Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sannur jólaandi og spennandi spurningar ...

Gurrí og klukkuhelvítiðAlltaf svolítið kvalafullt að breyta sér í A-manneskju á mánudögum en von um kaffi hvatti til þeirrar hetjudáðar að vippa sér fram úr. Svo þegar ég var komin á stjá mundi ég eftir því að ég þurfti sjálf að búa mér til latte ... eins og venjulega en þá var of seint að hætta við framúrrúminu-dæmið.

Eftir að armbandsúrið fór á rauntíma er allt miklu auðveldara. Vekjaraklukkan er sjö mínútum of fljót og fyllti mig vonbrigðum eitt augnablik í morgun og ég hélt að ég hefði of lítinn tíma ... þangað til ég mundi eftir því að ég hef haft klukkur heimilisins of fljótar í mörg ár. Djísus!!! Ásta var svo sæt að leyfa mér að sitja í í bæinn þannig að ég var komin eldsnemma. Kýrnar lágu bara og jórtruðu hér í vinnunni og andinn í fjósinu var einstaklega góður, eiginlega bara jólalegur. Best að gefa, skella mjaltavélunum á fyrstu skvísurnar og fara svo að moka flórinn. Ekki veitir af.

VölvanFer í dag og tek fyrsta viðtal við völvu Vikunnar. Ef þið hafið einhverjar spurningar sem brenna á ykkur (stjórnmál, veðurfar, kosningar í USA, hneyksli hjá kóngafólki, eldgos, efnahagsástandið osfrv.) þá væri mjög gott að fá þær í kommentakerfið fyrir hádegi! Ráðherrar og alþingisfólk, ekki hika við að spyrja!


Rauntími í himnaríki og strákahorn í Hagkaupum

TíminnSótti úrið mitt í gær í viðgerð til Guðmundar Hannah úrsmiðs (nafnið Hannah er samhverfa) og hef varla gert annað en að horfa ástaraugum á það síðan. Ekki hefði mig grunað að eitt stykki úr í viðgerð myndi breyta lífi mínu svona mikið. Guðmundur setti klukkuna á rauntíma. Hingað til hef ég verið með svokallaða búmannsklukku og haft hana stillta sjö mínútum of snemma. Ótrúlega mörg ár síðan ég gerði þetta fyrst og hef ég ranglega talið mér trú um að ég missti ekki af strætó ef ég gabbaði mig svona. Þetta er rugl og ýtir bara undir streitu.

Elsku PalliAllt varð miklu skýrara í morgun. Ég druslaðist á fætur 20 mínútur yfir sex og þá var hún í raun 6.20. Fannst ég hafa allan tíma í heiminum eftir að hafa fengið dásamlegt SMS frá Ástu. Bjó til latte handa okkur og svo nákvæmlega á mínútunni 6.49 gekk ég niður stigann með heitt og ilmandi kaffi í einni, plötuna hans Páls Óskars í annarri og töskuna mína í þriðju. Minntist ekki á Pallaplötu við Ástu fyrr en hún slökkti á fréttunum, þá setti ég hana í plötuspilarann. Samstundis kviknaði á marglitu diskóljósi í loftinu og dansarar spruttu upp úr aftursætinu. Allt fyrir ástina, sungum við hástöfum, himinglaðar og hamingjusamar, spiluðum það meira að segja tvisvar á leiðinni. Rosalega er þetta góður diskur, ég sem hata diskó ... eða hataði. Ætla sannarlega að kaupa diskinn handa Ástu sem örlítinn þakklætisvott fyrir allar ferðirnar á milli AKR og REY. Svo ákváðum við Ásta að fara á tónleikana hjá Palla sem verða í Bíóhöllinni á Akranesi 1. des. Kannski ég reyni að draga erfðaprinsinn líka með.

HómerFrétti að Hagkaup í Holtagörðum sé með sjónvarpsfótboltahorn fyrir þá sem hata að fara í búðir. Mikið ætla ég að drífa mig þangað, bið bara erfðaprinsinn að versla inn á meðan því að hann hefur meira gaman af því að fara í búðir en ég. EN ef þetta er sérstaklega ætlað karlmönnum þá gagnrýni ég það harkalega. Hættið að viðhalda staðalímyndakjaftæði með svona rugli! Ég, kvenleg og sæt, elska karlmenn og svona, keypti t.d. áskrift að Sýn vegna þess að ég vildi ekki missa af HM í fótbolta 2006. Mikið held ég að þetta móðgi líka marga karlmenn. Sjónvarpskrókur fyrir börnin svo að mamma geti keypt í friði ... og nú fótboltahorn fyrir vitlausu karlana sem láta segja sér að það sé karlmannlegt að hata búðaráp (það er MANNLEGT að hata búðaráp) og horfa á fótbolta. Ég hlusta ekki á stóra samsærið um að "allar konur elski að fara í búðir". Ég varð jafnfúl þegar ég frétti þetta og þegar SkjárEinn setti upp stelpustöð í kringum HM2006. Ég veit að það stuðaði einhverja karla sem fíla ekki fótbolta (ekki þannig að það skemmdi þá, elsku dúllurnar eru vanir nastí bröndurum ... jeppar/lítil typpi, við konur svo sem líka: "Ó, er það þessi tími mánaðarins hjá þér, frá fyrsta til þrítugastaogfyrsta?"). Annað hvort áttu þeir að horfa á boltann eða þeir voru kjéddlíngar. Ég átti sjálf í mikilli tilvistarkreppu þetta sumarið þótt ég efaðist í raun aldrei um kynhneigð mína.

Mig langar í fjölbreyttara þjóðfélag, ekki bara bleikt og blátt!


Ættfræði og dæmalaus lymska Hafnfirðinga

Jólagjafaleiðangur okkar InguVið Inga ákváðum að fara í jólagjafaleiðangur eftir vinnu í dag. Uppskera: engin. Líklega var þetta bara undirmeðvitundin að reka okkur í Kaffitár í Kringlunni ...

FormóðirinÞegar á Skagann var komið beið mín bók, bók sem ákveðin vélstýra myndi gefa hægri handlegginn á sér fyrir, eða ættfræðirit! Ættir Þingeyinga XV. bindi; ætt Ingimundar Jónssonar í Sveinungsvík (f. 1620 c.a.). Alkunn staka er honum eignuð: Austankaldinn að oss blés/ upp skal faldinn daga trés/ veltir aldan vargi hlés/ við skulum halda á Siglunes. Að sjálfsögðu er konu hans ekki getið, sjálfrar ættmóðurinnar! (sjá mynd t.v.) Þegar fólk er orðið svona fjarskylt manni þá kannski skiptir það ekki máli ... Sá reyndar að annan bróðurson minn vantar í bókina, þann danska, en það var kannski viljandi ... rasismi? Sá líka á myndum í þessarri bók að ættingjar mínir eru fallegt fólk. Líka makar þeirra sem segir mér að það sé ættgengur andskoti að velja maka eftir fegurð, ekki bara gáfum og kímnigáfu. Þarf svo að rúlla í gegnum bókina um helgina og athuga hversu margir eiga afmæli 12. ágúst.

Leyna á sérKíkti á dagskrárvefinn á RÚV í gær og sá að keppinautar okkar Skagamanna þann 30. nóv. verða Hafnfirðingar. Um leið opnuðust augu mín skyndilega fyrir dæmalausri snilld þeirra. Þeir hafa undirbúið sig áratugum saman fyrir þennan Útsvarsþátt og látið þjóðina halda að þeir séu soldið vitlausir (sjá ritröðina Hafnfirðingabrandarar I. til XXVICMII. bindi). Ég hef oft keyrt í gegnum Hafnarfjörð og veit þetta, einnig þekki ég fólk frá Hafnarfirði, t.d. Hjört Howser, og veit að þar búa bara mannvitsbrekkur og gáfnaljós! Það er ekki hægt að plata okkur Akurnesinga svona og láta okkur halda að þetta sé fyrir fram unnin orrusta.

Strax daginn eftir, kl. 11.00 - 12.30, verður svo þátturinn á Útvarpi Akraness. Þetta verður ansi annasöm helgi. Ekki nóg með það, heldur er Mía systir búin að bjóða mér í Lions-veislu 7. des. Matur og læti. Skyldi vera tími til að skreyta himnaríki fyrir jólin?


Annir pannir og flóðaspenna

Heimir Schumacher kom okkur örugglega í bæinn í morgun. Við Sigþóra þrýstum okkur hvor að annarri, önnur var ástríðuþrungin, hinni var ískalt. Til að viðhalda spennunni segi ég ekki hvor var hvor nema ég bendi á til að auðvelda að Sigþóra á hlýrri úlpu.  

FlóðMikið vildi ég að ég gæti verið heima núna að horfa á Sky News - þótt ég elski vinnuna mína! Var ég nokkuð búin að minnast á í bloggheimum að ég væri mikið fyrir náttúruhamfarir? (þá á ég við svona algjör flottheit og enginn deyr) Það er frekar ógnvekjandi að eiga von á þriggja metra hárri flóðbylgju á hverri stundu.

Jæja, vitlaust að gera, blaðið fer í prentsmiðju í dag og ritstýran mín hefur verið veik. Slíkt ætti að banna. Fékk reyndar að draga í krossgátunni og veit að tvær konur  með póstnúmerin 350 Grundarfjörður og 108 Reykjavík verða ósköp glaðar þegar þær fá senda bók. Í næstu Viku og kannski fleirum verður nýja matreiðslubókin úr smiðju Gestgjafans í krossgátuverðlaun. Endilega takið þátt, mamma segir að þessar gátur séu ógisssslega léttar en það segir hún svo sem líka um gátuna í Sunnudagsmogganum! Þegar mamma byrjar að tala um þá gátu dett ég alltaf út og fer að slefa ...


Strætóheimasíðumorgunraunir á sunnudegi

Nú er morgungleðin alveg að fara með mig. Það rennur svo löturhægt í baðið og svo veit ég aldrei hvort það endar sem heitt bað eða kalt bað. Svo var ég svo glöð að vakna svona klukkan átta, algjörlega útsofin ... þá var klukkan í tölvunni klukkutíma of sein ... Ó, Evrópa og tímabreytingar ...

TölvuraunirTvisvar þurfti ég að endurræsa tölvuna í morgun. Ætlaði í sakleysi mínu að tékka á ferðum strætó nr. 27 á sunnudögum en eina leiðin til að sjá það er að fara inn í pdf-skjal á straeto.is og þar fraus tölvan mín tvisvar. Þetta var ekki í fyrsta sinn. Ég elska strætó en ég er mjög óánægð með heimasíðuna og að maður þurfi að opna í aukaforriti til að komast inn í leiðakerfið sem er líka búið að gera svo óþarflega flókið að það er á þremur síðum. Þetta á að vera svo gott til að prenta leiðakerfið út en sorrí, það eru ekki allir með prentara, ekki ég! Ég prófaði líka hjálpardæmið þarna, að skella inn heimilisfangi mínu og öðru í Reykjavík til að vita kl. hvað ég gæti tekið strætó, en það var ekki virkt.

Tryggir strætófarþegarAuðvitað hringdi ég líka í 540 2700, ýtti fyrst á einn og gat valið um skiptiborð eða rödd af bandi sem taldi upp allar breytingar á leiðum og hófst lesturinn á leið nr. 1. Sá að það tæki tímann sinn fram að leið 27 ... hringdi aftur og beið eftir skiptiborði en enginn svaraði.

Úti á stoppistöð fæ ég bara að vita á skiltinu þar kl. hvað strætó verður nákvæmlega á þessarri stoppistöð, ekki hvenær hann leggur af stað frá endastöð eða verður á áfangastað. Það hefði líklega endað með því að ég tékkaði þar á brottför en engillinn hann erfðaprins heyrði að vesen var á móðurinni og bauðst til að skutla henni í bæinn ef hún færi. Óvíst vegna bakverkja eftir svefninn langa.

P.s. Baðið reyndist ekki vera kalt, heldur ískalt, og bakið versnar eiginlega með hverri mínútunni þannig að skírnarveislan verður að fara fram án mín, hræðilega spælandi. Plata bara erfðaprinsinn með mér fljótlega til að heilsa upp á fjölskylduna á Guddó (Guðrúnargötu) og gefa skírnargjöf og stórusysturgjöf. 


Að hafa tandurhreina samvisku

Hrein samviskaKomst að því að hæfileikinn til að sofa út í himnaríki er enn til staðar. Sagt er að sá sem ekki geti sofið til hádegis hafi slæma samvisku. Mín er greinilega svo tandurhrein að risið var úr rekkju um fjögurleytið ... en bakið er í rúst.

Ýmislegt áhugavert mátti lesa í blöðunum í dag, m.a. var lesendabréf frá farþega sem vildi að Skagastrætó færi alla leið niður á Hlemm í stað þess að hafa endastöð í Mosó og að Kolla Bergþórs er stórhrifin af bókinni um 10 litlu negrastrákana. Þetta tvennt var alla vega minnistæðast.

Fyrir nokkru setti ég hlekk að uppáhaldslaginu mínu með Wu-Tang Clan, það var tónleikaútgáfa og viðlagið heyrðist varla, léleg upptaka. Hér kemur lagið á nýjan leik, beint af kúnni (plötunni), og ég hef tekið gleði mína aftur. Það borgar sig greinilega að leita betur á youtube.com.
http://www.youtube.com/watch?v=-J9YlU0kcPU

Svo er hér annað lag sem ansi gaman var að rifja upp kynnin af:
http://www.youtube.com/watch?v=POl4vFp-5os 


Matar"kuklarinn" Solla

Ég heyrði brot úr Samfélaginu í nærmynd í gær þar sem viðmælandinn líkti Sollu hjá Himneskri hollustu við kuklara. Ég var steinhissa, enda skrifar Solla greinar um hollt mataræði, ekki dulræn málefni. Á bloggsíðu Svans læknis, sem var mögulega viðmælandinn í útvarpinu, segir líka að það hafi ekki komið honum á óvart þegar Solla lauk grein sinni með því að ætla að tala næst um himalayakristalinn. Sá skilningur var lagður í kristalinn að viðkomandi Solla hlyti að trúa á stokka og steina ... Ég rannsakaði málið ... Himalaya-kristall er SALT!!!

Mér finnst greinarnar hennar Sollu mjög góðar og hvetjandi fyrir okkur sófadýrin sem kannski blekkjum okkur með því að kaupa bananabombur og appelsínusúkkulaði ... til að fullnægja ávaxtaþörf dagsins ... hehehe. Veit ekki til þess að Solla hafi nokkru sinni tjáð sig um spádóma áruþvottavélar eða slíka samkvæmisleiki. Hún er öll í mataræðinu og hlýtur að hafa á einhvern hátt rétt fyrir sér þar sem hún hreinlega geislar af orku og lífsgleði ...

Spælandi að ná ekki að komast með Ástu á Skagann núna kl. 15 en það er föstudagur og mikið að gera. Yfirleitt erum við búnar um fjögur til fimm og það er mikill munur frá því áður þegar þetta var yfirleitt fram á kvöld.  Ætla meira að segja að reyna að ná 15.45-vagninum.


Pissað upp í vindinn ...

Enn ein belgísk vafflaEf þú ert ekki að geta komist í gegnum þetta ...“ sagði kona í sjónvarpinu áðan. Mér skilst að svona málfar megi finna í nýju biblíunni. Einn prófarkalesarinn minn sagðist vera í losti yfir því og  íslenskuprófessor við Háskóla Íslands gerði athugasemdir við málfarið. Prófarkalesarinn bætti því við að það væri eins og að pissa upp í vindinn að reyna að breyta einhverju.

Hvernig getur heilt tungumál tekið svona miklum breytingum á nokkrum árum? Sjálf áttaði ég mig ekki á þessu fyrr en samstarfskona mín var spurð (í hittiðfyrra): „Hvar voruð þið að sitja?“. Mikil er ábyrgð íþróttafréttamanna. 

Íslenskukennari sagði við bekkinn minn fyrir tæpum tíu árum að stéttaskipting í þjóðfélaginu í dag kæmi fram í gegnum tungumálið. Það hlýtur að hafa breyst því að þessa dagana heyrir maður alls konar hefðardúllur, m.a. alþingismenn og ráðherra, tala svona.

Þetta voru pælingar kvöldsins.


Sennilega aðkomumaður ...

AðkomumaðurÉg er sármóðguð vegna viðbragða fólks við þessarri frétt og ætla t.d. aldrei að hlusta framar á Guðna Má Henningsson! 

Fólk flissar um bloggheima sem segir mér heilmikið um ástandið vegna næturlífs í bæjarfélagi viðkomandi. Þetta ER nefnilega fréttnæmt! Á Skaganum býr svo mikið rólegheitafólk að sérstakt þykir ef ölflaska brotnar.

Líklega hefur þetta mögulega bara verið sár maður yfir úrslitunum í Formúlunni og misst óvart brothætta flösku.

Langlíklegast er þó að þetta hafi verið aðkomumaður.


mbl.is Braut flösku framan við lögreglubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra samsærið

Sælir eru fátækir ...Gerið þið ykkur grein fyrir því að auðjöfrar láta reglulega framleiða bíómyndir og sjónvarpsþætti sem fjalla um þá óhamingju sem peningar færa venjulegu fólki? Enn ein þáttaröðin fer að hefjast á einhverri stöðinni um þann hrylling sem stór happdrættisvinningur hefur í för með sér fyrir nóboddía. Við horfum, sannfærumst og verðum hamingjusamari í óríkidæmi okkar. (Sælir eru fátækir) Þannig haldast peningarnir á „sínum stað“. Ef ég verð myrt þá vitið þið hvers vegna.

--------        ------------        ------------         ------------ 

Önnur heimsk, hin harmþrunginSamkvæmt bíórythmanum http://www.bio-chart.com/ skora ég frekar hátt vitsmunalega þessa dagana, heilsan er góð en tilfinningalífið í rúst. Greinilega kjöraðstæður til að komast að svona greindarlegri niðurstöðu. Vildi bara deila þessu. Ekki trúa öllu því sem þið sjáið í sjónvarpinu. Í vitlausa veðrinu á mánudaginn ætlar Inga að keyra mig heim. Bíltúrarnir okkar í óveðrum undanfarið eru eina von hennar (okkar) til að kynnast huggulegum björgunarsveitamönnum. Annars lét Inga happ úr hendi sleppa þegar hún keyrði nýlega upp á hringtorg til að forða bílnum sínum (og okkur) frá nánum kynnum við trukk. Hvað veit hún nema draumaprinsinn hafi setið undir stýri. Örlögin eru örugglega alltaf að færa okkur menn en við tökum aldrei eftir þeim. Inga sagði mér í símanum áðan að hún væri vitsmunalega á botninum skv. bíórytmanum en ætlaði samt upp á Skaga á mánudaginn. Þetta verður söguleg ferð, önnur heimsk og hin í andlegri rúst.

Fann gamalt uppáhaldslag á elsku youtube.com. Datt samstundis rúm 30 ár aftur í tímann. Skemmtilegt lag sem ég var búin að steingleyma. Sylvia var líka skemmtilegt lag. Enjoy, rokkarar!
http://www.youtube.com/watch?v=cIqzRaHbKQY


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 50
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 745
  • Frá upphafi: 1524943

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 637
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband