Færsluflokkur: Bloggar

Spádómar þínir, Nostradamus ...

bush_nostradamusFyrir einhverjum árum var mikil stemmning fyrir spádómum Nostradamusar. Stór galli er að erfitt er að tímasetja hlutina en mér sýnist á öllu að ég verði væntanlega komin undir græna torfu þegar allt verður vitlaust. Sérfræðingar í þessum málum segja t.d. að anti-kristur hafi fæðst í júlí 1999, líklega asískur, þannig að allar ásakanir um að George W Bush sé sá vondi eru greinilega úr lausu lofti gripnar. Hér koma „til gamans“ 30 fyrirsagnir úr einni þýðingunni og þær fyrstu eiga ágætlega við þjóðfélagsástandið ... og einnig það sem ég ætla að gera 1. maí nk., eða að mótmæla verðbótum lána sem renna óskiptar til bankanna. Vona að ég verði ekki gösuð. Árið 2066 lýkur öllu þessu slæma og spádómar Nostradamusar öðlast viðurkenningu. Góða skemmtun! Til að lesa miklu, miklu nánar um þetta bendi ég á: http://www.snerpa.is/net/nostri/nostr3.htm#uppgangur  

Óþarfi að óttast ... þetta er bara úr bók! Smile Bara pæling á lötum sunnudegi eftir lestur á Netinu. Vona að Guðmundur Sigurfreyr fyrirgefi mér að birta þetta!

1. Skapadægur neyslusamfélagsins. Verðbólga og gerræði. Spádómar Nostradamusar rætast

2. Nauðungaruppboð og vaxandi vantrú á getu stjórnmálamanna

3. Efnahagskreppa. Hrun verðbréfamarkaðarins

4. Samsöfnun auðs á fárra hendur og vaxandi þörf fyrir lánsfé

5. Almenningur jafnar reikninginn við vestrænar bankastofnanir
Musterin, þar sem Vesturlandabúar geyma fjársjóði sína á leyndum stöðum, verða brotin upp af hungruðum [lýðnum] sem endurheimtir auðæfin og vinnur ótrúleg spellvirki.Meðal þeirra verða hræðilegar óspektir.

6. Þverrandi trú á stjórnmálamönnum vegna verðbólgu. Glundroði í París

7. Efnahagslegt öngþveiti leiðir til styrjaldar. Beiting kjarnorkuvopna

8. Fjármálakreppa. Stríð á Vesturlöndum

9. Efnahagskreppa og almennur skortur

10. Hörmungartímar renna upp. Ringulreið í Frakklandi og á Ítalíu

11. Afvopnunarviðræður stórveldanna

12. Samningar um vígbúnað og undirbúningur undir nýtt stríð

13. Fráfall háttsetts ráðamanns færir yngri manni völdin

14. Friðarsáttmálar rofnir

15. Friðarsamningar vanvirtir. Sundurlyndi meðal Frakka

16. Egyptar efna til ófriðar við vinátturíki Rússlands. Hryðjuverk í Þýskalandi

17. Friður á Vesturlöndum undanfari stórstyrjaldar

18. Þrettán ára friðsamleg sambúð tveggja stórvelda fyrir bí

19. Aðvörun Nostradamusar. Hungurdauði og undirokun. Hernaðaraðgerðir að frumkvæði hávaxins þjóðarleiðtoga

20. And-Kristur birtist fyrir upphaf Vatnsberaaldarinnar

21. And-Kristur fæðist í júlí árið 1999

22. Trúarleiðtogi þjarmar að andstæðingum sínum. And-Kristur í leikhúsi
Stofnandi sértrúarhreyfinga veldur þeim er sakfella hann mikilli sorg.Dýrið verður í leikhúsinu
[þegar] látbragðsleikurinn er undirbúinn.

23. Dýrið sem varð heilt af banasári sínu

24. Dýrið frá jörðinni

25. Maður blóðsins: Bandaríkin á hátindi máttar síns.

26. Samvinna Bandaríkjamanna og annars stórveldis.

27. Kosning and-Krists. Hann lifir fábrotnu lífi og beitir voldugar þjóðir ofríki
Lævís maður verður kosinn án þess að láta nokkuð uppi. Hann leikur dýrling og lifir fábrotnu lífi. Síðan gerist hann skyndilega yfirgangssamur og beitir öflugustu þjóðir gerræði.

28. And-Kristur kyndir undir ófriði. Írak gegn Ítalíu

29. Yfirstjórn Bretlands í höndum Bandaríkjamanna. Kuldakast í Skotlandi. And-Kristur

30. And-Kristur ræður niðurlögum þriggja ríkja. Dómsdagsstríðið varir í tuttugu og sjö ár


Ærsladraugar valda árekstrum

SturlaHitti Skagamanninn Guðmund Sigurfrey á Safnasvæðinu í dag. Manninn sem þýddi m.a. bækurnar um spádóma Nostradamusar. Ég sagði honum að þetta væri sniðug tilviljun, ég hefði einmitt verið að skoða heimasíðuna hans í gærkvöldi í fyrsta sinn. „Já, þetta er vinsælasta síðan í dag,“ sagði Guðmundur.
Ef fólk gúgglar Sturlu Jónsson trukkabílstjóra má finna viðtal við alnafna hans, Sturlu Jónsson (sjá mynd), um ærsladrauga sem hafa ásótt hann í gegnum tíðina. http://www.sigurfreyr.com/sturla.html Dæmi úr viðtalinu:

„Um leið og ég var kominn út úr líkamanum komu verurnar þjótandi á móti mér. Þær heltóku mig uns mig þvarr allur máttur. Hvað eftir annað lá mér við algerri sturlun og um tíma hélt ég að ég væri að deyja. Ég skil ekki hvernig ég hélt ráði og rænu undir þessum kringumstæðum. Eitt sinn þegar ég var að keyra bíl féll á mig eins konar stjarfi og ég gat mig hvergi hreyft. Skyndilega sveiflaðist ég út úr líkamanum, aftur í bílinn og síðan út undir beran himininn. Bíllinn varð náttúrlega stjórnlaus og fór á næsta bíl. Úr þessu varð síðan fjögurra bíla árekstur. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig mér leið þegar lögreglan kom á vettvang og vildi fá skýringu á þessu atviki. Seinna meir náði ég valdi á þessum ferðalögum mínum og varð þá oft gagntekinn hlýju og ólýsanlegri fegurð. Þessi jákvæða reynsla hefur haft djúp áhrif á allt mitt líf.“

Vildi endilega deila þessu með ykkur.

P.s. Óli Gneisti, takk kærlega fyrir leiðréttinguna. Breytti færslunni í kjölfarið. 


Stór brjóst úr tísku - uppnám í himnaríki

V-h�lsm�li� � s�num sta�Frekar st�rt kannskiMikið var gaman á Safnasvæðinu í dag. Fjöldi skemmtilegs fólks var á staðnum, bæði að selja og kaupa. Stoppaði smástund við básinn hjá Hrönn Eggerts listakonu en einhvern daginn á ég eftir að kaupa mynd eftir hana. Ég fékk meira að segja koss á kinnina frá myndarlegum skólabróður úr barnaskóla. Það var sem smyrsl á sárin eftir eina búðarkonuna sem tilkynnti mér upp úr þurru að hún ætti svona flottheit í x-large. Við, þessar brjóstgóðu, lendum oft í þessu, enda erum við jússulegri en aðrar konur þótt við séum ekki endilega þyngri. Það kemur alveg fyrir að mig langi til að hringja í Pamelu Anderson og Dolly Parton og stofna hagsmunafélag brjóstgóðra með þeim. Þetta var svona til að kóróna það sem ég sá í Fréttablaðinu eða 24 stundum í gær að stór brjóst væru úti (out). Nokkur ráð voru gefin til að klæða af sér „ógeðið“, t.d. aldrei vera í rúllukragabol, bara V-hálsmálsbol. Þyrfti að endurnýja fataskápinn þar sem úir og grúir af alla vega þremur siðsamlegum rúllukragabolum. Í greininni var líka bent á samfellur úr Lífstykkjabúðinni sem krumpa saman spiki og brjóstum og gera konur örmjóar (sjúr). Svona samfellu eins og ég keypti um árið á laugardegi á leið í brúðkaup og konan í búðinni reyndi að selja mér afar stórar síamstvíburahúfur sem brjóstahaldara. Henni þótti ekki leiðara en það að hafa skjátlast svona með stærðina að hún reyndi að pranga inn á mig risastórri samfellu sem hefði passað á tvær Gurríar. Þá fauk nú svolítið í mína. Keypti reyndar samfelluandskotann en í talsvert minna númeri en nota hann svo aldrei af því að hann er samt of stór á mig. Hefndi mín grimmilega með því að fara aldrei í Lífstykkjabúðina framar. Viðmót fólks og almennir mannasiðir skipta mig meira máli en vöruúrval, held ég. Brúðhjónin Andrés og Auðna hafa sitt af hverju á samviskunni ...

Veðrið reyndist ekki jafnslæmt og ég hélt og var bara notalegt að smakka á heilgrilluðu lambi á hlaðinu og kaupa eins og eina bók í annars yfirfullt bókahimnaríkið. Nokkur biðröð var í spádómana hjá Magnúsardætrum, Nínu og Möggu, en einn bróðir þeirra var grillmeistarinn á staðnum. Ég styrkti Kvennakórinn um marga, marga hundraðkalla og það verður ekki síst mér að þakka að kerlurnar komast í kórferðalag til útlanda ... en einnig lagði ég mitt af mörkum (500 kall) til að koma KFUM úr landi.

Svo var Hilda systir að hringja, hún er á leiðinni með fullan bíl af mömmu, Ellen og börnum og ætlar á Safnasvæðið. Hún vonast til að hitta mig þar eða í Skrúðgarðinum. Mig langar mest af öllu að leggja mig ... enda útvinda eftir móðganir og kossa. Hún var að hringja aftur og ég ætla í bíltúr með henni og mála bæinn rauðan. Held það nú.


Viðburðadagar á Skaganum

Safnasv��i� G�r�umHátíðin á Safnasvæðinu í dag heitir Viðburðadagar. Kvennakór Akraness verður með flóamarkað inni í Steinasafninu og ýmislegt fleira verður skemmtilegt í gangi þarna, eins og spákonurnar ódýru. Ég kíkti á skessuhorn.is og akranes.is til að fá dagskrána en harla lítið var á því að græða. Innan skamms, eftir snilldarlaugardagsbað verður rokið á staðinn með erfðaprinsinn í eftirdragi. Mía systir er því miður lasin og kemst ekki, eins og hún var búin að hlakka til, en hún er í Kvennakórnum guðdómlega.

Ég fór einu sinni í opinbera heimsókn á Steinasafnið ásamt ljósmyndara. Safnstjórinn sagði mér frá mörgu athyglisverðu, m.a. því að eldri maður kæmi reglulega í safnið, ekki bara til að skoða steinana, heldur sagði hann að návistin við þá hefði svo fjári góð áhrif á meltinguna. Hálftímastopp ... og allt færi af stað ... hehehehe. Hann var ekki að tala um sveskjuböku kaffihússins á staðnum.

Sýnist vera ágætis gluggaveður í dag sem þýðir að annað hvort fer maður vel klæddur út eða tekur með sér glugga til hlífðar. Jamm.


Hörmuleg afdrif Dörlu, fræga fólkið og flóamarkaður á Skaganum

Þetta reyndist nú vera góður dagur þrátt fyrir Tommahættelsi og furuhnetuofnotkun í mötuneytinu. Þó fattaði ég á heimleið á Kjalarnesinu að liðnir voru heilir 12 tímar síðan ég hljóp út í strætó í morgun. Föstudagar geta verið ansi langir.

Dustin Hoffman og st�rri konaÍ hádeginu var spjallað um fræga fólkið sem við höfum hitt. Við Bryndís deilum Dustin Hoffmann með okkur. Ég sat á kaffihúsi í New York þegar hann gekk fram hjá en mér leið samt eins og ég hefði hitt hann. Bryndís var aftur á móti í boði með honum og hann gerði ekki annað en að tala um hvað hún væri risavaxin ... miðað við hvað, Dustin? Við Íslendingar missum okkur ekki jafnsvakalega yfir fræga fólkinu og Kaninn gerir og kannski fleiri og þess vegna hefur orðatiltækið Enginn er spámaður í eigin föðurlandi náð háum hæðum hér. Auðvitað fíluðu allir Sykurmolana og Björk, bara misstu sig ekki jafnhroðalega og t.d. Bretar. Björk, samstarfskona mín, fór á Bjarkartónleika í London í síðustu viku og þegar hún hvíslaði einhverju að sessunaut sínum sussaði bresk kerling á hana.

Bj�rkHarrison FordMargir útlendingar halda að þeir geti komið hingað og fengið algjöran frið. Það var auðvelt hérna einu sinni en varla lengur, nema frá svona sífiliseruðu fólki eins og okkur þarna í matsalnum. Við roðnuðum þegar við rifjuðum upp ýmsa atburði sem sönnu það, eins og þegar þekktur leikari sat og borðaði á hóteli þá komu íslenskir fávitar, settust hjá honum og fóru að spjalla. „I like your movies,“ ... eins og honum væri ekki sama. Hann stóð fljótlega upp og fór. Haffi sagði okkur að fræga fólkið mætti ekki vera of mikið á meðal almennings, þá yrði það of mannlegt og tálsýnin hyrfi. Selma, vinkona Bjarkar, spurði reyndar Harrison Ford (eða Clint Eastwood) hvort það væri rétt að hann myndi leika í Da Vinci Code sem var þá á umræðustigi. „I think it will be Johnny Depp,“ sagði hann kurteislega. „It´s always Johnny Depp“ bætti hann við ögn beiskur. Þetta þótti okkur ógurlega fyndið. Einu sinni sátu Elín og vinkona hennar á Kaffi Olé í Hafnarstræti, staðnum sem var svo heitur að Damon Albarn fékk sér latte þar, og drukku latte. Skammt frá þeim sat kona sem sneri baki í þær. Önnur sagði: „Vá, ef þetta er ekki sú svakalegasta Bjarkareftirherma ...“ Konan sneri sér við og þetta reyndist vera Björk Guðmundsdóttir ...

Sp�kerlingar � SkaganumFl�amarka�urÁ morgun verður dásamlega fjörugur viðburðadagur á Skaganum. Held að hátíðin hefjist kl. 14 á Safnasvæðinu en þá verður flóamarkaður, sölutjöld, spákonur og sitt af hverju skemmtilegt. Held að Kvennakórinn sjái um spádómana og fengu alvörunornir innan sinna raða til að spá fyrir fólki, kostar bara 1.000 kall. Mig langar á flóamarkaðinn og kaupa mér föt. Það er miklu einfaldara að kaupa sér föt sem aðrir hafa velt fyrir sér og valið af vandvirkni ... og svo hafa fötin kannski hlaupið við fyrsta þvott og svona.

Hér að lokum kemur átakanlegt myndband úr boldinu. Þar sem ég missti af bold of the day ... en vissi nokkurn veginn hvað myndi gerast notaði ég bara kristalskúluna mína og smá tækninýjungar (elsku youtube).

 

 


Grátið í strætó - Tommi hættur!

TommastrætóGummi bílstjóri mætti óvænt á "Tommabíl" á hlýja og notalega stoppistöðina í morgun, uppáhaldsstrætó Skagabílstjóranna, sérstaklega Tomma. Gummi hnussaði fyrirlitlega þegar ég spurði hvort það væri ekki gaman að vera á besta bílnum. „Þetta er ekki besti bíllinn,“ sagði hann grautfúll en einhverra hluta vegna er Gummabíll notaður sem 27A núna en hefur næstum frá byrjun verið 27B ... jamm, við farþegarnir skiljum þetta fagmál. Kannski er bara verið að sýna bílstjórunum að lífið er ekki bara dans á rósum. Gummi sagði mér skelfilegar fréttir ... eða að Tommi bílstjóri væri hættur!!! Ég fór auðvitað að skæla og innan tíðar hristist vagninn af ekka allra farþeganna, bæði er grátur minn náttúrlega smitandi og svo hágrét fólkið auðvitað þegar fréttirnar síuðust inn í hausinn á því. Gummi nennir engu svona kjaftæði og væli og sagði að við gætum bara farið í BYKO ef við vildum hitta Tomma. Hann var örugglega grútspældur yfir viðbrögðum okkar farþeganna. Hann hefði átt að vita hvað við söknuðum hans sjálfs þegar hann skrapp á Kanarí nýlega og við fengum einhverja missæta karla í staðinn.

Fyrir aftan mig sat elsku indverska vísindakonan, nýhætt hjá Íslenskri erfðagreiningu og leitar sér að nýrri vinnu. Rosalega jákvæð, ekkert blýföst í því að þurfa eingöngu að vasast með tilraunaglös og smásjár, hún lítur bara á þetta sem tækifæri en ekki hrun þótt ÍE sé að segja upp fólki í tonnatali núna ...

KjúklingabringurÆtlaði að hitta Önnu vinkonu (Önnu Bj) í hádeginu og borða með henni hádegisverð en hún varð að fresta því. Alltaf kemur eitthvað gott í staðinn ... svo skemmtilega vill til, að sögn samstarfskvenna minna, að það verða kjúklingabringur, ógó-góðar, í hádegismatinn í dag. Jamm, maður tekur að sjálfsögðu Pollýönnuna á svona hluti!

Ögn síðar: Kjúklingabringurnar voru í lagi en salatið girnilega sem allir emjuðu yfir var fullt af furuhnetum ... djúp vonbrigði. Ef ég væri ekki léttlynd að eðlisfari og byggi yfir sannkallaðri hetjulund væri þessi dagur nú endanlega ónýtur. Fyrst Tommi - svo salatið!


Sjónvarpsplat og Evróvisjónpælingar með dassi af Pink Floyd

E_Greys_Heigl_325Skrýtið að Stöð 2 auglýsti lengi vel að Grey´s Anatomy hefjist í apríl.  Fyrsti þátturinn eftir verkfall handritshöfunda verður ekki sýndur fyrr en í maí. Auglýsingin sagði alltaf 30. apríl en þá verður upprifjunarþáttur. Þeir eru nýbúnir að bæta við: Sagan til þessa. Kannski allt í plati til að fá fleiri áskrifendur í apríl. Mín orðin svolítið beisk eftir sport-tv-meðferðina.

Mun sakna �essara ��ttaSvo var ég að komast að öðru tengdu sjónvarpi ... Norrænu Evróvisjónþættirnir, þar sem Eiríkur Hauksson var fulltrúi Íslands, verða ekki framleiddir í ár. RÚV ætlar að bregðast við með séríslenskum þætti. Laugardagskvöldið 3. maí nk. verður sýndur fyrsti þáttur af þremur þar sem Páll Óskar, dr. Gunni, Guðrún Gunnarsdóttir og Reynir Þór Eggertsson spá í lögin sem keppa til úrslita í ár. Líst bara vel á þetta. Það er alltaf stemmning í kringum Evróvisjón þrátt fyrir öll áföllin sem þjóðin hefur fengið í gegnum tíðina, við sendum algjör sigurlög ár eftir ár en smekklausar Evrópuþjóðir hafna þeim stöðugt. Mér finnst heldur dýrkeypt að ganga í Evrópusambandið til að fá fleiri atkvæði ... Sumir halda því fram að við veljum yfirleitt alltaf lög sem við höldum að falli í kramið hjá hinum þjóðunum, ekki lög sem okkur finnist flottust. Að vanda hef nú samt ég algjöra ofurtrú á laginu okkar, eins og öllum lögum sem við höfum sent í gegnum tíðina. Fyrst ég er byrjuð að skrifa um tónlist læt ég hér fylgja ótrúlega sætt lag fyrir svefninn:

 


Sumarboðar sem stinga ekki

Skr��ganga � SkaganumNú er sumarið komið og svei mér þá ef eru ekki ögn fleiri grænir blettir í brekkunni fyrir neðan himnaríki í dag en voru í gær. Óska öllum gleðilegs sumars og farsæls komandi vetrar.

B��h�llinÉg man eftir snjókomu á þessum degi þegar ég var lítil, spariklædd í skrúðgöngu með fána og blöðru. Kuldablá Skagabörn börðust stundum í veðurofsanum að Bíóhöllinni þar sem barnaskemmtun var haldin. Kannski hefur þetta breyst eitthvað í minningunni en kalblettirnir á kálfunum eru samt ekkert annað en minnisvarði um sumardagana fyrstu á sjöunda áratug síðustu aldar. Það var strax skárra að fara í 1. maí göngurnar og fyrir kom að sólin skein á okkur öreigana.

Sumarbo�inn 2008Kappklætt fólk er í göngutúr á Langasandi á meðan ýmsir bloggarar í Reykjavík hafa fengið váboða sumarsins, býflugur, í heimsókn til sín. Fólk ætti ekki að hafa svona mikið af trjám og blómum í görðum sínum. Barátta mín fyrir því að malbika grasið umhverfið himnaríki hefur fallið í grýttan jarðveg en ég held bjartsýn áfram að gefa húsfélagsformanninum undir fótinn. Verst hvað ég hitti hann sjaldan. Hann hlýtur að geta lesið eitthvað sætt út úr annars steinrunnum svip mínum þar sem ég geri ávallt tilraun til að brosa til hans þótt blæði stundum úr munnvikum mínum á eftir.  

Svo riðu hestamenn eftir sandinum áðan en það hefur verið fastur sumarboði þennan dag síðan ég flutti hingað í himnaríki. Ekki býflugur, heldur yndislegir hestar; sumarboðar sem stinga ekki.


Sviðsetning á eggjakasti

ÓeirðirMikið fjör ríkti víst á Útvarpi Sögu í dag í þættinum Miðjunni sem Halldór frændi og Sverrir Stormsker sjá um alla miðvikudaga kl. 16-18. Nokkrir trukkabílstjórar komu í viðtal og voru svo „handteknir“ strax á eftir, eða fóru í yfirheyrslu hjá löggunni. Í þættinum var spiluð ákveðin upptaka fimm sinnum en þá heyrðist fréttakona annarar sjónvarpsstöðvarinnar segja við stjórnstöð: „Ég gæti fengið einhvern til að kasta eggjum á meðan við erum læv ...“
Þátturinn verður endurtekinn kl. 10 í fyrramálið. Hélt að stuðið væri nógu mikið svo ekki þyrfti að sviðsetja nokkuð!

Það misstu sig allir af æsingi í dag, við Íslendingar kunnum ekki á svona mótmæli. Vissulega eigum við að standa á fætur og öskra ef einhver fer illa með okkur. Hingað til höfum við einna helst fengið útrás með því að horfa á Spaugstofuna á lM�tm�liaugardagskvöldum. Við segjum: „Þarna fengu þeir það, helvískir!“ og síðan höldum við áfram að láta okra á okkur á allan hátt fram að næstu Spaugstofu. Ég mæli með því að þegar t.d. bændur reiðist næst mótmæli þeir með því að láta skítinn tala, aki um á fullum haugsugum ...  Það gera franskir bændur með góðum árangri. Samtakamátturinn skilar greinilega miklu en það hefur verið erfitt að ná honum upp hér á landi. Nú í kreppunni, þegar peningabuddurnar þynnast stöðugt, stöndum við flest í sömu, blönku sporunum og viljum breytingar. Evrópusambandssinnar nota tækifærið og segja að ástandið sé svona vegna þess að við erum ekki í Evrópusambandinu. Æ, ég trúi ekki svona hræðsluáróðri en vil samt alveg hlusta á rök með og á móti, meira að segja með opnum huga.
Ég heyri þó aldrei minnst á það að sem meðlimir þyrftum við að borga fleiri milljarða á ári fyrir aðildina og að aðildin yrði óafturkræf. Annars tengist uppáhaldsfrumvarpið mitt reyndar Evrópusambandinu. Það heitir: Verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Í alvöru.


mbl.is 21 handtekinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími á bold

Darla og AmberNú er aldeilis kominn tími á bold þótt fyrr hafi verið. Handritshöfundar hafa undanfarið búið sig undir að drepa Dörlu og þess vegna er hún gerð að samblandi að Díönu prinsessu og Móður Theresu. Þessi háttur ef hafður á í hvert skipti sem einhver deyr. Þegar Amber fæddi andvana barn Ricks (sonar Brooke og Erics) og svo heppilega vildi til að frænka hennar, Becky, fæddi dreng sama dag og lét ljósmóðurina fá til ættleiðingar (hmmm) og ljósmóðirin lét Amber fá til að hún gæti platað Forrester-fjölskylduna. Alla meðgönguna óttaðist hún að barnið yrði dökkt því hún svaf hjá flottum söngvara um svipað leyti og hún tældi Rick þegar hún var barnfóstra hans.
Becky var algjört hjólhýsapakk (svona amerískt) og skömmu áður en hún var skrifuð út úr þáttunum (dó) breyttist hún í sannkallaðan dýrling sem allir dýrkuðu og syrgðu sárt.

Eric, Stefanía, Thorne og DarlaÁ meðan Darla heldur upp á afmæli litlu dóslunnar sinnar og segist elska alla og að hún eigi besta mann í heimi og sætasta barn og frábærustu fjölskyldu, er Phoebe, önnur tvíburadóttir Ridge og Taylor, í vanda. Villtist á leið sinni í afmælið, held ég, svo sprakk á bílnum og ljótur subbukarl sniglaðist í kringum hana. Hún lokar sig inni í bílnum, hringir í mömmu sína sem var nýbúin að hella niður öllu áfengi heimilisins (vegna ofdrykkju undanfarið) og eiga gott samtal við Ridge, sem enn er í sárum eftir brúðkaup Brooke og Nicks. Nú vonar Taylor að Ridge, fyrrum eiginmaður hennar til margra ára og barnsfaðir hennar (Tómas og tvíburarnir), líti mögulega kannski við henni aftur þar sem Brooke lítur ekki við honum. Phoebe hringir líka í Dörlu sem kemur fyrr á staðinn og ákveður að skipta um dekk. Tómas og tvíburar og foreldrar fyrir 6 árumÍ hamaganginum við það hrasar Darla út á þjóðveginn ... og beint fyrir brunandi bílinn hennar Taylor á leið til að bjarga dótturinni. Á meðan situr Thorne, eiginmaður Dörlu, í bíl sínum og hugsar um Dörlu. Stefanía horfir hugfangin á myndir af Dörlu, tengdadóttur sinni, syni og litlabarni. Hún ákveður ásamt Sally að gera eitthvað flott fljótlega í tilefni af afmæli Dörlu. Aðeins áhorfandinn veit að Darla er dáin. Hector kemur á staðinn, enda eini slökkviliðs- og sjúkraliðsmaðurinn í Ameríku, eins og komið hefur fram í þessum þáttum. Thorne kemur síðan á staðinn og grætur, engan grunar að Taylor hafi keyrt á Dörlu, allir halda að ökumaðurinn hafi stungið af. Geðþekki geðlæknirinn er nefnilega í losti og kristalskúlan mín (Netið) segir mér að hún geti ekki dílað við sektarkenndina, heldur marineri það í alkóhóli næstu þættina.
Myndin er frá árinu 2000, Ísland sér 2 ára gamla þætti ... vá, hvað krakkasnúllurnar vaxa hratt á 6 árum. Farin að deita og allt! 

Eigið guðdómlegan síðasta vetrardag!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 62
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 553
  • Frá upphafi: 1529495

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 464
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband