Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skrýtna árið 2001 - plús smá bold ...

Pabbi, Bryndís og erfðaprinsinnÍ dag á Dean Koontz rithöfundur afmæli og ekki bara hann, heldur einnig Elín Arnar, ritstjórinn minn. Til hamingju með daginn bæði tvö. Svo er þetta líka dánardagur pabba en hann dó þennan dag 2001, sjötugur að aldri.

Snemma í janúar 2001 dreymdi mig að ég missti fjórar tennur. Draumspök vinkona mín hristi höfuðið og sagði að þetta táknaði yfirleitt ástvinamissi. Hálfum mánuði seinna dó sonur vinafólks míns, yndislegur ungur maður, ég syrgði hann ofboðslega mikið og geri enn. Um sumarið missti móðursystir minn manninn sinn og skömmu síðar dó pabbi. Ég var löngu búin að gleyma þessum draumi mínum, enda hef ég talið drauma frekar vera undirmeðvitundina að verki frekar en að hafa forspárgildi. Rétt fyrir jólin þetta ár varð þrítugur frændi minn bráðkvaddur, ungur og efnilegur læknir sem dó frá konu og ungri dóttur. Í jarðarförinni hans mundi ég svo drauminn og ráðningu vinkonu minnar á honum.

11_sept_2001_596377.jpgÞegar 11. september-hörmungarnar dundu yfir gat ég ekki gert að því að hugsa að þarna hefði pabbi misst af miklu, hann var svo mikill fréttafíkill. Ein fyrsta bernskuminningin mín var þegar hann sat stjarfur fyrir framan útvarpstækið og sussaði á mig og systkini mín, Kennedy hefði nefnilega verið myrtur.

 

Heilsan er öll að koma til en ég er enn með brunablöðrur á kinnunum. Þær fara minnkandi og ég hef haft þær marineraðar í góða jurtasmyrslinu frá Móu. Það dregur alveg úr sviða og kláða. Líklega hefur húðin verið ofurviðkvæm eftir förðunina á mánudaginn og algjör klikkun að fara í sólbað á svölunum. Eins gott að ég keypti það um daginn þegar ég fór í Heilsuhúsið, annars væri ég í slæmum málum.

 

BridgetBrooke og NickNick ákvað að koma Brooke sinni á óvart, pantaði prest og þau giftu sig aftur ... ókei, endurnýjuðu heitin. Sama kvöld segir Bridget honum að hún sé ófrísk eftir hann. Þau ætla að segja Brooke þetta á morgun. Taylor fær viðurkenningu frá AA, 60 daga edrúmerkið. Hún og fyrrum mágur hennar, sorgmæddi ekkillinn, Thorne, virðast voða happí saman, enda veit hann ekki að hún ók af slysni á Dörlu og drap hana.

 

Dularfulli garðyrkjumaðurinn sem Phoebe næstum skar hendina af fyrir slysni Darla heitin og Thornebýr enn á heimili hennar og Taylor, mömmu hennar.

Þar býr líka Hector slökkiviliðsmaður, eftir að hann blindaðist í brunanum, og hann hefur grun um að garðyrkjumaðurinn sé eitthvað dúbíus. Ef hann bara vissi að nú er hann með Phoebe í bíltúr og segir henni að hann hafi verið vitni að dauða Dörlu. Hann hafi verið dularfulli, skeggjaði gaurinn sem næstum hræddi úr henni líftóruna þegar hann bauð fram hjálp sína við að skipta um dekk. Phoebe er dauðhrædd!


Þokan fjölgar Skagamönnum!

Þykk þoka á SkaganumÞykk þoka umlukti himnaríki í morgun og ég rétt komst út á stoppistöð, rataði eiginlega eftir minni. Aðeins einn farþegi var í strætó, ásamt bílstjóranum, sem ég held að heiti Skúli. Líklega hafa margir Skagamenn ráfað um í morgun og ekki fundið stoppistöðvarnar ... þokan hefur áður hjálpað okkur Skagamönnum við að fjölga okkur, ekki bara sem rökkvuð og kynlífshvetjandi, heldur er fólk fast á Skaganum og verður svo hrifið og ánægt eftir tvo, þrjá daga að það fer aldrei heim sín aftur. 

SkokkkkkKarlinn sem fyrir var í strætó þegar ég kom upp í hafði fyllt fremsta sætið af farangri og sat sjálfur á öðrum bekk, sætinu fyrir aftan. Ég fussaði og sveiaði (í gríni auðvitað) yfir því að sætið mitt væri fullt af töskum og drasli ... og settist fyrir aftan bílstjórann. Það fer betur um tískusýningardömuleggi mína löngu í fremstu sætunum. „Þú hefur greinilega verið á Írskum dögum?“ sagði ég, enda reyni ég við allt karlkyns sem hreyfist. „Já,“ sagði maðurinn, „ég skrapp svo aðeins á harmonikkuhátíð á Suðurnesjum.“ Einhverra hluta vegna fór hann svo að nöldra yfir EM í Sjónvarpinu, að fréttirnar hefðu verið teknar frá honum og svona. Ég og strákur sem bættist við hjá íþróttahúsinu bentum honum á að það væru fínar fréttir t.d. á Stöð 2, mbl.is, visir.is, dv.is og eyjan.is. Ætla að reyna að muna að verða ekki svona ... eða tryllist ef ég fæ ekki kvöldmatinn minn kl. 18.30 sharp, fréttirnar mínar kl. 1900 sharp og slíkt. Var reyndar búin að slökkva á sjarmanum þegar hann nefni harmonikkuhátíðina en þarna var mér nóg boðið. Sökkti mér niður í spennubók eftir Dean Koontz, dormaði í göngunumþar sem vantar lesljós í strætó og hélt svo áfram að lesa eftir göng. Dásamlegt alveg. Hitti Elínu í Mosó í leið 15 og hún var hress og skemmtileg eins og venjulega. Hún er farin að skokka og er víst enn á stiginu að „hlussast“, sagði hún. Hún er kornung alveg, reyndar orðin amma, en ætlar greinilega að verða hress amma og það lengi, lengi. Myndin hér að ofan er EKKI af Elínu en var samt ábyggilega tekin í Mosfellsbænum um helgina ... sýnist þetta jafnvel geta verið Sigurður Hreiðar.

ÍsfólkiðÍ leið 18 voru flestir gömlu, góðu farþegarnir, NEMA sá ógreiddi. Tek það fram að ef hann er búinn að þvo sér um hárið og láta klippa sig þá er ekki séns að ég þekki hann í útliti. Ljúf skátastelpa spjallaði við mig í Ártúni og kom líka upp í leið 18, hún er að lesa bók nr. 26 af Ísfólkinu. Ég sagði henni að sonur minn , 28 ára, hefði verið 2-3 ára þegar ég keypti í algjöru hallæri Ísfólksbók nr. 5, enda eina bókin sem til var í sjoppunni, og bara haft gaman af. „Já, þetta eru frábærar bækur,“ sagði stelpan sem er í unglingavinnunni og er að lesa Ísfólkið í annað skiptið.   

Haffi HaffAð vanda farðaði Haffi Haff mig við komu .... hmmm, nei, kannski ekki á hverjum morgni, en núna í morgun, það á nefnilega að skipta um myndir af okkur fögru blaðakonunum, þessar sem eru fremst í blaðinu og ég get ekki sagt að ég bíði spennt eftir útkomunni.

Ég myndast venjulega eins og vitfirrtur vélsagarmorðingi, þrátt fyrir flotta förðun og jafnvel íbúfentöflu.

Hafið það gott í dag, kæru bloggvinir, og passið ykkur á sólinni!


Skúrkur og bjargvættur

Svarti riddarinnSamstarfsmaður minn sagði mér skemmtilega björgunarsögu fyrir skömmu, sögu sem gerðist fyrir kannski 15-20 árum, og sú rataði beint í nýju lífsreynslusögubókina sem var að koma út. 

Töffari gengur eftir Njálsgötunni að nóttu til um helgi með dömu sér við hlið, sér reyk leggja út um glugga húss, gerir sér lítið fyrir og hendir sér á rúðuna (hann var í mótorhjólaleðurgalla) og rúllar inn í stofuna á glerbrotunum, leitar í íbúðinni þar til hann finnur gamla, sofandi konu í svefnherbergi við hlið stofunnar. Vekur hana og ber í fanginu út og bíður svo eftir slökkviliði og löggu. Þetta var mikið upplifelsi fyrir gömlu konuna sem lýsti þessu sífellt æsilegar eftir því sem hún sagði söguna oftar og ekki var verra að hún fékk að vera í heila þrjá tíma um nóttina í löggubílnum, enginn tími til að skutla henni heim til samstarfsmanns míns og konu hans fyrir fylleríslátum í miðbænum. Gömlu konunni þótti víst ógurlega gaman að tala við „glæpónana“ sem komu aftur í löggubílinn til hennar og reyndi eftir bestu getu að vísa þeim rétta leið í lífinu. Hún var á náttkjólnum en kápu utanyfir og hárkollulaus en það var allt í lagi, þetta var svo spennandi.

Samstarfsmaður minn fór á Bíóbarinn nokkru seinna og hitti þar nokkra kunningja sína. Hann fór að segja frá þessu og einn maðurinn við borðið sagði: „Aha, þetta var ég!“ Og já, það var maðurinn í meðfylgjandi frétt (sjá nánar á visir.is) sem bjargaði gömlu konunni frá bráðum bana á Njálsgötunni forðum. Leiðinlegt að vita til þess að hann tengist mögulega þessu máli.

Við Halldór frændi skruppum í Borgarfjörðinn í dag og áttum skemmtilega stund með Önnu vinkonu okkar og fleira fólki í fallega sumarbústaðnum hennar. Þar var glatt á hjalla, enda þekkir Anna bara fyndið og skemmtilegt fólk (eins og t.d. okkur Halldór) ... Sjálf sagði hún frá því að það væri þekkt innan sagnfræðinngar (hún er m.a. sagnfræðingur, tölvunarfræðingur og myndlistarkona) að það væri gefið út fyrra bindi, annað bindi og þriðja bindi af sagnfræðiritum ... mér fannst það mjög fyndið. Halldór sagði um tvær drykkfelldar konur sem hann kannast við ... að það hefði slest upp á vínskápinn hjá þeim og við orguðum úr hlátri. Stundum er gott að vera með penna og blað á sér til að hripa niður ... hugsaði það stundum þegar Tommi bílstjóri fór á kostum í strætóferðunum í denn. Nú ekur Tommi bara fyrir BYKO og er sárt saknað af okkur farþegum.

Erfðaprinsinn sótti mig á bílaplanið við Hvalfjarðargöngin af því að Halldór hatar mig og nennti ekki að skutlast með mig á Skagann á heimleiðinni, laug því að hann væri tímabundinn. Við Halldór vorum aðeins seinni þangað og hvað gerir löggan ef hún sér rauðan sportbíl standa kyrrstæðan og bílstjóri með sólgleraugu undir stýri? Jú, hún tékkar á málum ... Þegar hann sagðist vera að bíða eftir MÖMMU sinni þá þótti það nógu meinleysislegt til að hægt væri að kveðja brosandi án þess að vilja einu sinni sjá ökuskírteinið. Mig grunar að erfðaprinsinn fái sér Toyotu (ekki sporttýpu) næst! Við Halldór mættum svo þessum löggum skömmu seinna og vorum blessunarlega á 90 km/klst. Auðvitað, annað væri bara hálfvitalegt! Halldór fékk reyndar mjög góða útrás í síðustu viku þegar hann ók á bílaleigu-Benz á 270 km/klst á hraðbraut í Þýskalandi og var samt ekkert hraðskreiðari en flestir aðrir þar. Ég ætla sko með honum næst til Þýskalands á hraðbrautina, alla vega ætla ég að horfa á Formúluna á morgun. Vá ... 270, það hlýtur að vera gaman!


mbl.is Annar handtekinn í húsbílasmygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartalæknir í Skagastrætó - ný lífsreynslusögubók komin út!

StrætóLoksins mætti ég með galopin augu í strætó í morgun eftir langþráðan mátulega langan nætursvefn. Bjóst alveg eins við að splunkunýi bílstjórinn úr móðu undanfarinna morgna væri jafnvel kona eða þaðan af verra ... eftir gott frí hef ég ekki verið nema skugginn af sjálfri mér eftir að þurfa að vakna uppúr sjö á morgnana, les lengi frameftir og sýni vítavert kæruleysi í því að reyna að fá almennilegan nætursvefn. Bílstjórinn reyndist alveg vera hinn skemmtilegasti karl, eins og mig minnti, og sagðist hafa sett met í morgun ... eða ekið með heila fjóra farþega frá Mosó til Akraness í fyrstu ferð. Helmingur farþega voru víst læknishjón, karlinn hjartasérfræðingur og á helgarvakt á sjúkrahúsinu. Það datt óvart af mér andlitið eitt augnablik ... læknir í strætó?? En hví ekki? Er ég ekki virðulegur blaðamaður, meira að segja aðstoðarritstjóri? Hví kýs ég strætó? Ja, ekki er það af neinum lúðahætti, ég þori bara ekki að keyra bíl ... Læknirinn tók víst rándýrar endurbætur á stofu sinni framyfir að eiga bíl ... og vá hvað ég skil hann. Öruggur með sig, þarf ekki stöðutákn á borð við jeppa. Er ekki líka svolítið flott að aka um í stórum, dýrum bíl og hafa einkabílstjóra?

Yfirleitt eru ansi fáir með fyrstu ferð á Skagann á morgnana á meðan fara tvær rútur af fólki í hina áttina, eða til Reykjavíkur. Notkun hefur greinilega aukist eftir skelfilegar bensínhækkanir síðustu vikna því það nægði að hafa bara einn vagn í fyrstu ferð allt sumarið í fyrra. Ég fór meira að segja stundum heim á Skagann með rútukálfi sl. sumar. Engin Elín kom upp í strætó í Mosó í morgun, ég sat með þrumusvip á andlitinu til að enginn þyrði að setjast hjá mér (eftir sundurstíun á okkur Elínu undanfarna morgna). Þegar mér loks tókst að taka frá sæti þá klikkar hún ...

Indverskur forritariÓgreiddi maðurinn sat í sama sætinu og í gær og breiddi svo vel úr sér að ég sá að hann var í brúnum, mjög illa burstuðum skóm. Sumir þjást af hræðslu við kóngulær eða töluna 13 og aðrir óttast skuldbindingu, þessi ungi maður gæti verið burstafælinn (hárbursta-, skóbursta- osfrv.) Svo var allt gert til að rugla mig og þýðandann í ríminu, nú fór hluti Indverjanna út á gamla staðnum og stærri hluti út um leið og við, nema sá ógreiddi kom út um leið og við, eins og í gær. Einhvern morguninn ætla ég ekki í vinnuna, heldur elta samferðamennina, bara til að geta sagt ykkur hvert liðið mitt fer. Við verðum alla vega að komast að því hvar sá ógreiddi vinnur, ekki satt? Minnir að Indverjarnir (karlar plús ein kona) séu hjá Glitni við tölvuforritun.

Bókin í fyrraNú var að koma út bókin 50 íslenskar lífsreynslusögur, fallega túrkísblá að lit og inniheldur 15 djúsí splunkunýjar lífsreynslusögur og 35 eldri sögur sem hafa birst í Vikunni áður. Vá, það var svo gaman að rifja þessar sögur upp. Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Mannlífs, sá mig handleika fyrsta eintakið (ógurlega montna, eins og Þingeyinga aftur í ættir er siður) og sagði vingjarnlega: „Ég veit að þú samdir allar þessar sögur sjálf ... og þar að auki ertu völva Vikunnar!“ Ég vissi ekki hvort ég ætti að vera upp með mér yfir þessu áliti hans eða móðguð fyrir mína hönd, völvunnar og Völvublaðið fyrir 2007fólksins sem hefur sagt mér sögur sínar ... Ég hallast að því að þetta teljist hrós og SME álíti mig einstaklega hugmyndaríka, fallega, gáfaða og að auki með miðilshæfileika. Hver annar en miðill (völvan okkar) hefði getað sagt fyrir um lætin í borginni og að borgarstjórin myndi springa, hún segir reyndar að ríkisstjórnin springi líka ... Eina sem mér finnst ólíklegt að rætist hjá völvunni er að ÍA berjist um fyrsta sætið við Val í Landsbankadeild karla! Hún hlýtur að hafa lesið hugsanir mínar og tekið inn óskhyggjuna þegar ég tók viðtalið við hana ... ég held með ÍA og finnst Gaui Þórðar ekki fram úr hófi skapmikill, bara eðlilegur fótboltaþjálfari! Hverjum er ekki illa við dómara? Hér að ofan sést mynd af lífsreynslusögubókinni sem kom út í fyrra. Þessi nýja er næstum alveg eins í útliti ... nema túrkísblá!


Táp og fjör ...

Beðið eftir öldumHaustlegt er nú hérna við Langasandinn. Það hvín í öllu í himnaríki sem gerir notalega stemmningu. Ef vindáttin væri vestlæg mætti nú sjá glæstar öldur skvettast á steinana en það bíður bara næsta roks.

Heimsótti pólska lækninn minn undir hádegi til að fá áframhaldandi sjúkraþjálfun og hélt árangursríka ræðu yfir henni um nauðsyn þess að hafa Betu sem fastan lið í lífi mínu á þriðjudögum. Beta hefur unnið algjört kraftaverk og gert mig miklu sprækari. Ég var við það að leggjast í kör eftir óhapp og ekki skánaði ástandið eftir blóðuga slysið á ógæfumölinni um árið. Níu saumför á hægra hné eru til lettfaett_i_straeto.jpgmerkis um það. Stríðsáverkar eða íþróttameiðsli kallast þetta núna, fer eftir því hver sér örið.

Nú nánast stekk ég upp í og út úr strætisvögnunum eins og léttfætt hind kvölds og morgna og get eiginlega ekki neytt erfðaprinsinn lengur til að gera öll heimilisverkin. Mér hefur enn um sinn verið forðað frá ótímabærum hrumleika, enda bara fjörutíu plús ... fram í ágúst þegar við Madonna höldum upp á 100 árin.

Leið 27

 Nýi bílstjórinn var í Skrúðgarðinum sem minnti mig á að kaupa græna kortið. Hann er voða hress og verður vonandi áfram í vetur ef Gummi kemur ekki aftur. Ég lagði mitt af mörkum til að halda honum með því að segja honum að hann gæti ómögulega fundið betri og yndislegri og skemmtilegri og fallegri farþega en okkur Skagamenn! Þegar hann er orðinn fastur á önglinum getur maður farið að hreyta í hann ónotum, heimta að hann setji X-ið á hæsta í stað rólegheitanna á Rás 1, bannað honum hörkulega að taka geitunga upp í bílinn, neytt hann til að halda með ÍA og svo til að vera með rauða hárkollu á föstudaginn en þá hefjast Írskir dagar.


Keðjubréf, bæjarferð, Rambo og blúnduhegðun

RuslpósturÞá er ég búin að fá 16 tölvupósta um að kaupa ekki bensín á sumum bensínstöðvum. Ég á ekki bíl! Ég fæ mjög reglulega senda raðpósta, brandara, áskoranir, keðjubréf og fleira. Stundum hef ég sent til baka: „Þetta var 23 bréfið um lífsbaráttu kvenna í Afghanistan, nú hlýt ég að fara að ná þessu!“ Jamm, ég held að ég sé að breytast í nöldurskjóðu. Þetta er ekki illa meint og hvernig á fólk sem ég á í litlum samskiptum við að vita að ég er nauðug á svona 200 póstlistum? M.a. hjá fólki sem ég þekki EKKERT! Ætla að vera jákvæð og hætta að líta á þetta sem ofbeldi. Alltaf gott að láta safna sér. Maður er a.m.k. ekki einmana á meðan maður eyðir t.d. tilkynningum um heppni sína í nígeríska lottóinu, já, það líka.

Í sumarbúðunumVið erfðaprins fórum í stutta bæjarferð í dag og ég kíkti aðeins við í vinnuna til að sækja mér blöð. Kvartaði við Vikugellurnar um misbrúnku handleggja og þær hlógu illgirnislega að óláni mínu. Nú fer sumarleyfinu að ljúka ... og líklega góða veðrinu líka. Samkvæmt veðursíðunni minni www.yr.no fer að rigna upp úr helgi. Hægt er að setja velflesta, kannski alla staði Íslands inn og á íslensku, og fá greinargóða veðurspá og langtímaspá. Á ensku eða norsku. Um daginn kíkti ég á „Kleppjárnsreyki“, þar sem sumarbúðirnar eru, (www.sumarbudir.blog.is) á síðunni og Bjartur og Sigþórspáð var rigningu ... en eintóm sól hefur skinið þar í bráðum þrjár vikur. Stöku skúrir og búið! Mun sannarlega sólbaðast hér á Skaganum á morgun ... og ætla að muna að hylja hægri handlegginn.

 

Við flýttum okkur heim fyrir leikinn ... sem var síðan ekkert rosalega spennandi. Vona að úrslitaleikurinn á sunnudaginn verði betri! Við flýttum okkur líka heim því að við héldum að Bjartur gestaköttur yrði sóttur í kvöld en Sigþór „pabbi hans“ hringdi snemma í kvöld og sagði að það yrði seinnipartinn á morgun (föstudag, já, ég er að blogga um miðja nótt)

RamboHér var horft á Rambo á vídjó í kvöld, rosaleg mynd. Mér fannst hún þrælgóð en þurfti nokkrum sinnum að loka augunum yfir ofbeldisfyllstu atriðunum. Einhver smá blúnda í mér.

Sense and sensibilitySá fyrr í vikunni Sense and Sensibility (BBC-þættina) og fannst það ekkert leiðinlegt. Einhver gömul væmni virðist vera að taka sig upp án nokkurrar ástæðu. Veit ekki hvar þetta endar. Þið hnippið kannski í mig kæru bloggvinir þegar ég fer að skrifa um fótbolta og Formúlu af viðbjóði!


Djarft en árangurslaust sólbað og nýjasta boldið!

Mikið rosalega var leikurinn spennandi ... og Tyrkirnir góðir! Vegna ferða í sumarbúðirnar til Hildu hef ég ekkert séð til Tyrkjanna á mótinu og var stórhrifin núna. Vonandi verður leikurinn á morgun jafngóður. Rússland-Spánn!

 

Misbrúnar hendurErfðaprinsinn fór í bæinn í dag, að sjálfsögðu með strætó í sparnaðarskyni, og ég brá mér í ansi djarft sólbað í svona klukkutíma. Þyrfti að gera það aftur á morgun þar sem ekki dugði að hylja alveg hægri handlegginn í sólbaðinu, hann er enn talsvert brúnni en sá vinstri sem er bara viðbjóður. Sé til hvað ég get gert með brúnkuklút ef hyljaraaðferðin gengur ekki.

Nennti ekki í sólbað eina sekúndu í gær og hafði smá samviskubit, enda alin upp við að nota hvern einasta sólargeisla. Ég man eftir því þegar eitt sumarið á áttunda áratugnum varði einn eftirmiðdag, kom eftir hádegi á miðvikudegi og svo rigndi daginn eftir og alla restina af sumrinu!

Þetta er nú meiri heppnin, tvö ár í röð hef ég fengið svona gott veður í sumarfríinu mínu!

 

Horfði með öðru auganu í gær á Traveler, þáttinn þarna sem hætt var framleiðslu á eftir átta þætti og allt skilið eftir í lausu lofti. Þáttinn sem Stöð 2 keypti til að gleðja sumaráhorfendur sína. Þeir fara vonandi í skaðabótamál fyrir svikin, varla hafa gert þetta viljandi. „Spennuþættir á útsölu, vantar bara fjóra þætti, eða endinn. Ódýrt, ódýrt!“

 

Út í óvissunaEngar martraðir hafa angrað mig síðan asíski morðinginn elti okkur erfðaprins, enda les ég saklausar bókmenntir núna. Leitin eftir Desmond Bagley er bara þrælskemmtileg í enn eitt skiptið. Leitaði árangurslaust að skemmtilegri ástarsögu en fann enga. Bagley bregst ekki, hann skrifaði meira að segja spennusögu sem gerist á Íslandi, Út í óvissuna.

 

 

Þeir feitu og falleguÍ boldinu er það helst að frétta að Thorne, ekkillinn sorgmæddi, bróðir Ridge, sonur Stefaníu og eitt sinn kvæntur Brooke, er orðinn skotinn í geðlækninum Taylor, (konunni sem keyrði á konu hans og drap hana óvart og enginn veit af því nema Stefanía, Hector slökkviliðsmaður og dóttirin Phoebe). Hector er samt alltaf rosalega skotinn í henni og þar sem hann er orðinn blindur eftir atvikið þegar hann batt Taylor við handriðið til að varna því að hún segði Thorne sannleikann og það kviknaði í og bjálki datt ofan á hann, vorkennir Taylor honum og leyfir honum að búa á heimili hennar og Phoebe. Það pirrar Stefaníu, mömmu Ridge og Thorne, alveg hryllilega mikið og hún segir hann vera að notfæra sér samúð og sektarkennd Taylors.

Nick svaf hjá Bridget, fyrri konu sinni og núverandi stjúpdóttur, þegar hann hélt að Brooke, kona hans, væri farin aftur til Ridge. Brooke kyssti alla vega Ridge í hita augnabliksins. Bridget elskar hann enn og hlakkar til að fá hann aftur til sín. Brooke tókst þó að telja honum hughvarf og trú um ódauðlega ást þeirra og aumingja dr. Bridget fær ekki prinsinn sinn. Nick langar mest af öllu að segja Brooke frá þessu en Bridget kveinar: „Nei, ekki segja mömmu!“ Ridge er farinn eitthvað til útlanda með Donnu, yngri systur Brooke og tilvonandi stjúpmóður hans ef kjaftasögur eru réttar, til að sýna henni að hann hefði ekki verið að notfæra sér hana til að gera Brooke afbrýðisama.


Með leigumorðingja á hælunum og dularfullt kattarhvarf

LeigumorðinginnNóttin var fáránlega annasöm. Gerður hafði verið út leigumorðingi til að drepa okkur erfðaprins og vorum við á flótta undan honum í alla nótt. Við þurftum á allri okkar kænsku og ráðsnilld að halda því þetta var ansi klár morðingi, asískur að uppruna. Við flúðum og földum okkur um allt Akranes og var t.d. María í Skrúðgarðinum okkur afar hjálpleg, líka Nína í samnefndri tískubúð (þar sem Dorrit kaupir stundum fatnað). Þetta er sko ekki í fyrsta sinn sem þessi leigumorðingi eltist við okkur en við höfðum alltaf haft betur. Ekki veit ég hver gerði hann út, kannski einhver bloggóvina minna ....

BókinVaknaði upp af martröðinni kl. 6 í morgun og þorði ekki að sofna aftur ... sem náttúrlega mistókst.

Þetta hlaut að vera fyrir einhverju ... og jú, þriðji ísbjörninn ... (hehhehe, djók), Bjartur var týndur!!! Gestakötturinn í himnaríki var horfinn sporlaust. Hann sem var að leika sér áhyggjulaus í nótt þegar ég las græðgislega Tré Janissaranna, æsispennandi bók sem gerist í Istanbúl árið 1836. Við erfðaprins leituðum um allt, kölluðum, mjálmuðum og hvaðeina, sérstaklega í þvottahúsinu þar sem Bjartur hefur helgað sér svæði (ekki þó með því að spræna þar). Þegar erfðaprinsinn var búinn að leita af sér allan grun umhverfis himnaríki og kominn alla leið í Hjarðarholtið þar sem heimili Bjarts er og kallaði þar fyrir utan datt mér í hug að leita bak við þurrkarann í himnaríki. Þar lá Bjartur í makindum og sagði bara mjá þegar hann sá mig. Þvílíkur léttir.

Leitin að BjartiErfðaprinsinn var búinn að gera leitaráætlun og átti að beita öllum tiltækum ráðum, það er jú þyrlupallur við hliðina á himnaríki. Ég sá mág minn fyrir mér með brostið hjarta og mitt var byrjað að bresta yfir öllum þessum hryllingi. Það er mikil ábyrgð að passa kött.

Svo tók skynsemin völdin. Bjartur hafði ekkert leitað upp í opna glugga, virtist frekar lofthræddur hérna uppi á 4. hæð og líka ólíklegt að hann hefði Bjartur í pössun í fyrrasloppið við beinbrot ef hann hefði hoppað út um glugga.

Þetta dýrlega dekurdýr hefur bara ekki nennt að svara „frænku“ þegar hún kallaði örvæntingarfullt á hann. Nú étur hann kattamat í gríð og erg og erfðaprinsinn er að klappa honum í ræmur. Hann var búinn að aflýsa Einarsbúðarferð því að Bjartur gekk fyrir öllu. Allt er gott sem endar vel, nema ég vaknaði áður en við erfðaprins réðum niðurlögum leigumorðingjans. Held ég þrái samt ekkert þennan draum einu sinni enn. Kannski ég lesi bara krúttlega kjéddlíngabók í kvöld.


Af kynjahlutverkum í himnaríki ...

Fótbolti„Framlenging,“ öskraði ég úr vinnuherberginu. „Já,“ svaraði erfðaprinsinn. Ekki svo löngu síðar kallaði hann úr austurhlutanum: „Kvennamorðklúbburinn er að byrja!“ „Takk,“ heyrðist frá vesturhluta himnaríkis af svipuðum uppgerðaráhuga, enda stefndi allt í vítaspyrnukeppni í leik Spánverja og Ítala. „Vítaspyrnukeppni!“ gargaði ég nokkru síðar. „Aha,“ umlaði sonurinn.

 

UppeldiðMér hefur hefnst fyrir allt of „opið“ uppeldi. Dæmi: „Láttu engan segja þér, kæri erfðaprins, hvað þú átt að horfa á í sjónvarpinu. Þú ert ekkert minni strákur þótt þú horfir á eitthvað sem merkt er stelpum sérstaklega!“ sagði ég við hann þegar hann var yngri í þeim tilgangi að efla sjálfstæða hugsun hans. Þetta var vel meint en ég finn að það er að koma í hausinn á mér núna. Alltaf gott að hafa félagsskap í boltanum.

 

Stöð 2 auglýsir stelpudagskrá, og SkjárEinn líka, á meðan strákarnir horfa á boltann en kynjahlutverkin hafa eitthvað snúist við hérna á heimilinu. Ég þarf líklega að skreppa niður á Mörk til að horfa á boltann með „hinum“ strákunum, verst að kaffið þar er eflaust ekki mjög gott. Sjáum þó til þegar úrslitaleikirnir hefjast, mig grunar að einhverju verði fórnað fyrir þá. Annars bjó ég til sunnudagsvöfflurnar í dag og kynjajafnaði þetta aðeins.

 

KvennamorðklúbburinnLíklega hefði ég nú bara platað erfðaprinsinn til að setja á Stöð 2 plús og horft á Knennamorðklúbbinn ef ég væri ekki búin að lesa bækurnar. Þær eru venjulegar spennubækur og frekar mikið spennandi. Þetta segir bara að ég er allt of íhaldssöm og þoli illa of miklar breytingar frá bók yfir í sjónvarp. Stöðvar 2-kynningarnar á Kvennamorðklúbbnum voru alveg réttar og ég sem nöldraði út í eitt yfir þeim, algjör mistök! Spiluð er svona rómantísk tónlist undir ýmsum atriðum þegar tilfinningar koma við sögu en konurnar virðast samt nokkuð klárar, þótt þær séu konur, ég sá restina af þættinum. Svona sæt tónlist er reyndar líka spiluð undir í elsku Grey´s Anatomy og passar bara vel þar, enda hef ég ekki lesið bækurnar ... Æ, mér finnst ég hafa verið svikin um spennuna. Svo þarf ég endilega að fletta upp í bókunum og athuga hvort ein kvennanna; réttarmeinafræðingurinn, saksóknarinn eða löggan, sé svo klígjugjörn að hún kasti upp á morðstað, það var alla vega í síðasta þætti, sýndist mér. Uppköst eru nú ekki sérlega dömuleg, nema verið sé kannski að undirstrika veikleika eða eigi að vera krúttlegt. Hmmm!

 

MonkÉg fórnaði restinni af Monk fyrir restina af leiknum, framlenginguna og vítaspyrnukeppnina. Þannig að ég veit ekkert hvort Monk tókst að hreinsa sig af skotárás á jólasvein þarna í byrjuninni.

 

Ally mín elskulegSvo fer Ally McBeal að hefjast ... annað hvort þarf ég að fórna boldinu eða fótboltanum. Hmmm, líklega boldinu! Það líður þó að boldfærslu. Hjónaband Nicks og Brooke er t.d. að fara í hundana. Bridget huggar Nick, stjúpföður sinn og fyrrverandi eiginmann, og segir honum að Brooke endi ALLTAF hjá Ridge. Donna er brjáluð út í Ridge, búin að fatta að hann hefur verið að nota hana til að gera systur hennar, Brooke, afbrýðisama. Jamms, meira á morgun.


Sumaróhljóð, kattarpössun og sólbað í kynþokkabol

Ekki að spyrja að krökkunum í unglingavinnunniSumarhljóðin eru sannarlega ekki alltaf krúttleg. Jú, lóan kvakar, spóinn gargar og allt það en það er ekkert krúttlegt við háværar garðsláttuvélar í gangi klukkan hálfníu á morgnana þegar fólk í sumarfríi ætlar að sofa til tíu. En gaman var að sjá hvað krakkarnir í unglingavinnunni hafa verið duglegir upp á síðkastið. Verð víst að viðurkenna það. Svefnófriður er fórnarkostnaður fyrir fallegt umhverfi.

 

 

Tommi sæti í stofuglugganumNú er Bjartur Sigþórs- og Míuson kominn í stutta pössun í himnaríki. Vera hans hefur verið sallaróleg hingað til og hafa þeir Tommi lygnt aftur augunum hvor framan í annan en það þýðir „friður“ á kattamáli. Sjálf hef ég laðað að mér marga stygga ketti með svona hægu blikki, ætti kannski að prófa það á karlana svo ég gangi mögulega út áður en ég verð fimmtug. Nú er bara nokkrar vikur til stefnu. Held þó að „friður“ virki ekkert endilega á strákana. Og þó. Hef ögn meiri áhyggjur af Kubbi sem þolir illa aðra ketti en sjálfa sig. Hún er soddan prinsessa.

 

Sólbrúnka eða bruniÆtla í sólbað á svölunum á eftir, það er logn úti og bara algjört dýrðarinnar veður. Ekki get ég komið til vinnu aftur eftir rúma viku eins og undanrenna á litinn. Er þegar komin í kynþokkabolinn sem mamma gaf mér í afmælisgjöf í fyrra en hálsmál hans nær niður á nafla og rúmlega það. Ekki mjög siðprúður bolur, verð ég að segja. Hvað var hún móðir mín að hugsa?

Veit einhver hvernig það er ... ef maður notar sólvörn verður maður þá ekkert brúnn? Eða kemur sólvörnin bara í veg fyrir bruna? Jamm, ég er óvön svona sólböðum og þarf að taka spennandi bók með mér á svalirnar ef ég á að tolla þar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 176
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 1200
  • Frá upphafi: 1459271

Annað

  • Innlit í dag: 126
  • Innlit sl. viku: 987
  • Gestir í dag: 123
  • IP-tölur í dag: 121

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 12. ágúst sko
  • Nöfn
  • Skvasssss

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband