Færsluflokkur: Ferðalög
17.9.2007 | 08:58
Vetrarkuldi ... og kaffidrykkjubann skollið á í strætó
Enginn Heimir hjá mér í dag, sagði Kolla á Bylgjunni og dæsti mæðulega. Ég hló hróðug, nýkomin upp úr Hvalfjarðargöngunum, enda sat Heimir fyrir framan mig og keyrði strætó. Hann brunaði fram úr aukabílnum, sem tímajafnaði á Kjalarnesinu, en tafðist örlítið við að hleypa kvensmiðnum út skömmu síðar. Þegar við renndum í hlað í Mosó náði aukabíllinn okkur. Ætlar þú virkilega að leyfa honum að ná þér? spurði ég Heimi. Við erum ekki í kappakstri, sagði Heimir rólyndislega og gerði ekkert til að stinga aukabílinn af. Þetta var nokkuð sem ég hefði ekki viljað vita ... því að hluti af spennu minni yfir að fara með strætó í haust hefur verið þessi tryllingslega spennandi kappakstur á milli aðalbíls og aukabíls. Svo var þetta allt blekking og bara tilviljun hvor kemst fyrr í mark.
Ég tók latte með í strætó í morgun, óafvitandi um að slíkt væri í raun bannað! Las nefnilega í DV að farþega í Rvík hefði verið meinaður aðgangur í vagn vegna þess að hann hélt á götumáli með kaffi. Þeir hjá Strætó bs segja að Gísli Marteinn hefði lofað þessu með kaffið upp í ermina á þeim. Hvað er svona slæmt við kaffidrykkju í strætó? Varla sullar fullorðið fólk mikið niður, sérstaklega þar sem það drekkur kaffið sitt í gegnum pínulítið gat á lokinu.
Engin Sigþóra var í aukabílnum þannig að ég gekk alein og einmana upp kúlurassbrekkuna og bjóst við að Prentmetsgæinn æki framhjá mér á móts við súkkulaðiverksmiðjuna. Kannski kom hann bílnum ekki í gang í Mosó, enda var ansi kalt í morgun. Tók vetrarvettlingana með en fattaði ekki að fara í sokkabuxur. Veturinn er að skella á, folks!
14.9.2007 | 20:33
Af kaffimáli, alþingissamferðamanni og norskum veðurvef
Mikið er gott að helgin er loksins komin. Þusti með leigubíl í Mosó undir hálfsjö og náði síðustu síðdegisferðinni. Þar var fyrir nýr bílstjóri, ósköp indæll eins og allir hinir. Farþegarnir voru heldur ekki af verri endanum; gaur af sætukarlastoppistöðinni (sem aukabíllinn stelur í heild sinni frá mér í morgunferðinni) og svo Gutti, þingmaðurinn okkar. Við ræddum gáfulega saman á leiðinni, m.a. um verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum og fleiri kúl frumvörp. Gutti hefur verið í alþingismannafríi, þeyst um kjördæmi landsins og setið ýmsa nefndarfundi. Nóg að gera þótt þingið sé í fríi. Hann kenndi mér þegar ég var í 12 ára bekk hérna á Skaganum og þótti okkur bekkjarsystkinunum rosalega gaman að fá tilbreytinguna en hérna í eldgamla daga sátum við uppi með sama kennarann svo árum skipti og hann kenndi ALLT nema leikfimi og sund. Við vorum reyndar heppin með Rögnvald, hann var frábær. Mig minnir að við höfum verið afar góður bekkur og ekkert kvalið kennaranemann Gutta neitt svakalega mikið, eiginlega bara ekkert. Þá hefði hann líka ekki yrt á mig í strætó.
Mamma hringdi í mig í gær og sagði mér að hún hefði prófað að setja fyrst kaffið í bollann sinn og síðan mjúlkurskvettuna ... og það væri svo miklu betra. Ef hún hefur byrjað að drekka kaffi á unglingsaldri, eins og ég, þá hefur hún drukkið það á rangan hátt, eða sett mjólkina fyrst, í heil 60 ár! Það er heilmikill bragðmunur!
Veðuráhugafólk athugið. Hér er spennandi veðurvefur: www.yr.no og loks hægt að sjá veðurhorfurnar nákvæmlega á hverjum stað fyrir sig. Ég skellti inn orðinu "Akranes" og fékk staðfestingu á að hér verður mikil veðurblíða að vanda á næstunni. Munið bara að skrolla svolítið niður síðuna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2007 | 10:46
Strætóhöfnun, krúttlegir kettir og föstudagsbrandari
Held að ég sé búin að gleyma því hvernig á að ferðast með strætó ... ég var komin út á stoppistöð þegar Ásta drossíukerling hringdi. Strætó kom þegar ég tók á móti sms-inu þannig að ég sá bara sáran vonbrigðasvipinn á bílstjóranum þegar ég hafnaði honum. Í sárabætur gaf ég honum séðogheyrtið mitt síðan í gær og þá hýrnaði aðeins yfir kauða.
Jóhannes almáttugur, fyrrum tæknimaður minn á Aðalstöðinni, nú tæknitröll á Sýn, eineggja tvíburi, eiginmaður, faðir og ljúfmenni, þarf að losna við kettlinga. Hann á fjóra ketti og vill gefa tvo af þeim. Held að móðirin sé líka orðin ansi þreytt og afkvæmin farin að þrá heimili til að geta búið til kósí, malandi anda. Ég plataði Jóhannes til að senda mér myndir af sætu dýrunum sínum til að birta á blogginu og ef einhvern góðhjartaðan bloggvin (dýravin) langar í kettling þá skal ég koma skilaboðum til Jóhannesar. Hann býr úti á Seltjarnarnesi en er samt ágætur.
Svarti kisi er högni en hinn er læða. Þau eru orðin fimm mánaða, miklu skemmtilegri og meðfærilegri dýr en 2 mánaða kettlingar ... mikill leikur í þeim en samt komið vit í þá. Ég hef harðneitað að taka yngri en 3 mánaða og hef verið með dásamleg dýr. Tommi er eldgamall en samt er heilmikill leikur í honum, hann þýtur stundum eins og eldibrandur um allt himnaríki.
Læt dagsanna sögu af Skaganum fylgja með í tilefni föstudags. Hún kennir manni að nágrannar manns geta leynt á sér:
Dómarinn bað ákærða um að rísa á fætur. Þú ert ákærður fyrir að myrða kennara með keðjusög. sagði hann.
Lygamörður, heyrðist í manni á áhorfendabekkjunum.
Þögn í réttarsalnum, sagði dómarinn og hélt áfram: Þú ert einnig sakaður um að hafa myrt skokkara með skóflu!
Fjandans nirfill og nískupúki, kallaði sami maður aftur.
Ég sagði ÞÖGN, æpti dómarinn og sneri sér að hinum ákærða: Svo ertu ákærður fyrir að drepa stöðumælavörð með vélsög!
Svikahrappur og aumingi, heyrðist frá sama manninum og áður.
Dómarinn byrsti sig og sagði: Ef þú segir mér ekki ástæðuna fyrir þessum frammiköllum þínum þá læt ég setja þig í fangelsi fyrir óvirðingu við réttinn!
Ég hef sko búið við hliðina á ákærða í tíu ár og hann hefur aldrei getað lánað mér verkfæri þegar ég hef beðið hann um það og ekki þóst eiga!
13.9.2007 | 17:22
Gone with the Wind ...
Þegar við Ásta ókum fram hjá vindhviðumælinum í Mosó um hálffjögurleytið í dag sýndi hann 34 m/sek. og það virtist vera að hvessa. Við fengum sjóskvettu yfir bílinn í Kollafirðinum en sjórinn var ansi æstur. Það sem fullvissaði okkur um að við kæmumst líklega heilar heim voru trukkarnir sem við mættum. Fyrst þeir fuku ekki myndi varla straumlínulaga drossían taka upp á því.
Við heimkomu sá ég á Netinu að hviðurnar voru nýkomnar upp í 40. Ef ekki væri fyrir Ástu þýddi þetta veðurteppingu með dassi af spælingu. Strætó gengur ekki í svona veðri. Það er svo hvasst núna að öldurnar við himnaríki ná sér ekki upp, alla vega ekki á fjöru. Sjáum til á flóði. Mikið sá ég eftir því að hafa ekki tekið myndavélina með í morgun, þá hefði ég getað tekið mynd af sjónum í Kollafirðinum, skriðunni og fleira. Mikið vona ég að elsku Skagakonurnar sem voru rútunni sem keyrði á skriðuna eigi góða daga í útlöndum eftir þessa slæmu byrjun á skemmtiferð!
Jónas butler var latur í gærkvöldi og ákvað ég að bíða þar til núna með að kíkja á hann. Inni í honum fann ég pínulitla leikfangamús sem hafði varnað því að hann ynni af fullum krafti. Nú er þessi elska að þrífa himnaríki af mikilli einbeitingu.
Ryksuguróbót Vikunnar fer norður á land. Ég dró úr réttum lausnum í krossgátunni í dag. Mikið var gaman að hringja í konuna og segja henni frá þessu. Stórt heimili og báðir foreldrar vinna fulla vinnu. Það verður annar svona róbót í verðlaun aftur eftir nokkrar vikur, kannski skúringarróbót líka fyrir jólin.
Fór í jarðarför í morgun. Elskan hún Nanný, fyrrum samstarfskona til margra ára, var jarðsungin frá Fossvogskirkju. Hún var bara fimmtug. Athöfnin var mjög falleg, óvenjuleg og alveg í hennar stíl, orgel- og saxófóntónlist var leikin og líka fjörug lög, líkast til frá Marokkó, þaðan sem maðurinn hennar er.
Nanný var gullfalleg kona, mjög dökk yfirlitum. Hún sagði mér einu sinni að mágar hennar hefðu án efa hlakkað til að fá hávaxna ljósku í fjölskylduna þegar fréttist að kærastan væri frá Íslandi. Mikil hefðu vonbrigði þeirra verið þegar venjuleg kjeddlíng birtist, í engu frábrugðin þeim þarna í Marokkó. Auðvitað var henni tekið frábærlega vel af öllum, þetta var bara húmorinn hennar Nannýjar. Blessuð sé minning hennar.
13.9.2007 | 09:56
Stuð í strætó í Kollafirðinum ... í biðröðinni
Gaman var að lenda í fréttunum í morgun (reyndar sem biðröð). Skriðan sem féll í Kollafirði tafði okkur um c.a hálftíma. Við biðum í langri röð eftir að stóra rútan yrði fjarlægð, einhver krani kom á staðinn og færði hana til. Það var rosalegt að sjá skemmdirnar á henni ... og stærð skriðunnar. Hræddust var ég við að óveðrið skylli á akkúrat þarna og við fykjum út í sjó. Sem minnir mig á ... Hvar er fokkings óveðrið? Því má ekki seinka, það má ekki koma seinnipartinn þá kemst ég ekki heim! Það var mikið stuð í strætó hjá Ragga bílstjóra, hann hækkaði alltaf útvarpið í botn ... þegar komu fréttir af skriðuföllum og rútubjörgun. Stjórnstöð Strætó fylgdist vel með málum og leið 15 þurfti því ekki að bíða eftir Skagamönnum í Mosó. Ég hvatti Ragga reyndar til að plata leið 15 til að bíða, við værum alveg að koma (not), svo að fleiri kveldust en við en hann er allt of góður í sér!
Ungur maður sem sat við hliðina á mér sagði að hann hefði ekki grunað hvað það væri gaman í strætó. Ég benti honum á þetta væri alltaf svona, fjölbreytileikinn einkenndi þessar örvandi og skemmtilegu ferðir á milli ... Hugsa að hann hendi bílnum sínum í dag og fari að nota þann samgöngumáta sem er mest inni þessa dagana. Inga vinkona sagði mér að stuðið á fólkinu í rútunni sem ók á skriðuna hefði verið svo mikið í morgun að það hefði alvarlega verið að hugsa um, þegar það var komið í hina rútuna, að kippa með þessum tveimur sem voru sendir á slysó, og taka með í útlandaferðina. Vér Íslendingar kippum oss ekki mikið upp við eina Esjuskriðu ...
Sjórinn fyrir utan himnaríki var óhemjuflottur í morgun og stórar öldurnar kvöddu með tárum þegar ég sleit mig frá glugganum til að hlaupa í strætó klukkutíma seinna en vanalega ... Hlakka til að sjá þessar elskur í kvöld.
![]() |
Verið að opna Vesturlandsveg við Mógilsá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.9.2007 | 08:22
Drossíuför og lúmskur fótboltaþjálfari
Ring, ring, heyrðist í töskunni minni þar sem ég stóð úti á stoppistöð og beið eftir Tomma. Þetta var Ásta sem ætlaði á bíl í bæinn, henni leist ekki á veðurútlitið. Þrátt fyrir skammir Tomma í gær og fjarskammirnir sem hann skilaði frá Sigþóru um sviksemi okkar Ástu við strætó hoppaði ég heim í himnaríki eftir símtalið og bjó í rólegheitunum til tvo guðdómlega latte. Korteri seinna kom elskan hún Ásta á drossíunni. Ansi hvasst var á Kjalarnesi og rigningin var einstaklega blaut. Ekki skánar það þegar líður á daginn og morgundagurinn verður klikkaður! I love it!!!
Nýja kápan/úlpan mín, sem Laufey gaf mér í afmælisgjöf, lítur út eins og sú gamla en er bæði hlýrri og vatnsheldari. Jómfrúrferðin hennar var út á stoppistöð og heim aftur í morgun. Algjör snilldarkápa. Ekkert gat á hægri vasanum sem ég gleymi alltaf að gera við vegna gleði minnar yfir því að komast heim ... eða í vinnuna! Svo er hettan líka góð, sem er fínt því að ég nota ekki húfu! Verð eins og vélsagarmorðingi í framan ef ég skelli einni á mig.
Sigþór, mágur minn, bauð mér í mat til þeirra hjóna í kvöld og að horfa á landsleikinn, held að hann líti orðið á mig sem lukkudýr í fótbolta. Ég byrjaði að halda með West Ham og sjáið bara hvernig gengið lagaðist í kjölfarið. Í vetur fer ég örugglega með Sigþóri og erfðaprinsinum í fótboltaferð til London. Hviss bang, búið, ferð, ekkert búðaráp og bull, bara hreinn og tær fótbolti. Vér Íslendingar sigruðum líka Spánverja á laugardaginn með jafntefli og ég var að horfa ... og verðum eflaust í stuði í kvöld!
Annars grátbið ég landsliðið okkar í fótbolta, sem les örugglega þessa bloggfærslu, að hlusta ekki á þjálfara N-Íranna. Hann þykist vera skjálfandi af hræðslu við okkur og sérstaklega Eið Smára. Sko, þetta er sálfræðihernaður, hann er með þessu að gera okkur öruggari með okkur svo að liðið hans geti rústað okkur. Ekki falla fyrir þessu. Hann er ekkert hræddur við okkur. Þetta er bæði kurteisi í honum OG LYMSKA!!!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
7.9.2007 | 22:32
Þriðja matarboðið og ættardýrgripirnir
Vinnudagurinn var einstaklega góður og okkur tókst að klára blaðið fyrir klukkan fimm. Ekki skemmdi fyrir að í hádeginu settist ég við borð hjá skemmtilegustu samstarfskonunum og sætasta manninum á staðnum en hann er tæknimaður á Stöð 2. Hann varð alla vega alsæll þegar ég hafði orð á þessu. Sármóðgaðar konurnar tóku gleði sína þegar ég sagðist vera hætt að tala um að konur væru sætar og karlar klárir, nú væri kominn tími á jafnrétti. Jóhannes tæknimaður settist síðan hjá okkur með kaffibollann sinn og við rifjuðum upp tvíburasögur af honum og Ástvaldi ... en þeir eru nákvæmlega eins, bræðurnir. Það var sjokkerandi að fara í afmæli til Jóhannesar á tíunda áratug síðustu aldar, setjast inn í stofu og spjalla við hann og fleiri gesti og svo birtist rétti Jóhannesinn með rjómapönnukökur! Eiginkonur tvíburanna voru ófrískar á sama tíma og fyrir algjöra tilviljun átti þær tíma í sónar sama dag. Ástvaldur mætti með sinni frú eftir hádegið en þá var bróðirinn búinn að koma með Hjördísi sinni. Andrúmsloftið hrímaði þegar þessi maður mætti aftur en nú með aðra konu ... hvorug vissi greinilega af hinni! Ástvaldur var hálfspældur þar sem hann vann og vinnur sem tæknitröll á Landspítalanum, þær hefðu átt að þekkja hann, kéddlíngarnar í sónarnum! Svo vorkenndu vinkonur Hjördísar henni ógurlega þegar þær sáu brúðkaupsmynd af Jóhannesi uppi í hillu, greinilega með fyrrverandi konu sinni. Ég elska tvíbura og tvíburasögur. Jóhannes er með nokkra kettlinga sem hann langar til að gefa á góð heimili, þeir eru orðnir fimm mánaða og móðirin mjög þreytt á þeim. Þvílík grimmd, aldrei hefði ég fleygt erfðaprinsinum að heiman fimm mánaða gömlum.
Hitti ættardýrgripina Ísak og Úlf í kvöld í ljómandi fínu svona mafíufjölskyldumatarboði. Þeir hitta Gurrí frænku svo sjaldan og horfðu svolítið hissa á þessa skrítnu Hildu (við þykjum svo líkar þangað til fólk kynnist innræti Hildu) en brostu samt, enda smekklegir krakkar.
Davíð frændi skutlaði náttúrlega saddri frænku beint í faðminn á Tomma bílstjóra. Tommi faðmaði mig alla vega í huganum þegar ég gaf honum Golfblaðið mitt.
Það stendur mikið til hjá 1959 árganginum á morgun, sagði Tommi. Hittingur í Skrúðgarðinum og síðan matur fyrir mannskapinn hjá Huldu MINNI. Nema ... aumingja Tommi er með matarklúbb annað kvöld, þennan árlega, og kemst ekki til Huldu. Að sjálfsögðu er þetta karlaklúbbur hjá Tomma, nema hvað. Reglurnar eru þannig að menn borða þar til stólarnir brotna undan þeim. Þoli ekki hvað ég fékk pempíulegt uppeldi, annars myndi ég stofna svona átklúbb þar sem mætti ropa og alles ...
Í gær sagði ég Sýn upp, kannski mun ég sjá eftir því vegna Meistaradeildarinnar. Þetta var bara yfirlýsing um heita spælingu vegna verðlags á Sýn 2. Tók reyndar Fjölvarpið í staðinn, fræðslurásirnar þarna með Sky News, BBC Prime og fl. Steingleymdi þessu í gær en bæti mér það upp um helgina með miklu glápi. Hef tíma til þess fyrst ég á húshjálp með gervigreind. Ég fékk nokkur símtöl í dag frá spenntum lesendum Vikunnar því að svona ryksuguróbót verður í krossgátuverðlaun hjá okkur. Fólk er mjög spennt. Mikið vona ég að einhver bakveikur ryksugunarhatari fái gripinn. Muna bara að lausnir þurfa að hafa borist okkur fyrir hádegi næsta fimmtudag. Mikið væri kúl að fá sprengjuleitarróbót frá sama fyrirtæki (iRobot) til að draga úr lausnunum.
7.9.2007 | 09:14
Klökknað á Kjalarnesinu
Heimir bílstjóri táraðist næstum úr gleði þegar ég lét loksins sjá mig með strætó í morgun. Ekki dró úr táraflaumi hans þegar ég gaf honum Séðogheyrtið mitt síðan í gær. Undanfarna morgna voru það nefnilega drossíur sem fluttu fegurðardísina til höfuðborgarinnar. Ég táraðist líka en það var aðallega vegna þess að ég rak veika hnéð í fargjaldsbaukinn sem er staðsettur beint fyrir framan fæturna á mér þegar ég vel þetta sæti. Þurfti að auki sitja í mjög dónalegri stellingu á leiðinni og var orðin svo skökk og stirð í Mosó að ég ákvað að treysta á að Prentmets-gæinn hefði ekki sofið yfir sig. Hann reyndist vera í aukabílnum, vel vakandi, og lenti í Mosó einni mínútu á eftir okkur Heimi snillingi Schumacher. Auðsótt mál var að fá að sitja í upp í Hálsaskóg (Lyngháls og nágrenni) og gat ég horft hæðnisaugum niður á lágu einkabílana eins og fólk í hærri sætum gerir vanalega. Sá í "fokkings" Mannlífi lesendabréf þar sem einhver karlmaður kvartar yfir því að gamalt fólk og konur hangi á vinstri akrein á of litlum hraða þannig að duglegir og klárir karlmenn sem keyra á 90 komast ekkert áfram. Vá, ein sem ekur Vesturlandsveginn daglega veit að þetta er bull. Ég sé karla þarna, gamalt fólk (þrjátíu ára og eldra) og konur hægja á morgunumferðinni með þessum hætti. Mjög margir karlanna, sérstaklega seinni part dags, hanga í símanum að auki, líklega að fjarstýra konunni um það hvað hún eigi að kaupa í matinn. Konur nútímans kunna hvorki að versla né elda. Stelpur, við megum ekki gleyma þessum gamla hæfileika þótt strákarnir séu góðir í þessu!!!
Fallið á ógæfumölinni sem orsakaði hnémeiðslin verður senn ársgamalt. Verð að láta mér detta eitthvað í hug til að halda upp tímamótin. Vil ekki reyna að detta aftur af tilefninu, hef nefnilega stært mig af því að fá "gat" sem þarf að sauma á 40 ára fresti og vil helst halda þeirri hefð. Ungi, sæti en skilningslausi læknirinn á heilsugæslunni á Akranesi harðneitaði að kyssa á bágtið, heldur saumaði níu spor í fagurlega skapað hægra hnéð á mér. Hitt hnéð var snúið og krambúlerað og fékk teygjubindi. Þetta kvöld sá ég Flórens í annað skiptið á ævinni, nágrannakonu mína sem var að ljúka hjúkrunarnámi. Þótt blóðið flæddi í stríðum straumum um himnaríki vildi ég í lengstu lög sleppa læknisför (ég er sko töffari) og hringdi í verðandi hjúkkuna og bað um álit. Flórens (Sigrún sveitamær) öskraði tryllt þegar hún sá allt blóðið, tók mig í fangið, hljóp með mig út í bíl og skutlaði mér til læknis sem veinaði enn hærra en Flórens, enda hafði hann örugglega aldrei séð önnur eins meiðsli. Man þetta kannski ekki alveg nákvæmlega, enda komið heilt ár síðan.
Megi dagurinn verða frábær hjá ykkur, bloggvinir góðir.
1.9.2007 | 21:18
Rapptónlist og fórnarlömb hennar ...
Hvað gera sætar stelpur á laugardagskvöldi ef þeim hefur ekki verið boðið út? Jú, þær sem hunskast ekki til að ljúka við Harry Potter-bókina fyrir strætóbílstjórann sinn setjast við tölvuna og láta heillast af góðri tónlist á youtube.com.
Einu sinni var ég stödd úti á götu í New York og dásamlegir tónar bárust frá lítilli plötuverslun. Þeir löðuðu mig inn þar sem afar fríkaður afgreiðslumaður stóð fyrir aftan búðarborðið.
I´m looking for good rap music, sagði ég kurteislega. Sorry, we do not sell rock music, sagði hann hrokafullur. No, I mean RAP music, Wu Tang Clan, Cyprus Hill ... Ég komst ekki lengra, ég hélt að ungi maður ætlaði að fara að faðma mig, slík var gleði hans yfir gamalmenninu með góða tónlistarsmekkinn. Ég fór út með plötuna sem innihélt lagið og tvær aðrar að auki, erfðaprinsinum til mikillar gleði. Hér er lagið, njótið:
http://www.youtube.com/watch?v=_TlKEQ2nIyo
Prófaði að gamni að leita enn einu sinni að gömlu uppáhaldslagi á youtube ... og fann það, ég hafði alltaf skrifað hljómsveitarnafnið vitlaust og ekki nema von að lagið fyndist ekki. Heyrði það á X-inu í gamla daga og kolféll fyrir því strax. Strákunum á X-inu fannst bráðfyndið að næstum fertug kerlingin á Aðalstöðinni hringdi stundum í þá til að biðja þá um að spila það. Æ, þetta voru svo frábærir strákar. Sakn, sakn!
Upptakan er ekki nógu góð þannig að viðlagið heyrist illa en lagið er samt flott:
http://www.youtube.com/watch?v=oW6ht5QtOYk&mode=related&search=
Læt eitt gott með Eminem fljóta með, að mínu mati besta lagið hans ...
http://www.youtube.com/watch?v=DFPShUSgFyI
Fyrir þá sem fíla ekki rapp er hér gamalt og harla gott lag, mæli með því sem vangalagi í kvöld: http://www.youtube.com/watch?v=hkbdP7sq0w8
31.8.2007 | 10:31
Stuð hjá öldruðum
Besta vörnin er sókn. Það sannaðist í morgun þegar Sigþóra ætlaði upp í aukastrætó í morgun, þrátt fyrir hótanir um annað í gær. Bílstjórinn hafnaði henni áður en hún gat hafnað honum og stakk upp á því að hún biði frekar eftir Tomma á aðalbílnum svo að hann þyrfti ekki að stoppa við Vesturlandsveginn og hleypa henni einni þar út. Snjallt! Tommi fer t.d. ekki á Kjalarnesið, aukabíllinn sér um það, og með þessum samræmdu aðgerðum hafa þessir bílstjórar flýtt för okkar um alla vega fjórar mínútur. Ég tek aftur það sem ég hef sagt um að bílstjórar séu eingöngu ráðnir eftir útlitinu ... nú veit ég að greindin spilar líka inn í! Sigþóra kom bara yfir á mína stoppistöð og hinkraði þar eftir Tomma. Ósköp sæl með lífið og tilveruna.
Helga smiður bauð mér sæti hjá sér fremst en Sigþóra fór aftar og bað mig um að vekja sig við komu í bæinn. Það var gaman að spjalla við Helgu, Ásta má alveg passa sig og drífa sig úr sumarfríi svo að ég gleymi henni ekki alveg ...
Við Helga eigum það sameiginlegt að hafa báðar sest aldraðar á skólabekk, eða menntað okkur á "gamalsaldri", ég í blaðamennsku, hún í trésmíði. Fjögurra ára algjörlega frjáls aðgangur hjá henni að gullfallegum karlmönnum! Eins og allir vita eru smiðir langfallegustu iðnaðarmennirnir. Enda sá ég á dreymnu augnaráðinu að þetta voru skemmtileg ár. Eins árs framhaldsnám hjá mér ... og eintómt kvenfólk allan tímann, nema stöku kennarar! Gluggaröðin í vinnunni minni er f.v. Vikan, Nýtt líf og Gestgjafinn. Allt konur nema Úlli kokkur. Og ef ég sæi ekki bakið á Guðmundi Magnússyni, heyrði óhljóðin í strákunum hjá Séð og heyrt og sæi stundum gæunum í umbrotsdeildinni bregða fyrir væri ég örugglega orðin einkynhneigð.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 49
- Sl. sólarhring: 50
- Sl. viku: 744
- Frá upphafi: 1524942
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 636
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 36
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni