Færsluflokkur: Tónlist

Reiður vörubílstjóri, dásamlegt myndband og ný spennubók

Undarlegt. Maður tyllir sér í leisígörl og ætlar að horfa á kvöldfréttirnar, hvílir augun eitt andartak og ... stekkur fram í tíma! Ég horfði þrútnum augum á erfðaprinsinn og spurði örg: „Af hverju léstu mig sofa til hálfellefu?“ Hann flissaði og harðneitaði að láta kenna sér um svefnleysi móður sinnar sem las of lengi í gærkvöldi.

Öskureiður vörubíllElvis eftir vörubílstjóraárinÞegar ég gekk inn í strætó seinnipartinn í dag fóru allt í einu hlutirnir að gerast hratt. Vörubíll kom hratt í áttina að strætó og stoppaði þannig að bílstjóragluggarnir mættust, vörubíllinn sneri sem sagt á móti umferðinni. Vörubílstjórinn (ath. Elvis hóf feril sinn sem vörubílstjóri) gargaði brjálaður á Heimi bílstjóra en ekki heyrðust orðaskil. Líklega skothelt gler, a.m.k. orðhelt. Ég lagði ekki einu sinni í að brosa daðurfullt til reiða mannsins þótt ég noti vanalega hvert tækifæri þegar ég sé menn ... Farþegarnir voru hissa og störðu á manninn, sérstakleg þeir sem voru í vagninum þegar hann kom í Háholtið til að hleypa okkur bíðandi farþegunum inn. Heimir sat sallarólegur og fylgdist með, fátt fær greinilega haggað dyraverði sem vinnur í Borg óttans um helgar. Forsaga málsins er sú að þegar Heimir kom úr Mosfellsdalnum og ók inn í nýjasta hringtorg Mosfellinga kom vörubíllinn á fleygiferð og svínaði fyrir Heimi, tók tvær akreinar, og Heimir gerði sér lítið fyrir og ... flautaði (þeytti bílhornið), enda var hann með dýrmæta farþega innanborðs, þungan bíl með langa hemlunarvegalengd og slíkt.

Flautandi leigubílstjórarÞarna sást í verki hvað við Íslendingar hötum þegar það er flautað á okkur. Vörubíllinn elti sem sagt strætó til að skammast og kenna Heimi að maður flautar ekki í umferðinni þótt svínað sé fyrir mann! Ég býð ekki í leigubílstjóra frá New York á ferð hér á landi í bílaleigubíl, hann yrði myrtur á fyrsta sólarhringnum! Óttaleg móðgunargirni er þetta í umferðinni. Gleymi ekki svipnum á bílstjóranum fyrir framan okkur Hildu við bensíndæluna um árið. Hann var búinn að dæla og ég (farþegi í framsæti) flautaði blíðlega (nýkomin frá New York) til að benda honum á að hann væri ekki einn í heiminum og tefði fyrir fólki. Við fengum hroðalegt morðaugnaráð þangað til mér hugkvæmdist að benda taugaveiklunarlega á Davíð frænda sem þá var svona þriggja ára. Þá færðist blíðlegt bros yfir andlit mannsins og allt var fyrirgefið. Djöfull var ég fljót að hugsa þarna.

Hnífur AbrahamsFékk í hendur í dag spennubókina Hnífur Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð. Kíkti aðeins í hana í strætó þótt það væri mikið stuð með Sigþóru þar og segi nú bara Dan Brown hvað? Virkar a.m.k. rosalega spennandi. Svo lendir maður í tímaflakki, ég sem var búin að ákveða að lesa í allt kvöld. Baðið var reyndar að enda við að fyllast (gott að lesa í baði) og baðvatnið er HEITT! Varúðarráðstafanir, eins og að horfa ekki á baðkerið á meðan rann í það og láta heita vatnið renna líka í baðvaskinum, dugðu og nú skal lesið. Sjúkraþjálfun, súpuhádegi og heimavinna á morgun.

-------         ------------    -------------            ------------- 

Palli krúttTil gamans og vonandi ánægju kemur hér myndband sem ég vona að þið njótið jafnmikið og ég í morgun þegar ég fann það (fékk fréttatilkynningu frá söngvaranum, fór í kjölfarið á myspace-síðu hans og wúmmmm ...)

Ég elskaði lagið hér í denn og spilaði það oft á útvarpsstjörnuárum mínum en hafði ekki séð myndbandið fyrr en í morgun! Algjör snilld! Góða skemmtun. 
http://youtube.com/watch?v=hhRoe2l1n2U
Sem minnir á að útvarpsstjörnuárin mín eru ekki alveg liðin. Hver haldið þið að verði með þátt hjá Útvarpi Akraness helgina 30. nóv. til 2. desember? Jú, einmitt!


Að hafa tandurhreina samvisku

Hrein samviskaKomst að því að hæfileikinn til að sofa út í himnaríki er enn til staðar. Sagt er að sá sem ekki geti sofið til hádegis hafi slæma samvisku. Mín er greinilega svo tandurhrein að risið var úr rekkju um fjögurleytið ... en bakið er í rúst.

Ýmislegt áhugavert mátti lesa í blöðunum í dag, m.a. var lesendabréf frá farþega sem vildi að Skagastrætó færi alla leið niður á Hlemm í stað þess að hafa endastöð í Mosó og að Kolla Bergþórs er stórhrifin af bókinni um 10 litlu negrastrákana. Þetta tvennt var alla vega minnistæðast.

Fyrir nokkru setti ég hlekk að uppáhaldslaginu mínu með Wu-Tang Clan, það var tónleikaútgáfa og viðlagið heyrðist varla, léleg upptaka. Hér kemur lagið á nýjan leik, beint af kúnni (plötunni), og ég hef tekið gleði mína aftur. Það borgar sig greinilega að leita betur á youtube.com.
http://www.youtube.com/watch?v=-J9YlU0kcPU

Svo er hér annað lag sem ansi gaman var að rifja upp kynnin af:
http://www.youtube.com/watch?v=POl4vFp-5os 


Vatn og góður tónlistarsmekkur ...

Gleðimyndir að morgniEkki hófust tónleikar Ástu mjög gæfulega í morgun. Ég gerði mér upp kurteisi og spurði þegar við rúlluðum frá himnaríki með sitthvort latte í hönd: „Hvað er þetta eiginlega?“ Ásta: „Þetta er Marc Anthony, maðurinn hennar Jennifer Lopez, líklega fyrrverandi.“ Af næmleika sínum áttaði Ásta sig á því að stutt væri í að ég fleygði mér öskrandi út úr bílnum, þótt ég segði ekki orð, og ýtti á takka nr. 2 á spilaranum.  Ekki tók mikið skárra við, eða Bette Midler (fyrirgefðu, Ívar), og ef ekki væri fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan sjö hefði dagurinn orðið enn nöturlegri. Ekki var séns að halda áfram að hlusta á morgunútvarpið því að tala átti um pöddur sem lifa í rúminu hjá fólki. Það finnst mér viðurstyggilegt umræðuefni. Ástu líka. Ég skil ekki af hverju okkur datt ekki í hug að ýta á  plötuspilara 4 fyrr en á Kjalarnesinu ... þar lúrðu nefnilega Led Zeppelin. Hækkuðum allt í botn í Stairway til Heaven og Going til Californina. Þá meina ég í botn. Þetta voru alvörutónleikar!!!

thank-water.netMiðað við hamingjuna sem ég upplifði við þetta verð ég að stórefast um að vatnið í líkama mínum hafi kristallast í einhvern ófögnuð (skrímsli) við rokkið, eins og japanski maðurinn heldur fram í bók sinni Leyndardómar vatnsins. Mér líður nákvæmlega jafnguðdómlega vel þegar ég hlusta á hávært GOTT rokk og Stabat Mater eftir Pergolesi! Ég er viss um að vatnið í mér hefur verið við það að breytast í rafgeymasýru þegar vælukjóarnir þarna í morgun byrjuðu að syngja í plötuspilaranum hennar Ástu. Smekkur fólks hlýtur að hafa áhrif ... nema vatn hafi svona lélegan smekk! Í bókinni kemur fram að vatn bregðist líka við orðum. Orð eins og þakklæti hafi mergjuð áhrif til góðs á meðan bjáni láti láti það kristallast í ljótar myndir ... það er sem sagt ekkert sniðugt að blóta í baði. Sá reyndar eitthvað um þetta í myndinni What the Bleep do we know?! og gleymi alltaf að gera tilraunir sjálf ... enda á ég svo sem hvorki góðan frysti né smásjá. Eftir vonbrigðin miklu með vatnið, saltið og baðvaskinn (og það komu engar öldur) hef ég lítið verið fyrir vísindatilraunir ...


Stórtónleikar Ástu og sofandi sauðir

The WallFórstu EKKI á Roger Waters-tónleikana?“ öskraði Ásta á mig rétt upp úr sjö í morgun. Forsaga málsins: Ásta sendi mér BDSMS (Bjargar Deginum SMS) eldsnemma og sótti mig kl. 7 að himnaríki. Þegar við beygðum inn á Garðabrautina hófust tónleikar úr geðveiku hljómflutningstækjunum í flottu drossíunni. The Wall, jessss! Rétt áður en Ásta hækkaði gat ég sagt henni að ég hefði séð myndina The Wall svona sjö sinnum í bíó, tvisvar í vídjó og einu sinni í sjónvarpinu ... já, og þyrfti svo að eignast hana á DVD. Í Mosó vorum við farnar að tala aðeins saman og Ásta sagði Roger Waters-tónleikana þá bestu EVER, samt fór hún líka á Metallicu-tónleikana. Þegar ég viðurkenndi að hafa ekki farið gargaði hún. „Hva, ég nenni ekki ein á tónleika, hvað þá bíllaus,“ reyndi ég að afsaka mig en Ásta horfði stjörf af hneykslun fram á veginn. Friðarsúlan sást ekki sem útskýrir kannski lætin í henni. Svo þegar hún ók frá Lynghálsinum í áttina að Landspítalanum heyrði ég að hún hækkaði allt í botn. Ásta er töffari.

Umferðin í Kollafirði í morgunMig langar að senda bílstjóranum á sérkennilega, ameríska (en frekar litla) bílnum sem var á ferð á Kjalarnesi og fór niður í Kollafjörðinn um kl. 7.15 í morgun fokk jú-kveðju fyrir að keyra á 70 og safna bílaröð fyrir aftan þig. Gaurinn á litla sendiferðabílnum á Vesturlandsveginum milli Mosó og Rvíkur sem hélt sig vinstra megin, einmitt á 50-70 km/klst við hliðina á trukknum á hægri akrein, fær líka mergjaðar kveðjur.


Góður Taí-staður og skrýtinn vatnsþrýstingur ...

Hlakkað til kvöldbaðsinsAfsakið hvað ég kem seint,“ sagði ég skömmustuleg við Gumma strætóbílstjóra í morgun. Vagninn kl. 9.41 var ekki mjög þéttsetinn miðað við 6.41-vagninn sem er alltaf troðinn. Gummi var bara hress og líka konan sem sat hinum megin við ganginn. Hún var í spjallstuði og fljótlega skellti ég 24 stundum og Fréttablaðinu ofan í tösku. Vaknaði nefnilega með hausverk dauðans í morgun og kenni því um að þegar ég ætlaði að fara að stíga ofan í kvöldbaðið með sítrónuilmandi baðbombunni í gærkvöldi var vatnið ískalt! Þvílík vonbrigði. Hvað er eiginlega í gangi? Þetta tengist eitthvað þrýstingi á vatnið og er víst ekki Orkuveitunni að kenna. Annars hefði ég barið Orkuveitumennina, mennina á Orkuveitubílnum, sem voru að loka jarðveginum með túnþökum fyrir aftan strætóskýlið mitt. Ja, eða grafa lík einhvers sem þeir hafa myrt. Hvað veit maður. Þeir voru reyndar ógurlega gæðalegir og sætir og höfðu dúndurtónlistarsmekk. Ég hoppaði dansandi upp í strætó undir tónlist Nirvana ... "I´m so happy, tra la la ...“ söng Kurt Cobain.

Taílenskur maturVið skruppum út að borða í hádeginu, fjórar fagrar og fræknar samstarfskonur, á Krúa Taí í Kópavogi. Þetta er útibú frá Taílenska staðnum í Tryggvagötunni. Þvílíkur dúndurmatur. Við vorum alsælar með kjúllana okkar, missterka. Ég bað um þann sterkasta, kjúkling í rauðu karríi, en samt var hann ekkert rosalega sterkur eins og inverskur eða mexíkóskur matur getur orðið.

Það skemmdi heldur ekkert fyrir stemmningunni að stórhuggulegir menn í stríðum straumum komu og borðuðu þarna ...

 


Óperugaul, plebbar og urrandi vinnugleði

ÓperusöngkonaHver þarf sérstaka orkuveitu þegar súpan í Skrúðgarðinum er svona hressandi? Má varla vera að því að blogga fyrir urrandi vinnugleði. Búin með krassandi lífsreynslusögu og önnur opna við það að klárast ... Hlusta á Rick Wakeman flytja King Arthur í leiðinni og það er hreinlega göfgandi tónlist, ekki síður en Tvöfalt líf Veróniku sem fer næst á fóninn í tölvunni.

Talandi um tónlist ...

Um kvöldmatarleytið í sunnudaginn bauð Rás 1 upp á
óperuna Ariadne í beinni útsendingu. Með von í hjarta og spenning í maga prófaði ég að athuga hvort óperan væri kannski mögulega finnanleg á ruv.is fyrir þá sem voru jafnvel í matarborði þegar hún var flutt í útvarpinu. Ójá, hér er hún:  
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4367618

Plebbarnir (eða þeir sem ekki þola óperugaul og drekka jafnvel latte úr glasi) fá í staðinn ansi flott lag, það besta að mínu mati frá Beach Boys:
http://www.youtube.com/watch?v=H_KY_d9MQv8&mode=related&search=


Mamma og Lennon

Yoko og JohnÞótt 67 ára sé enginn aldur í dag þá hefur John Lennon verið miklu nær mömmu í aldri en mig grunaði. Aldrei hugsaði ég út í það hér áður fyrr, enda lentu Bítlarnir í raun tónlistarlega mitt á milli okkar mömmu, komu of seint fyrir hana og of snemma fyrir mig. Mamma fílaði Al Jolson, t.d. lagið Mama, á meðan ég hlustaði á Uriah Heep, Pink Floyd, Jethro Tull, King Crimson, Genesis, Rick Wakeman og fleiri snillinga. Fannst reyndar lagið Oh Darling með Bítlunum æðislegt þegar stóra systir spilaði það en Come Together skelfilega leiðinlegt, veit ekki hver Bítlanna samdi það.
Friðarsúlan hennar Yoko er flott, hlakka til að sjá kveikt á henni í kvöld, held að ég muni sjá hana mjög vel úr himnaríki.

Stefanía hvetur tengdadóttur sína, Taylor, til að þegja yfir því við Ridge að hún hafi kysst Hecor brunakarl. Það geri engum gagn. (Uppgerðarhjartaáfall Stefaníu yrði þá til einskis, innsk. blm)  Það er nóg að hún missti heilan eiginmann vegna þess og það í klærnar í Brooke í nokkra daga. Ridge er að koma heim til LA og hringir í elskuna sína af flugvellinum. „Við höfum um margt að tala,“ segir Taylor.

BrookeNick og Brooke tala um Ridge en Brooke segist ekki vilja hann, hún elski einn mann, Nick. Nick þurfi að hugsa um Bridget, barnið og Dominic. Nick krumpast aðeins í framan vegna fórnarinnar sem hann hefur fært. Hræðilegt að þurfa að vera með dóttur Brooke þegar tengdamamman er svo miklu girnilegri. Nick reynir að vera fyndinn og ráðleggur Brooke að gera sér upp hjartaáfall. Brooke vill bara að sannleikurinn komi í ljós, um kossinn forboðna. „Ef Taylor segir honum þetta ekki, geri ég það,“ segir hún.

„Ó, ég saknaði þín,“ segir Ridge ástreitinn við Taylor og hótar því að fara aldrei framar frá henni. Þessir bjánar í boldinu ættu að vita að sannleikurinn kemur alltaf upp á yfirborðið fyrr eða síðar og þá er verra að hafa þagað yfir kossum og svona.


Æskupyntingar og West Ham með dassi af tvíburum

Í flotta, fína, nýja tónlistarskólanum hér á Skaganum verður opið hús í dag, tónleikar frá 13-17 og MATUR. Er að hugsa um að skella mér þrátt fyrir allt ...

Við Mía í æskuÉg var látin læra á píanó í æsku. Píanókennarinn minn var norsk kona, ósköp eftirlát og ljúf, ég gat endalaust stjórnað því hvaða léttu lög hún lét mig æfa. Eini gallinn var að hún bjó í hinum enda bæjarins, eða við hliðina á Bíóhöllinni, og það var ansi langt að labba í öllum veðrum, þetta var á þeim tíma (í gamla daga) þar sem veturnir voru alvöruvetur. Einu sinni veiktist hún í heila viku og sjálfur Haukur Guðlaugsson leysti hana af. Hann setti mér fyrir ÞRJÚ níðþung lög sem ég vissi að ég gæti aldrei spilað ... ég var í algjöru sjokki. Ég get reyndar spilað þessi lög eftir minni enn í dag og veit að ef hann hefði verið kennarinn minn hefði ég orðið hinn litli píanósnillingurinn hennar mömmusín ... Haukur var aðalkennari Míu systur og hvað er hún í dag? Jú, snilldar-píanókennari við Tónlistarskólann á Akranesi!

LúðrasveitinÆskupyntingarnar, sem fólust aðallega í endalausu labbi og ég hata endalaust labb, voru ekki einskorðaðar við píanónám, ónei, ég var send í lúðrasveit! Vissulega veit ég að bestu og skemmtulegustu vinina finnur maður í lúðrasveitum (sbr. minningargreinar) ... en kommon. Ég var vissulega kúl með trompetinn fyrsta veturinn en þann næsta lét nýi kennarinn mig fara að spila á althorn! Ég er þess fullviss að ef hálskirtlarnir í mér hefðu ekki ákveðið að vilja á brott með ýmsum afleiðingum (ég neitaði að vera í lúðrasveitinni vegna „verkja“ í hálsi, múahaha) væri ég nú stjórnandi Lúðrasveitar blaðamanna. Er lengst til vinstri á myndinni með trompet.

Heimasíða West HamSá pínkuoggulitla fréttatilkynningu í blaði í dag. Hún var um mág minn og einhvern Björgólf sem voru að opna heimasíðu West Ham-klúbbsins á Íslandi. Það gleymdist að birta veffang klúbbsins ... sem er www.whufc.is og ég hvet bloggvini mína nær og fjær að kíkja á síðuna og fara nú að halda með liðinu, kommon, Liverpool, MU hvað!!!

Á myndinni sést náttúrlega yndislegi mágur minn, þessi með ljósbláa trefilinn. Nú í vetur ætlum við erfðaprinsinn með honum á West Ham-leik í London og öskra okkur hás.

---------       --------------         -------------- 

 

Ísak og Úlfur sætusnúðarSætustu og bestu og æðislegustu tvíburar í heimi, Úlfur og Ísak, liggja nú á Barnaspítala Hringsins. Þeir voru í aðgerð á gómi og urðu voða lasnir í kjölfarið, þessar elskur! Hár hiti og slappleiki hefur angrað þá í nokkra daga. Hilda systir hefur verið mikið hjá þeim og amman sjálf, Mía, ætlar að reyna að fara í dag og á morgun ás spítalann og aðstoða foreldrana en Mía er nýskriðin upp úr leiðindapest.

Sendi strákunum innilegar bataóskir og risaknús frá Gurrí frænku.


Hátíðarstemmning og óvæntar heimsóknir

Mikið er klassísk tónlist vel við hæfi á svona lötum sunnudegi. Er að hlusta á „bland í poka“ af frábæru, æðislegu, dásamlegu ókeypis tónlistarsíðunni minni:  http://radioblogclub.com/open/43879/figaro/Marriage%20Of%20Figaro og er komin í sannkallað hátíðaskap. AkraneskirkjaEf tónlistin væri örlítið jólalegri færi ég að skreyta. Sumir myndu segja að gott væri að fara í messu til að öðlast frið í hjarta og slíkt en hjartafriðurinn er svo sem til staðar og auk þess er kirkjan í hinum enda bæjarins ... og innanbæjarstrætó gengur bara virka daga. Mér finnst reyndar gaman að fara í kirkju og hlusta á fallega tónlist. Ég elti mömmu iðulega í messur og á kóræfingar í gamla daga hér á Skaga. Kórinn hérna þykir og hefur alltaf þótt ansi góður og sendi frá sér geislaplötu fyrir nokkrum árum. Þar heyrði ég í fyrsta skiptið Ave Maria eftir Eyþór Stefánsson frá Sauðárkróki. Sama árið sungu Karmel-systurnar í Hafnarfirði það líka inn á plötu. Held að það sé uppáhalds Ave Maríað mitt! Verst að það finnst eflaust ekki tóndæmi á Netinu.

Formúlan fer svolítið inn um annað augað og út um hitt í þessarri sunnudagsstemmningu himnaríkis. Það væri kannski ekkert galið að fara að klæða sig. Fólk er nefnilega farið að stunda það að mæta óvænt! Glerhallarmenn í hádeginu í gær og Ellý í gærkvöldi.

Hver ætli hringi bjöllunni í dag? Get ég hugsanlega verið róleg þegar bjallan hringir og ég kannski nýkomin í bað? Verð ég jafnvel að breyta kaffidrykkjuvenjum mínum til að verða ekki gripin glóðvolg við drykkju ... í baði?


Eva frænka hittir Arvo Pärt og Mick Jagger borðar skyr í Æðey

Sendiherrabíllinn hennar MíuSkrapp í Skrúðgarðinn snemma kvölds. Þóttist vita að 59-árgangurinn væri horfinn þaðan og heim til Huldu. Það var ekki alls kostar rétt því að góðglaður og alveg sæmilega huggulegur maður var þarna að leita að hópnum sínum. Maðurinn horfði ástaraugum á mig þegar ég gekk inn og ég hélt að hann ætlaði að kyssa mig. „Hilda,“ sagði hann með nautnalegri svefnherbergisröddu. Því miður var ég svo fljótfær að ég leiðrétti hann og sagði honum að við Hilda hefðum þótt afar líkar sem börn og þættum jafnvel enn. Við María sögðum honum síðan heimilisfangið hjá Huldu og hann fór út. Frétti nokkrum mínútum síðar að hann hefði hlammað sér inn í svarta sendiherrabílinn hennar Míu og sagt: „Þær eru klikkaðar þessar kerlingar!“ Svo leit hann á Míu og fékk algjört áfall þar sem hann hafði sest upp í rangan bíl, ruddist út og færði sig yfir í lítið svart Fíat-vaskafat sem var rétt fyrir framan. Svo er sagt að konur ruglist á bíltegundum. Á morgun ætla ég sko að hringja í Huldu og spyrja hver það var sem mætti um hálfsjöleytið til hennar. Mér þætti gaman að vita hvað það var sem við María sögðum sem fékk hann til að segja að við værum klikkaðar.

Himnaríki 291MatargerðinMía bauð mér í mat og þetta var frábær kvöldstund. Matarboð fjögur kvöld í röð, keðjan má bara ekki slitna, hver býður á morgun? Ég valdi dinner-tónlistina, klassískan kórsöng (Ave verum corpus, Lacrimosa og þess háttar) og við borðuðum matinn að sjálfsögðu í hálfleik. Staðan var 1:0 fyrir Ísland. Við Sigþór mágur stóðum bæði upp, ég í smók og hann að eldhúsast eitthvað, akkúrat þegar íslenska markið var skorað. Við hefðum átt að vera stanslaust á ferðinni í kvöld, sorrí!
Mía greip með sér hráskinkubréf í búðinni þegar ég var að velja batteríin (í tækið sem varpar geislanum sem Jónas butler kemst ekki í gegnum) og þegar hún opnaði ísskápinn sá hún að Sigþór hafði keypt sams konar skinku: „Oft eru dauð hjón lík,“ tautaði hún. Ég hélt að hún ætlaði að fara að segja mér krassandi hjónabandssögu en þá var þetta bara málsháttur eftir Sverri Stormsker.

Mick JaggerYfir matnum hljómaði unaðsleg tónlistin og þegar mjög tilfinningaríkt verk eftir Arvo Pärt hófst sagði Mía okkur frá því þegar Guðrún Eva, dóttir hennar, sat einu sinni í flugvél og fékk sæti óvænt við hliðina á þessu fræga tónskáldi. Eva frænka er líklega mesti aðdáandi tónskáldsins fyrr og síðar og sat stjörf alla leiðina, henni datt ekki í hug að yrða á dýrðina. Þetta minnir á söguna um það þegar Mick Jagger kom til Ísafjarðar og gekk beint í flasið á sýslumanninum, mesta aðdáandanum. Mick mætti reyndar líka út í Æðey þar sem kunningjafólk Míu var statt. Unglingspiltur sá Mick út um gluggann og sagði: „Hva, er þetta Mick Jagger þarna úti?“ Það var bara sussað á drenginn fyrir þessa vitleysu þangað til Mick sjálfur gekk inn í eldhús. Uppi varð fótur og fit og fólkið ákvað að gefa honum að borða að gömlum og góðum sið, auðvitað eitthvað þjóðlegt. Skyr varð fyrir valinu. „Hvernig fannst þér skyrið?“ spurði einhver. „Áhugavert,“ svaraði Jaggerinn, upp á ensku. Hann sagði víst ekki mikið meira. Það virðist vera eitthvert lögmál í gangi þegar svona gerist. Nú veit ég að Radiohead menn mæta einhvern daginn í Skagastrætó, ja, eða Mozart!  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 35
  • Sl. sólarhring: 319
  • Sl. viku: 1828
  • Frá upphafi: 1460811

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17
  • Dýrheimar kaffihús

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband