Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Mikil menning

SólonFór í skyndimenningarreisu um miðbæ Reykjavíkur eftir vinnu og er endurnærð á eftir. Ef ég ynni ekki í Reykjavík þyrfti ég ekki að fara þangað næstu mánuðina. Fyrst var það Sólon, efri hæðin, en þar var Pétur Blöndal með útgáfupartí. Eva frænka er í bókinni hans og ég vonaðist til að hitta hana og knúsa svolítið. Hitti í staðinn Nönnu Rögnvaldar og gladdist mjög, alltaf gaman að hitta hana. Pétur sjálfur kom til okkar og gerði sér lítið fyrir og kyssti hana. Ég heimtaði koss og fékk, enda dagur íslenskrar tung ... æ, úps, svona dónaskapur á ekki heima á virðulegri bloggsíðu. Þess vegna hef ég ekki sagt frá því á þessum vettvangi hvernig ég plataði strákana í vinnunni nýlega. Sagði Nönnu að ég myndi mæta í annað svona menningarpartí eftir viku en þá mundi ég ekki eftir Útsvari.

LaugavegurinnSjö og hálfri mínútu síðar labbaði ég upp í Menn og málningu en þar voru Guðni Ágústsson og Sigmundur Ernir að kynna nýútkomna ævisögu Guðna. Þar var margt um manninn. Hverjir voru þar? Nú, Adda Steina, Þórir Guðmundsson, Guðni, Sigmundur Ernir, Guðrún og Þorgerður frá Bjarti og við Inga, svo ég telji nú upp þá merkilegustu. Missti því miður af því að koma í fréttum Stöðvar 2 í kvöld frá atburðinum en það munaði aftur á móti mjög litlu að mér tækist að lauma mér inn á ráðherra- og alþingismannamynd á Sólon. Þar voru Þorgerður Katrín, Össur, Sigurður Kári og fleira gott fólk. Össur nikkaði ekki til mín eins og hann hefur alltaf gert síðan við spjölluðum saman fyrir löngu um Evrópusambandið. Þetta var á þáverandi vinnustað mínum og Össur að hitta vin sinn sem vann með mér. Hann ætlaði alltaf að sannfæra mig um nauðsyn þess að við gengjum í Evrópusambandið en sá tími hefur ekki komið og ég verð sífellt meira á móti því ... sem er eins og gefur að skilja alfarið sök Össurar. Ætlaði að brosa sætt til Sigurðar Kára en mundi eftir því á síðustu stundu að litla viðtalið sem ég tók við hann um árið var í gegnum síma.

MegasHvítur kötturÁ Skaganum verður líka mikil menning á næstunni. Megas mætir í Skrúðgarðinn annað kvöld og Páll Óskar verður með tónleika 1. des. í Bíóhöllinni. Mig langar að mæta á báða atburðina.

Sá þetta í Póstinum, innanbæjarblaði okkar Skagamanna, sem er alltaf lesið í tætlur af öllum. Sjónvarpsdagskráin er þarna en auglýsingarnar eru líka mjög spennandi, í alvöru. Ég gæti fengið gefins hillusamstæðu ef mig vantaði eða hvítan fresskött, 5 mánaða. Þarna eru líka vetrardekk af öllum stærðum og gerðum.


Þakkargjörð án sláturs og klikkað veður á Kjalarnesi

Þakkargjörð á þorra eða aðventuVið Inga fórum í guðdómlega þakkargjörðarmáltíð á TGI Friday í gær. Held að vér Íslendingar hefðum gott af því að fá svona sið, fjölskylduþakklætishátíð áður en aðventan gengur í garð. Er ekki hægt að íslenska þennan sið án þess að t.d. slátur komi við sögu? Það er nefnilega maturinn sem er æði, kalkúnninn með sætkartöflumús, trönuberjasultu, fyllingu og sósu ... namm. Þetta bragðaðist afar vel í gær og ekki skemmdi þjónustan fyrir! Hún var afbragð.

Södd og sæl og komin með smá amerískan hreim settist ég í leisígörl til að horfa á House lækni. Bókin um Aron Pálma lá í fanginu til að lesa í auglýsingahléum. Ja, mín bara sofnaði þegar þátturinn var hálfnaður. Vaknaði kl. 4 í morgun með bæði Aron Pálma og Tomma (getraun: kött eða bílstjóra?) í fanginu. Allt uppljómað í himnaríki. Svipað gerðist inni í bókaherbergi, erfðaprinsinn sofnaði yfir House, vaknaði um sexleytið, þegar ég fór á fætur, og var þá með Harry Potter á maganum og Kubb til fóta. Kláraði bókina í nótt, enda átti ég bara einn kafla eftir, og háttaði upp í rúm. Gott var að vakna tveimur tímum seinna við frábærlega dásamlegt BD-SMS frá Ástu. Þegar ég hoppaði út úr himnaríki var alsæll og einnig vel útsofinn erfðaprinsinn tekinn til við að lesa Potter.

Kjalarnesi í morgunHawaii-ferð ÁstuFerðin okkar Ástu í bæinn gekk stóráfallalaust þrátt fyrir klikkað veður á leiðinni. Við fórum hina leiðina út úr bænum, aðalleiðina svokölluðu, og sáum á skiltinu þar að vindhviður á Kjalarnesi voru bara 21 m/sek. Við reyndum að hlæja í gegnum hræðslutárin og skelfingarskjálftann þegar við komum upp úr göngunum sunnanmegin en hviðurnar voru sko ansi mikið meira en 21 metri á sekúndu! Það hefði verið ófært ef það hefði snjóað, mun kaldara á Kjalarnesi en á Skaganum, hefði getað snjóað ...

Þurrkurnar voru á mesta hraða hjá Ástu og hún bað mig, sem aðstoðarbílstjóra sinn um að fylgjast vel með þeim. Það síðasta sem ég man var þegar Ásta sagði: „Nú þyngjast augnlokin ...“ Svo var ég bara komin við skrifborðið mitt. Í dag ætla ég að vera dugleg, ekki veitir af ... ég er sko að safna fyrir Hawaii-ferð handa Ástu. 


Dularfulli sendibíllinn sem ók of hægt ...

Sofandi SkagamennHeimir sat undir stýri í morgun og var eiginlega furðulostinn á svipinn næstum alla leiðina í bæinn. Farþegar voru nefnilega óvenjufáir, enda frost og Skagamenn kúra margir í kulda og trekki (þess vegna fjölgar okkur svona hratt) og svo ók dularfullur, svartur, skítugur og grunsamlegur sendiferðabíll fyrir framan okkur alla leið niður í Kollafjörð. Heimir, þetta mikla gæðablóð, fór að nöldra þegar við vorum stödd við Grundahverfið því að sendibíllinn hægði þá ferðina niður í 50 km/klst (leyfilegt að vera á 70) og svo gaf hann í og fór upp í 70 þegar við máttum vera á 90. Svona æsir mig alltaf svo upp og ég manaði Heimi til að blikka bílljósunum. Allir vita hvað gerist ef flautað er á annan bíl hér á landi og enginn nennir að standa í slagsmálum svona snemma morguns. Það var skrambi gott að komast fram úr í Kollafirðinum.

Svarti dularfulli sendibíllinn„Mig grunar nú helst að þetta hafi verið ....“ byrjaði Heimir. Ég greip fram í fyrir honum. „Þú veist að ég drep þig ef þú segir kjéddlíng,“ sagði ég hörkulega og brýndi kutana í huganum. Heimir hló  taugaveiklunarhlátri en lauk setningunni: „...útlendingur!“ Það datt af mér andlitið og á meðan það skoppaði um strætó útskýrði Heimir að útlendingar gætu verið svo rosalega löghlýðnir, eiginlega einum of og keyrðu stundum of hægt ... sem væri erfitt fyrir strætóbílstjóra sem vildi halda áætlun.

Farþegarnir, fáu en stórhuggulegu, vöknuðu einn af öðrum þegar við nálguðumst heittelskaða höfuðborgina. „Hvernig fór leikurinn?“ spurði Sigþóra þegar við bjuggum okkur undir að kasta okkur út við Vesturlandsveginn. Við erum öll svo náin í Skagastrætó að hún þurfti ekkert að útskýra spurninguna nánar. „Þrjú núll fyrir okkur,“ laug ég blákalt, bara til að gleðja hana, heimurinn er alveg nógu grimmur og nauðsynlegt að búa sér til gleðiefni. Eitthvert karl-óféti leiðrétti þetta áður en ég gat hvesst á hann augun og núna afgreiðir Sigþóra kúnnana sína í Rekstrarvörum eflaust með tárin í augunum og ekka í hálsi.   

dulac_princess_pea_pÉg skalf úr kulda þegar við komum út úr strætó og trúði Sigþóru fyrir því að ég hefði ekki þorað að hjúfra mig upp að sessunaut mínum þar sem hann er karlkyns. Sigþóra sagði mér að hann héti Hlini og væri enginn annar en maðurinn hennar Ástu í bókasafninu! Konunnar góðu sem gerði uppvöxt minn hamingjuríkan með því að kynna mig fyrir fleiri bókum en Enid Blyton skrifaði ... Finnst mikið ævintýri að bókasafnsdrottning æsku minnar, sú sem kynnti mig fyrir t.d. Theresu Charles og Barböru Cartland, myndi ná sér í einn Hlina kóngsson?

Verkjalyfjablandan a la Gunnubúð (sjá komment við síðustu færslu) virkar afskaplega vel. Sjóðheitt bað í gærkvöldi og pillublandan gerðu líklega útslagið og ég er ekki orðin skökk enn þótt ég hafi setið við tölvuna í rúma tvo tíma. Þarf samt að fara að skoða rúm ...


Rauður sófi með fortíð

Rauði sófinnMikið þekki ég gott fólk. Ásta var ekki fyrr búin að skutla mér „heim“ að dyrum í vinnunni þegar Inga kom og við héldum í Lyfju í Lágmúla til að kaupa dóp! Íbúfen er farið að fást aftur og ekki nóg með það heldur sagði frábæra afgreiðslukonan þar að gott væri að taka Paratabs með við svona þrálátum bakverk. Tvær þannig og ein íbúfen væri killer. Ég er soddan hænuhaus á lyf og brennivín að ég þorfði bara að taka eina og eina áðan. Ef ég sofna samt er til staðar hjá Mannlífi í næsta bási eldrauður, sexí leðursófi sem ég gæti fleygt mér í, hann er reyndar alræmdur í fyrirtækinu ... vissar myndatökur hafa farið fram í honum fyrir B&B og ég er ekki að tala um Bæjarins besta!

Eintóm hamingjaÞeir sem urðu voða hræddir við að lesa síðustu færslu ... ég var bara að grínast. Þessi áhrif koma yfirleitt aldrei fyrr en tunglið er orðið fullt, í þessu tilfelli 24. nóvember.

Jæja, mæli svo um og legg á að dagurinn ykkar verði sjúklega skemmtilegur, fullur af óvæntum ævintýrum, hamingju, gjafakortum á nuddtíma og stórum happdrættisvinningum.


Undarleg hegðun í himnaríki

Fullt tunglTunglið, næstum fullt og svo óstjórnlega töfrandi, hefur skinið á mig í kvöld þar sem ég hef setið við skrifborðið og unnið. Mér var litið niður á hendur mínar áðan og sá að neglurnar hafa lengst mikið á nokkrum tímum. Ungverska baðbomban í gærkvöldi hefur líklega haft þessi áhrif en ég hef nagað neglurnar með góðum árangri í 40 ár. Bomban virðist reyndar líka hafa aukið hárvöxt minn og þarf ég líklega að raka fótleggina í kvöld, í fyrsta skipti á ævinni, jafnvel handleggina líka og handarbökin fyrst ég er byrjuð. Eyrun á mér hafa stækkað smá, nema það sé ímyndun, en heyrnin hefur örugglega aukist. Ég heyri greinilega í bílum sem koma upp úr Hvalfjarðargöngunum, reyndar bara þeim eru komnir á nagladekk.

 

Ó, tungliðÞetta er ekki það eina óvenjulega á þessu heimili í kvöld. Kettirnir hafa ekkert sést í nokkra klukkutíma en ég heyri samt niðurbælt hvæs í þeim innan úr einum fataskápum. Erfðaprinsinn er þó enn furðulegri í hegðun. Hann stendur við eldavélina, segist vera að gera gæðatilraun á kaffi og er með nokkrar teskeiðar ofan í heitum potti (hræðilegt brunalykt). Mér varð ekki um sel þegar hann spurði mig titrandi röddu hvort þær væru ekki örugglega úr silfri. Ég ætlaði að segja honum að þetta væri bara plett en þá fann ég að ég gat varla talað, er líklega komin með bráðatannholdsbólgu eða eitthvað, finnst tennurnar eitthvað svo stórar. Mig langar mest til að góla, bakið er að drepa mig ... en veit samt ekki hvort ég þori í heitt bombubað í kvöld ef það hefur svona aukaverkanir.


Flug og flughræðsla

SjónvarpsefniSit við tölvuna og vinn og hlusta í leiðinni á þátt í sjónvarpinu, Air Crash Investigation, sem fjallar um rannsókn flugslysa. Leikin atriði eru notuð til að skreyta þáttinn, veinandi farþegar, öskrandi flugstjórar og tölvugerð af þotu sem snýst í loftinu ... og hrapar. Viðbrögð fólks (leikara) á jörðu niðri eru líka átakanleg, hvað þá flugumferðarstjórans.

Akureyri„Sumir“ urðu flughræddir í æsku þegar við flugum eina páskana til Akureyrar. Hilda bjó þar. Skömmu fyrir lendingu fór vélin að hristast og við upplifðum okkur eins og kokkteila í hristara. Held að mér hafi verið flökurt í marga daga á eftir en það þarf heldur meira en þetta til að gera mig flughrædda. „Sumir“ fóru að forðast að fljúga ef hægt var að keyra og nú er vitleysunni haldið við með því að horfa á svona þætti. Ekki gott að búa á eyju og líða svona. Alveg væri ég til í eitt stykki Gullfoss, íslenskt skemmtiferðaskip, eins og var til þegar ég var lítil og sigldi um heimsins höf, held ég. Svona til að geta örugglega farið með „sumum“ í West Ham-fótboltaferð til London eftir áramótin. 


Af mæðrum, húmorsprófi og Tommaergelsi

Skagakonur í strætóförElskan hann Tommi kom í Skrúðgarðinn á meðan ég beið eftir súpunni. Hann er á seinni strætóvaktinni núna, Heimir á morgunvakt. Er alveg komin út úr þessu vegna drossíuferða með Ástu. Tomma seinkaði ógurlega einn daginn, sagði hann mér. Tvær konur með fimm börn, þrjú á fæti og tvö í vögnum, tóku sér far með honum. Svaka strætódrossía er í förum núna, eiginlega glæstur langferðabíll, og ekki byggð fyrir slíka farþegar og þurfti Tommi að leggja vagnana saman og setja í farangursgeymsluna áður en hægt var að bruna út úr bænum. Þegar Tommi var næstum kominn upp í sveit görguðu konurnar og spurðu hvers vegna hann færi þessa leið, þær höfðu ætlað sér að taka innanbæjarstrætó upp í hverfi en voru sannarlega ekki á leiðinni í Mosfellsbæinn. Nú, Tommi stoppaði, tók vagnana út og konugreyin þurftu að labba nokkuð langa leið til baka. Þar sem hver mínúta skiptir máli kom þetta sér ekki vel fyrir farþegana en eins og allir vita eru strætóbílstjórar með hjartahlýjustu mönnum og leið 15 hinkraði bara í smástund í Mosó.

Kirkjubrautin í morgunSvo nöldraði Tommi yfir nýkomnum jólaskreytingum og sagði að nú væri tími villibráðar, við ættum ekki að skreyta fyrr en 11. des! Sá út um gluggann hjá sjúkraþjálfaranum að aðalgatan er að verða ansi jólaleg. Seríur í gluggum og jólaskreytingar við verslanir. María var meira að segja með jólatónlist í gangi í Skrúðgarðinum.

Litla, dásamlega dóttir Maríu var á staðnum og okkur kom samstundis vel saman. Barnið æsti mig fljótlega upp, ég sver það, ég var mjög stillt þegar ég kom inn. Erfðaprinsinn sótti mig þangað að vanda og fannst hegðun mín ekki við hæfi virðulegrar móður. Ég kannaði hvort barnið hefði húmor, hef þróað sérstakt próf í þá veru í gegnum tíðina. María sagði mér að sú stutta væri strákastelpa og ég spurði barnið hvort það væri kannski sjóræningjastelpa. Hún hnussaði og hélt nú ekki. Þá hófst prófið. „Ertu þá þvottapoki? Eða kannski sjónvarp? Þú skyldir þó ekki vera strætisvagn?“ Og svo framvegis. Barnið skellihló og stóðst þannig prófið. Einn kosturinn við þetta próf er það að börnin vilja að maður haldi endalaust áfram ...

MarmarakakaErfðaprinsinn engdist og sagðist ekki vilja að fólk héldi að ég væri rugluð og færi að hlæja að mér, hann vildi ekki þurfa að meiða það ... Þá orgaði ég úr hlátri og stóðst væntanlega prófið hans. Jamm, þetta var skemmtilegt hádegi og grænmetissúpan sérdeilis góð. Við erfðaprins gripum síðan með okkur líklega bestu marmaraköku í heimi en hún fyrirfinnst í Harðarbakaríi. Svo verður bara unnið af krafti í dag! Kökublaðið kemur út í næstu viku! Það verður GEGGJAÐ!


Ættfræði og dæmalaus lymska Hafnfirðinga

Jólagjafaleiðangur okkar InguVið Inga ákváðum að fara í jólagjafaleiðangur eftir vinnu í dag. Uppskera: engin. Líklega var þetta bara undirmeðvitundin að reka okkur í Kaffitár í Kringlunni ...

FormóðirinÞegar á Skagann var komið beið mín bók, bók sem ákveðin vélstýra myndi gefa hægri handlegginn á sér fyrir, eða ættfræðirit! Ættir Þingeyinga XV. bindi; ætt Ingimundar Jónssonar í Sveinungsvík (f. 1620 c.a.). Alkunn staka er honum eignuð: Austankaldinn að oss blés/ upp skal faldinn daga trés/ veltir aldan vargi hlés/ við skulum halda á Siglunes. Að sjálfsögðu er konu hans ekki getið, sjálfrar ættmóðurinnar! (sjá mynd t.v.) Þegar fólk er orðið svona fjarskylt manni þá kannski skiptir það ekki máli ... Sá reyndar að annan bróðurson minn vantar í bókina, þann danska, en það var kannski viljandi ... rasismi? Sá líka á myndum í þessarri bók að ættingjar mínir eru fallegt fólk. Líka makar þeirra sem segir mér að það sé ættgengur andskoti að velja maka eftir fegurð, ekki bara gáfum og kímnigáfu. Þarf svo að rúlla í gegnum bókina um helgina og athuga hversu margir eiga afmæli 12. ágúst.

Leyna á sérKíkti á dagskrárvefinn á RÚV í gær og sá að keppinautar okkar Skagamanna þann 30. nóv. verða Hafnfirðingar. Um leið opnuðust augu mín skyndilega fyrir dæmalausri snilld þeirra. Þeir hafa undirbúið sig áratugum saman fyrir þennan Útsvarsþátt og látið þjóðina halda að þeir séu soldið vitlausir (sjá ritröðina Hafnfirðingabrandarar I. til XXVICMII. bindi). Ég hef oft keyrt í gegnum Hafnarfjörð og veit þetta, einnig þekki ég fólk frá Hafnarfirði, t.d. Hjört Howser, og veit að þar búa bara mannvitsbrekkur og gáfnaljós! Það er ekki hægt að plata okkur Akurnesinga svona og láta okkur halda að þetta sé fyrir fram unnin orrusta.

Strax daginn eftir, kl. 11.00 - 12.30, verður svo þátturinn á Útvarpi Akraness. Þetta verður ansi annasöm helgi. Ekki nóg með það, heldur er Mía systir búin að bjóða mér í Lions-veislu 7. des. Matur og læti. Skyldi vera tími til að skreyta himnaríki fyrir jólin?


Hverjir voru hvar ...

Sigurjón til vinstri og Óskar til hægriHingað til hef ég haldið því fram að Akranes væri nafli alheimsins. Stundum verður mötuneytið mitt þó vettvangur stórviðburða og oftar en ekki má sjá frægafólkspersónur spranga þar um. Ja, tveir stórfrægir landsmenn borðuðu plokkfisk með mér í dag og stóðu meira að segja fyrir aftan mig í þriggja manna biðröðinni. Þetta voru engir aðrir en snillingarnir Sigurjón Kjartansson og Óskar Jónasson.

The WeddingEkki nóg með það, heldur sá ég í Fréttablaðinu að Jón Óskar, sem ég hef hingað til umgengist á jafnréttisgrundvelli, var gestur í brúðkaupi aldarinnar á laugardaginn. Hann var líka í mötuneytinu í dag. Ekki nóg með það, heldur skilst mér að kokkurinn sjálfur í mötuneytinu hafi líka verið  þar. Ég, gestur í brúðkaupi aldarinnar 1988 eða svo, verð bara að bíta í það súra epli að vera orðin svo mikið síðustu aldar eitthvað ...  Það sem ég hugga mig við er að mér er alltaf boðið í Þorláksmessuboðið hennar Nönnu.


Af stól-hermdarverkum og þykkri þoku hinna glamrandi hlekkja

ÚúúúúúúThe FogHeyrir þú glamrið í hlekkjunum,“ spurði ég Ástu þegar við ókum inn í þykka þokuna í Reykjavík í morgun. Svipbrigði mín sýndu óbærilega spennu, verst að Ásta var með augun á umferðinni „Ha, hvað meinar þú?“ sagði Ásta. Í ljós kom að ég hafði kastað perlum fyrir svín, eins og stundum áður. Ásta sá nefnilega aldrei myndina The Fog, um framliðna sjóræningja sem birtust í þokunni og murkuðu lífið úr þeim bæjarbúum sem höfðu ekki vit á því að fela sig. Það glamraði alltaf heimilislega í hlekkjum og vopnum sem þeir báru, minnir mig. Það voru hvorki draugar né forynjur í þykku þokunni kl. 7.35 í morgun, ekki einu sinni Sigþóra á leið upp Súkkulaðibrekkuna, enda var hún auðvitað löngu komin í vinnuna.

Stóllinn minn á kvöldinEr búin að komast að því hvers vegna stóllinn minn í vinnunni er oft í klessu þegar ég mæti á morgnana ... Símasölumaður andskotans skellir honum nefnilega í fáránlega stöðu á kvöldin, stólbakið hallandi aftur á bak og hæðin ... maður sest næstum á gólfið, hann er svo lágur.

Ég vil hafa stólinn minn í hæstu mögulegri stöðu til að gnæfa yfir dauðlegt samstarfsfólkið. Þannig glamrar líka mun minna í hlekkjunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 7
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 160
  • Frá upphafi: 1529023

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 134
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband