að annars veik "rökin" gegn því að bjóða flóttafólkið velkomið halda ekki lengur. Hún tætir þau í sig ... með sannleikanum.

http://adaltutturnar.blogspot.com/2008/05/flttamenn.html


Stalkerinn í Skagastrætó ...

„Vá, eftir 10 mínútur verð ég komin út á stoppistöð,“ sagði ég undrandi við sjálfa mig í morgun þegar ég vaknaði og hefði getað kysst mig fyrir að hafa tekið fötin úr þurrkaranum í gærkvöldi. Einbeitt en óstressuð lauk ég fegrun og snurfusi og vakti samt aðdáun Gumma bílstjóra þegar ég kom inn í vagninn þessum 10 mínútum eftir vöknun. Vissulega hefði verið gott að fá sér latte og lesa Moggann ... en hva!

Stalker í morgunsáriðUngur maður kom inn á sætukarlastoppistöðinni (þeirri síðustu á Skaga áður en ekið er út úr bænum, alltaf fullt af körlum þar og ekkert ógurlega ljótum). Hann elti mig í leið 15 í Mosó, eins og reyndar allir hinir farþegarnir (m.a. 23 stykki 8. bekkingar á leið í sjóferð í Rvík) en þegar hann var kominn á hæla mér í lúmsku brekkunni á leið í Ártún austur var ég komin með hjartslátt. Hann elti mig inn í leið 18 þar sem aðeins tveir Indverjar (mjög sætir) voru að þessu sinni og þegar hann stóð upp um leið og ég og bjó sig undir að fara út úr vagninum var næstum liðið yfir mig. Ég hristi og vakti þýðandann minn af værum blundi svo hann hunskaðist út um leið og við stalkerinn. Ég var því óhrædd þegar ókunni Skagamaðurinn elti mig alveg að bakdyrunum. Þótt þýðandinn hafi kannski níðst á mér kortslausri jók hann öryggiskennd mína til mikilla muna.

spagettiÍ ljós kom að þetta var nú bara meinlaus blaðamaður á DV sem spurði öfundsjúkur hvar ég hefði fengið lykilkort að bakdyrunum. Ég sagðist ætla segja honum það ef hann léti mig fá nestið sitt ... Svo er spagetti-bolognese í matinn, verst að vita ekki hvað Skagablaðamaðurinn heitir, annars gæti ég látið skrifa hádegismatinn á hann. Maður verður ósjálfrátt pínku búllí með auknum völdum.

-----------                   ---------------            ---------------             --------------------

P.s. Mér skilst að palestínsku flóttakonurnar fari EKKI inn í félagslega kerfið á Skaganum, heldur á almennan leigumarkað, sem ætti að vera góðar fréttir fyrir þá sem halda að þær verði teknar fram fyrir biðlistann eftir félagslegu leiguhúsnæði á Skaganum ... Vona að fólk hafi það í huga áður en það setur nafn sitt á undirskriftalista .... ef slíkur listi fer í gang.


Nuddbaðbomba, tvöföld heimsókn og eldhúsraunir ...

bathbombsÉg fékk gefins fallegan stauk nýlega sem inniheldur litlar baðbombur. Samkvæmt leiðbeiningum áttu þær að leysast upp með þvílíkum látum að baðþeginn fengi létt nudd í leiðinni. Ég settist í baðið, kom bombunni fyrir undir bakinu og beið rosaspennt. Kannski misskildi ég eitthvað en það eru meiri læti í svona c-vítamín uppleysanlegum pillum en þessum bombum sem ilmuðu þó vel. Mér leið eins og þegar ég reyndi í æsku minni að orsaka öldur í baðvaskinum með salti en án árangurs.

KakaFyrr í dag komu systurnar hugumstóru, Steingerður og Svava, í heimsókn með fullt fangið af tertum, eða tvær gómsætar. Í mínum huga eru þær einu sönnu vorboðarnir, enda duglegar að kíkja í heimsókn á sumrin. Freyja voffi var geymd úti í bíl vegna kattanna en Steingerður fór þó út um miðbik heimsóknar og leyfði henni að hlaupa á sandinum og fara í sjóinn. Aldrei of vel farið með góðan hund. Frábær heimsókn.

Brim � veturNokkrir hraustir Skagakrakkar nota nú hvert tækifæri til sjóbaða, á fjöru jafnt sem flóði. Sjórinn er mjög fallegur núna þótt ég sakni vetrarbrimsins (sjá mynd) ... en í réttri vindátt og smároki gæti nú alveg komið flott sumarbrim. Það var notalegt að hlusta á hlátur þeirra og önnur sumarleg umhverfishljóð þar sem ég sat við tölvuna.

B�flugaEitthvað truflaði mig þó í sælunni og það var ekki fyrr en skugga bar við sólu og almyrkt varð í vinnuherberginu eitt augnablik að ég áttaði mig á því hvað suðið táknaði. Þetta var býflugnadrottning. Í kjánaskap mínum hafði ég talið þetta vera hljóð í sláttuvél! Ósjálfráð viðbrögð voru gæsahúð og hrollur sem þeyttu mér upp úr stólnum og á fimmföldum ljóshraða tókst mér að loka glugganum áður en hlussunni hafði einu sinni dottið sá möguleiki í hug að troða sér inn um gluggann. Eins og Michael Schumacher orðar það: „Einbeitingin skiptir öllu.“ Eða eins og Magnús Geir orðar það: „Það er bara ein drottning í himnaríki.“

Uppvask„Kæra móðir,“ sagði erfðaprinsinn, eftir að hafa hrósað mér fyrir dáðina. „Ég held að uppþvottavélin sé biluð sem er hræðilegt þar sem ég vil ekki missa helsta aðstoðarmann minn í eldhúsinu.“ Ég benti honum hæðnislega á að á ungdómsárum mínum hefðum við nú þurft að þvo allt leirtau úti í læk. Þá hefðu engar fínar sápur verið til og við hefðum notað kúahland til að láta askana gljá. Hann hljóp öskrandi af aðdáun út áður en ég gat sagt honum fleiri sögur úr æsku minni.


Framtíðarflugróbótsmynd, Evróvisjón og áfram Noregur!

StealthÁkvað að horfa á eina hasarmynd fyrir svefninn. Fyrir valinu varð spennuframtíðarmynd á Stöð 2 um flugmannsróbót og ævintýri hans, Háloftaógnir heitir hún. Ætlaði að finna nafn hennar á ensku en um leið og klukkan slær 12 á miðnætti getur maður ekki skoðað laugardagsdagskrána á stod2.is þótt margir klukkutímar séu eftir af henni. Bara sunnudaginn. Stór galli að geta ekki kíkt aftur í tímann. Erfðaprinsinn bjargaði því!
Áhuginn á myndinni minnkaði jafnt og þétt en ég hélt áfram að hlusta með öðru. Þarna komst ég endanlega að því að orðið Lady er blótsyrði en mig hefur lengi grunað það. Fjórir orrustuflugmenn; róbót, kona, svartur maður og hvítur maður. Róbótinn var fastur við flugvél sína en ekki fólkið. Einu sinni á hlaupum út í vélarnar stoppaði konan við dyrnar að flugmóðurskipsþilfarinu, hleypti mönnunum á undan sér og sagði hæðnislega við þá: „Ladies first!“ Og þeir urðu voða spældir, samt svona í gríni. Hver vill láta líkja sér við konu?

Kyssilegt flugkvendiEkki held ég að konan hafi fattað að hún gerði þarna lítið úr helmingi mannkyns ... en hún fékk alla vega borgað fyrir það og svo samdi hún þessa setningu ekki sjálf, heldur einhver sem heldur að reynsluheimur kvenna sé eins og í LU-kexauglýsingunni, svona voða vitlausar, krúsílegar konur sem vita ekkert meira spennandi í lífinu en kexgetraun eða að horfa á rómantíska þætti, myndir og svona (þetta var líka lúmsk árás á Stöð 2 og SkjáEinn). Konur eru náttúrlega best geymdar í tilfinningasulli, þær heimta ekki jafnrétti og betri laun á meðan. En alla vega ... flugmannsróbótinn bjó yfir gervigreind og ákvað að gera árásir á ýmis skotmörk í stað þess að hlýða yfirmönnum, drap meira að segja flugmann númer 3, þennan svarta, í sjálfsvörn að vísu, það átti að eyða honum fyrir óhlýðnina. Flugmaður 2 þurfti að nauðlenda í Kóreu en flugmanni 1 tókst að tala róbótinn til svo hann varð voða góður og hjálpaði honum að bjarga flugmanni 2, konunni sem flugmaður 1 elskaði. Vondi yfirmaðurinn á flugmóðurskipinu reyndi að láta skapara róbótsins eyða öllum gögnum og líka að hefta för flugmanns 1.

Tók ekki alveg eftir því hvað gerðist næst en flugmaður 1 dreif sig í blálokin í að biðja um hönd flugmanns 2. Áður hafði hann farið á trúnó við flugmann 3 sem sagði honum að ef hann léti í ljós ást sína á henni myndi hann eyðileggja framadrauma hennar í flughernum því að tveir flugmenn mættu ekki vera saman þótt flugmaður 2 væri afar kyssilegur. Þetta var sem sagt hálfgerð femínistabeljumynd með undirliggjandi karlrembu. Hefði frekar verið til í Arnie eða Bruce ...

Alla leiðVeit ekki hvað erfðaprinsinum fannst um myndina en hann hafði alla vega aldrei séð hana áður. Eina sem stóð upp úr dagskrá kvöldins var Alla leið með Páli Óskari og dómurunum frábæru. Mikið er gaman að því hvað mikil stemmning er fyrir Evróvisjón. Ég hlakka hrikalega til á laugardaginn.

Nú rifjaðist fyrir mér að það er u.þ.b. ár síðan nágranni minn í risíbúðinni hinum megin kíkti í óvænta heimsókn sem olli því að Evróvisjónmaturinn minn brann aðeins og ég missti af byrjun söngvakeppninnar. Beiskjan er alveg horfin en ég ætla samt til öryggis að taka síma og dyrabjöllu úr sambandi á laugardaginn, vera með hlaðborð af mat handa okkur erfðaprinsi og köttum og njóta Evróvisjón í ræmur.

Aframmm NorgeÆtla að halda með norska laginu, næst á eftir því íslenska, af því að ég skrifaði þannig um Norðmenn í færslu nýlega að Norðmaður nokkur, búsettur á Íslandi, hélt að mér væri alvara. Norðmenn eru bara svo góðir að enginn trúir illu upp á þá og þess vegna liggja þeir vel við höggi.

Sögurnar sem strætósamferðakona mín sagði mér voru samt dagsannar ... en þær segja auðvitað ekkert um heila þjóð ... sem var misheppnaði djókurinn minn. 

Áfram Noregur!


Ást og fótbolti

Ástin á tímum kólerunnarHef verið að lesa svo dásamlega bók. Endurlesa öllu heldur þar sem hún var að koma út í kilju. Ástin á tímum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez. Mögnuð ástarsaga um langa bið eftir elskunni sinni. Ég er nú sjálf svo trygglynd að það væri eflaust ekki mikið mál fyrir mig að bíða í fimmtíu og eitt ár, níu mánuði og fjóra daga eftir stóru ástinni minni. Alla vega ef ég fengi nóg af latte og góðum bókum til að þreyja biðina. Einu sinni á unglingsárum mínum vorum við pabbi í bíltúr og ég sagði honum frá nýjustu ástarsorginni. Löngu seinna sagði hann mér hvað honum hefði þótt fyndið þegar ég talaði um trygglyndi mitt gagnvart strák sem vissi varla af tilveru minni. Þetta hefur samt örugglega ekki verið sönn ást, annars væri ég enn að bíða ef ég þekki mig rétt. Þetta getur því ekki hafa verið maðurinn sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn, við kynntumst á unglingsárunum. Eða hvað. Ó, kannski er ég ekkert trygglynd, heldur ein af þessum gleymnu glyðrum sem eltast við flottustu buxnaskálmarnar.

Oh+My+Nose+soccerHermann sigraði. Held að ég hljóti að hafa átt þátt í því á einhvern hátt. Fyrir misskilning var Stöð 2 Sport nefnilega opin hjá mér. Ég gerðist áskrifandi að stöðinni um páskana og þegar ég fattaði, þremur tímum seinna, að ég fengi ekki Formúlu og fótbolta á einni stöð hætti ég með hana. Gjaldið var þó dregið af mér um síðustu mánaðamót en það átti að ganga upp í áskrift að Stöð 2 núna næst. Þegar ég hringdi í ungan mann í þjónustuverinu um síðustu mánaðamót til að tékka hvort þetta yrði alveg pottþétt jánkaði hann því í algjöru áhugaleysi (eftir að hann heyrði kennitöluna mína) ... og gerði mig svo bara að áframhaldandi áskrifanda.

Ung, áhugasöm og frábær stelpa í þjónustuverinu lagaði síðan þennan misskilning áðan. Það hlaut eitthvað að vera og þetta er allt Þresti að þakka, athugasemd hans í kommentakerfinu við síðustu færslu. Það hefði orðið erfitt að leiðrétta þetta ef liðið hefði lengri tími. Kannski fæ ég mér bara Enska boltann næsta haust. Eða fer í fótboltaferðina langþráðu.


Ólæst úrslit ...

hreidarssonÞegar 32 mínútur voru liðnar af leik Cardiff og Portsmouth fattaði ég að hann var ekki í læstri útsendingu. Var bara að rúlla milli stöðva þar sem ég vissi hvort eð er að uppáhaldið mitt dytti út úr Idolinu ... sem ég hef þó sama og ekkert fylgst með. Staðan er 1:0 fyrir Hermann Hreiðarsson. Man ekki til þess að ég hafi séð þetta auglýst í ólæstri dagskrá en ég er svo sem ekki búin að sjá blöðin í dag, rétt að komast til meðvitundar. Kannski er heilsíðuauglýsing frá Stöð 2 Sport 2 þar sem segir að leikur sé ekki ruglaður. Ábyggilega.

Jæja, blogg jú leiter, ætla að horfa á leikinn.


Hjólreiðahetja, útrás hringtorga og pínkuponsu bold

Mógilsá í framtíðinniSlapp fremur snemma heim, svona miðað við að það er föstudagur. Tókst að pína aðeins hjólreiðahetju okkar Skagamanna sem kom ásamt hjóli sínu með strætó nr. 15 í Mosó og fékk það síðan geymt í farangursgeymslu Skagastrætó. „Hnuss, á ekki að hjóla heim?“ spurði ég. „Nei, ég má ekki fara á reiðhjóli í göngin,“ svaraði hjólreiðamaðurinn glaðlega, fullur af endorfíni. „Hvað með að fara fyrir Hvalfjörðinn?“ hélt kyrrsetukonan úr himnaríki áfram og leið svolítið eins og djammara sem skammar þann heimakæra fyrir að eiga sér ekkert líf. Hjólreiðamaðurinn sagði okkur sem sátum þarna fremst hjá Gumma bílstjóra að hann hefði nú einu sinni hjólað Hvalfjörðinn og það hefði tekið rúma sex tíma. Hann hætti í vinnunni á hádegi þann daginn og hjólaði þetta í félagsskap með fleiri hraustmennum og –kvendum. Hann sat fyrir aftan mig og sá ekki aðdáunarglampann í augum mínum. Gummi bílstjóri vill meina að þegar koma ný göng, ef verður af Sundabraut, muni koma hjólreiðastígur þar ... kannski loftræstur eða með súrefnisblæstri, nema hjólreiðahetjurnar hjóli hreinlega með súrefnistæki. Annars fréttum við í gær að það kæmi enn eitt hringtorgið við Mógilsá við rætur Esjunnar. Held að það finnist ekki fleiri staðir í Mosó til að skella hringtorgum á og þetta heitir nú bara að færa út kvíarnar. Snilld.

Eric og DonnaÉg rétt náði í skottið á boldinu á Stöð 2 plús. Donna, systir Brooke, slær í gegn hjá Forrester-unum og þykir með afbrigðum kynþokkafullt módel. Svo æðisleg að ástarsorgin vegna Brooke sviptist af Ridge. Skyldi hann gruna að hún verði kannski einn daginn stjúpmóðir hans? Hún og Eric virka nú svolítið spennt á myndinni ... Hin hamingjusama, nýgifta Brooke segir Nick sínum að hún ætli að aðeins að kíkja á myndatökuna en nú myndar prófessjonal kona, Ridge var greinilega bara að taka prufumyndir í gær. Ekkillinn Thorne platar Taylor með út ... og þau enda á AA-fundi. Taylor heldur þar hjartnæma ræðu um aumingja Thorne sem missti konuna sína í bílslysi ... en minnist ekki á hver á sökina ... eða allt sérríið sem hún hefur dreypt á undanfarið. Hlýtur að vera leiðinlegt fyrir hana að koma aftur (eftir að hafa dáið og lifnað við) inn í þessa þætti, nýbúin að fara í margar lýtaaðgerðir hjá eiginmanninum í raunheimum, og þurfa svo að leika alka sem drepur konuna hans Thorne, reyndar óvart.
Brooke fylgist einstaklega fúl á svip með sínum margsinnis gamla eiginmanni, Ridge, sem hún er nýbúin að hafna fyrir Nick, horfa áfergjulega á Donnu í ýmsum korsilettum, greinilega búinn að steingleyma ódauðlegri ást sinni á henni. Þegar myndatökunni lýkur kyssast Donna og Ridge og Brooke verður alveg brjáluð út í Donnu. Hún öskrar: „Þú mátt ALDREI kyssa Ridge!“


Fordómar Norðmanna og fólkið mitt í Ártúni ...

ÍsbirnirÉg sat hjá Lilju, dóttur nágranna míns, alla leiðina í bæinn. Lilja bjó um tíma í Noregi og skemmti mér með sögum þaðan. Hún vann hjá einhvers konar rafmagnsfyrirtæki. Einu sinni var hún kölluð inn á skrifstofu hjá yfirmönnum sínum, sem voru mjög alvarlegir í bragði. Þeir sögðu henni nærgætnislega frá því að byrjað væri að gjósa á Íslandi. „Já, í Vatnajökli, er það ekki?“ sagði hún rólega. „Jú,“ sögðu yfirmennirnir og spurðu hana svo hvort hún ætti nokkuð ættingja eða aðra ástvini þar í grennd. Lilja hafði nú bara gaman af þessu, eiginlega alveg rosalega gaman. Henni fannst hins vegar verra þegar útlit hennar vakti furðu Norðmannanna, „Hva, við héldum að allir Íslendingar litu út eins og Björk!“ sögðu þeir. Svo voru þessir fjölmörgu samstarfsmenn hennar fullvissir um að íslenska þjóðin væri hrikalega innræktuð, bað við byggjum jafnvel í snjóhúsum og svona ... „Hefurðu ekki séð ísbjörn?“ spurði kona hana og var hissa þegar hún fékk neitun. Svo erum við að kvarta yfir íslenska menntakerfinu ...

Fullt af börnum alvegÁ Kjalarnesi kom ung, ljóshærð og góðleg kona inn í Strætó, annan daginn í röð, og var með fullt af sætum börnum með sér, alla vega þrjú. Ég giskaði á í huganum að börnin væru svona eins, tveggja og þriggja ára ... Af því að við höfðum farið nákvæmlega sömu leiðina tvo daga í röð ... farið upp í strætó 15 hjá brosmilda, yndislega bílstjóranum, út við Ártún, niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna fannst mér við þekkjast og bauð henni hjálp með börnin ... sem þurfti nú ekki. Í morgun gengum við samferða þessa leið. Hún reyndist vera frá Litháen og er afar hrifin af Íslandi, talar málið vel og finnst veðúrfarið ljómandi gott. Kjalarnesið stórkostlegt til að ala upp börn, já, börnin hennar eru tveggja, fjögurra og sex ára. Ég viðurkenni vanmátt minn þegar kemur að því að giska á aldur. Hún lagði alla þessa ferð á sig til að fara með elsta barnið á leikskóla í Grafarvogi. Held að maðurinn hennar sæki það svo seinnipart dags. Konan hefur unnið á Elliheimilinu Grund og fannst frábært að vera þar, besta íslenskukennslan, að hennar sögn. Þegar ég fussaði yfir launum umönnunarstétta tók hún ekki undir það, enda Grundar-launin eflaust hærri en í heimalandinu.

Alltaf ævintýri í Ártúni. Þriðji Indverjinn stóð og beið eftir leið 18 í morgun , vagninum mínum ... nema þetta hafi verið sá sami og í gær, ég talaði bara við þann fyrsta og er ekki mjög mannglögg, alla vega ekki með þessi gleraugu. Eftir að hafa fengið útskýringarnar á dögunum finnst mér þeir rosalega tölvuforritaralegir eitthvað án nokkurs dass af nördisma.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 324
  • Sl. sólarhring: 331
  • Sl. viku: 465
  • Frá upphafi: 1529382

Annað

  • Innlit í dag: 277
  • Innlit sl. viku: 401
  • Gestir í dag: 270
  • IP-tölur í dag: 265

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband