Færsluflokkur: Bloggar

Ófreskjur, ofsatrú og spælandi bókarendir ...

Klikkaður annadagur í dag. Enginn tími fyrir morgunblogg. Bara svo það sé á hreinu ... þá var ég ekki nálægt Rauðavatni í dag, heldur sat pen og prúð við tölvuna en sveitt af æsingi og stressi, skila, skila, skila ... var einkunnarorð dagsins. Annars hef ég ekki komist nálægt góðum óeirðum í langan tíma, ekki síðan það var útsala í Nínu síðast.

The MistÉg veit hreinlega ekki hvort ég eigi að mæla með eða vara við DVD-myndinni The Mist sem er gerð eftir sögu Stephens King. Eina orðið sem kom upp í hugann eftir að hafa horft á hana var SVAKALEG. Hún segir frá hópi fólks sem verður innlyksa í stórri verslun í þorpinu eftir að í ljós kemur að margt býr í þokunni ... Skrýtin upplifun, svona af ammrískri mynd að vera, þá stóð nokkrum aðilum þarna meiri hætta af ofsatrúaðri konu (nöttaranum, eins og Skessa myndi orða það) og vaxandi söfnuði hennar en af viðbjóðslegu skrímslunum sem biðu í þokunni eftir góðu mannakjöti ... úúúúú! Í myndinni I am legend fannst mér vera svolítill trúarlegur undirtónn, algjörlega óþarfur, þar sem fólk var varað við að fikta um of í sköpunarverki guðs, ósýnilega vinarins, eins og DoctorE myndi orða það. Tek það fram að ég les nú fleiri bloggsíður en þeirra ... þau lágu bara svo vel við „höggi“ núna. Erfðaprinsinn sá The Mist á undan mér og varaði mig við, samt lét ég freistast ... garggg. Í kvöld og á morgun verður bara eitthvert meinleysi í gangi í tækinu, Enchanted (Walt Disney) og Antonement. Þá get ég skrifað um þær í næstu Viku, ef þær eru skemmtilegar.

KuðungakrabbarnirSvo lauk ég við Kuðungakrabbana í gærkvöldi og hún er ÆÐISLEG!!! Hún endar þannig að það verður að koma meira, ljótt að fara svona með góða lesendur. Skrýtið að ég muni ekki eftir fyrri bókinni, Berlínaröspunum, verð að finna hana og lesa aftur. Líklega les ég of hratt, kannski of mikið, nei, það er ekki hægt að lesa of mikið, en ég get lesið sömu bókina eftir tvö ár og þótt ég muni sumt, þá nýt ég bókarinnar jafnvel og þegar ég las hana í fyrsta sinn. Þetta heitir án efa gleypugangur.


Kattauppeldi, konukvöld og heimakynningar frá helvíti

Tommi á gluggaveiðumHér er unnið af túrbókrafti og lítill tími til annars. Búin með djúsí lífsreynslusögu sem mér tókst að redda í gegnum ýmsar krókaleiðir í gærkvöldi. Það eiga sér allir sögu, jafnvel margar sögur; góðar, fyndnar, sorglegar, erfiðar og skemmtilegar. Nokkrar hef ég fengið í gegnum bloggvini, enda er ég óþolandi í leitinni og með allar klær úti, alltaf. Múahahha!

Kettirnir elska að hafa mig heima, sérstaklega núna þegar erfðaprinsinn er að heiman. Þeir væla af og til, enda fá þeir ekki sömu dekurmeðferðina hjá mér í sambandi við mat. Það hefur líka heilmikið gengið á þurrmatinn síðan í gær. Tommi situr í glugganum við hlið mér og vælir ámátlega á fiskiflugu sem er hinum megin gluggarúðunnar, hann langar í sushi ...

Vinkona mín sagði mér um daginn að hún fengi stundum boð um að koma á konukvöld. Dagskrá slíkra konukvölda væri í mörgum tilfellum móðgandi, sagði hún. Nýjasti pósturinn: Kæru XXkonur. Eigum við ekki að gera lífið skemmtilegra og mæta á konukvöld hjá XXXX í XXXXX? Kaffi og kökur. Tískusýning og snyrtivörur á tilboði. Innifalið í miðaverði er grenningarkrem frá XXX. Hversu leiðinlegt er lífið ef maður fer á svona uppákomur til að gera það skemmtilegra, kveinaði hún. Mér finnst reyndar gaman að hitta konur og borða kökur og drekka kaffi en hef forðast konukvöld, heimakynningar og slíkt af alefli. Þoli ekki einu sinni danssýningar, að undanskildum ballett.

 

KvennakvöldÞegar ég vann á Aðalstöðinni í denn voru svona konukvöld árlegur viðburður. Það sem fældi mig helst frá því að fara á þau var stripparinn! Ég fæ alltaf vægan aulahroll yfir slíku, hvort sem um er að ræða kvenkyns- eða karlkynsstrippara. Samt er ég vitlaus í stráka ..

Hefði getað kálað einni vinkonu minni fyrir mörgum árum þegar hún bauð mér í mat, sótti mig heim á Hringbraut og gaf mér gott að borða. Þegar máltíðinni var að ljúka sagði hún: „Já, bæ ðe vei, það verður Tupperware-kynning hjá mér á eftir og það koma nokkrar konur eftir hálftíma.“ Hún hélt að hún væri að gleðja mig með þessu, allar konur elska jú heimakynningar ... sjúr. Þetta reyndist þó ágæt afplánun, skemmtilegar konur og svona, en ég spurði þessa vinkonu mína alltaf eftir þetta, þegar hún bauð mér í mat, hvort það yrði nokkuð kynning hjá henni.


Sjónvarpseinelti, berdreymni og stressandi frídagar

Hekla í stuðiKiddi kom okkur af öryggi heim á Skagann seinnipartinn og við Sigþóra blunduðum ekkert á leiðinni, heldur spjölluðum af miklu offorsi, enda langt síðan við höfum hist almennilega. Hana dreymdi nýlega að hafnar væru strætósamgöngur milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Skyldi hún vera berdreymin? Sagði henni að þetta vissi ábyggilega á eldgos í Heklu innan 20 daga.

Það verður ansi mikið að gera þessa viku og þá næstu þar sem erfitt er að gefa út vikublöð með fimmtudagsfrídögum, eins og 1. maí, sumardeginum fyrsta, uppstigningardegi og slíkri dásemd, nú veldur þetta bara aukaálagi ... en samt met ég þessa frídaga mikils. Það verður því mikill dúndurvinnudagur heima í himnaríki á morgun.

Svarthvítt sjónvarpSjónvarpið í stofunni er nú svarthvítt sem rifjar upp ljúfar minningar úr æsku þegar horft var með áfergju á Maður er nefndur, Stundina okkar, Dýrlinginn, Forsythe-fjölskylduna, Onedin-skipafélagið og stillimyndina. Allt jafnskemmtilegt! Litur prýðir aftur á móti gamla tækið í vinnuherberginu. Þetta sjónvarpseinelti í himnaríki er örugglega engin tilviljun, var ekki vika bókarinnar að hefjast? Kláraði reyndar tvær bækur um helgina og byrjuð á enn einni sem er hrikalega skemmtileg og heitir Kuðungakrabbarnir, eftir sama höfund og Berlínaraspirnar.


Strætóbílstjórahvíslarinn

Kalt á stoppistöðGolan var ansi köld í morgun og minnstu munaði að það væri tveggja trefla veður. Gummi bílstjóri brosti sætt þegar ég steig upp í vagninn. Úti á stoppistöð var Lilja, dóttir mannsins sem býr fyrir neðan mig, við settumst saman og okkur tókst að spjalla með smáblundum alla leið í bæinn. Mikið held ég að hún vinni á skemmtilegum vinnustað, liðið hennar sigraði í Apprentice-keppni og einn dómarinn var með Donald Trump-hárkollu til að gera þetta skemmtilegra. Bílstjórinn á leið 15 brosti líka sætt til mín, eins og Gummi. Þegar ég skalf úr kulda í golunni í Ártúni hlýnaði mér hratt um hjartarætur þar sem bílstjórinn á 18 var alveg jafnbrosmildur og hinir tveir. Stundum held ég að ég sé svona strætóbílstjórahvíslari.

Sæti, ljóshærði, ungi maðurinn, sem segir frá skrýtnum hlutum úr Skakka turninum í þættinum Svalbarða á SkjáEinum, er yfirleitt samferðamaður minn í leið 18. Við höfum sameinast um að elta íþróttaþáttaþýðandann af Stöð 2 því sá er með kort. Núna í morgun þurftum við ljóshærði (en samt ágæti) maður að leggja lykkju á leið okkar til að komast í vinnuna þar sem þýðandinn var hvergi sjáanlegur. Ég vissi að þetta gæti gerst ef ég fengi ekki kort og nú rættist martröð mín.

Haffi Haff hóf störf hjá Vikunni í morgun. Ekki leiðinlegt! Hann mun sjá um allt sem viðkemur tísku og útliti, þessi elska. Sjá næsta Séð og heyrt ...


Hvílir bölvun á Karli Bretaprinsi?

Einu sinni skrifaði ég grein um bölvun konunganna, að ákveðnum nöfnum kóngafólks fylgdi bölvun en blessun öðrum.

Kalli prinsKarl IIKarl Bretaprins hefur í gegnum tíðina fengið frekar slæma útreið í fjölmiðlum, nema kannski allra síðustu árin, og var líf hans sannarlega enginn dans á rósum í kringum allt Díönufárið. Ef allt fer eins og það á að fara mun hann ríkja í Bretlandi sem Karl III. Nafnar hans tveir sem ríktu á undan honum voru ekki farsælir konungar. Karl I var hálshöggvinn árið 1649 eftir ósætti við þingið. England var síðan lýðveldi í um 11 ár undir stjórn Cromwells. Að þeim tíma loknum komst Karl II til valda og ekki gekk honum betur. Hann stjórnaði án samþykkis þingsins síðustu fjögur ár sín á valdastóli, vegna ósættis sem gerði hann ekki að vinsælasta manni samtímans. Dæmi nú hver fyrir sig hver hafi átt verri daga, Kalli prins eða kóngarnir tveir.

Edward VIII og frú SimpsonKingEdwardVIIJátvarður. Játvarðar í bresku konungsfjölskyldunni hafa heldur ekki átt svo góða daga. Síðustu þrír Játvarðar voru ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu í sögunni. Játvarður VIII átti í ástarævintýri sem skaðaði krúnuna mjög um miðja síðustu öld og endaði það með því að í fyrsta sinn í sögunni afsalaði breskur þjóðhöfðingi sér krúnunni. Játvarður afsalaði sér henni vegna ástarinnar á hinni fráskildu frú Simpson. Margur Bretinn á enn erfitt með að ímynda sér að maður afsali sér krúnu, hvað þá fyrir ást. Næstur á undan honum var maðurinn sem beið mestalla ævi sína eftir krúnunni (og hefði ekki látið sér detta í hug að láta hana fyrir ástina né nokkuð annað). Hann var fæddur 1841 og varð konungur 1901. Hann beið sem sagt í 60 ár eftir hásætinu og sat þar til 1910 eða í níu ár.
Játvarður VI, sem tók við völdum á erfiðum tímum, árið 1547, var veikburða. Hann var ekki nema tíu ára gamall þegar hann varð konungur. Ekki hjálpaði það til að faðir hans hafði slitið sambandi ensku kirkjunnar við páfann og leysti úr læðingi trúarbragðastríð. Ekki getur það verið gott fyrir heilsufar veikburða drengs, enda lést hann fimm árum eftir að hann var krýndur. Aðrir Játvarðar eru frægir fyrir að hafa átt í innanlandsátökum sem nánast klufu konungdæmið. Einn þeirra kom 100 ára stríðinu af stað ... ekki leiðinleg arfleifð það.

Georg VGeorg VI pabbi Elísabetar IIGeorg. Tveir vinsælustu konungar Englands 20. aldar voru Georg V og sonur hans Georg VI en hvorugur þessara manna áttu að verða konungar. Þeir tóku við eftir að eldri bræður þeirra gátu ekki tekið við krúnunni. Játvarður, eldri bróðir Georgs V dó (enn einn Játvarðurinn) og eins og fyrr segir afsalaði eldri bróðir Georgs VI sér völdum (Játvarður sem áður var getið). Þó má segja að þeir Georgar sem á undan voru og áttu réttmætan erfðarétt til krúnunnar hafi ekki verið svo lukkulegir stjórnendur þótt þeir kunni að hafa verið góðviljaðir menn. Meðal afreka þeirra voru að sá fyrsti þeirra talaði ekki stakt orð í ensku og sá næsti lét sig lítið stjórnmál varða en þessi tvö atriði urðu til þess að minnka völd og áhrif konunga gagnvart þingi. Sá þriðji er líkast til frægastur fyrir geðveiki sína en var líka illa liðinn fyrir að hafa tapað nýlendunum í Ameríku. Þó má segja að sá fjórði hafi í raun gert mestan skandal fram að þessu með því að giftast kaþólskri konu en hún var ekki aðeins kaþólsk heldur einnig fráskilin og slíkt var og er bannað. Hjónaband þeirra var lýst ógilt og hann giftist aftur.

Elizabeth IElísabet IIElísabet. Á meðan segja má að þetta fólk hafi í raun verið dæmt til mistaka vegna nafns síns má segja að Elísabet II, sem hefur verið gífurlega vinsæl sem drottning, feti í fótspor nöfnu sinnar. Sú náði að sameina ríkið undir eina trú og ljúka trúarbragðastyrjöldum með stofnun ensku biskupakirkjunnar.

Elísabet I var svo skyldurækin að hún giftist aldrei, heldur giftist í raun til opinbera starfa.

 

Vilhjálmur prinsVilhjálmur, sonur Karls og Díönu, þarf meðal annars að feta í fótspor mannsins sem náði að sameina konungdæmið, Vilhjálms sigursæla sem undirritaði réttindaskrána sem er grundvöllur breska þingræðisins. Hann jók sem sagt þingræðið á siðmenntaðan hátt, ólíkt Georgunum. Vonandi stendur Vilhjálmur undir því.

Hvort fólk trúir á bölvanir eða hvort framansagt er allt ein stór tilviljun skal ósagt látið. Ef bendillinn er látinn yfir myndirnar birtast nöfn viðkomandi.


Ör-kraftaverk, óritskoðun og guðdómlegheit

Stórir strákar fá raflostÞað gerðist hálfgert kraftaverk í himnaríki núna undir hádegi. Loftnetið lagaðist ... í heilar þrjár mínútur eftir viðgerð okkar erfðaprinsins. Ég lét hann halda á skrúfjárninu og bora því ofan í rafmagnið, stórir strákar hafa nefnilega gott af því að fá raflost. Það gerðist reyndar ekki, þar sem skrúfjárnið var svona öryggis-eitthvað. Líklega þurfum við að fara með loftnetið og snúruna á einhvern stað hérna á Akranesi þar sem hægt er að gera við það við búðarborðið. Tillögur óskast frá Skagverskum bloggvinum.

Ég var auðvitað bara að djóka þegar ég sagðist ætla að ritskoða boldið ... margir froðufelldu yfir því að verið væri að ritskoða bloggið og ég vildi vera með í látunum. Auðvitað vil ég að þið fáið boldið í æð, öll dramaköstin, sólbrunana, framhjáhöldin, giftingarnar, eggjagjafamistökin, blóðtengslarofin og óhjákvæmilega skilnaðina.

Hér ríða rólegheitin rækjum, eins og Oddur Magnús, fyrrum samstarfsmaður minn á Stjörnunni 1987 hefði orðað það. Það rennur í guðdómlegt bað og seinna í dag býst ég við að guðdómlegur frændi minn kíki í heimsókn úr höfuðborginni og dragi mig í Skrúðgarðinn.


Kraftaverk óskast - bömmer í himnaríki!

my-super-ex-girlfriend-742515Kubbur og loftnetiðHvar eru rafvirkjar, sjónvarpsvirkjar og aðrir snillingar þessa lands þegar himnaríkisfrú og sárasaklaus erfðaprinsinn hennar verða sjónvarpslaus í miðri, bráðfyndinni mynd á laugardagskvöldi vegna sambandsleysis í útioftnetinu sem er reyndar staðsett inni? Hvers vegna datt erfðaprinsinum ekki fyrr í hug að fara í nothæft og almennilegt nám sem í lokin hefði bjargað svona stórvandamáli? Verður svo ekki Formúla í hádeginu ... bara til að ergja mann? Sjónvarpsloftnetið frá helvíti sést fyrir aftan Kubb á myndinni vinstra megin. Hinar myndirnar tengjast kvikmyndinni sem við vorum að horfa á þegar hryllingurinn skók himnaríki!

Og ég sem kláraði Sjortarann í dag, spennubókina nýju eftir Patterson ... argggg ........

Sumar konur taka uppsögn illaÞað var nefnilega þessi líka fyndna ástarmynd í gangi þar sem gæinn vogaði sér að segja dömunni upp og hún hefndi sín m.a. með því að fleygja grimmum hákarli inn um gluggann hjá honum og nýju kærustunni á 20. hæð í fínu íbúðinni þegar allt fraus.

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara með lítið skrúfjárn þarna ofan í þar sem snúran tengist í loftnetið (þar er vandinn), hræðist raflost meira en margt annað, eins og t.d. léttmjólk í kaffi og þá er nú mikið sagt. Nú þarf ekkert annað en kraftaverk ef þetta á að lagast. Bið um rosamikla samúð í kommentakerfinu og magnaðar tillögur að mögulegri viðgerð í fyrramálið.


Góð okursíðan hans Dr. Gunna

Dr. GunniÉg hef verið að lesa okursíðuna hans Doktors Gunna, http://eyjan.is/goto/drgunni/, og finnst alveg frábært að almenningur sé loks að vakna upp úr okurdásvefninum langa. Við höfum látið okra ógeðslega mikið á okkur í gegnum tíðina af því að við höfum ekkert gert, enda alltaf þótt flott að vera/þykjast „ríkur“ hér á landi. Hér lætur maður sko helst ekki sjá sig með Bónuspoka ... og hér þegir maður yfir því að maður sé svona „Íbúðalánssjóðsfólk“ ... hehehhe. Eina leiðin er greinilega sú að halda vöku sinni og hætta alfarið að skipta við okrarana. Ég hélt t.d. í alvöru að BT væri lágvöruverslun í raftækjum en það var áður en ég las síðu Dr. Gunna. Hef reyndar keypt fína hluti þar ... en á tilboðsverði. Eftir lesturinn veit ég að við eigum ekki að trúa blint á hilluverð, heldur bera það saman við kassaverð og verja tíma í að gera verðsamanburð milli verslana. Þannig sést hverjir okra minnst.


Ritskoðun á boldinu

Taylor, Ridge,Tómas og tvíburarnirVegna síðustu atburða sem skekja boldheima hef ég ákveðið að skrifa mun varlegar en áður um þá atburði sem eiga sér stað í þáttunum. Ég tel þó alls ekki að skrif mín hafi einkennst af hatri gagnvart Forrester-liðinu, síður en svo, ég hef þó mögulega verið ögn dómhörð vegna þeirrar viðleitni boldarana til að stunda sígiftingar ... skipta reglulega út börnunum og láta mun eldri leikara í þeirra stað svo hægt væri að láta þá elstu hafa eitthvað nýtt til að sofa hjá og svo auðvitað til að giftast. Dæmi: Tómas og tvíburarnir, sem þroskuðust óhugnanlega hratt, Tómas var meira að segja farinn að sofa hjá Amber, áður en hún hvarf. Tvíburarnir, sem bara í fyrra eða hittiðfyrra voru dúllulegar þriggja ára dömur, eru nú unglingar og stutt er í að Rick, föðurbróðir þeirra en þó ekki blóðskyldur, fari að deita aðra þeirra inni í framtíðinni.

TaylorHinn nýi Rick (Kyle Lowder)Handritshöfundar mega eiga það að þeir hafa verið afar passasamir við að rjúfa blóðtengsl þegar það á við. Aldur skiptir heldur engu máli, það er ekki einu sinni ósmekklegt þótt Rick, sonur Brooke, áður kvæntur Amber, barnapíunni sinni, sé farinn að vera með Taylor, sem áður var gift Ridge og á með honum Tómas og tvíburanna, síðar Nick og átti með honum barn sem var í raun ekki hennar, heldur flæktust egg Brooke óvart í Taylor með þeim afleiðingum að Taylor gekk með barn erkióvinkonu sinnar. Bíddu, hvar var ég, já, Taylor og Rick eru farin að vera saman og það finnst Brooke, mömmu Ricks, alveg hræðilegt, því hún og Taylor bitust árum saman um Ridge og giftust honum til skiptis. Skrif mín hafa kannski verið dómhörð gagnvart afskiptasemi Stefaníu, vælinu í Ridge, botoxinu í Taylor og aumingjaskapnum í Bridgeti og fleira, en því mun ég breyta héðan í frá. Mögulega endurskoða ég gamlar færslur, kannski fjarlægi ég þær bara til að vera örugg.

Héðan í frá verður boldið að mestu skammstafað. Dæmi: F=framhjáhald. M=misskilningur. B=blóðskyldleiki. EB=Ekki blóðskyldleiki. S=sólbrennsla. BK=brúðkaup.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 534
  • Frá upphafi: 1529507

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 453
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband