Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Ævintýri í Eyjum 1974

VestmannaeyjarAldeilis sem Eyjamenn lenda í vetrinum núna á meðan við Skagamenn sitjum hálfberir úti og grillum, eða myndum gera ef það væri aðeins hlýrra.
Ég á fínar minningar frá Eyjum. Var ekki nema 15 ára þegar ég fór þangað í febrúarmánuði, ári eftir gos, ráðin sem sérlegur ormahreinsari í Ísfélagi Vestmannaeyja. Hafði flosnað upp úr námi í Vörðuskóla og átti íslenskukennarinn minn ekki síst sök á því. Viðkvæm daman þoldi ekki háðsglósur hans á borð við: „Guðríður, helltu úr þinni andlegu ruslatunnu og segðu okkur hvað andlag er!“ Eftir að hafa haft ástkæran Rögnvald sem kennara í Barnaskóla Akraness og þar á eftir Jón Marteins í Austurbæjarskóla, strangan en frábæran, var þetta ekkert nema áfall. Það spilaði að sjálfsögðu inn í að einhverra hluta vegna var ég aðskilin frá gömlu bekkjarfélögunum mínum úr 1. og 2. bekk Austurbæjarskóla, m.a. Áslaugu, Nönnu, Valdísi Gunnars (jamm, einu, sönnu) og fleirum og skellt í landsprófsbekk með krökkum úr Hlíðaskóla, held ég. Gæti ekki nefnt eitt einasta þeirra á nafn í dag. Ekki hreifst móðir mín af þessu, að dóttirin hætti í skóla og færi á vertíð, en lét undan að lokum þegar ég sagði henni að ég ætlaði í landspróf aftur næsta vetur. Það stóð ég líka við.

ÍsfélagiðHálft ár í Eyjum var stórskemmtilegur og lærdómsríkur tími. Ég var rekin úr vinnunni (bara einu sinni) fyrir sakir herbergisfélaga mína, var fárveik og mætti samt hvergi bangin í vinnuna þegar mér var batnað. Haldið var klikkað partí í litla herberginu sem hýsti okkur þrjár og ég man ekki eftir neinu vegna veikinda, þó rámar mig í að fjöldi fólks hafi setið á rúminu mínu og djúsað og reykt. Mér datt ekki í hug að láta reka mig fyrir þetta og ekki urðu frekari eftirmál.

Eins gott að ég hafði verið í herbergi með þessum stelpum og kynnst þeim, annars hefði getað farið illa fyrir mér. Ég var of ung til að komast inn á böll en tókst alltaf að koma mér inn með einhverjum ráðum. Athugull dyravörður gerði mér erfitt fyrir eitt kvöldið og ég þurfti að beita miklum fortölum. Önnur af herbergisfélögunum átti í sambandi við þennan dyravörð án þess að ég vissi og inni á kvennaklósetti tók hún mig hálstaki og spurði hvort ég hefði verið að reyna við hann. Þessi stúlka var mikil vexti og tók reglulega þátt í óopinberum kraftakeppnum í frystihúsum í Eyjum ... og sigraði marga hrausta menn. Hún var kölluð Trölla en enginn hefði dirfst að segja það við hana. Hún trúði mér þegar ég sagði henni að ég hefði engan áhuga á manninum. Sjúkkittt!!! Mér þótti leitt þegar ég frétti löngu seinna að hún hefði verið myrt af eiginmanni sínum. 

Svona litu Eyjar út 1974Þegar haldin var árshátíð Ísfélagsins þurfti að panta vínið frá Reykjavík, enda ekkert “ríki” á staðnum. Þótt ég væri bara 15 ára var að sjálfsögðu pöntuð vodkaflaska fyrir mig. Yfirleitt var unnið frá átta á morgnana til tíu á kvöldin alla daga vikunnar, það þótti gott ef við hættum ögn fyrr á laugardagskvöldum og alltaf var farið á ball. Helgarvinnan minnkaði þegar nær dró sumri. Ég hef sagt frá því áður en um tíma vann sjálf Shady Owens úr Trúbrot með mér og mér hlotnaðist sá mikli heiður að fá að fara út í sjoppu fyrir hana.

Jamms, ég á frábærar minningar frá Eyjum. 


mbl.is Vont veður í Vestmannaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur?

LisaMálverkið sem sumir kalla Mona Lisa hefur alltaf gengið undir nafninu La Gioconda, eða alveg síðan Da Vinci sagði um árið: „Sæl, tylltu þér hérna á kollinn og láttu fara vel um þig. Ég heitir Leonardo, hvað heitir þú?“

Mikið vona ég að vísindamenn uppgötvi árið 2893 að húsráðandi himnaríkis hafi verið frú Guðríður sem bjó þar með eingetnum syni sínum í eldgamla daga.

Þeir munu án nokkurs efa nota þá aðferð að fara í gegnum fornt tölvuforrit Kaupþings til að finna út úr því ... en allir aðrir í heiminum vissu allt um málið þar sem nöfn hennar og erfðaprins voru allan tímann á dyrabjöllunni ...


mbl.is Upplýst hver Mona Lisa var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Særok, grjótfok og 62 m/sek í hviðum undir Hafnarfjalli

Hvasst við himnaríkiVerð að viðurkenna að ég er hálfveðurhrædd í himnaríki núna. Að vísu sit ég í augnablikinu í vesturhelmingi „penthássins“ eins og erfðaprinsinn kallar það og hér heyrist ekki mikið þótt rúðan sveigist á ógnvekjandi hátt. Inni í stofu, í austurhlutanum, heyrist varla mannsins mál. Svona er að búa við Atlantshafið. Ekkert hús sem skýlir. Svo á veðrið að ná hámarki um tvöleytið í nótt. Mér heyrist þakið ekkert vera að rifna af eins og hefur verið að gerast í Hafnarfirði og er þakklát fyrir það. Höfnin er vel upplýst og sést að mikið særok frussast yfir hana. Það segir mér að það sé grjótfok í Kollafirði. Vildi að það væri bjart úti. Vona að það verði ekki rafmagnslaust! Ég lýsi hér með frati á norsku veðursíðuna mína, þessa fyrrum uppáhalds. Hún spáði vondu veðri á fimmtudaginn en í dag átti að vera prýðisveður, minnir mig. Hefnigjarnir Norðmenn.

Horfði á seinni fréttir RÚV í seinkaðri dagskrá og þar sagði Elín Hirst að varhugavert væri að aka undir Hafnarfjalli núna, þar væru yfir 30 m/sek. Við trúðum þessu ekki og kíktum á vef Vegagerðarinnar. Þar sást að hviðurnar fóru upp í 64 m/sek! Það hefði nú alveg mátt fylgja fréttinni!  http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/vesturland/linurit/st012.html

Harry PotterAnnars er ég alveg að verða búin með Harry Potter og dauðadjásnin, hef náð að lesa hana mér til mikillar gleði þótt ég hafi lesið aðrar með. Gerði tilraun til að horfa á Heroes í kvöld ... en er búin að fá hundleið á þessum þáttum. Alltaf þarf að teygja lopann þegar eitthvað nær vinsældum. Þess vegna nenni ég ekki heldur að horfa á Prison Break nema rétt með öðru auganu, stundum. Mun takast að klára Potter á eftir og þá fær Jenný meil á morgun. Lofaði að segja henni endinn.


Veðurleynd á Íslandi?

Veðurblogg eru bestu bloggin, með fullri virðingu fyrir öðrum bloggum. Samkvæmt uppáhaldsveðursíðunni minni, erlendri að sjálfsögðu, verður veðrið svona á Akranesi á næstunni:

VeðurFöstudagur 7. des: Hálfskýjað, SSA 5,4 m/sek, 1°C,

Laugardagur 8. des: Léttskýjað, A 5,1 m/sek, 0°C.

Sunnudagur 9. des: Sól, ANA 3,3 m/sek, -2°C.

Mánudagur 10. des: Skýjað, ASA 8,1 m/sek, -2°C.

Þriðjudagur 11. des: Rigning, SA 6,8 m/sek, 4°C.

Miðvikudagur 12. des: Rigning, ASA 6,6 m/sek, 1°C.

Fimmtudagur 13. des: Grenjandi rigning, VSV 15,2 m/sek, 3°C,

Föstudagur 14. des: Rigning, ASA 16,2 m/sek, 5°C.

Laugardagur 15. des: Léttskýjað, S 9,9 m/sek, 4°C.

Svona eiga veðurspár að vera. Það segir mér lítið ef talað er um að lægð sé á leiðinni. Ég vil vita upp á hár hversu sterkur vindurinn verður og hvaðan hann blæs. Það er upp á öldurnar að gera. Undir næstu helgi kemur afar spennandi veður, rok og rigning. Mikið er ég glöð yfir því að búa á Íslandi þar sem veðrið er svo fjölbreytilegt. Nú verður gaman að sjá hvort þetta rætist. Skil ekki hvers vegna ekki eru til almennilegar veðursíður á Íslandi. Hvort sem spár rætast fullkomnlega eða ekki er samt mjög gaman að sjá hvaða líkur eru á hvernig veðri eftir t.d. viku. Ég er þegar búin að panta mér hótelherbergi í Reykjavík á fimmtudaginn og afboða eitt blint stefnumót á Skrúðgarðinum hér á Skaganum. 


Fokið heim í heiðardalinn

Erfðaprins í innkaupumLaugardagsveisla í himnaríkiVið Ásta komumst heilu og höldnu (í hviðum upp á 27 m/sek) alla leið í Einarsbúð og þangað mætti erfðaprinsinn ofsaglaður, enda finnst honum fátt skemmtilegra en fara í búðir. Á meðan ég lá í hægindastól í spennumyndahorninu keypti erfðaprinsinn í matinn og það lítur út fyrir guðdómlegan kvöldverð í himnaríki á laugardag. Fimm manna veislu.

Fékk þessa líka frábæru hjálp í Einarbúð við valið, ákvað að kaupa fylltan lambahrygg með gráðaosti og villisveppum, verður tilbúið á morgun. Það er nóg að segjast ætla að halda veislu þá er ekkert lát á hugmyndum og ráðgjöf í þessarri búð. Þetta verður ekki gamaldags ósmekkleg veisla með 20 tegundum af meðlæti og kokkteilsósu, eins og ég var þekkt fyrir, alla vega ein jól í gamla daga. Þess í stað verður ferskt salat og sætkartöfluréttur. Þarf reyndar að finna sellerírót til að fullkomna þann síðarnefnda. Jamms, það er nóg að gera á stóru heimili.


Með hjartað á "réttum" stað

Ísak í klippinguÚlfur í klippingu hjá ömmu ErnuLangt síðan ég hef bloggað nokkuð að ráði um sætustu tvíbura í heimi, Úlf og Ísak. Nokkuð stórmerkilegt og óvænt kom í ljós í myndatöku nýlega. Úlfur hafði verið veikur með háan hita og var sendur í röntgenmyndatöku. Þar kom í ljós, fyrir utan að vera ekki með lungnabólgu, að hann er með nokkuð sem heitir Situs Inversus, http://en.wikipedia.org/wiki/Situs_inversus, frekar sjaldgæft, talið að einn af hverjum 10 þúsund séu svona … eða með hjartað hægra megin Hin líffærin geta verið svona spegluð líka og meira að segja þótt hjartað væri vinstra megin. Ekki er víst að Ísak sé svona.

Þetta segir mér að í raun sé ekkert til sem heiti að hafa hjartað á réttum stað. Eða þannig. Líklega eru um 30 Íslendingar með hjartað hægra megin og Úlfur er önnur manneskjan sem ég þekki sem er þannig. Hin er Steinunn, stelpa sem bjó í Norðurmýrinni í næstu götu við mig á unglingsárunum æsilegu á Bollagötunni. Hér eru nýlegar myndir af prinsunum (bítlunum) sem var tekin þegar föðuramma þeirra klippti af þeim lokkana. Úlfur til vinstri (sorrí) og Ísak til hægri. 


Vatn og góður tónlistarsmekkur ...

Gleðimyndir að morgniEkki hófust tónleikar Ástu mjög gæfulega í morgun. Ég gerði mér upp kurteisi og spurði þegar við rúlluðum frá himnaríki með sitthvort latte í hönd: „Hvað er þetta eiginlega?“ Ásta: „Þetta er Marc Anthony, maðurinn hennar Jennifer Lopez, líklega fyrrverandi.“ Af næmleika sínum áttaði Ásta sig á því að stutt væri í að ég fleygði mér öskrandi út úr bílnum, þótt ég segði ekki orð, og ýtti á takka nr. 2 á spilaranum.  Ekki tók mikið skárra við, eða Bette Midler (fyrirgefðu, Ívar), og ef ekki væri fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan sjö hefði dagurinn orðið enn nöturlegri. Ekki var séns að halda áfram að hlusta á morgunútvarpið því að tala átti um pöddur sem lifa í rúminu hjá fólki. Það finnst mér viðurstyggilegt umræðuefni. Ástu líka. Ég skil ekki af hverju okkur datt ekki í hug að ýta á  plötuspilara 4 fyrr en á Kjalarnesinu ... þar lúrðu nefnilega Led Zeppelin. Hækkuðum allt í botn í Stairway til Heaven og Going til Californina. Þá meina ég í botn. Þetta voru alvörutónleikar!!!

thank-water.netMiðað við hamingjuna sem ég upplifði við þetta verð ég að stórefast um að vatnið í líkama mínum hafi kristallast í einhvern ófögnuð (skrímsli) við rokkið, eins og japanski maðurinn heldur fram í bók sinni Leyndardómar vatnsins. Mér líður nákvæmlega jafnguðdómlega vel þegar ég hlusta á hávært GOTT rokk og Stabat Mater eftir Pergolesi! Ég er viss um að vatnið í mér hefur verið við það að breytast í rafgeymasýru þegar vælukjóarnir þarna í morgun byrjuðu að syngja í plötuspilaranum hennar Ástu. Smekkur fólks hlýtur að hafa áhrif ... nema vatn hafi svona lélegan smekk! Í bókinni kemur fram að vatn bregðist líka við orðum. Orð eins og þakklæti hafi mergjuð áhrif til góðs á meðan bjáni láti láti það kristallast í ljótar myndir ... það er sem sagt ekkert sniðugt að blóta í baði. Sá reyndar eitthvað um þetta í myndinni What the Bleep do we know?! og gleymi alltaf að gera tilraunir sjálf ... enda á ég svo sem hvorki góðan frysti né smásjá. Eftir vonbrigðin miklu með vatnið, saltið og baðvaskinn (og það komu engar öldur) hef ég lítið verið fyrir vísindatilraunir ...


Haustlægð fyrir hetjur

Hugað ævintýrafólkNæstum full rúta af ævintýraþyrstum ofurhugum tók strætó heim seinnipartinn ... rauð tala blasti við á skiltinu, eigi svo ógnvekjandi talan 17, en strætó fer ekki ef hviður fara yfir 32 m/sek. Það sem vantar hviðumæli milli Hvalfjarðarganga og Kjalarnessbyggðar vissum vér farþegar að lítið væri að marka þetta. Ég byrgði mig því upp af nauðsynjavörum; vatni, álteppi, áttavita, samlokum og landakorti, svona til öryggis ef okkur bæri af leið. Þá gæti ég opnað Mary Poppins-töskuna mína á réttu augnabliki og gefið mannskapnum hressingu. Svo var bara fínt verður á leiðinni, eða þannig, bara venjulegt haustveður, rok og rigning. Heimir fór létt með að koma okkur heilum heim.

Vitlaust veðurTommi, Kubbur og róbótinn tóku mér hlýlega þegar ég kom heim. Nú þarf ég bara að ákveða hvaða herbergi óskírður hreinsar næst. Mikið ætla ég að kenna þessu krútti að sjá um þvottinn líka, alla vega að brjóta hann saman og ganga frá honum inn í skáp.  

Á morgun er spáð vitlausu veðri, rigningu og roki að suðvestan. Loksins vinnur Siggi stormur fyrir laununum sínum! Gluggi hinna 15 handklæða í stofunni hefur enn ekkert lekið síðan þéttingin fór fram fyrir þremur vikum þegar Óli granni kom í spartl-heimsókn með eiginkonu og barnabarni og fékk afmæliskaffi að launum. Smá bleyta var í bókaherbergisglugganum en ég hef ekki kíkt á svefnherbergisgluggann, þar setti ég handklæði í morgun. Annað hvort er það blautt eða þurrt ... det kommer bare i ljus.

Mig langar í svona brim:
http://www.youtube.com/watch?v=47hmqfXuA3A&mode=related&search


Af hastarlegu hvarfi Bols og uppáþrengjandi spákonum!

BolurinnFátt hefur vakið meiri athygli en skyndilegt og hastarlegt brotthvarf Bols Bolssonar úr bloggheimum. Hér er afhjúpunin: http://blogg.visir.is/henry Ungmeyjarnar skæla, sérstaklega ég þar sem ég missti af þessari mannvitsbrekku sem átti þó að heita bloggvinur minn. Mér finnst mikil snilld að komast þetta langt á bullinu, en hvað gerðu ekki Emil og Hrólfur? Hafa þeir nú sameinast í einhvers konar hefnd? (nei, ýtið á hlekkinn)

SpákerlingDear Gudridur, I'm writing to you one last time about this, Gudridur, because I want to make absolutely certain that I have done everything possible to alert you. So please click here. Bethea. Nenni ekki að skrifa Betheu til baka og segja henni að það komi ekki til greina að ég kaupi þetta galdrahálsmen sem hún hefur í örvæntingu reynt að selja mér í nokkra mánuði og ég er á síðasta séns til að öðlast lífshamingjuna. Fann Betheu á Netinu, nú losna ég ekki við hana.

KristallarEinu sinni var ég á skólaferðalagi í New York og við fórum nokkrar skólasysturnar til spákonu í Greenwich Village. Eitthvað í svipinn á mér virðist æsa upp falsspákonur sem sértrúarsöfnuði. Held að ég sé vanmetinn og gáfusvipurinn sem ég set reglulega upp er greinilega misskilinn sem bjánasvipur. Samt er ég aldrei með opinn munninn vegna geitunganna. En alla vega ... spákonan í New York horfði alvörugefin á mig þegar hún var búin að spá mér einhverjum hryllingi og bað mig lengstra orða að hringja í sig þegar ég kæmi aftur til Íslands. Ég ætlaði ekki að gera það en ein skólasystirin æsti mig til þess og þetta var stórmerkilegt símtal. Spákonan sagði að ef ég ætti að njóta einhverrar gæfu í lífinu yrði ég að senda henni rúmlega 200 þúsund krónur, í dollurum auðvitað, og til baka fengi ég nokkra kristalla sem ég ætti að hugleiða yfir. Síðan yrði ég að senda steinana til baka og hún ætlaði að láta nokkrar nornir hugleiða yfir þeim. That´s it! Ég sýndi henni þá kurteisi að hlæja ekki upphátt og tjáði henni að ég kynni ekki að hugleiða yfir steinum og ætti auk þess ekki 200 þúsund krónur, enda nýútskrifuð úr skóla og væri að leita mér að vinnu. Þannig fór nú um gæfuríka lífið mitt ... kannski væri ég gift einhverjum Ævari og byggi með honum í flottu húsi í Grafarholti. ÆvarHann alltaf að grilla og við skryppum reglulega til Parísar til að viðhalda rómantíkinni. Hann væri búinn að senda mig í nokkra æfingatíma hjá ökukennara og nýi bíllinn minn væri WV Polo, svona sætur, sjálfskiptur konubíll. Vissulega er Ævar sannkallaður happdrættisvinningur en ég afsalaði mér honum á grimmdarlegan hátt! Talandi um grimmd ...

Stefanía lýsti yfir ást á Eric, fyrri manni sínum, og sparkaði svo í punginn á honum! Núverandi eiginkona Erics, Brooke, hneykslaðist en þá sagði Stefanía: „Hafðu engar áhyggjur, þú vilt hvort eð er ekki sofa hjá honum!“ hvernig svo sem hún veit það! Nú á að breyta Forrester-tískuhúsinu og færa það nær upprunanum, segi löglegi eigandinn, eða Stefanía. Taylor með varirnar verður hið nýja andlit tískuhússins. Hún er nefnilega virðuleg. Múahahhahaha! Svo er Thorne orðinn nýi forstjórinn, ekki Ridge. Allt að verða vitlaust í boldinu!


Verslunarmannahelgarsögur og bíórytmi

Verslunarmannahelgin á næsta leiti og þótt best sé að vera heima ætla ég að kíkja í sumarbúðirnar til Hildu. Slepp vonandi við mestu umferðina ef ég fer austur á laugardegi og fer til baka á sunnudegi.

HerjólfurÉg heyrði nokkrar góðar verslunarmannahelgarsögur einu sinni ... m.a. um stelpuna sem sást reika um Eyrarbakka eldsnemma á mánudagsmorgninum. Konan sem var fyrst á fætur á Eyrarbakka mætti henni og stúlkan spurði hana hræðslulega: „Hvar er ég?“
Konan: „Þú ert á Eyrarbakka!“
Stúlkan: „Á Eyrarbakka? En ég bað strákana að skutla mér í Eyjabakkann í Breiðholtinu.“

Eða blindfullu stelpurnar sem seinnipart föstudags stigu út úr rútunni á Siglufirði, litu í kringum sig á allt síldarævintýrið og spurðu: „Hvar er Herjólfur?“

Besta verslunarmannahelgarsaga sem ég hef heyrt er reyndar í nýjustu Vikunni sem lífsreynslusaga. Hún er bráðfyndin og auðvitað dagsönn. Blaðið kemur út á morgun. :) 

Sit heima og vinn í dag, engin strætóævintýri fyrr en í fyrramálið. Ásta ætlaði að kíkja á mig í gær og ég ákvað að leggja mig, var eitthvað svo kalt og sá rúmið mitt í hillingum, mjög, mjög sjaldgæft að degi til. Það slökknaði á mér í nokkra klukkutíma. Svo hringdi klukkan í morgun kl. rúmlega sex en það var ekki séns að hreyfa sig. Skrýtið að grípa allar pestir þessa dagana, er ekki sátt við það. Samkvæmt bíórythmanum mínum getur þetta passað ... líkamlega heilsufarslínan er næstum í botni, fékk nefnilega ímeil frá uppáhalds-netstalkernum mínum, spákonunni henni Rochelle, sem lofar mér stöðugt gulli og grænum skógum, eða bjartri framtíð ef ég bara kaupi einn töfrastein af henni eða eitthvað slíkt. Prófaði að setja afmælisdaginn minn inn og þá verð ég víst í fullu fjöri. Þegar kemur fyrir að allar línurnar eru í botni þykir það slæmt og ég sá einu sinni í Mogganum að leigubílastöð í Japan gefur bílstjórunum sínum frí þessa botndaga þeirra. Margt skrýtið í kýrhausnum.

Hér er hlekkur á bíórythmasíðu: http://www.bio-chart.com/ Skellið bara inn fæðingardegi og ári til að sjá hvort dagurinn ykkar er góður eða slæmur ... eða þannig.

Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 20
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 847
  • Frá upphafi: 1515942

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 709
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband