Færsluflokkur: Bloggar

Æ, strákar mínir á Stöð 2

EM 2004Nú er martröðin hafin! EM í fótbolta að byrja og þá skal passað upp á að kvenfólkið verði á réttum stað, eða yfir dramaþáttum og ástarvaðli í sjónvarpinu sem á að vera sárabót fyrir þennan  fótbolta sem allar stelpur hljóta að hata. Nú skal fetað í fótspor SkjásEins sem gerði þetta í hittiðfyrra við miklar óvinsældir margra kvenna ... og karla. Það var nefnilega annað hvort fótbolti eða væl.

Drama fyrir konurÉg er löngu hætt að sætta mig við að vera dregin í dilka: stelpurnar skulu vera hér yfir dramavæmninni og strákarnir þar yfir fótboltanum, helst ropandi, prumpandi og klórandi sér í bumbunni (staðalímynd af körlum). Ég fyllist heitri bræði þegar ég hugsa um alla fótboltaleikina sem þetta hefur kostað mig í gegnum árin ...  af því að umhverfið sagði mér að stelpur fíluðu ekki fótbolta, bara strákar, fótboltaleikir væru ömurlegir og það væri eðlilegt að ég ryksugaði á laugardögum og horfði reið og sár á manninn minn sem var neyddur til að horfa á fótboltann af því að það var svo karlmannlegt. Vá, ég var að fatta af hverju maðurinn minn heimtaði skilnað ... fjárans Nilfisk.

Sj�nvarpAnnars heillar sjónvarpsgláp mig ekki á sumrin, enda lélegri dagskrá á boðstólum (nema fótbolti og Formúla og fréttir). Já, ég er konan sem horfir bara á sjónvarpsefni sem byrjar á F-i. Þetta er orðinn vítahringur, sjónvarpsstöðvarnar eyða engu púðri í efni af því að það horfir örugglega enginn á sjónvarp á sumrin. Og það er ekki horfandi á sjónvarp af því að ... já, og svo framvegis. Svipaður hugsunarháttur og á gamlárskvöld eftir miðnætti þegar bara eru á dagskrá endursýndar myndir ... af því að ALLIR eru úti að skemmta sér, sjúr!

Jæja, strákar mínir á Stöð 2, hættið þessu staðalímyndakjaftæði, sýnið báðum kynjum virðingu, það er komið árið 2008.

Áfram ÍAVið mörðum jafntefli í dag, Skagamenn, í þessum fyrsta leik sumarsins. Erfðaprinsinn fór á völlinn með ÍA-trefil um hálsinn og fannst afskaplega gaman. Ekki heyrðist kattarins mjálm í himnaríki þegar mörkin tvö voru skoruð, þvílík fagnaðarlæti, gestirnir (Breiðablik) eiga sér greinilega háværan stuðningsmannahóp líka. Ég horfði til skiptis ofan af svölunum og svo sat ég líka og fylgdist með útsendingu á mbl.is, þar uppfærast allar nýjustu fréttir á mínútu fresti. Snilld! Annars bara letidagur.


Árekstur, strætómóðganir, ÍA-spenna og klípandi klerkur

Árekstur við LynghálsRétt fyrir kl. 6 var allt búið í vinnunni og undir venjulegum kringumstæðum hefði ég skoppað í rólegheitunum upp í Mosó til að ná 18.45 vagninum. Erfðaprinsinn eyðilagði þessa frábæru áætlun fyrir mér og kippti mér með heim á kagganum, hafði átt erindi í höfuðborgina. Ábyggilega til að kaupa leikföng, sófasett, trampólín og meiri gullmat fyrir kettina. Á meðan hann beið fyrir utan vinnuna mína heyrði hann svaka brak og bresti í brekkunni við hliðina, það hafði orðið árekstur. Sem betur fer engin slys á mönnum. Svona er nú  umhverfið mitt virka daga.

Bíll fyrir framan okkur á heimleiðinni skipti ótt og títt um akreinar án þess að gefa stefnuljós og erfðaprinsinn sagði hæðnislega: „Þessi asni ætti nú frekar að taka strætó!“ „Finnst þér hann sem sagt nógu mikill hálfviti til að nota þann ferðamáta?“ spurði ég beisk og erfðaprinsinn hló í stað þess að iðrast orða sinna. Það verður bið á því að ég bjóði honum í strætóbíltúr.

Hvalfjar�arg�nginHeilmikil röð var við Hvalfjarðargöngin, enda þriggja daga ferðahelgi fram undan ... í rigningunni. Tjaldvagnar og svona. Bara stuð.

Af sv�lum himnar�kisSvo verður leikur í Landsbankadeildinni á morgun, fyrsti ÍA-leikur sumarsins. Þótt svalir himnaríkis séu eins og besta stúkusæti ætlar erfðaprinsinn að borga sig inn á leikinn. Það er meiri stemmning, segir hann. Sá forsíðu DV við heimkomu og sýndist standa þar: Klerkur klípur ... en þetta var þá bara Klerkur í klípu. Kannski enginn munur.

Jæja, nú er það Útsvar á RÚV plús. Gat ekki misst af nýja Simpsons-þættinum sem við urðum að horfa á í seinkaðri dagskrá líka. En ... við urðum að fara í Einarsbúð og það ruglaði öllum áætlunum.


Indverska byltingin og Útsvars-pælingar

Færeyjar 2008 081Í strætó númer 18 hef ég tekið eftir nokkrum Indverjum upp á síðkastið, frekar prúðbúnum, sem fara út í brekkunni rétt hjá Rekstrarvörum. Þeir/þau stefna í áttina að húsi fyrir neðan Vífilfell en það gæti verið til að villa um fyrir hinum farþegunum. Mér hefur þótt þetta svolítið grunsamlegt. Einn Indverjinn var með mér á Ártúnsstoppistöðinni í morgun, alveg góða stund þar sem 18 kom ansi seint. Hann spurði mig á Oxford-ensku með indverskum hreimi hvort leið 18 væri ókomin og þá notaði ég tækifærið og fór að spjalla við hann. Hann var afar kurteis og kom vel fyrir, í jakkafötum og alles. Áður en mér gafst færi á því að spyrja hvort hann væri njósnari eða hygði á yfirráð hér á landi kom fokkings strætó og hann settist hjá hinum Indverjunum. Hvað á maður að halda?

Færeyjar 2008 039Þar sem ég var heima í aumingjaskap í gær, en vann eins og brjálæðingur þó, tókst mér í fyrsta skipti að nota aðgangskortið mitt að bakdyrunum nú í morgun. Þýðandinn, sem áður opnaði fyrir mér/okkur, var ekki í strætó svo engin vitni, nema fuglinn fljúgandi, voru að því hvað þetta gekk hratt og vel.

Þegar ég kom inn, eftir ferð frá Akranesi að vanda, var Jói í dreifingunni að fara upp á Skaga ... það vantaði Vikuna og fleiri blöð í sjoppurnar. Var ekki hægt að velja annan tíma, t.d. kl. sjö í morgun til að fara á Skagann, þá hefði ég getað verið Færeyjar 2008 099samferða honum í vinnuna? Ja, eða kl. 6 í kvöld, ef ég verð búin þá, en það verður líklega smáklikkað að gera í dag. Frídagur á mánudaginn og það þýðir að það þarf að gera prentsmiðjumánudagsyfirlesturverkin í dag. Má bara ekki missa af Útsvari í kvöld, úrslitaþættinum. Held ég verði að halda með Kópavogi, liðinu sem rústaði okkur Skagamönnum. Það er minni skömm að hafa tapað fyrir the number one winners of the Uttsvarrr. Ég fæ þá kannski að taka á nýjan leik innanbæjarstrætó, kaupa mat í Einarsbúð, verður hleypt inn í Bíóhöllina á Skaganum og get farið að lifa lífinu aftur. Mér hefur verið meinað um alla þjónustu síðan við töpuðum, nema að borga skattana mína. Bjarni Ármanns er ekki lengur þjóðhetjan okkar og Máni hrökklaðist í lögfræði og býr í Kópavogi. Svona tókum við þetta nú alvarlega á Skaganum. Ég er alveg sammála þessum viðbrögðum þótt ég berji mig kannski ekki reglulega með hnútasvipu. Já, sem minnir mig á Byrgismálið. Einn í matsalnum var búinn að lesa dóminn og var í sjokki, vægast sagt. Sagði að æsku sinni og sakleysi væri nú endanlega lokið.

Jæja, nú er næsta vinnulota að hefjast. YFIR OG ÚT í bili ...

P.s. Ath. Myndirnar tengjast ekki á nokkurn hátt innihaldi færslunnar. Langaði bara að hafa hana með færeysku ívafi, svona fyrir Jens Guð. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær. Knús!


Símaóvinir og nýtt sparnaðarráð

Greys anatomyEkki nema þrír hringdu á meðan Grey´s Anatomy var á dagskrá, fyrsti þátturinn eftir verkfall handritshöfunda. Auðvitað tók ég pollýönnu á það og var þakklát fyrir að ekki hringdu tíu með löng erindi. Einn sagðist hafa sent mér spennandi tölvupóst ... og jú, þetta var resjúmí ákveðins háskólakennara sem gengur nú með ljóshraða á milli fólks í netheimum með mynd og alles. Næsti spurði mig hvort vinkona mín leigði út íbúðir og sá þriðji átti erindi sem tengist vinnunni minni.

KettlingarAnnars ríkti ekkert annað en hreinræktaður aumingjaskapur hjá himnaríkisfrúnni um og eftir hádegið í vinnunni svo erfðaprinsinn kom brunandi um tvöleytið á gullskreytta vagninum og sótti hana. En fyrst varð að fara til dýralæknisins og kaupa gullfóður handa Tomma og Kubbi. Vælið í þessum þremur uppáhalds mínum er farið að koma illilega við pyngjuna. Nú eru kettirnir komnir á lúxusfæði sem sérstöku malti er hellt yfir til að hjálpa þeim við að losna við hárbolta í mallakút. Frekjuvælið í Tomma eftir Whiskas-blautfóðri í litlu pokunum er misskilið sem kvalir í maga ... jamm, ég hef áður skrifað um veikleika karlmanna gagnvart dekurköttum og bendi á mág minn sem gott dæmi um það en hann fer svona þrisvar á dag út í fiskbúð til að tryggja það að Bjartur kisufrændi svelti ekki gjörsamlega í hel af aðeins fimm tegundum þurrmatar.

D�ral�knastofa DagfinnsMér tókst að lífga við gamlan brandara sem smellpassaði inn í stemminguna á Dýralæknastofu Dagfinns. Hjalti, strákurinn hennar Nönnu vinkonu, kom þangað rétt á eftir okkur erfðaprinsi til að kaupa kattamat. Ég benti á hann og sagði: „Leyfðu Hjalta að vera á undan, hann er svo svangur!“ Þegar ég reyndi síðan að leiðrétta þetta við steinhissa dýralækninn jók Hjalti á kvöl mína og sagði: „Þú hefur aldrei komið í heimsókn eftir að ég keypti á Lokastígnum og hefur ekki hugmynd um hvort ég eigi kött!“ Kannski borðaði elsku Hjalti kattamat með kartöflumús í kvöldmat. Kannski tekur hann orð forsætisráðherra alvarlega og dregur saman seglin af fullri alvöru. En af því að hann er sonur móður sinnar velur hann lúxuskattamat.


Að hafa rétt fyrir sér en samt svo rangt ...

SvefnHún var hálfbuguð fallega konan sem staulaðist rammskökk út úr himnaríki í morgun ... Búin að hnussa í tvær vikur yfir frænda sínum sem heimtaði að hún tæki náttúrulyfið melatónín* til reynslu. Og ég sem er svo hrædd við lyf. Frændinn, sem fer ekki ofan af því að frænkan sé að farast úr þunglyndi af því að hún gerir aldrei neitt skemmtilegt, bara lokar sig inni ... gerði þó ekki mikið úr meintu þunglyndi mínu í þetta skiptið, heldur sannfærði mig um að djúpur svefninn sem þetta veitti myndi verða til þess að ég hætti að fá í bakið. Ég leyfði góða frænda að gefa mér poka af melatónínpillum sem hann keypti í Ameríkunni og lofaði að taka þetta inn til reynslu í hálfan mánuð fyrst þetta væri algjörlega skaðlaust. Fyrstu tvær næturnar undir áhrifum dreymdi mig nokkuð mikið sem er sjaldgæft og þegar frændi frétti það þá gargaði hann sigri hrósandi: „Ég vissi það, ég vissi það!“ (að mig vantaði melatónín) ... en reyndar er ein aukaverkun sem ég hef ekki minnst á við hann, eða að ég vakna upp á hverri nóttu (sem ég geri aldrei) og er þá með einkennilega kvíðatilfinningu ... hætt að dreyma en bakið gott. 

Í morgunÍ gærkvöldi var kominn hálfur mánuður á þessum lyfjum ..., ég fór hrikalega seint að sofa, var grútsyfjuð og sofnaði fljótt. Ég hrökk ekkert upp í nótt ... en bakið var í klessu við vakn.

Held að ég sé búin að komast að því hvað er í gangi og frændi ekki jafnruglaður og ég hélt ... þetta er örugglega þunglynt bak! Þannig að frændi hefur haft rétt fyrir sér en samt svo rangt ... Ég hef aldrei átt erfitt með svefn og heldur aldrei verið þunglynd en greinilega hefur „grunnur“ nætursvefninn í nótt magnað upp bakverkina. Þorði ekki að taka íbúfen á fastandi maga en lagaðist helling í strætó á leiðinni, enda góð sæti í Gummabíl. Samt heimtar erfðaprinsinn að skutlast eftir mér í bæinn um miðjan dag, þessi elska. 

Í hádeginu verða grænmetisnúðlur eða lambakarrí í matinn ... vildi bara deila því með ykkur. Annað, íþróttaþáttaþýðandinn var ekki í strætó í morgun, enn einu sinni ... og ég þurfti að fara löngu leiðina því að kortið góða beið mín á skrifborðinu. Megi svo dagurinn ykkar vera tryllingslega, æðislega skemmtilegur.

* http://www.lyfja.is/HeilsaOgVellidan/Natturuvorur/Greinar/Melatonin/ 


Ónýtt mannorð ... konu á mínum aldri

S�� og heyrt„Ég sá mynd af þér í Séð og heyrt,“ sagði mamma í afmælinu í gær og horfði undarlega á mig. „Nú, var það?“ spurði dóttirin. „Ég vissi ekki að þú hefðir farið á klámráðstefnu!“ hélt hún áfram og þögn sló á mannskapinn. Þarna stal hún sannarlega athygli minni frá tvíburunum krúttlegu. Ég rifjaði hratt upp atburði síðustu 49 ára sem mögulega hefðu ratað í vinsælasta slúðurtímarit landsins og datt ýmislegt krassandi í hug ... en klámráðstefna? „Var þetta nýlegt blað?“ spurði ég. „Já, ég sá það á hárgreiðslustofunni í gær.“ Augu mömmu skutu gneistum, enda hafa börn hennar verið alin upp við mikla siðprýði „Sátum við nokkrar skvísur saman í sófa með ungan mann í fanginu?“ spurði ég. „Já, einmitt þarna á klámráðstefnunni,“ sagði mamma. Loks rann upp ljós fyrir mér. „Æ, þetta var lítil smáfrétt um að Haffi Haff væri farinn að vinna með okkur á Vikunni,“ útskýrði ég, „þetta hefur eflaust verið á sömu blaðsíðu og myndir frá einhverri klámráðstefnu.“ „Ahhh, mikið er ég fegin, hana fáðu þér aðra snittu,“ sagði mamma himinsæl með dótturtepruna sem lenti óvart á rangri síðu í Séð og heyrt og uppskar ónýtt mannorð í augum móðurinnar.

AugaEkki var raunum mínum alveg lokið. Í dag skrapp ég til læknis með gjörsamlega fáránlega lítilvægt erindi, eða bólgið auga, og þurfti að bíða nokkuð lengi eftir að komast að, enda mikið að gera. Ég skildi ekki hvers vegna fólkið á biðstofunni var svona gott við mig. Ung kona færði mér vatn, eldri maður með tárvot augu klappaði mér á bakið og stórhuggulegur maður faðmaði mig. Það var ekki fyrr en mér var litið á bókina sem ég hafði verið að lesa áfergjulega sem ég skildi hvað var í gangi. Hún heitir Áður en ég dey. Pólska konan, frábæri læknirinn minn skrifaði lyfseðil og sagði að það væri eitthvað svona augndæmi að ganga.

Svona litum við útFyrr í dag var krabbameinsskoðun í gangi á Skaganum og er þessa dagana. Hef aldrei áður upplifað svona stuð og fjör af þessu tilefni sem yfirleitt er kvíðvænlegt hjá flestum konum. Sú sem lét okkur fylla út spurningablað (aðgerðir, barneignir, uppáhaldsliturinn og svona) var frábærlega skemmtileg og hin konan við hlið mér sem fyllti út eyðublaðið var hrikalega fyndin. Við sátum síðan þrjár ókunnugar á biðstofunni í hryllilegustu múnderíngu sem til er, voru í síðu, nokkurs konar pilsi með teygju og átti að staðsetja mitti pilsins undir höndunum. Við vorum eins og beibíbleikir/eiturgrænir boltar í útliti. Hugsa að eiginkona sæta læknisins hafi hannað þetta ... Það vinnur einstakt fólk á spítalanum hérna á Akranesi, þótt það þekki ekkert allir alla þá er Mulningsv�l � hv�ld ...andrúmsloftið svo kósí og allt virðist vera gert til að láta fólki líða vel. Annað en í risastóru Reykjavíkinni sem mér þykir nú samt svo vænt um. Ég segi ekki að ég hlakki til að fara aftur eftir tvö ár ... en ég verð örugglega ekki jafnkvíðin og ég var í dag. Þegar ég var síðan í kremjaranum ... eða brjóstamulningsvélinni hugsaði ég illilega til frænda míns sem gaf Krabbameinsfélaginu andvirði einnar slíkrar vélar þegar hann seldi húsið sitt og minnkaði við sig húsnæði. Nei, nei, djók, þetta var flott hjá honum og annað, það er ekki nein martröð að fara í svona vél, tekur stuttan tíma og í þessi þrjú eða fjögur skipti sem ég hef farið hafa konurnar verið alveg frábærar. Og fyrst ég er orðin „kona á mínum aldri“ að mati Krabbameinsfélagsins þá þarf ég að fara í svona myndatöku annað hvert ár.

Hressar skvísurAf hverju getur Krabbameinsfélagið ekki sagt: Konur yfir fertugt eru hvattar til að fara í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti ...í opnum póstkortum sínum til mín, í stað þess að kalla okkur Kona á þínum aldri? Þetta hefur pirrað mig síðan ég fékk fyrsta kortið, fertug að aldri, enda finnst mér Kona á mínum aldri, verða prúðbúin kona á áttræðis- eða níræðisaldri með hatt að drekka kaffi á kaffihúsi með skríkjandi vinkonum, ja, eða í sundi með litríka sundhettu. Þegar svona opið póstkort kom fyrst heim til vinkonu minnar bilaðist maðurinn hennar úr hlátri og sagði við hana: „Elskan, hér hafa orðið tímamót í lífi þínu, þú ert orðin Kona á þínum aldri.“ Auðvitað á maður ekki að láta svona smáatriði pirra sig, ég veit það vel ... en ég get ekki alltaf verið fullkomin!


Orkuboltafrændur og langþráð kort ... algjört örbold

�lfur og �sak sl�st um fl�sku ...Vinir afturMamma kann sko að halda upp á 74 ára afmæli með stæl. Við fengum snittur og tertur, gott kaffi og annað fínirí. Heiðdís frænka mætti með ... ja, nú segir maður ekki litlu englana, heldur orkuboltana ... hlaupandi og hlæjandi að skoða heiminn (tæta í fína dótinu hennar langömmu). Úlfur og Ísak eru frábærir. Lífsglaðir og skemmtilegir strákar. Erfðaprinsinn sótti þá og mömmu þeirra og fór með í afmælið áður en hann sótti mig í vinnuna og það var ansi kósí að sjá tvo barnastóla aftur í kagganum. Ég stakk upp á því við hann að hann myndi eignast tvíburadætur sem hann gæti látið heita Guðríði og Guðríði. Honum leist mjög vel á tilvonandi Gurrí og Gurrí, enda þægur og góður sonur. Ég held að ég sé loks að verða nógu þroskuð til að verða amma, hvað þá þegar ég verð fimmtug. Set inn nokkurra vikna gamlar myndir af orkuboltunum ... sem eru víst farnir að slást. Heiðdís segir Úlf stundum draga bróður sinn á hárinu eftir gólfinu sér til skemmtunar en Ísak hefur ekki enn fattað að gera það sama við Úlf. Á myndinni til vinstri sýnist mér Úlfur vera öskureiður yfir flöskustuldi bróa en veit ekki hvor er hvor á hinni ... þetta eru nú einu sinni tvíburar. Úlfur er meira að segja spegilmynd af bróður sínum, svona innyflalega séð, með hjartað hægra megin. En það voru tvær fylgjur og því eru þeir tvíeggja!

Á Stöð 2 plús náði ég einu öratriði við heimkomu: „Brooke, þetta er búið,“ sagði Stefanía alvarleg á svip. Var hún að tala um morgunkorn, hjónaband Brooke og Nick eða 51% eignarhald Brooke á Forrester-tískuhúsinu?  

Dyrnar vi� Kr�kh�lsinnFrá og með miðvikudeginum kemst ég inn bakdyramegin í vinnunni, Krókhálsmegin. Er komin með kort og þarf því ekki lengur að horfa aðdáunaraugum á þýðanda íþróttaþátta Stöðvar 2 Sport í strætó og spyrja hann síðan nærgætnislega við bakdyrnar hvort ég megi vera honum samferða inn um leið og ég lauma að honum peningum. Nú getur hann ekki lengur heimtað skilríki af mér, stolið af mér nestinu eða krafist auðmjúks þakklætis fyrir opnið. Nú skal hann gjöra svo vel og vakna sjálfur í strætó við Lynghálsinn, nú er mér sama þótt hann færi rúnt upp í Grafarholt og svo niður í bæ. Ó, hvað það verður gaman á miðvikudaginn.

Eins gott að nýja kortið virki ...


Fréttir af Vesturlandsvegi, uppseldu DV og afmæli mömmu

Strætó í morgunÞað sem bar helst til tíðinda á leiðinni Akranes-Mosfellsbær í góða veðrinu í morgun var að litli sendiferðabíllinn frá Svefn og heilsu, þessi sem fauk nýlega út af í hvassviðri, er enn á sama stað ... ofan í skurðinum. Flottur minnisvarði um kvikindislegar hviðurnar. Allt gekk líka klakklaust fyrir sig þegar Skagastrætófarþegarnir hópuðust tugum saman yfir götuna að biðskýlinu sem leið 15 í bæinn stoppar við. Á einni stoppistöðinni í Mosó komu tvær konur inn. Ég þekki aðra þeirra, þá aftari, og ætlaði aldeilis að plata hana til að setjast hjá mér en hin hlassaði sér bara í sætið, þrátt fyrir ótalmörg önnur laus. Næst verð ég með teikníbólur, fýlubombur og þaðan af verra til að koma í veg fyrir svona slys.

DVÍ hádegismatinn var lasagna, svona allílæ, en svo skrapp ég inn á DV, sem er hinum megin við matsalinn. Ætlunin var að ná mér í eintak þar sem allt var gufað upp hérna megin við matsal. En ... blaðið er uppselt og ég þarf að bíða þangað til ég kem heim til að lesa viðtalið við séra Gunnar á Selfossi. Málið er víst allt einn misskilningur, skilst mér að presturinn hafi sagt, hann bara kyssti og faðmaði stelpurnar, ekkert meira ... Mér er spurn ... það varð allt brjálað um árið þegar DV birti mynd af manni áður en hann var dæmdur fyrir barnaníð og allir vita hvernig það fór. Nú skúbbaði Stöð 2 með þetta á laugardaginn, myndbirting og alles, af hverju er fólk ekki jafnbrjálað núna?

Beta, Edda, mamma og GaujaElskuleg móðir mín á afmæli í dag. Hún var einmitt í kirkjukór með Ágústu Selfoss-prestsfrú í gamla daga og þær sungu báðar eins og englar. Ég keypti dekurkörfu handa mömmu með baðbombum og kremum. Hún elskar allt slíkt, dekurrófan sú ...

Skelli inn mynd úr afmælinu mínu í fyrra þar sem mamma situr í sófanum (t.h.) með Eddu frænku við hlið sér. Vinstra megin er Beta sjúkraþjálfari og lengst til hægri er Gauja, vinkona og skólasystir, og systir Betu.


Helgarstuð í himnaríki

Dularfulla þyrlanÍ himnaríki er alltaf sama fjörið þótt ég segi sjálf frá. Í gærkvöldi fór þyrla að hringsóla hér í kring og lenti svo á þyrlupallinum mínum hér við hliðina. Þrír ákaflega grunsamlegir menn, ekki í sérsveitarbúningum, gengu út úr henni og hurfu eitthvað út í buskann. Þyrlan tók samstundis á loft og flaug hratt í áttina að höfuðborginni. Mjög dularfullt allt saman. Njósnararnir þrír sjást  svartklæddir á myndinni hraða sér í norðuraustur. Kannski áttu þeir fund í sundlauginni. Þeir voru ekki sóttir af þyrlunni aftur svo þeir hljóta að vera hér enn. Yfir og út af þyrluvaktinni!!!

Aska og TommiSvo hringdi Ásta í gærkvöldi og boðaði komu sína í dag. Hún kom eftir hádegi og var ekki ein í för. Aska, litli sæti hvolpurinn hennar, kom með og það vakti mikla lukku hjá okkur Tomma. Kubbur hvæsti, gerði sig eins og klósettbursta í útliti og hvarf á bak við sófa. Tommi var til í eltingaleik um tíma en fór svo undir rauða sófann í hvíld. Bjartsýnn. Náði mynd á biluðu myndavélina (skjárinn svartur) af Ösku í stuði að reyna að fá Tomma til að leika meira. Algjört krútt þessi hvolpur, lífsglöð og skemmtileg. Helmingi minni en Tommi en algjörlega óhrædd.

License to WedVið erfðaprins fórum á Galito í gærkvöldi í þeim tilgangi að fá okkur gott að borða. Stappfullt var á staðnum, einhver smábið eftir borði en við ákváðum bara að taka með okkur mat heim. Get sannarlega mælt með kjúklingasalatinu, prinsinn var þó ekki alveg jafnánægður með steikarsamlokuna sem hann fékk sér. Best að panta borð næst og hafa þetta alvörunni dæmi. Við fórum í Bónusvídeó og tókum okkur License to Wed með Robin Williams. Hún átti alveg góða spretti. Þegar ég slökkti á sjónvarpinu í gær var ég búin að steingleyma þættinum Alla leið þar sem Páll Óskar spilaði Evróvisjónlög og þrír dómarar sögðu álit sitt. Seint í gærkvöldi (nótt) horfði ég á þáttinn á Netinu í gegnum www.ruv.is og svakalega var hann skemmtilegur. Palli klikkar ekki.

Eftir gott youtube.com-kvöld og google-leit fann ég loks uppáhalds Ave Maria-ð mitt á Netinu, þetta eftir Eyþór Stefánsson. Það er flutt af Kvennakór Hafnarfjarðar og ég held að það sé þess virði að gera sér ferð í bæinn til að kaupa plötuna. Annars á ég einhvers staðar plötu með Karmelsystrum þar sem þær taka þetta lag óxla vel. Það er hægt að hlusta á nokkur lög á þessari síðu og mjög gaman að heyra líka Heyr himnasmiður. http://157.157.78.75/kvennakor/stiklur.htm.

Svo fann ég margt annað gott, eins og Exultate Deo sem ég söng oft með Kór Langholtskirkju. Í þessu verki hér að neðan heyrist vel í öllum röddum. Sópranin yfirgnæfði algjörlega í nokkrum eintökum sem ég fann. Altröddin rifjaðist strax upp og ég söng hástöfum með ... nokkrum sinnum í gærkvöldi.  Adju to re no stro ... tra la la la ... elska svona tónlist.


Prestar í kröppum dansi

Eftir sjokkerandi tvo fréttatíma í röð ákvað ég að gefa sjónvarpinu frí í kvöld, kannski bjóða erfðaprinsinum út að borða og síðan á Bónusvídeó. Samskipti okkar mæðgina hafa of lengi einskorðast við kommentakerfi bloggsíðna okkar (fylgifiskur tækninnar) og nú verður gerð bragarbót á.

Til að gera ástkærum bloggvinum mínum laugardagskvöldið léttbærara skellti ég inn hressilegu vídjói þar sem prestar koma oftar en ekki við sögu. Góða skemmtun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 20
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 511
  • Frá upphafi: 1529453

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 430
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband