Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

"Kemst ekki heim, Saving Iceland hefur stoppað alla umferð"

Saving IcelandVinnudagurinn var gjörsamlega frábær eins og venjulega og þegar ég gerði mig tilbúna til að hoppa í strætó seinnipartinn hringdi Ásta mín elskuleg, stödd í Reykjavík og þurfti að finna Múrbúðina. Ég sagði henni til vegar með því að kíkja á kort á www.ja.is og ekki svo löngu síðar kom hún á drossíunni, ásamt gullfallegri dóttur sinni, í Lynghálsinn. Við ákváðum að fá okkur kaffi í Mosfellsbakaríi til að drekka á heimleiðinni. Engir hitamælar eru til þar en ég bað stúlkuna um að reyna að ná hitastiginu 150°F með hugarorkunni og hafa enga froðu. Ásta hvíslaði að mér að ég væri að taka hana á taugum þannig að ég hætti við að biðja stúlkuna um að fá að fylgjast með þegar hún hellti mjólkinni út í pappamálið. Hummm, heita mjólkin með kaffibragðinu var samt ágætlega hressandi en auðvitað á maður að biðja um það sem maður vill fá, kurteislega þó, ekki óttast að stressa afgreiðslufólk.

Áður en við lögðum af stað frá Mosó fékk Ásta SMS frá vinkonu sinni sem vinnur í járnblendinu: „Kemst ekki heim, Saving Iceland hefur stoppað alla umferð!“ Við hlógum illgirnislega alla leiðina á Kjalarnes en snögghættum að hlæja þegar við lentum fyrir aftan mjög hægfara ökutæki! Það tekur á taugar nútímakvenna að aka á 30 í gegnum Hvalfjarðargöngin.

PavarottiÞað sem Járnblendiðlíklega róaði okkur niður var að Pavarotti var á fóninum og meira að segja jólalagið sem hann söng var algjörlega við hæfi. Upptökubíll frá RÚV lullaði fyrir framan okkur og við veltum aðeins fyrir okkur hvernig hann gæti mögulega komist fram fyrir langa bílaröðina sem hafði víst myndast í báðar áttir til að mynda mótmælin.

Ég hugsaði aðeins um að fremja afbrot á Skaganum þar sem löggan væri nú örugglega upptekin við að „berja á“ Saving Iceland en svo nennti ég því ekki. Himnaríki beið í yndislegheitum sínum. Mikið sakna ég annars ökuferðanna með Ástu í bæinn á morgnana.

Tommi liggur nú í leisíboj (hægindastóll sem við erum að passa) og erfðaprinsinn setti mjúkt teppi undir hann, púða við höfðalagið og fótaskemilinn út svo hann geti nú rétt almennilega úr sér, elsku Tommi í leisíbojkötturinn. Nú flæðir að við Langasandinn og allt lítur út fyrir að það verði fagrar, jafnvel svolítið stórar öldur á hlaðinu hjá mér þegar líður nær kvöldi.

Myndavélin sem ég er með í láni bilaði fyrir nokkrum dögum („format error“) svo ég bað elsku sænska ljósmyndarann í vinnunni um að kíkja á hana. Sá snillingur fann út að minniskortið væri ónýtt og þá voru hæg heimatökin að skipta um minniskort við heimkomu en ég hafði nýlega keypt slíkt kort í mína vél áður en skjárinn á henni eyðilagðist. Í „kaupbæti“ fékk ég góðar ráðleggingar um næstu myndavélarkaup.

Fyrsta myndin sem tekin var á vélina eftir kubbaskiptin er einmitt myndin af Tomma í hægindastólnum hættulega (svæfir hvern þann sem í hann sest). Ekki kannski tímamótamynd en sýnir engu að síður það dekur sem hann býr við hér í himnaríki.


mbl.is Mótmæli við Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leifar fellibyls, fagur máni og misheppnað Formúlugláp

Tunglið lágt á himni skínMikið hvín skemmtilega í himnaríki núna og fyrstu regndroparnir eru farnir að falla. Það er svolítið spennandi að fá leifar af fellibyl svona um hásumar. Sjá: http://esv.blog.is/blog/esv/entry/595578/  „Nú bregður svo við að allar líkur eru til þess að restar fellibyljarins Bertu stefni beint á landið á morgun.“ segir Einar veðurfræðingur orðrétt í pistli sínum í dag. Kannski kemur ekki mikið rok en það mun a.m.k. rigna einhver ósköp.

Það hefur verið gaman að horfa á tunglið koma upp á kvöldin og ég tók þessa mynd í fyrrakvöld. Svo hvarf það bak við ský eftir því sem það hækkaði á lofti. Nördinn í mér steingleymdi tilveru stjörnukíkis himnaríkis en þarna hefði verið flott tækifæri til að kíkja á mánann og það án þess að fá hálsríg.

Frosið sjónvarpVið erfðaprins gerðum heiðvirða tilraun til að horfa á Formúluna í hádeginu en sjónvarpið fraus í sífellu og líklega þarf að skipta um loftnet fljótlega. Ég held að minn maður, Hamilton, hafi unnið. Hann datt niður í þriðja sæti eftir að hafa tekið bensín í restina en eftir það ... bara truflanir í sjónvarpinu. Þá er ekkert að gera nema fara í bað, setja í þvottavél og slíkt. Nýlega keypti ég mér sjampó í Heilsuhúsinu, rosa vistvænt og náttúrulegt. Alltaf þegar ég helli úr brúsanum í lófann fer ég á huganum inn á fund hjá sjampófyrirtækinu. Framkvæmdastjóri: „Hvað eigum við að National Treasuregera til að auka söluna á þessu frábæra sjampói okkar?“ Starfsmaður: „Hvernig væri að víkka gatið á sjampóbrúsanum svo að fólk noti meira af því?“ Framkvæmdastjórinn: „Snilld, gerum það.“ Já, þetta er þannig sjampóbrúsi.

Held ég kúri mig bara undir sæng á eftir og horfi á eitt stykki vídjómynd, það er akkúrat veðrið til þess. Horfði á National Treasure II í gærkvöldi og hafði gaman af. Nú er það tölvuspennumorðmynd sem verður sett í tækið.


Rangar verðmerkingar og pödduofsóknir

Okrað á ÍslendingumAllt er lok, lok og læs í Einarsbúð um helgar. Það venst ... og það lækkar líka vöruverðið þar alveg helling. Við erfðaprins skruppum því í lágvöruverslun í dag og ákváðum að kaupa eitthvað létt í kvöldmatinn.

Hinn íslenski neytandi hefur breyst ákaflega mikið að undanförnu (takk, doktor Gunni) og það þykir loks orðið hallærislegt að leika „greifa“ sem borgar allt á okurverði möglunarlaust svo að fólk haldi ekki að það sé blankt! Ég hef breyst líka og hika ekki við að leiðrétta mismun upp á eina krónu ... eða myndi gera ef ég lenti í því.

P�tsurÞað voru girnilegar Frísettapítsur á tilboði í búðinni, eða ein sæmilega stór á 298 krónur. Borða helst ekki pítsur en lét þetta eftir erfðaprinsinum og setti tvær í innkaupakörfuna. Minntist á það við hann að ég ætlaði að vera vel vakandi við kassann og það var eins gott, stúlkan stimplaði inn 369 krónur! Ég benti kurteislega á þetta, yfirmaður kom, gerði eitthvað þegjandi og hvarf ... og á strimlinum sá ég að ég hafði fengið aðra pítsuna ókeypis, borgaði 369 krónur fyrir hina. Fékk sem sagt skaðabætur og að auki ósköp sætt bros frá kassadömunni. Ég snarhætti við að snarhætta að fara framar í þessa búð (þegar Einarsbúð er lokuð) en ætla svo sannarlega að fylgjast vel með alls staðar. Ég stundaði þó þögul mótmæli í búðinni og keypti ekkert sem var óverðmerkt, jafnvel þótt mig vantaði það. Ég er orðin svo þreytt á því hvað farið er illa með almenning á Íslandi. Það er okrað hryllilega á okkur víðast hvar, lánin okkar eru verðtryggð og siðleysi og klíkuskapur viðgengst víða. Eins og mér þykir vænt um landið mitt.

KóngulóarmaðurinnEinu sinni ákvað ég að flytja aldrei úr landi, sérstaklega út af pöddumálum en pöddur verða reyndar sífellt fyrirferðarmeiri hérna, sbr. geitunga og býflugur sem námu hér endanlega land um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Ég gæti því alveg flutt úr landi skordýralega séð!

Vinkona mín býr í einbýlishúsi hér á Skaganum. Gróinn garður er umhverfis húsið hennar en ekki mikið af blómum þar. Hún er ekki sérlega pödduhrædd en er að sturlast yfir kóngulóm sem ofsækja hana í tugatali, hún bar hátt í 50 kóngulær út úr húsinu í gær. Hún er með tuskuæði en samt ná kvikindin að vefa stóra vefi í íbúðinni hennar, alla vega á meðan hún sefur. Þetta er ekki eðlilegt og hún ætlar að flytja að heiman í viku og láta eitra allt húsið á meðan. Hún hefur verið að vinna í garðinum og helluleggja. Hún þurfti að færa nokkrar hellur daginn eftir og þvílíkt pödduríki sem var komið strax undir nýlagðar hellurnar. Fiskiflugur eru líka í tonnatali í íbúðinni hennar og núna veit ég hvers vegna þær hafa ekki sést í himnaríki þetta sumarið, þetta fljúgandi, gómsæta sushi fyrir kettina mína er greinilega flutt til kattarlausu vinkonu minnar. (Fékk svo mikið sjokk þegar ég setti inn spider á google að ég ákvað að stela frekar mynd þar af kóngulóarmanninum).


Karlarnir í strætó sögðu "sæt, sæt, sæt!"

Daðrað í strætóFann mikinn mun á öllu umhverfi mínu í morgun og hvernig það brást við tilveru minni og andliti. Karlarnir í strætó sögðu sæt, sæt, sæt og strætóbílstjórarnir heimtuðu ekki að sjá græna kortið mitt tvisvar, sem samsvarar því að borga tvöfalt í strætó, en það hafa þeir gert undanfarið. Jú, leðurfésið fer hverfandi, eins og glöggir lesendur hafa án efa áttað sig á, og týnda fegurðin er alveg við það að finnast. Indverjunum mínum heldur áfram að fækka, voru bara þrír eða fjórir í leið 18 morgun og fóru út á sama stað og ég. Ógreiddi maðurinn enn horfinn!

Góði strákurinnTókst að lesa aðra frábæra spennubók í slapplegheitunum og að þessu sinni nýútkomna þýðingu á bók eftir Dean Koontz, The Good Guy! Góði strákurinn. Tim Carrier situr í sakleysi sínu á barnum þegar inn kemur maður og fer að tala við hann. Fljótlega áttar Tim sig á því að maðurinn heldur að hann sé leigumorðingi og áður en hann veit af er hann kominn með umslag með peningum, mynd af konu sem á að myrða og gaurinn horfinn. Honum tekst ekki að stoppa manninn en þegar rétti leigumorðinginn kemur inn og heldur að Tim sé leigutakinn segir Tim honum að hann geti hirt peningana en áð hann sé hættur við samninginn. Hann veit þó að þetta virkar ekki til lengdar til að stoppa leigumorðingjanna af og ákveður Tim að reyna að bjarga fórnarlambinu frá grimma en góðlega leigumorðingjanum ... Þegar ég beið í apótekinu eftir nýja ofnæmislyfinu mínu stóð ég þar eins og þvara á miðju gólfi í korter og las ... það var engin leið að hætta. Mér brá samt svolítið fyrst þegar ég sá bókina og las aftan á hana og hélt að íslenski útgefandinn hefði ruglast eitthvað og gefið út sömu bókina tvisvar í röð. Fannst eitthvað líkt með byrjuninni á bókunum báðum en það var algjör ímyndun hjá mér. Léttir, léttir ...

Jæja, vinnan bíður. Óska ykkur bæði frama og/eða friðsældar í dag!


Rafmagnsleysi, bold og fyrri fegurðarþrá ...

Stuð í rafmagnslausu himnaríkiRafmagnið fór af hér á Skaganum í hálftíma í gærkvöldi. Þetta gerist ekki oft og kenni ég Önnu minni alfarið um þetta en hún hefði stýrt tölvunum í Orkuveitunni af öryggi í gær ef hún væri ekki í sumarfríi núna. Hvað gerir maður ekki í ofboði sínu þegar allt er hrifsað frá manni? Jú, ég fór að þvo spjarir á þvottabretti, strokka smjör, súrsa slátur og þess háttar og ég var ekki fyrr búin að búa mér til kaffi með hlóðabragði þegar rafmagnið kom á aftur. Erfðaprinsinn hafði þá handskorið ýmsa hluti og var að útbúa brúðuleikhús inni í sjónvarpstækinu. Hann er enn að reyna að púsla sjónvarpsinnvolsinu saman.

Fyrri fegurðHér í himnaríki hefur illa gengið að sofa út, hryllingsandlitið vekur eldsnemma og heimtar sitt krem! Lítið lát er á bólgu og kláða og langar mig mest að leggjast inn á spítala með íbúfen í æð ... Jamm, þetta var væl dagsins. Verst að við Mette-Marit erum ekki í sambandi, þá gæti ég spurt hana hvað bataferli hennar tók langan tíma þarna 2002. Ég veit auðvitað að hún myndi fara að væla um hornhimnubrunann sem hún fékk líka og gera lítið úr hinu. Doktor Sigríður sagði að það tæki fimmtudaginn og helgina að ná fyrri fegurð og nú er langt liðið á sunnudag, a.m.k. miðað við A-manneskju-fótaferðatímann þessa dagana.

Boldið er alltaf jafnspennandi. Thorne vill fara með samband þeirra Taylor yfir á næsta stig (fara að sofa hjá henni) og hún virðist bera tilfinningar til hans líka. Eric, pabbi Thornes, segir við Stefaníu, konu sína og mömmu Thornes, að hann sé eitthvað stressaður yfir samdrætti þeirra, enda svo stutt síðan BoldiðThorne varð ekkill, en Stefanía róar hann niður. Í þann mund kemur Thorne sjálfur og virðist vera að springa úr hamingju eftir rómantískt matarboðið með Taylor. „Mamma,“ segir hann, „ég er þér þakklátur fyrir að hafa látið mig hætta að leita að morðingja Dörlu og horfa fram á veginn.“ Morðinginn Taylor hefur það ekki jafnkósí því að garðyrkjumaðurinn er búinn að opna sig fyrir henni og líka Phoebe, dóttur hennar, Hectori slökkviliðsmanni og öðrum ungum manni og segist hafa orðið vitni að slysinu sem kostaði konu Thornes lífið. Taylor geðlæknir fær kast og ætlar enn einu sinni að viðurkenna allt fyrir Thorne þótt nú hafi bæst nýr einstaklingur við sem gæti endað í fangelsi fyrir samsekt, eða garðyrkjumaðurinn sjálfur. Hann lofar að steinþegja og vill ekki krónu fyrir það þótt ætlun hans hafi reyndar verið sú í upphafi að fá milljón dollara. Hector hneggjar af hneykslan og trúir engu sem kvikindið segir þeim.

Nick, Brooke og Hope DeaconsdóttirEftir að Brooke og Nick giftu sig aftur, eða endurnýjuðu heitin, eru þau að springa úr hamingju. Nick hefur þó áhyggjur af því að vera búinn að barna fyrrum eiginkonu sína og núverandi stjúpdóttur, hana Bridget. Brooke fær örugglega að vita fljótlega að hún er að verða amma stjúpsbarns síns. Verst að hún var búin að lofa Donnu, systur sinni, að Ridge væri endanlega horfinn úr hjarta hennar og gaf systu veiðileyfi á Ridge, með trega þó. Brooke sagðist vera svo örugg með Nick, hann myndi aldrei svíkja hana eins og Ridge gerði ... hahaha. Hún veit auðvitað ekki að þegar hún kyssti Ridge oggulítið á dögunum og það fréttist með ljóshraða innan fjölskyldunnar þá fór Nick og svaf hjá Bridget ... og barnaði hana.


Af sápuóperum og spennubók

Ljóta LetyÍ gær lullaði Stöð 2 á allan daginn og án þess að ég væri fyrir framan tækið tók ég eftir því að spænska var mjög áberandi fyrrihluta dags. Ákvað að kanna málið á Netinu og sá að komnar eru á dagskrá tvær sápuóperur í stað einnar þar sem töluð er spænska (eða portúgalska, þekki ekki muninn). Eftir boldið, sem er góðkunn ammrísk sápa, hófst þátturinn Ljóta Lety, fyrirmyndin að Ljótu Betty, eða La Fea Más Bella. Síðan eftir hádegisfréttir og áströlsku sápuna NágrannarNágranna tók við Forboðin fegurð, ný suðuramerísk smásápa í 114 þáttum og voru sýndir 3. og 4. þáttur í gær alveg til kl. 14.30. Þar er fjallað um þrjár hálfsystur sem alla tíð hafa liðið mjög fyrir fegurð sína ... Svo kom blessað boldið aftur í endursýningu og Nágrannar í kjölfarið. Segið svo að sápuóperur séu ekki vinsælar, bara í gær voru sex sýningar.

Mikið hlakka ég til að setjast í helgan stein ... sem verður pottþétt í leisígörl fyrir framan Stöð 2. Get fylgst með fallega fólkinu og lífi þess og lært framandi tungumál í leiðinni. Stundum horfi ég á Nágranna og skil áströlsku núorðið mjög vel.

Sænska bókarkápanSjónvarpsdagskráin var síðan hundleiðinleg í gærkvöldi, skárst á RÚV, og ég byrjaði að lesa nýja bók eftir Lizu Marklund, Lífstíð. Annika Bengtzon blaðakona er aðalpersónan í henni og kannar morð á lögreglumanni. Þessi bók byrjar þar sem Arfur Nóbels endaði en þar slapp hún naumlega út úr brennandi húsi með börn sín tvö ... Bækur Lizu Marlund eru allar frábærar og þessi lofar mjög góðu. Ætla að klára hana á eftir og hlakka mikið til.

Í morgun hefur lífið við Langasandinn verið eins og í myndinni The Birds, mávager og önnur krútt sveima í stórum flokkum fyrir framan og hafa Svona ...kettirnir verið á gluggaveiðum í allan morgun. Sitja ógurlega spenntir og stara. Erfðaprinsinn kom til mín áðan og sagði sannfærandi: „Það er allt annað að sjá þig!“ Ég leit í spegil og sá að andlitið var eldrautt og enn bólgið og ferkantað (hamstursfés). Ég kýs samt miklu frekar svona krúttlega lygi en ískaldan sannleikann.


Gáfulegt komment bloggvinar og skemmtilegt sumarævintýri

Skýjað en skyggni ágætt yfir hafið til Reykjavíkur og upp í Lyngháls þegar klukkan er orðin níu og ég ætti að vera sest við skrifborðið mitt eldhress á föstudegi ... Yfirleitt sef ég eins og vært ungbarn allar nætur en vaknaði tvisvar í nótt og hef ekkert getað sofið síðan kl. 6. Orsökin er klikkaður kláði í andlitinu og heima sit ég löðrandi í kremum og grisjum.

Konunglegur sólbruniFékk sérlega gáfulegt komment frá bloggvini og hefur það dregið heilmikið úr þjáningunum ... Þau Hákon krónprins af Noregi og eiginkona hans, Mette-Marit, fóru í sjónvarpsviðtal 8. maí 2002 og sátu förðuð úti í sólinni í 75 mínútur með þessum nákvæmlega sömu afleiðingum nema ég slapp við hornhimnuskaða, örugglega rétt svo ... Rut, þessi nýja uppáhaldsbloggvinkona mín, sagði m.a.: „Blandan var su sama og hja ther, smink og solarljos/ljoskastarar. Sannar thetta ekki bara ad thu ert edalborin?“

Þetta eitt og sér hefði líklega ekki nægt til að sannfæra mig en þegar þetta bætist við hið nánast ómögulega þegar við Elísabet II Englandsdrottning lentum báðar í því um svipað leyti að fá ókunnan mann á rúmstokkinn sitt í hvoru landinu, þá er þetta sönnun. Það er líka undarleg tilviljun að þyrlupallur er við hlið himnaríkis.

Tvær í myndlist í ÆvintýralandiLangar að vekja athygli á því að nokkur pláss eru laus tímabilin 23/7-29/7 (10-12 ára börn) og 30/7-5/8 (12-14 ára börn) í frábæru sumarbúðunum hennar Hildu systur, Ævintýralandi á Kleppjárnsreykjum. Kreppan hefur ýmsar birtingarmyndir. Ekki eitt eða tvö, heldur nokkur börn, hafa hætt við að koma því að einhverjar ferðaskrifstofur bjóða upp  á svo einstök kjör að nokkrir, sem ætluðu að senda börnin sín í sumarbúðirnar, stukku á freistandi tilboð til að fylla upp í laus sæti sem aðrir höfðu hætt við og þá var hægt að lækka ...

 

KleppjárnsreykirÞetta myndi eflaust litlu skipta ef Ævintýraland nyti milljóna, jafnvel tugmilljónastyrkja frá ríki, borg og einkaaðilum á ári hverju, eins og samkeppnisaðilarnir. Hildu munar um því um hvert barn, enda dýrt að reka svona metnaðarfulla starfsemi svo vel sé. Upplýsingar má finna á www.sumarbudir.is og svo er auðvitað hægt að lesa sér til um einstaka starfsemina á sumarbúðablogginu, www.sumarbudir.blog.is.

Vöfflur með súkkulaði og rjómaÞetta eru frábærar sumarbúðir sem hafa starfað í tíu ár við góðan orðstír og hafa þúsundir barna notið þess að dvelja þar. Börnin geta m.a. valið á milli námskeiða í leiklist, grímugerð, dansi, myndlist, kvikmyndagerð, íþróttum og fleira, það er t.d. karaókíkeppni í hverri viku, húllumhædagur, diskó o.fl. og svo frábær lokakvöldvaka þar sem börnin sýna afrakstur námskeiðanna. Svo er æðisleg sundlaug á staðnum. Ég vona innilega að Hilda nái að fylla þessi pláss en annars hefur aðsókn verið góð í sumar.


Á séns eftir tvo daga?

Doktor SigríðurÞað var nú bara skrambi gaman í vinnunni þegar íbúfenið fór að virka. Ég gekk niðurlút í matsalinn í hádeginu, sótti gómsætan grænmetisrétt og borðaði við skrifborðið. Varð ekki vör við uppnám í matsalnum sem sannfærir mig um að fólk starir almennt ekki gaumgæfilega í andlitið á öðru fólki, heldur bara á matinn sinn.

Tókst að vinna mikið og vel en um hálftvö kom erfðaprinsinn. Við keyrðum rólega heim í lítilli umferð og stefnt var á heilsugæsluna til að hitta doktor Sigríði. Ég hlýddi nefnilega Lilju strætóvinkonu, hringdi á læknavaktina í gærkvöldi og þar var fyrir svörum fyrrnefnd Sigríður sem ráðlagði mér að koma til sín í dag. Frú Sigríður vildi ekki meina að þetta væri ofnæmi, heldur annars stigs bruni. Hún ráðlagði samt ofnæmistöflur við kláðanum og að halda áfram að bera græðandi „galdrakremið“ (frá Móu) á mig og svo auðvitað að forðast sólina. Hún hafði heyrt af þessu góða kremi (sem fæst í Heilsuhúsinu) og virtist lítast vel á það. Ég stóð mig eins og hetja, fór ekkert að gráta og fékk nokkrar brunagrisjur að launum. Hef mikla trú á ungum konum í læknastéttinni. Treysti ekki lengur strákunum eftir að unglæknir nokkur karlkyns neitaði að kyssa á bágtið hjá mér heldur heimtaði að sauma!

Á biðstofunni hafði ég kíkt á stjörnuspána mína í nýjasta Nýju lífi og þar kom fram að eftir tvo daga verði miklar líkur á því að ég lendi í rómantísku atviki, eða núna laugardaginn 12. júlí. Eru ekki alveg sumir karlar hrifnir af konum með brunasár í andliti og bólguhnúða sem gerir þær eins og hamstra í framan?


Skelfing og hleypidómar ... sjokk við komu

Breiðholtshatarinn níddist á mérAf einstakri hetjulund dreif ég mig í vinnuna í morgun. Erfðaprinsinn bannaði mér að fara með strætó, sem ég skildi ekki alveg í fyrstu, og heimtaði að fá að skutla mér báðar leiðir. Ég gekk niðurlút inn á vinnustaðinn rétt fyrir kl. 9 og bölvaði því í hljóði að ekki væri vetur svo að ég gæti notað lambhúshettu. Vissi að ég væri ljót (í fyrsta sinn á ævinni) en ekki svo hræðileg sem kom í ljós á milli kl. 9 og 10. Það leið t.d. yfir Helgu Völu, sumir köstuðu upp, aðrir hlupu öskrandi í burtu úr póstnúmerinu, einhver sagði upp starfinu og Breiðholtshatarinn, sem átti erindi hingað, sagði við mig: „Andlitið á þér er eins og rassgat satans!“ Svo hló hann hræðslulega, barði mig í hausinn og flýtti sér á brott. Jamm, það eru enn stórar brunablöðrur og miklar bólgur í andlitinu. Ég fór eiginlega bara í vinnuna til að fá samúð en Gula skelfinginsá hvergi umhyggjusamt kærleiksblik í auga, bara hreina skelfingu. Það var eingöngu hún Margrét prófarkalesari sem sýndi mér smáumhyggju, í öruggri fjarlægð þó á hinum enda símalínu. Hún benti mér á ofnæmistöflur sem ég gæti keypt í apóteki, svona ef þetta væri ofnæmi. Ég skil nú af hverju erfðaprinsinn vildi ekki að ég færi með strætó í morgun. Maður hræðir ekki saklausa og góða farþega! Hvað þá bílstjórakrúttin mín og þetta veit erfðaprinsinn. Hann vill að ég eigi afturkvæmt í strætó á þessum óvissutímum verðbreytinga á bensíni. Ætla bara að vinna til rúmlega hádegis og svo er það bara hóm svít hóm! Eigið góðan dag kæru bloggvinir og farið varlega nálægt fokkings gula fíflinu!


Lokuð Hvalfjarðargöng

HvalfjarðargönginLilja strætóvinkona hringdi rétt áðan og var stödd í langri biðröð við Hvalfjarðargöngin. Hún er á bílnum sínum, aldrei þessu vant, og var forvitin um hvað væri í gangi. Ekkert kom um þetta í útvarpinu. Hún vonaði að ég væri heima svo að ég gæti sagt henni það. Á mbl.is var ekkert um lokunina en á visir.is var frétt um að fellihýsi hefði dottið af bíl í göngunum og farið utan í vegg. Þegar símtalinu var að ljúka kom aðvífandi maður frá Speli og sagði að það væri klukkutíma bið eftir að göngin yrðu opnuð aftur. Lilja ætlar að keyra Hvalfjörðinn. Þeir bloggvinir mínir af Skaganum sem enn eru í bænum og sjá þetta ... akið hægt. Hvað með strætó? Verður honum hleypt í gegn? Þetta setur annars alla áætlun dagsins algjörlega úr skorðum, 17.45 vagninn er nýfarinn frá Mosó. Jamm, alltaf gerist eitthvað spennandi þegar ég er heima!

Skúbb Moggabloggsins var í boði himnaríkis!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 350
  • Sl. sólarhring: 447
  • Sl. viku: 2066
  • Frá upphafi: 1454646

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 1702
  • Gestir í dag: 257
  • IP-tölur í dag: 252

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband