Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.9.2008 | 07:59
Ótrúleg afköst og innslagið frá BBC ...
Vel- og glaðvaknað var í morgun og ótrúlegt hvað vakn fimm mínútum fyrr en vanalega munaði miklu, engin hlaup og ekkert stress. Ég náði að baka nokkrar sortir, hreingera baðherbergið, prjóna hosur fyrir veturinn og skrifa fyrstu drögin að inngangi að formála um sögu fílsins í átta bindum ... og allt þetta áður en ég bjó til latte og fékk með hollustudótið mitt.
Við stuðningsfjölskyldur Línu kíktum á hana í gær og höfðum að láni túlk í klukkutíma til að spjalla við hana. Það var ótrúlega gaman ... annars hefur henni farið helling fram ... í uuuu ... enskunni eftir að hún kom. Og er spennt að læra íslenskuna sem hún kann nokkur orð í. Hún skellihló þegar ég sagði henni Allah-brandara ... um það þegar íslenski eiginmaðurinn öskraði yfir yfirfulla verslun eða markað í Marokko: ALLA!!! ALLA MÍN, hvar ertu? og allir sneru sér forviða við og gláptu á þennan guðrækna mann.
Ein konan úr hópnum var í viðtali hjá BBC World og gaman að sjá m.a. Báru og Dodda heima hjá henni og negla upp mynd ... og strákinn á heimilinu fara á hestbak í sveitinni hjá Nínu, stofnanda stórverslunarinnar Nínu (þar sem Dorritt hefur verslað ...). Doddi ók í bæinn um daginn rétt áður en brjálaða veðrið skall á, frekar óvanur að keyra í Reykjavík, rataði ekki um í Breiðholti en fann samt yndislegu konuna sem gaf hjól fyrir stálpaðan strák (ja, fullorðinshjól). Strákurinn þráði hjól heitast af öllu. Ég fylltist afbrýðisemi fyrir hönd Línu þegar ég sá að "konan þeirra" er með uppþvottavél ... heheheh, nei, nei, uppþvottavélar eru ekki jafnsjaldgæfir gimsteinar og áður, það fylgdi t.d. með í kaupunum á himnaríki heilt stykki uppþvottavél sem ég elska mjög, mjög heitt. Þessi kona var bara jafnheppin og ég.
Læt slóðina að innslaginu frá BBC World fylgja með ... þessi fréttakona var víst engu lík og það var upptökuliðið hennar sem þurfti að elta kvikmyndavélar um móa og mýrar í öllu rokinu um daginn. http://www.youtube.com/watch?v=olehN_FwJ4M
Vona að dagurinn ykkar verði skemmtilegur, spennandi, gefandi og guðdómlegur!
10.9.2008 | 14:04
Einstakar móttökur, stórgjöf og fyrirhuguð ... kaffiuppáhelling
Fékk yndislegan tölvupóst áðan frá Skagakonu sem sagði mér af móttökum sem ein fjölskyldan fékk í blokkinni sinni. Hér kemur úrdráttur úr bréfinu:
Það kom hingað maður í vinnuna til mín og sagði mér það að ein fjölskyldan hefði verið að flytja í íbúð beint á móti hans fyrrverandi, syni hans, tengdadóttur (sem kom hingað til Íslands frá Gvatemala fyrir rúml.ári ) og eins árs tvíburum ;-)
Nema það að þessi maður fór inn á google-translate, http://translate.google.com/translate_t# skrifaði þar á ensku og þýddi yfir á Arabísku: Verið velkomin í blokkina og ef ykkur vantar eitthvað þá endilega komið bara og biðjið um aðstoð, við búum í íbúðinni beint á móti. Þetta prentaði hann út, fór og keypti blómvönd og þegar hann rennir upp að blokkinni eru þau einmitt að koma heim ásamt stuðningskonu og túlkinum. Hann gefur konunni blómin og réttir henni blaðið sem hann prentaði út á Arabísku. Konan varð rosalega ánægð og túlkurinn alsæll og á leiðinni upp hittu þau tengdadótturina, börnin hlupu inn í íbúðina hennar og beint inn í stofu að skoða dótið hjá litlu tvíburunum.
Um rúmlega níu sama kvöld er bankað hjá þeim og þar fyrir utan stendur flóttakonan og eftir smá líkamstjáningu ..hehe.. fara konan, sem heitir Anna og tengdadóttirin sem heitir Thelma, með henni yfir í hennar íbúð, þar var hún með fisk, ýmislegt meðlæti, eldavél og dósaupptakara ... sem hún var ekki alveg viss um hvernig ætti að nota. Svo þær tóku sig bara til og elduðu á staðnum fyrir konuna og börnin þessa dýrindis máltíð og þau voru svo alsæl.
Þetta fannst mér svo frábært hjá þeim að ég mátti til með að leyfa þér nýbakaðri ömmunni að heyra.
Fleiri yndislegheit ... Forlagið ætlar að gefa öllum fjölskyldunum Stóru myndaorðabókina en það er einstök bók sem á eftir að hjálpa fólkinu gríðarlega mikið í íslenskunáminu. Þetta er engin smágjöf, hver bók kostar um 15.000 krónur og þetta eru átta stykki!
Komst að því í gær að Lína er hrifin af kaffi (alvörukona) og fer núna á eftir og kenni henni að búa sér til góðan kaffisopa. Hún er með brúsa, plastkaffitrekt sem kom í söfnuninni í sumar, nokkra filterpoka og svo afgangskaffi úr afmælinu mínu sem er ekki slorkaffi, Krakatá frá Kaffitári. Nú verður búinn til góður sopi í dag. Held að það megi alveg drekka kaffi þótt það sé akkúrat Ramadan núna. Annars fær hún sér bara sopa í kvöld.
Viðbót: http://www.unhcr.org/news/NEWS/48c54ef44.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.9.2008 | 17:36
Nýtt hótel, sjónvarpsstjarna og fyrirhugaðar móttökur
Íbúafundur hófst núna kl. 17 í dag í Bæjarþingsalnum á Akranesi um starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar. Það verður án efa fjörugur fundur, enda margir mjög á móti því að leyfið verði endurnýjað. Ekki séns að fara þótt ég hafi heilmikinn áhuga á að kynna mér málstað beggja aðila.
Heyrði í Shymali, indversku vísindakonunni minni sem var alltaf samferða mér í strætó, en hún vinnur hjá Rauða krossinum núna. Hún segir að barnasængurnar komi í dag og þar með létti af mér stærsta áhyggjuefninu. Shymali og Anna Lára hjá RK hafa ótrúlega mikla yfirsýn. Ein stuðningskonan sagði í gær að það vantaði dýnu í barnarúmið sem hún var með. Talaðu við Ingu eða Gurrí, þær eru með aukadýnu, og konan kom í gærkvöldi og sótti dýnuna. Sumir þola ekki að vinna undir álagi en þessar tvær hafa sýnt að það er hægt að hlæja og hafa gaman þótt mikið sé að gera. Mikill heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni með þeim.
Stuðningsfjölskyldurnar koma líka úr Hvalfjarðarsveit og Borgarnesi, a.m.k. ein úr Reykjavík, og vegna fjarlægðar eru þær vissulega óvirkari en samt ... einn í þeim hópi er meira að segja talandi á arabísku sem er bara snilld. Svo ætlar hún Amal, the Palestínukona á Íslandi, að flytja á Skagann í heilt ár til að vera konunum innanhandar. Þessar elskur verða farnar að borða þorramat áður en við vitum af! Hehehehe ...
Viðbót: Ísskápur er kominn, barnasængin líka, búið að búa um rúmin og sækja meira punt sem elsku Habitat gaf. Inga er að sækja matvöruna í Einarsbúð núna og þá verður hægt að gera eitthvað af viti matarkyns handa fólkinu okkar í kvöld/nótt þegar það kemur. Maður finnur sér alltaf eitthvað til að hafa áhyggjur af ... núna er það gatið þar sem uppþvottavélin var, hvað er hægt að setja þar ... arggggg!
Ég fékk upphringingu frá bæjarskrifstofunum áðan og í framhaldinu kom Gísli Einarsson, the vestlandssjarmör, og myndaði íbúðina okkar. Ef vel tekst til með fréttina þá ætti Þröstur bloggvinur að sjást en hann kom um sama leyti með tandurhrein sængurfötin og svo auðvitað tuskudúkkurnar og bangsana eftir hreinsunina. Því var öllu hrúgað í barnarúmið hjá litlunni og myndað en megnið af því fór reyndar ofan í poka aftur og verður dreift til fleiri barna. Býst við að þetta komi í fréttum RÚV klukkan sjö í kvöld. Vil sérstaklega taka fram að sjónvarpsvélar bæta a.m.k. 20 kílóum á sumt fólk og sumt fólk blaðrar þvílíkt þegar það er stressað þótt það líti út fyrir að vera rólegt og kemur ekki helmingnum að sem það langar til að segja ...
Mér líst mjög vel á móttökuathöfnina sem verður í kvöld/nótt. Tveir sjálfboðaliðar um hverja fjölskyldu munu bíða á tröppunum og bjóða fjölskylduna velkomna, afhenda konunni lyklana, fara með henni og börnunum inn í íbúðina og gefa þeim hressingu, sýna þeim það allra helsta og leyfa þeim svo að fá frið. Finnst þetta frábær hugmynd hjá Rauða krossinum. Svo verður móttaka á morgun þar sem við getum spjallað við okkar fólk með aðstoð túlka, þá getum við t.d. spurt hvort við eigum að færa einhver rúm milli herbergja, hvað vanti og hvað þær vilji mikla aðstoð frá okkur. Mín kona sér út á hafið, svona á milli húsanna, og úr hinum enda íbúðarinnar sést í Akrafjallið, bara gaman.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
6.9.2008 | 12:45
Tilhlökkun á Skaganum
Flóttakonurnar frá Palestínu/Írak koma aðfaranótt þriðjudagsins og ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur stuðningsfólkinu. Ætlum þó að gæta þess að kæfa þær ekki í gæsku. Þetta eru ágætlega menntaðar konur, sumar háskólagengnar, en áður en viðskiptabannið skall á í Írak 1991 var menntunarstigið í Bagdad með því betra í heiminum, skilst mér. Því hefur hrakað en er samt gott miðað við aðstæður. Eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli, en hann sýndi flóttafólki frá Palestínu góðvild, hafa aðstæður þess breyst mjög svo til hins verra og þeim er ekki vært lengur í Írak. Nágrannalöndin eru yfirfull af flóttamönnum og vilja ekki taka við fleirum þannig að nú úr vöndu er að ráða! Ég fékk að heyra um daginn að sumum þætti grunsamlegt hvers vegna enginn vildi þessa flóttamenn, hvað væri að þeim ... vona að þetta svari því aðeins.
Mæðurnar hlakka til að koma og eru mjög áhugasamar um Ísland, finnst líka frábært að koma á minni stað eins og Akranes. Áhugamál barnanna þeirra eru eins og annarra barna; fótbolti, sund, hjólreiðar, leikir ... og þau hafa líka mikinn áhuga á því að mennta sig. Held að sýn margra sjálfboðaliða hafi breyst eftir Rauða kross-fundina undanfarið. Þetta fólk er ekki svo ólíkt okkur en einhverjir hafa talað um að ómögulegt hljóti að vera fyrir það að geta aðlagast.
Samstarfskona mín hefur ferðast mikið um Miðausturlönd. Hún hitti eitt sinn flóttamann frá Palestínu í flóttamannabúðum í Sýrlandi, minnir mig. Honum fannst frábært að hitta manneskju frá Íslandi og spurði hana með samúð í röddinni: Er það virkilega rétt að Íslendingar eigi við mikið drykkjuvandamál að stríða? Konan hafði ógurlega gaman af þessu og fannst þetta í raun alveg einstakt.
Kíkti í íbúð minnar konu í gærkvöldi og það styttist óðum í að þetta verði mannsæmandi. Ég fann hvítar gardínur til að nota í beran baðgluggann og mamma hennar Ingu ætlar að laga þær aðeins svo hægt verði að koma þeim á stöngina. Komnir eru diskar, glös, hnífapör, panna og grunnurinn í eldhúsið og meira að segja notuð en fínasta tölva sem Verslunarskólinn gaf. Hvílíkur munur að koma úr viðbjóðslegum tjaldbúðum á gott heimili. Habitat gaf líka rúmteppi og fleira sem kemur á mánudaginn. Í bókabunkanum sem ég labbaði með yfir um daginn var reyndar engin Fyrsta orðabók barnsins, eins og ég hélt, hef líklega verið búin að gefa hana eða hún er enn vel falinn í bókakosti himnaríkis. Það hefði verið afar hentugt fyrir fjölskylduna að geta lært íslensku af henni og það auðveldar líka öll samskipti. Á sunnudaginn verða rúmin sett saman þótt okkur Ingu hafi tekist að skella löppunum undir rúm strákanna í gærkvöldi. Svo kemur þetta bara smátt og smátt, myndir á veggina, hillur í barnaherbergið og slíkt. Finnst ekki ólíklegt að flóttakonunum eigi þó eftir að finnast heimilin eins og flottustu hallir, svona miðað við fyrri aðstæður.
Þegar var verið að flytja dótið í íbúðirnar átta vantaði nokkrar hraustar hendur til þess. Pólsk kona sem er í verkefninu hringdi í fimm til sex landa sína sem komu allir hlaupandi og með þeirra hjálp tókst þetta og á stuttum tíma. Fólk er ótrúlega hjálpsamt. Ég verð þó að segja að ég dáist innilega að Rauða krossinum fyrir það hvernig hefur verið staðið að þessu verkefni, það hefur verið klikkað að gera undanfarna daga við að púsla hlutum saman en allt hefur gengið upp og án efa verður allt tilbúið þegar þessar elskur koma aðfaranótt þriðjudagsins. Krakkarnir mínir eru ekkert smá sætir ... við fengum að sjá myndir á síðasta fundi. Miðbarnið mitt verður sex ára daginn eftir komuna. Nú er ég orðin fimmtug og má því ammast svolítið fyrst sonurinn hefur ekki fjölgað mannkyninu, enda sagði ég alltaf við hann að ég væri of ung og óþroskuð til að verða amma. Núna síðustu vikurnar hefur mér fleygt fram, ótrúlegt hvað tölustafir geta áorkað miklu.
Jæja, þarf að fara að rjúka ... nú er klósettburstaafhending í íbúðirnar átta fram undan og eflaust sitthvað fleira. Þetta er bara gaman.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
28.8.2008 | 22:36
Óveðrið Ágúst Ólafur?
Ég get ekki að því gert en ég fyllist alltaf miklum spenningi þegar von er á vitlausu veðri. Eini gallinn er sá að opnanlegu fögin í gluggum himnaríkis eru ekki vatnsheld frekar en nýju fínu svaladyrnar. Samt spennandi. Kvöldverkin verða því þau að troða eldhúsrúllubréfum til að þétta þau opnanlegu og setja handklæði í gluggana fyrir neðan. Búist er við snörpum hviðum á Kjalarnesi, enda austanátt í kortunum og því verður kannski bara klikkað fjör í bílnum með Ástu upp úr kl. 6.30 í fyrramálið. Mikið er gott að búa á Íslandi þar sem allra veðra er von. Hugsa þó með samúð til blaðberanna sem þurfa að berjast með dagblöðin til okkar fréttafíklanna eldsnemma í fyrramálið. Væri ekki sniðugt að nefna óveður vetrarins (þetta veður telst varla með þar sem enn er sumar) eftir alþingismönnunum okkar? Það koma varla fleiri lægðir en 63 á einum vetri, eða hvað ... Ja, ef við byrjuðum t.d. núna, svona til öryggis, þá gæti óveðrið sem hefst í nótt gengið undir nafninu Vatnsveðrið Arnbjörg Sveinsdóttir, það næsta Fellibylurinn Atli Gíslason, (ef t.d. leifar Gustavs berast hingað) þá Óveðrið Ágúst Ólafur Ágústsson o.s.frv. Annars væri auðvitað snjallara að nefna þetta veður sem skellur á í nótt Ágúst Ólaf af því að það er enn ágústmánuður.
Soðin ýsa var í hádegismat í mötuneytinu í dag, bara skrambi góð með karpullum og bræddu smjéri. Ekki skemmdi fyrir að Davíð, ástkær frændi minn og systursonur, var borðherrann minn.
Davíð hóf nýlega nám í Kvikmyndaskólanum sem er staðsettur á hæðinni fyrir ofan mig í Hálsaskógi og líst ótrúlega vel á námið.Við hámuðum í okkur fiskinn og salat og skiptumst á fréttum um frábæru fjölskylduna okkar. Bara jólin.
5.8.2008 | 21:10
Bloggarar afhjúpaðir ... og smá bold
Þeir bloggarar sem héldu að þeir slyppu við að tekjur þeirra yrðu gerðar opinberar geta nú tekið gleði sína þar sem www.dv.is ætlar að opinbera þær fljótlega. Held að þetta sé ekkert leyndarmál svo ég blaðra því bara. Annars segja þessar útsvarstölur ekki allt, sumir lifa á fjármagnstekjum, aðrir fá áætlun, enn aðrir eiga fyrirvinnur og einhverjir vinna hlutastörf. Loksins eitthvað fútt í lífinu fyrir okkur sem hafa sogast inn í heim bloggsins og finnst ekkert þar fyrir utan skipta nokkru máli!
Fékk guðdómlegt far með drossíunni hennar Ástu í morgun. Brottför frá himnaríki var kl. 6.55 og geri aðrir betur. Með latte í annarri og latte í hinni hoppaði ég léttfætt niður himnastigann og var mætt í vinnuna upp úr kl. 7.30.
Taylor er komin í varðhald og appelsínuguli búningurinn fer henni bara nokkuð vel. Hún þráir heitast af öllu að afplána langan dóm, finnst hún ekki eiga neitt annað skilið fyrir að hafa ekið á Dörlu og orsakað dauða hennar. Thorne er enn öskureiður yfir því að hafa næstum trúlofast Taylor morðingja.
Stefanía reynir að fá garðyrkjumanninn grunsamlega til að segja dómaranum frá því sem hann sá en hann varð vitni að slysinu og getur vottað um það sem gerðist. Sá ætlaði í upphafi að kúga fé út úr Taylor en guggnaði á því þegar Phoebe skar næstum af honum hendina, alveg óvart.
Lögfræðingur að nafni Storm reynir að verja Taylor en það er erfitt verk þar sem hún vill taka út refsinguna og þjást sem mest. Dómarinn er sammála henni í því og dæmir hana í 10 ára vist í fangelsi með hámarksöryggisgæslu.
Stefanía og garði hlaupa inn í dómsalinn og bregður Thorne mikið þegar hann heyrir þennan trúverðuga fyrrum umrenning segja það sama og ástvinir hans fram að þessu, eða að þetta hafi verið slys.
Svo bara féll tjaldið og enginn mun hvað gerist fyrr en næsti þáttur verður sýndur. Mig grunar að Taylor sitji ekki inni í 10 ár því að hún fer víst fljótlega að deita Nick, eignast með honum barn og síðan deitar hún Rick, son Brooke, en Brooke er einmitt byrjuð á föstu með Ridge einu sinni enn.
1.8.2008 | 16:41
Tekjur nokkurra þekktra Íslendinga og þeirra bloggara sem ég fann
Veit ekki hvað gerðist ... en tekjublað Mannlífs er komið út!!! Snilld bara. Aðgangur að tekjum bloggara er ekki jafnauðveldur og í fyrra svo ég verð bara að handpikka út og get ekki verið þekkt fyrir að birta ekki alla vega nokkur nöfn hér á blogginu mínu.
Veit að það hringdu nokkrir alveg trylltir og brjálaðir eftir tekjublaðið í fyrra. M.a. flugmaður sem kom út tekjulægri en hann var í raun, held að það hafi verið innsláttarvilla. Hann öskraði: Ég kem út eins og ég sé með laun eins og fokkings flugfreyja! (GH færði í stílinn)
Tölurnar tákna mánaðartekjur viðkomandi!!!!
Bjarni Ármannsson, úr Skagaliði Útsvars, 44.826.869
Reynir Traustason, ritstjóri DV, 1.097.356
Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsmaður 86.805
Björgólfur Guðmundsson bankaeigandi 1.772.290
Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður 5.317.586
Júlíus Valsson bloggari 1.410.618
Guðni Ágústsson alþingismaður 1.124.235
Björn Bjarnason, bloggari m. meiru, 1.078.594
Sigríður Arnardóttir sjónvarpskona 620.214
Kolbrún Bergþórsdóttir blaðakona 568.100
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, ritstjóri 24 stunda, 555.276
Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður 722.721
Elín Hirst fréttastjóri 852.041
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, ritstjóri Skessuhorns, 128.070
Guðfinna Bjarnadóttir alþingiskona 3.314.648
Jafet Ólafsson fjárfestir 114.377
Bubbi Morthens, bloggari m. meiru, 477.610
Lítil kisa úr Vesturbænum, Bárugötu 8, týndist sl. laugardag frá heimili sínu. Hún er innikisa og hafa eigendur hennar miklar áhyggjur af henni. Hún er af tegundinni Colourpoint-persi og er með blá augu.
Ef þið sjáið þessa kisu vinsamlega hringið í síma 856 5031 (Benedikta og Egill). Fundarlaun í boði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.8.2008 kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
31.7.2008 | 13:46
Njósnir í morgunsárið
Þá er lokið árlegri njósnaferð á skattstofuna fyrir skattablað Mannlífs. Njósnað var um aðila á borð við sýslumenn, lækna, presta og útgerðarmenn/-konur.
Mikið var gaman að sitja á skattstofunni í morgun, starfsfólkið þar er gjörsamlega frábært! Ég hef reyndar líka góða reynslu af fólkinu hjá skattstofunni í Reykjavík, held að það skipti máli hvort maður kemur á opinberar stofnanir kurteis í fasi ... eða í brjáluðu skapi og með attitjúd því maður búist við slæmri afgreiðslu.
Ungir Sjálfstæðismenn, sem hata þessar njósnir, ættu að vera ánægðir með hvað þetta er gert erfitt fyrir okkur njósnarana, þetta er engin bók sem hægt er að fletta venjulega, heldur götuð blöð í möppu og nöfnin á vinstri síðu snúa öfugt við nöfnin á þeirra hægri, það þarf að snúa möppunni fram og til baka með tilheyrandi bakverkjum og vöðvabólgu. Mjög leiðinlegt er t.d. að skoða myndaalbúm sem þannig er raðað í.
Keppinautur minn frá hinu skattablaðinu sat á móti mér við lítið sófaborð og skráði laumulega úr hinni skattaskránni sem lá frammi. Við reyndum að láta hatrið ekki fara úr böndunum, enda erfitt að bresta í slagsmál og vera með kjaft þar sem við erum gamlir skólafélagar. Þótt við séum fædd sama ár er hann orðinn fimmtugur og hálfu ári betur ... og maður á að vera góður við gamalt fólk.
25.7.2008 | 22:13
Frábærir Skagamenn, panik í Mosó og ör-bold
Fékk fréttir frá Rauða krossinum í dag. Skagamenn hafa verið svo gjafmildir á fatnað, húsbúnað og húsgögn að búið er að kúffylla skemmuna og ekki er pláss fyrir meira. Þetta eru frábærar fréttir og segir margt um Skagamenn og nærsveitunga sem hafa komið með heilu kerrurnar af dóti til að gefa palestínsku flóttakonunum sem koma líklega til landsins eftir u.þ.b. mánuð. Ég átti að vinna næsta mánudagskvöld til að taka á móti hlutum en var tilkynnt að ég þyrfti ekki að mæta. Söfnunin hefur gengið framar öllum vonum! Húrra, Skagamenn!!!
Vinkona mín skutlaði mér í Mosó seinnipartinn, eiginlega upp á líf og dauða. Brottför frá Lynghálsi var kl. 17.36 vegna gífurlegrar umferðar sem tafði hana á leiðinni til mín. Strætó átti að fara frá Mosó kl. 17.45, eftir sjö mínútur! Arggg! Ég treysti á að leið 15, sem Skagastrætó bíður alltaf eftir, yrði örfáum mínútum of sein að vanda, og við brunuðum eftir Vesturlandsveginum, auðvitað á löglegum hraða. Vinkonu minni fannst ekki hægt að ég væri búin að vinna kl. 17.30 og þyrfti að bíða í rúman klukkutíma eftir að geta lagt af stað heim! Þegar hringtorgið hjá KFC kom í augsýn sáum við Skagastrætó aka út úr því áleiðis heim og stressuðumst við heldur betur. Vinkonan sagðist bara elta strætó að stoppistöðinni hjá Esjunni (Akrafjalli 2) en ég reyndi að senda einhverjum Skagamanninum í vagninum hugskeyti og að hann fengi óviðráðanlega þörf fyrir að fara út á stoppistöðinni í Lopabrekkunni í Mosó, þarna skömmu áður en komið er að afleggjaranum upp í Mosfellsdal. Þetta tókst, elsku strætó beygði inn á stoppistöðina, Skagamaðurinn þaut út í erindisleysu örugglega, vinkona mín fleygði mér út á ferð fyrir framan vagninn og ég þaut inn í strætó sekúndubroti áður en hann lagði af stað á Skagann. Þvílík spenna. Einn karlinn af Sætukarlastoppistöðinni sat í mínu sæti en ég var svo þakklát fyrir að hafa náð vagninum að ég stóð ekkert í því að fleygja honum aftur í til hinna villinganna. Náði að setjast fyrir aftan bílstjórann á Kjalarnesi og gat rétt úr fótunum. Annars er sniðugt að sitja aftar í strætó t.d. skömmu fyrir ferð til útlanda, svona til að venja sig við og læra að bregðast við krömpum, andnauð, ofsapanik og innilokunarkennd.
Ætla að horfa á Stephen King mynd í kvöld kl. 22.20 á Stöð 2. Desperation heitir hún! Ég las bókina fyrir nokkrum árum og minnir að hún hafi verið hrikalega spennandi. Vona að myndin verði jafngóð ... þær geta verið misjafnar blessaðar. Besta myndin eftir bók Stephens King er örugglega The Shining og kannski ekki skynsamlegt að vonast eftir álíka gæðum ...
Bað erfðaprinsinn fyrr í dag um að kíkja á boldið fyrir mig þar sem ég vinn alltaf svo lengi á föstudögum og hann sagði að hún þarna með varirnar (Taylor) hefði loksins sagt honum þarna sem missti konuna (Thorne) að hún hefði sú sem ók á þarna konuna (Dörlu) og olli dauða hennar. Framhald eftir helgi.
21.7.2008 | 16:59
"Kemst ekki heim, Saving Iceland hefur stoppað alla umferð"
Vinnudagurinn var gjörsamlega frábær eins og venjulega og þegar ég gerði mig tilbúna til að hoppa í strætó seinnipartinn hringdi Ásta mín elskuleg, stödd í Reykjavík og þurfti að finna Múrbúðina. Ég sagði henni til vegar með því að kíkja á kort á www.ja.is og ekki svo löngu síðar kom hún á drossíunni, ásamt gullfallegri dóttur sinni, í Lynghálsinn. Við ákváðum að fá okkur kaffi í Mosfellsbakaríi til að drekka á heimleiðinni. Engir hitamælar eru til þar en ég bað stúlkuna um að reyna að ná hitastiginu 150°F með hugarorkunni og hafa enga froðu. Ásta hvíslaði að mér að ég væri að taka hana á taugum þannig að ég hætti við að biðja stúlkuna um að fá að fylgjast með þegar hún hellti mjólkinni út í pappamálið. Hummm, heita mjólkin með kaffibragðinu var samt ágætlega hressandi en auðvitað á maður að biðja um það sem maður vill fá, kurteislega þó, ekki óttast að stressa afgreiðslufólk.
Áður en við lögðum af stað frá Mosó fékk Ásta SMS frá vinkonu sinni sem vinnur í járnblendinu: Kemst ekki heim, Saving Iceland hefur stoppað alla umferð! Við hlógum illgirnislega alla leiðina á Kjalarnes en snögghættum að hlæja þegar við lentum fyrir aftan mjög hægfara ökutæki! Það tekur á taugar nútímakvenna að aka á 30 í gegnum Hvalfjarðargöngin.
Það sem líklega róaði okkur niður var að Pavarotti var á fóninum og meira að segja jólalagið sem hann söng var algjörlega við hæfi. Upptökubíll frá RÚV lullaði fyrir framan okkur og við veltum aðeins fyrir okkur hvernig hann gæti mögulega komist fram fyrir langa bílaröðina sem hafði víst myndast í báðar áttir til að mynda mótmælin.
Ég hugsaði aðeins um að fremja afbrot á Skaganum þar sem löggan væri nú örugglega upptekin við að berja á Saving Iceland en svo nennti ég því ekki. Himnaríki beið í yndislegheitum sínum. Mikið sakna ég annars ökuferðanna með Ástu í bæinn á morgnana.
Tommi liggur nú í leisíboj (hægindastóll sem við erum að passa) og erfðaprinsinn setti mjúkt teppi undir hann, púða við höfðalagið og fótaskemilinn út svo hann geti nú rétt almennilega úr sér, elsku kötturinn. Nú flæðir að við Langasandinn og allt lítur út fyrir að það verði fagrar, jafnvel svolítið stórar öldur á hlaðinu hjá mér þegar líður nær kvöldi.
Myndavélin sem ég er með í láni bilaði fyrir nokkrum dögum (format error) svo ég bað elsku sænska ljósmyndarann í vinnunni um að kíkja á hana. Sá snillingur fann út að minniskortið væri ónýtt og þá voru hæg heimatökin að skipta um minniskort við heimkomu en ég hafði nýlega keypt slíkt kort í mína vél áður en skjárinn á henni eyðilagðist. Í kaupbæti fékk ég góðar ráðleggingar um næstu myndavélarkaup.
Fyrsta myndin sem tekin var á vélina eftir kubbaskiptin er einmitt myndin af Tomma í hægindastólnum hættulega (svæfir hvern þann sem í hann sest). Ekki kannski tímamótamynd en sýnir engu að síður það dekur sem hann býr við hér í himnaríki.
Mótmæli við Grundartanga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 34
- Sl. viku: 828
- Frá upphafi: 1515923
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 701
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni