Færsluflokkur: Ferðalög
30.8.2007 | 22:11
Ný frænka, kátir kettir og dularfull dúndurgræja
Fyrir nokkrum dögum bættist gullfalleg frænka í hóp fallegustu kvenna landsins þegar Margrét, frænka mín, og Pétur, maðurinn hennar, eignuðust flotta dóttur. Það var alveg furðulegt hvað systir hennar, Gurrí, en alltaf kölluð Freyja Ísold, fullorðnaðist fljótt við að verða stóra systir. Freyja fær flotta gjöf frá Skagafrænku, þetta eru svo stór tímamót, litla barnið á heldur ekki bara að fá gjöf ... eða það finnst mér ekki.
Heimsótti Laufeyju vinkonu eftir vinnu og það var sko ferð til fjár. Ég held að hún haldi að ég hafi orðið fimmtug fyrr í mánuðnum, ja, eða fertug. Hún dró mig með sér í búð og keypti handa mér kápu, skó og boli og gaf mér í afmælisgjöf. Síðan var eldað og spjallað, skutlað í Mosó og skriðið inn úr dyrunum hálftíu. Svona djamm er skemmtilegt. Tína, tíkin á heimilinu, verður alltaf svo æst þegar ég kem í heimsókn að hún pissar á gólfið. Barbara, au pair stelpan, sagði: "She must love you!" og það er alveg gagnkvæmt! Barbara er pólsk svo að ég sló um með mig orðinu nje, aftur og aftur, því eina sem ég kann í pólsku. Þegar ég hitti Finna á förnum vegi reyni ég að koma orðinu hissi inn en það þýðir lyfta og er líka eina orðið sem ég kann á finnsku. Samræðurnar verða alltaf athyglisverðar, þetta er bara spurning um tjáninguna.
Kettirnir voru kátir þegar ég kom heim en þeir verða enn kátari þegar þeir sjá hvaða þroskaleikfang ég keypti handa þeim í dag. Meira um það síðar, það er alla vega dúndurgræja, ekki samt eins og tryllitækið sem konan óskaði sér í afmælisgjöf, svona tryllitæki sem kæmist upp í 100 á einni sekúndu. Maðurinn hennar keypti glæsilega baðvigt handa henni.
30.8.2007 | 09:05
Karlar að eigin vali
Mikið var hann sætur ungi maðurinn í gúmmívinnuverkstæðisskúragallanum sem ég settist við hliðina á í morgun ... og mikið var gott að kúra hjá honum alla leið í Mosó. Hugsa sér forréttindin að geta hlammað sér við hlið huggulegra manna að eigin vali á hverjum morgni og fengið hlýju frá þeim. Hver þarf eiginmann? Svo hlýtur Ásta að koma fljótlega í strætó, þessu sumarfríi hennar fer vonandi að ljúka, þá kúri ég bara hjá henni, hún er kannski grönn en samt ótrúlega hlý til að klessa sér upp við á köldum vetrarmorgnum. Mikið skal ég búa til latte handa okkur.
Bílstjórinn minn, elsku Heimir, ók að vanda aðeins lengra en stoppistöðin er á Vesturlandsveginum, hann er svo þroskaður að honum finnst ekki fyndið að sjá kerlingar rúlla niður manndrápsbrekkuna, eða háa vegkantinn ... en bílstjóri aukabílsins, sem kom skömmu seinna, stoppaði nokkru ÁÐUR en hann kom að stoppistöðinni svo að elsku Sigþóra mín sem ég hef ekki séð í nokkrar vikur, þurfti að hlaupa nokkra metra í áttina að Reykjavík áður en hún gat snúið við og labbað niður rampinn þar sem ég beið með opinn faðminn og hrópaði "Heathcliff". Hún nennir ekki að rúlla svona niður háan kantinn, ekki lengur, ekki eftir að hafa mætt marin, blá og skítug í vinnuna eftir slíkar ævintýraferðir sl. vetur. Ég sting enn og aftur upp á því við Strætó bs að stoppistöðin verði færð einum ljósastaur nær Reykjavík til að koma í veg fyrir slys. Auðvitað ræður fólk því hvort það þorir að feta sig niður vegkantinn, sem er ansi hár en fer lækkandi, en þetta tefur alla þá sem eru á leið upp í Hálsaskóg. Dásamleg manneskja hirti okkur Sigþóru upp í bíl neðst í Súkkulaðibrekkunni og skutlaði okkur alla leið í vinnuna ... þetta verður svona dagur!
29.8.2007 | 20:08
Jónatan og Snati - fréttir af boldinu
Jónatan mávur er kominn með kærustu eða kærasta sem er gráleit/ur að lit. Fuglinn sá gengur undir nafninu Snati meðal heimilisfólks í himnaríki. Þau/þeir fengu eina múffu á mann, leifar úr afmælinu, og flugu á braut. Sumir eru aldeilis farnir að færa sig upp á skaftið. Eins og gamall kærasti sem hafði sigrað hjarta mitt. Fyrst flutti hann inn með píanóið sitt, síðan eitt barn og skömmu síðar annað. Þegar hann ætlaði að fara að innrétta vinnuherbergið mitt fyrir fyrrverandi tengdaforeldra sína, svo indælt fólk, þá sagði ég stopp og flutti út. Eða hefði gert ef þetta hefði gerst.
Hingað kom mikil hetja áðan og sótti sér eintak af Vikunni sem kemur út á morgun - að sjálfsögðu er Skagamær á forsíðunni ... nakin. Við gefum útlitsdýrkun langt nef því að konan uppfyllir ekki staðalímyndina sem tískuheimurinn hefur sett, frekar en flestar konur. Set inn mynd þegar Moggabloggið leyfir, einhver bilun í gangi!
Jæja, best að bolda svolítið, þúsundir fylgjast með og kona þarf að gera skyldu sína. Undanfarið hef ég horft með öðru auganu en þó tekið eftir því að Eric og Ridge hafa gert harða hríð að Stefaníu og neitað að hætta hjá Forrester-tískuhúsinu. Hún samþykkir fyrir rest að vinna með þeim ef þeir vinni með henni ... Just keep the Bitch out of my sight! Þar á hún við hana Brooke tengdasonartrylli. Bridget er alltaf í mæðraskoðun, sónar og slíku. Fyrir stuttu mætti Dante með henni í sónar og í dag var það barnsfaðirinn sjálfur, Nick, ákaflega fleðulegur. Brooke sagði Dante að nærveru hans væri ekki lengur óskað í lífi Bridget, dóttur hennar, nú ætti hún að finna hamingjuna með Nick (sem Brooke elskar og hann hana). Nú á Bridget að fara í enn einn sónarinn, þann þriðja í vikunni, vonandi er ekkert að ... læknirinn sagðist vilja tékka á einhverju en sagði ekki hverju! Af hverju verður fjölveri ekki tekið upp í þáttunum? Þá gæti Bridget gifst Dante líka. Jafnvel Ridge, þar sem í ljós hefur komið að hann er ekki blóðskyldur henni. Engu máli virðist skipta þótt þau hafi verið systkini lengst af ... og feðgin. Amber var næstum búin að drepa þau einu sinni þegar hún ætlaði að koma upp um mögulegt ástarsamband þeirra, svo missti ég af einhverjum vikum eða mánuðum. Slíkt læt ég ekki koma fyrir framar. Nei, ég fórna mér, eins og Nick og Brooke.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
29.8.2007 | 10:33
Kúlurass af völdum Strætó
Að ferðast með strætó er góð skemmtun. Að ferðast með mörgum strætisvögnum sama morguninn er bara stórkostlegt. Það rigndi mikið á Akranesi en steypta skýlið við stoppistöðina á Garðabraut er ónothæft því að skemmtanaglaðir utanbæjarmenn nota það til að kasta af sér vatni um helgar og hafa víst gert í fjöldamörg ár. Því var hárið blautt, krullað og krúsílegt þegar stigið var upp í 7.41 vagninn í morgun. Ég bauð bílstjóranum gott kvöld, þar sem ég var klukkutíma seinna á ferð en vanalega en það var viljandi. Það tók þennan klukkutíma að hrekja óvænt hausverkjarkvikindi á brott. Held svo að Jónatan Bíbí hafi elt mig út á stoppistöð, alla vega heyrðust undurþýð hljóð frá mávi sem settist á ljósastaurinn við stoppistöðina.
Við farþegar í leið 15 lentum í umferðarsultu á leið inn í höfuðborgina og það var voða spennandi, allt gengur vanalega svo snurðulaust fyrir sig og það verður leiðigjarnt. Blá lögguljós í göngunum "voru alveg að gera sig" líka og virkilega æsandi að velta fyrir sér hvernig fólk löggan greip þar og fyrir hvaða glæpi. Ákvað að fara út hjá Ártúni og rifja upp kynnin af milljóntröppunum, undir brúnni og lúmsku brekkunni og taka 18 í vinnuna. Ekki séns að ég nennti labba frá Vesturlandsveginum núna, ég var nógu blaut fyrir. Leið 18 er hætt að ganga Stórhöfðann, við heilmikla sorg mína og annarra, heldur gengur upp í Árbæinn áður en hann fer hjá Lynghálsinum.
Fullt af vögnum fer í Árbæinn, alla vega leið 5, og því óskiljanlegt að láta okkur afplána þennan rúnt, samt næs fyrir Árbæinga að fá loksins góða þjónustu. Ég velti því fyrir mér í morgun hvort það gæti verið að erfiðleikar mínir við að fá strætófar alla leið í vinnuna tengdust því að Strætó bs vildi að ég hefði flottan kúlurass af brekkugöngu á morgnana? Neeee, hugsaði ég, þeir vita af Nóa Síríus á leiðinni og hættunum þar, nema þeir séu að stjórna því að ég fái kúlurass og reyni á sjálfsstjórnina í leiðinni. Allir velkomnir með mér á þetta frábæra námskeið hjá strætó. Gangan upp Súkkulaðibrekkuna hefst stundvíslega kl. 7.25 á morgnana.
Michael Jackson, if you are reading this, Happy Birthday, karlinn.
Já, MJ er 49 ára í dag, einhverjum dögum yngri en við Madonna!
Svo á Borghildur Anna myndlistarmaður afmæli í dag og líka hún Herdís Hallvarðsdóttir sem var í Grýlunum.
Til hamingju líka, stelpur mínar!
27.8.2007 | 23:04
Samsæri strætóbílstjóranna ...
Þingeysku montgenin eru víðsfjarri núna, ég sver það. Það er bara hreinn og klár sannleikur að dugnaðurinn var gríðarlega mikill í undirritaðri sem púlaði í vinnunni til kl. 18 í dag. Það tókst að koma ákveðnu verkefni á fullt skrið þannig er hægt að fara til elsku Betu í fyrramálið með góðri samvisku og láta hana sjúkraþjálfa sig. Sjálfur nýi ritstjórinn á DV skutlaði mér án nokkurrar miskunnar upp í Mosó. Þetta var samt ekki alveg í leiðinni fyrir hann en kommon, aldrei of vel farið með góðar samstarfskonur.
Ekki var verra að elskan hann Tommi sat undir stýri í 18.45 strætó. Vagnstýran á leið 15 bað hann um að hinkra í eina mínútu eftir sér og hann svaraði eins og hreinræktaður daðurbósi: Ég geri allt fyrir þig! Þetta sannar enn og aftur að strætóbílstjórar eiga ekki bara kærustur á hverri stoppistöð, heldur er greinilega eitthvað í gangi á milli þeirra ... allra. Hafið þið ekki séð þá veifa hver öðrum krúttlega þegar þeir mætast? Ótrúleg uppgötvun í boði Guðríðar.
Eftir að við komum upp og yfir Lopabrekkuna mátti sjá hvað risastóra hringtorgið er að verða flott. Held samt að spæleggið, stóra hringtorgið á Akranesi, sé glæsilegra en það munar ekki miklu!
Hógværðin bar mig ofurliði í morgun, eins og svo oft áður. Þar sem Prentmetsstrákurinn var ekki í sama strætó og ég í morgun kunni ég ekki við að hoppa út og sníkja far þótt vagnarnir væru þarna á sama tíma. Þegar ég skoppaði síðan út við Vesturlandsveginn hrópuðu samstoppistöðvarmenn mínir á Skaganum, alla vega einn, að ég hefði átt að láta vaða ... Svo þaut ég léttilega undir brúna og upp brekkuna en komst ekki langt því að þessi dásamlegi trukkari stoppaði og bauð mér far. Til að leiðrétta misskilning í fæðingu ... ég gæti verið móðir hans og er mjög lítið fyrir unga menn, eiginlega bara ekki neitt. Sorrí strákar!
Ég gleymi alltaf að hringja í Huldu til að fá rabarbarabökuuppskriftina. Hún leiðrétti kryddið sem ég skrökvaði upp á hana í þorskuppskriftinni, held að ég hafi sagt hana hafa notað Aromat en það var Season All ... eða öfugt! Eða kannski eitthvað allt annað ... en algengt. Sumir rugla alltaf saman apóteki og bakaríi, þetta kryddrugl er ekki mikið skárra!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.8.2007 | 08:34
Mávasöngur að morgni
Tvær rútur, svo til kúffullar af skapgóðum og skemmtilegum Skagamönnum, fóru í bæinn í morgun undir nafninu strætó. Önnur rútan, aukabíllinn, hirðir upp fjórar síðustu stoppistöðvarnar á Skaganum, m.a. sætukarlastoppistöðina (pirr pirr) og sundlaugar-stoppistöðina þar sem m.a. María frá Króatíu, indverska vísindakonan, Sigþóra, sú innfædda en samt ágæta, og fleiri Skagamenn koma vanalega upp í, einnig krúttin á Kjalarnesinu og Karítas í Mosó-brekkunni. Ferðin gekk ljómandi vel þrátt fyrir að Laxá í Kollafirði hafi flætt yfir bakka sína (sjá mynd, þið trúgjörnu bloggvinir) og svo var frekar skrýtið að hlusta á fréttirnar kl. 7 af rútuslysinu um helgina ... Vona að fólk læri af þessu og noti nú belti ALLTAF! Annars er ég manneskjan sem les flugslysaspennubækur í flugvélinni án þess að tengja, skil ekki af hverju ég fattaði þetta með fréttirnar, kannski af því að karlmennirnir tóku andköf og héldust í hendur á meðan kéddlingarnar geispuðu af kúlheitum.
Gaman var að fylgjast með Jónatan á svölunum á sjöunda tímanum í morgun. Ég henti vínarbrauði (svona eldgamaldags með rabarbarasultu) út á svalirnar og þegar ég VARÐ að hlaupa í strætó var Jónatan kominn og bjó sig undir að fá sér í gogginn. Kettirnir iðuðu af spenningi og líta á þetta sem skemmtiatriði fyrir sig en svo er nú ekki. Kannski er Jónatan frekjudolla sem verður kominn inn í eldhús fyrr en varir og fer að kúra undir sæng hjá mér ... það kemur þá bara í ljós! Vona bara að hann láti ekki vini sína og félaga í kórnum vita af þessu, nenni ekki að hafa The Birds á svölunum alla daga, held að nágrannarnir yrðu heldur ekki mjög hressir með það. Söngurinn í einum mávi er kannski krúttlegur en þegar þeir eru orðnir 247 talsins þá .... jamm! Jæja, nóg verður um að vera í dag. Seinna blaðið sem ég held utan um í fjarveru ritstjórans fer í vinnslu í þessari viku og það þarf að púsla á mörgum vígstöðvum. Hafið það ógó gott í dag!!!
24.8.2007 | 16:33
Eric strax orðinn leiður á Brooke?

Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.8.2007 | 08:42
Aðstoðarritstýran rasar út ...
Best að blogga núna í morgunsárið en að ætla að gera það síðar í dag, í matartímanum eða eitthvað. Það er bara bjartsýni að halda að það sé hægt ... á föstudegi. Vinnudagurinn skellur á með fullum þunga um níuleytið, þá opnar síminn og friður verður lítill. Dagurinn var ansi erfiður í gær, enda dreif ég mig snemma í rúmið. Fékk svo far í morgun með unga manninum á Prentmets-bílnum frá Mosó og hingað - það var ansi notalegt. Aukarútan er byrjuð að ganga frá Akranesi og Haffi bílstjóri elti okkur alla leið í bæinn. Hann tók farþegana á Kjalarnesi upp í og kannski Karítas í Mosó-brekkunni. Búist er við metfjölda farþegar frá og með mánudegi og þá geri ég ráð fyrir að fá ekki framar að sjá yndislegu karlana mína á sætukarlastoppistöðinni, Haffi tekur þá mögulega í allan vetur! Til að leiðrétta misskilning um að Strætó bs standi straum af kostnaði við ferðirnar frá Skaganum vil ég benda á að elsku bæjarstjórnin okkar á Skaganum pungar út milljónum á milljónir ofan til að við fáum þessa þjónustu. Skilst að Strætó bs. borgi okkur síðan fyrir að þjónustu t.d. 116 Reykjavík ... eða Kjalarnesið, í leiðinni.
Tók út það sem ég skrifaði um nýjustu Vikuna. Það misskildist sem grín en var alls ekki meint þannig.
Jæja, hafið það tryllingslega gott í dag. Ég er farin að vinnnnnnnna.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.8.2007 | 08:45
Spjall í morgunsárið
Það var ansi hreint kúl að koma hér í hlað í morgun á stórum og voldugum trukki. Verst að engin vitni voru að því. Fyrir utan það að spæla prófarkalesarana með því að vera fyrst í hús var náttúrlega mjög þægilegt að þurfa ekki að ganga másandi upp súkkulaðibrekkuna.
Forsaga: Í Mosó horfði ég hugsandi á eftir Prentmets-stráknum sem stefndi gangandi á Prentmets-trukkinn og sagði við Tomma: "Það hefði nú verið sniðugt að sníkja far með honum, hann vinnur í húsinu við hliðina á mér en ég er líklega búin að missa af honum." Tommi átti ekki orð. Hann fleygði mér út úr strætó, ég hljóp á eftir manninum og sagði afsakandi að Tommi hefði skipað mér að reyna að fá far hjá honum. Maðurinn þorði ekki að neita fyrst ég nefndi Tomma, hver hefur ekki heyrt um mannfórnir hjá ásatrúarmönnum ...
Reyndi að vera ekki óþolandi kjaftagleið á leiðinni í flotta trukknum, sumir hata kjaftæði á morgnana, en ég vildi heldur ekki sitja steinþegjandi eins og einhver fýlupúki. Við vorum því frekar þögul en dægurmálin bar þó aðeins á góma. s.s. hlýnun loftslags í heiminum, fiskeldi í Téténíu, hvernig best er að þrífa kattasandskassa, barnauppeldi, kjúklingauppskriftir, helvítis klásusinn í læknisfræði, íslensk textagerð um ást, hver verður mögulega næsti forseta Bandaríkjanna, líka hver verður næsti forseta Íslands, áhrif orðsins femínistar á suma karlmenn, áhrif kaffis á heilann og mögulegur máttur þess gegn elliglöpum og gleymsku, ég sagði honum styttri gerð harmsögu ævi minnar og fékk lengri gerð harmsögu hans (hann er miklu yngri), nýjusta svæfingartæknin hjá tannlæknum, áhrif stjórnmálamanna á tískuvitund ungra manna í Sjálfstæðisflokknum á árunum 1950-1953 og sitthvað fleira ... eða hefðum gert ef við þekktumst eitthvað.
20.8.2007 | 08:46
Frískandi vinnukaldi - veðurlýsing morgundagsins
Algjört met-fámenni var í strætó í morgun, farþegar voru líklega bara 20 frá Akranesi til Rvíkur, bara þrír komu inn á Kjalarnesi og svo auðvitað Karítas í brekkunni. Tommi skemmti sér yfir þessum lágu mannfjöldatölum og sagði á hverri stoppistöð að nú færi hver að verða síðastur að tryggja sér sæti. Hvað ætli sé í gangi? Þarna vantaði m.a. ritarann á göngudeild þvagfæraskurðlækngina á LSH, indversku vísindakonuna hjá Íslenskri erfðagreiningu, djáknann í Sóltúni, hressu afgreiðslustúlkuna í Rekstrarvörum, kvensmiðinn sem vinnur e-r á milli Kjalarness og Rvíkur, manninn sem vinnur úti á Granda, manninn í gula jakkanum og miklu, MIKLU fleiri. Er flensa að ganga eða er þetta bara tilviljun? Yfirleitt er TROÐFULLT í strætó á morgnana ... yfir vetrartímann þarf meira að segja 25 manna aukabíl til að framfylgja lögum ... svo að allir fái sæti og geti sett á sig belti, þetta er jú þjóðvegur og stranglega bannað að standa í strætó númer 27.
Þótt allir bílstjórarnir okkar séu algjörar perlur ríkir alltaf svo skemmtileg sætaferðastemmning í strætó hjá Tomma, nema við erum auðvitað ekki á rassgatinu virka morgna. Flestir þekkja þennan fyrrum óþekktaranga sem sögur herma að hafi setið inni flestar helgar á sokkabandsárunum fyrir kjaftbrúk við lögreglu. Sel það þó ekki dýrara en ég keypti það. Tommi er þó alla vega mikill strákur í sér og afar hneykslaður ef einhver vogar sér að dissa unglinga eða reyna að leggja stein í götu þeirra. Hann var í miklu stuði í morgun og hló þegar einhver sagði í útvarpinu að það hafi legið við troðningi: "Hnuss, þetta er eins og að segja að einhver hafi fengið snert af bráðkveddu!" Svo misskildi hann mig eitthvað þegar ég sagði að það kæmi ansi mikið rok á morgun og hélt að ég væri kvíðin (hahahhaah) ... sá þekkir mig ekki, ég hugsaði bara full tilhlökkunar um væntanlegar stórar öldur fyrir neðan himnaríki. Hann svaraði því til að svona veður (hávaðarok og heljarinnar-rigning) væri nú kallað frískandi vinnukaldi, það hefði a.m.k. verið gert til sjós, karlarnir dauðfegnir að fá slíkt veður, þeir svitnuðu minna á meðan. Svona geta nú strætóferðirnar verið lærdómsríkar. Hoppaði svo út við Vesturlandsveginn og fékk ungan og frískan mann í samflot upp súkkulaðibrekkuna en hann vinnur hjá Prentmeti, eiginlega við hliðina á vinnunni minni, bara Harðviðarval á milli. Með því að nota bæði kynþokka minn og lymskulegar morðhótanir á leiðinni fékk ég hann til að lofa okkur Sigþóru fari með vinnubílnum, sem er yfirleitt geymdur í Mosó, í vályndum veðrum í vetur. Drjúg eru morgunverkin, segi nú ekki annað!
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 3
- Sl. sólarhring: 54
- Sl. viku: 632
- Frá upphafi: 1524947
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 537
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni