Færsluflokkur: Tónlist

Afdrifarík gleymska og smá Evróvisjón-upprifjun

Flotta brúðartertanBýr sig undir að fleygja til þeirra óútgengnuUppgötvaði mér til mikils hryllings að ég yfirgaf brúðkaupið áður en brúðurin kastaði vendinum. Þarna held ég að ég hafi orðið af síðasta tækifæringu til að ganga út. Eftir rúman mánuð verð ég 49 ára og þjóðtrúin segir að verði kona (eða karl) ekki gengin út fyrir þann merkisviðburð geti hún allt eins gleymt því og gerst kattakerling í fullu starfi. Sungu Stuðmenn ekki svo eftirminnilega og réttilega: Hver vill elska 49 ára gamlan mann? Konur eru menn.

 
Allir eru að tala um Evróvisjón ... er það ekki? Rakst á skemmtilegt myndband úr keppninni sem haldin var 1967 en talningakerfið var afar frumstætt á þessum tíma ... mikið um mistök. Sandy Shaw sigraði þetta ár, eins og allir muna.

Sandy ShawTók einu sinni viðtal við merkilega konu sem heitir Kolbrún. Hún sagði m.a. frá því að hún dvaldi eitt sinn á sveitasetri í Englandi hjá vinafólki og þar var stödd engin önnur en Sandy Shaw í helgarheimsókn og notaði sveitakyrrðina til að kyrja. Kolbrún gerðist síðar búddisti. Þegar hún fór að vinna í öskunni eitt árið var mórallinn frekar slæmur hjá körlunum en á stuttum tíma lagaðist hann, hún sagðist hafa kyrjað fyrir því.

Hér er myndbandið frá Evróvisjón 1967: http://www.youtube.com/watch?v=oM0UtIH-Yik

P.s. Veit ekki hvað er að í dag ... horfi á Formúluna með öðru auganu og veit varla hver staðan er!!! Er það sólin sem eyðileggur barnslega gleði manns yfir jafnsjálfsögðu sunnudagshádegisáhorfi og Formúlan er? 


Frábært brúðkaup og fréttir af blautri frænku á Hróarskeldu

Hinn írski TommiRauðhærður, vígalegur strætóbílstjóri sat undir stýri þegar ég tók vagninn í bæinn. Þetta reyndist bara vera Tommi dulbúinn sem Íri í tilefni Írsku daganna. Hann ók nokkrum rosalega slöppum unglingum heim til Reykjavíkur með fyrsta strætó í morgun, þeir voru alveg búnir á því. Kalt í tjaldinu, þeir voru svangir og vildu komast heim til mömmu. Steinsváfu alla leiðina, þessar dúllur, að sögn Tomma.

AnnaÞetta varð síðan algjör lasagna-dagur. Anna, brúðkaup, Anna, brúðkaupsveisla, Anna.

Anna beið í Mosó og við fórum beint í Kringluna í brúðkaupsgjafar- og latteleiðangur. Ég ætlaði að kaupa Matreiðslubók Nönnu handa brúðhjónunum en hún var greinilega uppseld þannig að ég keypti nýju, stóru Kjúklingauppskriftabókina, hún er voða flott. Bætti við plötu með Ljótu hálfvitunum og smellti svo Lífsreynslusögubókinni með. Vona að þau verði ánægð. Kannski lauma ég bók Nönnu að þeim síðar.
Fór svo heim með Önnu á Álftanesið og vá, hvað húsið hennar hefur tekið miklum breytingum! Hef fylgst náið með endurbótunum á blogginu hennar en alltaf er skemmtilegast að sjá þetta með berum augum.

Anna Ósk og HelgiBrúðkaupið var mjög fallegt og látlaust. Milli brúðkaups og veislu naut ég þess að vera með Önnu aftur og nú var Ari, maðurinn hennar, kominn heim. Þarna var ákveðið að þau hjónin færu upp í sumarbústað í Borgarfirði um kvöldið og myndu skutla mér heim á Skaga í leiðinni.

Veislan var algjört æði. Sat við borð með hluta af fjölskyldu brúðgumans og Guðrúnu, föðursystur brúðarinnar. Kaffi Konditori Copenhagen í Hafnarfirði sá um veisluna og fólk var mjög ánægt með kræsingarnar.

Reyktur lax í forrétt, nautakjöt m/rótargrænmeti og gratíneruðum hvítlaukskartöflum í aðalrétt og glæsileg terta í eftirrétt. Þegar danski krónprinsinn trúlofaði sig var boðið upp á svona tertu. Kaffið með kökunni var gott en það er ekki algengt, yfirleitt kaupir fólk allt það fínasta í veislur en býður svo upp á vont kaffi með.

Upp úr níu komu Anna og Ari og sóttu mig. Það var gaman á leiðinni, mikið spjallað og Anna lét einn góðan flakka:
Viðskiptavinurinn: „Ég ætla að fá bensín fyrir 200 krónur.“
Bensínafgreiðslumaðurinn: „Viltu svo að ég hræki í rúðupissið fyrir þig?“

Ellen, systurdóttir mín, hringdi í mig rétt áðan frá Hróarkeldu.
„Varð að láta þig vita að ég er á tónleikum með Red Hot Chili Peppers, hlustaðu!“
„Vá, grát, mig langar að koma, ertu nokkuð að drukkna í rigningunni, elskan?“
„Neibbs, ég keypti mér ný föt og nýtt tjald og þarf bara að vera eina nótt í viðbót hérna, svo fer ég til Köben! Hringi í þig ef lagið þitt kemur og leyfi þér að hlusta!“
„Það heitir Road Trippin’, já, hringdu ef það kemur.“
http://www.youtube.com/watch?v=LZvRj726ipg


Fyrsti kossinn 07.07.72

Viltu dansa, vænaÞann 7. júlí 1972 fór ég á afdrifaríkt ball í Aratungu. Ég var of ung, eða tæplega 14 ára, en afar fullorðinsleg eftir aldri, hélt ég, þar sem mér var hleypt inn. Komst að þeirri niðurstöðu síðar að dyraverðirnir hafi vitað að þetta væri „kaupakonan“ á Felli, enginn vandræðagemsi. Hitti aðrar stelpur úr sveitinni, m.a. eina sem var í sveit í Fellskoti, og hékk með þeim. Myndardrengur bauð mér upp og hjartað fór að slá hraðar. Hann var á sveitabæ í nágrenninu og ég hafði nokkrum sinnum séð hann og fannst hann sætur ... og við dönsuðum nokkra dansa saman.

Stuð í AratunguSkellur þá ekki á þetta líka rosalega vangalag og ... til að gera stutta sögu enn styttri ... þarna fékk ég fyrsta kossinn. Heimurinn snerist ... og eins gott að þetta var vangadans með stuðningi, annars hefði ég hnigið beint niður á gólf. Ég varð samstundis rosalega skotin í honum. Sú ást entist eitthvað fram á veturinn þótt ég hafi ekki hitt hann aftur þetta sumar. Með kænsku og snilli tókst mér um haustið að hafa upp á símanúmerinu hans. Ég bað vinkonu mína (sem hafði aldrei hitt hann) um að hringja í hann og setti eyrað á mér upp við tólið svo að ég heyrði líka. Henni tókst að veiða upp úr honum eitthvað um sumarið og stelpurnar í sveitinni en það var eins og hann myndi ekkert eftir mér ... Ég steinhætti að vera skotin í honum, fannst ekki taka því, enda var annar eiginlega kominn til sögunnar, maður sem löngu síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn.

FokkerTuttugu árum seinna, á Radíuskvöldi með Davíð Þór og Steini Ármanni, hitti ég unga kaupamanninn næst og hann mundi eftir mér, merkilegt nokk.
Saklausasti brandarinn þetta kvöldið og sá eini sem ég man eftir var: Veistu hvað skýlið sem hýsir Fokkerflugvélarnar á nóttunni heitir? Svar: Mother-fokker. Fólk skemmti sér flest mjög vel, nema þessi fyrstakossmaður sem hvarf af vettvangi nokkru síðar fölur á vangann. Hann sagði mér í kveðjuskyni að hann hefði ekki smekk fyrir svonalöguðu.     

Eftir þennan fyrsta koss var greinilega engin leið að hætta ... sem sannast best á því að erfðaprinsinn fæddist tæpum átta árum síðar.

Hér fyrir neðan er rómantíska vangalagið í boði youtube
http://www.youtube.com/watch?v=IcQRI1vzd-0  


Hugsandi smiður og færri vetraráhyggjur

TommiHver sá sem fann upp á sjúkraþjálfun á alla mína aðdáun og ást. Eftir aðeins þrjú skipti hjá Betu sjúkraþjálfara skoppa ég um Skagagrundir eins og léttfætt hind. Kom svo við í Einarsbúð, gerði upp skuldir mínar og keypti inn. Bíð nú spennt eftir réttum kattasandi. Kettirnir líka.

Brim við himnaríkiHringdi í Glerhöllina og lýsti yfir áhyggjum með yfirvofandi vetur (það er nú kominn júlí). Þótt ég hafi gullfiskaminni á stjórnmálaloforð man ég þó eftir vondum vetrarlægðum með tilheyrandi rigninu og hvassviðri í suðlægum áttum ... beint upp á gluggana mína við opið Atlantshafið. Þröskuldurinn út á nýju svalir er enn óklæddur og það lekur inn! Það var ekki að spyrja að þjónustunni, innan 15 mínútna kom indæll maður sem kíkti á aðstæður, sýndi mér samúð og sótti svo kítti og þar með hefur vetraráhyggjunum fækkað um eina. Ég hef upplifað of margar Nætur hinna 30 handklæða í sambandi við gluggana mína til að þurfa ekki að hafa áhyggjur af svaladyrunum líka. Hann fékk lánaða ryksuguna og mér fannst voða heimilislegt þar sem ég sat hér við tölvuna að heyra ryksuguhljóð í fjarska. Gat ekki stillt mig um að kveðja hann með: „Já, og takk fyrir að ryksuga!“ Hann ryksugaði samt ekkert að óþörfu og hló bara.

Þar sem dugnaðurinn var orðinn svona geigvænlegur ákvað ég að hringja líka í smiðinn minn. Hann hefur mikið að gera en er alltaf að hugsa um mig (jibbí). Býst við honum fljótlega. Held að við ráðumst ekkert í eldhúsmartröðina fyrr en eftir afmælið mitt. Stofan gengur fyrir.

Muna ekki allir eftir þessu lagi? Í íslensku þýðingunni heitir það: Aldrei að giftast strætóbílstjóra ...
http://www.youtube.com/watch?v=r4o4Yq75ur0


Sjálflæknandi tölva, gamlar myndir og sönnun!

Nóra og erfðaprinsinnBarnaafmæli í nánd, afi, Bryndís og erfðaprinsinnKveikti á tölvunni upp á von og óvon í kvöld. Nákvæmlega það sama gerðist og í gærkvöldi: Ekkert. Næstum hálftíma seinna heyrðust óhljóð úr horni og þegar ég kíkti var elskan mín komin í gang. Hún hafði greinilega haft gott af hvíldinni eða óttaðist fáránlega tillögu Braga bloggvinar um að ég fengi mér Makka. Ég hló hæðnishlátri þegar ég hugsaði um þetta.

Nú get ég unnið heima á morgun ... og t.d. skrifað ódauðlega lífsreynslusögu sem fer væntanlega í bók eftir nokkur ár! Svo endar með því að þetta verður eins og Ísfólkið, yfir 40 bindi, og ég fæ ekkert að blaðamennskast, heldur fer á milli staða á landsbyggðinni og safna djúsí sögum frá fólki.

Wembley 1987 Við Siggi HreiðarÁ Gauk á Stöng 1986Skoðaði gamlar myndir í kvöld, bæði eldgamlar og nýrri. Þar sem ég kann lítið á tölvur og hræðist tæknilega hluti á borð við skanna ákvað ég að taka myndir af myndunum. Þær eru kannski pínku skrýtnar þar sem þurfti að passa upp á glampann frá flassinu en þær eru samt flottar. Mun því skreyta þessa færslu með ýmsum nostalgíumyndum.
Ein myndin sannar það sem ég hef oft sagt um okkur Madonnu. Þótt við séum orðnar 48 ára og þar með verulega rosknar í hugum ungbarna, þá höldum við okkar striki enn í dag, förum í tónleikaferðir og hlöðum niður börnum eins og okkur sýnist. Fann reyndar engar nýlegar sviðsmyndir af sjálfri mér (Madonna er duglegri að ota sínum tota) en hér er ein gömul og góð síðan við Siggi Hreiðar sungum á Wembley á níunda áratugnum fyrir þúsundir. Dúettinn kallaðist Guru and the Gang.     

P.S. Elsku fullkomna PC-tölvan mín geymdi bloggfæsluna sem átti að fara inn í gærkvöldi:
Hlutirnir gerast hratt hér í himnaríki. Ég var ekki fyrr búin að blogga um The RÖDD I love þegar ég fékk símtal og skömmu síðar heimsókn. Fyrir algjöra tilviljun var upptökuvélin í gangi:
http://www.grapheine.com/bombaytv/index.php?module=see&lang=uk&code=758333dd76b29a409302406e98796ef9


Fingralangur ferðamaður, stuð í strætó og bissí dagur

sunny-morningEinn samstoppistöðvarmaður minn á Skaganum er voða skemmtilegur. Við erum farin að spjalla um hin ýmsu mál á meðan við bíðum eftir strætó. Hann vinnur á hóteli á Laugaveginum og sagði mér í gærmorgun frá mjög ósvífnum útlendingi sem hreinlega stal bæði sæng og kodda og þetta fattaðist ekki fyrr en hann var búinn að tékka sig út og horfinn út í morgunsólina.

Áður en þið farið að gera ykkur vonir um einhverja rómantík langar mig að giska á að það séu um 150 ár á milli okkar og þar að auki engir straumar í gangi. Algjör misskilningur að karl og kona (veit ekki einu sinni hvort þessi er á lausu) fallist í faðma, kyssist og jafnvel giftist bara við það að spjalla saman á strætóstoppistöð. Karlar eru ekki hlutir til að notast við, þeir eru manneskjur með tilfinningar og það getur meira að segja verið reglulega gaman  að tala við þá. Þeir geta alveg verið vinir manns ... a.m.k. þeir ljótu.

Bylgjan var á í strætó og allt önnur stemmning, enda enginn Tommi undir stýri. Morgunfólkið á Bylgjunni er mjög skemmtilegt, Heimir og Kolla, en það eru meiri læti!!! Ég fíla ekki hávaðann og hressileikann í auglýsingatreilerunum á öllum tímum sólarhringsins ... Rás 2 er einhvern veginn hlustendavænni fyrir dormandi farþega sem tíma samt ekki að sofna og vilja hlusta. Ekkert sem meiðir eyrun. Þannig að ekkert var vangað í morgun í strætó ...

Dagurinn verður mjög bissí ... fer ég nokkuð fram á mikið ef ég bið um styrkjandi stuðnings- og orkukveðjur frá bloggvinunum?


Rómantík í morgunsárið ...

Morgunhanarnir mínirElskan hann Tommi sat undir stýri í morgun og var með Rás 2 á. "Góða ferð, góða ferð, góða ferð," söng einhver annar en Ingibjörg í BG, við Tommi héldum jafnvel að þetta væri Eyvi. Rómantíkin hélt áfram því næsta lag var Söknuður með Roof Tops og svo hélt ég að ég yrði ekki eldri þegar Zeppelin fóru að syngja ómþýtt Babe I´m gonna leave you ... Fólkið í strætó var farið að vanga aftur í, ég lygndi bara aftur augunum en á rómantískan hátt. Ef ég geng einhvern tíma út þá gerist það í strætisvagni og verður Rás 2 að kenna.   

Í millitíðinni, eða skömmu fyrir Zeppelin, gerðist reyndar sá æsispennandi atburður að farþegarnir í Skagastrætó þurftu að skipta um rútu á Kjalarnesinu. Ég klökknaði þegar ég sá endurfundi Tomma og rútunnar sem beið okkar, enda er hann oftast á þeim bíl. Tommi klappaði á mælaborðið, tautaði falleg ástarorð og svei mér ef allir farþegarnir fengu ekki eitthvað í augað ...

Mig grunar að Magga mágkona (systir Tomma) píni Gest Einar til að spila rómantíska tónlist í útvarpinu til að við Tommi verðum skotin hvort í öðru og hún fái loks alvörumágkonu. Held að hún verði að sætta sig við rútu sem mágkonu ... ansi flotta og þægilega rútu sem kann þó ekki að búa til gott kaffi!

Engin Karítas var í brekkunni í Mosó og Tommi ákvað að hún hefði sofið yfir sig, ég giskaði á að skólarnir væru bara búnir, en Karítas er yfirmaður í grunnskóla í 112 Rvík. Tommi sagði að dóttir hennar væri algjör eftirmynd hennar, hann hefði haldið einu sinni þegar hann kom á stoppistöðina í Háholti að Karítas væri þar á hnjánum ... en sá svo að þetta var barnið hennar.

Mikil hátíð ásatrúarmanna verður á morgun, enda sólstöður, og hef ég rökstuddan grun um að mannfórnir verði færðar, að vænum höfðingja verði slátrað eða eitthvað ... ef marka má það sem Tommi hefur gefið í skyn.

 


Jibbí, komin í vinnuna!

AkranesstrætóÉg gleymdi ekki að fara í vinnuna í morgun, sjúkkitt. Krúttið hann Tommi bílstjóri kom okkur klakklaust í bæinn á fínum tíma, enda lítil umferð og fáar stoppistöðvar á leiðinni. Mikið var notalegt að hlusta á Rás 2, góð lög og fínar útvarpskonur. Það eru aðeins meiri læti á Bylgjunni og viðkvæmt taugakerfi okkar Skagamanna á erfiðara með mikið stuð, viljum frekar dorma (nessum dorma) í þægilegri rútu.

Maður sem vinnur hjá Prentmet hoppaði út á Vesturlandsveginum og ég hafði þrjár sekúndur til að ákveða mig hvort ég færi út með honum. Strætó númer 18 er hættur að stoppa þarna fyrir neðan, heldur fer í Árbæinn fyrst (arggg) svo að ég þarf  að fara í Ártún ef ég ætla að ná honum ... EN  gönguferðahatarinn moi ákvað að tölta bara uppeftir. Þeir sem þekkja mig vita að þetta er mjög ólíkt mér. Þótt þetta sé frekar há brekka sem liggur þarna uppeftir þá er hún ekki næstum því jafnviðurstyggilega hræðileg og lúmska brekkan í Ártúni (sunnan megin við Ártúnsbrekkuna).

Vinnustaðurinn minnÉg blés ekki úr nös, enda labbaði ég löturhægt. Ástæða: helvítis verkurinn í vinstri fæti, verkurinn sem læknirinn sagði að myndi lagast (fyrir einu og hálfi ári), hann sagði reyndar ekki að þetta væri vírus, eins og algengt er á heilsugæslustöðvum. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og komst ekkert áfram af viti fyrr en ég  fattaði að bora með fokkfingrinum þéttingsfast í vinstra lærið framanvert, þá fór þetta eitthvað að ganga. Upp brekkuna komst ég þótt ég liti eflaust út eins og hálfviti. Þetta er svolítið fúlt ... ég flyt á Skagann þar sem dásamlegar gönguleiðir eru um allt og ætla að fara að hreyfa mig meira en mér er of illt í fætinum til að geta gengið ... og myndi eflaust lagast ef ég hreyfði mig meira. Vítahringur dauðans! Mun heimta sjúkraþjálfun, nenni þessu ekki lengur.

Ég mætti langfyrst allra, rúmlega hálf átta, og hef m.a. afrekað að taka til á skrifborðinu mínu, fara í gegnum tölvupóstinn, panta espressóbaunir frá Kaffitári og hlusta á Króa á Rás 2 (Kristin R. Ólafsson) en við unnum saman úti í Vestmannaeyjum í gamla daga þegar þótti fínt að vinna í fiski. Hann man alveg örugglega ekki eftir mér en er sjálfur mjög minnisstæður og skemmtilegur.

Mikki bauð glaðlega góðan dag þegar hann kom loksins og ég kunni ekki við bjóða honum gott kvöld á móti þótt hann kæmi seinna en ég ... Doddi, aftur á móti sagði græðgislega: "Ný klipping?" Mikið er gott að vera komin aftur í vinnuna þar sem ég fæ sanna aðdáun! Held að Skagamenn og samfarþegar mínir í strætó gangi að mér vísri ... að vísu sagði samstrætóstoppistöðvarmaður minn: "Hvar hefur þú verið?" þegar ég birtist á stoppistöðinni kl. 6.43 í morgun. Smá sakn greinilega.  


Skúbb - Ellý hætt í X-Factor!

Loksins komin á áfangastað. Við lögðum af stað seint um síðir, þurftum að gera mjög áríðandi hluti í Reykjavík, eins og að kaupa kaffi í Kaffitári, koma við á Stokkseyri og kaupa ís á Selfossi.
Að sjálfsögðu var skúffukaka í kaffitímanum, jess, og kjúklingur í kvöldmat. Sorrí þetta með matinn en ég h ef svo oft bara verið í kvöldmat á laugardögum og þá eru fj. pylsur, ekki matur fyrir dömur.

Fékk leyfi hjá Ellýju að skúbba með það að hún ætlar EKKI að vera með í X-Factor næsta vetur.
Ég skil hana vel og er fegin hennar vegna, þvílík vinna sem þetta var á henni sl. vetur, það minnsta var að sitja með hinum dómurunum í sjónvarpinu. Alltaf eitthvað samviskubit út af börnunum og líka myndlistinni!

Ellý er að æfa krakkana í karaókíinu og þau rosaspennt að fá svona stjörnu ... hehehehehe. Spurningar eins og: Fannst þér ekki leiðinlegt að þurfa að senda Alan heim? Ohhh, elskaðir þú ekki Hara-systur? dundu á henni.
Ellý er fín á krakkana, ströng en sanngjörn og kann sitt fag. Sem betur fer verður keppnin annað kvöld þannig að ég get væntanlega hlustað áður en ég fer heim. Davíð frændi er að aðstoða í karaókíinu og gat því ekki hent inn myndunum á sumarbudir.is. Verður gert í kvöld.

Hilda nálgast, best að halda áfram að vinna ...


Breytt áætlun, undarlegt barnaefni og enn undarlegra fullorðinsefni

Hvanneyri 2005Ætla í sumarbúðirnar á morgun, í stað þess að fara á laugardaginn og koma til baka sama kvöld. Það er svo mikið að gera, m.a. í skráningunni, að það er vel þegið að fá eins og einn þræl til hjálpar. Ég þarf líka að fara um allt með myndavélina og fá Davíð frænda til að setja afraksturinn á Netið, www.sumarbudir.is. Þið kíkið kannski á snilld mína á föstudagskvöld/laugardag.
Fæ far með Ellýju en hún heldur utan um karaókíkeppnina um helgina og þjálfar krakkana, mun gera það í allt sumar. Ellý hefur komið að sumarbúðunum í mörg ár og ekki bara séð um tónlistina, heldur líka kennt myndlist og íþróttir. Hún er svo fjölhæf, þessi elska. Smáplögg ... Ellý er með myndlistarsýningu á Draugasetrinu á Stokkseyri og stendur sýningin fram eftir sumri.  

Barnatíminn ...Rosalega hefur barnaefni í sjónvarpi breyst síðan Rannveig og Krummi voru og hétu og ég horfði á Lobba í Stundinni okkar með erfðaprinsinum. Heyrði eftirfarandi í barnatímanum á Stöð 2 í dag: „Ekki segja mér að þú sért í skilorðseftirlitinu. Hvað viltu hitta mig oft?“ sagði sexí kvenkyns teiknimyndapersóna. „Hvernig fórstu að því að útvega tryggingaféð?“

Brooke

 

 

Fleira sexí, nú úr boldinu:
Tómas ætlaði að flytja út frá mömmu vegna andstöðu hennar við Gaby, ólöglega en fallega innflytjandann. Taylor er í losti og getur varla hreyft bólgnu varirnar. Hún trúir því ekki að Tómas sé í alvöru hrifinn af Gaby. Í þættinum í gær hefur Taylor örugglega klagað í útlendingastofnun því að þegar ungu hjónin ætla út úr dyrunum mæta þau löggunni. Gaby er handjárnuð, eins og um morðingja sé að ræða. Hvað er Bush að pæla? Orðum geðþekka geðlæknisins er trúað um að þetta sé sýndarhjónaband en í alvöru elska þau Tómas og Gaby hvort annað, eru meira að segja búin að sofa saman. Á síðustu stundu birtist lögfræðingur Gaby og bjargar henni. „Þið trúið frekar orðum bitrar tengdamóður en ástfanginna hjóna,“ segir lögmaðurinn. Kynslóðaskipti eru greinilega í nánd í boldinu. Kellingarnar eru að verða old news.
Brooke elskar Nick (og hann hana) en gerir allt til að tryggja hamingju Bridget dóttur sinnar. Hún er búin að tæla bjargvætt Taylor, gaurinn sem var svo skotinn í Bridget og reyndi svo ákaft að fá hana til að yfirgefa Nick. Einhver skortur á leikurum í Ameríku veldur því líklega að allir sofa hjá öllum og giftast hver öðrum til skiptis. Mér finnst ekki ólíkleg að Brooke giftist þessum gaur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 228
  • Sl. sólarhring: 237
  • Sl. viku: 920
  • Frá upphafi: 1505927

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 751
  • Gestir í dag: 177
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband