Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Matar- og tónlistarblogg

MaturinnMatarboðið gekk frábærlega. Maturinn heppnaðist sjúklega vel, heiðursgesturinn, Inga, var svo þreytttttt að hún kom ekki, enda búin að vinna mikið og vaka lengi. Vildi að hún hefði sofið í himnaríki í dag og náð að koma í matinn. Hún hefur ekki svo oft á þessum 24 árum sem við höfum þekkst fengið ætan bita hjá mér. Enda er hún kokkurinn og ég bakarinn. Það var ekki hægt að klúðra þessu kjöti í dag, enda útbúið af kærleika og miklum hæfileikum af Einarsbúðarsnillingunum. Fylltur lambahryggur með gráðaosti og villisveppum. Sveppasósa með (bara úr pakka ... en með nokkrum villisveppum sem kokkurinn í Einarsbúð lét fylgja með), grænmetisréttur með sætum kartöflum og fleira (uppskrift kemur bráðum, sérstaklega fyrir Jennýju), gular baunir, hitaðar með smjöri, salti og pipar og að síðustu ferskt salat með alls kyns grænmeti.

Himnaríki 591 Erfðaprinsinn á mikinn heiður skilinn, hann hélt öllu hreinu á meðan ég djöflaðist, henti öllu rusli jafnóðum, algjör hjálparhella. Það var soldið fyndið að hafa 2/3 Idol-dómaranna í stofunni hjá sér á meðan Laugardagslögin hljómuðu, ætla að blaðra því að Ragnheiður Gröndal féll þvílíkt í kramið hjá okkur öllum, að hinum ólöstuðum. Þriðji dómarinn var reyndar á staðnum ... á sófaborðinu í formi "Öll trixin í bókinni".

Svo fóru allir í einu um tíuleytið ... Monika í bæinn en Palli vildi sjá húsið hennar Ellýjar áður en hann fer að skrattast í Breiðinni (gamla Hótel Akranesi). Ég mundi loks eftir myndavélinni en ég gleymdi henni alveg í gærkvöldi í þættinum, í Skrúðgarðinum í dag og á tónleikunum í Bíóhöllinni ... og á núna m.a. þrjár algjörar hryllingsmyndir af gestunum. Meira að segja fallegi erfðaprinsinn minn myndaðist illa.

Stutt í að haldið verði í draumalandið og vei þeim sem hringir fyrir klukkan átta í fyrramálið ... djók, ég meinti hádegi!


Morgunstress og vinkonuhvarf ...

Vaknað í GaltalindinniRétt fyrir klukkan átta í morgun hrökk Stressríður upp þar sem hún lá í sófanum í Galtalindinni í Kópavogi, í huggulegri íbúð systur sinnar. Hún hafði dottið út af í brúnum leðursófa með fjólublátt teppi yfir sér þar sem Law and order-fólkið í sjónvarpinu fann eflaust vondan glæpamann til að senda í rafmagnsstólinn. Blessunarlega svaf hún það af sér. Hún sendi Ingibjörgu, vinkonu sinni, símaskilaboð og ákveðið var að hittast í Kaffitári við Bankastræti um kl. 9.30.

Hviðurnar á Kjalarnesi voru enn það sterkar að enginn strætó gekk en Inga tók ekki eftir þeim á leiðinni, enda ekki á háum strætisvagni sem tekur á sig vind eins og hann fái borgað fyrir það.
Stressríður skaust eitt augnablik inn í himnaríki, greip nokkra geisladiska með og fullvissaði sig um að handritið sem hún prentaði út í Kópavoginum kvöldið áður væri á sínum stað.

Við Óli PalliÍ Skrúðgarðinum ríkti ljúft andrúmsloft að vanda og stressið rjátlaðist eitthvað af Stressu sem fór að búa til lagalista fyrir sig og Óla Palla tæknimann. Heimir strætóbílstjóri hékk við tölvuna til að athuga hvort það yrði fært í bæinn, það var ekki fyrr en 11.41 sem hann þorði að fara, alveg á áætlun ... en slapp við ferð/ferðir sem átti að vera fyrr um morguninn.

Útvarpsþátturinn gekk vel, þetta var bara einn og hálfur tími og leið hratt. Eftir útsendinguna beið Ásta með súkkulaðitertusneið og pælingar fyrir krakkaball Páls Óskars sem hefst kl. 17. Okkur rétt tókst að redda börnum til að taka með okkur. Ekkert bólaði á Ingu en hún var ákaflega syfjuð þegar kvaðst var fyrir utan Skrúðgarðinn kl. 10.46. Inga er enn týnd. Hún á inni matarboð í himnaríki í kvöld, eins gott að hún vakni, hvar sem hún er stödd í heiminum. Þessi elska.


Bara sooooo gaman

Takk fyrir kveðjurnar, hjartagullin mín, þetta gekk bara ljómandi vel, og frábært að Skagaliðið sigraði. Það var heilmikil pressa á okkur, frétti rétt fyrir þáttinn að Skessuhorn hefði sagt að við værum síðasta von Vesturlands! Dramatíkin að fara með þá ... Mér fannst eiginlega best þegar ljóshærða fegurðardrottningin í Skagaliðinu var með á hreinu hvað eitthvað hérað í Indlandi hét. Hún horfði svellköld á Hafnfirðingana og sagði GÓA! Þau voru annars alveg frábær í hinu liðinu, gaman ef þau hefðu komist áfram líka. Bjarni Ármanns er einstaklega hress og skemmtilegur og ég er fegin að hann píndi mig til að taka Oliver Twist-flokkinn. Var aðeins of fljótfær í síðustu spurningunni þar.

Nú er víst "fárviðri" á Kjalarnesi og ég sit í Galtalindinni í Kópavogi, gisti hjá Hildu í nótt og Inga ætlar að skutla mér í fyrramálið á Skagann, eldsnemma. Útvarpsþátturinn hefst kl. 11 í Skrúðgarðinum og ég á eftir að finna tónlist og fleira, gera það sem ég hefði gert heima í kvöld ef ... Hviðurnar eru reyndar ekki nema 33 m/sek, næstum strætófært en Inga er þreytt og mér líst líka vel á fyrramálið.


Konan í brekkunni ...

Var soldið ógreinileg í morgun ...Fólkið í vinnunni starði á mig í morgun, eins og ég væri draugur. „Þú hefur komist yfir Kjalarnesið?“ spurði ein kjörkuð, þó með smá Reynistaðabræðrabeyg í augnaráðinu. Já, ég komst svo sannarlega og það var voða gaman, enda Tommi undir stýri. Hann verður útvarpsstjarna í kvöld og spilar rokklög á Útvarpi Akranes FM 95.0. Mér skilst að aðeins hjartahreint, rauðhært og vestfirskt fólk nái stöðinni á höfuðborgarsvæðinu.

-----      ----------     ------

Strætó í morgunSat fremst við hlið Sigþóru í strætó og klappaði henni reglulega á róandi hátt, hún er svo veðurhrædd að eigin sögn, elsku kerlingin. Það komu vissulega nokkrar hressilegar hviður, enda 30 m/sek í hviðum, en Tommi hafði fulla stjórn á öllu, m.a. með því að aka hægt á köflum. Tommi, þessi lauslætisdaðurbósi, sagði okkur Sigþóru, smiðnum og Hlina (fólki í fremstu röð) að ekkert prýddi nú lengur Lopabrekkuna, engin Karítas biði og gleddi augu bílstjóranna, hún væri víst flutt til Akureyrar. Við komumst að þeirri niðurstöðu að henni hefði ekki bara boðist gott starf, heldur hafi hún fallið fyrir því að það er FRÍTT í strætó á Akureyri. Ég flutti upp á Akranes af því að strætó byrjaði að ganga á milli ... hvað ætli margir myndu flytja ef það væri þar að auki frítt ... kannski hefðum við ekki misst Karítas norður yfir heiðar!

"Viltu vera algjört krútt og stoppa fyrir okkur Sigþóru," sagði ég þegar við nálguðumst Hálsahverfi. "Ég þarf ekki að stoppa til þess," svaraði sár bílstjórinn og Sigþóra hló, enda skepna. Það er ekki bjalla í rútunni og ég reyni að nota mismunandi setningar í staðinn, til að bílstjórarnir fái ekki leið á mér, m.a.: „Ef ég lauma að þér 50 kalli væri þú þá til í að stoppa næst?“ eða „Þetta er rán, ef þér stöðvið eigi langferðabifreiðina mun ég syngja fyrsta kaflann í Ármanni og Vildísi eftir Kristmann Guðmundsson.“ ja, þetta síðasta hef ég reyndar ekki prófað en það verður brátt. Langur dagur fram undan, ég er með Pál Óskar í eyrunum og finnst nýja platan hans gjörsamlega æðisleg, tónlist sem gerir mann hamingjusaman, alveg í stíl við söngvarann.


Hvessir hratt á Kjalarnesi

Kjöt í karrí í venjulega matnum, pastaréttur í grænmetisdeildinni, sjávarréttasúpa í súpunum. Maður nokkur sagði þegar hann stóð við hlið mér þar sem við gengum frá diskunum okkar að honum hefði ekki fundist súpan góð ... Held að hann hafi bara verið að halda uppi samræðum ... eða hvað.

Komst að því að tónleikar Páls Óskars á laugardaginn eru í raun krakkaball, ókeypis inn og fullorðið fólk fær aðgang í fylgd með börnum ... Svo spilar hann ekki fyrr en kl. 23 í Breiðinni, gamla hótelinu. Nenni ekki þangað, fer frekar á barnaballið, búin að fá dóttur Ellýjar lánaða.

Ásta var að hringja. Hviðurnar nálgast hratt 30 m/sek í Kjalarnesinu og við erum að hugsa um að drífa okkur bara af stað fljótlega. Ætla að reyna að sofa sætt og vel í nótt þrátt fyrir veðurhaminn sem spáð hefur verið.

Strákarnir í hönnunardeildinni sögðust vera sárir yfir dótahorninu í Hagkaup, sérlega ætlað strákum. Þeim finnst nefnilega gaman að kaupa í matinn og elda, enda eru þeir ekki vanvitar sem horfa slefandi á sjónvarp þegar þarf að kaupa lífsnauðsynjar inn til heimilisins. Tek það fram að ég vil ekki hekluhorn, þótt ég hafi gaman af því að hekla, og vita af erfðaprinsinum aleinum að velja í matinn. Hvað þá eiginmanni, ef ég hefði gengið út aftur. Annars nenni ég ekki að æsa mig mikið yfir þessu. Ég vil endilega hafa mun á kynjunum ... bara ekki launamun!


Rauntími í himnaríki og strákahorn í Hagkaupum

TíminnSótti úrið mitt í gær í viðgerð til Guðmundar Hannah úrsmiðs (nafnið Hannah er samhverfa) og hef varla gert annað en að horfa ástaraugum á það síðan. Ekki hefði mig grunað að eitt stykki úr í viðgerð myndi breyta lífi mínu svona mikið. Guðmundur setti klukkuna á rauntíma. Hingað til hef ég verið með svokallaða búmannsklukku og haft hana stillta sjö mínútum of snemma. Ótrúlega mörg ár síðan ég gerði þetta fyrst og hef ég ranglega talið mér trú um að ég missti ekki af strætó ef ég gabbaði mig svona. Þetta er rugl og ýtir bara undir streitu.

Elsku PalliAllt varð miklu skýrara í morgun. Ég druslaðist á fætur 20 mínútur yfir sex og þá var hún í raun 6.20. Fannst ég hafa allan tíma í heiminum eftir að hafa fengið dásamlegt SMS frá Ástu. Bjó til latte handa okkur og svo nákvæmlega á mínútunni 6.49 gekk ég niður stigann með heitt og ilmandi kaffi í einni, plötuna hans Páls Óskars í annarri og töskuna mína í þriðju. Minntist ekki á Pallaplötu við Ástu fyrr en hún slökkti á fréttunum, þá setti ég hana í plötuspilarann. Samstundis kviknaði á marglitu diskóljósi í loftinu og dansarar spruttu upp úr aftursætinu. Allt fyrir ástina, sungum við hástöfum, himinglaðar og hamingjusamar, spiluðum það meira að segja tvisvar á leiðinni. Rosalega er þetta góður diskur, ég sem hata diskó ... eða hataði. Ætla sannarlega að kaupa diskinn handa Ástu sem örlítinn þakklætisvott fyrir allar ferðirnar á milli AKR og REY. Svo ákváðum við Ásta að fara á tónleikana hjá Palla sem verða í Bíóhöllinni á Akranesi 1. des. Kannski ég reyni að draga erfðaprinsinn líka með.

HómerFrétti að Hagkaup í Holtagörðum sé með sjónvarpsfótboltahorn fyrir þá sem hata að fara í búðir. Mikið ætla ég að drífa mig þangað, bið bara erfðaprinsinn að versla inn á meðan því að hann hefur meira gaman af því að fara í búðir en ég. EN ef þetta er sérstaklega ætlað karlmönnum þá gagnrýni ég það harkalega. Hættið að viðhalda staðalímyndakjaftæði með svona rugli! Ég, kvenleg og sæt, elska karlmenn og svona, keypti t.d. áskrift að Sýn vegna þess að ég vildi ekki missa af HM í fótbolta 2006. Mikið held ég að þetta móðgi líka marga karlmenn. Sjónvarpskrókur fyrir börnin svo að mamma geti keypt í friði ... og nú fótboltahorn fyrir vitlausu karlana sem láta segja sér að það sé karlmannlegt að hata búðaráp (það er MANNLEGT að hata búðaráp) og horfa á fótbolta. Ég hlusta ekki á stóra samsærið um að "allar konur elski að fara í búðir". Ég varð jafnfúl þegar ég frétti þetta og þegar SkjárEinn setti upp stelpustöð í kringum HM2006. Ég veit að það stuðaði einhverja karla sem fíla ekki fótbolta (ekki þannig að það skemmdi þá, elsku dúllurnar eru vanir nastí bröndurum ... jeppar/lítil typpi, við konur svo sem líka: "Ó, er það þessi tími mánaðarins hjá þér, frá fyrsta til þrítugastaogfyrsta?"). Annað hvort áttu þeir að horfa á boltann eða þeir voru kjéddlíngar. Ég átti sjálf í mikilli tilvistarkreppu þetta sumarið þótt ég efaðist í raun aldrei um kynhneigð mína.

Mig langar í fjölbreyttara þjóðfélag, ekki bara bleikt og blátt!


Áhyggjufækkun, peningaminnkun, gleðiaukning

Hulda, Guðmundur og úriðÞað birti yfir í Skrúðgarðinum þegar Guðmundur, bloggvinurinn besti, gekk inn. Sumir standa við „hótanir“ gærdagsins, Guðmundur er einn þeirra. Mikið var gaman að hitta hann! Hulda, eina sanna, var í búðarápi og ég dreif hana með í Skrúðgarðinn. Súpan alveg súpergóð og þriðjudagsmömmuklúbburinn á sínum stað í öðrum sal. Sakna þeirra helling en skil þær svo sem alveg að vilja vera sér og spjalla. Hitti eina þeirra og viðraði þennan söknuð. Kjáði framan í prinsinn hennar, ógurlega sætan. Held að ég fari alveg að öðlast þann þroska að verða amma. Hef, held ég, gefið upp á bátinn að koma með litla systur fyrir erfðaprinsinn. Það væri samt kúl að hafa tæp 30 ár á milli barna. Koma tímar, koma ráð.

TískugellurÚtsvarsáhyggjurnar: Í gærkvöldi kíkti Sigrún Ósk, meðreiðarmær mín, í heimsókn í himnaríki. Finnst líklegt að hún verði frábær í leiklistinni. Henni tókst að koma skilaboðum til Bjarna Ármanns í gær um að hann yrði látinn hlaupa í bjölluna, enda maraþonhlaupari mikill. Ég fæ sem sagt að sitja eins og klessa og vera sæt ... og vonandi gáfuð. Um daginn fékk ég spurninguna: „Í hverju ætlar þú að vera?“ Sú manneskja á skilið mikið þakklæti því að ég hefði annars lent í miklum vandræðum. Föt eru ekki mínar ær og kýr. Skrapp í Nínu eftir Skrúðgarðinn og fékk svo góða hjálp við að velja falleg föt að ég mun bera af öllum þeim keppendum fyrr eða síðar sem nokkurn tíma hafa tekið þátt í spurningakeppni á Íslandi, jafnvel í öllum heiminum. Held ég. Hvít skyrta, svart vesti, svartur jakki, svört hálsfesti. Jólafötin komin, líka páska-, bolludags-, hvítasunnu- ...

Úr

 
Fór loksins með uppáhaldsúrið mitt í viðgerð til úrsmiðsins í Lesbókinni (Morgunblaðshöll okkar Skagamanna, Tommi bílstjóri býr á efstu hæðinni). Úrið á myndinni hér t.h. er svolítið líkt því. 

Reykvískur úrsmiður hafði metið úrið ónýtt og ég ætlaði loksins að kaupa nýtt úr á keðjuna. Á henni eru fjórir fallegir túrkíssteinar. Þessi frábæri úrsmiður sagði að það þyrfti bara að hreinsa úrið, í því væri gott verk og algjör óþarfi að henda því. Snillingur! Þetta gladdi mig mjög. 

Svona er allt á Skaganum. Konan hjá sýslumanni hér gerði t.d. óumbeðin við ökuskírteinið mitt eftir að hún hafði úrskurðað það í gildi. Bara lítið dæmi.


Pasta bloddí pasta

Pasta bloddí pastaBæði venjulegi maturinn og grænmetisrétturinn voru löðrandi í pasta. Í gamla daga var pasta ljómandi gott og óheyrilega gaman að búa til mismunandi rétti úr því. Stundum urðu þeir of sterkir, ef ég missti mig t.d. í chili-inu, ekki kannski mjög ítalskt ... svo fékk ég nóg af þessu hveitidrasli einn daginn.

Þegar ég var lítil var spagettí soðið jafnlengi og kartöflur og bragðaðist dásamlega með hakki og tómatsósu eða bara tómatsósu. Kokkteilsósan var svo fundin upp á unglingsárum mínum, ég er af þessari frægu 78-kynslóð sem var að komast upp á sitt besta þegar hamborgarar og franskar ruddu sér til rúms á landinu. Arfur 68-kynslóðarinnar er líklega tónlistin og afslappelsið (jafnvel hassið) en þessi 78 skilur tekkið og kokkteilsósuna eftir sig. Man eftir einni jólamáltíð heima á Rauðalæk, fullorðna fólkið fékk rjúpur og við unglingarnir kjúklinga  ... og rjómalagaða kokkteilsósu með. Þetta VAR spennandi nýjung á þessum tíma og þótti mjög flott. Kjúklingar voru líka ansi dýrir á þessum tíma. Jamm.

Þetta var matarvonbrigðablogg dagsins.

P.s. Veit hver hringdi í morgun. Það var ekkert æsispennandi, eiginlega bara næstum því rangt númer!


Dularfullt leyninúmer í morgunsárið

Rok á KjalarnesinuSá tvö ný "missed calles" á gemsanum mínum þegar ég ætlaði að rjúka út á stoppistöð. Hmmm ... Ásta vön að senda gleðirík BDSMS, ekki hringja. Síminn minn er stilltur þannig að aðeins ein hringing heyrist, síðan bara hristingur og suð. Afar heimskulegt, þessu verður breytt í dag. Hringt var úr leyninúmeri svo að ég gat ekki hringt til baka. Vakti þess í stað með SMS-i tvær veikar vinkonur mínar. Það voru ekki Ásta eða Inga sem hringdu í morgun, komnar með leyninúmer. Prófaði ekki Sigþóru morgunhænu þar sem hún á ekki bíl ... Í strætó barðist ég við samviskubit yfir því að hafa valdið Ástu og Ingu auknum kvölum; höfuðverk, nefrennsli og geðvonsku, svona eins og gerist iðulega ef veikt fólk fær ekki að sofa. Það blandaðist kvíðakenndum hugsunum um erfiða Súkkulaðibrekkuna í roki og rigningu. 

Stephanie-ChagallVið lúsuðumst í gegnum  Kjalarnesið (frá göngum og fram hjá Grundahverfinu) á c.a. 30 km/klst þar sem vindhviðurnar voru viðbjóðslega sterkar, hélt að hurðin fyki af á köflum og við með ... þAÐ VANTAR ANNAN HVIÐUMÆLI ÞARNA áður en fleiri óhöpp verða (sl. vetur fauk strætó út af). Hjá mælinum, sem er staðsettur við Kollafjörð, var næstum logn, miðað við hitt helvítið! (Mælirinn sýndi 25 m/sek. sem er allt í lagi) Svakalega þurfti ég að gera mig stífa í morgun til að við fykjum ekki út af. Skil ekki hvernig smiðurinn og sessunautur hennar gátu masað og hlegið á leiðinni. Eftir að sessunauturinn var farinn út í Mosó spjölluðum við smiða um símatímann á Bylgjunni þar sem kvenhatarar af báðum kynjum gerðu grín að hugmynd Steinunnar um að breyta orðinu ráðherra. Ég heyrði engan hlæja þegar flugfreyjunafninu var breytt, það þótti sjálfsögð virðing við nýtilkomna karlmenn í faginu að kvengera þá ekki!

Einhver algjör töffari kom inn í strætó við íþróttahúsið á Akranesi og spurði hátt og snjallt hvort þessi vagn færi ekki í Hálsahverfið. (I wish, hugsaði ég). „Ég stoppa við Vesturlandsveginn, fyrir neðan Hálsahverfið,“ sagði bílstjórinn ósveigjanlegur. Ég hef margoft reynt að múta þessum greinilega forríku bílstjórum með 50 krónum eða svo til að fara Hálsahverfið en það hefur ekki gengið. Brekkan getur verið ansi brött og vindasöm og sleip og löng ...

Blái engillinnHefði svo sem getað farið alla leið í Ártún og beðið þar í korter eftir leið 18 sem gengur Hálsana, eftir að hafa farið í gegnum allan Árbæinn. Sá fyrrum troðfulli strætisvagn sem gekk áður Stórhöfðann og upp Súkkulaðibrekkuna og stoppaði fyrir neðan húsið mitt skröltir nú hálftómur í Árbænum og ég er steinhætt að hitta sætu Pólverjana mína, einu karlana sem sendu mér áfergjulegt augnaráð svo snemma dags. Fer ekki ofan af því, þau hjá Strætó bs hefðu átt að fá mig til leiðsagnar, ekki einhvern Dana sem hefur aldrei upp í íslenskan strætó komið og fyrirlítur Ísland og þolir ekki þjóðina þar sem við erum búin að kaupa allt í Köben nema Tívolí. 

Gerði ráð fyrir því/vonaði að við töffarinn myndum ganga samstiga upp Súkkulaðibrekkuna, kynnast og verða fínir vinir, eins og við skólastrákurinn minn í fyrra/hittiðfyrra, nei, þetta snobbhænsn, sem vinnur annað hvort í kaffiverksmiðju eða er í Kvikmyndaskólanum, lét eins og það sæi mig ekki ... og við sem tókum sama strætó! Svört sem syndin læddist ég alein og veðurbarin uppeftir í áttina að Lynghálsinum. Ég á tvö endurskinsmerki, Tuma tígurs-merki, sem ég keypti nýlega í Skaganesti, held að það sé alveg orðið tímabært að setja þau á kápuna mína kolsvörtu.


Ævintýri á morgunslopp ... viðrun og jólamynd

Jólastemmning í SkrúðgarðinumKökurErfðaprinsinn viðraði háaldraða móður sína, eins og góðir synir gera á sunnudögum, og við skruppum í Skrúðgarðinn. Þvílík jólastemmning. Búið að skreyta jólatré og undir því lágu girnilegir jólapakkar. Börnin á staðnum voru alveg að missa sig, fullorðna fólki reyndi að halda stillingu sinni.
Heitt súkkulaði og ostakaka fyrir þá gömlu, súkkulaðikaka og kaffi fyrir ungann. Smakkaði á sjúklega girnilegu köku erfðaprinsins og kræst, fann hnetu- eða núggatbragð eitthvað hræðilega skelfilegt. Sjúkkitt að við pöntuðum ekki tvær svona, það munaði litlu. Sumar tertur leyna greinilega illilega á sér.

----------          --------------          ------------------          ------------ 

JólamyndFórum í búð og í anddyrinu þar sátu tveir undir sölumenn með tombólu. Keypti mjög fallega jólamynd, bauð 200 kall í hana og fékk. Efnilegur listamaður að nafni Guðmundur bjó hana til. Hún fær heiðursstað í himnaríki.

Þetta er meira sexí en sloppurinn minnÉg lenti í svaðalegu ævintýri í dag, eða hefði gert ef erfðaprinsinn hefði ekki verið heima, held ég. Dyrabjallan hringdi, ég, spennufíkillinn í sloppnum einum fata, ýtti á OPNA, og beið spennt. Jú, þetta var enginn annar en húsfélagsformaðurinn! Hann þurfti að mæla eitthvað á svölunum. Hrópaði til hans þegar hann var á leiðinni upp stigana: „Ja, ég er nú eiginlega nakin, var að koma úr baði!“ Fyrstu vonbrigðin komu þegar hann svaraði: „Geturðu ekki farið í slopp?“ og það örlaði á skelfingu í rödd hans. Sumir hefðu nú farið að hlaupa ... „Ég er í slopp,“ sagði ég þreytulega. Formaðurinn var með tommustokk með sér (leikfang lostans hjá hugmyndaríku fólki sem notar m.a. grilláhöld og strauborð jöfnum höndum líka), dreif sig beint út á svalir ... og mældi. Hann sá síðan nýju bókina eftir Yrsu á stofuborðinu og eftir það átti hún hug hans allan. Ég sagðist vera búin með tvo kafla og væri voða spennt, gæti mælt með henni só far. Tek það fram að sloppurinn minn er fyrst og fremst hlýr, langt því frá sexí, enda bý ég á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 153
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 128
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband