Færsluflokkur: Lífstíll

Krúttfrændur, kokkteilsósa og nýr aðdáandi

Sætu frændurFrábæru frændur mínir, Úlfur og Ísak, fóru í aðgerð til að loka gómnum núna í byrjun október. Þeir sem ekki vita þá fæddust þeir með alskarð. Þeir dvöldu í fimm daga á spítalanum í góðu yfirlæti en nældu sér fljótlega í umgangspest, þessar elskur. Samt var alltaf stutt í brosið hjá þeim, enda eru þeir með geðbetri börnum. Þarna liggja þeir í kerrunum sínum inni á sjúkraherberginu, með spelkur á handleggjunum til að varna því að þeir geti rifið upp saumana. Þeir eru þrælslappir þarna, dúllurnar. 

 ----------          ------------         -------------        -----------


13.10 2007Hér í himnaríki lítur allt út fyrir latan sunnudag, erfðaprinsinn les, móðir hans íhugar næstu spennandi húsverk ... úúúú, setja í þvottavél, setja Jónas í gang og gefa krumma fiskbita, krummanum sæta sem hefur svifið hér fyrir utan gluggana og glatt augu okkar allra nema Jónasar. Jónatan svikari hefur eflaust fundið aðra svalakerlingu til að daðra við, enda mávur. Allir vita hvað þeir eru lauslátir. Svo þarf náttúrlega að undirbúa sig vel fyrir matarboðið í kvöld, farða sig, finna hugguleg föt og upphugsa skemmtileg umræðuefni til að fá fleiri boð.

 ---------       --------------

Kokkteilsósa

Mía er mjög góður kokkur, ég er svona meira í kökunum, enda í æfingu eftir öll afmælin. Eldaði þó góðar kjúklingabringur í gær. Kryddaði þær með Best á kjúklinginn og grillaði á mínútugrillinu og hafði stöppu úr sætum kartöflum með, já, og salat auðvitað. Þarf að venja erfðaprinsinn af plebbaskap en hann fékk sér kokkteilsósu líka. Hélt að ég væri af kokkteilsósu-kynslóðinni en ekki hann.


Drjúg eru morgunverkin ...

Mikið var gott að vakna svona snemma á laugardegi, eða hálftíu ... og snúa sér ekki á hina hliðina. Flýta sér að búa til latte og drekka áður en sofaútdjöfullinn fær mig til að skríða upp í aftur. Setti Jónas í gang fljótlega og held að hann sé orðinn eitthvað áttavilltur, hann hamaðist við að ryksuga ganginn og lét varla sjá sig inni í eldhúsi og stofu. Á meðan erfðaprinsinn svaf þrælaði litli bróðir. Þarf að tékka á áttavillunni. Vissulega er gott að hafa ganginn svona tryllingslega hreinan.

Húsmóðir að þrífaDatt ofan í nýja unglingabók eftir Jónínu Leósdóttur í gærkvöldi, hélt áfram með hana morgun og gat ekki hætt fyrr en hún var búin. Ansi hreint skemmtileg. Ekki dugði það á lestrarþorstann, heldur er ég nú þegar komin á blaðsíðu 157 í bókinni Drápin - Tannöd-morðin. Á bóndabænum Tannöd í S-Þýskalandi fundust lík allra heimilismanna og af verksummerkjum að dæma höfðu þau öll verið myrt á hrottalegan hátt ... segir á bókarkápu. Þetta er bók sem hlaut Þýsku glæpasagnaverðlaunin í ár, nokkuð kúl að fá hana þýdda svona fljótt. Hún er bara ansi góð og ég ætla að klára hana á eftir og fara svo í lokin á Harry Potter.

Annars er ég í einhverju hallærislegu tiltektarstuði og langar að gera allt himnaríki hreint og fínt þegar Jónas er búinn að safna nægri orku eftir lætin á ganginum. Mögulega er hann að mótmæla einhverju (kommon, hvor sonanna fæddist á undan?). Spurning hvort ekki séu til sérstakir ryksuguróbótasálfræðingar ... en kannski þarf bara að hreinsa skynjarana með eyrnapinna. Stundum geta einföldustu lausnirnar verið bestar.  


Úr matsal ráðhússins

kvoldmaltidÞessi mynd gengur sem eldur í sinu á Netinu í þessum töluðum orðum, vildi leyfa ykkur, sem ekki eruð með tölvupóst ... (djók) að njóta líka.

 


Staðið við heitavatnshótun

BrrrrrrrHeita vatnið var tekið af um kvöldmatarleytið, eins og hótunarmiðinn sagði. Nú er mér orðið svo kalt að ég mun borga hvað sem er fyrir hita í ofnana. Þetta voru þá engar samsæriskenningar hjá mér í síðasta bloggi. Það er meira að segja svo kalt í himnaríki að ég ætla að skríða upp í rúm, óböðuð og allt.

Mikið vona ég að strætó fari í fyrramálið þrátt fyrir væntanlegt hvassviðri sem er reyndar nú þegar farið að berja á þaki himnaríkis. Ummm, notalegt, eða væri það ef hlýtt væri innandyra, hér ornar bara hjartahlýja kattanna, já, og sængin.  
 


Hviðu- og karlablogg

Stefnumót með VegagerðinniÞað var svo hvasst í morgun að við Ásta þorðum ekki að dorma í strætó, heldur þyngdum að vanda í okkur pundið með því að gera okkur stífar. Heimir var rosalega þakklátur, þessi elska. Mikið held ég að það myndi auka á öryggið ef hviðumælir yrði settur upp við Akrafjallsveg (þar sem rúta fauk út af fyrir nokkrum árum og fólk slasaðist) og líka á milli ganganna og byggðarinnar á Kjalarnesi. Eini hviðumælirinn er  staðsettur skömmu áður en haldið er niður í Kollafjörð (á suðurleið) og stundum er hreinlega logn þar þegar við feykjumst til hliðanna á öðrum stöðum á leiðinni. Jamm, best að hafa samband við Vegagerðina, þar vinna víst sætir karlar! Ég er meira en til í að fórna mér og fara á stefnumót með þeim ef þarf til að koma upp fleiri mælum, yrði mér bara sönn ánægja.

Maðurinn á Merrild-bílnum var hvergi sjáanlegur íþegar ég gekk upp brekkuna. Hann þarf ekkert að vera hræddur. Það eru mörg ár síðan ég hef kastað mér á sendiferðabílstjóra á ferð í djörfum tilgangi, mér finnst vera komið að strákunum að stíga fyrsta skrefið núna.

Jæja, hafið það gott í dag, illskurnar mínar. Múahahahah


Nýr heimilismeðlimur

Ungar og sætar mömmurÓ, hvað súpan á Skrúðgarðinum var góð, svona lúmskt sterk! Þetta er að verða vani á þriðjudögum að labba þessi 230 skref frá sjúkraþjálfuninni og þangað. Að þessu sinni var búið að hertaka allan hægri hluta kaffihússins og þar voru ungar mömmur á ferð. Ég skannaði úrvalið í skyndi, alltaf að leita að hentugri tengdadóttur, en sýndist þær allar hamingjusamlega giftar. Komst reyndar að því að Rut á Skrúðgarðinum á fagra dóttur á réttum aldri sem hún vill koma út. Annars skammaðist Rut yfir því hvað það er langt síðan boldað hefur verið á þessari síðu og úr því verður bætt síðar í dag.

 ---------        -------------          ------------

BlandariÁtti erindi til sýslumanns og spurði að gamni afgreiðslukonuna hvort ökuskírteinið mitt væri í gildi en það rann út á síðustu öld. Hún hélt það nú og gat alveg stillt sig um að hlæja að 80’-myndinni af mér. Skírteinið var orðið nokkuð sjúskað af notkunarleysi og hún gerði við það bara sisona! Það er allt svona á Skaganum, sannkallaður unaður að heimsækja hér verslanir og opinberar stofnanir! Kvarta svo sem ekkert undan þeim í höfuðborginni en það er allt miklu heimilislegra hérna, finnst mér. Í Einarsbúð keypti ég helling af frosnum berjum, skyri, klakapokum, melónu, perum og þess háttar og nú á að fara að drekka búst-drykki. Gat ekki stillt mig um að kaupa spínat og gulrætur líka. Það eru oft mjög góðar uppskriftir í Vikunni að svona orku- og heilsudrykkjum. Ég hef aldrei dottið niður á almennilegan morgunverð, vona að það breytist í kjölfarið. Nýjasti heimilismeðlimur í himnaríki er nefnilega blandari, keyptur í Módel.    


Þrjár klárar konur og femíniskur strætóbílstjóri ...

Smiður, vísindakona og ritstjórnarfulltrúiHeimir bílstjóri er annað hvort sannur femínisti eða heyrnarlaus. Frá Mosfellsbæ sátum við þrjár kjarnakonur fremst í strætó; vísindakonan, smiðurinn og ritstjórnarfulltrúinn og töluðum hátt og snjallt um vísindi (æ, þið mynduð ekki skilja það ...), misrétti (Ísland 2007), úrtölur (konur kunna ekki að keyra, skilja ekki vísindi og geta ekki lært stærðfræði) og froska (dæmisaga frá smiðnum). Margir kjósa að misskilja svona umræður um misrétti og halda að verið sé að tala illa um karlmenn, sú var auðvitað ekki raunin, við erum allar, held ég, alveg kolvitlausar í stráka, eins og flestir femínistar.

Á leiðinni upp kúlurassbrekkuna tók ég vel á ... gekk rösklega og fann hvernig rassvöðvarnir styrktust með hverjum metranum ... og það var eins og við manninn mælt, maðurinn á Merrild-sendibílnum flautaði næstum því á mig og var alveg við það að stoppa fyrir mér svo að ég kæmist yfir götuna. Hann stoppar pottþétt á mánudaginn. 

Nellí prófarkalesari kom rennblaut í hús nokkrum mínútum á eftir mér. Hún varð holdvot inn að beini á því að labba úr bílnum sínum og þessa millimetra að húsinu. Ég nýt greinilega velþóknunar veðurguðanna sem láta víst bara rigna á rangláta. Eru ekki prófarkalesarar hvort eð er í sama flokki og stöðumælaverðir? Sífellt nöldrandi ... "þú átt ekki að leggja hérna" ... "þú átt ekki að skrifa Y í klifra" ... osfrv.


Einkamál ...

AkureyriStórgáfað, rétt rúmlega fertugt (49) glæsikvendi óskar eftir að kynnast manni á sjötugsaldri sem nýlega hefur komist yfir mikla peninga. Búseta úti á landi engin fyrirstaða.
Áhugasamir hafi samband sem fyrst!


Miklu betri en kartöflur

KartöflurMyndatakan gekk bara vel í dag. Förðuð og flott fyrir framan aftökusveitina tókst mér að pósa snilldarvel og gat nýtt reynsluna síðan í fegurðarsamkeppninni 1978, eða hefði getað gert ef mér hefði verið boðin þátttaka. Var líka búin að skoða Hagkaupsbækling í bak og fyrir og lærði aðferðina við að virka undirgefin með dassi af framakonudugnaði. Sænski ljósmyndarinn var að fríka út af gleði og fannst ég örugglega taka mig miklu betur út en kartöflurétturinn sem hann myndaði fyrr í morgun.

---------------        ---------------       ---------------------- 

GamlárskvöldFólkið í boldinu hjakkar svo í sama farinu að ég afber varla að horfa á það þótt ég hafi lofað að fórna mér annað slagið. Stefanía og Brooke, erkifjendurnir, hafa rifist síðan í síðustu viku um sama gamla dæmið eða þangað til Eric kemur og stoppar þær. Taylor er „ein“ á gamlárskvöld og Hector (slökkviliðsmaður, ekki hundur) bendir henni á að gift kona ætti ekki að vera ein á svona kvöldi. Ridge er einhvers staðar að tískuhúsast í útlöndum og Taylor væflast um húsið í sexí undirfötum og vonar að eiginmaðurinn komi heim svo að hún geti tælt hann. Hún ætti bara að vita að karlar laðast ekki að líkama kvenna, heldur vitsmunum þeirra.


Læknisraunir Ástu&son, lífshætta og heitavatnsleysi!

Það er ekkert að þér , auminginn þinn!Ásta sagði mér læknisfarir sínar ekki rennisléttar á leiðinni í bæinn með drossíunni hennar. Hún fór til læknis nýlega út af verkjum í mjöðm og gerði þau mistök að taka unglingsson sinn með ... en stráksi hafði slasað sig og verið til meðferðar hjá þessum sama lækni. Læknirinn trylltist yfir því að hún "reyndi að fá tvo fyrir einn" á svona ósvífinn hátt svo að barnið hrökklaðist fram og næstu fimm mínútur af tíu mínútna tímanum fóru í að læknirinn fann hitt skiptið sem Ásta mætti með barn með sér (án þess að gerð væri athugasemd við það þá). Ásta var reyndar ekki að spara peninga með þessu, heldur tíma og hefði glöð greitt annan 4.000 kall og sloppið við svona leiðindi. Verkir í mjöðmum reyndust vera bólgur í vöðvafestum og ekki séns að hún fengi sjúkraþjálfun eða bólgueyðandi ... óver his dedd boddí. Hún skyldi bara fara að hreyfa sig.

Ég vorkenni lækninum mest að hafa ekki getað sagt hryssingslega að Ásta ætti að fara í megrun og hætta að reykja, því miður, hans vegna er Ásta tággrönn, reyklaus og fer í minnst klukkutíma gönguferð á dag.

Sonur Ástu hringdi í næsta símatíma læknisins og kvartaði yfir bólgnum fæti og sárum verkjum eftir að gifsið var tekið. "Hvað með það?" sagði læknirinn. "Ha?" hváði drengurinn. "Só vott?" endurtók doksi upp á ensku. Hann sagði honum að drullast til að fara að vinna en skrifaði reyndar vottorð fyrir hann. Hélt fyrst að Ásta væri að grínast þegar hún sagði mér þetta, þeir væru útdauðir þessir læknar sem héldu að þeir væru guð. Minnir að ég hafi einu sinni upplifað dónaskap frá eldri lækni með nefið upp í loftið. Það pirraði hann eitthvað að geta ekki sjúkdómsgreint mig.

Mér finnst læknar almennt með skemmtilegra fólki, hafa góðan húmor og taka sig ekkert of hátíðlega. Ásta var engin ástæða leiðindanna, hann er víst svona við alla, elsku guðinn.

KjúklingarEldaði eina bestu súpu lífs míns í gærkvöldi og ætlaði að skella niðurskornum kjúklingabitum út í til að gera hana matarmeiri. Okkur erfðaprinsi fannst skrýtið að óútskýrða fýlan í ískápnum hvarf þegar kjúklingurinn var kominn úr honum en samt fundum við enga fýlu af kjúllanum. Ég skar bringurnar niður og skellti þeim á heita pönnu ... þá kom ísskápslyktin aftur en nú upp úr pönnunni. Við fleygðum kjúklingnum (sem ég keypti fyrir fjórum, fimm dögum, dagsetn. sást ekki) en ég þorði ekki einu sinni að reyna að lokka Jónatan máv til mín aftur með honum. Tel að við prinsinn höfum verið í lífshættu um tíma í gær, enda hafði ég eiginlega hugsað mér að skella hráum kjötbitunum beint út í súpuna og láta þá malla þar ...

Í dag verður ljósmyndataka og ég hata myndatökur, enda er ég oftast eins og vélsagarmorðingi á myndum, sérstaklega á debitkortinu mínu. Getur Vikan ekki notað þessa sjö ára gömlu mynd af mér sem er t.d. hér á blogginu? Nei, það þarf að festa hverja nýja hrukku og hverja nýja fitufellingu á filmu fyrir komandi kynslóðir ... sem er þannig séð allt í lagi, hrukkur eru smart og fellingar kúl, það er bara þetta attitjút hjá ljósmyndurum að þurfa að láta mann brosa, ég þoli ekki að brosa, finnst það ömurlegt ... fólk hræðist mig ekki brosandi og missir alla virðingu fyrir mér ef ég brosi ... arggg

Sko, þarna var ég ekki með dökkbrúnt hár.Í gærkvöldi ætlaði ég að gera mig óhugnanlega fallega og lita hárið á mér dekkra fyrir komandi myndatöku. En það var heitavatnslaust í himnaríki!! Hvernig er hægt að gera mér þetta á svona mikilvægum tímamótum? ANNA!!! Hvernig getur Orkuveitan útskýrt þetta? Var búin að blanda litinn sem bíður víst enn hristur en opnaður inni á baði, hlýtur að vera orðinn ónýtur. Kostaði BARA 2.000 kall. Ég er því með brúnt hár í dag, ekki dökkbrúnt. Mútaði reyndar Róberti snillingsmeistara með fimmtíukalli til að setja mig í fótósjopp. Hann mun án efa gefa rétta mynd af guðdómlegu innræti mínu. Myndin til vinstri sýnir hvað ég myndast hræðilega illa svona dagsdaglega, enda ekki með dökkbrúnt hár í þetta skiptið.

P.s. Ætli liturinn sé ekki ónýtur? Kannski bjartsýni að reyna að nota hann ... þ.e.a.s. ef heita vatnið verður komið í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 634
  • Frá upphafi: 1524949

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 539
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband