Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
23.8.2008 | 14:15
Frænkueinelti á Útvarpi Sögu og smá bold
Halldór frændi hringdi í mig áðan úr númeri sem ég þekkti ekki. Hann var óvenjukurteis og virðulegur í tali, sagðist reyndar fyrst hringja frá kynsjúkdómadeildinni og spurði hvort ég væri ekki örugglega sitjandi, hann væri nefnilega með niðurstöðurnar. Ég flissaði subbulega en datt samt ekki enn í hug að hann væri að hringja í beinni útsendingu. Það kom í ljós þegar hann bauð mér óskalag og vildi að ég veldi eitthvað gamalt, lummó og dásamlegt. Fyrsta dásemdin sem mér datt í hug var Kveiktu ljós með Blönduðum kvartett frá Siglufirði, ég hef lengi haldið upp á það, eða síðan ég var lítil og hlustaði á það í Óskalögum sjúklinga. Þetta gæti Halldór svo sem hafa vitað síðan hann var um tíma tæknimaður hjá mér á Aðalstöðinni í gamla daga. Og viti menn, það lag beið undir nálinu hjá kvikindinu. Þetta gekk svo smurt að það var eins og við hefðum æft það. Síðan fékk ég annað símtal sekúndum seinna: Gurrí, hvað dettur þér í hug þegar ég segi Dalvík? 620, svaraði ég um hæl, enda límist margt svona notadrjúgt eða ekki við heilann á mér. Frænkueinelti, ekkert annað, en samt svolítið skondið!
Jackie er vöknuð úr kómanu og er full ... hefndarþorsta. Hún stingur upp á því við Nick að hann reyni að ná tískufyrirtækinu af Forresterunum sem skaðabætur fyrir gjörðir Stefaníu. Stefanía er í vondum málum fyrst Jackie kýs að ljúga, skrýtið samt að hún skuli muna slysið svona greinilega, hún sem getur varla sagt heila setningu. Þetta er bara fjárkúgun. Jackie heldur að þetta komi Brooke endanlega til Nicks aftur. Nick sér fyrir sér að Jackie, mamma hans, stjórni Forrester. Hvar er pabbi Nicks núna, Massimo, gamli ástmaður Stefaníu og blóðfaðir Ridge? Hann myndi koma vitinu fyrir Nick og bjarga Stefaníu úr þessari klípu.
Svo er aumingja Phoebe, dóttir Taylors og Ridge, í hroðalegum vandræðum. Garðyrkjumaðurinn sem öll vörn Taylors byggist á, þessi sem varð vitni að slysinu þegar Taylor ók á Dörlu, notar aðstæðurnar til að reyna við aumingja stelpuna sem lætur ýmislegt yfir sig ganga til að styggja ekki kvikindið og þiggur matarboð hans. Hvernig fer þetta eiginlega?
23.8.2008 | 10:01
Vona að mér skjátlist ...
Hið ótrúlegasta henti hér í himnaríki í morgun og hefur ekki gerst svo lengi sem elstu menn muna ... eða vaknað fyrir kl. átta um helgi. Þrátt fyrir að augunum hafi verið lokað mjög fast, sænginni vafið þéttar og heyrst hafi svæfandi veðurhvinur sem kemur ef glugga hefur ekki verið lokað nógu vel var algjörlega ómögulegt að sofna aftur. Þetta hefur ekki gerst í manna minnum og tel ég undirmeðvitundina vera að þjálfa mig í helgarvakni fyrir morgundaginn. Þótt ég forðist streitu af öllum mætti ætla ég að horfa á leikinn.
Fyrir nokkrum dögum stóð ég í Hálsaskógi og beið eftir strætó nr. 18 áleiðis að Ártúni þaðan sem leiðin lá í Mosó og síðan á Skagann. Svona rosalega venjulegt eitthvað. Þá kom ungur maður hlaupandi, líklega hræddur við að missa af strætó sem brunaði ákveðinn úr Grafarholtinu og voru svona 15 sekúndur í hann. Maðurinn, sem áttaði sig á kringumstæðunum á örskammri stund sagði: Æ, ég sem ætlaði að plata þig í spurningu dagsins í DV. Skjóttu bara, sagði ég ótrúlega töffaralega, engin spurning of erfið fyrir mig, fannst mér, vonaði þó heitt að hún tengdist ekki stjórnmálum, það getur verið erfitt að vera ópólitískur og elska suma sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, samfylkingarmenn, vinstri græna ... Þakklátur sagði maðurinn: Já, ég veit alla vega að þú ert fimmtug, ha ha ha, og ég dauðsá eftir tattúinu sem ég lét setja á ennið á mér á í síðustu viku. Svo kom spurningin: Í hvaða sæti lendum við Íslendingar á Ólympíuleikunum í handbolta? Þá vorum við enn í átta liða úrslitum. Í öðru sæti, við fáum silfrið, sagði ég ótrúlega vongóð, maður peppar sko strákana sína upp og hefur trú á því óhugsanlega. Síðan gerðist hið ómögulega í gær og það er ekki séns á því að við lendum neðar en í öðru sæti.
Í gærkvöldi fékk ég tölvupóst fá elskunni honum Reyni sem ég vann með fyrir mörgum árum og hefur greinilega lesið gáfuleg svör mín í DV: Ég vissi að þú vissir þetta. Sá allt í einu Íslendinga í úrslitum við Frakka í gær og fór rólegur í sund í hádeginu í dag. Kristalskúlan þín klikkar ekki. Nú veit ég að við verðum að sigra á morgun, annars mun mér aldrei takast að fá Reyni Trausta eða Sigurjón M. Egilsson til að trúa því að ég sé ekki völva Vikunnar. Þeir stríða mér reglulega á því og ég urra á móti. Völvan er stundum vond við þá tvo í spádómum sínum og mér myndi aldrei detta slíkt í hug við þessar elskur. Ef ég þekki mig rétt myndi öllum ganga rosalega vel, ekkert vesen í þjóðfélaginu, bara ótrúleg velgengni.
Þegar ég fékk gefins tarotspil í gamla daga (1985) og var samstundis gerð að hirðspákonu vinahópsins og alls frændgarðs hans lærði ég hratt og vel á spilin en var ekki með nokkra einustu andlega hæfileika, er mjög jarðbundin og hef alltaf litið á spádóma sem samkvæmisleik sem ekki ber að taka alvarlega og nenni ekki fyrir nokkurn mun að snerta á spilum í dag, nema fyrir stjörnuspá Vikunnar (held að mörg blöð þýði erlendar stjörnuspár, ekki Vikan). Slík manneskja á ekki skilið að vera strítt á því að vera völvan ... en ef við lendum í öðru sætinu þá verð ég í ljótum málum.
Hef því tvöfalda ástæðu til að rífa mig upp í fyrramálið og hvetja strákana og neyða þá með hugarorkunni til að sigra! Áfram Ísland!
Norski landsliðsþjálfarinn spáir Íslendingum sigri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2008 | 20:47
Heita Nína ... og pínku bold
Okkur Vikukonum leist illa á saltfiskinn í mötuneytinu í dag og fórum á Taí-matstofuna hinum megin við götuna. Fínasti matur og bara ágætlega huggulegir menn sem þar snæddu.
Hahahaha, hló Íris Hrund samstarfskona mín skömmu eftir að við komum í vinnuna aftur. Tilefnið var spjall um textamistök hjá fólki þegar það sönglar með vinsælum dægurlögum. Ég söng alltaf Hæ, Kanína, viðurkenndi Íris og flissaði. Uuuu, það á að vera þannig, sagði Björk hissa. Íris starði á hana og sagði: Ég hef alltaf haldið að það væri Heita Nína? Auðvitað hlógum við illgirnislega og ég mundi eftir stelpunni í barnakórnum hennar mömmu sem söng þjóðsönginn á skólaskemmtun: Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tær ... Einn aðalbrandarinn í æsku minni.
Boldið gerist æ æsilegra. Nick réðst á Stefaníu og ætlaði að neyða sannleikann upp úr henni, eða að hún hefði hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann. Donna, sjónarvottur og þó varla, kjaftaði í Nick sem rauk beint heim til Stefaníu, braut rúðu í bakdyrunum þegar hún neitaði að opna, rauk inn með látum. Henni tókst að ná í byssu og hélt honum í fjarlægð þar til Eric, maður hennar, og Ridge, sonur hennar og hálfbróðir Nicks samfeðra, komu hlaupandi til að bjarga henni. Í þættinum í kvöld, sem ég sá nú ekki allan, neitar Nick að þiggja fébætur fyrir þetta, þótt Stefanía hafi alls ekki hrint Jackie, hann heimtar tískufyrirtæki Forresteranna, annars sendir hann Stefaníu í fangelsi!
P.s. Ég hef fengið þrenn skilaboð frá bloggvinum í gær og í dag sem ég held að séu mér ekki ætluð, sjálf hef ég sent skilaboð sem ég held að hafi farið á ranga staði. Vona að kerfið sé ekki að klikka.
18.8.2008 | 19:01
Fullur bíll af kjéddlíngum ... og smá bold
Heilmikið fjör var í strætó á heimleiðinni. Megn kaupstaðarlykt var af síðasta farþeganum sem kom inn í Mosó og sá var í glimrandi góðu skapi. Hann settist nálægt Haffa bílstjóra og reyndi mikið að fá hann til að gera eitthvað spennandi. Fullur bíll af kjéddlíngum, sérðu möguleikana? sagði hann en Haffi lét ekkert trufla einbeitinguna við aksturinn, sýndi bara manninum ótrúlega þolinmæði og aðrir farþegar virtust skemmta sér vel. Sú sem sat fyrir aftan mig hvíslaði að mér: Mikið er annars gott að vera á lausu. Hún meinti, held ég, að það væri gott að eiga ekki von á svona lítið edrú manni heim, frekar en að nú væri lag ... að veiða sér einn góðglaðan. Ertu til í að koma við hjá hesthúsinu? kallaði maðurinn skömmu áður en við komum í göngin. Já, já, sagði Haffi en ók samt beinustu leið á Skagann. Ég hefði ekki þurft að bölva því að vera búin með strætóbókina, en hún kláraðist í leið 15 á leið í Ártún í morgun, svo gaman var á leiðinni. Alltaf samt að vera með varabók!
Jæja, Brooke er búin að segja Nick upp sem pakkaði föggum sínum í pínulitla tösku, rétti henni giftingarhringinn og fór. Tár á hvörmum beggja og næstum því kveðjukoss. Brooke vill ekki leyfa systur sinni, Donnu, að segja Nick frá því sem hún sá, eða að Stefanía hafi hrint Jackie, mömmu Nicks, niður stigann. Stefanía sleit sig reyndar lausa af Jackie með þessum skelfilegu afleiðingum að Jackie er næstum í kóma eftir fallið.
Þú kynnir ekki Beð Brooke fyrir Forrester lengur, segir Stefanía við Donnu og er búin að láta Jason pakka niður dóti hennar. Stefanía veit sem satt er að Donna gæti haft truflandi áhrif á vonandi tilvonandi enn eitt hjónaband Ridge og Brooke. Donna er svo skotin í Ridge. Donna er auðmýkt og tautar bölbænir og við vitum (vegna kristalskúlu minnar) að Donna á eftir að stela karlinum frá Stefaníu sjálfri, honum Eric. Svaðaleg hefnd. Brooke eiginlega segir Ridge upp líka en hann veit að það er bara tímabundið á meðan fyrrverandi tengdó, Jackie, mamma Nicks, liggur svona stórslösuð á sjúkrahúsinu.
P.s. Fékk algjört lost þegar Nágrannar voru sýndir á undan boldinu en skv. Eyjunni (eyjan.is) var þetta með vilja gert og auglýst í dagskránni. Það er ekki hægt að treysta á neitt í þessum heimi, hvað næst? Kannski Latibær á besta tíma á laugardagskvöldum? Úps, það er víst þannig.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.8.2008 | 14:17
Bjöllupyntingar, lestrarsýki, veðurguð og ófarðaðar jafnöldrur ...
Dyrabjallan hringdi klukkan hálfníu í morgun. Ég hoppaði í snarhasti framúr, greip sjúkrakassa, slökkvitæki og hlýtt teppi og svaraði lafmóð: Halló, hver er þetta? Já, bla bla læsti mig úti bla bla. sagði óskýr kvenmannsrödd í dyrasímanum. Ha, hváði ég, enda heyrast yfirleitt ekki orðaskil í þessum dyrasíma. ...læsti úti ...bla bla, endurtók röddin. Í uppgjöf minni ýtti ég bara á opna. Ég þurfti sem betur fer ekki að byrja upp á nýtt að sofa, eins og komið hefur fyrir ef prinsessusvefn minn er rofinn, heldur nægðu þrír tímar til að ná þessu upp. Jamm, ævintýrin gerast heldur betur hér í himnaríki. Ég sem hélt að ég ætti fullkomna nágranna ... nema þetta hafi verið glæpakvendi, sölukona eða trúboði sem nýtti sér veikleika minn svona snemma morguns til að komast inn í stigaganginn. Ég heyrði þó engin öskur í ástkærum grönnum mínum svo líklega býr hún bara hér í húsinu en er örugglega aðkomumaður ... hehehe. Himnaríki er alltaf læst svo ekki komist syndarar inn, nema þá helst dauðasyndarar á borð við kaffi- og tertusjúklinga.
Mér tókst, þrátt fyrir mikla syfju í gærkvöldi, að ljúka bókinni Svartnætti. Hún var bara ansi skemmtileg og annar krimmi er kominn í lestur; Síðasta uppgötvun Einsteins. Hún er eftir Mark Alpert og lofar ansi hreint góðu. Ætli ég fórni ekki heilum Manchester-fótboltaleik kl. 15 í dag fyrir hana. Henni er af einum gagnrýnanda líkt við Da Vinci lykilinn nema eðlisfræði í stað myndlistar ... Aðrir gagnrífendur halda vart vatni og sá sem skrifaði eina frægustu ævisögu Einsteins, Walter Isaacson, sagði: Vá, Einstein hefði orðið hrifinn af þessari bók! Ég reyni yfirleitt að láta svona ummæli ekki hafa áhrif á mig, sumum fannst t.d. Da Vinci Code ekkert sérstök og það gæti fælt þá frá ... Best að lesa og dæma bara sjálf.
Það er ansi haustlegt út að líta hér við himnaríki, alskýjað og smá öldur og bara yndislegt. Það var líka haustlegt veðrið í júní sl., minnir mig, þegar lægð heimsótti okkur. Ég trúi öllu sem veðurguðinn minn, Nimbus, segir um vetur, sumar, vor og haust og það er ekki komið haust, það er bara miður ágúst. Sem minnir mig á að óska jafnöldru minni, Madonnu, innilega til hamingju með afmælið í gær. Myndir af henni ófarðaðri hafa gengið um bloggheima og fólk hefur talað um hvað hún sé ljót! Myndin er reyndar ekki góð af henni, alls ekki, en mér finnst Madonna mjög flott kona.
Sjálf steingleymdi ég að hafa förðunaræfingu nokkrum dögum fyrir afmælið mitt og athuga hvort ég þyldi farða eftir sólbrunann agalega í júlí, þannig að ég sleppti öllu pjatti. Á myndum finnst mér ég heldur rjóð og óinterísant en verra hefði þó verið ef fésið hefði stokkbólgnað og afmælisgestir orðið hræddir, hlaupið út aftur og þá hefði ég ekki fengið allar þessar flottu gjafir. Skartgripir, föt, dekurkrem, baðbombur, bækur, lampi, blóm, listaverk, trefill með innbyggðri húfu, Radiohead-diskur, grifflur, peningar, gjafakort og fleira og fleira, að ógleymdu barninu þeirra Auðnu og Andrésar sem fæddist 10 mínútum áður en ég varð löglega fimmtug. Skyldi ég fá að velja nafnið á litlu dömuna?
16.8.2008 | 12:12
Ógreidda sætið, Connelly og Wallander ... örbold
Það voru heilmargar og stórmerkilegar strætósögur sem áttu að fara á bloggið í gær en föstudagsannir í vinnunni og svo syfja á föstudagskvöldum breytir bestu áætlunum um að blogga. Það sem stendur upp úr er að nýr ógreiddur maður er kominn til sögunnar í leið 18 og mun huggulegri (og eldri) en sá fyrri. Ég get víst ekki lengur talað um ógreidda menn, heldur er ég viss um að sætið sem þeir hafa valið sér hafi eitthvað með þetta að gera. Þessi nýi var í nákvæmlega sama sætinu og sá fyrri valdi sér alltaf og þá er þetta bara orðið spurning um sætið, finnst mér.
Við vorum tvö í leið 27 frá Akranesi í gærmorgun með sömu bókina. Hinn, maður sem hélt áfram að lesa standandi á stoppistöðinni í Mosó, var með nýja bók eftir Michael Connelly, Svartnætti. Eftir að ég las Skáldið eftir hann er ég húkkt á bókunum hans. Ef þið munið eftir bíómynd þar sem Clint Eastwood lék lögreglumann sem hafði fengið hjartaáfall í eltingaleik við glæpamann. Kona var myrt og svo heppilega vildi til að hún var í sama, sjaldgæfa blóðflokki og löggan og hann fékk hjarta hennar. Aðrir líffæraþegar voru síðan myrtir síðar og löggan okkar, ekki beint kominn til starfa aftur, leysti þó málið. Í myndinni var kunningi löggunnar látinn vera sá seki en alls ekki í bókinni, sem heitir Blóðskuld. Já, þessi nýja bók fjallar um sömu lögguna og kunninginn er enn kunningi, hvernig ætla kvikmyndagerðarmennirnir að láta Eastwood redda þessu? Löggan er auk þess MIKLU yngri en sjötíu plús.
Við erfðaprins steinsofnuðum síðan bæði yfir Wallander í gærkvöldi, ég í leisígörl, hann í leisíboj, sem við geymum fyrir vinkonu mína. Algjör synd, myndin lofaði svo góðu.
Núna kl. 13 á að byrja að innrétta íbúðir fyrir flóttafólkið þannig að ég get ekki horft á boldskammt vikunnar. Ég hef þó séð sitt af hverju: Jackie fór í stóra aðgerð á sjúkrahúsinu og óvinur Stefaníu, Donna, systir Brooke, sem varð vitni að slagsmálum Jackiear og Steffí, hótar að segja lögreglunni að Steffí hafi hrint Jackie. Nick er alveg brjálaður yfir þessu og rifjar upp góðar stundir með móður sinni við undirleik lyftutónlistar, mjög átakanlegt. Lofa svo að fylgjast voða vel með í komandi viku.
3.8.2008 | 20:22
Inn á með göngugrindina ...
Vá, bara barnaefni á præmtæm á laugardögum, sagði ég steinhissa við erfðaprinsinn, enda færist aldurinn hratt yfir mig þessa dagana. Ég áttaði mig á því að hann (aldurinn) hlýtur að vera rosalega smitandi því að sonurinn var enn fúlli en ég yfir því að Latibær verði sýndur eftir kvöldfréttir næstu átján laugardagskvöld frá og með 16. ágúst, afmælisdegi Madonnu. Ætli við fáum ekki Með afa á sunnudagskvöldum? hnussaði í honum. Samt erum við bæði með frekar barnslegan smekk á sjónvarpsefni, elskum ævintýramyndir, Simpsons og slíkt, en þessi fúlheit gætu verið vegna heilsustefnu þáttanna ... hreyfing, útivera, hollur matur og slíkt ... á nammidegi!
Ja, ekki sýna þeir íslenska þáttinn Heilsubælið í Gervahverfi sem ég lék svo eftirminnilega í, hélt ég áfram, þakklát syninum fyrir að taka undir nöldrið. Varstu ekki bara stadisti þar og lékst öxl í náttslopp? spurði hann. Ja, ég var a.m.k. mjög eðlileg og flott öxl, svaraði ég snúðugt.
Hér í himnaríki vorum við nýböðuð og pússuð í sparifötunum á leið út úr dyrunum þegar ég mundi skyndilega eftir því að matarboðinu kl. 18 hafði verið aflýst. Það hafði verið ákveðið af fyrrverandi tilvonandi gestgjöfum að fara frekar í fallegan lund um miðjan dag og borða smurt brauð með Úlfi og Ísaki, tvíburunum guðdómlegu, og leyfa þeim að hlaupa á Langasandinum ... í stað þess að vera flugnalaus inni í þægilegheitunum og borða grillmat. Okkur var vissulega boðið að koma í útivistina, hollustuna, flugurnar og hreyfinguna og það allt en kommon, ekki á sunnudegi. Við létum ekki hugfallast, heldur smurðum okkur gamlar flatkökur og ætlum bara að detta ofan í bókmenntir, ekkert minna en Dean Koontz, hann með nýju bókina, Góða strákinn, og ég með gamla og góða, From the Corner of his Eye sem er tryllingslega spennandi. Jú, auðvitað horfa á Monk sem er að hefjast.
Mikið er ég ánægð með umferðarmenninguna núna. Þegar ég fór í Borgarfjörðinn í gær óku allir á 90 km/klst, ekkert stress, enginn framúrakstur alla leiðina, bara frábært. Vona að þetta haldi áfram svona alla helgina. Þetta er ábyggilega öllum áróðrinum að þakka ... með dassi af ógeðslega háu bensínverði.
30.7.2008 | 19:01
Guðni Ág. öskureiður og Thorne trylltur - brjálað bold
Ja, hérna. Sverri Stormsker tókst að gera Guðna Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra, svo brjálaðan í útvarpsviðtali í dag að hann rauk á dyr.
Sjá: http://dv.is/frettir/2008/7/30/gudni-rauk-dyr-hja-stormsker/
Þú myrtir konuna mína, segir Thorne alveg sjokkeraður í boldinu. Og ég sem bað þín! Þú laugst að mér og dóttur minni. Thorne er að sleppa sér. Kennirðu Dörlu um þetta? öskrar hann svo þegar Taylor segir að Darla hafi dottið fyrir bílinn (sem er satt). Stefanía fréttir af þessu og ætlar að drífa sig upp í Big Bear, sumarhús fjölskyldunnar, þar sem Thorne hafði ætlað sér að eiga rómantíska stund með Taylor. Þá hringir dyrabjallan, Baker fulltrúi kominn í heimsókn. Hann segist vita að Taylor hafi setið undir stýri og heimtar að þau játi öll með tölu!
Geðlæknirinn geðþekki segir Thorne hvað henni líði illa og hún sjái í sífellu fyrir sér óttaslegið andlit Dörlu á framrúðunni. Eins og það sé þetta sem Thorne þarf helst að heyra þessa dagana. Taylor nuddar meira salti í sárin ... nú sér Darla litlu stúlkuna sína aldrei vaxa upp. Ó, andlitið á henni á framrúðunni hjá mér. Ég elska þig og hvert sem ég fer mun ég biðja fyrir þér. Þú verður í hjarta mínu til eilífðar! Samt vitum við áhorfendur að hún á eftir að deita Nick og verða ófrísk eftir hann með eggi Brooke, hún á líka eftir að deita son Brooke, hann Rick. Síðan hringir hún í fulltrúann, þar sem hann er staddur hjá hinum sem vissu, og játar allt. Hann sendir samstundis löggubíl eftir henni.
Nú er Taylor komin í varðhald og lúmskur Baker fulltrúi lætur hana segja frá öllum sem vissu af þessu; dótturinni Phoebe, Hector slökkviliðsmanni og Stefaníu sem teljast samsek og geta lent í fangelsi. Þegar hún af heimsku sinni er nýbúin að skvíla þessu kemur Ridge, fyrrum eiginmaður hennar og pabbi Tómasar og tvíburanna, og bannar henni að tala meira fyrr en lögfræðingur er mættur.
Phoebe fer til Thorne, föðurbróður síns, og biður hann um að fyrirgefa þeim, aðallega Taylor, mömmu hennar. Thorne segist ekki trúa því að Darla hafi dottið fyrir bílinn, það sé léleg afsökun. Gullfalleg lyftutónlist ómar svo eftir að hann er orðinn einn. Hugsa sér, tvöföld sorg. Fyrst deyr konan hans og svo örfáum vikum síðar, þegar hann er orðinn ástfanginn af Taylor, þarf hún endilega að vera ökumaðurinn sem keyrði á Dörlu. Aumingja Thorne. Hvernig fer þetta?30.7.2008 | 11:50
Talandi um frost ... og afmælið sem verður stranglega bannað börnum ...
Þeir hjá strætó (Akranesmegin) vita sannarlega hvað þeir eiga að gera til að vér farþegar fáum ekki leið á að ferðast með þeim. Vagnarnir eru kannski allir gulir á litinn en innréttingarnar eru fjölbreytilegar. Flottasta drossían kom og sótti okkur farþegana í morgun, vagninn með þriggja punkta öryggisbeltunum fremst, DVD, glæstum speglum og háum sætum sem bjarga manni frá sólinni.
Bílstjórinn er alltaf í smá rabbstuði á meðan við dólum rólega út úr bænum (Akranesi) og hirðum upp síðustu hræðurnar. Hann spurði mig hvort það hefði ekki verið bongóblíða á svölunum mínum í gær. Ég sagðist forðast sólina eins og heitan eldinn eftir brunaævintýrið á dögunum ... og þá mundi hann eftir manni sem vann með honum í denn úti í Nígeríu, þar sem þeir sigldu með skreið, og voru allir hálfberir nema þessi maður, sem var hvekktur eftir sólbruna. Hann var víst ansi vel dúðaður .. vægast sagt, svona miðað við hitann sem var um 50 gráður ... bílstjórinn minn sagðist hafa verið að kafna. Næst voru þeir (áhöfnin?) sendir til Rússlands þar sem frostið var 36 gráður. Ansi mikill hitamunur og þessi skelfilega Rússlandsferð gerði bílstjórann minn að kuldaskræfu. Mér fannst hann bara fínn í lopapeysunni í morgun og sætur litur á flíspeysunni sem hann var í utanyfir. Loðhúfan var líka kúl.
Nú er ágúst að skella á og ég ekki einu sinni búin að skrifa afmælisboðskort ... hvað þá ákveða það sem á að standa á tertunni. Síðustu árin hef ég sent SMS til fólks, eða jafnvel hringt og minnt það á ammlið. Halldór frændi hefur átt nokkrar góðar hugmyndir í sambandi við áritun á tertuna en hann vill helst að ég geri grín að háum aldri mínum (ég er ekki gömul) og jafnvel nísku (og ég er ekki nísk).
Fyrsta nískutertan misheppnaðist hrapallega og enginn skildi neitt í áletruninni, allt bakaranum að kenna. Það átti að standa HAPPY BIRTHDAY - QUEEN MOM, svo átti bakarinn að strika yfir Queen Mom og setja klaufalega Gurrí til hliðar. Drottningarmóðir Bretlands átti nefnilega afmæli nokkrum dögum á undan mér). Ég átti síðan að segja við forvitna gestina að ég hafi fengið tertuna mjög ódýrt ... Bakarinn skrifaði á tertuna: Happy Birthday Queen .... og svo fyrir neðan happy kom Mom og strik yfir það og Gurrí. Mjög hallærislegt Enginn fattaði út á hvað þetta gekk, samt var ég búin að teikna upp fyrir bakarann hvernig þetta átti að líta út.
Hugmynd Halldórs að skipta kökunni með súkkulaðistrikum. Áletrað á 90% kökunnar ÞEIR SEM FÆRÐU GJAFIR og á 10% HINIR var líka ferlega fyndin. Tertan í fyrra vakti lukku en á henni stóð: Elsku Þrúða, láttu þér batna. Þeim í bakaríinu fannst þetta hrikalega fyndið, alla vega hressu stelpunni sem kemur alltaf með kökuna.
Nú er þriðja afmælið í himnaríki að fara að renna upp. Gott væri ef fólk færi að melda sig hvort það ætli að koma. Ég gerði ráð fyrir 50-70 manns í fyrra og það komu 60. Ef miða á við fertugsafmælið þá koma a.m.k. 100 manns núna ... það bætist við fólkið sem er ekki gráðugt í fermingarveislutertur um mitt sumar, heldur finnst það vera skylda sín að koma þar sem þetta er stórafmæli.. Svo koma yfirleitt fleiri þegar amlið er á virkum degi og það er á þriðjudegi núna.
Það kom nokkur barnaskari í fyrra sem var bara gaman en eftir spjall við ráðgjafa mín, fasta afmælisgesti, foreldra, börn og kettina mína þá verður veislan í ár stranglega bönnuð börnum, eins og hún hefur í raun alltaf verið, foreldrum til mikillar gleði, alltaf gott að losna við þessa óþekktarorma og geta verið í friði og spjallað og daðrað um leið og brauðtertur, súkkulaðikökur og annað hnossgæti er innbyrt. Sumir foreldrar hafa svo sem verið lúmskir í gegnum tíðina, komið með börn sín, sagt þau rosalega stillt og látið síðan sem þeir hafi ekki heyrt öskrin í þeim: SKERA SÚKKULAÐITERTU! SKEINA ÞETTA BROTNAÐI ALVEG ÓVART ÉG HENTI TOMMA ÚT UM GLUGGANN og svo framvegis.
Fyndnasta áletrunin hjá frænda var samt: Til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið,
Dofri Hvannberg - 10. ágúst 2002.
Vá, hvað fólkið hló eða öskraði upp yfir sig af viðbjóði þegar ég sagðist hafa fengið tertuna á tombóluverði, tveggja daga gamla. Sumir héldu að fallhlíf Dofra hefði ekki opnast, aðrir héldu að hann hefði hætt við ... mismunandi hræðilega þenkjandi fólk sem ég þekki. Jamm, best að hringja í Halldór og ræna nýjum hugmyndum frá honum!
29 gráður og sólskin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2008 | 19:59
Veðurbeltið í Háholti, gamalkunnur geitungur og smá bold
Nýi bílstjórinn mætti á vaktina í morgun, úthvíldur eftir gott frí. Hann kom okkur heilu og höldnu í Háholt í Mosó þar sem ríkti óvenjugott veður miðað við staðsetninguna. Háholtsveðurbeltið er öðruvísi en öll önnur veðurbelti og sækir kvikindisskap sinn alla leið til útlanda. Fárviðri og fellibyljir hamast í Ameríku, ná í sig enn meira afli í ítölsku Ölpunum, smeygja sér þaðan út á Atlantshaf, lauma sér inn í Faxaflóann og upp í Háholt í Mosó þar sem það deyr út eftir að hafa farið illa með Skagamenn sem þurfa að húka þar í fjórar mínútur í bið eftir leið 15. Vísindalega útreiknað!
Í Mosó sá ég ekki betur en litli geitungurinn, sem laumaði sér með okkur frá Kjalarnesi fyrir nokkrum vikum, hafi verið þar á sveimi. Hann hefur stækkað einhver ósköp og lagði karlmennina, kuldaskræfurnar í skýlinu, í einelti.
Guðný í vinnunni náði að grípa mig í Ártúni, rétt á undan leið 18, sem spældi örugglega DV-blaðamanninn sem hélt að hann yrði á undan mér í vinnuna. Hann fór út á Vesturlandsveginum og gekk upp Súkkulaðibrekkuna. Það var samt sárt að horfa á eftir unga fólkinu feta sig niður mjög háan kantinn og niður í hyldýpið út frá Vesturlandsveginum. Stelpan í hælaháu skónum fékk þó góðan stuðning frá vini/kærasta, annars hefði hún rúllað alla leið, eins og ég í fyrra. Ég mótmæli þessarri stoppistöð með því að nota hana ekki og mun ekki gera fyrr en það eru komnar tröppur þarna eða við fáum afhentar fallhlífar eða sigbúnað. Ungu krakkarnir halda þau að þau séu eilíf, ég þekki lífið betur og byltur þess ...
Um tíuleytið mætti viðtalsefnið mitt í hús, fékk förðun hjá Haffa og svo lögðum við öll í hann í Kópavoginn og hafði ljósmyndari bæst í hópinn. Ég ætla að fara að skrifa viðtalið, svona á meðan það er í fersku minni. Hætti frekar aðeins fyrr á morgun og fer á fjögursýningu á Dark Knight! Það er uppselt á allar seinni sýningar út árið, held ég. Alla vega næstu daga.
Brooke er í miklu uppnámi vegna svika Nicks (sem svaf hjá dóttur hennar, Bridgeti, sem er reyndar fyrri kona Nicks). Donna, systir Brooke, var næstum því búin að forfæra Ridge en þá kom Brooke grátandi þangað og fór beint í fangið á Ridge. Hann var ekki einu sinni búinn að þurrka varalit Donnu af vörum sér þegar hann kyssti Brooke ástríðufullt. Bridget bað mömmu sína um að sýna Nick miskunn og halda áfram að vera gifta honum, en Ridge mun án efa ekki sleppa Brooke svo auðveldlega. Stefanía er alsæl, enda vill hún að Ridge og Brooke verði saman. Ef hún bara vissi ... Donna beinir spjótum sínum nefnilega næst að eiginmanni Stefnaníu, Eric, sem hún hefði ekki gert ef hún hefði fengið Ridge.
Nú fer unga kynslóðin að koma inn. Það er t.d. ekki mjög langt í að Rick, bróðir Bridgetar og sonur Brooke, fari að deita Taylor, fyrri konu Ridge og mömmu Tómasar og tvíburanna. Held meira að segja að Taylor stingi undan öðrum tvíburanum sínum með Rick. Taylor hefur í mörg ár keppt við Brooke um ástir Ridge sem er í raun hálfbróðir Ricks nema þeir eru ekki blóðskyldir. Ridge er Massimo í raun og því hálfbróðir Nicks.
Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 69
- Sl. sólarhring: 256
- Sl. viku: 761
- Frá upphafi: 1505768
Annað
- Innlit í dag: 51
- Innlit sl. viku: 617
- Gestir í dag: 51
- IP-tölur í dag: 50
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni