Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Annir og huldufólk

Sömu annirnar og í gær, nema kannski enn meira stress. Núna er ég hálffúl yfir því að hafa lofað Míu að fara út með henni í kvöld ... en samt hlakka ég til að komast út á meðal manna ... og fá eitthvað gott að borða í góðum félagsskap. Já, það verður örugglega gaman með Lions-fólkinu. Ég er nú einu sinni Ljón!

Puntaði aðeins í himnaríki í gær, setti m.a. jóladúk á borðstofuborðið og annan í stíl á kringlótta skákborðið í horninu við hliðina á rauða antíksófanum. Dúkarnir komu frá mömmu, sérsending sem kom í gær. Þótt ég sé orðin rúmlega fertug ... eða 49 ára, laumar mamma enn að mér litlum gjöfum, jafnvel pening ... já, og gefur mér alltaf páskaegg. Það er frekar sætt, er það ekki?

Hróarsdalur í SkagafirðiVar að lesa nýju bókina hennar Unnar Jökulsdóttur um álfa og huldufólk. Einlæg, vel skrifuð og skemmtileg. Í fyrsta viðtalinu hennar um huldufólk voru nú náfrænkur mínar á Svanavatni spurðar og þær töluðu svolítið um afa sinn, Jónas frá Hróarsdal, langalangafa minn. Kom skemmtilega á óvart, sitt af hverju sem ég vissi ekki. Ætti að kaupa þessa bók handa mömmu í jólagjöf. (Ættartréð er svona: Jónas, Jósteinn, Mínerva, Bryndís, Gurrí.) Hef aldrei hitt þessar frænkur mínar en langar nú mikið til þess. Dóttir Jónasar (systir Jósteins langafa míns) er nýdáin, hún Sigurlaug, konan sem las í garnir og spáði fyrir um veðrið.  Ég veit alveg hvaðan ég hef veðuráhugann.

Myndinni stal ég á Netinu, frá ástkærri frænku minni (sem ég hef aldrei hitt, held ég) en hún er af Hróarsdal í Skagafirði, þaðan sem ræturnar liggja. Var það á ættarmóti 1985 og kynntist fjöldanum öllum að ÆÐISLEGU fólki, m.a. Höllu frænku, sem er tveimur árum eldri en ég en samt dóttir Páls, sonar Jónasar. Ég ætti að vera jafngömul barnabörnum Höllu ... en þau eru nú ekki einu sinni komin til sögunnar og ég alveg að komast á ömmualdur sjálf. Jamm, þetta er nú meira ættarbloggið!


Lærum að telja ...

Lærum að teljaMikið skemmti ég mér konunglega yfir jólasögunum og gjafadæmunum í kommentahorninu með síðustu færslu. Ástarþakkir fyrir það. Einn bloggvinurinn var svo sætur að setja hlekk á gamla jólagjafaumræðu frá Barnalandi og það var fyndin lesning. Upplitið á mér hefði verið skrýtið ef ég hefði fengið bókina Lærum að telja þegar ég var 14 ára, eins og ein konan af Barnalandi. PítsuskeriSjö ára barnabarn fékk pítsuskera frá afa og önnur 24 ára fékk Matreiðslubók Latabæjar frá ömmu sinni. Í einum pakkanum frá afa/ömmu leyndust plöturnar Pottþétt 4 og Gylfi Ægisson handa 24 ára konu og ein 15 ára fékk teiknimyndina um Gosa. Þetta er allt mjög sætt en það sem var skrýtið var að ein konan fékk frá afa og ömmu hálftómt ilmvatnsglas og stakan strigaskó. Einhver önnur fékk frá afa sínum happaþrennur sem búið var að skafa af og enginn vinningur leyndist þar.

SúkkulaðikakaFékk far með Ástu báðar leiðir í dag og hún dró mig í Skrúðgarðinn við heimkomu seinnipartinn. Það bjargaði deginum, þessum hrikalega annasama degi, að fá súkkulaðiköku og kaffi ... og smá dass af Tomma-stríðni frá Rut og Maríu. Talandi um strætóbílstjóra ... Heimir var staddur í skrúðgarðinum, mjög prúðbúinn og sætur á leið í jólahlaðborð með samstarfsfólkinu á barnum í bænum.

HangikjötHangikjöt var í matinn í hádeginu, mjög hátíðlegt, meira að segja laufabrauð líka. Ég keypti malt með en klikkaði á því að setjast hjá einhverjum sem hafði keypt sér appelsín.

Svo er það bara klikkað djamm annað kvöld, Lionssleepstonight-"fundur" með Míu systur. Held að ég fái far með Ingu heim úr bænum og ætti þá að komast í tæka tíð. Best að fara að gera djammfötin klár.   


Besta eða versta jólagjöfin?

StöðumælirSit hér og vinn, hálfmáttlaus eftir allar játningarnar í gær. Þetta var samt bara rétt byrjunin ... Bæjarstjórnin hringdi og tjáði mér að það væru engir stöðumælar á Akranesi og þess vegna gæti dóttir mín ekki verið stöðumælavörður hér. Þetta er svo rangt. Árangur hennar í starfi hefur verið mikill, einmitt í ljósi þess að hér eru engir stöðumælar.

JólagjafirÉg er að vinna grein og gæti þurft hjálp ykkar við hana. Hver er versta jólagjöfin sem þú gætir hugsanlega fengið, en sú besta? Stjörnumerkið þarf að fylgja með líka. Þetta er bara til gamans gert ... en samt í fullri alvöru. Hjálp, einhver? Þar sem ég er heima get ég ekki hlaupið á milli samstarfsmanna minna. Prófaði að spyrja erfðaprinsinn, Hrútinn huggulega, hver væri mögulega versta gjöfin sem hann gæti fengið. Hann svaraði án umhugsunar: Lúffur.

LúffurÞetta á sér vissulega sögu. Þegar hann var lítill varð hann fyrir vonbrigðum með jólagjafirnar sínar ein jólin. Væntingarnar voru svo miklar ... og svo fékk hann bara bók frá ömmu og afa, nærföt frá einhverjum, ljóta peysu, ... og alls kyns svona mjúka pakka. Sem ábyrgur uppalandi sagði ég þegar við komum heim að enginn væri skyldugur til að gefa honum jólagjafir, við gætum bara skilað þeim. Hann var orðinn ánægðari með gjafirnar þá og sagði að þess þyrfti ekki. Ég talaði um þetta við vinkonu mína sagði mér að ungur frændi hennar hafi bara fengið lúffur í jólagjöf, í alvöru, næstum bara lúffur leyndust pökkum hans. Stráksi brosti við hverja gjöf og sagði glaður: „Vá, lúffur, en æðislegt,“ mörgum sinnum þetta aðfangadagskvöld. Ég sagði erfðaprinsinum þetta og síðan hefur þetta verið ættarbrandari. Hann fékk lúffur tveimur árum seinna, brosti blítt og sagði: „Vá, lúffur, en æðislegt!“ og meinti það en við hlógum samt eins og vitleysingar.  


Opinberun II. hluti

Hingað til hefur fólk ranglega haldið að það sem hér er ritað sé heilagur sannleikur. Þar sem senn er ár liðið síðan ég ýtti þessari bloggsíðu úr vör finn ég mig knúna áður en lengra verður haldið að segja sannleikann og ekkert nema sannleikann. Jólin eru líka á næsta leiti og á aðventunni verður maður eitthvað svo meyr og samviskubitið ólgar sem aldrei fyrr.
Sumt hefur að vísu verið nálægt sannleikanum en ég ætla þó ekki að reyna að afsaka mig með því.

Kubbur kvikindiJú, jú, ég heiti Gurrí og allt það ... og vinn í krembrauðsverksmiðju hér á Akranesi. Góða fólkið á Vikunni féll frá málsókn ef ég opinberaði sannleikann.

 Ég á ketti en þeir eru ekki þessi krútt sem ég hef haldið fram, heldur sóðaleg, lúmsk og grimm kvikindi sem stökkva froðufellandi á tærnar á mér ef ég gleymi að fara í inniskóna. Ég notaði númer 39 af skóm hér áður fyrr ... er nú 35.

Ég bý í íbúð ... en hún heitir hreinsunareldur, ekki himnaríki, og er á miðhæð ... í hjólhýsi. Hún er pínkuoggulítil og snýr að porti þar sem öskutunnurnar eru geymdar.

Tengdasonur minn á góðri stundÉg á vissulega barn. Dóttir mín, sem ég hef ranglega nefnt erfðaprinsinn á blogginu, er stöðumælavörður hér á Skaganum. Hún á indælan kærasta sem er hér eins og grár köttur þótt það sé eiginlega hvergi pláss fyrir hann. 

Ætla ekki að viðurkenna meira núna. Þetta er eiginlega meira en nóg. Fyrir bloggafmælið stóra (í janúar 2008) verður þó allt komið upp á yfirborðið. Líka hneykslismálin!


Tækniöldin að koma ...

GrænmetissúpaHeit og góð súpa í Skrúðgarðinum fleygði byrjandi kvefi út á hafsauga, held ég. Auðvitað kom Tommi þangað í einn kaffibolla áður en hann lagði í hádegisferðina og byrjaði á því að tékka á vindhviðumælinum á síðu Vegagerðarinnar. Hann sagði farir sínar ekki alveg rennisléttar. Þegar hann kom út úr göngunum á leið í bæinn fyrr í morgun var svo hvasst að rúðuþurrkurnar feyktust upp, rifnuðu sem betur fer ekki alveg af þó, eins og gerðist fyrir nokkrum vikum. Hann ók eftir minni (eða þannig) í Grundahverfið þar sem hann stoppaði og lagaði þurrkurnar. Skv. tölvunni reyndust hviðurnar ekki vera nema 28 m/sek þannig að Tommi lagði í hann til að sækja Sigþóru sína, sem hann er skotnastur í, held ég, af okkur kjéddlíngunum í strætó. Mikið held ég að það væri gott, eiginlega bara lífsnauðsynlegt að fá hviðumæli við gönginn. Þar er MIKLU hvassara þar í austanáttinni, að sögn Tomma, líkara Hafnarfjallstölunum sem voru 42 m/sek í morgun.

SkrúðgarðurinnMaría reyndi að ýta okkur Tomma saman, eins og fleiri, og stakk upp á því að við byrjuðum saman. Ég bendi á að við Tommi vorum bæði viðstödd en héldum þó kúlinu. Ég benti henni á að ég væri of ung til að binda mig, Tommi sagðist vera of gamall til þess, samt er hann einu ári yngri en ég. Svona er að gefa á sér færi með opinskáum bloggfærslum ... Hélt að María kynni ekki að lesa (þetta var beisk hefnd fyrir að hún endurnefndi kaffidrykkinn minn Kjötsúpu).

Fljúgandi bíllGuðni Ágústsson (með Sigmundi Erni) kemur í Skrúðgarðinn annað kvöld til að kynna bók sína. Þyrfti að rúlla hratt yfir bókina þeirra ... en ég er reyndar að lesa Harry Potter á íslensku og hún er æði.

Jónas ryksugar nú himnaríki af vélrænni samviskusemi, við stefnum hraðbyri inn í tækniöldina, börn fara í gegnum fingrafaraskanna til að fá skólamáltíðir, talandi lyftur segja á hvaða hæð við erum og fleira og fleira. Hvenær koma eiginlega fljúgandi bílarnir sem ég vissi á barnsaldri að allt yrði morandi í árið 2000? Mér finnst ég hafa verið svikin.


Grænmetisrétturinn góði

Sætar kartöflurHér kemur loksins uppskriftin, eins og ég man hana frá Áslaugu vinkonu. Held samt að það megi nota alls kyns grænmeti, einu sinni setti ég einn chili-pipar með fræjum og öllu með og það var líka voða gott.  

1 stór sæt kartafla (eða 2-3 minni)
2 laukar
½ sellerírót
2 stórir pipar-belgir(fást 2 saman í pakka í Einarsbúð)
1 stk. fennel
3 hvítlauksrif (eða fleiri)

Fremst til hægriSkerið allt niður í frekar litla bita og setjið í ofnfast mót. Kryddið með timian, Muldon-salti og svörtum pipar eftir smekk. Hellið vænu dassi af góðri ólífuolíu yfir.

Setjið inn í 220 °C heitan ofn, hrærið í þessu af og til og hellið ólífuolíu ofan á eftir því sem tilfinningin segir til, ég bætti einni gusu við, enda sparaði ég ekki olíuna í upphafi. Þetta þarf um 40-50 mínútur í ofninum. Það er allt í lagi, eiginlega bara betra, ef það er örlítið brennt ofan á, betra að hafa hitann hærri en lægri.

Þetta dugði fyrir fimm manns, held ég, það kláraðist hver arða! Smakkaðist afar vel með kjötinu og ferska salatinu.

Gjössovel, Jenný mín, Siggi og fleiri!!!  


Brúðkaupsklukkur klingja ...

Taylor, Ridge og BrookeBrúðkaupsþátturinn boldið var sjokkerandi í dag og ég bið viðkvæma um að lesa ekki lengra. Enn eitt brúðkaupið í uppsiglingu og ég vissi ekki einu sinni af því ... að þessu sinni Brooke og Ridge, jamm, honum tókst að tala hana til. Fjórða eða fimmta skiptið þeirra. Nýlega giftist hún reyndar pabba Ridge, eins og allir vita, en sleit því nokkru síðar.

Á meðan heima hjá Bridget og Nick: „Ég veit að þú elskar mömmu meira en mig og varst bara með mér vegna barnsins/barnanna,“ segir Bridget við Nick. (Þarna er átt við barnið sem þau misstu við fæðingu og Dominic litla sem Nick reyndist ekkert eiga í). Nú er ekkert barn/börn sem heldur okkur saman og ég veiti þér frelsi til að næla í mömmu. En flýttu þér áður en hún giftist Ridge (sem er reyndar bróðir Bridget, ekki blóðskyldur þó).“

Brooke og NickÞegar Ridge og Brooke höfðu farið með brúðkaupsheit sín, tárvot og verulega krúttleg þar sem þau lofuðu hvort öðru eilífri ást, var kirkjuhurðin rifin upp og inn þusti Nick. „Hættið!“ argaði hann. Hljóp til Brooke, tók hana og vippaði yfir öxlina á sér og hélt á henni upp tröppurnar. Ridge hefði náð honum ef móðir hans, Stefanía, hefði ekki brosandi haldið honum. Hún þolir ekki Brooke, sem hefur gifst Eric, manni hennar, tvisvar, Thorne, syni hennar, einu sinni, og Ridge, syni hennar, fjórum eða fimm sinnum, jafnvel oftar. Nú, Nick læsti og þegar Brooke skammaði hann fyrir að hafa rænt sér úr eigin brúðkaupi þaggaði hann niður í henni með ástríðufullum kossi. Brooke gerði sig ekki líklega til að opna fyrir Ridge sem stóð hinum megin við dyrnar, barði á þær og kallaði.   

Tvöfalt brúðkaup Þegar völvan hafði lokið máli sínu í dag (sjá Vikuna 52. tbl. 2007 milli jóla og nýárs) sagði hún: „Þú ert að fara að ganga út!“ Ég hélt eðlilega að hún ætti við að ég væri í þann veginn að ganga út af heimili hennar og fannst varla þurfa spádómsgáfu til að vita það, en hún meinti það ekki ... Fylltist ofsóknaræði við heimkomu í himnaríki og hef þegar pantað öryggismyndavél við dyrasímann og öryggisskírlífisbelti (karlmenn geta verið svo freistandi), að auki fleygði ég óöryggisbaðbombunum mínum. Nó mor ilmandi kvöldböð frá og með 2008. Þetta ætti að duga til að fæla menn frá. Bað erfðaprinsinn um að sleppa böðun líka til að honum liði betur í breyttu andrúmslofti. Flott að fá þessa viðvörun. Svo á viðkomandi að vera sæmilega efnaður líka! Ekkert þó á við Björgólf. Varð svo brugðið við þetta að ég gleymdi að spyrja hvort hann væri ljóshærður, dökkhærður, sköllóttur eða rauðhærður, Skagamaður eða ekki, eldri eða yngri ... Hún gaf í skyn að ég vissi hver hann væri. Þetta skyldi þó ekki vera George Clooney? Efast þó um að hann líti við rúmlega fertugum súperskvísum ...


Sannur jólaandi og spennandi spurningar ...

Gurrí og klukkuhelvítiðAlltaf svolítið kvalafullt að breyta sér í A-manneskju á mánudögum en von um kaffi hvatti til þeirrar hetjudáðar að vippa sér fram úr. Svo þegar ég var komin á stjá mundi ég eftir því að ég þurfti sjálf að búa mér til latte ... eins og venjulega en þá var of seint að hætta við framúrrúminu-dæmið.

Eftir að armbandsúrið fór á rauntíma er allt miklu auðveldara. Vekjaraklukkan er sjö mínútum of fljót og fyllti mig vonbrigðum eitt augnablik í morgun og ég hélt að ég hefði of lítinn tíma ... þangað til ég mundi eftir því að ég hef haft klukkur heimilisins of fljótar í mörg ár. Djísus!!! Ásta var svo sæt að leyfa mér að sitja í í bæinn þannig að ég var komin eldsnemma. Kýrnar lágu bara og jórtruðu hér í vinnunni og andinn í fjósinu var einstaklega góður, eiginlega bara jólalegur. Best að gefa, skella mjaltavélunum á fyrstu skvísurnar og fara svo að moka flórinn. Ekki veitir af.

VölvanFer í dag og tek fyrsta viðtal við völvu Vikunnar. Ef þið hafið einhverjar spurningar sem brenna á ykkur (stjórnmál, veðurfar, kosningar í USA, hneyksli hjá kóngafólki, eldgos, efnahagsástandið osfrv.) þá væri mjög gott að fá þær í kommentakerfið fyrir hádegi! Ráðherrar og alþingisfólk, ekki hika við að spyrja!


Loksins kjaftasaga, tími til kominn

SimpsonsSimpsons-myndin var stórskemmtileg, enda ekki við öðru að búast. Erfðaprinsinn ætlaði að slökkva á henni um leið og stafirnir komu en móðir hans hafði vit fyrir honum og þar af leiðandi náðum við nokkrum atriðum í viðbót.

Ertu skotin í Tomma?Útvarpi Akraness var um það bil að ljúka í hliðarsalnum þegar við komum í köku og kaffi í Skrúðgarðinn fyrr í dag. Óli Palli var eitthvað að flækjast frammi, heilsaði og ... beygði sig síðan yfir mig og ... kys ... djók, og sagði lágt: „Hér er það mál manna að þú sért skotin í Tomma.“ Þarna átti hann við Tomma strætóbílstjóra. Ég gat auðvitað ekki neitað því og sagði honum að við kvenkynsfarþegar værum hrifnar af Tomma en hann liti við okkur öllum, sem sagt engri okkar. Ég veit að hann saknar skrautsins í brekkunni, eins og hann kallar Karítas í Lopabrekkunni. Karítas hefur mikið á samviskunni að vera flutt norður á land, hún er samt harðgift, held ég. Svo hugsar Tommi líka svipað og ég, við erum of ung til að vera skotin og binda okkur og svona ... Ég talaði um Tomma í útvarpsþættinum mínum og þá aðallega matarsmekk hans, þar var kannski kveikjan að sögunum og minntist auðvitað líka á hina bílstjórana. Næsta ár tala ég um mest um Heimi, eða Kidda ... eða kannski Gumma, jafnvel Ella, og þá verður gaman að vita hvort það komi ekki líka flottarsögur út úr því. Ég sagði Óla Palla reyndar að ég væri líklega kalin á hjarta, fyndist gaman að horfa á sætu strákana (ókei, karlana) en lengra næði það ekki. Mögulega á vinnustaður minn stóra sök á því með því að halda mér svona önnum kafinni og í frístundum kenni ég sjónvarpi og bókum alfarið um. Svo getur auðvitað verið að heimakærð, ballfælni, kaffidrykkir fram yfir aðra drykki, aðdáun á köttum, búeta á Akranesi, háralitur, skófæð, feimni, mannorð eða eitthvað slíkt hafi einhver áhrif.


Sætustu sjarmatröllin

Úlfur og Ísak sjarmatröllÞað styttist í að sjarmatröllin í ættinni verði ársgamlir eða tæpar þrjár vikur. Af því tilefni stal ég nýlegri mynd af heimasíðunni þeirra. Veit að þetta er frænkumont en það rennur nú þingeyskt blóð í æðunum ... með þessu skagfirska, eyfirska og sunnlenska.

Stefni á algjöran letidag í dag, horfa á vídjó á milli þvottavéla, eitthvað slíkt. Tókst með herkjum að sofa til hádegis. Mikill vinnukafli fram undan, gott að vera vel úthvíld. Annars sagðist erfðaprinsinn ætla að viðra mig, hann er ekki bara stærri og frekari heldur gekk hann í Heimspekiskólann þegar hann var lítill. Lærði að rífa kjaft á kurteislegan hátt og rökstyðja mál sitt. Jamm, vona að dagurinn ykkar verði góður.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.7.): 14
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 190
  • Frá upphafi: 1529009

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 161
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband