Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
16.12.2007 | 17:45
Litla stúlkan með kveikjarakassann ...
Vildi bara leiðrétta það hér og nú að ég er ekki á tónleikaferðalagi um heiminn, eins og örugglega allir hafa haldið. Nú er ég orðin öllu meiri tenór og bassi og gæti stofnað karlakór. Undarleg óhljóð í bland við snýtingar, dæs og andvörp, sérstaklega þegar erfðaprinsinn heyrir til. Hann dekrar móður sína sem hefur setið við tölvuna með hléum í dag og skrifað ómótstæðilegar greinar. Flottu nefdroparnir frá Ameríku, þessir með cayenne-piparnum, eru orðnir hálfbitlausir, enda tveggja ára gamlir. Er að hugsa um að hringja í samstarfskonu mína sem lumar á ammrískum kveflyfjum þar sem ein tafla sameinar verkjalyf, nefdropa, hóstamixtúru og sætt knús, og biðja hana um að koma með í vinnuna á morgun. Eins og við erum ammrísk þjóð þá skil ég ekki af hverju við fáum seríos og allt slíkt en ekki svona lyf, hvaða hagsmunir ætli séu hafðir í huga í því sambandi?
Ákvað að það hlyti að vera einstaklega hollt og heilandi að fara í heitt bað. Ætlaði að láta renna en það koma bara nokkrir kaldir dropar. Með kænsku og aðstoð erfðaprinsins látum við heita vatnið renna í eldhúsinu og baðvaskinum því að það virðist hafa einhver áhrif. Gleymi alltaf að tala við húsfélagsstjórnina, æ, ég er víst í henni sjálf ... Það koma ekki jól nema hægt sé að fara í jólabað ... eins gott að þetta verði í lagi. Ef ég geng út á næsta ári (eins og spákonan sagði) þá panta ég pípara eða smið, það dugir ekkert minna.
Nú er elsku erfðaprinsinn að ryksuga niður tröppurnar frammi, niður að næstu hæð. Kubbur hvarf inn í skáp þegar ryksugan fór í gang, Tommi fylgist spenntur með. Held að drengurinn sé gott mannsefni, ekki datt mér í hug að biðja hann um þetta.
15.12.2007 | 21:33
Einnar konu kór
Smá kvef og slappleiki í gangi og aukaverkun af því er hreint ævintýraleg. Þegar ég tala er eins og fullt af Gurríum sé að tala. Segja má að tal mitt sé raddað og vel má greina sópran, alt, tenór og bassa með smá róbótahljóðum ef vel er hlustað. Ég hef ekkert bloggað síðan í gær af því að ég var að stofna einnar konu kór og hef verið upptekin við að æfa Jólaóratóríu Bachs í allan dag. Alveg satt. Erfðaprinsinn virðist skíthræddur þegar ég kalla á hann og kemur strax með inniskó í munninum og kaffi og teppi og handklæði og fleira til öryggis því að hann veit ekki hvaða raddir þetta eru sem hann heyrir í höfðinu á sér. Mér dettur ekki í hug að róa hann.
Hélt sjúklega flotta tónleika fyrr í kvöld, tek það fram að allir sem sjást í mynd bærðu eingöngu varirnar. Ég stóð fyrir aftan og á allan heiðurinn af söngnum. Þakka Sinfóníuhljómsveitinni fyrir aðstoðina. http://youtube.com/watch?v=ggm0SZCWKZo&feature=related
P.s. Hlekkja með færslu frá Jens Guði sem ég hvet alla til að lesa: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/391858/
14.12.2007 | 16:35
Má ekki bregða mér frá ...
Ja, hérna ... Maður má ekki liggja heima í hálsbólgu og ófærð þá verður allt vitlaust í vinnunni og það ekki í fyrsta sinn. Það verður gaman að fá SME í salinn, ef Mannlíf heldur áfram að vera á sama stað, í tíu skrefa fjarlægð frá Vikunni. Við Sigurjón unnum saman á DV í gamla daga og mér hefur alltaf líkað vel við hann. Ég á eftir að sakna Heiðdísar Lilju, enda frábær vinnufélagi. Ásta sem tekur við Nýju lífi af henni, ásamt Ingibjörgu Dögg, var lengi á Vikunni og á án efa eftir að gera góða hluti. Feðgarnir Jón Trausti og Reynir verða fínir saman hjá DV en svakalega þarf að passa sig á honum Reyni ... Í matsalnum í gær sat ég nálægt honum og einhver við borðið spurði hvernig Skagaliðinu hefði gengið í Útsvari fyrir tveimur vikum. Ég sagði honum að við hefðum "malað" Hafnfirðinga ... með fjórum stigum ... hmmmm. Næsti keppinautur væri Ísafjörður þar sem eintómir doktorar og snillingar væru innanborðs, arggg. Sagði líka að bloggvinkona mín, Ragnhildur Sverrisdóttir úr Ísafjarðarliðinu, hefði lymskulega reynt að róa mig með því að kalla mig Vestfjarðaskelfinn. Bætti því við að ég léti ekki blekkjast af slíku. Reynir glotti og sagði blaðamanni DV, sem sat þarna líka, að setja þetta í Sandkorn. Þrátt fyrir áköf mótmæli mín frétti ég að þetta hefði verið birt ... og ég m.a. kölluð doktor í Oliver Twist. Mikið á ég eftir að sitja þegjandi nálægt Reyni framvegis, þótt það verði erfitt. Honum tókst líka að ná öðru og öllu meiri frétt upp úr okkur Vikugellum um að Geiri í Goldfinger hefði boðið okkur í afmælispartí Goldfingers í kvöld, í miðjum réttarhöldunum gegn Vikunni. Sjá bls. 2 í helgarblaði DV.
Þetta með að stórviðburðir gerist alltaf ef ég bregð mér af bæ eru engar ýkjur. Í þriggja mánaða fríinu mínu í fyrra (blaðamenn fá aukalega tvo mánuði á launum, þrjá með sumarfríinu, á sjö ára fresti til að byggja sig upp andlega ... og bæta við sig þekkingu) þá urðu framkvæmdastjóraskipti hjá Fróða og sitt af hverju í þessa átt hefur gerst nokkrum sinnum, ég man alla vega eftir SMS-i frá Steingerði sem bannaði mér að vera frá vinnu framar, það yrði alltaf allt vitlaust á meðan. Held að þetta nýjasta hafi endanlega sannað það.
Til að bloggvinir mínir skilji almennilega hvað það skiptir miklu máli fyrir alheimssamfélagið að ég sé í vinnunni bendi ég á þá nöturlegu staðreynd að ég var í fríi þann 11. september 2001 ... og stödd í sjoppu í Borgarnesi þegar fyrri turninn féll!
Sigurjón til Mannlífs og Jón Reynir til DV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2007 | 09:38
Dyggð undir dökkum hárum
Held að Ástu hafi ekki grunað að ég svaf yfir mig í morgun, ég bar mig svo vel. Gekk settlega niður stigann, 12 mínútum eftir vöknun með latte í hvorri og ekkert benti til stressklikkunarinnar sem hafði heltekið mig skömmu áður. Vaknaði sem sagt kl. 6.40 og brottfarartími með Ástu var 6.50. Skipulagði morgunverkin á sekúndubroti. Hljóp austur í eldhús og kveikti á kaffivélinni, þaðan vestur á bað þar sem snyrting var framkvæmd á ljóshraða, enda þarf lítið að gera sökum fegurðar. Miðjutakkinn á kaffivélinni var hættur að blikka þegar ég kom aftur austur fyrir og ég ýtti á freyðitakkann við hliðina. Á nokkrum sekúndum, þar til hann hætti að blikka, tókst mér að klæða mig til hálfs inni í eldhúsi. Setti þá mjólkina í könnu og í stað þess að halda á henni undir stútnum klæddi ég mig alveg en fylgdist samt vel með hitastiginu. Þá kom röntgensjónin sér líka vel. Kl. 6.52 snerist himnaríki enn í hringi eftir hvirfilbylinn mig, kettirnir héldu sér í gardínurnar, knúpparnir voru dottnir af jólakaktusinum og allt ryk fokið af ljósakrónum þegar ég var á leið niður. "Ó, varstu komin?" spurði ég Ástu, sem hafði beðið í tæpar 2 mínútur. Hafði reyndar kíkt niður rétt áður en ekki séð hirðbílstjórann minn þar sem hann var of nálægt húsinu.
Ástæða fyrir yfirsofelsi: Nú, bókin Maður gengur með!!! Gat ekki sleppt henni fyrr en hún var búin. Hún fjallar um óléttu, frá fyrstu fréttum fram yfir fæðingu, upplifun föður. Hélt þegar ég sá bókina fyrst að hún væri sniðug fyrir nýbakaða eða tilvonandi feður, kannski bara alla feður, en mér sem kjéddlíngu þótti alveg frábært að heyra hina hliðina. Svo sakar ekki að hún er skemmtilega skrifuð líka. Mislangir kaflar og ekkert verið að eyða of mörgum orðum í suma hluti, æ læk itttt! Svo byrjaði ég á Patriciu Cornwell í jólaklippingunni í gær (ó, ég er orðin svo fín) og hún lofar góðu. Mikið elska ég bækur heitt!
Fyrirsögnin hér að ofan ber sama nafn og bók eftir Nettu Muskett, mikið elskaði ég bækurnar hennar á unglingsárunum!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.12.2007 | 20:47
Montblogg um frændur og skór út í glugga ...
Elsku litlu Úlfur og Ísak voru í Kastljósi í kvöld. Svo broshýrir og fallegir. Mikið er ég montin af þeim. Reyndar vissi ég ekki fyrr en hálftíma fyrir Kastljós að þetta yrði sýnt í kvöld. Vonandi að tannréttinga- og talþjálfunarmálin verði komin á hreint þegar kemur að því að þeir þurfi slíkt. Þeir verða ársgamlir núna 19. desember, jólastrákarnir hennar frænku sinnar! Þeir hitta mig svo miklu sjaldnar en Hildu en finnst við greinilega líkar (eins og mörgum) því að ég fæ alltaf risastórt og svolítið undrandi frænkubros frá þeim. Ég er búin að kaupa jólagjafirnar handa þeim en ætla ekki að segja hvað það er. Miðað við hvað mamma segir um þá, að þeir séu undrabörn, hætti ég ekki á að þeir nái að lesa það hér á frænkublogginu. Doddi afi tók myndina til hægri.
Ég benti erfðaprinsinum á að í kvöld settu öll góðu börnin skóinn sinn út í glugga. Hann þóttist ekkert skilja, þannig að ég endurtók þetta og talaði hægar og skýrar, var líka komin með hættulega glampann í augun. Þá hunskaðist hann til að sækja annan strigaskóinn sinn og skellti honum út í stofuglugga. Ég ætla að halda mér vakandi og grípa sveinka glóðvolgan. Mig hefur alltaf langað til að sjá hvernig þeir fara að þessu en aldrei getað haldið mér vakandi. Best að kveikja á kaffivélinni, er farin að geispa.
Það er aðeins þrennt í stöðunni ef barnið mitt fær ekkert í skóinn:
1. Jólasveinninn gefur ekki 27 ára strákum í skóinn.
2. Erfðaprinsinn hefur ekki verið nógu þægur.
3. Jólasveinninn vill ekki láta standa sig að verki.
11.12.2007 | 18:35
Bold and the brúðkaupsraunir
Held að það sé kominn tími á að bolda svolítið. Brooke hætti við að giftast Ridge af því að ástsjúkur tengdasonur hennar, Nick, truflaði brúðkaupið, eins og komið hefur fram. Felicia dó og Bridget huggaði Ridge vegna systurmissisins og notaði svefnherbergisröddina á hann meðan hún strauk honum huggandi og léttklædd uppi í rúmi. Nick hljóp upp til að athuga hvað væri í gangi, opnaði dyrnar hljóðlaust og kíkti og gat ekki séð betur en ástaleikur stæði sem hæst. Fólkið í boldinu læsir aldrei að sér. Hann hljóp út í hvelli og á barinn, hitti þar blindfullan og snöktandi geðlækninn, hana Taylor sem vonaðist til að fá vonandi kannski mögulega að hirða upp leifarnar af Ridge. Ekkert stolt kemur í veg fyrir hamingju mína, drafaði hún. Hún elti samt harmþrunginn Nick í bátinn hans. Á svipuðum tíma, þegar Brooke var búin að hugga Ridge, hitti hún Jackie, mömmu Nicks, sem sagði henni að Nick hafi greinilega séð til Brooke og Ridge því hann hafi hlaupið út í sjokki. Brooke fær líka sjokk, ákveður að finna Nick og segja honum að hún elski hann, ekki Ridge. Af einskærum drykkjuskap og klaufagangi datt léttklædd Taylor ofan á enn minna klæddan Nick sem var allt í einu kominn í koju og um leið gekk Brooke í salinn (káetuna). Tjaldið fellur.
Það er þrennt í stöðunni:
1. Brooke fleygir Taylor útbyrðis sem missir minnið og giftist svo Tómasi, syni sínum, þegar kemur í ljós að ruglingur hafði átt sér stað á fæðingardeildinni fyrir 18 árum. Brooke fellur fyrir fangaverði í kvennafangelsinu og tekst með hennar hjálp að flýja. Hún litar hár sitt dökkt og fer að ganga í lágbotna skóm.
2. Taylor stofnar bleikan trúarhóp þar sem fjölveri er leyft og gengur að eiga Nick, Ridge, Thorne og brunakarlinn. Hún verður MJÖG hamingjusöm. Oprah fjallar um málið í þætti sínum.
3. Taylor giftist Eric, tengdaföður sínum. Stefanía, mamma Ridge, fer að vera með Nick sem er genginn í Vísindakirkjuna. Tom Cruise fer að bregða fyrir í þáttunum.
10.12.2007 | 23:35
Særok, grjótfok og 62 m/sek í hviðum undir Hafnarfjalli
Verð að viðurkenna að ég er hálfveðurhrædd í himnaríki núna. Að vísu sit ég í augnablikinu í vesturhelmingi penthássins eins og erfðaprinsinn kallar það og hér heyrist ekki mikið þótt rúðan sveigist á ógnvekjandi hátt. Inni í stofu, í austurhlutanum, heyrist varla mannsins mál. Svona er að búa við Atlantshafið. Ekkert hús sem skýlir. Svo á veðrið að ná hámarki um tvöleytið í nótt. Mér heyrist þakið ekkert vera að rifna af eins og hefur verið að gerast í Hafnarfirði og er þakklát fyrir það. Höfnin er vel upplýst og sést að mikið særok frussast yfir hana. Það segir mér að það sé grjótfok í Kollafirði. Vildi að það væri bjart úti. Vona að það verði ekki rafmagnslaust! Ég lýsi hér með frati á norsku veðursíðuna mína, þessa fyrrum uppáhalds. Hún spáði vondu veðri á fimmtudaginn en í dag átti að vera prýðisveður, minnir mig. Hefnigjarnir Norðmenn.
Horfði á seinni fréttir RÚV í seinkaðri dagskrá og þar sagði Elín Hirst að varhugavert væri að aka undir Hafnarfjalli núna, þar væru yfir 30 m/sek. Við trúðum þessu ekki og kíktum á vef Vegagerðarinnar. Þar sást að hviðurnar fóru upp í 64 m/sek! Það hefði nú alveg mátt fylgja fréttinni! http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/vesturland/linurit/st012.html
Annars er ég alveg að verða búin með Harry Potter og dauðadjásnin, hef náð að lesa hana mér til mikillar gleði þótt ég hafi lesið aðrar með. Gerði tilraun til að horfa á Heroes í kvöld ... en er búin að fá hundleið á þessum þáttum. Alltaf þarf að teygja lopann þegar eitthvað nær vinsældum. Þess vegna nenni ég ekki heldur að horfa á Prison Break nema rétt með öðru auganu, stundum. Mun takast að klára Potter á eftir og þá fær Jenný meil á morgun. Lofaði að segja henni endinn.
10.12.2007 | 08:22
Móðgandi póstforrit og ævintýri helgarinnar
Bílferðin í morgun var ósköp notaleg. Gat reyndar bara búið til lítið af latte handa okkur þar sem mjólkin var næstum búin. Við Ásta ræddum ævintýri helgarinnar á leiðinni og hún toppaði mig algjörlega. Ég fór í virðulegan, háæruverðugan Lions-jólamat á föstudag með Míu systur á meðan Ásta fór í afmæli og síðan á jólahlaðborð kvöldið eftir, hvorttveggja í bænum. Rúta ók fólkinu heim á Skaga af jólahlaðborðinu og einn úr hópnum gerði sér lítið fyrir og ... gubbaði á leiðinni. Þegar Ásta sagði mér þetta mundi ég algjörlega hvers vegna ég er hætt að nenna að djamma og fór t.d. ekki í Skíðaskálann um árið þegar jólahlaðborð Fróða fór þar fram, bjó þó í borginni á þeim tíma. Rútur áttu t.d. að fara í bæinn kl. 1 um nóttina og næsta kl. 2. Ég er greinilega svo næm ... eða lífsreynd að ég vissi innra með mér að fyrri tímasetningin stæðist ekki ... og það var rétt! Báðar rúturnar fóru heim upp úr 2. Í svona tilfellum, eins og þessu, þarf maður að eiga bíl. Einu sinni var árshátíðin okkar haldið á Hótel Örk í Hveragerði, rétt fyrir jólin. Ég var í sérherbergi og þegar ég nennti ekki að djamma lengur laumaðist ég inn í herbergið mitt ofsaspennt af því að Arnaldur Indriðason beið mín á koddanum, spennandi og djúsí. Nú verðið þið bara að giska á hvort þetta hafi verið huggulegur maður með þessu nafni ... eða bók.
Efnið sem ég vann heima í gær skilaði sér ekki til mín hingað í vinnuna með tölvupósti. Nýlega var skipt um póstforrit og fjöldi bréfa tapast í leiðinni. Ef einhver þarna úti hefur sent mér ímeil í vinnuna og ég ekki svarað því þá vil ég að það komi fram að það er það nýja póstforritinu að kenna.
8.12.2007 | 17:49
Merkir jafnaldrar og geimskip yfir Reykjavík?
Ég á nokkra mjög merkilega jafnaldra eins og Madonnu, Michael Jacson, Valdísi Gunnarsdóttur og Björn Thoroddsen. Svo var ég að fatta að enginn annar en Osama bin Laden er jafngamall mér. Ekki er rangt að álykta að hann liti jafnunglega út og við hin ef hann rakaði af sér þetta karlalega skegg.
Stórt, ljósum prýtt geimskip vomir yfir Reykjavík í þessum skrifuðum orðum. Erfðaprinsinn dirfðist að reyna að halda því fram að þetta væri skíðasvæði Reykvíkinga! Skíðasvæði halla sér ekki svona ógnandi yfir borgir. Ég nötra af hræðslu hérna í himnaríki og er að hugsa um að detta ofan í Harry Potter og gleyma mér í leisígörl með teppi yfir mér. Kannski eins gott að ég fór ekki í jólahlaðborðið með vinnufélögum nú í kvöld.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.12.2007 | 15:07
Djamm, lagkaka og símanúmer í Hvíta húsinu
Þar sem 10 mínútur voru búnar af Taggart ákváðum við bara að horfa bara á RÚV plús eftir tæpan klukkutíma. Tíu mínútum eftir að Taggart hófst á nýjan leik steinsofnaði ég í leisígörl og svaf til kl. sex í morgun. Argsvítans! Tókst með harðfylgi að halda áfram að sofa í rúminu mínu til kl. 13 í dag. Nú er ég ekki lengur þreytt og til í hvað sem er. Ætla að hella mér í bóklestur á meðan erfðaprinsinn horfir á fræðslumynd um árásirnar á USA 11. september 2001. Held að ég viti hvernig myndin endar, þess vegna er ég yfirleitt löt að horfa á eitthvað sannsögulegt.
Við Skagamenn erum þvílíkt hreyknir af hrekkjalómnum okkar, honum Vífli, sem tókst næstum því að plata Bandaríkjaforseta. Einu sinni hringdu Tvíhöfðamenn reglulega í Hvíta húsið í s. 456-1919, minnir mig (man ekki lands- og svæðisnúmerin á undan) og reyndu að gera símastúlkurnar gráhærðar. Þær kunnu alveg á slíka símaatara og gáfu Jóni og Sigurjóni samband við línu þar sem enginn var hinum megin, síminn hringdi bara stöðugt. Þetta er eflaust ekki leyninúmerið dularfulla í Hvíta húsinu, ja, annars kemur bara löggan í heimsókn til mín.
Þegar ég fór til Washington DC eitt árið í skólaferðalag fórum við nokkrar að Hvíta húsinu. Að gamni tók ég traustataki laufblað af trjágrein sem slútti út fyrir grindverkið. Ef ég þarf einhvern tíma að gala seið og galdra eitthvað og í uppskriftinni stendur: Takið laufblað af tré sem vex við Hvíta húsið í Washington, skerið það smátt ..., þá er ég í góðum málum.
P.s. ÁRÍÐANDI!!! Kann einhver að gera hvíta lagtertu með súkkulaðikremi (ekki sultu) á milli og getur gefið mér uppskriftina? Smakkaði svona tertu í barnæsku og fannst hún ógurlega góð.Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.11.): 176
- Sl. sólarhring: 191
- Sl. viku: 918
- Frá upphafi: 1506617
Annað
- Innlit í dag: 141
- Innlit sl. viku: 749
- Gestir í dag: 132
- IP-tölur í dag: 128
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni