Færsluflokkur: Bloggar

Heimkoma Hildu, fótboltavonbrigði og fullt af boldi

Hilda � sp�talanumMikið létti mér þegar ég heyrði í Hildu um hádegisbil, hún komin heim og ekki með heilahimnubólgu eins og læknar héldu á tímabili. Fyrsta sem ég spurði hana að var hvort hún hefði fengið ælupokann. Hún hló og sagði að það hefðu greinilega verið vaktaskipti um þetta leyti og einstaklega vel hefði verið hugsað um hana. Það tókst í fjórðu tilraun (hjá fjórða lækni) að ná úr henni mænuvökva en hún hefur fíngerðar æðar eins og ungbarn og þær liggja djúpt eins og sum ættarleyndarmál. Seinni svæfingarlæknirinn gat þetta í fyrstu tilraun, hún lét Hildu bara setjast upp. Þegar ég fór í aðgerð fyrir nokkrum árum kveið ég einna mest fyrir mænudeyfingunni sem var framkvæmd á skurðarborðinu. Ungur læknir sem ég viðraði þetta við hughreysti mig þótt ég væri með Chuck Norris-svip á andlitinu og sagði að í kæruleysispillunni væri ákveðið gleymskuefni. Það passaði, ég man bara eftir að hafa setið upprétt og hallað mér fram í fangið á elsku Kristínu skurðhjúkku og bara nokkrar sekúndur í stunguna. Síðan bara gleymska. Ég hef því einungis hálfrómantískar minningar úr skurðstofunni, vantaði bara kertaljósin. Hilda þarf að muna árangurslausar tilraunirnar og líka þá sem tókst en þar sem hún er töffari mun það ekki hafa varanleg áhrif á hana.

priceless80'sBoldið rúllar í sjónvarpinu og gamlar endurminningar um Sankti Dörlu eru rifjaðar upp. Mikið vona ég að eitís-tískan komi aldrei aftur. Fólk leit skelfilega út, þ.á m. Darla. Sem betur fer missti ég mig aldrei í herðapúðanotkun af því að þeir hafa alltaf klætt mig illa. Hárgreiðslan var kannski annað mál.

RonaldoErfðaprinsinn kom beiskur af barnum áðan, hafði verið að horfa á Manchester United-West Ham. Þegar staðan var orðin 3-0 lét hann sig hverfa, þó er hann gamall MU-aðdáandi. Svona hefur hann Sigþór mágur mikil áhrif á fjölskylduna að allir, ábyggilega mamma líka, halda óðir með West Ham. Annars á Heiðdís, tvíburamamman knáa, afmæli í dag og mamma á mánudaginn. Áfram West Ham. Held að bati Hildu hafi orðið svona skjótur af því að hún var búin að lofa mömmu að sækja tertu í bakarí í Mjóddinni á mánudaginn. Mikið vona ég að tertan verði ekki með hnetum.

ThorneThorne er kominn heim af sjúkrahúsinu eftir lát Dörlu. Allt er enn í blöðrum og skreytingum eftir barnaafmælið. Hector kemur tárvotur heim til Taylor og segir henni að Darla sé dáin. Taylor rétt svo getur gargað og grátið fyrir vörunum sem flækjast óneitanlega svolítið fyrir henni með öllu þessu bótoxi. Ridge rýkur til Brooke og færir henni fréttirnar, fær þar kærkomið tækifæri til að sjá konuna sem hann elskar en hún ekki hann. Darla og ThorneTaylor stingur af og fer til Thorne sem var aleinn að horfa á afmælismyndband. Þegar þau standa í faðmlögum byrjar Darla allt í einu að tala úr sjónvarpstækinu. Hún hefur ákveðið, rétt fyrir dauða sinn, að segja eitthvað ótrúlega sætt við Thorne sinn inn á vídeó, eins og hún hafi fundið þetta á sér ... Hún játar að hafa týnt dematnseyrnalokki í heita pottinum. Segið svo að ríka fólkið hafi ekki áhyggjur líka. Aumingja Thorne missir sig algjörlega og kjarkur Taylor til að játa á sig að hafa ekið á Dörlu minnkar stöðugt. Hún segir samt stöðugt sorrí, sorrí, sorrí.

DonnaSystir Brooke, Donna, er komin til sögunnar og nú leikin af annarri leikkonu en í gamla daga þegar ég horfði ekki. Hún er svolítið gæruleg, ef ég á að vera alveg hreinskilin. „Hve oft sagðir þú mér eiginlega að Ridge væri örlög þín?“ spyr Donna sem skilur ekkert í því af hverju systir hennar er allt í einu gift Nick. Hún verður óþægilegur gestur á heimilinu. „Skiptir þú Ridge út fyrir hann,“ segir hún, ekki mjög hrifin af Nick. „Mann sem bannar þér að sitja fyrir nakin, aldrei myndi Ridge gera það.“


Aldeilis helgarbyrjun ...

Ljósin í strætóMeð því að hotta duglega í leigubílstjórann á leiðinni í Mosó náðist í skottið á 18.45 vagninum á Skagann, þeim síðasta fyrir kvöldáætlunina. Það hefði verið frekar fúlt að þurfa að bíða til 20.45 og missa af Reykjavík rústa Garðabæ í Útsvari. Datt ofan í bókina Áður en ég dey, eftir smápásu á henni, og tókst að lesa alla leiðina, líka í göngunum þar sem Heimir kveikti á kristalsljósakrónunni í loftinu. Hann er greinilega lítið fyrir rómantík í rörinu eins og hinir bílstjórarnir. Skömmu síðar gekk hlaðþjónn um með vagn og bauð farþegum skattfrjálsan varning. Ég nennti ekki að kaupa ilmvatn núna, enda örstutt í árlega árás geitunga og býflugna á saklausa Íslendinga og þá sérstaklega þá sem úða á sig blómailmi eða ganga í gulum bolum. Tala af hroðalegri reynslu. Sem betur fer er ég fljótari að hlaupa en þessi kvikindi.

�arna er h�n HildaÉg var ekki fyrr sest í leisígörl með kött í kjöltu, latte í annarri og styrjuhrogn úr frísvæði Hfg í hinni þegar síminn hringdi og mér var sagt að systir mín væri komin á spítala ... með slæma flensu; háan hita og höfuðkvalir. Kynþokki Hildu (eða kölduflogin) hafði þau áhrif á húsvitjunarlækninn að hann pantaði sjúkrabíl. Hrikalega fallegir og skemmtilegir menn komu og fluttu hana á Borgarspítalann. Þegar ég heyrði í henni voru komnar 20 mínútur síðan hún bað starfsmann um að rétta sér svona „kasta-upp-poka“ en án árangurs. Hún getur samt ekki gengið óstudd, eiginlega varla hreyft sig, svo hún þarf þjónustu, blessunin. Ef ég hefði vitað af þessu hefði ég tekið strætó upp á spítala í stað þess að fara heim en ég var líklega alveg að lenda við himnaríki þegar fallegu sjúkrabílakarlarnir fluttu hana á Borgó. Þessi flensa er víst ekkert gamanmál. Vinkona mín á í svona hryllingi og hefur verið fárveik heima í heila viku.

Lífríki við svaladyrnarKubbur, yngri köttur himnaríkis, liggur nokkuð oft við dyr nýju svalanna og starir á eitthvað spennandi á gólfinu sem við erfðaprins komum ekki auga á. Þetta gerir okkur svolítið skelfd og í kvöld datt mér í hug að þar sem allt er enn ófrágengið hafi skapast pínulítið lífríki, kannski þjóðfélag, milli parketts, veggs og röra, eitthvað sem „smiðurinn sem hvarf“ hefði átt að loka fyrir ári. Samt sést aldrei neitt kvikt hérna. Erfðaprinsinn fjarlægði Kubb, eins og lífríkið myndi hverfa í leiðinni, ég benti honum hæðnislega á það, en Kubbsan var komin á sinn stað eftir örskamma stund. Nema þetta sé húsdraugur með fullkomnunaráráttu sem þolir ekki ófrágengna veggi. Best að hringja í smiðinn, hann lofaði að ganga frá þessu fyrir afmælið mitt ... en gleymdi að segja hvaða ár.

Sj�nvarpEkki hef ég nógu gaman af sérstaklegafyrirkonur-þættinum Lipstick Jungle, hvað þá nýja spítalaþættinum á RÚV á miðvikudagskvöldum. Ég gef samt öllu séns, vinnu minnar vegna, er samt alls ekki sjónvarpssjúk. Skil ekki þessa andúð mína á þáttum sem eiga sérstaklega að höfða til mín.

Held mig bara við Simpsons, Hæðina, Önnu Pihl, Kiljuna, Monk, CSI, Boston Leagal, Silfur Egils og fréttir. Já, og American Dad, Ísland í dag, Kastljós og svo nýja Evróvisjónþáttinn sem hefst annað kvöld og lofar góðu ... og boldið of kors.


Rokkpælingar í morgunsárið

Á Kjalarnesi í morgunEndalaus deja vu-fílingur ríkti á leiðinni í vinnuna í morgun. Ásta undir stýri á drossíunni og við með flotta tónlist á hæsta, hita undir rassinum og í fínu morgunstuði. Ásta hefur verið frá vinnu í nokkra mánuði og því hef ég getað tætt meira en áður í strætóbílstjórunum í leiðinni ... múahahaha. Við hlustuðum á nokkur lög með Heiðu, kenndri við Idol.

Fyrsta platan sem ég eignaðistGaman að hlusta á Starlight (Trúbrot) í flutningi hennar og ljúga svo óvart að Ástu að Óðmenn hefðu upphaflega flutt Dimmar rósir, held að það hafi verið Tatarar. Ég er þremur árum eldri en Ásta en á Tatara-árunum  vorum við samt bara börn. Við erum af 78-kynslóðinni ... Slade, Uriah Heep og svona ... en Ásta fór einmitt á klikkaða tónleika með einum úr Uriah Heep á miðvikudaginn. Þar voru Dúndurfréttir, Eiríkur Hauksson og sjálfur Ken Hensley, mögulega sá sem kyssti mig á kinnina eftir tónleika Uriah Heep á Hótel Íslandi 1987 af því að ég tranaði mér ekkert fram eins og hinir ... sem fengu engan koss, múahahahaha. Við konur lærum með ýmsum hætti að halda kjafti og vera sætar. 

JetBlackJoe-wmAftur á móti vildi ég EKKI fara á tónleika Jet Black Joe með Sinfó og gospelkór þótt ég fengi borgað fyrir það. Maður á ekki að troða neinu „væli“ í rokkið og hvað þá rokki í sinfóníur ... mín skoðun. Hef reyndar einhverra hluta vegna alltaf hatað gospel ... en hrífst aftur á móti mjög af háklassískri og kirkjulegri kórtónlist, passíum, mótettum, madrigölum og slíku. Ásta starði á mig þegar ég tjáði henni þetta. Kannski fæ ég aldrei framar far með henni.

Þetta verður að öllum líkindum klikkaður dagur hér á bæ, blaðið í prentsmiðju og svona, gaman, gaman ... Megi dagurinn ykkar verða sérdeilis frábær!


Rólegur múgur, rökræður og nokkrir Norrisar

Bens�n„Best að fara að kaupa bensín áður en það hækkar enn meira,“ sagði erfðaprinsinn beiskur og setti á sig húfuna, enda kominn tími á enn eina rándýra klippinguna. „Gættu þess að keyra ekki á öreiga, þú veist hvaða dagur er í dag,“ sagði umhyggjusöm móðir hans enn beiskari. Beiskja hennar stafaði helst af því að hafa ekki látið til sín taka í æstum mótmælum sem hefðu mögulega getað átt sér stað á Skaganum ef hún hefði æst upp múginn. Nei, hér var setið í algjörri leti og lesin bók sem heitir Lagleg. Ekki ævisaga himnaríkisfrúarinnar, heldur bókasafnsbók um mögulega framtíð mannkyns. Framhald Ljótrar.

Ísland PalestínaVið erfðaprins rifumst enn og aftur, á hóflegum nótum þó, um Ísrael og Palestínu. Mér finnst hann litaður af áróðri Bandaríkjamanna en hann segist horfa á báðar hliðar mála. Aumingja Ísraelsmenn að þurfa að eyða þessum rándýru eldflaugum á svona pakk ... og þegar „pakkið“ reynir að verja sig og mótmæla yfirgangi þá er það hryðjuverk. Við urðum sammála um að vera ósammála. Ég hef þó ekki gefist upp. 

Hólmgeir bloggvinur er ekki hress í dag. Þið ættuð að kíkja í heimsókn á bloggið hans til að sjá hvað veldur. http://hk.blog.is/blog/hk/entry/525819/

Svo er hér dásamlegt myndband sem sjokkeraði ofurflughræddan soninn þegar ég sýndi honum það. Best að koma ykkur í uppnám líka ef þið nennið að klikka á hlekkinn.
http://www.dv.is/divi/spila/xlc3tdy7by08zt2kyvb3f3yipu40q

 

chuck-horse- Chuck Norris sparkaði einu sinni undir höku hests. Hesturinn og afkomendur hans hafa síðan kallast gíraffar.

- Sumt fólk sefur í Súpermann-náttfötum. Súpermann sefur í Chuck Norris-náttfötum.

- Chuck Norris rekur ekki tærnar í. Hann rústar stólum, rúmstólpum og gangstéttabrúnum af slysni.

- Chuck Norris prófaði einu sinni fallhlífarstökk en lofaði að gera það aldrei aftur. Ein Klettafjöll eru meira en nóg.

- Það er ekkert til sem heitir gróðurhúsaáhrif. Chuck Norris var kalt svo að hann hækkaði í sólinni.

- Chuck Norris getur kyrkt óvin sinn með þráðlausum síma. (Stolið frá Jack Bauer)


Sigin grásleppa slær á veðurótta ...

Gr�sleppaÁ heimleiðinni var heldur meira hvassviðri en í morgun og Sigþóra, sessunauturinn minn skelfdi, ríghélt í mig. Til að dreifa huga hennar rifjaði ég upp skemmtileg og áhugaverð fokóhöpp í ýmsum frægum veðrum síðustu áratugina. Það var ekki fyrr en við ókum fram hjá sveitabæ, rétt fyrir utan Akranes, sem hún vaknaði til lífsins. Hún greip frammi fyrir mér í miðri sögu um frægt strætóóhapp sem hún lenti í sjálf í vetur og hrópaði: „Sérðu signu grásleppuna sem hangir þarna, vá, nú fæ ég vatn í munninn.“ Ég starði hissa á hana, enda hélt ég að eina manneskjan sem borðaði svona mat væri Tommi bílstjóri (hjá Byko). Sigþóra hefur sannkallaða arnarsjón, ég sá bara hús í fjarlægð og þó er ég með gleraugu, ekki hún. Svo var bara hálfgert logn á Skaganum, svona miðað við Mosó og Kjalarnes.

Beðið eftir strætóMikið óskaplega var hvasst og kalt á stoppistöðinni í Mosó seinnipartinn. Fjöldinn allur af heimfúsum Skagamönnum beið þar og ef Gummi bílstjóri hefði vitað hvað við kölluðum hann þegar við sáum vagninn hans loks koma, hefði hann lagt af stað miklu fyrr. Guðmundur almáttugur, Guðmundur góði ... jamm, lítið þarf til að gleðja strætófarþega. Áður en hann kom vorum við nokkur búin að ákveða að leggja niður sumardaginn fyrsta ... eða fresta honum fram í júní.

 

Himnar�ki 1240Við erfðaprins sóttum mynd úr innrömmun í dag, myndina góðu sem ég keypti af Ljósmyndasafni Akraness og sýnir okkur Skagamenn í sjómannadagsgöngu á Kirkjubrautinni. Ég pantaði myndina án þess að hugsa út í stærðina og hún er ansi stór, gæti farið vel fyrir ofan sófa í stofu, svei mér þá. Henni var þó komið fyrir á ganginum langa.

Það góða við að fá hana svona stóra var að nú sé ég loks hver það var sem gekk við hliðina á mér. Það er hún Bogga vinkona sem vinnur nú sem virðulegur kennari í Grandaskóla. Við höfum verið vinkonur í 45 ár og geri aðrir betur.


Gó, bílstjóri, gó! Sönn frásögn af hetjudáð

SúperhetjaErfðaprinsinn gaf mér góðfúslegt leyfi sitt til að fara í vinnuna eftir að hafa kíkt á hviðumæli Vegagerðarinnar í tölvu sinni. Hviður voru aðeins 32-33 m/sek. Hélt samt að Gummi kæmi ekki ... og ég yrði að vinna heima í dag. Allt gekk áfallalaust á leiðinni og ekkert annað en lognið lygilegt ríkti á Kjalarnei ... þar til við nálguðumst Kollafjörðinn. Þá fór ég að loka augunum þegar við mættum trukkum, en það er ekki verri leið en hver önnur til að bílar skelli ekki saman í hviðum. Í miðjum firðinum fauk framhurðin upp og ég sagði frekar lágt: „Vó,“ svona eins og töffarar í rappmynd. „Á ég að halda í hurðina svo að hún fjúki ekki af?“„Gummi hristi hausinn og hreytti í mig: „Far ÞÚ nú ekki að verða hrædd í roki.“ Ég sagði honum eins og satt var að ég hefði ekki áður upplifað að strætóhurð fyki upp og Gummi róaðist.

Mér hafði ekki hugkvæmst að kíkja á þessa fáu samfarþega mína sem þorðu í strætó í morgun og sátu aftar í vagninum en ég veit nú að þeir sátu náfölir með spenntar sætisólar ... og greipar. „Gummi, heldur þú að við náum ekki örugglega leið 15?“ spurði ég, algjörlega ómeðvituð um skelfinguna sem ríkti í vagninum, hélt að þögnin væri vegna þess að fólk væri að hlusta á útvarpið. Gummi lofaði því og gaf í án þess auðvitað að fara yfir hámarkshraða. Við náðum í Mosó á réttum tíma og ég skildi ekki af hverju gullfallegur karl sló í öxlina á mér á stoppistöðinni og fannst víst mikið til um hetjuskapinn, átti eiginlega ekki til orð yfir hugrekki mitt. Hann reyndi að leika dáð mína öðrum farþegum til skemmtunar og lét eins og ég hefði hvatt bílstjórann til dáða: „Gó, bílstjóri, gó, gó, gó ...“

Á meðan allir farþegarnir titruðu og voru þakklátir fyrir að lifa þessa ferð af hafði ég bara áhyggjur af því að við næðum leið 15 í Mosó. Tvær konur þarna horfðu líka aðdáunaraugnaráði á mig, önnur er hún Harpa bloggvinkona og mögulega vonandi tilvonandi íslenskukennari erfðaprinsins í vetur. Hann þarf alla vega að kaupa Laxdælu og Grafarþögn ... held þó að báðar séu til í himnaríki. 

Gekk í gegnum matsalinn á leiðinni í vinnuna, kíkti á matseðilinn og tókst að láta taka frá einn skammt af girnilegu salati áður en salatið verður allt mengað af valhnetum.

Nýjasta Vikan er SVO FLOTTTTT! Við erum ekkert smáánægðar með hana. Tískan hans Haffa Haff er æði og hann stíliserar líka forsíðuna, innlit inn í einn minnsta sumarbústað á Íslandi, og svo skrifaði ég grein um innivist fyrir þá sem hata útivist!!! Galdrahornið fjallar um liti og í forsíðuviðtalinu er kona sem á rosalega sögu. Hún og systir hennar voru teknar ungar út af heimilinu og settar í fóstur í sveit þar sem þeim var ítrekað nauðgað. Þær reyndu að segja frá þessu en enginn vildi hlusta. Systirin fyrirfór sér síðar og þessi kona, tæplega fimmtug er enn að reyna að púsla sér saman. Það er mynd af henni með lokuð augun á forsíðunni en ég held að við höfum aldrei verið með þannig mynd áður. Æ, þetta blogg mitt á ekki að vera auglýsingavettvangur en ég gat ekki stillt mig ... og fyrst ég er byrjuð ... 

...  það er líka að verða fullt á sum tímabilin hjá Hildu systur, sem rekur Sumarbúðirnar Ævintýraland (Kleppjárnsreykjum), langbestu sumarbúðir í heimi, þótt víðar væri leitað. Sjaldan verið jafnhröð skráning, yfirleitt er meira að gera í maí en apríl, svona þegar fólk er byrjað að ákveða sumarfríin sín. Sonur minn er löngu uppkomin, ég ætti að sitja með kokkteil úti á svölum allar helgar á sumrin (latte í mínu tilfelli) ... en nei, ég fer í sumarbúðirnar til að "spilla" börnum og hjálpa til á skrifstofunni og borða vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma og svona. Elska þessar sumarbúðir. Hlakka líka til að hitta starfsfólkið en grunnurinn hefur verið sá sami í gegnum árin. (sumarbudir.is)


Meðvirknirugl ...

varhugaver�ur blindrahundurÞegar ég gekk fram hjá sjúkrahúsinu í dag stóð gömul kona á gangstéttinni og reyndi að komast yfir götuna. Hún hágrét og baðaði út höndunum eins og hún sæi ekkert, enda hafði hún misst gleraugun sín í rennisteininn. Mér datt ekki í hug að hjálpa henni. Vinir mínir, sem segja að ég sé svo meðvirk, hefðu átt að sjá mig. Mikið var ég hreykin af mér að hafa staðist freistinguna að rétta henni gleraugun. Gamlar konur verða bara að læra að bjarga sér sjálfar.

Þessi saga er auðvitað helber lygi ... en mikið rosalega er fín línan á milli þess að vera meðvirkur og hjálpsamur. Einu sinni rökræddi ég heillengi um meðvirkni við gamla vinkonu mína. Annarri vinkonu leið mjög illa á þessum tíma og ég reyndi að vera voða góð við hana sem hinni fannst vera meðvirkni. Mér finnst að vinátta eigi að vera í blíðu og stríðu og að maður eigi ekki bara að tala við vini sína þegar þeir eru í sínu besta formi, gefandi og hressir. Fékk á móti að maður ætti að gefa fólki spark í rassinn þegar því liði illa svo að það hætti þessu væli ... Ég er bara ekki sammála því. Finnst sjálfri upplífgandi og hressandi ef fólk er gott við mig ef eitthvað kemur upp á ... hitt hefur algjörlega öfug áhrif. Vissulega eru til dæmi þar sem fólk er að farast úr sjálfsvorkunn og lifir fyrir athygli, samúð og þannig en ég held að flestir gefist fljótlega upp á slíkum vinum.

BoyGiftÞegar erfðaprinsinn var lítill þá vorum við stundum ansi fátæk og mér fannst oft leiðinlegt hvað ég gat veitt honum lítið. Pabbi hans, hamingjusamlega skilinn við mig, var ekkert endilega betur staddur. Þegar betur áraði keypti ég stundum handa honum litlar gjafir upp úr þurru, sem glöddu hann mikið, bók eða lítinn bíl, þótt ekki væri afmæli eða jól, kannski til að bæta honum eitthvað upp ... en ég fékk á mig að ég væri meðvirk með honum. Mér finnst reyndar ótrúlega gaman að gefa gjafir, alltaf. Ég hef líka heyrt að þegar foreldrar veki unglingana sína í skólann sé það meðvirkni, krakkar verði að læra að bera ábyrgð á sér sjálfir. Erfðaprinsinn vaknaði reyndar við vekjaraklukkuna um leið og ég og það reyndi aldrei á hótanir mínar um að berja hann í andlitið með blautu handklæði til að vekja hann ...

Ég er reyndar að hugsa um að vera ekki meðvirk með SÁÁ núna en ég sé á Visa-reikningnum mínum að heilar 8.000 krónur verða dregnar af mér um mánaðamótin, 2x4.000kr., (tegund greiðslu: Alefli???) og ég veit ekkert fyrir hvað. Ég hef styrkt starfsemina áður en þessu hef ég ekki efni á og ég myndi aldrei lofa 8.000 kalli í einni greiðslu. Einnig er ég rukkuð fyrir Stöð 2 Sport sem ég var áskrifandi að í þrjá klukkutíma um páskana, eða þar til ég komst að því að ég fengi engan fótbolta með Formúlunni minni, bara fokkings golf.

P.s. Dauðastríð Dörlu stendur enn yfir í boldinu og Hector slökkviliðsmaður reynir enn að sannfæra Taylor um að segja engum að hún hafi keyrt á Dörlu svo hún fari ekki í steininn. Sem sagt, engin breyting síðan í gær. 


Hvassar hviður og munað eftir vetrarveðrum ...

Hvasst � KjalarnesinuEins gott að ég er heima í dag. Sé að vindhviður eru ansi miklar á Kjalarnesinu og hafa verið milli 30 og 40 m/sek í dag. Kannski hefur strætó ekki gengið. Heyrði á Gumma bílstjóra í gær að hann væri afar þreyttur eftir þennan vetur. Ekki auðvelt að keyra á milli með fullan bíl af fólki í snjó, hálku, hættulegum vindhviðum og öllu því sem fylgir svona leiðindavetri. Sé að ég er allt of fljót að gleyma slæmum hlutum því veturinn rifjaðist þarna upp fyrir mér á sekúndubroti og ég mundi allt ...

Skrúðganga á SkaganumEr að ljúka við djúsí lífsreynslusögu og er langt komin með aðra grein. Það verður bara fínt að fara til Betu á eftir og fá smá sjúkraþjálfun. Ég þarf svo að sækja mynd sem ég pantaði og keypti hjá Ljósmyndasafni Akraness, mynd af skrúðgöngunni í tilefni af Sjómannadeginum eitt árið. Þar geng ég galvösk, elsku sjómönnum þessa lands til heiðurs. Er aðeins fyrir aftan og á milli fremstu stelpnanna hægra megin. Til eru afar fáar myndir af mér síðan ég var lítil, enda var ekki til myndavél á heimilinu lengi vel, við vorum bara með sjónvarp og horfðum á Kanann, Felix the Cat, kafbátaþáttinn, kafaraþáttinn og fleira sem ég man þó ekki eftir og plötuspilara til að spila Sound of Music aftur og aftur.

Jamms, best að halda áfram að vinna, næ hálftíma áður en ástkær erfðaprinsinn skutlar mér til Betu.


Gas, felgur, rottweiler og smávegis bold

B�kasafni�Glæsilegur rauður sportbíll (10) beið mín við stoppistöðina (1) á Garðabraut eftir að Gummi bílstjóri (60) hafði skutlað okkur, hópi glæsilegra Skagamanna, heim úr Mosfellsbænum núna seinnipartinn. Ungur, stórhuggulegur maður (28) sat undir stýri á sportbílnum og bauð mér far á bókasafnið (152). Bíllinn er kominn á sumardekk og flottari felgur þannig að meira stuð en vanalega ríkti í bílnum. Held að ungar heimasætur á Skaganum hljóti að vera óhressar með að hafa séð stútungskerlingu (49) í farþegasætinu. Sportb�llinn � vetrardekkjumGömlu felgurnar (10) höfðu það náðugt í aftursætinu en dekkin (10) eru komin í dekkjahimnaríki. Sími (1/2) erfðaprinsins öskraði Gas, gas! en það er nýjasti tískuhringitónninn á landinu. Svo fékk ég senda slóðina á nýjasta rapplagið með xxx Rottweiler-hundum og þar leikur gas-öskrið veigamikið hlutverk í viðlaginu. Flott lag. Fyrir 1. maí ætla ég að láta bólusetja mig við meis-úða og piparspreii og síðan fríka út með mótmælaspjaldið mitt. Ef völvunni okkar á Vikunni skjátlast ekki verða stjórnarskipti fyrir áramót. Hún spáði réttilega fyrir um ólguna í ráðhúsinu í Reykjavík og borgarstjórnarskiptin.

Darla hans ThorneTaylor reynir að viðurkenna að hafa ekið á Dörlu en Thorne skilur ekkert. Stefanía og Sally fá fréttirnar af slysinu ... jamm, ég var búin að steingleyma því hvað handritshöfundar draga alla atburðarás á langinn í boldinu, ég lönguTaylor og Phoebe búin að skúbba því að Darla lifi þetta ekki af. Spara með því tíma fyrir fólk sem getur þá skúrað eða eitthvað á meðan. Held að það taki alla vega viku að drífa þetta af. „Eini sökudólgurinn er skepnan sem keyrði á Dörlu og skildi hana eftir í blóði sínu,“ segir Thorne og Taylor fríkar út. Hector löggu grunar eitthvað, en hann segist elska hana heitt og vilja vernda hana. „Listen carefully,“ segir hann við Taylor, „þú ert ekki með ökuréttindi eftir að hafa keyrt full og þótt þú fengir besta lögmann í heimi yrðir þú samt sett í fangelsi.“ „Ég vil játa, ég vil játa,“ veinar Taylor, alltaf svo heiðarleg. „Ég missti þig einu sinni, mamma, ég get ekki misst þig aftur,“ æpir Phoebe, annar tvíburinn, sem var vitni að þessu öllu saman. Sæti læknirinn, bróðir Hectors, kemur inn á sjúkrastofuna með góðar fréttir í sambandi við Dörlu ... sjúr, þetta mun taka langan tíma. Næstu þættir verða án efa mjög átakanlegir og fullir af gömlum klippum af Dörlu. Já, og hugsandi um aðra sem hafa hætt í boldinu ... ég fékk fréttir í kommentakerfinu nýlega um að Amber sé komin í aðra sápuóperu, systursápu boldsins, Young and the Restless.

 


Svefnsýki, Monkmissir og draugagangur á unisex-klósettinu

Strætó í morgunÉg skellti mér í sætið beint fyrir aftan Gumma bílstjóra í morgun og reyndi að dorma þrátt fyrir fyrir óvenjugóðan nætursvefn. Sigþóra og pólsk vinkona hennar, hinum megin við ganginn, hlógu svo mikið og Gummi var með útvarpið svo hátt stillt að það reyndist illframkvæmanlegt. Samt allt í lagi, bara kósí. Í leið 15 í Mosó settist Sigþóra hjá mér og sagðist m.a. hafa hitt Tomma bílstjóra í gær, hressan og kátan, alsælan með nýju vinnuna í BYKO. Sigþóra hoppaði svo út við Vesturlandsveginn og tókst snilldarlega að fikra sig niður háan og stórvarasaman vegkantinn án þess að kollsteypast. Þetta er ömurlegasta stoppistöð sem ég veit um, hættuleg og fáránlega staðsett. Nokkur hundruð metrum nær Ártúni og þá væri hún strax skárri.

MonkVið erfðaprins steinsváfum bæði yfir Monk í gærkvöldi, því eina sem við ætluðum virkilega að horfa á í gær, og vitum því ekki hver morðingi rapparans var. Fór óvenjusnemma í bólið og tókst að ljúka við Falskan fugl, bókina hans Mikaels Torfasonar. Ég missti af henni þegar hún kom út á sínum tíma, enda seldist hún upp. Skil vel að þessi bók hafi vakið athygli þegar hún kom út, hún er djörf og tæpitungulaus ... og bara ferlega góð! Ég las Heimsins heimskasta pabba eftir Mikael fyrir nokkrum misserum og háskældi yfir henni, þurfti hreinlega lak til að þurrka tárin í! Svakalega góð.

Unisex WCÉg hef ekki opinberað það áður en salernið í vinnunni er svona UNISEX, eða fyrir bæði kynin, ekkert ólíkt því sem var í Ally McBeal-þáttunum, nema án spennandi atburða og uppákoma ... held ég. Fólk gætir þess að pissa bara pent í þessari miklu nálægð við hitt kynið og fær með tímanum hægðatregðu og gyllinæð, nema kannski mestu dónarnir. Við Illugi Jökulsson hittumst  fyrir framan við vaskana í morgun og buðum hvort Ally McBeal-þættirniröðru góðan dag. „Eigið þér þennan síma?“ spurði hann síðan, afar kurteislega, en gemsi lá á vaskaborðinu. „Nei,“ sagði ég. Sko, svona meinlausar  uppákomur, skiljið þið! 

Það er reyndar hevvví draugagangur á unisex-wc-inu. Ilmsprei hanga á vegg inni á öllum fjórum klefunum og þarf að ýta á takka til að ilmurinn sprautist út í loftið. Í einum klefanum spreiast stundum sjálfkrafa. Ég hef tvisvar lent í að heyra í kvikindinu út úr tómum klefanum. Samstarfsfólki mínu finnst þetta ekkert spennandi og enginn áhugi yfirmanna er fyrir því að fá draugabana á staðinn. Ég verð líklega að gera þetta sjálf. Notar maður ekki  annars kross og vígt vatn við særingar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 42
  • Sl. sólarhring: 182
  • Sl. viku: 533
  • Frá upphafi: 1529475

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 448
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband