Færsluflokkur: Tónlist

Busl og blessað boldið

Rólegur dagur að kveldi kominn ... Hef ekkert lokað Tomma úti á svölum í allan dag. Ætla að taka einn dag í einu á það. Nú rennur bara í ilmandi freyðibað. Tomma er alla vega óhætt á meðan ég busla með öndinni.

EricBoldið: Stefanía dró Eric með sér til að hitta Feliciu, dótturina sem hann hélt vera dána. Hann varð öskureiður yfir blekkingunum en jafnaði sig fljótt. Felicia þarf nýja lifur og ætlaði Stefanía að gefa dóttur sinni hluta af sinni. Áður en af því varð fannst lifur við hæfi og nú er líffærateymi á leiðinni.

Brooke og RidgeBrooke er búin að gera upp við sig að hún vill Nick en ekki Ridge! Ridge er miður sín og ég eiginlega líka. Nú eru konurnar sem hann hefur gifst til skiptis í gegnum tíðina báðar á eftir hálfbróður hans, Nick. Taylor með varirnar er náttúrlega geðlæknir og getur hrist upp í hausnum á Nick (talað illa um Brooke) á sannfærandi hátt. Bridget, dóttir Brooke og nýlega fyrrverandi kona Nicks, ætlar að fara að búa með Dante, blóðföður Dominic litla, því að Felicia, móðir drengsins, arfleiddi hana að honum. Bridget talar mikið um gleði sína yfir Dommí en heima í stofu sitja tárvotir áhorfendur sem vita að Felicia lifnaði við og gerir án efa kröfu á að fá barn sitt.

JackieStærsta spurningin er samt: Hvaða konu getur Ridge hugsanlega farið að gera hosur sínar grænar fyrir? Tvíburarnir eru örugglega dætur hans, nema handritshöfurnarnir fari alveg yfir um, hann var spenntur fyrir Bridget á tímabili en í ljós kom að hann var ekki hálfbróðir hennar. Þegar það kom í ljós þá neistaði eitthvað ... þó var hann kvæntur Brooke, móður Bridget, á þessum tíma. Jackie, mamma Nicks iPodog eiginlega fyrrum stjúpmóðir hans, er líklega of gömul og hún er líka skotin í Eric, pabba hans (ekki blóðskyldum). Darla er gift Thorne ... en hvað með Amber, sem var eitt sinn með Rick, litla bróður hans?

Erfðaprinsinn gaf mér ansi flotta jólagjöf sem ég hef enn ekkert gert með ... eða sett lög inn á.

Jú, iPod var það og ekkert smá flottur spilari. Ætli við notum ekki næstu helgi til að hlaða inn lögum. Ég ætla að setja inn bland í poka af uppáhaldslögum af öllum gerðum! Frábær gjöf!


Sögur af Vesturlandsveginum

Ýkt mynd síðan í morgunÍ morgun, fyrsta dag í ekkijólum var algjört rennifæri í bæinn. Þess vegna skildum við Ásta ekkert í því að bílarnir tveir fyrir framan okkur óku á 70-80 km/klst á Kjalarnesinu. Eftir nokkrar mínútur í nagandi óvissu um það hvort bílarnir færu upp í löglegan hraða ákvað Ásta einhliða og af djarfmennsku að fara fram úr. Það var spennandi augnablik en þar sem enginn bíl var sjáanlegur á móti gekk þetta ákaflega vel og tók stuttan tíma. Ég var alveg sallaróleg en mér til hugarhægðar fór ég þó að hugsa um samtal sem ég átti við Sigrúnu „sveitó“, samferðakonu mína sl. laugardag, þar sem við ókum saman til höfuðborgar og til baka. Sigrún bjó í Danmörku í mörg ár og sagði m.a. að eftir búsetu þar gæti hún alls ekki farið fram úr hægfara bíl ef hún væri á hægri akrein og sá of hægi á vinstri, slíkur væri vaninn eftir siðmenningarumferðarsiði í DK, fólk héldi sig venjulega hægra megin og notaði þá vinstri til framúraksturs.

Sjáið sokkabuxurnar húðlitu og hallærisleguVið vorum einmitt á vinstri akrein og búnar að vera það frá Mosó þegar ég sagði Ástu þetta og horfðum á bíl á c.a. 104 km/klst aka fram úr okkur hægra megin. „Já, einmitt svona,“ sagði ég, „af því að þú ert á 90 vinstra megin þótt sú hægri sé auð.“ Ásta brosti blíðlega og fattaði ekki háðslegan undirtóninn hjá mér, enda hver tekur mark á manneskju sem þorir ekki að keyra bíl og hefur allt sitt umferðarvit úr Formúlunni og Útvarpi Umferðarráðs? Ég veit t.d. í gegnum Formúluna að maður ekur ekki yfir heila lína, heldur bíður þar til hún brotnar, en ansi margir Íslendingar hafa gleymt þeirri reglu eða virða hana ekki. Ralf Schumacher þurfti að aka í gegnum þjónustusvæðið í refsingarskyni fyrir að aka yfir heila línu eitt árið í Formúlunni og þannig lærði ég þetta. Til að Formúlu-óaðdáendur skilji hvað átt er við þá er það mikil þolraun að aka í gegnum þjónustusvæðið ... krókódílasíki beggja vegna, langleggja konur í húðlitum sokkabuxum (sem er sko ekki í tísku) trufla, fullt af bensíntittum að reyna að troða bensíni á bílinn, aðrir að skipta um dekk. Sannkölluð martröð að lenda í þessu ... fyrir utan að tefjast kannski um 20 sekúndur við þetta og missa alla von um sigur.

Tónleikar pónleikarHeld að það hafi truflað Ástu frá því að vera hægra megin að við vorum svo ósammála um tónleika. Hún er tónleikasjúk en ég er orðin löt, hætt að þola breytingar á ástkærum lögum. Nenni t.d. ekki á Jet Black Joe-tónleikana af því að ég veit að lögin eiga ekki eftir að hljóma nákvæmlega eins og á plötunum ... Ásta horfði með samúð á mig og hélt sig vinstra megin ... Ég sagðist vera viss um að Sigga Guðna, gamla barnapía erfðaprinsins, myndi ekki syngja Freedom með þeim og svo væri strengjasveit eða brassband með. Svona hallærisdæmi eins og Sálin og Sinfó! Sinfóníuhljómsveitir ættu að halda sig við klassíska tónlist og Sálin við poppið. Ásta hefði ekið upp á gangstétt vinstra megin, ef slíkt hefði verið fyrir hendi, af hneykslan. Tek það fram að ég er hrifin af Sálinni ... fyrir að hafa gefið einni plötu nafnið 12. ágúst, sem er afmælisdagurinn minn!

Ég er svöngÉg veit að þetta líka frábæra umferðar- tónleikablogg tekur á engan hátt fram spennandi daður- og næstum kynlífslýsingum úr strætó ... en ætli ég komist nokkuð í strætó fyrr en á föstudaginn ... og einmitt þá þarf ég að vera með spariföt í poka þar sem Útsvar verður um kvöldið. Það er ákveðið stress í gangi, óvíst að einn meðlimurinn geti verið með ... og sá sem er til vara, er heldur ekki 100% um að hann komist. Er nokkuð viss um að þetta sé að undirlagi Ísafjarðarliðsins til að taka okkur á taugum, held að doktorarnir þar óttist speki alþýðunnar/lýðsins/múgsins/öreiganna ... sem les bækurnar áður en þær eru notaðar sem eldiviður! Reykta taðið er steikt á pönnu og etið, ríka fólkið sníður jakka sína og pils niður í ábreiður og gefur fátækum. Jamm, ég er að missa mig hérna í Oliver Twist-fílingi, enda glorhungruð og hálftími síðan opnað var fyrir morgunverð í mötuneytinu. Eigið dásamlegan dag, elskurnar.


Músik, mórall, einkamál.is og pínku bold

Shell á AkranesiVið svefnlausu kjéddlíngarnar ókum eins og meistarar á Skagann í dag og geispuðum ekki einu sinni. Af vanda sá ég um að jafna loftþrýstinginn í bílnum á meðan við ókum í gegnum göngin með því að ýta á takka hjá miðstöðinni. Veit ekki hvernig Ásta færi að án mín. Hoppaði út við Skeljungssjoppuna, sem hét Skaganesti í æsku minni, og afhenti þar 20 Völvu-Vikur. Blaðið seldist upp í hvelli fyrir áramótin og viðbótin var vel þegin.

andre_bachmann_med_kaerri_kvedjuEr að hlusta á ansi hreint ljúfa og notalega plötu sem einn uppáhaldsstrætóbílstjórinn minn var að senda frá sér, hann André Bachmann gleðigjafi. Ef André er ekki þegar búinn að fá fálkaorðu fyrir góðgerðastörf þá hlýtur að fara að koma að honum. Segi nú ekki annað.  

JólakortÉg er með smá móral. Fór lítinn blogghring í gær og heimsótti m.a. þá sem ég vanræki oftast, fólk úr bloggfortíðinni. Moggabloggarar eru svo fyrirferðarmiklir í lífi mínu að hinir verða útundan. Í einni heimsókninni sá ég færslu um ókunnugt jólakort frá Sissí og Arnari (fölsk nöfn), hjón sem móttakandi kortsins kannaðist ekkert við. Auk þess talaði hann um þybbið barn sem myndskreytti kortið. Af óvæntri hvatvísi kommentaði ég og þóttist vera Sissí og Arnar, rosamóðguð hjón, barnið væri bara stórbeinótt ... hann fengi sko ekki framar jólakort frá okkur ... Efast reyndar um að fórnarlambið hafi trúað mér en ég hef samt áhyggjur af þessu jólakorti og öllum þeim jólakortum sem komast ekki til skila eða sendandinn þekkist ekki. Það versta sem ég lendi í er að fá kort með mynd af börnum sem ég þekki ekki og t.d. undirskriftina Guðrún og fjölskylda ... Ég þekki svo margar Guðrúnar, enda nokkuð algengt nafn. Þetta gætu meira að segja verið barnabörn, ég er komin á þann aldur. Ef ég sendi myndakort þá myndi mynd af köttunum mínum prýða það, hvaða Íslendingur þekkir ekki Kubb og Tomma?

JafnaldrinnKomin á þann aldur já ... Nú eru bara 223 dagar í viðbót sem ég get sagt að ég sé rúmlega fertug án þess að vera með lygaramerki. Sama má segja um Madonnu. Ég gerði mér grein fyrir þessu um áramótin. Ætla samt ekki að skella mér á einkamal.is, held að strákarnir þar séu of lífsreyndir til að hægt sé að hagræða sannleikanum á nokkurn hátt. Þegar ég tók áskoruninni um árið og prófaði einkamálið undir vinátta/spjall, eins og ég hef áður sagt frá, lauk æsku minni og sakleysi snarlega. Kanar á Vellinum buðu mér reglulega í hóp-lúdó með fjölda frískra karla, ungir strákar vildu prófa „eldri konu“ og slíkt. Einu almennilegu karlarnir sem ég vináttu-spjallaði við komu svo fljótlega út úr skápnum sem kvæntir menn og þá hættu þeir að vera almennilegir í mínum huga. Kannski hefðu flestar konur í mínum sporum hoppað á Kanana, strákana og þá giftu. Þetta segir mér bara að ég hafi klikkaða sjálfsstjórn.

FeliciaP.s. Langt síðan ég hef boldað. Felicia lifnaði við í sjúkrabílnum, var ég kannski búin að segja frá því? Stefanía fékk lánað barnið hennar til að efla lífsvilja hennar og það virðist ætla að ganga upp. Taylor, geðlæknirinn geðþekki með varirnar, daðrar ósleitilega við Nick og gengur bara vel við það þar sem Brooke ætlar að bíða með að sofa hjá Nick þar til hjónabandi hans og Bridget, dóttur Brooke, lýkur löglega ... eftir sex mánuði. Big mistake ... Læknirinn hennar Feliciu horfir ágirndaraugum á sjúklinginn sinn, frekar ógeðfellt. Skrifast kannski á skort á leikhæfileikum. Kannski á þetta að vera umhyggja. Bridget er farin að jafna sig eftir barnsmissinn og skilnaðinn og hlakkar til að ala upp Dominic litla sem reyndist vera sonur Dante, en ekki Nicks, sú á eftir að fá sjokk þegar Felicia lifnar við. Jackie er farin að kalla Eric (fyrri mann Brooke og Stefaníu og pabba Ridge, þó ekki blóðföður) darling, þau eru greinilega byrjuð saman, fjör hjá öldruðum. Jackie þráir ekkert heitar en að giftast Eric. Verst að hann er enn kvæntur Stefaníu löglega og það er spurning um sex mánuði þar líka???? Gvuð, Stefanía er að fara með Eric að sjúkrabeði Feliciu, hann hefur syrgt látna dóttur sína, enda veit hann ekki að hún lifnaði við í sjúkrabílnum. Tjaldið fellur.

Svefnleysi, Pink Floyd og valið í lífinu ...

Pink FloydVið Ásta vorum frekar framlágar í morgun, þótt ekkert skorti upp á fegurðina. Eins gott að aðstoðarbílstjórinn frá himnaríki mætti með hressandi latte út í bíl. Lítill svefn hjá báðum, Ásta datt ofan í myndina Ray, ég ofan í nýja og þykka ævintýrabók frá Uppheimum um rúnir og slíkt. Las 160 blaðsíður fyrir svefninn og hlakka til að lesa meira í kvöld. Við Ásta náðum þriggja tíma svefni hvor ... að meðaltali, Ásta tveimur tímum, ég fjórum. Mestu mistökin sem maður gerir er að hugsa að nú sé dagurinn ónýtur vegna of lítils svefns ... þá verður hann nefnilega ónýtur. Held að við báðar höfum náð mun meira en átta tíma svefni hverja nótt síðan fyrir jól og þá höfum við nú aldeilis safnað í sarpinn, áttum þetta svefnleysi bara inni. Komum beint í snjóinn í bænum, (auð jörð á Akranesi) alla vega hér í efri byggðum Hálsaskógar. Á leiðinni hlýddum við á tónleikaútgáfu af Shine on you Crazy Diamond og ég hélt að hann ætlaði aldrei að fara að syngja, þvílíkt langt intró. Tónleikaútgáfur þykja mér yfirleitt hundleiðinlegar en Pink Floyd tókst reyndar ekki að eyðileggja þetta guðdómlega lag alveg með nýjum trillum og dúllum. Fyrri hluti lagsins hér:

http://www.youtube.com/watch?v=O_gmXtxScYs&feature=related

I wish ...Hér í vinnunni var allt fremur draugalegt þegar ég mætti. Ein samstarfskonan kom reyndar rétt fyrir átta og þá þorfði ég loks að koma undan skrifborðinu. Held að flestir mæti svo kl. 10 eftir svona marga frídaga, minnir að það sé venjan á flestum vinnustöðum þegar hægt er að koma því við. Ef ég hefði ætlað að fremja slíkan lúxus hefði ég misst af fari með drossíu upp að dyrum. Lífið er val!  Jamm. Vona að ég muni enn hvernig á að skrifa frábærar og stórkostlegar greinar á ljóshraða ...


Hvessir hratt á Kjalarnesi

Kjöt í karrí í venjulega matnum, pastaréttur í grænmetisdeildinni, sjávarréttasúpa í súpunum. Maður nokkur sagði þegar hann stóð við hlið mér þar sem við gengum frá diskunum okkar að honum hefði ekki fundist súpan góð ... Held að hann hafi bara verið að halda uppi samræðum ... eða hvað.

Komst að því að tónleikar Páls Óskars á laugardaginn eru í raun krakkaball, ókeypis inn og fullorðið fólk fær aðgang í fylgd með börnum ... Svo spilar hann ekki fyrr en kl. 23 í Breiðinni, gamla hótelinu. Nenni ekki þangað, fer frekar á barnaballið, búin að fá dóttur Ellýjar lánaða.

Ásta var að hringja. Hviðurnar nálgast hratt 30 m/sek í Kjalarnesinu og við erum að hugsa um að drífa okkur bara af stað fljótlega. Ætla að reyna að sofa sætt og vel í nótt þrátt fyrir veðurhaminn sem spáð hefur verið.

Strákarnir í hönnunardeildinni sögðust vera sárir yfir dótahorninu í Hagkaup, sérlega ætlað strákum. Þeim finnst nefnilega gaman að kaupa í matinn og elda, enda eru þeir ekki vanvitar sem horfa slefandi á sjónvarp þegar þarf að kaupa lífsnauðsynjar inn til heimilisins. Tek það fram að ég vil ekki hekluhorn, þótt ég hafi gaman af því að hekla, og vita af erfðaprinsinum aleinum að velja í matinn. Hvað þá eiginmanni, ef ég hefði gengið út aftur. Annars nenni ég ekki að æsa mig mikið yfir þessu. Ég vil endilega hafa mun á kynjunum ... bara ekki launamun!


Rauntími í himnaríki og strákahorn í Hagkaupum

TíminnSótti úrið mitt í gær í viðgerð til Guðmundar Hannah úrsmiðs (nafnið Hannah er samhverfa) og hef varla gert annað en að horfa ástaraugum á það síðan. Ekki hefði mig grunað að eitt stykki úr í viðgerð myndi breyta lífi mínu svona mikið. Guðmundur setti klukkuna á rauntíma. Hingað til hef ég verið með svokallaða búmannsklukku og haft hana stillta sjö mínútum of snemma. Ótrúlega mörg ár síðan ég gerði þetta fyrst og hef ég ranglega talið mér trú um að ég missti ekki af strætó ef ég gabbaði mig svona. Þetta er rugl og ýtir bara undir streitu.

Elsku PalliAllt varð miklu skýrara í morgun. Ég druslaðist á fætur 20 mínútur yfir sex og þá var hún í raun 6.20. Fannst ég hafa allan tíma í heiminum eftir að hafa fengið dásamlegt SMS frá Ástu. Bjó til latte handa okkur og svo nákvæmlega á mínútunni 6.49 gekk ég niður stigann með heitt og ilmandi kaffi í einni, plötuna hans Páls Óskars í annarri og töskuna mína í þriðju. Minntist ekki á Pallaplötu við Ástu fyrr en hún slökkti á fréttunum, þá setti ég hana í plötuspilarann. Samstundis kviknaði á marglitu diskóljósi í loftinu og dansarar spruttu upp úr aftursætinu. Allt fyrir ástina, sungum við hástöfum, himinglaðar og hamingjusamar, spiluðum það meira að segja tvisvar á leiðinni. Rosalega er þetta góður diskur, ég sem hata diskó ... eða hataði. Ætla sannarlega að kaupa diskinn handa Ástu sem örlítinn þakklætisvott fyrir allar ferðirnar á milli AKR og REY. Svo ákváðum við Ásta að fara á tónleikana hjá Palla sem verða í Bíóhöllinni á Akranesi 1. des. Kannski ég reyni að draga erfðaprinsinn líka með.

HómerFrétti að Hagkaup í Holtagörðum sé með sjónvarpsfótboltahorn fyrir þá sem hata að fara í búðir. Mikið ætla ég að drífa mig þangað, bið bara erfðaprinsinn að versla inn á meðan því að hann hefur meira gaman af því að fara í búðir en ég. EN ef þetta er sérstaklega ætlað karlmönnum þá gagnrýni ég það harkalega. Hættið að viðhalda staðalímyndakjaftæði með svona rugli! Ég, kvenleg og sæt, elska karlmenn og svona, keypti t.d. áskrift að Sýn vegna þess að ég vildi ekki missa af HM í fótbolta 2006. Mikið held ég að þetta móðgi líka marga karlmenn. Sjónvarpskrókur fyrir börnin svo að mamma geti keypt í friði ... og nú fótboltahorn fyrir vitlausu karlana sem láta segja sér að það sé karlmannlegt að hata búðaráp (það er MANNLEGT að hata búðaráp) og horfa á fótbolta. Ég hlusta ekki á stóra samsærið um að "allar konur elski að fara í búðir". Ég varð jafnfúl þegar ég frétti þetta og þegar SkjárEinn setti upp stelpustöð í kringum HM2006. Ég veit að það stuðaði einhverja karla sem fíla ekki fótbolta (ekki þannig að það skemmdi þá, elsku dúllurnar eru vanir nastí bröndurum ... jeppar/lítil typpi, við konur svo sem líka: "Ó, er það þessi tími mánaðarins hjá þér, frá fyrsta til þrítugastaogfyrsta?"). Annað hvort áttu þeir að horfa á boltann eða þeir voru kjéddlíngar. Ég átti sjálf í mikilli tilvistarkreppu þetta sumarið þótt ég efaðist í raun aldrei um kynhneigð mína.

Mig langar í fjölbreyttara þjóðfélag, ekki bara bleikt og blátt!


Kökublað, mjónuminningar og vaknað við titring

SúkkulaðitertaKökublað Vikunnar var að koma í hús og það er KLIKKAÐ!!! Flott sko. Heilar 112 síður og 80 uppskriftir. Inga Jóna Þórðardóttir skreytir forsíðuna, ásamt girnilegri jarðarberjatertu, þessarri sígildu góðu. Jæja, þetta var mont dagsins!!! Myndin fannst á google.is og er voða girnileg, svona eru allar terturnar í kökublaðinu ...

-------------         --------------             --------------- 

ICY dúllurnarHelga Möller söngkona kom hingað áðan með nýja plötu sína sem var að koma út. Ég hoppaði samstundis 21 ár aftur í tímann þegar ég var grönn og sá um barnaþátt á Rás 2 inni í morgunþættinum sem m.a. Kolbrún Halldórsdóttir alþingiskona sá um. Þarna í denn heimsótti ICY-tríóið okkur, Helga, Pálmi og Eiríkur Hauksson. Ég man að ég spáði þeim 1. sætinu, algjörlega pottþétt. Gleðibankinn var svo flott lag. Við rifjuðum þetta upp og hún sagðist muna eftir þessarri heimsókn sem var rétt áður en tríóið sigurvissa flaug út í keppnina. Ósmekklegheit Evrópubúa sýndu sig strax á úrslitakvöldinu og hefur yfirleitt verið áberandi þarna í maí þegar frábærum lögum okkar hefur verið hafnað sí og æ. Helga er enn grönn ...

Vaknaði ekki við BDSMS-ið hennar Ástu í morgun, heldur við titringshljóðið sem kemur eftir eina hringingu. Ásta hringdi og bjargaði mér. Við keyrðum svo eins og andskotinn alla leiðina (hver segir að hann aki hratt?) í bæinn og það var rosalega mikil umferð á leiðinni!!! Við lögðum líka af stað 2 mín í 7, ekki 10 mín í, eins og oftast. Það munar greinilega heilan helling um nokkrar mínútur upp á umferðina að gera.


Tónlistarveisla eða piparsveinauppboð?

Karlakór ReykjavíkurKomst óvænt á leynilegt piparsveinauppboð sem haldið var í sal hér á Akranesi. Mía systir hefur greinilega tekið við af pabba sem sérlegur „tengdasonarveiðari“ og lét mig vita af þessu.

Alltaf er nú gaman að horfa á sæta stráka dilla sér og sýna hæfileika sína. Þegar einn ansi myndarlegur, sem ég komst að síðar að væri stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur, kom á sviðið öskraði ég: „Býð hundraðþúsund í þennan mann!“ Allir urðu voða hneykslaðir og Mía þaggaði harkalega niður í mér. Hún játaði þarna fyrst að hafa bara verið að plata mig með sér á tónleika, tónlistarveislu í Tónbergi, sal nýja tónlistarskólans á Akranesi. Verið var að kynna eiginleika LARES-kerfisins og fengum við að heyra mismunandi hljómburð, m.a. eins og er í Hallgrímskirkju, Langholtskirkju og víðar.

 

Jónas og einsöngvararnirFékk nostalíukast þegar Karlakór Reykjavíkur söng ítalska madrígalann Alta Trinita en það guðdómlega lag söng ég oft með Kór Langholtskirkju í denn.
http://youtube.com/watch?v=y3FjLAOYXA8
(Sjálft Alta Trinita hefst eftir 2.16 mínútur á myndbandinu, verður síðan slappara í flutningi eftir því sem fleiri kórfélagar hverfa út úr kirkjunni, enda er þetta notað sem útgöngulag).
Ekki var nóg með að ég færi að skæla þar (sýndi samt mikla sjálfstjórn, hélt aftur af flóði og snökti ekkert), heldur líka þegar Jónas Ingimundarson spilaði Tungskinssónötuna eftir Beethoven. Þar var erfðaprinsinn fjarri góðu gamni en það verk er í miklu uppáhaldi hjá honum. Þau Gunnar Guðbjörnsson og Auður Gunnarsdóttir sungu líka af hjartans lyst/list við undirleik Jónasar.

CameracticaTónlistarhópurinn Cameractica flutti síðan algjöra Mozart-snilld og aðra finnska 1800-snilld. Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness kom skemmtilega á óvart, þarna var rúm tylft ungra stúlkna sem spilaði þjóðlög (írsk, skosk?) og svo sungu þær líka eins og englar. Bassi, trommur og píanó skemmdi sannarlega ekki fyrir. Ragnar Skúlason stjórnar þessum elskum öllum og við Ragnar mætumst víst alla morgna á Kjalarnesinu ístrætó, hann á leið á Skagann til að kenna.


Guitar IslancioGuitar Islancio steig á sviðið og djassaði af mikilli gleði. Björn Thoroddsen, jafnaldri okkar Madonnu, kynnti hina í tríóinu og sagði m.a. þegar hann kynnti gítarleikarann knáa, Tómas Árnason, að þegar hann var tveggja ára hefði hann notið þess mikið að hlusta á Stuðmenn og þá sér í lagi Tómas. Svona ætla ég að hafa þetta, tala um jafnaldra mína í poppinu  og hvað ég hafði gaman af þeim þegar ég var lítil. Þegar ég var lítil hélt ég mikið upp á Röggu Gísla í Lummunum ... (eitthvað svona)

Þjóðlagasveit Tónlistarskóla AkranessSvo sturlaðist ég úr gleði eftir tónleikana því að léttar veitingar í boði VGK-Hönnunar, sem sá um geggjaðan hljómburðinn, fylltu öll borð frammi.

Piparsveinauppboðið fór fram ...Ég hitti Palla, gamlan vin, arkitekt en samt ágætan, en hann teiknar víst íþróttamannvirkin við Jaðarsbakka og er enn eitt á leiðinni. Ég bað hann vinsamlegast um að byggja ekkert sem skyggði á Akrafjallið frá himnaríki séð. Palli lofaði því. Hann var í fylgd lögmanns síns. Mér fannst það mjög undarlegt, ég hef alltaf lífvörð með mér ... en næ aldrei að brjóta nógu mikið af mér til að lögfræðings sé þörf. Arkitektar eru greinilega algjörir krimmar!
Þegar ég var nýbyrjuð að úða í mig gómsætum kræsingum kom erfðaprinsinn: „Ertu ekki að koma?“ Hafði sent honum SMS í lok tónleikanna og áttaði mig ekki á því að hann hefur ekkert gaman af því að vera í fjölmenni þar sem hann þekkir engan. Hann dró mig nauðuga út.


Flottust fljóða

Regndans í himnaríki"Kroppinbakur eigi lengur er, flottust fljóða á landi hér," sönglaði ég á meðan ég staulaðist varlega um himnaríki í morgun. Þótt ég væri orðin bein í baki þorði ég ekki annað en að sleppa daglega regndansinum sem indíánahöfðinginn kenndi mér síðla sumars. Dansinn á víst að virka voða vel en ég trúi samt ekkert á svona bull. Eins og það rigni eitthvað meira á Íslandi þótt dansað sé með látum í himnaríki. Þetta er bara leikfimin mín.

Þetta verður mikill dugnaðardagur í dag. Er að hlusta á Hjálma, nýju plötuna og fékk í hendur áðan bókina Njóttu lífsins eftir Unni Arngrímsdóttur, bók um mannasiði og leiðbeiningar í mannlegum samskiptum. Held að þessi bók sé snilld, ef einhver kann sig þá er það Unnur.  Jæja, eigið góðan dag. Sendi galdrakveðjur héðan úr Hálsaskógi með von um óvæntar uppákomur, daður, ævintýri og jafnvel kossa ykkur (og mér) til handa.


Myndi líka ofsækja hann Conan

ConanÞað er eiginlega með ólíkindum að þættir Conans O´Brien skuli ekki vera sýndir á Íslandi. Skemmtilegur húmor og mikil fjölbreytni. Hann reynir ekki að gera öllum til hæfis og þess vegna tekst honum nefnilega að gera flestum til hæfis ... eða þannig. Jay Leno reynir að styggja engan og það er svo þreytandi til lengdar, fékk eiginlega nett ógeð á honum eftir 11. september 2001 ... þegar hann (handritshöfundar) gerði út í eitt grín að fólki frá Afghanistan fyrir að vera fátækt og brandararnir voru yfirleitt um að karlarnir byggju í hellum (af því að þeir voru svo heimskir) og hjökkuðust án efa á ösnunum sínum (af því að þeir eru svo heimskir). Hefndarþorstinn vegna árásanna kom svona út. Æ, æ.

Mér fannst bara krúttlegt þegar Conan gerði grín að okkur Íslendingum fyrir að vera "staðföst" og hlýðin þjóð við USA og birti myndir af konum með vopn (brauðtertur) í hönd í Árbæjarsafninu. Ég myndi líklega ofsækja hann Conan líka, væri ég prestur ... hann er soddað krútt.

U2U2 lék fyrir dansi á leiðinni í bæinn í drossíu Ástu í morgun. Ansi góð hljómsveit sem gaman væri að fara á tónleika hjá, heyrir þú það þarna Ragnheiður tónleikadrottning! Fátt bar til tíðinda á leiðinni. Ásta sagði mér að hún hefði farið á upplestur hjá Uppheimum, metnaðarfullu bókaforlagi á Akranesi (gefur m.a. út Gyrði Elíasson og Ævar Örn) í Skrúðgarðinum. Alveg fullt út úr dyrum og ég fjarri góðu gamni í reyndar dásamlegu afmæli. Hefði nú ráðlagt erfðaprinsinum að fara ef ég hefði vitað af þessu, hann er af þeirri kynslóðinni sem vill láta lesa fyrir sig ... annars kvarta ég ekki, hann er sílesandi, þessi elska, enda stórgáfaður eins og mammasín. Hann er einmitt að lesa eina af nýrri bókum Alistair MacLean sem kom út fyrir einhverjum árum, Ráðum dulmálið! Held að ég hafi æfst í hraðlestri í gamla daga þegar ég fékk alltaf nál og tvinna í jólagjöf og Gummi bróðir nýjustu Alister MacLean-bókina og yfirleitt náði ég að ljúka henni áður en hann fór að sofa á aðfangadagskvöld.

Ætti maður ekki að heimta skaðabætur fyrir andlegar misþyrmingar á árum áður að þurfa að upplifa bókalaus jól ár eftir ár eftir ár eftir ár? Þegar mér tókst loksins að fá móður mína til að gefa mér bók í jólagjöf, þá farin að búa með manninum síðar varð fyrrverandi maðurinn minn, þá gaf hún mér tvær bækur; Við matreiðum og Vinnan göfgar manninn, ástarsögu með vinnutengdum boðskap, minnir mig. (frá Sögusafni heimilanna). Jamm!


mbl.is Prestur handtekinn fyrir að ásækja Conan O'Brien
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 195
  • Sl. sólarhring: 285
  • Sl. viku: 2154
  • Frá upphafi: 1452354

Annað

  • Innlit í dag: 172
  • Innlit sl. viku: 1745
  • Gestir í dag: 165
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband