Færsluflokkur: Lífstíll

Þroski og sálarró

Frænkurnar Freyja og MargrétÞað tilheyrir hreinlega að sofa til hádegis eftir afmælisdaginn sinn. Myndirnar eru komnar inn í myndaalbúmið á bloggsíðunni.
Mig langar enn og aftur að þakka fyrir fallegar kveðjur ... ég veit að maður verður ekki 49 ára á hverjum degi ... en samt! Hehehe!

Munaði víst minnstu að ég fengi litla frænku í afmælisgjöf í gær ... en hríðarverkirnir duttu niður. Þá hefðu foreldrarnir ekki getað annað en látið skíra hana Guðríði. Þau segja reyndar að eldri dóttirin heitií raun Gurrí þótt hún sé alltaf kölluð Freyja.

Stóran, ógnvekjandi skugga bar á skrifborðið nú í þessum skrifuðum orðum og ég leit til hægri til að sjá hvað það væri sem skyggði á sólina. Það var geitungur sem stefndi beint inn um gluggann. Með leifturhraða stóð ég upp, samt full æðruleysis og rósemi, lokaði glugganum og horfði kuldalega á fluguna, grútspælda yfir því að geta ekki terroriserað himnaríki. Ég hef fundið fyrir einstakri sálarró síðan ég varð 49 ára, þetta er ekki fyrsta tilfellið. Kannski fer ég að taka terlínbuxur í sátt en þær voru ímynd hins illa í mínum huga á eiginlega-of-seint-hippaárunum mínum á áttunda áratugnum.


Langar örfréttir af veislunni

Strætókakan og fleiraGuðrún Vala, Pólverjinn og AnnaÞetta var dásamlegur dagur. Um 60 manns kíktu í kaffi í dag og brauðterturnar tíu kláruðust hratt. Þær voru búnar um sexleytið ... arggg! Ætla pottþétt að búa til fleiri fyrir næsta afmæli.

Ég beið spennt eftir Barbie- tertunni frá Dagbjörtu en þetta reyndist vera glæsileg Strætó- terta, rosalega flott. Hún setti Tomma undir stýri og hafði okkur Tomma og Kubb sem farþega. Vakti mikla lukku.

 

 

Afmælisbarn og EllýSætir bræðurSumir voru örlátari í gjöfum en aðrir, (ekki er þó allt sem sýnist) t.d. kom Guðrún Vala alla leið frá Borgarnesi með Pólverja handa mér í afmælisgjöf ... hélt ég þangað til ég heyrði hann útskýra fyrir öðrum afmælisgesti: „Ég og kona mín eiga heima í Borgarnes!“ Þegar Raggi mætti svo, ekki með Oddnýju sína, heldur Sigurjón bróður sinn, bjóst ég við að Sigurjón væri afmælisgjöfin mín ... en Raggi tók hann til baka. Þeir bræður gáfu mér eggjabakka, nýorpin landnámsegg, ég hefði getað ungað út bragðgóðum leikföngum fyrir kettina.
Sigurjón útskýrði fyrir mér að eitthvað ljósbrúnt dæmi utan um svalaumgjörðina utan frá virkaði eins og svampur, fylltist af vatni, þetta yrði að laga! Sigurjón er smiður og veit sínu viti!

 

 
Sigga með Ísak, Ellý með ÚlfSara, Edda frænka og AuðurEdda frænka dreif sig með strætó til mín og var svo heppin að Tommi var að keyra. Hann bað hana að borða eina pönnuköku fyrir sig í afmælinu ... vona að Tommi fyrirgefi mér að engar pönnukökur voru á boðstólum. Hann hefði mætt ef hann hefði verið í fríi, sagði hann Eddu.

 

 

Það er ein sneið eftir af afmælistertunni og ég ætla að úða henni í mig seinna í kvöld.
Ég uppgötvaði í dag að ég er orðin fullorðin. Hingað til hef ég alltaf rifið pakkana upp jafnóðum, eins og smákrakki, en nú geymdi ég það þangað til í veislulok. Þetta er miklu sniðugra og fullorðinslegra, nú man ég frá hverjum ég fékk hvað. Þetta voru frábærar gjafir, takk ástsamlega fyrir mig! Afmælinu lauk og enn var allt bjart úti, það hefur aldrei gerst áður. Það kom metfjöldi af börnum, eða sex-sjö, og það var bara gaman. Vel uppalin og góð börn. Saknaði þess heilmikið að sjá ekki litlu Aðalheiði Hilmarsdóttur sem ég vonaðist eftir ... Tvíburarnir hennar Heiðdísar frænku slógu í gegn. Það er eiginlega nauðsynlegt að leyfa börn svona þriðja hvert ár! Held það nú! 

 

 
Ekki mikið lystarleysi gestaMía, Dagbjört, Ragna, Guðmundur og mammaÁsta og Böddi koma aftur á morgun í afganga, heil skálarterta eftir ... (í henni er brúnn tertubotn, smátt skornar perur, rjómi, kókosbollur og súkkulaðibitar, öllu hrært saman í mauk, algjört góðgæti). Ætla rétt að vona að þau mæti svöng. Ég verð í fríi á morgun og hef því svo sem allan daginn til að borða af skálartertunni og fara í bað með öllu flotta, nýja baðdótinu mínu, get mátað nýju fötin, kveikt á nýjum kertum, puntað með fína dótinu og svona.

P.s. Man ekki hvernig á að setja myndir í albúm en ætla að fikta mig áfram með það og setja inn allar afmælismyndirnar. Held að ég hafi náð að mynda flesta.  


Örstutt

Afmælisterta 2007Jæja, ég hef 5 mínútur. Þá þarf að hella upp á fyrstu stóru könnuna, skera niður brauðterturnar og slíkt. Himnaríki lítur út eins og himnaríki, allt skúrað út úr dyrum.

Þema afmælistertunnar í ár er eins og stundum áður: Ég fékk hana ódýrt.

Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar, elsku bloggvinir nær og fjær til sjávar og sveita.
Hendi inn myndum í dag eftir bestu getu svo að hægt verði að vera með, meira að segja frá Spáni, Laufey. Knús í bili.


Naktir karlar á Skaganum - líklega utanbæjarmenn

Naktir karlar úje!Veit að þið eigið erfitt með að trúa þessu ... en núna rétt áðan hlupu margir naktir karlmenn framhjá himnaríki. Mér gafst ekki einu sinni ráðrúm til að bjóða þeim í kaffi! Sjá mynd. Vá, ef ég hefði nú verið á Gay Pride í bænum og misst af þessu. Rétt náði í skottið á þeim með myndavélinni. Hlutirnir gerast hérna í dag, ekki í Reykjavík!

Elskan hún Ólöf Ósk (dóttir Sigrúnar "Flórens" sveitameyjar) kom í rúman klukkutíma í dag og hjálpaði mér við undirbúning afmælisins. Mikið var gott að fá tvær aukahendur. Aðalverkefni hennar var tilfærsla á tímaritum og bókum en mesta draslið í himnaríki er af völdum þessara tveggja fyrirbæra, já, og dagblaða sem ég ætla alltaf að lesa síðar. Eins og ég reyni að vera dugleg að gefa tímaritin mín hlaðast þau samt upp! Ég fæ aukið pláss fyrir bækur og blöð þegar smiðurinn minn kemur. Ekki hlæja, hann kemur einn góðan veðurdag, hann sagðist koma bráðum, reyndar ekki hvaða ár!

Sko! Mér finnst hann jensguð mjög skemmtilegur bloggari. Hreinn og beinn og ekki með neitt bull ... þangað til í dag. Þá hvatti hann heimsækjendur sína til að kjósa sig í vinsældabloggarakeppninni hjá Kalla Tomm í Mosó http://ktomm.blog.is/blog/ktomm/. Þótt keppnin sé eiginlega bara grín þá svíður mig sárt að horfa upp á svona svindl! Ég bið ykkur um að fara inn á síðu Kalla og kjósa mig. Samkeppnisaðilar mínir, m.a. Jenný, Anno, Katrín Snæhólm, vélstýran, og Jóna myndu sýna ótrúlegan þroska með því!

Heyrði í háæruverðugri móður minni áðan. Býst við að hún taki hádegisstrætó til mín á morgun, annað hvort er að taka hann kl. 12.37 eða 16.37. Bílstjórarnir þurfa að leggja sig eftir hádegið, held ég. Mikið hlakka ég annars til á morgun. Vona að sem flestir komi.


Til hamingju, Ísland

Gay PrideMig langar til að óska Íslendingum til hamingju með daginn. Sérstaklega hommum og lesbíum, þótt þau hafi stolið afmælinu mínu tvisvar á undanförnum árum.
Vona að gleðigangan verði sérdeilis flott í dag og leitt að þurfa að vera að skúra, skrúbba, bóna og baka þegar ég ætti að vera að labba niður Laugaveginn eða jafnvel láta móðga mig í Lífstykkjabúðinni, eins og um árið þegar afgreiðslukonan mín hrópaði: „Eigum við samfellur í stóru númeri?“ yfir alla búðina og hálf þjóðin stóð fyrir utan dyrnar og beið eftir gleðigöngunni. Svo kom konan með allt of stóra samfellu inn í mátunarklefann til mín og móðgaði mig þannig enn meira. Held að hún hati brjóstgóðar konur, finnst þær alla vega mun feitari en þær eru. Hef keypt veiðigallana annars staðar síðan.

Fékk ábendingu um að setja á 7 á afruglaranum til að ná SkjáEinum ... þá kemur: Stöð ekki tiltæk! Kannski tengist þetta búsetu á landinu, kannski er þetta bara ljótt samsæri! Kemur í ljós þegar ég lyfti símtólinu nokkrum sinnum á mánudaginn og spyr hvassra spurninga, segi upp stöðvum og svona! Er enn í stríðshug!


Dularfulla teskeiðahvarfið og víðförult kaffi

AfmælistertaHeld að öll afmælisaðföng séu komin í himnaríki. Einarsbúð færði mér fullan kassa af vörum sem ég pantaði fyrr í dag. Þurfti m.a. að panta litlar plastskeiðar til að fólk geti skóflað upp í sig tertunum og þá er best að hafa þær allar mjúkar. Alla vega verða rúllubrauðterturnar mjúkar, ég geri þær annað kvöld. Rækju- og laxabrauðtertur. Ég skil ekki hvað hefur orðið af öllum teskeiðunum mínum og kökugöfflunum sem ég hef sankað að mér í gegnum árin. Best að spyrja kettina.

KaffisjúklingurAnna kom fyrr í dag á eðalkagganum sínum með lánskaffikönnu + þrjá stóra brúsa í dag + afmæliskaffið sem hún sótti fyrir mig niður í Bankastræti. Aukaplastpoki fylgdi með og þegar ég kíkti ofan í hann sá ég kíló af lífrænt ræktuðu kaffi og kvittun um að þetta kaffi hefði verið greitt af konu nokkurri í Grafarholtinu. Ég hringdi strax í Kaffitár og komst að því að konan sú stóð við afgreiðsluborðið til að sækja kaffið sitt ... sem fannst ekki þrátt fyrir mikla leit þar sem það var á Akranesi! Víðförulla en gert var ráð fyrir. Anna ákvað bara að skutla kaffinu heim til konunnar á leið heim í Árbæinn og uppskar fyrir það mikið þakklæti Kaffitárs og konunnar í Grafarholtinu. Expressóvélin mín myndi ekki anna þessu kaffiþyrsta liði sem kemur á sunnudaginn og síðustu árin hef ég fengið lánaða hraðvirka og mjög góða könnu.


Nördaskapur og sjúklegheit

Veður og sjólagÉg held að ég elski Siglingastofnun Íslands! Mér finnst svo gott að geta kíkt á síðuna þeirra af og til og sjá allt um tímasetningar flóðs og fjöru á Skaganum: http://vs.sigling.is/pages/84  Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar um tíma en ég sá á síðunni að hægt var að senda þeim bréf. Gerði það og fékk mjög kurteislegt og yndislegt bréf til baka þar sem mér var sagt að þetta yrði lagfært, bilun hefði verið í tölvukerfi og unnið í málinu ... og nú er allt komið í lag! Það þarf ekki að gera meira fyrir mig til að vekja ást og aðdáun!
Held stundum að ég sé nörd. Mér finnst nauðsynlegt að kíkja af og til á Kötluvaktina á ruv.is, fylgjast með veðurfréttum og vonast svo alltaf eftir góðu brimi við Langasandinn.

Jæja, nú dugar þessi leti ekki lengur. Best að setja allt á fullt. Nú er sterkur latte kominn inn í blóðrásina og dugnaðargenin blása ákaft til sóknar. Mestu áhyggjur mínar þessa stundina eru þær að sumir hafi skipt um gemsanúmer síðan í fyrra og fái því ekki afmælisboð frá mér. Þótt ég segi við fólk í hverju afmæli: „Sjáumst að ári!“ þarf samt að ýta á eftir og minna á.

Elskan hann Baldvin Jónsson á sextugsafmæli á sunnudaginn. Hann hringdi í mig í gær og bauð mér að koma í bröns á Hótel Sögu og fagna með sér. Við unnum lengi saman á Aðalstöðinni sem hann átti og rak. Þar sem við vitum bæði að besta fólkið á afmæli 12. ágúst urðum við perluvinir. Leitt að komast ekki en ég myndi sannarlega kíkja ef ég ætti þyrlu og hvetja hann við lambakjötssöluna.

Hér koma smá sjúklegheit sem ég hló að sl. nótt þegar ég átti að vera sofandi:
http://www.youtube.com/watch?v=g01Oa31onxw&mode=related&search=
http://www.youtube.com/watch?v=JOaL8_ztmpM&NR=1


Fyrir þá sem ekki vissu ... og afmælismyndband 2006

Stefanía við Eric: „Á meðan þú lést þessa tík sölsa undir sig fjölskyldu mína og fyrirtæki ...“
Svo bætti hún við nokkru seinna: „Þú ert drekinn!“
„Taktu mig,“ sagði Brooke við Nick. „Ég get það ekki,“ vældi grenjuskjóðan Nick sem þó hefur grátbeðið Brooke um að taka upp samband við hann. Þau faðmast vináttulega, tjaldið fellur.  Framhald á morgun.

 

LÖNGU TÍMABÆRAR ÚTSKÝRINGAR Á FÓLKINU SEM BÝR Í NÆSTA STIGAGANGI:

StefaníaStefanía: Ættmóðirin, lengst af gift Eric. Hún er mamma Ridge, Thorne og Kristínar (sem er lítið áberandi í þáttunum núna). Ridge er reyndar sonur Massimo, kom í ljós fyrir nokkru. Steffí hatar Brooke sem giftist nýlega Eric í annað sinn. Áður hefur hún verið gift bæði Thorne (einu sinni) og Ridge (3-4 sinnum).

 --------------            -------------------                 ---------------------

 

EricEric: Ættfaðirinn. Hélt alltaf mest upp á Ridge, eldri soninn, sem hann á þó ekkert í en það vissi hann ekki í rúm 40 ár ... Hann kvæntist Brooke í annað sinn mjög nýlega. Hann veit samt að hún er spennt fyrir Nick, tengdasyni sínum og hefur ekki enn treyst sér til að sofa hjá Eric.  

 

 -----------------            --------------------              ---------------------

 

BrookeBrooke: Hún á börnin Rick og Bridget með Eric af fyrra hjónabandi þeirra, dótturina Hope á hún með Deacon, fyrrum tengdasyni sínum, og litlabarnið með Ridge eftir nýjasta hjónaband sitt með honum. Hef ekki séð Rick lengi í þáttunum, ekki heldur fyrrum barnfóstru hans og síðar eiginkonu, Amber.

 -------------------           -------------          -------------------

 

TaylorTaylor: Lögleg eiginkona Ridge, móðir Tómasar og tvíburanna. Hún dó en í rauninni hafði henni verið byrlað fornt eitur. Hún var í kvennabúri Omars soldáns þar til Dante listmálari bjargaði henni. Tómas kvæntist ástinni sinni þar sem leit út fyrir að henni yrði vísað úr landi. Það pirrar Taylor ósegjanlega, enda vildi hún eitthvað annað og betra fyrir soninn. Varir Taylor eru mjög bólgnar, maður hennar í raunheimum er lýtalæknir og notar varir hennar eflaust til að klára úr bótox-sprautunum. Hún þykir vera mjög klár geðlæknir í þáttunum.  

 ---------------          -------------------              ---------------

 

RidgeRidge: Faðir Tómasar og tvíburanna Steffí og Fíbí. Hann á þau með geðþekka geðlækninum Taylor. Á einnig litlabarn með Brooke. Hann hefur gengið á milli Brooke og Taylor og gifst þeim til skiptis. Um tíma var hann skotinn í Bridget, fyrrum systur sinni og stundum stjúpdóttur (þegar hann var kvæntur Brooke), þegar í ljós kom að þau væru ekki blóðskyld. Þegar hann hélt að Taylor væri dáin gekk hann að eiga Brooke og lenti í vandræðum þegar Taylor lifnaði við. Hann á enn í konuvandræðum og glímir við mikinn tilvistarvanda að auki. Nick er að taka við af honum sem aðalhönk þáttarins.

 

 ----------------         ---------------------           -------------------------

 

NickNick: Sonur Massimo og Jackie, er barnsfaðir Bridget en ástfanginn af tengdamóður sinni, Brooke, sem nýlega giftist Eric, pabba Bridget, til að bjarga sambandi sínu við dótturina. Er hálfbróðir Ridge. Jackie, mamma hans, deitaði Eric nýlega þar til hann sveik hana fyrir Brooke, the 40+ lambakjöt. Nick á eftir að rúlla kerlingunum upp, ég sá aðeins fram í tímann og veit að bæði Brooke og Taylor eiga eftir að bítast um hann, kannski giftast honum til skiptis.

 

 -----------------------         ----------------           ----------------------

 

BridgetBridget: Dóttir Erics og Brooke. Ólétt eftir Nick sem hún giftist nauðugum þar sem hann elskar móður hennar. Er í læknisfræði núna. Eflaust útskrifast hún um svipað leyti og barnið fæðist miðað við tímahraða BB. Hún var ástfangin af Deacon og giftist honum en mamma hennar stakk undan henni. Deacon var áður trylltur á eftir Amber hinni horfnu. Dante, bjargvættur Taylor, er mikill aðdáandi hennar. Hann deitaði samt mömmu hennar um tíma en þá var allt í lagi á milli Bridget og Nicks.

 

Ef bendillinn er settur yfir mynd kemur nafn viðkomandi nágranna míns. 

 

P.s. Myndband úr afmælinu mínu 2006:
http://www.grapheine.com/bombaytv/index.php?module=see&lang=fr&code=57051a684f455ebbb4aa7f4aaa814684


Skaga-Heimir, blogg-Heimir og Heimríður

straeto„Lentir þú í tjóni þegar rafmagnið fór af í fyrradag?“ spurði Heimir bílstjóri.
„Ja, bara tilfinningalegu,“ svaraði ég sannleikanum samkvæmt, enda háð rafmagni.
„Það kviknaði í á sveitabænum hjá foreldrum mínum. Þau voru að fara út úr dyrunum til Reykjavíkur þegar þau fundu reykjarlykt, það mátti ekki miklu muna að illa færi. Svo eyðilagðist heilinn í fjósamjaltadæminu (man ekki hvað Heimir kallaði tækið)“.

Skaga-Heimir henti mér út úr leið 27 í Mosó og ég fór beint upp í leið 15 hjá öðrum Heimi, bloggara og strætóbílstjóra, Fjeldsted. Var heilmikið að pæla í því að spyrja bílstjórann á leið 18 hvort hann héti Heimir líka en hann reyndist vera kona. Kannski heitir hún Heimríður.

Afmæli í himnaríkiÞað var gaman að kíkja í vinnuna, ég var m.a. að ýta á eftir samstarfsfólkinu að kíkja í afmælið á sunnudaginn. Inga vinkona var í einhverju akstursstuði, kom og sótti mig og skutlaði mér svo alla leið á Skagann. Hún vildi ekki einu sinni koma upp í himnaríki, heldur dreif sig í bæinn aftur og heim, eflaust komin undir sæng, enda er veðrið til þess.
Ég er búin að ljúga að tilvonandi afmælisgestum að auðvitað verði afmælið stranglega bannað börnum, eins og venjulega, en svo gef ég undanþágur hægri og vinstri. Æ, afmælið er á sunnudegi, fjölskyldudegi, og á meðan börnin verða stillt inni á baðherbergi geta foreldrarnir notið sín og spjallað við annað fullorðið fólk.


Bæjarleyfi

HúsfélagsformaðurinnÞá er það æsispennandi ferð til borgarinnar eftir 10 mínútur! Ég tími varla að fara frá öldunum, þær eru svo fallegar. Ekki kannski stórar en háværar, svona mini Miðjarðarhafslegar. Húsfélagsformaðurinn er að búa til grindverk sjávarmegin, gaman að vita hvernig verkinu mun miða í dag. Alltaf gaman að horfa á menn í Smáralindarstellingunni.

Jæja, hlaupin í strætó. Lifið heil.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 7
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 446
  • Frá upphafi: 1532212

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 375
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ruggustóll og sjal
  • Við Keli
  • Ruggustóll og sjal

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband