Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.1.2008 | 19:59
Ævintýri á Bessastöðum
Þegar við Inga komum inn á Bessastaði var þar fyrir nokkur fjöldi fólks, mestmegnis karlmenn sem gladdi mig heilmikið. Dagur borgarstjóri Eggertsson heilsaði okkur innilega með handabandi og ég er hér með orðin enn meiri aðdáandi hans ef það er hægt! Hann er greinilega mannglöggur því að það eru komin ansi mörg ár síðan ég tók viðtal við hann á Kaffibarnum, unga borgarfulltrúann.
Síðast þegar ég fór í móttöku á Bessastöðum var hún tengd Mæðrastyrksnefnd og sætasti karlmaðurinn á staðnum var Jóhannes í Bónus, fyrir utan forsetann. Restin var: kjéddlíngar. Í dag var ekki bara fjöldi karlmanna, heldur heill karlakór í þokkabót og það frá Skagafirði. Eftir að kom í ljós að safnið tilnefnda og karlakórinn tilnefndi höfðu ekki hlotið Eyrarrósina, heldur Aldrei fór ég suður, var boðið upp á drykki. Í kjölfarið réðst ég á Karlakórinn Heimi og spurði hvort svo skemmtilega vildi til að hann væri skyldur mér. Allir kórfélagar nema einn sóru það áfergjulega af sér og þessi eini viðurkenndi að vera framhjáhaldsbarn langafabróður míns. Það er frekar skylt, er það ekki? Þeir könnuðust þó við Höllu frænku á Grettisgötunni og Heiðu, systur hennar, sem býr í Hegranesinu.
Eftir fimm mínútna spjall og daður fórum við Inga að fikra okkur að útgöngudyrunum. Frammi hittum við M&M-Árna í góðu stuði og svo hýrnaði enn meira yfir okkur þegar ráðsmaðurinn kom brosandi með bakka fullan af pínuoggulitlum snittum. Eins og allir vita þá eru þunnar brauðsneiðar smartari en þykkar svo að pínulitlar snittur eru sérlega flottar. Þetta segir manni að t.d. matarmikið brauðið á Jómfrúnni sé plebbalegt. Ég fékk mér eina dúllu með drögum að laxasneið og sá mér svo til mikillar skelfingar að maðurinn með bakkann gerði sig líklegan til að leyfa öðrum gestum að smakka því að hann hvarf inn í salinn sem við vorum nýkomnar úr.
Ef ég hefði ekki verið búin að lesa nýju mannasiðabókina hennar Unnar Arngríms hefði ég elt hann, ég var svo svöng. Auðvitað á ekkert að mæta á svona samkomur með tóman maga, veitingarnar eru aldrei þannig að hægt sé að borða sig saddan. Svo var þarna heill karlakór, kommon, menn sársvangir eftir allan sönginn. Þeir tóku meira að segja Undir bláhimni! Eins gott að Lísa Páls var ekki á staðnum, hún neitaði fyrir rest að spila þetta lag (með Labba) á Rás 2, enda var það mögulega, hugsanlega ofspilað á þeim tíma ...
Jú, og hverjir voru hvar? Þarna var fyrrnefndur Árni, kenndur við Tímarit Máls og menningar, Össur sjálfur, Erla á Bændablaðinu, Þorgerður Katrín, Dagur borgarstjóri, Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri RÚV, elskan hún Áslaug Dóra hjá menntamálaráðuneytinu, nýi ferðamálastjórinn, pabbi hans Mugisons, Guðrún Kristjáns fjölmiðlafulltrúi Listahátíðar ... og restin var svo eiginlega bara sætir menn.
Ég frétti að Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Langholtskirkju núna seinnipartinn í janúar!
Þetta var fyrirmyndarboð og Dorrit stóð sig eins og hetja, hún var eini gestgjafinn þar sem Ólafur liggur í flensu.
Ég tók nokkrar snilldarmyndir að vanda sem munu skreyta þessa færslu. Þær stækka ef smellt er á þær, enn meira ef smellt er aftur ...
Nú er bara spurning hvort maður tími að rústa Ísafjarðarliðinu annað kvöld og skemma þannig gleði þeirra yfir Aldrei fór ég suður-verðlaununum.
5.1.2008 | 17:33
Vegið úr launsátri
Fimmtudagurinn var ekki auðveldur dagur. Hann var eiginlega alveg hræðilegur. Gefin var út sú fyrirskipun á Akranesi að bæjarbúar ættu að vera vatnslausir lungann úr deginum. Yfirvöld gera stundum svona hluti til að kúga alþýðuna. Þetta var náttúrlega grimm aðför að persónufrelsi mínu og miðaðist að því að halda mér frá baðkerinu, athvarfi mínu í lífinu. Ónotaðar baðbombur lágu í hrúgum inni á baði og rykféllu.
Ekki nóg með það, heldur var ráðist á annan grunnþátt lífs míns, jafnvel á enn grimmdarlegri hátt, sjálft Moggabloggið. Það var óendanlega sárt að vita til þess að ástkærir bloggvinir, þ.a.m. sjálfur erfðaprinsinn, gætu ekki bloggað eða fengið komment á skrif sín. Ég sá fyrir mér skælandi bloggara í þúsundatali og ekki bara það, heldur færslan sem ég skrifaði eldsnemma þennan morgun gat ekki breytt lífi eins eða neins allan heila daginn.
Vatnið var tekið af Akranesi frá klukkan 9 til 18. Það hefði getað reynst örlagaríkt ... Rúmum tveimur tímum áður var ég reyndar flutt með strætisvagni til Reykjavíkur, ásamt nokkrum örvæntingafullum Skagamönnum. Nægilegt heitt var að finna í heittelskaðri höfuðborginni. Ég kom heim kl. 17.30 og þurfti því að verja heilum hálftíma án heita vatnsins og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ekki gat ég huggað mig við blessað bloggið því að það var lamað langt fram á kvöld. Að vísu kíki ég örsjaldan á það í vinnutímanum vegna annríkis en þeim mun meira á kvöldin og um helgar. Samt sem áður upplifði ég þennan dag að vegið hefði verið að tveimur stærstu grunnþörfum lífs míns og það úr launsátri.
5.1.2008 | 15:58
Dulbúið kristniboð í spennumynd? Read all about it!
Við erfðaprins fórum í gær á myndina I am legend. Hún var að mörgu leyti góð og spennandi en undirtónninn, kannski öllu heldur boðskapurinn, truflaði mig heilmikið. Hann varaði við að fólk skipti sér um of af sköpunarverkinu. Kristileg samtök hafa líklega styrkt gerð myndarinnar. Læknir nokkur fann lækningu við krabbameini með því að breyta mislingaveirunni ... veiran stökkbreyttist með geigvænlegum afleiðingum; næstum útrýmingu mannkyns. Í lok myndarinnar opnast stórt hlið og það fyrsta sem sést er falleg og friðsæl kirkja inni í miðju afgirtu þorpi sem er eflaust fullt af vingjarnlega, trúuðu fólki. Þarna væri vonin, þarna var hið sanna bjargræði fólgið ... arggggg! Æ, af hverju fá áhorfendur ekki að draga sínar eigin ályktanir, af hverju á að troða inn í okkur svona boðskap, dulbúnum í vel leikinni spennumynd? Ef ekki væri fyrir læknavísindin og fikt þeirra værum við enn að deyja úr lungnabólgu, berklum, svartadauða, bólusótt ... og það héti guðsvilji.
Mér líður reyndar afskaplega vel í kirkju, þegar ég á erindi þangað, finnst gaman að hlusta á góðan prest og uppáhaldstónlistin mín er háklassísk kirkjutónlist ... en ég er farin að óttast þessa þróun sem er t.d. mjög áberandi í Bandaríkjunum. Meira að segja Gyllti áttavitinn, sú frábæra ævintýramynd, var dæmd óguðleg (eins og Harry Potter) og þótti svakatrúuðum ástæða til að vara fólk við henni. Aðvörunin þýddi minni aðsókn frumsýningarhelgina og það getur kostað að ekki verði gerðar framhaldsmyndir eftir bókum II og III. Öll þessi læti í heiminum, á Íslandi og á blogginu hafa sannfært mig um að best væri að fá trúarbragðakennslu í skólana, og að kenna þyrfti börnum heimspeki, víðsýni og umburðarlyndi. Agaleysi er það sem amar að flestum íslenskum börnum, ekki skortur á meiri kristinfræðslu. Það gerði mér a.m.k. ekki gott að hafa ofsatrúarmann sem umsjónarkennara í gamla daga, frekar hið gagnstæða.
Til eru kristileg samtök, t.d. KFUM og KFUK, sem stunda trúboð allan ársins hring fyrir börn. Foreldrum er í lófa lagið að senda börn sín á samkomur hjá þeim. Í æsku fannst mér hún Kristrún í Frón (KFUK) miklu ljúfari en nokkurn tíma þeir kennarar/prestar sem kenndu mér kristinfræði í skólanum og svo gaf hún okkur alltaf flottar glansmyndir.
4.1.2008 | 08:41
Hressandi jarðskjálftaspjall okkar Ástu í morgunsárið
Það er ekkert galið að sofna fyrir miðnætti. Ég fattaði það í morgun þegar ég glaðvaknaði klukkan sex við SMS frá Ástu: "Viltu kíkja á vindhviðurnar á Kjalarnesi!" Ég rauk morgunhress inn í vinnuherbergi og sá að þær voru bara um 25 m/sek. Skreið upp í aftur og dormaði til 6.30, enda er skipulagningin svo hrikalega góð að ég þarf bara 20 mín til að klæða, snyrta og gera latte áður en Ásta rennur í hlað á drossíunni. Við spjölluðum saman á leiðinni að vanda:
Ásta: "Ég keypti völvublaðið, hún er nú svolítið myrk í máli núna, völvan!" Gurrí: "Ekkert svo rosalega, það eykur t.d. bara straum ferðamanna hingað að fá gott eldgos og svo ef stjórnin fellur þá er það væntanlega bara spælandi fyrir Samfylkingu og Sjálfstæðis, spennandi fyrir alla aðra ..." Ásta (spámannslega): "Það kemur eldgos, ekki spurning, og það verður hér í grennd við höfuðborgina, kannski nálægt Hveragerði og Selfossi ..."
Svo allt í einu vorum við farnar að tala um stóra skjálftann árið 2000. Mig langar að skrifa bók (ja, eða bloggfærslu) um það hvað fólk var að gera þegar skjálftinn reið yfir. Ásta: Á þessum tíma leigði ég íbúð í blokkinni bak við Garðabraut 45 og það eru rosalega stórir gluggar á stigaganginum. Við vinkona mín vorum að fara niður í bæ (á Akranesi) með börnin og hún var lögð af stað niður þegar ég fann fyrir höggbylgjunni á undan skjálftanum. Ég argaði á hana að drífa sig upp aftur, ég var svo hrædd um að rúðan myndi springa. Svo sá ég jörðina (bílastæðið) ganga í bylgjum, það var hrikalegt. Gurrí: Vá, hvað þú ert næm að fatta hvað þessi fyrirvarahvinur táknar. Ásta: Já. Gurrí: Þegar eftirskjálftinn kom þarna 2000, þessi seinni, þá fann ég líka fyrir höggbylgju af því að ég bjóst við jarðskjálfta, beið vakandi uppi í rúmi og hugsaði: Er hann að koma núna, er hann að koma núna, er hann að koma núna? Ásta starði á mig með samúðarglampa í augum, sem er sjaldgæft hjá þessu hörkutóli, og sagði: Rosalega rífur í bílinn, það hlýtur að vera meiri vindur en 25 m/sek. Þarna steingleymdi ég um hvað við höfðum verið að tala og náði því ekki að segja henni allar hrikalegu lífsreynslusögurnar sem ég hafði heyrt um 17. júní 2000. Jú, reyndar, um feginleika okkar Hildu systur vegna mömmu að hún skyldi ekki hafa verið heima á efstu hæð í Asparfellinu svona líka jarðskjálftahrædd ... Já, Hilda, hvar er annars sumarbústaðurinn sem mamma er í? Í Grafningi, svaraði Hilda umhugsunarlaust. Svo föttuðum við báðar í einu hvað hún hafði sagt. Ekkert spurðist til mömmu í viku en hún reyndist alveg heil á húfi, ofsaglöð að hafa lent í þessu ævintýri. Jú, og um unga manninn sem sat á klósettinu heima hjá tengdó í sinni fyrstu heimsókn og hún lá á hurðinni: "Opnaðu, það verður að opna allar dyr í jarðskjálfta, opnaðu, segi ég!" Jamm, mér finnst samt best þegar ég heyrði af þýska eða svissneska jarðfræðingnum sem var á ferðalagi á Íslandi og upplifði þetta ævintýri ... hann hafði lært um jarðskjálfta, kennt um þá en aldrei lent í slíkum. Nú fékk hann þetta beint í æð.
Vona að þetta jarðskjálftamálæði mitt viti ekki á stóran skjálfta. Einu sinni helgaði ég Díönu prinsessu næstum heilan útvarpsþátt á Aðalstöðinni og innan við sólarhring síðar lést hún í bílslysi með Dodi sínum.
27.12.2007 | 15:49
Breiðholtshatarinn, fólkið mitt frá Pakistan og fegurðarsamkeppni femínista
Meira af Þorláksmessupartíi Breiðholtshatarans: Þegar einn virtasti leikstjóri landsins kom þangað hitti hún fyrir eina virtustu leikkonu landsins, þjóðargersemi á áttræðisaldri. Hvernig þekkist þið eiginlega? spurði virti leikstjórinn Breiðholtshatarann. Breiðholtshatarinn, rétt rúmlega þrítugur, greip utan um þjóðargersemina og svaraði: Við kynntumst á einkamal.is! Og allir gleyptu við þessu. Það þorði alla vega enginn að hlæja. Enginn veit hvernig ástamálum 101-skrílsins er í raun háttað. Það gæti þótt kúl að eiga ömmulega kærustu.
Hér er stillt á Sky News, við erfðaprins horfum gáttuð á fréttir frá Pakistan um morðið á Benazir Bhutto. Þegar ég var au pair í London fyrir um 30 árum kynntist ég pakistanskri konu, Mrs. Rehana Zubair, sem var með syni sína í sama skóla og börnin sem ég gætti. Við urðum góðar vinkonur þótt nokkur aldursmunur væri á okkur. Mig minnir að maðurinn hennar hafi verið í vinnu í London fyrir ríkisstjórn sína (kannski njósnari?) en ég hitti hann aldrei. Ég fræddist aðeins um landið hennar og þegar hún sagði mér að það væri stundum rosalega kalt þar ákvað ég að gefa henni lopapeysuna mína, það styttist í heimför hjá henni. Hún varð svolítið skrýtin á svipinn, sagði að það tíðkaðist ekki í heimalandi hennar að yngri konur færðu sér eldri manneskjum gjafir en þáði samt peysuna. Nokkrum dögum seinna gaf hún mér fallega útsaumaða mussu sem ég gekk mikið í. Ég hugsa oft til hennar þegar ég sé fréttir frá Pakistan. Á þessum árum átti ég gestabók (II. bindi), allir sem heimsóttu mig skrifuðu í hana og m.a. skólabróðir minn frá Pakistan sem kom einu sinni í kaffi í 57 Park Drive. Hann safnaði frímerkjum og ég átti mikið af íslenskum frímerkjum, fékk mörg bréf til London. Rehana varð skrýtin á svipinn þegar hún las skrifin hans (á úrdú) og sagði flissandi að þetta hefði verið afar kurteisleg ástarjátning hjá honum. Hún bætti því við að hann skrifaði ótrúlega fallega skrift. Ég fann gestabókina og þess vegna er ég með nafnið hennar á hreinu. Vona innilega að henni og fjölskyldu hennar hafi farnast vel í lífinu.
Fegurðarsamkeppni femínista. Að reyna að gera grín að fólki er ekkert annað en tilraun til að þagga niður í því. Hélt að allir eðlilegir karlar vildu hag mæðra sinna, eiginkvenna og dætra sem mestan og að þær fengju sömu möguleika í þjóðfélaginu og þeir sjálfir.
Margir þeirra virðast kjósa að misskilja málflutning femínista sem aðför að karlmönnum, hafa tekið hluti úr samhengi, velt sér upp úr aukaatriðum, hafa gert femínistum upp skoðanir og líka reynt að finna meira viðeigandi viðfangsefni fyrir femínista (Hvar eru femínistar nú? Ættu þeir ekki að berjast fyrir þessu?) og svo framvegis.
Ef allri orkunni, sem hefur verið eytt í að níða niður málflutning femínista, væri beitt til að jafna hlut kvenna og karla þá værum við í betri málum.
22.12.2007 | 16:34
Er svona ömurlegt að vera kona?
Pólska húshjálpin er komin í himnaríki. Tengdadótturdraumurinn varð að engu þegar ég sá hana. Þetta er harðgift kona, fjögurra barna móðir og ákaflega dugnaðarleg. Hún er inni á baði núna og þrífur eins og hún fái borgað fyrir það. Ég ætla að reyna að gera eitthvað að gagni líka en hef lufsast um hóstandi og skjálfandi úr kulda á milli þess sem ég drekk C-vítamín, eins og Inga skipaði mér. Þvílíkur aumingjaskapur.
Völvuspá í fyrra: Ég sé læti í kringum Davíð Oddsson og tengi það tilraun Björns Bjarnasonar til að koma manni Davíðs inn í héraðsdóm, jafnvel syni Davíðs!
Sá á bloggi manns nokkurs áðan að það ríkir mikið misrétti í draumum. Fyrir utan að það er eingöngu gott að dreyma að maður eigi barn ef um sveinbarn er að ræða er flestum karlmönnum fyrir illu að dreyma kvenfólk ... Að dreyma karlmenn táknar hjálpsemi til handa dreymandanum.
Karlkynsíþróttamenn eru kallaðir konur af þjálfurum sínum til að niðurlægja þá. Íþróttakonur myndu fá hláturskast ef reynt yrði að kalla þær karla, það er ekki einu sinni hrós og alls ekki niðurlægjandi heldur.
Konur eru sagðar búðasjúkar (sem þykir ömurlegt), karlar hata búðaráp (sem þykir flott). Karlar eru kynóðir (sem þykir flott), konur eru frekar kynkaldar (sem þykir ömurlegt). Það virðist ansi margt vera gegnsýrt af þessu án þess að maður geri sér grein fyrir því. Sjálf er ég auðvitað kynóður búðahatari, enda flott ... en samt ekki karl. Þetta hefur orsakað algjöra tilvistarkreppu í lífi mínu.
Elsku strákarnir fá það svo sem líka óþvegið. Ef þeir kaupa sér t.d. stóran jeppa hljóta þeir að vera með lítið tippi. Mér hefur aldrei þótt það fyndin stríðni. Þeim er líka sagt að þeir séu svo takmarkaðir og geti ekki gert marga hluti í einu. Eitt er samt fyndið. Það á að vera í genunum á körlum, að vera með bíladellu, það sé miklu meira svona karlkyns. Samt er bíllinn bara 100 ára uppfinning. Þetta með bíladelluna held ég reyndar að sé risastórt samsæri þeirra á milli til að fá frekar að keyra ... líka þetta með ást okkar kvenna á búðarápi. Við trúum þessu og verslum eins og óðar (nema ég) og þeir sleppa, ormarnir. Ógisslega klárt hjá þeim. Eitt er reyndar alveg rétt hjá strákunum. Þeir eru svo miklu, miklu betri í að ryksuga en við stelpurnar ... eins og allir vita!
19.12.2007 | 19:50
Lymskuleg útrýming pósthúsa og vottur af svarta dauða ...
Tókst að vinna frá 8-14 í dag ... en ekki að blogga. Komst heim með Ástu og síðan við sæmilegan leik í leisígörl þar sem ég hef legið meira og minna síðan. Horfði reyndar á DVD-mynd að beiðni erfðaprinsins en í hans huga er slíkt bara slökun og guðdómlegheit. Myndin, Knocked Up, byrjaði og endaði vel, var soldið fyndin en féll svo á tímabili ofan í gryfju staðalímynda þar sem karlarnir eru skuldbindingafælnir aumingjar og konurnar nöldrandi viðurstyggðir sem gera fátt annað en reyna að breyta mönnum sínum. Ég veit að það er til svona fólk en því fólki hefur líka verið sagt frá blautu barnsbeini að svona séu nú karlar og svona séu nú konur. Þegar ég sá einhverja skelfilega sjálfsræktarbók nýlega, man ekki heitið á henni ... kannski Konur hugsa of mikið, eða Kona, hugsaðu meira! fattaði ég að bækur, sjónvarpsmyndir og svona viðhalda þessu. Brennum bæk ... heheheh, djók!
Ég las gamlar læknabækur í draumi áðan og komst að því að þau einkenni sem hrjá mig benda til þess að sé mjög líklega með svarta dauða. Þegar ég snýti mér þá flautar hægra eyrað ... svarti dauði. Hnerri þrisvar í röð, mörgum sinnum á dag ... svarti dauði. Að vísu held ég að ég muni ná mér upp úr þessu, sérstaklega af því að Ásta er á bíl á morgnana og ég þarf ekki að skjálfa úti á stoppistöð eða pína mig upp Súkkulaðibrekkuna í öllum veðrum.
Verst að hafa ekki komist í afmælið hennar Hildu systur í gær en hún varð 89 ára, þessi elska og er bara skrambi ern. Sætustu tvíburar í heimi, Ísak og Úlfur, eiga svo ársafmæli í dag. Knús!!!
Vinkona mín hringdi örvæntingarfull í mig um fjögurleytið í dag. Ertu við tölvuna? Viltu þá athuga fyrir hvar hægt er að finna pósthús í Reykjavík! Ég fann heimasíðu Póstsins og viti menn, það er næstum búið að útrýma pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu. Í gamla daga, eða fyrir nokkrum árum, gat ég t.d. valið um að fara á pósthúsin á Hofsvallagötunni, í Pósthússtræti eða í Eiðistorgi, í réttri fjarlægðaröð frá Hringbrautinni.
Ég tilkynnti vinkonunni að í Reykjavík, hinni dreifðu höfuðborg lýðveldisins Íslands, er að finna heil fimm pósthús (eða drög að pósthúsi) á eftirfarandi stöðum: Pósthússtræti 5, Þönglabakka 1, kassi í Hagkaupum í Eiðistorgi (drög), Hraunbæ 119 og Hverafold 1-3. Fyrirtækjapósthús er í Stórhöfða 32. Eitt pósthús er síðan í Kópavogi, annað í Garðabæ, eitt í Mosó og eitt í Hafnarfirði. Svo er dýrlegt pósthús hér á Skaganum. Tæknin er auðvitað orðin svo mikil að fólk getur sent jólapakkana með tölvupósti.
Þessi sama vinkona sagði mér frá fyndnustu jólagjöf sem hún hefur fengið á ævinni. Hún var þá í þremur vinnum, af því að einstæðar mæður hafa það svo gott, og skúraði m.a. daglega á leikskóla. Frá leikskólanum fékk hún leikhúsmiða fyrir einn í jólagjöf! Hún fann þennan miða í jólatiltektinni 2007 og var löngu búin að gleyma þessum miða. Annar leikskóli gaf starfsfólki sínu eina jólakúlu á kjaft. Algjör snilld!
14.12.2007 | 16:35
Má ekki bregða mér frá ...
Ja, hérna ... Maður má ekki liggja heima í hálsbólgu og ófærð þá verður allt vitlaust í vinnunni og það ekki í fyrsta sinn. Það verður gaman að fá SME í salinn, ef Mannlíf heldur áfram að vera á sama stað, í tíu skrefa fjarlægð frá Vikunni. Við Sigurjón unnum saman á DV í gamla daga og mér hefur alltaf líkað vel við hann. Ég á eftir að sakna Heiðdísar Lilju, enda frábær vinnufélagi. Ásta sem tekur við Nýju lífi af henni, ásamt Ingibjörgu Dögg, var lengi á Vikunni og á án efa eftir að gera góða hluti. Feðgarnir Jón Trausti og Reynir verða fínir saman hjá DV en svakalega þarf að passa sig á honum Reyni ...
Í matsalnum í gær sat ég nálægt honum og einhver við borðið spurði hvernig Skagaliðinu hefði gengið í Útsvari fyrir tveimur vikum. Ég sagði honum að við hefðum "malað" Hafnfirðinga ... með fjórum stigum ... hmmmm. Næsti keppinautur væri Ísafjörður þar sem eintómir doktorar og snillingar væru innanborðs, arggg. Sagði líka að bloggvinkona mín, Ragnhildur Sverrisdóttir úr Ísafjarðarliðinu, hefði lymskulega reynt að róa mig með því að kalla mig Vestfjarðaskelfinn. Bætti því við að ég léti ekki blekkjast af slíku. Reynir glotti og sagði blaðamanni DV, sem sat þarna líka, að setja þetta í Sandkorn. Þrátt fyrir áköf mótmæli mín frétti ég að þetta hefði verið birt ... og ég m.a. kölluð doktor í Oliver Twist. Mikið á ég eftir að sitja þegjandi nálægt Reyni framvegis, þótt það verði erfitt. Honum tókst líka að ná öðru og öllu meiri frétt upp úr okkur Vikugellum um að Geiri í Goldfinger hefði boðið okkur í afmælispartí Goldfingers í kvöld, í miðjum réttarhöldunum gegn Vikunni. Sjá bls. 2 í helgarblaði DV.
Þetta með að stórviðburðir gerist alltaf ef ég bregð mér af bæ eru engar ýkjur. Í þriggja mánaða fríinu mínu í fyrra (blaðamenn fá aukalega tvo mánuði á launum, þrjá með sumarfríinu, á sjö ára fresti til að byggja sig upp andlega ... og bæta við sig þekkingu) þá urðu framkvæmdastjóraskipti hjá Fróða og sitt af hverju í þessa átt hefur gerst nokkrum sinnum, ég man alla vega eftir SMS-i frá Steingerði sem bannaði mér að vera frá vinnu framar, það yrði alltaf allt vitlaust á meðan. Held að þetta nýjasta hafi endanlega sannað það.
Til að bloggvinir mínir skilji almennilega hvað það skiptir miklu máli fyrir alheimssamfélagið að ég sé í vinnunni bendi ég á þá nöturlegu staðreynd að ég var í fríi þann 11. september 2001 ... og stödd í sjoppu í Borgarnesi þegar fyrri turninn féll!
![]() |
Sigurjón til Mannlífs og Jón Reynir til DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2007 | 08:38
Jól í Hálsaskógi
Fyrstu ummerkin um afdrif höfuðborgarinnar vegna veðurhamsins í nótt komu í ljós skömmu áður en Heimir ók inn í Mosfellsbæ. Strætóskýli lá á hvolfi og hafði greinilega fokið um koll. Síðan fórum við að mæta flóttafólki sem stefndi í áttina frá borginni í stórum hópum ... fótgangandi. Fólkið horfði starandi fram fyrir sig, greinilega hungrað og þreytt, jafnvel sturlað, í augnaráðinu mátti þó greina staðfastan vilja. Áfangastaður: Akranes. Sigþóra vildi reyndar meina að þetta hefði ekki verið flóttamenn, heldur vindbarin tré.
---------- ------------ ----------- ---------- -----------
Um kl. 7.32 var farið að birta aðeins og þá blasti viðurstyggð eyðileggingarinnar við. Undir N1-skilti við eitt hringtorgið í Mosfellsbæ, skammt hjá KFC-kjúklingakeðjunni, lá fokin spýta. Við farþegarnir horfðumst í augu og gripum fast um föggur okkar, sérstaklega peningaveskin. Allir vita að eðli mannskepnunnar getur skyndilega orðið dýrslegt við náttúruhamfarir og þá er ég ekki bara að tala um kynlíf.
Við Sigþóra læddumst varlega út úr strætisvagninum og sáum að Hálsaskógur var óskemmdur að mestu. Sigþóra benti mér á þá áhugaverðu staðreynd að Hálsaskógur væri sjálfbært samfélag, það væri hægt að halda góð jól þar ef veður gerðust vályndari. Nóa Síríus er neðst í næstum samnefndri Súkkulaðibrekkunni og þar er Nóa-konfektið ræktað. Hollt og gott er þarna ofar og þar vex salat. Nú, malt og appelsín er þarna ofar í skóginum og einhvers staðar leynist kjötverksmiðja líka, hangikjöt jafnvel. Borðbúnaður fæst síðan hjá Sigþóru í Rektrarvörum, meira að segja servíettur svo hægt verði að halda siðmenntuð jól. Er hætt að pirra mig á veðrinu ... en kvíði reyndar því að reyna að komast heim í storminum á morgun!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.12.2007 | 15:07
Djamm, lagkaka og símanúmer í Hvíta húsinu

Þar sem 10 mínútur voru búnar af Taggart ákváðum við bara að horfa bara á RÚV plús eftir tæpan klukkutíma. Tíu mínútum eftir að Taggart hófst á nýjan leik steinsofnaði ég í leisígörl og svaf til kl. sex í morgun. Argsvítans! Tókst með harðfylgi að halda áfram að sofa í rúminu mínu til kl. 13 í dag. Nú er ég ekki lengur þreytt og til í hvað sem er. Ætla að hella mér í bóklestur á meðan erfðaprinsinn horfir á fræðslumynd um árásirnar á USA 11. september 2001. Held að ég viti hvernig myndin endar, þess vegna er ég yfirleitt löt að horfa á eitthvað sannsögulegt.
Við Skagamenn erum þvílíkt hreyknir af hrekkjalómnum okkar, honum Vífli, sem tókst næstum því að plata Bandaríkjaforseta. Einu sinni hringdu Tvíhöfðamenn reglulega í Hvíta húsið í s. 456-1919, minnir mig (man ekki lands- og svæðisnúmerin á undan) og reyndu að gera símastúlkurnar gráhærðar. Þær kunnu alveg á slíka símaatara og gáfu Jóni og Sigurjóni samband við línu þar sem enginn var hinum megin, síminn hringdi bara stöðugt.
Þetta er eflaust ekki leyninúmerið dularfulla í Hvíta húsinu, ja, annars kemur bara löggan í heimsókn til mín.
Þegar ég fór til Washington DC eitt árið í skólaferðalag fórum við nokkrar að Hvíta húsinu. Að gamni tók ég traustataki laufblað af trjágrein sem slútti út fyrir grindverkið. Ef ég þarf einhvern tíma að gala seið og galdra eitthvað og í uppskriftinni stendur: Takið laufblað af tré sem vex við Hvíta húsið í Washington, skerið það smátt ..., þá er ég í góðum málum.
P.s. ÁRÍÐANDI!!! Kann einhver að gera hvíta lagtertu með súkkulaðikremi (ekki sultu) á milli og getur gefið mér uppskriftina? Smakkaði svona tertu í barnæsku og fannst hún ógurlega góð.Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 31
- Sl. sólarhring: 52
- Sl. viku: 726
- Frá upphafi: 1524924
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 620
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 22
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni