Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Rangar verðmerkingar og pödduofsóknir

Okrað á ÍslendingumAllt er lok, lok og læs í Einarsbúð um helgar. Það venst ... og það lækkar líka vöruverðið þar alveg helling. Við erfðaprins skruppum því í lágvöruverslun í dag og ákváðum að kaupa eitthvað létt í kvöldmatinn.

Hinn íslenski neytandi hefur breyst ákaflega mikið að undanförnu (takk, doktor Gunni) og það þykir loks orðið hallærislegt að leika „greifa“ sem borgar allt á okurverði möglunarlaust svo að fólk haldi ekki að það sé blankt! Ég hef breyst líka og hika ekki við að leiðrétta mismun upp á eina krónu ... eða myndi gera ef ég lenti í því.

P�tsurÞað voru girnilegar Frísettapítsur á tilboði í búðinni, eða ein sæmilega stór á 298 krónur. Borða helst ekki pítsur en lét þetta eftir erfðaprinsinum og setti tvær í innkaupakörfuna. Minntist á það við hann að ég ætlaði að vera vel vakandi við kassann og það var eins gott, stúlkan stimplaði inn 369 krónur! Ég benti kurteislega á þetta, yfirmaður kom, gerði eitthvað þegjandi og hvarf ... og á strimlinum sá ég að ég hafði fengið aðra pítsuna ókeypis, borgaði 369 krónur fyrir hina. Fékk sem sagt skaðabætur og að auki ósköp sætt bros frá kassadömunni. Ég snarhætti við að snarhætta að fara framar í þessa búð (þegar Einarsbúð er lokuð) en ætla svo sannarlega að fylgjast vel með alls staðar. Ég stundaði þó þögul mótmæli í búðinni og keypti ekkert sem var óverðmerkt, jafnvel þótt mig vantaði það. Ég er orðin svo þreytt á því hvað farið er illa með almenning á Íslandi. Það er okrað hryllilega á okkur víðast hvar, lánin okkar eru verðtryggð og siðleysi og klíkuskapur viðgengst víða. Eins og mér þykir vænt um landið mitt.

KóngulóarmaðurinnEinu sinni ákvað ég að flytja aldrei úr landi, sérstaklega út af pöddumálum en pöddur verða reyndar sífellt fyrirferðarmeiri hérna, sbr. geitunga og býflugur sem námu hér endanlega land um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Ég gæti því alveg flutt úr landi skordýralega séð!

Vinkona mín býr í einbýlishúsi hér á Skaganum. Gróinn garður er umhverfis húsið hennar en ekki mikið af blómum þar. Hún er ekki sérlega pödduhrædd en er að sturlast yfir kóngulóm sem ofsækja hana í tugatali, hún bar hátt í 50 kóngulær út úr húsinu í gær. Hún er með tuskuæði en samt ná kvikindin að vefa stóra vefi í íbúðinni hennar, alla vega á meðan hún sefur. Þetta er ekki eðlilegt og hún ætlar að flytja að heiman í viku og láta eitra allt húsið á meðan. Hún hefur verið að vinna í garðinum og helluleggja. Hún þurfti að færa nokkrar hellur daginn eftir og þvílíkt pödduríki sem var komið strax undir nýlagðar hellurnar. Fiskiflugur eru líka í tonnatali í íbúðinni hennar og núna veit ég hvers vegna þær hafa ekki sést í himnaríki þetta sumarið, þetta fljúgandi, gómsæta sushi fyrir kettina mína er greinilega flutt til kattarlausu vinkonu minnar. (Fékk svo mikið sjokk þegar ég setti inn spider á google að ég ákvað að stela frekar mynd þar af kóngulóarmanninum).


Kaldranalegt heilbrigðiskerfi

StrætóLangt síðan ég hef tekið innanbæjarstrætó og það var sama stuðið og vanalega. Hress bílstjóri og þægileg ferð. Í vetur eftir að strætó varð gjaldfrjáls var yfirleitt þröng á þingi. Sumir krakkarnir gerðu að leik sínum að fara hring eftir hring eftir hring ef það komu eyður í stundaskránni. Þar sem hér búa eingöngu þæg og vel uppalin börn held ég að bílstjórarnir hafi ekkert verið ofurpirraðir í barnfóstruhlutverkinu. Þetta er örugglega bara nýjabrumið á þessu. Lengi vel sat ég ein í vagninum í dag en svo komu nokkrar konur með börn upp í vagninn á leiðinni upp í Skógrækt í góða veðrinu. Sjá mynd.

Ákvað að skreppa í elsku Skrúðgarðinn eftir mjög svo faglega meðhöndlun Betu á dettíógæfumölinni-fætinum. Þar sat Ásta ásamt fleiri konum og var þrusugaman að sitja þarna og spjalla við þær. Ein konan var nýkomin úr aðgerð vegna brjóstakrabbameins, eða fyrir viku ... og var þetta fyrsti góði dagurinn hennar. Hún lenti í sama ógeðinu og ég árið 2004 og aðrar konur sem þurfa að leggjast á Kvennadeildina, sem þurfa að sprauta sig sjálfar með blóðþynningarlyfi daginn áður. Hún var svo heppin að skólahjúkka hér á Skaganum gerði það fyrir hana, svo hún þurfti ekki að fara inn á starfsvið hjúkrunarfræðinga, lögverndað að ég hélt, ... sem virðist þó þykja í lagi í þessu tilviki. Í hádeginu, daginn eftir aðgerð, var konunni svo hent út (útskrifuð). Maðurinn hennar enn að vinna en hún sárlasin þurfti að leita á náðir ættingja í Reykjavík fram á kvöld.

Tvær úr hópnum, Ásta til hægriMig langar svo rosalega mikið að vita hvort þessi sparnaður, eins og að láta konur sprauta sig sjálfar, nái yfir allar deildir og bæði kynin. Tek það fram að ef ég fæ sykursýki eða slíkt þá myndi ég bara læra að sprauta mig, ekkert mál, en þegar þetta kemur sem aukaálag ofan í slæmar fréttir þá er þetta ekki í lagi. Ég sat heima heilan dag og grét við þetta aukaálag, búin að vera svo æðrulaus að öðru leyti, vissi hreinlega ekki hvort ég væri að deyja eða þetta væri góðkynja. Hef hingað til ekki verið „baggi“ á þessu kerfi og átti inni betri meðferð. Konan sagði að starfsfólkið á Kvennadeildinni hefði verið æðislegt, læknirinn hennar með vængi og vel hefði farið um hana á allan hátt en hún var þó allt of veik til að fara heim á hádegi. Þegar hún ók heim á Skaga með manninum sínum um kvöldið fannst henni þessi stutta leið óbærilega löng, henni leið svo illa. Hún var enn í hálfgerðu lyfjamóki þegar henni var leiðbeint um hvernig hún átti að hugsa um sárin á báðum brjóstum og mundi ósköpSjúkrahús Akraness lítið þegar heim var komið. Því miður var ekki hægt að fá þessa aðgerð gerða hér á Skaganum þar sem allt er mun mannlegra, alla vega enginn sendur fárveikur heim. Spítalinn hérna er frægur fyrir góða umönnun og hingað koma konur víðs vegar að af landinu til að fæða börn. Líka úr Reykjavík.

Ráðamenn þjóðarinnar tala fjálglega um að við eigum besta heilbrigðiskerfi í heimi. Kerfið okkar er vissulega gott að því leyti að við þurfum ekki að bíða í nokkrar/margar vikur eftir uppskurði við t.d. brjóstakrabbameini eins og tíðkast í sumum löndum. Hér er gripið inn í í hvelli og annars frábært starfsfólkið fer bara eftir sparnaðarreglum, skera, sofa, útskrifa!

Ásta var í miklu stuði og þegar maður úr bæjarstjórn settist hjá okkur í sólinni lét hún hann heldur betur heyra það. Svona meira í gríni. Ekki allir sem kunna að meta kaldranalegan húmor en Ásta getur sko verið meinfyndin þegar hún tekur sig til. Ég varði manninn með kjafti og klóm, enda bæði huggulegur og skemmtilegur. Ég sakna sárlega ferðanna með Ástu og Led Zeppelin kl. 6.40 á morgnana til Reykjavíkur þótt strætó sé frábær.

Er að horfa á leikinn Rússland-Spánn og myndin fraus reglulega þar til ég fattaði að setja RÚV á í sjónvarpstækinu, ekki í gegnum myndlykilinn, og rétt náði seinna marki Spánverja í fyrri hálfleik. Ég er karlinn í netabolnum með bringuhárin á þessu heimili með bjór í annarri og flögur í hinni (staðalímynd fótboltabullunnar). Erfðaprinsinn hefur engan áhuga, hlakkar til að sjá úrslitaleikina og búið!


Kremja, höfnun, ótíðindi + óvænt gleði&frábærar fréttir

Plássleysi fyrir flotta fæturStrætóferðin var svolítið sjokkerandi í morgun, höfnun, kremja, vondar fréttir af sumaráætlun ... Harpa harðneitaði mér um að setjast hjá henni þegar 25 krakkar úr Grundaskóla komu inn við íþrótthúsið. Hún vildi frekar fá vinkonu sína, var búin að veifa henni og vinkonan að koma inn í vagninn, alsæl yfir að hitta Hörpu. Ég gat því miður ekki velt mér upp úr því, Hafði ekki tekið eftir vinkonunni og gerði mig að fífli þegar ég bauð henni félagsskap minn. Ég settist fyrir aftan meinleysislega, svolítið góðlega konu en nú veit ég að útlit segir ekki rassgat! Þessi sakleysislega, næstum góðlega kona gerði sér lítið fyrir og  hallað sætisbakinu aftur. Mér brá svo mikið þegar hnén krömdust að ég öskraði upp yfir mig, kvenlega þó og ekki mjög hátt. Sein í vinnunaSvona er að vera vaxin eins og fyrirsæta, eða með langar lappir. Hnén eru enn í hálfgerðri kássu eftir óhappið 2006 þegar ég datt á ógæfumölinni, sneri mig á vinstra og gataði það hægra (9 spor). Konan leit grimmdarlega á mig og setti sætisbakið upp aftur. Ég reyndi að segja henni að þetta væri allt í lagi, ég gæti setið útglennt alla leiðina í bæinn en hún svaraði mér ekki. Ég var viss um að ég hefði eignast óvin. Á Kjalarnesi kom kona inn í vagninn, settist brosandi hjá "óvinkonu" minni og ég heyrði mér til léttis að þær töluðu útlensku. Ekkert hatur í gangi, bara smá málleysi.

Aðalsjokkið var svo eftir: Nágrannakona mín sagði mér að ferð strætisvagns númer 15 sem við tökum alltaf í Mosó, verði lögð niður í sumar og að við þyrfum að bíða í 20 mínútur eftir þeim næsta! Þá verða allir of seinir í vinnuna sína og ég missti af leið 18 og þyrfti að bíða í 20 mínútur í Ártúni líka. Ef þetta er rétt og óbreytanlegt þá verð ég að leita að einhverjum Skagamanni sem fer í bæinn á bíl, ég nenni þessu ekki. Skrýtið að Strætó bs miði ekki við vinsælustu leiðina sína (27 Akranes) og finnist í lagi að láta 40 manns (eins og í morgun) bíða svona lengi og verða of seina í vinnuna.  

Hermann HreiðarssonÍþróttaþýðandinn hugumstóri svaf í leið 18 þegar ég kom inn. Aðeins tveir Indverjar voru í vagninum að þessu sinni. Ég vakti þýðandann á leiðarenda en syfja hans var vegna nokkurra sænskra stelpna sem höfðu gist heima hjá honum undanfarið og vöktu hann svo fyrir kl. 6 í morgun. Ég kvartaði yfir sumaráætlun strætó við hann og dagurinn byrjaði að skána. Ég lét það ekki ergja mig þótt sölumannskvikindi gærkvöldsins hefði lækkað stólinn minn niður á gólf og gert bakið laust. Nei, þetta verður góður dagur, hughreysti ég sjálfa mig. Ég tala bara við strætó, Gurrí mín, og segi þeim að ef þessi ferð leiðar 15 verði lögð niður þá muni allir Skagamenn verða of seinir í vinnuna sína, þeir hljóta að breyta því. Þeir eru svo góðir. Og fallegir. Já, og líta einstaklega vel út í dag. Þarna var ég komin í gírinn.  

Viggó krúttÞegar ég var að tékka póstinn minn sá ég eitthvað gullfallegt koma inn á sjónarsviðið, eða sjálfan Hermann Hreiðarsson. Ekki nóg með þetta ... Jói dreifingarstjóri fór á Kaffi París með frúnni sinni í gærkvöldi og hún sat næstum því í fanginu á Viggo Mortensen leikara, bara fréttin af þessu gladdi mig, enda fannst mér Viggó ákaflega huggulegur í Lord of the Rings-myndunum.

Samstarfskonur mínar hakka nú í sig harðfisk þannig að viðkvæmt morgunofurlyktnæmi mitt er í hálfgerðu sjokki. Ilmvatn (rakspíri) er stranglega bannað í kirkjukórum en lögin ná ekki yfir harðfiskát á vinnustöðum. Ég ætti kannski að sníkja bita af þeim, þá verður lyktin léttbærari. 

Maður dagins er þó sá sem dúllaði sér á skurðgröfunni í Ártúnsbrekkunni á leið til Reykjavíkur. Löggan stoppaði hann, líklega fyrir of hægan akstur á annatíma. Skyldi hann hafa rifið kjaft við lögguna, eins og ungi maðurinn í 10/11, eða kunni hann mannasiði?

P.s. Viðbót til varnar strætó. Kíkti á sumaráætlunina og sé ekki betur en að við náum leið 15 á sama tíma og venjulega í Mosó. Mikið er ég ánægð með það. Hitt hefði ekki staðist, nema hugsunarhátturinn sé orðinn: Aldrei of illa farið með góða Skagamenn. Nýjasta eineltið: Gurrí, er það rétt að það sé búið að stofna fámenningarhús á Skaganum? Hehehe


Sætir Indverjar, ruslaföturæningi og beiskjufliss yfir

Stuð í strætóEins gott að stoppistöð Grundaskóla og íþróttahússins kemur á eftir himaríkisstoppistöðinni við Garðabraut ... Ég var rétt búin að koma mér vel fyrir með öryggisbelti og bók þegar yfir 20 unglingar þustu inn og næstum fylltu strætó. Þeir voru á leið í Árbæjarsafnið með nokkrum kennurum. Stilltir og góðir krakkar sem eltu mig úr leið 27 yfir í 15, síðan úr 15 niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna í Ártúni. Það var freistandi að segja kennurunum að taka leið 6 (í Grafarvog) með hópinn en það hefði verið svo grimmdarlegt með allan hópinn, svo er fyrsti apríl liðinn. Elsku Indverjarnir mínir sætu voru í strætó og m.a. maðurinn sem ég spjallaði við á stoppistöðinni um daginn. Við heilsuðumst eins og ævafornir vinir og aðrir farþegar störðu á okkur! Úr augnaráði Íslendinganna skein: "Hvað er hún að tala við útlendinga?" Og úr augnaráði Indverjanna: "Hvað er hann að tala við innfædda?" Ef ekki munaði svona 20 árum á okkur, mér í hag, hefði ég kysst hann bless til að sjokkera en það er víst ljótt að fara illa með unga menn svona snemma á morgnana.

RuslafatanFékk taugaáfall við komu í vinnuna. Ruslafatan mín er horfin og ekki nóg með það heldur er búið að stela stól markaðsstjórans líka. Við Ási skælum í kór. Það hressti aðeins upp á líðanina að vita að það verður steiktur fiskur með remúlaði í hádegismatinn.

-       -          -         -       -       -      -        -

RasistarNúorðið flissa ég bara (pínku beisklega þó) þegar ég sé nýjar bloggfærslur fólks um "skömm" Skagamanna vegna flóttamannanna. Fólk þarf enn að fá útrás fyrir gremju sína út í skoðanir eins manns, eða fyrrum formanns félagsmálaráðs á Skaganum. Kannski er ég ekkert skárri, mögulega hefði ég sjálf tekið upp heykvíslina og gargað ef t.d. formaður félagsmálaráðs í Keflavík hefði lýst yfir áhyggjum sínum af komu flóttamanna ... og dæmt allt bæjarfélagið rasista, óhæfa til að taka á móti flóttakonunum og börnum þeirra. Held þó ekki. Skil ekki svona heift út í saklaust fólk. Maður var nýlega dæmdur í fangelsi fyrir að myrða mann á Hringbrautinni. Getur verið að allir sem búa við Hringbraut séu morðingjar? Er ekki verið að kreista og kreista til að ná sem mestu úr þessu máli og jafnvel refsa okkur Skagamönnum fyrir að leyfa manni með "svona skoðanir" að búa hér? Ég skil þetta samt ekki, það varð allt vitlaust í bæjarstjórn yfir þessu og Magnús látinn hætta vegna skoðanna sinna. Af hverju þá að velta sér svona upp úr vondum Skagamönnum? Ég er kölluð rasisti í vinnunni minni en finnst það bara fyndið, engin meining þar að baki, bara góðlátlegt grín. Samt hefur þetta skaðað bæjarfélagið alveg helling og engin lógík á bak við það!!! Sumir virðast hafa bitið í sig að við viljum ekki taka við flóttamönnunum! Miðað við hvað bæjarstjórnin greip hratt inn í þetta þá eigum við ekki svona skilið! Frétt RÚV um þetta mál var illa unnin og léleg, bara gerð til að staðfesta þennan orðróm um rasismann´á Akranesi ... en kvöldið eftir var frétt Stöðvar 2, miklu betur gerð, en þar var viðtal við Magnús Þór og síðan götuspjall við fjölda Skagamanna sem öllum fannst frábært að fá flóttafólkið!

Útrás dagsins var í boði frú Guðríðar! Og ég lem ykkur ef þið reynið að skamma mig fyrir að vera Skagamaður! Tounge 

 


Ég var misnotuð af Halldóri frænda - sjokkerandi frásögn

LygarinnHalldór frændi þekkir alla og veit um allt sem er í gangi í þjóðfélaginu. Hann er sá sem segir mér stundum kjaftasögur. Þótt nánasti vinnustaður minn innihaldi bara konur og Haffa Haff heyri ég sjaldan slúður í vinnunni. (Nú er ég örugglega búin að eyða þeirri mýtu að allar konur slúðri en allir karlar þegi.) Um daginn benti Halldór mér á frétt á www.dv.is þar sem fram kom að heyrst hefði auglýsing (af hverju fattaði ég þetta ekki þá?) á Bylgjunni þar sem Sturla væri að sverja af sér einhver læti um komandi helgi. Halldór sagðist hafa heyrt að það yrði allt snarvitlaust hjá trukkabílstjórum, svo brjálað að Sturla sjálfur ætlaði ekki að koma nálægt þessu. Þetta fór að síastSkriðdreki út og við vorum alla vega tveir nytsamir sakleysingjar sem skelltum þessu á bloggið okkar, við Jens Guð. Í ljós kom að þetta var auglýsingaherferð fyrir EJS sem ætla að verða með „læti“ á morgun, eða verðlækkun á tölvum. Af þessum útsölum öllum sem tröllríða þjóðinni hefur Halldór greinilega ætlað að skera sig aðeins úr með því að niðurlægja okkur flottustu bloggara landsins, okkur Jens Guð. Ég er ekkert voða reið út í Halldór ... en kannski reiðast einhverjir. Nú verður óeirðalöggan gjörsovel að afpanta skriðdrekana og kannski skemmir þetta alla möguleika á að við fáum rafbyssur, alla vega í bili!

Portugal 2008Horfði vel og vandlega á Evróvisjónkeppnina í gærkvöldi, nýböðuð og í upphlut, og kaus síðan siðprúðasta lagið, Portúgal. Ekki endilega af því að svo lítið var af holdi (erfðaprinsinn var farinn að kvarta yfir notkun holds til að fela lélega tónlistarhæfileika ...), heldur af því að búningar Portúgals minntu svo á sloppana (risastóru, víðu pilsin sem náðu frá hálsi og niður að hnjám og hefði komið rok hefðum við tekist á loft) í skemmtilegu krabbameinsskoðuninni á Skaganum um daginn. Flott að norrænu þjóðirnar komust loksins allar í úrslit, djöfull skulum við kjósa hver aðra!
„Ég vona að það verði ekki framlenging,“ stundi erfðaprinsinn skömmu áður en tilkynningin sem breytti öllu var lesin upp („Iceland!“) og leit órólegur á klukkuna, enda Bones að hefjast á Stöð 2.

Stærðin skiptir máliVið farþegarnir í strætó veifuðum íslenska fánanum í morgun þeim sem við mættum og þeir voru líka með fána, veifur, blöðrur og hátalara ofan á bílunum sem spiluðu í sífellu This is my life. Fínn undirbúningur fyrir hinn sigurinn (annað kvöld), nú verður að spýta í lófana til að klára nýja tónleikahúsið. Æ, við erum svo mikil krútt. Hvaða þjóð sturlast svona yfir því að komast í Evróvisjón nema við? Well ... Við erum reyndar þjóðin sem bauð kynlífsráðgjafa á Bessastaði í móttöku hjá forsetanum okkar. Ekki sé ég fyrir mér að Englandsdrottning bjóði Jónu Ingibjörgu í teboð eða George Bush haldi móttöku fyrir hana í Hvíta húsinu ... þótt hún sé án efa alveg jafnfrábær og Dr. Ruth.

Talandi um drottningu. Áður en ég fékk ritgerðina góðu í yfirlestur í fyrrakvöld hafði móðir tilvonandi stúdents breytt ýmsu, m.a. því að einhver kóngur í Bretlandi hefði kastað upp öndinni úr lungnakrabbameini. Sonurinn fékk rúmlega 7 í einkunn fyrir ritgerðina ... sem er bara kraftaverk!


Bíóferð, laxveiðar og pistill Sigrúnar Óskar

ironmanVið erfðaprins brugðum okkur í bíó í dag og sáum Iron Man. Myndin er hin besta skemmtun og það fór ágætlega um okkur í SAM í Álfabakka þótt við tímdum ekki að fara í lúxussalinn, enda kostar slíkt 2.000 á mann. Annars hefur popp, kók og nammi hækkað svo mikið (veit þó ekki síðan hvenær) að það munaði minnstu að við næðum upp í lúxusmiðaverðið.

 ---     --------        --------        ----------         ---------        ---------

eurekaNáðum heim áður en Eureka byrjaði, nýr þáttur á SkjáEinum. Hann var skemmtilega spúkí. Annars er ég að lesa bráðskemmtilega bók sem heitir Laxveiðar í Jemen. Hún trekkir nú aðeins meira að en sjónvarpið þessa dagana þótt alltaf séu uppáhaldsþættir skoðaðir. Sem minnir mig á að Evróvisjón verður annað kvöld. Mikið vona ég að Ísland komist áfram. 

PalestinianRefugeeCampIraqSyria022708Langar að benda ykkur á frábæran pistil Sigrúnar Óskar, ritstjóra Skessuhorns. Hún hefur náð að kynna sér málið vel og nú er ljóst að annars veik "rökin" gegn því að bjóða flóttafólkið velkomið halda ekki lengur. Hún tætir þau í sig ... með sannleikanum.

http://adaltutturnar.blogspot.com/2008/05/flttamenn.html


Leiðrétt kjaftasaga, heitar vöfflur og pínulítið bold

Netið lá niðri í vinnunni eftir hádegi í dag og ég sem ætlaði að blogga í hádeginu. Splunkunýr Indverji var á Ártúnsstoppistöðinni í morgun og eitthvað grunsamlegt í gangi en nú er ég búin að steingleyma hvað það var.

PólitíkinÍ hádeginu var farið að tala um kjaftasögur, margir starfsmenn hússins samankomnir í sólinni úti í porti. Handleggirnir á mér eru eins og undanrenna á litinn en ég bretti niður ermarnar þegar einn samstarfsmaðurinn sagði að það væri í tísku að vera hvítur. Held samt að hann hafi bara verið að gleðja mig en það glampaði samt óþægilega á handleggina, ég fékk ofbirtu í augun, svipað og þegar ég hef verið að horfa á SkjáEinn um kvöld og skjárinn verður mjallahvítur þegar auglýsingar eru kynntar inn.
Einn viskupúki staðarins veit bókstaflega allt
sem er í gangi í þjóðfélaginu. Hann fór að tala um ráðherraskilnaðar- söguna og sagði hana algjört bull, verið væri að reyna að klekkja á viðkomandi, svona pólitískur viðbjóður ... eins og tíðkast víst í stjórnmálum þar sem reynt er að bregða fæti fyrir keppinauta um stjórnunarstöður og svona.

VöfflurÉg fer mjög sjaldan í kaffi í vinnunni, tel mig ekki hafa gott af sætabrauði um miðjan dag, enda nóg af sætum strákum í vinnunni svo sem ... en í dag gerði ég undantekningu, það voru nefnilega heitar vöfflur með rifsberja- eða rabarbarasultu og rjóma. Biðröðin náði út upp í Europrís, eða hefði gert ef allir hefðu komið í einu.

Svo er alltaf sama stuðið í boldinu. Taylor orðin aðalhuggari ekkilsins Thorne sem veit ekki að það var hún sem ók drukkin á Dörlu. Donna, systir Brooke, er farin að sitja fyrir í Beði Brooke, tískulínunni kynþokkafullu og til að spara leikarakostnað tekur Ridge ljósmyndirnar af henni, ásamt því að hanna fötin. Þau eru hættulega innileg, svona miðað við að í framtíðinni eru miklar líkur á því að hún verði stjúpmóðir hans.


Óhæfur formaður?

palestina(1)Æ, æ, æ. Ég vonaði innilega að flóttamennirnir kæmu hingað á Skagann svo að við gætum lagt eitthvað af mörkum til að hjálpa okkar minnsta bróður/systur, eins og önnur sveitarfélög hafa gert. Var ákveðin í að bjóða mig fram til að vera einhverri fjölskyldunni innan handar á meðan hún kæmi sér vel fyrir á Skaganum. 

Ég skammast mín sem Skagamaður fyrir að formaður félagsmálaráðs hér noti þau rök að betra sé að hlúa að Skagamönnum. Hvaða vandamál eru svo mikil og stór hér í bæ að ekki sé hægt að hjálpa illa stöddu fólki sem á sér enga framtíð í eigin landi (flóttamannabúðum)? 

Ég veit um félagsmálastjóra annars sveitarfélags sem tók sér það vald að gefa neikvæða umsögn um frumvarp sem var að fæðast (staðfest samvist samkynhneigðra). Hann talaði ekki við neinn í félagsmálanefndinni á staðnum, heldur vísaði til siðferðilegra og trúarlegra raka gegn þessu. Ég frétti að allt hefði orðið vitlaust í bæjarfélaginu og e-m árum seinna þegar hann sótti um starfið aftur (hafði hætt í millitíðinni) fékk hann það ekki, bara út af þessu. Þetta var víst eina sveitarfélag landsins sem gaf neikvæða umsögn og þetta sveitarfélag er sko ekki þekkt fyrir þröngsýni.

Ég veit ekki til þess að Akranes sé það fátækur kaupstaður að ekki sé hægt að hjálpa þessum konum. Mér finnst þetta vera mikil þröngsýni og alveg sorglegt að ein manneskja hafi svona mikil völd.  Þetta mun án efa hafa áhrif í kjörklefanum, svona hlut er ekki hægt að gleyma og ekki hef ég trú á því að meirihluti Skagamanna sé svona þenkjandi. 

Hér er fréttin: Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks í Velferðarráði Reykjavíkurborgar leggja fram tillögu í ráðinu á morgun um að bjóða hóp flóttamanna frá Palestínu velkomin til Reykjavíkurborgar.

Í tilkynningu frá fulltrúunum segir, að ætlunin hafi verið að búa flóttafólkinu framtíðarheimili á Akranesi en í fjölmiðlum síðustu daga hafi komið skýrt fram í máli Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, formanns félagsmálaráðs á Akranesi, að ekki sé rétt að taka á móti flóttafólki þangað heldur eigi bærinn að einblína á vanda bæjarbúa.

„Það er mat okkar að ekki sé leggjandi á flóttafólk að flytjast í bæjarfélag þar sem formaður félagsmálaráðs er á móti komu þeirra og vinnur opinberlega gegn dvöl þeirra þar. Það er trú okkar að þó svo sömu flokkar stýri málum í Reykjavík og á Akranesi, þá verði önnur afstaða tekin til málsins hér í borg," segir í tilkynningunni, sem Björk Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar, skrifar undir.


mbl.is Flóttafólk verði boðið velkomið til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónýtt mannorð ... konu á mínum aldri

S�� og heyrt„Ég sá mynd af þér í Séð og heyrt,“ sagði mamma í afmælinu í gær og horfði undarlega á mig. „Nú, var það?“ spurði dóttirin. „Ég vissi ekki að þú hefðir farið á klámráðstefnu!“ hélt hún áfram og þögn sló á mannskapinn. Þarna stal hún sannarlega athygli minni frá tvíburunum krúttlegu. Ég rifjaði hratt upp atburði síðustu 49 ára sem mögulega hefðu ratað í vinsælasta slúðurtímarit landsins og datt ýmislegt krassandi í hug ... en klámráðstefna? „Var þetta nýlegt blað?“ spurði ég. „Já, ég sá það á hárgreiðslustofunni í gær.“ Augu mömmu skutu gneistum, enda hafa börn hennar verið alin upp við mikla siðprýði „Sátum við nokkrar skvísur saman í sófa með ungan mann í fanginu?“ spurði ég. „Já, einmitt þarna á klámráðstefnunni,“ sagði mamma. Loks rann upp ljós fyrir mér. „Æ, þetta var lítil smáfrétt um að Haffi Haff væri farinn að vinna með okkur á Vikunni,“ útskýrði ég, „þetta hefur eflaust verið á sömu blaðsíðu og myndir frá einhverri klámráðstefnu.“ „Ahhh, mikið er ég fegin, hana fáðu þér aðra snittu,“ sagði mamma himinsæl með dótturtepruna sem lenti óvart á rangri síðu í Séð og heyrt og uppskar ónýtt mannorð í augum móðurinnar.

AugaEkki var raunum mínum alveg lokið. Í dag skrapp ég til læknis með gjörsamlega fáránlega lítilvægt erindi, eða bólgið auga, og þurfti að bíða nokkuð lengi eftir að komast að, enda mikið að gera. Ég skildi ekki hvers vegna fólkið á biðstofunni var svona gott við mig. Ung kona færði mér vatn, eldri maður með tárvot augu klappaði mér á bakið og stórhuggulegur maður faðmaði mig. Það var ekki fyrr en mér var litið á bókina sem ég hafði verið að lesa áfergjulega sem ég skildi hvað var í gangi. Hún heitir Áður en ég dey. Pólska konan, frábæri læknirinn minn skrifaði lyfseðil og sagði að það væri eitthvað svona augndæmi að ganga.

Svona litum við útFyrr í dag var krabbameinsskoðun í gangi á Skaganum og er þessa dagana. Hef aldrei áður upplifað svona stuð og fjör af þessu tilefni sem yfirleitt er kvíðvænlegt hjá flestum konum. Sú sem lét okkur fylla út spurningablað (aðgerðir, barneignir, uppáhaldsliturinn og svona) var frábærlega skemmtileg og hin konan við hlið mér sem fyllti út eyðublaðið var hrikalega fyndin. Við sátum síðan þrjár ókunnugar á biðstofunni í hryllilegustu múnderíngu sem til er, voru í síðu, nokkurs konar pilsi með teygju og átti að staðsetja mitti pilsins undir höndunum. Við vorum eins og beibíbleikir/eiturgrænir boltar í útliti. Hugsa að eiginkona sæta læknisins hafi hannað þetta ... Það vinnur einstakt fólk á spítalanum hérna á Akranesi, þótt það þekki ekkert allir alla þá er Mulningsv�l � hv�ld ...andrúmsloftið svo kósí og allt virðist vera gert til að láta fólki líða vel. Annað en í risastóru Reykjavíkinni sem mér þykir nú samt svo vænt um. Ég segi ekki að ég hlakki til að fara aftur eftir tvö ár ... en ég verð örugglega ekki jafnkvíðin og ég var í dag. Þegar ég var síðan í kremjaranum ... eða brjóstamulningsvélinni hugsaði ég illilega til frænda míns sem gaf Krabbameinsfélaginu andvirði einnar slíkrar vélar þegar hann seldi húsið sitt og minnkaði við sig húsnæði. Nei, nei, djók, þetta var flott hjá honum og annað, það er ekki nein martröð að fara í svona vél, tekur stuttan tíma og í þessi þrjú eða fjögur skipti sem ég hef farið hafa konurnar verið alveg frábærar. Og fyrst ég er orðin „kona á mínum aldri“ að mati Krabbameinsfélagsins þá þarf ég að fara í svona myndatöku annað hvert ár.

Hressar skvísurAf hverju getur Krabbameinsfélagið ekki sagt: Konur yfir fertugt eru hvattar til að fara í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti ...í opnum póstkortum sínum til mín, í stað þess að kalla okkur Kona á þínum aldri? Þetta hefur pirrað mig síðan ég fékk fyrsta kortið, fertug að aldri, enda finnst mér Kona á mínum aldri, verða prúðbúin kona á áttræðis- eða níræðisaldri með hatt að drekka kaffi á kaffihúsi með skríkjandi vinkonum, ja, eða í sundi með litríka sundhettu. Þegar svona opið póstkort kom fyrst heim til vinkonu minnar bilaðist maðurinn hennar úr hlátri og sagði við hana: „Elskan, hér hafa orðið tímamót í lífi þínu, þú ert orðin Kona á þínum aldri.“ Auðvitað á maður ekki að láta svona smáatriði pirra sig, ég veit það vel ... en ég get ekki alltaf verið fullkomin!


Spádómar þínir, Nostradamus ...

bush_nostradamusFyrir einhverjum árum var mikil stemmning fyrir spádómum Nostradamusar. Stór galli er að erfitt er að tímasetja hlutina en mér sýnist á öllu að ég verði væntanlega komin undir græna torfu þegar allt verður vitlaust. Sérfræðingar í þessum málum segja t.d. að anti-kristur hafi fæðst í júlí 1999, líklega asískur, þannig að allar ásakanir um að George W Bush sé sá vondi eru greinilega úr lausu lofti gripnar. Hér koma „til gamans“ 30 fyrirsagnir úr einni þýðingunni og þær fyrstu eiga ágætlega við þjóðfélagsástandið ... og einnig það sem ég ætla að gera 1. maí nk., eða að mótmæla verðbótum lána sem renna óskiptar til bankanna. Vona að ég verði ekki gösuð. Árið 2066 lýkur öllu þessu slæma og spádómar Nostradamusar öðlast viðurkenningu. Góða skemmtun! Til að lesa miklu, miklu nánar um þetta bendi ég á: http://www.snerpa.is/net/nostri/nostr3.htm#uppgangur  

Óþarfi að óttast ... þetta er bara úr bók! Smile Bara pæling á lötum sunnudegi eftir lestur á Netinu. Vona að Guðmundur Sigurfreyr fyrirgefi mér að birta þetta!

1. Skapadægur neyslusamfélagsins. Verðbólga og gerræði. Spádómar Nostradamusar rætast

2. Nauðungaruppboð og vaxandi vantrú á getu stjórnmálamanna

3. Efnahagskreppa. Hrun verðbréfamarkaðarins

4. Samsöfnun auðs á fárra hendur og vaxandi þörf fyrir lánsfé

5. Almenningur jafnar reikninginn við vestrænar bankastofnanir
Musterin, þar sem Vesturlandabúar geyma fjársjóði sína á leyndum stöðum, verða brotin upp af hungruðum [lýðnum] sem endurheimtir auðæfin og vinnur ótrúleg spellvirki.Meðal þeirra verða hræðilegar óspektir.

6. Þverrandi trú á stjórnmálamönnum vegna verðbólgu. Glundroði í París

7. Efnahagslegt öngþveiti leiðir til styrjaldar. Beiting kjarnorkuvopna

8. Fjármálakreppa. Stríð á Vesturlöndum

9. Efnahagskreppa og almennur skortur

10. Hörmungartímar renna upp. Ringulreið í Frakklandi og á Ítalíu

11. Afvopnunarviðræður stórveldanna

12. Samningar um vígbúnað og undirbúningur undir nýtt stríð

13. Fráfall háttsetts ráðamanns færir yngri manni völdin

14. Friðarsáttmálar rofnir

15. Friðarsamningar vanvirtir. Sundurlyndi meðal Frakka

16. Egyptar efna til ófriðar við vinátturíki Rússlands. Hryðjuverk í Þýskalandi

17. Friður á Vesturlöndum undanfari stórstyrjaldar

18. Þrettán ára friðsamleg sambúð tveggja stórvelda fyrir bí

19. Aðvörun Nostradamusar. Hungurdauði og undirokun. Hernaðaraðgerðir að frumkvæði hávaxins þjóðarleiðtoga

20. And-Kristur birtist fyrir upphaf Vatnsberaaldarinnar

21. And-Kristur fæðist í júlí árið 1999

22. Trúarleiðtogi þjarmar að andstæðingum sínum. And-Kristur í leikhúsi
Stofnandi sértrúarhreyfinga veldur þeim er sakfella hann mikilli sorg.Dýrið verður í leikhúsinu
[þegar] látbragðsleikurinn er undirbúinn.

23. Dýrið sem varð heilt af banasári sínu

24. Dýrið frá jörðinni

25. Maður blóðsins: Bandaríkin á hátindi máttar síns.

26. Samvinna Bandaríkjamanna og annars stórveldis.

27. Kosning and-Krists. Hann lifir fábrotnu lífi og beitir voldugar þjóðir ofríki
Lævís maður verður kosinn án þess að láta nokkuð uppi. Hann leikur dýrling og lifir fábrotnu lífi. Síðan gerist hann skyndilega yfirgangssamur og beitir öflugustu þjóðir gerræði.

28. And-Kristur kyndir undir ófriði. Írak gegn Ítalíu

29. Yfirstjórn Bretlands í höndum Bandaríkjamanna. Kuldakast í Skotlandi. And-Kristur

30. And-Kristur ræður niðurlögum þriggja ríkja. Dómsdagsstríðið varir í tuttugu og sjö ár


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 829
  • Frá upphafi: 1515924

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 702
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband