Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Slúður, diss og spælingar

VillaÉg á mér uppljóstrara í einu af fínu hverfunum í Reykjavík. Hann sagði frétta- og slúðursíðu himnaríkis að nú um nokkurt skeið hefði verið vakt við villu eins útrásarmannsins. Eins og það væri líklegt að Íslendingar nenntu að aka jafnvel langar leiðir til að ráðast á hús þegar bensínið er svona dýrt og mun þægilegra að skammast bara á blogginu. Fyrst var þessi ómerkti öryggisbíll staðsettur beint fyrir framan húsið en nokkrum dögum síðan var hann færður aðeins fjær til að þetta væri ekki jafnáberandi, svo er líka skipt um bíla en þessi oft og tíðum næturgöltur og uppljóstrari lætur ekki leika á sig. Hann veit samt ekki hvort verðirnir séu búnir vopnum ... Fyrir nokkrum mánuðum var þessi nágranni útrásarmannsins (uppljóstrari minn) úti í garði hjá sér þegar hann sá póstbíl koma að villunni, bílstjóra hlaupa út, skella einhverju inn um lúguna og rjúka á brott, svona eins og þessir rösku sendlar hjá Póstinum athafna sig vanalega. Þjófavarnarkerfi fór í gang svo glumdi í hverfinu og innan við mínútu síðar komu tveir öryggisbíla koma á ofsahraða eftir götunni. Eins gott að blómin á þessu heimili hafi ekki hreyft sig hratt í gegnum tíðina ... Þarna í hverfinu er talað um að eigandi villunnar sofi í svokölluðu Panic Room. Rosalega hlýtur að taka á að vera ríkur, það er ekki bara dans á rósum greinilega. Mér finnst persónulega alveg nóg að hafa tvo brjálaða ketti sem þjófavörn, plús góðan lás og skólastrák mikið heima ... en ég er líka svo lítillát og hér er vissulega fátt sem freistar þjófa nema kannski hjarta mitt ...

SamstaðaÍsland í dag á Stöð 2 reyndi að kenna okkur lýðnum hvernig beina ætti reiðinni í réttan farveg ... prestur og geðlæknir&áfallasálfræðingur spurðir spjörunum úr. Pálmi Matthíasson mælti með æðruleysisbæninni en Ólafur Már Ævarsson sagði m.a. mikilvægt að vanda samskiptin. Á undan þættinum mátti sjá langa og voða sæta auglýsingu frá lífeyrissjóðnum mínum, „Saman byggjum við nýja framtíð.“ Ég skil ekki tilganginn með henni og hef ekki samþykkt að dýrmætum eftirlaunasjóði mínum sé eytt í rándýrar sjónvarpsauglýsingar.

Ég í biðröðinniÞað kom hraðskreiður póstbíll upp að himnaríki í kvöld, hress og rösk stelpa færði mér síðbúna afmælisgjöf frá elskunni henni Dobbu og ekkert þjófavarnarkerfi fór í gang. Flott snyrtitaska,eða frekar kúl samkvæmistaska og svartur, hlýr kragi með silfurnælu framan á. Ég á eftir að líta mjög glæsilega og ríkmannlega út í kreppunni og einhverjir eiga án efa eftir að reyna að hrinda mér út úr matarbiðröðunum eða rispa mig þótt ég verði með fullgilda skömmtunarseðla.


Fésbókarvera ... og sorgleg afdrif Bjarts

PabloÉg skráði mig á Fésbók fyrir tveimur vikum og þótt ég kunni lítið á umhverfið þar hefur mér þó tekist að taka þátt í ýmsum stórmerkilegum könnunum sem mér hafa verið sendar af velmeinandi fésvinum. Ég var t.d. Pablo Picasso í fyrra lífi, Chandler í Friends og réttur aldur minn er 38 ára, ekki 50 ára ... ég svindlaði bara oggulítið í síðastnefnda prófinu og skildi ekki allar spurningar fullkomnlega en þetta er samt hárrétt útkoma. Erfðaprinsinn (28) er 43 ára samkvæmt prófinu, hann hefur greinilega gert einhver mistök. Í morgun reyndi ég að finna út hvaða Harry Potter-persóna ég væri en eftir að hafa svarað samviskusamlega öllum spurningunum ýtti ég líklega á rangan hnapp og fékk upp síðu sem tengist ástarkjaftæði. Nú fæ ég aldrei að vita hvort ég er Harry sjálfur eða jafnvel Snape! Ég kem alltaf út sem karlmaður í þessum prófum sem mér finnst mjög grunsamlegt þar sem ég er svo mikil dama.

Hét mér því, þegar erfðaprinsinn píndi mig til að skrá mig í Fésbók að þetta yrði ekki sami tímaþjófnaðurinn og bloggið og hef staðið við það. Ég á orðið heilan helling af mjög flottum fésvinum sem ég vanræki eins og flesta aðra vini, bæði í bloggheimum og raunheimum.

 

Bjartur heima hjá sérBjartur í pössunÉg auglýsti eftir Bjarti á blogginu mínu á dögunum, heittelskuðum ketti systur minnar og mágs sem búa hér á Skaganum. Sæta kettinum sem ég passaði stundum þegar eigendurnir fóru í ferðalög. Bjartur er kominn í kattahimnaríki, elsku karlinn. Ekkert sá á honum þannig að dulin veikindi hafa líklega hrjáð hann. Hann átti einstaklega gott líf þessi sex ár sem hann lifði og hans verður sárt saknað.


Einmana, vinalaus Suri Cruise (2), Sunday Rose NicholeKidmansdóttir og fleira ...

Kjalarnesi í morgunAftur bílfar í morgun sem var dásamlegt í kuldanum sem var þó ögn minni en í gær. Kannski maður sé bara farinn að venjast honum. Strax við sætukarlastoppistöðina byrjaði Ásta að hundskamma MIG fyrir ástandið í þjóðfélaginu. Hún horfði ásakandi á mig, en ekki VEGINN, þegar hún talaði um uppsagnirnar í byggingariðnaðinum, meðferðina á Glitnismönnum og önnur stórmál. Ég náttúrlega sturlaðist og benti henni ókurteislega á að flest mál hefðu tvær hliðar og ég myndi nú fara varlega í að gleypa allar samsæriskenningar strax. Okkur ætti nú að hafa lærst að trúa ekki orði af því sem heyrðist t.d. í Kastljósi, sæist í DV, Lögbirtingarblaðinu og Morgunblaðinu eða kæmi frá forsætisráðuneytinu. Við vorum farnar að slást í Kollafirði og ef Ásta hefði ekki sett plötuna hans Páls Óskars í græjurnar í bílnum veit ég ekki hvernig þetta hefði endað. Það er svo skemmtilegt að vera ósammála síðasta ræðumanni. Ef stjörnumerkjasjúk vinkona mín vissi af þessu myndi hún segja að ég væri Vog. Það er nú ekki rétt, ég er virðulegt Ljón.

Þetta gæti alveg verið sönn saga hjá mér, nú eru öll skúmaskot notuð til að ræða ástandið í þjóðfélaginu, meira að segja bíll á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur klukkan rúmlega hálfsjö að morgni þegar allt heiðarlegt fólk steinsefur og það með peningana undir koddanum. Nei, við Ásta rifumst ekkert í morgun nema hún spurði mig hvort ég væri Sjálfstæðismaður! Ég argaði úr hlátri og sagðist vera ópólitísk, hefði reyndar kosið alla flokka einhvern tíma og væri einna montnust af kjöri mínu á Framsókn á níunda áratug síðustu aldar, þegar sómakonan Ingibjörg Pálmadóttir komst að á Skaganum og varð síðar heilbrigðisráðherra sem leið yfir í fangið á Össuri, þarna þið munið. Fannst líka gaman að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta og Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra ... Jú, auðvitað hef ég kosið karla líka, enda eru karlmenn upp til hópa gjörsamlega frábærir.

Skrapp í Kaffitár í morgun með morgunhressri vinkonu og keypti latte, líka handa samstarfskonu minni sem kemur alltaf til vinnu kl. 8 á morgnana. Hún var ögn seinni til vinnu en vanalega, þurfti ein að standa í því að koma fjórum börnum í skóla og leikskóla. Þetta er reyndar svo gott kaffi að það er hægt að drekka það volgt, jafnvel kalt. Svo verður það hádegisverður með annarri vinkonu á Asíustaðnum hérna í Hálsaskógi. Þvílíkt lúxuslíf. Tek það fram að kúffullur diskur af þremur réttum að eigin vali kostar 1.000 kall sem er oggulítið meira en máltíðin kostar í mötuneytinu.

Suri og mammaSunday Rose í mömmubumbuSéð og heyrt var að koma í hús ... Jón Ólafsson, vatnskóngur og athafnamaður, er á lausu, en Mummi í Mótorsmiðjunni er genginn út ... enn og aftur.  Nichole Kidman eignaðist dóttur á dögunum og þakkar það töfravatni, eða sundspretti sem hún tók í Kununurra-vatni í Ástalíu ... Ég hélt einhvern veginn að kynlíf væri galdurinn við að búa til börn. Dóttirin heitir frekar sakleysislegu nafni, svona miðað við tilgerðarlegar og stórundarlegar epla- og appelsínunafngjafir þekkta fólksins. Hún ber nafnið Sunday Rose. Svo er dóttir Kate og Tom, litla Suri Cruise (2), víst mjög einmana og vinalaus, hefur ekki einu sinni lært að deila dótinu sínu með öðrum börnum. Eiríkur Jónsson horfði á Opruh Winfrey í gærkvöldi og það finnst mér langstærsta frétt dagsins. Þetta er aðeins of "kvenlegur" þáttur fyrir mig, hvað er í gangi með hann Eirík?

Vikan er helguð brjóstakrabbameini, eða forsíðuviðtalið og aðeins fleira, við gerum þetta alltaf einu sinni á ári, gott málefni til að vekja athygli á. Forsíðumyndin er af konu, sem er ber að ofan, en annað brjóstið var tekið af henni, andlitið ekki sýnt. Foríðuviðtalið við hressa ömmu og  Í Galdrahorninu eru nokkrar Feng Shui-ráðleggingar, t.d. hvernig á að laða að sér velmegun ... finna ástina, finna góða vinnu og breyttu óvini í vin og hræðilegum nágranna í fínan granna ... hehehhe. Alltaf gaman að Feng Shui. Lífsreynslusagan er mjög djúsí, segir frá konu sem dreymdi skrýtinn draum þegar hún var 14 ára, eða að hún sæti í farþegasætinu við hlið bílstjórans í rauðum bíl, þrjú börn aftur í. Henni fannst hún eiga þennan mann og börn og vera um þrítugt. Bílslys varð þar sem hún dó í draumnum ...  Jamm, svo mundi hún eftir þessu þegar hún var um þrítugt í raunveruleikanum og þá hafði sitt af hverju gerst, eiginmaður og þrjú börn í dæminu ... Ómissandi blað!!!

Vona að dagurinn ykkar verði góður, eiginlega bara frábær! Farin að vinna, vinna, vinna!


Minna skutl og meira bold

InnanbæjarstrætóÞað var greinilega hárrétt ákvörðun hjá Skagayfirvöldum að hafa frítt í strætó því mikill fjöldi fólks notfærir sér þjónustuna. Bílstjórinn sagði mér áðan að oftast væri vagninn þéttsetinn og oft alveg stútfullur. Í svona veðri skil ég að krakkar nenni ekki að rennblotna á leiðinni í skólann eða kerlingar á leið úr sjúkraþjálfun vilji halda sér þurrum og þá er strætó frábær kostur. Það hlýtur að vera mun minna um skutl foreldra og erfðaprinsa á þessum háabensínverðstímum og þá er tilganginum náð.

Nick er á bömmer yfir Forrester-fyrirtækinu, hlutirnir ganga ekki eins vel og hann bjóst við, sigurinn ekki jafnsætur. Jackie, mamma hans, reynir að stappa stálinu í strákinn. Ég sá ekki betur en Thorne og Taylor sofi nú saman og hann búinn að gefa henni hring. Taylor er líklega svolítið siðlaus geðlæknir, hún lofaði Thorne sínum að hún stefndi að því að endurheimta fyrirtækið fyrir fjölskylduna, hún hefði boðið Nick í geðlæknismeðferð ... Það er eins og mig minni að kristalskúlan mín hafi sagt að það leiði til ástarsambands þeirra.

Taylor og PhoebePhoebe, dóttir Taylor og Ridge, er svolítið skotin í garðyrkjumanninum grunsamlega sem bar ekki vitni í máli Taylor sem var, eins og allir muna, fyrir rétti fyrir að hafa ekið full og réttindalaus á Dörlu, konu Thorne, og valdið dauða hennar. Garðyrkjumaðurinn er á flótta undan lögreglunni, var barinn á ströndinni og býr nú í skjóli dr. Bridgetar að beiðni Phoebe. Ridge hefur sagt dóttur sinni að líta ekki við svona lúser en Phoebe vorkennir honum, hver sér ekki rómantík í subbulegum flækingi sem mögulegt væri að bjarga?

StefaníaUm daginn tilkynnti Stefanía að hún ætlaði aldrei framar að tala við móður sína. Það misheppnaðist algjörlega tilraunin til að hugga barða barnið í henni með að fá mömmuna til að biðja afsökunar á því að hafa ekki varið hana fyrir pabbanum með fúsa hnefann. Systir Steffíar tók upp hanskann fyrir hana í uppgjörinu og sagðist muna eftir hræðilegum atvikum.

Jamm, alltaf stuð í boldinu.


Flottustu tvíburarnir og alsælir hjólreiðamenn

 

 

Komnir með bílpróf
ChagallLangt síðan ég hef sett inn myndir
af sætustu tvíburum í heimi. Úlfur og Ísak eru fjörugir, skemmtilegir frændur mínir og algjörir gleðigjafar. Bloggvinir mínir ættu flestir að muna eftir þeim.

Strákarnir fæddust báðir með skarð í vör og gómi og hafa farið í þrjá uppskurði. Úlfur er með hjartað hægra megin, ja, er bara spegilmynd af Ísaki, svona innvortis séð. Þeir eru svo líkir í útliti að þeir hljóta að vera eineggja þótt þeir séu sagðir tvíeggja. DNA-próf (rándýrt) er það eina sem getur skorið úr um það.

Annað: Það er SVO langt síðan að ég hef bloggað um þá að þeir eru komnir með bílpróf og farnir að keyra um allt.

 

AbdullahMohammedHinir strákarnir mínir eru komnir á hjólin sem Inga fann handa þeim og hjóla nú um allt alsælir. Inga skrapp með þá í hjólatúr í dag og komu þau við á hlaðinu hjá mér norðanmegin. Mikil gleði og hamingja. Sá yngri hjólaði á stóra bróður sem kenndi honum enn og aftur á handbremsuna, þolinmóður og góður.

Annars bara allt gott að frétta. Helgin að koma með öllum sínum dásemdum og svo hefst annað líf á mánudaginn þegar Ásta mætir kl. 6.30 sharp við hlið himnaríkis, eða á bílastæðið.


Farin í hundana ...

LabradorEftir vinnu á föstudaginn heimsótti ég hjón, góða vini sem ég hef ekki séð allt of lengi, enda búa þau á Kjalarnesi, hver fer eiginlega þangað í heimsóknir? (djók) Kynntist þeim 2001 þegar ég tók viðtal við þau og fannst þau gjörsamlega frábær. Hef haldið sambandi síðan og þegar ég sendi þeim afmælisboð í SMS-i (eftir boðskortaklúður enn eitt árið) fyrr í mánuðnum fékk ég að vita að þau hefðu verið að eignast 11 „barnabörn“, eða labradorhvolpa og ekki séns að þau kæmust frá. Berglind var búin að hafa sig til, orðin glerfín fyrir Eric Clapton-tónleikana 8. ágúst sl. þegar tíkin þeirra breytti áformunum og aðfaranótt 9. ágúst höfðu þau í nógu að snúast við að taka á móti. Fyrstu dagana á eftir þurfti síðan að skiptast á að vaka yfir litlu krúttunum og passa að allur fjöldinn fengi nóg að drekka og að mamman legðist ekki ofan á þá. Þetta eru fimm svartir hvolpar og sex ljósir, hreinræktaðir auðvitað. Þeir eru komnir með sjónina, aðeins byrjaðir að leika sér og þvílíkir gullmolar. Svartur labradorFjórir eða fimm hafa þegar eignast ný heimili en fara þó ekki að heiman fyrr en í október.

Eins og BilliBilli, smáhundurinn á heimilinu, er eins og fúll gamall frændi þessa dagana. Enginn sýnir honum athygli, allir fara beint til hvolpanna og dást að þeim. Áður var hann krúttið á heimilinu. Lítill, svartur og loðinn krúttmoli, man ekki af hvaða tegund hann er, hann líkist hundinum á myndinni til hægri. Hann lá í körfunni sinni og það urraði í honum við enn eina gestakomuna til hvolpanna. Ég ákvað skömmu seinna að sýna þessum gamla frænda að hann væri enn mesta krúttið og öðlaðist miklar vinsældir fyrir vikið. Þetta er svona eins og að gleyma ekki eldri systkinum þótt þetta nýfædda sé mest spennandi. Í næstu heimsókn ætla ég að taka myndavél með og skella myndum af hvolpunum, og auðvitað Billa, á bloggið. Hafsteinn bauðst til að senda mér myndir en kann ekki að minnka þær og ég veit ekki hvort tölvan mín, póstforritið, þoli að fá risamyndir.

Nú verður tíkin sett á pilluna eða tekin úr sambandi. Þetta hefur verið mikið álag fyrir hana ... átta spenar og 11 síhungraðir munnar. Þessir ljósu fengu að drekka á meðan ég stoppaði við og þeir svörtu lágu á meðan í einni kássu í lítilli körfu og steinsváfu.Líka klikkkuð vinna fyrir fjölskylduna.

Ég átti einu sinni Labrador-tíkina Nóru og syrgði hana sárt og lengi þegar hún varð fyrir bíl og dó. Hef ekki haft aðstæður til að vera með hund síðan og læt kettina nægja. Þeir eru líka fínir! Það er samt ekki erfitt að fara í hundana eftir svona heimsókn ... ummmmm!


Óveðrið Ágúst Ólafur?

Lekur gluggiÉg get ekki að því gert en ég fyllist alltaf miklum spenningi þegar von er á vitlausu veðri. Eini gallinn er sá að opnanlegu fögin í gluggum himnaríkis eru ekki vatnsheld frekar en nýju fínu svaladyrnar. Samt spennandi. Kvöldverkin verða því þau að troða eldhúsrúllubréfum til að þétta þau opnanlegu og setja handklæði í gluggana fyrir neðan. Búist er við snörpum hviðum á Kjalarnesi, enda austanátt í kortunum og því verður kannski bara klikkað fjör í bílnum með Ástu upp úr kl. 6.30 í fyrramálið. Mikið er gott að búa á Íslandi þar sem allra veðra er von. Hugsa þó með samúð til blaðberanna sem þurfa að berjast með dagblöðin til okkar fréttafíklanna eldsnemma í fyrramálið. Væri ekki sniðugt að nefna óveður vetrarins (þetta veður telst varla með þar sem enn er sumar) eftir alþingismönnunum okkar? Það koma varla fleiri lægðir en 63 á einum vetri, eða hvað ... Ja, ef við byrjuðum t.d. núna, svona til öryggis, þá gæti óveðrið sem hefst í nótt gengið undir nafninu Vatnsveðrið Arnbjörg Sveinsdóttir, það næsta Fellibylurinn Atli Gíslason, (ef t.d. leifar Gustavs berast hingað) þá Óveðrið Ágúst Ólafur Ágústsson o.s.frv. Annars væri auðvitað snjallara að nefna þetta veður sem skellur á í nótt Ágúst Ólaf af því að það er enn ágústmánuður.  

Ýsa var það, heillinSoðin ýsa var í hádegismat í mötuneytinu í dag, bara skrambi góð með „karpullum“ og bræddu smjéri. Ekki skemmdi fyrir að Davíð, ástkær frændi minn og systursonur, var borðherrann minn.

Davíð hóf nýlega nám í Kvikmyndaskólanum sem er staðsettur á hæðinni fyrir ofan mig í Hálsaskógi og líst ótrúlega vel á námið.Við hámuðum í okkur fiskinn og salat og skiptumst á fréttum um frábæru fjölskylduna okkar. Bara jólin.

 


Aldeilis ósléttar kaffifarir eftir vinnu í gær ...

LatteVið Ásta vorum komnar í Hálsaskóg kl. 7.05 í morgun og með þessu áframhaldi verðum við mættar í vinnuna í kringum miðnætti þegar desembermánuður gengur í garð. 

Við stöllur ætluðum að gera vel við okkur um fjögurleytið í gær, frekar þreyttar eftir annasaman dag, og komum við í bakaríi á leiðinni heim á Skagann. Þar fæst gott kaffi frá Te og kaffi. Undanfarin skipti höfum við verið afar óheppnar með kaffið þarna og starfsmaður (aldrei sá sami reyndar) sett allt of mikla mjólk út í þannig að ekkert kaffibragð finnst.

Ásta, sem er í raun algjör "gribba" fer alltaf í kerfi þegar ég bið ljúflega og kurteislega um kaffið eins og ég vil fá það, eða latte án cappuccino-froðu, heitt en ekki sjóðheitt og sokkabuxnabrúnt út í ljóst, á litinn. Hún ætti að prófa að standa í Starbucks-biðröð og hlusta á sérþarfirnar þar. Ég er ekkert miðað við óskirnar þar.

Fyrr má nú vera ...Rosalega indæl kona, svona 60 plús, afgreiddi mig og var svo sæt og ljúf. Ég byrjaði á því að segja henni kaffifarir okkar Ástu ekki nógu sléttar undanfarið og bað hana lengstra orða um að hafa mjólkina hvorki of heita né mikla. Ég kunni ekki við að gera sama og síðast, þegar kaffið varð gott, og fá að fylgjast með henni setja mjólkina út í. Ég starði vantrúuð á hana þegar hún FYLLTI annað málið af mjólk og spurði svo hvort ég vildi líka að hún fyllti það seinna álíka mikið.  „Nei, ég vildi einmitt EKKI svona mikla mjólk,“ stamaði ég gráti nær og náði að segja henni til með rétt mjólkurmagn í seinna málið. Þessi góða kona bjó til annan latte í stað þess ónýta.

Ég skokkaði út í bíl með latte í báðum og hafði keypt tvær súkkulaðismákökur með kaffinu til að gleðja okkur í tætlur. Tveir tvöfaldir latte og tvær smákökur kostuðu 1.050 krónur, mér fannst það nokkuð mikið. Úti í bíl smökkuðum við síðan á kaffinu ... og SKAÐBRENNDUM okkur í munninum.

Við Ásta skaðbrenndarÍ Kollafirðinum opnaði ég bílgluggann og reyndi að láta volgan vindinn kæla kaffið, það var enn rafsuðuheitt og ódrekkandi. „Þýðir ekkert,“ sagði Ásta spámannslega. „Þú verður að taka lokið af ef þú vilt að það kólni.“ Hún var enn smámælt eftir tungubrunann og ég var líka að drepast. Ég þorði ekki að taka lokið af, ekki á ferð í bíl, slíkt er ávísun á stórkaffislys. Það var ekki fyrr en við vorum nýkomnar út úr göngunum að við gátum dreypt á kaffinu. Magn mjólkur reyndist mátulegt en allt of mikil hitun á henni hafði eyðilagt hana, orsakað efnabreytingar þannig að bragðið var ekki gott. Fyrir mitt leyti langar mig ekki framar í þetta bakarí ... a.m.k. ekki til að fá mér kaffi.

Ég var smakkdómari nokkrum sinnum í kaffibarþjónakeppnum hérna í denn og ef keppendur hituðu t.d. mjólkina í cappuccino-ið of mikið þá þýddi það refsingu, 30 svipuhögg minnir mig. Ef fólk vill kaffið sitt rafsuðuheitt, eins og t.d. Hilda systir og Gísli Rúnar leikari, þá ætti það að þurfa að biðja sérstakleg um það. Í amerísku réttarkerfi gæti ég krafist hárra bóta fyrir andlegt álag og tunguskemmdir. Það yrði bara hlegið að okkur í Héraðsdómi Vesturlands. Veit einhver hvað tekur langan tíma fyrir brennda tungu að jafna sig? Spyr fyrir okkur Ástu báðar.

Vona að dagurinn ykkar verði góður og allt það kaffi/te/kakó sem þið drekkið verði mátulega heitt.


Kokkur í skammarkrók og dræsan hún Ylfa Ósk

tagliatelleHann doktor Gunni (eða okursíðan hans) hefur nú orðið til þess að ég skammaði góða kokkinn okkar hér í mötuneytinu. Tók eftir því að ég borgaði 365 krónur fyrir morgunverðinn og fannst það ansi hátt fyrir einn smoothie (199 kr) og smá álegg (ekkert brauð). Hef yfirleitt tekið litla slettu af kotasælu, sett tvær agúrkusneiðar, eggjasneið og paprikubita með. Það hefur kostað 40 kall, nú er rukkað fyrir hvert og eitt álegg. Þannig að agúrkusneiðin kostar 40 kall. Nú verður nesti tekið með, ekki gengur að éta mötuneytið lengur út á gaddinn og það mig. Svo skammaðist ég líka, en ljúflega, held ég, yfir kolvetnaveislunni í hádeginu, aðalréttur: spagettí með sjávarréttum og grænmetisréttur: tagliatelle í rjómasósu. Línurnar breytast skjótt í útlínur og jafnvel heilan sjóndeildarhring með svona áframhaldi.

Ylfa Ósk ÚlfarsdóttirÚlli, kokkur á Gestgjafanum, mætti með Ylfu Ósk með sér í vinnuna í gær og talaði um hana sem algjöra dræsu þar sem hún sat stillt og sakleysisleg við skrifborðið. Ylfa fékk nefnilega að pófa að vera með gæja um helgina og alla aðfaranótt mánudagsins veinaði hún svo mikið að engum í fjölskyldunni varð svefnsamt. Hún vildi meira, you know.

Nú heldur Úlli að Ylfa sé orðin hvolpafull og býst við fjölmörgum, sætum og krúttlegum úlfhundum eftir svona tvo mánuði. 


Spennufall hjá þjóðinni

DorritHvað nú? Ólympíuleikarnir búnir, líka menningarnótt og ekkert fram undan til að hlakka til og æsa sig yfir nema þá helst blessuð jólin og klikkunin í kringum þau. Fyrrihluti árs og sumarið inniheldur mun fleiri uppákomur sem hægt er að hlakka til: Nýársdagur, bolludagur, páskarnir, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, gaypride, afmælið mitt, menningarnótt og fleira og fleira. Að vísu er Formúlan ekki búin og heldur ekki Landsbankadeildin.

Nú fer t.d. fram fótboltaleikur hér á hlaðinu fyrir neðan himaríki, ÍA-HK. Staðan er 1-2 í hálfleik. Femínistinn (erfðaprinsinn) lætur gengi liðsins okkar ekki skemma fyrir sér spenninginn en hann hefur nám nú í vikunni eftir langt hlé, skólinn hans verður settur í fyrramálið. Hvað með það þótt við spilum í 1. deild eitt sumar ... ef við föllum? Ég fylgist óbeint með leiknum í beinni lýsingu (skrifum) á mbl.is og þegar ég heyri öskur fer ég á síðuna og sé innan tíðar hvað hefur gerst.

Vona að kvöldið verði ljúft og að nóttin færi ykkur góða drauma.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 184
  • Sl. sólarhring: 350
  • Sl. viku: 876
  • Frá upphafi: 1505883

Annað

  • Innlit í dag: 145
  • Innlit sl. viku: 711
  • Gestir í dag: 139
  • IP-tölur í dag: 134

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband