Færsluflokkur: Sjónvarp

Stormur í sókn og leyndarmál þulunnar ...

StormurStormStormurinn sem veðurstofan spáði er farinn að láta bæra á sér. Svalahurð á neðri hæðinni skelltist harkalega og í sama mund byrjaði að hvína draugalega í húsinu. Fyrstu regndroparnir féllu. Þetta er ekki byrjun á spennusögu, heldur bara líf mitt í himnaríki sem verður meira spennandi með hverri mínútunni.
Norska veðursíðan spáði rigningu á Akranesi í allan dag en aðeins nokkrir dropar hafa fallið. Ég sé ekki þetta 1,1 mm regn sem hún skrökvar til um ... Hér rignir bara ekki neitt, enn sem komið er. Það lítur þó út fyrir spennandi kvöld. Handklæðin eru tilbúin, þvegin, þurrkuð og straujuð eftir síðustu nótt hinna þúsund handklæða. Versti glugginn lagaðist eftir heimsókn nágranna míns. Þá greip ég hann, bræddi og kíttaði svo í gluggann með honum. Hann hefur ekki lekið síðan.

brotherjustincroweSofie og BenMan einhver eftir þáttunum Karnival sem voru á RÚV á mánudagskvöldum? Ég er orðin langeyg eftir framhaldinu. Í lokaþættinum kom í ljós að Faðir Justin (djöfullinn sjálfur) var pabbi Sofie og mig minnir að Ben hafi tekist að drepa hann. Sofie hvarf á braut og var orðin eitthvað djöfulleg, eins og hún var indæl ... hmmm. Já, mér finnst gaman af svona þáttum.

Björgvin Halldórsson sjónvarpsþulur sagði rétt áðan að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á Stöð 2 í kvöld. Ekki er ég sammála því og ætla bara að leggjast í lestur góðra bóka, eins og sönn fegurðardrottning. Vissuð þið að Björgvin var eitt sinn söngvari, og bara nokkuð frægur, áður en hann sló í gegn sem dimma, töffaða röddin á Stöð 2?


Saknaðarstingur og fallegt sólarlag

20.9 2007 kl. 19.25Skrapp eftir vinnu á Ameríska daga í Hagkaup í Kringlunni með Ingu. Þessir Dagar hafa greinilega staðið yfir í nokkra daga þar sem búið var að troða norskum, íslenskum, breskum, serbókróatískum, mexíkóskum, kínverskum og dönskum vörum í ammmrísku körfurnar, orðið fátt um fína drætti, nema við höfum komið of síðla dags. Hrísgrjónin sem Inga leitaði sem mest að, New Orleans Rice, voru ekki til og voru kannski aldrei. Spæling. Samt var gaman að kíkja í Hagkaup þótt ég keypti mér bara vítamín fyrir veturinn. Bauð síðan Ingu upp á svo góðan og hressandi latte að hún gleymdi að henda mér út við Vesturlandsveg eða Háholt í Mosó og skutlaði mér alla leið í himnaríki, a la vélstýran. Kvaddi mig á hlaðinu og dreif sig heim. Fékk smá saknaðarsting þegar við mættum Tomma á strætó rétt fyrir utan Akranes. Ja, ef Ásta verður ekki á bíl í fyrramálið þá hittumst við Tommi eflaust. Þessar elskur eru svo stór þáttur í lífi manns ... fyrirmyndir, brandarakarlar, einkabílstjórar og hvaðeina.

Nú er ég að fara að lesa Loforðið, nýju barnabókina hennar Hrundar minnar. Verst hvað það verður góð dagskrá á SkjáEinum í kvöld. Annars er sjónvarpið léttvægt þegar útsýnið er svona eins og hefur verið í kvöld ... reyndar dimmir hratt núna.


Meira af lélegum viðreynslulínum ... og smá bold

Gæinn með kylfuna tilbúnaÍ framhaldi af sjokkerandi færslu minni um nýtilkomna leti karlmanna við að reyna við konur rifuðust nokkrar lélegar viðreynslulínur upp fyrir mér. Nú skil ég hvers vegna þeim hefur ekkert gengið við veiðarnar og hafa gefist upp. Dúllurnar ...

- Ég vildi að þú værir leikfangahesturinn á Umferðarmiðstöðinni þá gæti ég verið á þér allan daginn  fyrir klink. 

- Kallaðu mig bara mjólk. Ég geri líkama þínum gott.

- Viltu í glas eða kannski bara peninginn?

Daður- Ég er kannski ekki sá allra sætasti á svæðinu en ég er sá eini sem er að tala við þig.

- Eigum við að koma að leika hús? Þú mátt vera svalahurðin og ég skelli þér alla nóttina.

- Ég er nýfluttur í bæinn. Geturðu sagt mér í hvaða átt heimili þitt er?

- Ég elska hvert bein í líkama þínum, sérstaklega mitt.

Hann: Má bjóða þér upp í dans?
Hún: Mér finnst þetta leiðinlegt lag og langar heldur alls ekki að dansa við þig.
Hann: Þú hefur misskilið mig. Ég sagði að þig skorti allan „elegans“.

- Ef hægra lærið á þér væri aðfangadagur og það vinstra gamlársdagur mætti ég þá heimsækja þig á milli jóla og nýárs?

- Þú ert kannski ekki sú sætasta hérna en fegurðin er bara í slökkvara fjarlægð ...

- Hæ, ég er líksnyrtir. Hvernig ertu í því að þykjast dauð?

- Sú staðreynd að ég er að missa tennurnar þýðir bara að það verður meira pláss fyrir tunguna í þér.

Felicia-BFelicia á bara örfáa mánuði eftir ólifaða, hún fékk þær fréttir í dag og systir hennar, Bridget Ericsdóttir, grét með henni. Sorglegur þáttur. Felicia gefur í skyn að hún vilji að Bridget gangi Nick yngri í móðurstað, þar sem Bridget er nú gift föður barnsins.

Út að borða-dæmið hans Erics þar sem hann ætlaði að plata fyrri konu sína, Stefaníu, til að afsala sér Forrester-tískuhúsinu, með því að hann þættist hata Brooke, rann út í sandinn þar sem Steffí sá í gegnum karlinn. Hún segir honum aftur á móti fréttirnar um Feliciu, dóttur þeirra. Fleira fréttnæmt gerðist ekki, minnir mig. Ég er aftur á móti orðin húkkt á nýju veðursíðunni ... www.yr.no og skelli þar inn orðinu Akranes. Allt hefur ræst þar. Hver þarf spákonur, -menn þegar svona góð veðursíða segir manni allt það markverðasta sem getur gerst?


Ódömuskapur Ástu og frekar langt bold

Dame Ásta Elskan hann Elli ók okkur heim með strætó. Þegar við mættum Tomma á Kjalarnesi veifuðum við Ásta til hans og sendum honum fingurkossa. Þessir tveir eru sannarlega á topp tíu listanum okkar yfir skemmtilegustu bílstjórana. Í SkrúðgarðinumVið fórum beint í Skrúðgarðinn og fengum okkur kaffi og köku, það er snilld að enda vinnudaginn þannig. Vinkonur Ástu settust hjá okkur og það var mikið stuð. Þegar Ásta hvarf allt í einu og kom svo út af kvennasnyrtingunni sagði hún: „Ég þurfti bara að frussa úr Friðriku,“ fölnaði ég. Hún hefur alltaf jafngaman af því að sjokkera tepruna, vinkonu sína. Þegar hún sagði svo að það hefði verið svo kalt í morgun að þörf hefði verið á miðstöð uppi í ra........ á sér, þá hreinlega leið yfir mig. Eins og Ásta er nú mikil dama.
Í Einarsbúð var fullt af sætum körlum að vanda og ljómandi gaman að daðra við grænmetisborðið ... ef ég hefði ekki verið á hraðferð. Það er alltaf margt fólk í Einarsbúð, þrátt fyrir lágvöruverslanir allt í kring. Segir mikið um hvað þetta er góð búð.  

Setti á Stöð 2 plús við heimkomu til að ná að bolda, hef vanrækt það undanfarið, sorrí allir nema Hildigunnur. Klukkan 19.50 hefst svo á Sýn leikurinn Valur-ÍA!!! Vona að ég þori að horfa.

Boldað í beinni: Stefanía spyrst fyrir um dóttur sína, Feliciu, sem liggur veik á sjúkrahúsi en krabbameinið tók sig upp aftur. Nick hefur ekki enn þorað að segja Bridget að hann eigi nokkurra mánaða gamalt barn með Feliciu. Hann ætlaði að gera það eitt kvöldið en hún neitaði að skemma mómentið með einhverju „leiðinlegu“. Hún vildi eitt friðsælt kvöld og fékk. Nick talar um þetta við Stefaníu og segist vilja segja henni þetta sjálfur.

Brooke og Ridge í gamla dagaEric plottar áfram með Brooke sem segir: „Heldur þú að Stefanía fatti ekki hvað við erum að gera, að reyna að hafa af henni fyrirtækið og að þú þykist hata mig til að komast inn undir hjá henni og ert að fara út að borða með henni kvöld.“ Ef hún heldur þessu áfram mun einhver hlera við dyrnar og allt kemst upp.

(Myndin er tekin í einu brúðkaupi Ridge og Brooke en þau hafa gifst alla vega þrisvar

Massimo gleðst yfir því að Nick og Bridget séu orðin sátt. Bridget tilkynnir honum að „fyrsta“ barn Nicks (Massimossonar) sé stelpa.

Stefanía: „Ef einhver tekur Dominick litla (syni Nicks) vel þá er það hin ljúfa Bridget, hún hefur reynt margt í lífinu, þökk sé móður hennar.“
„Ekki blanda Brooke í þetta!“

„Fjandskapurinn milli ykkar Erics eykst dag frá degi,“ segir geðþekki geðlæknirinn, Taylor, við Brooke, og trúir plottinu. Bótox í varir er greinilega forheimskandi.

Eric kemur prúðbúinn til Stefaníu og fer að tala illa um Brooke við hana. Stefanía er hálfviti ef hún áttar sig ekki á þessu. Hvað ætlar hann svo að gera þegar hann er búinn að veiða hana með smjaðri, kannski plata hana til að skrifa undir að hann megi eiga fyrirtækið? Stefanía horfir furðulostin á hann og hrukkar ennið.

„Hvernig heldur þú að þér líði að halda á frumburði þínum í fyrsta sinn?“ spyr Bridget Nick.
Nick tilkynnir Bridget að hann eigi barnið með Feliciu.

Aukafréttir: Sally lokaði tískuhúsinu sínu og greiddi öllum starfsmönnum góðan lokabónus.


Útsvar og ódömuleg vitneskja

wallander_fs_2Wallander var að hefjast á RÚV. Jess. Dettur ekkert vitrænna í hug að gera en að horfa, sérstaklega þar sem  Jónas butler sér um húsverkin í himnaríki. Fannst brytinn eitthvað veiklulegur í kvöld eftir að hafa barist við gólflampa í stofunni og las leiðbeiningarnar. Sá að ég hefði átt að vera búin að hreinsa síuna fyrir mörgum ryksugunum síðan ... eyddi 10 sekúndum í það. Þegar smiðurinn minn lætur loks sjá sig þá langar mig að biðja hann um að setja gólflista við brík kósíhornsins svo að Jónas lendi ekki alltaf í ævintýrum þar. Úps, sími myrtu konunnar í myndinni hringir alveg eins og síminn minn. Spúkí!

ÚtsvarHver horfði á Útsvar? Spurningakeppnina á RÚV? Mér fannst hún skemmtileg ... þrátt fyrir að fólk þyrfti að hlaupa eins og maraþonhlauparar að bjöllunni ... Ég veit ekki hvort ég á að vera tryllt af tilhlökkun eða kvíða, en ansi ætla ég ekki að vera sá þremenninganna sem dinglar þessarri skrambans bjöllu. Treysti mér frekar í leikræna þjáningu. Mikið voru nú Hvergerðingarnir vitrir og Kópavogsbúarnir líka. Ætla rétt að vona að spurningarnar þann 30. nóvember nk. verði sérhannaðar fyrir okkur Skagamenn, þær voru nú ekki allar laufléttar í kvöld. Væri alveg til í að fá spurninguna: Hver er Ole Sötoft? Þeirri sem ég gat svo óvænt svarað í Górillu-spurningaþættinum um árið og missti mannorðið í leiðinni þar sem Ole var þekktur, danskur klámmyndaleikari úr Rúmstokksmyndunum. Eitthvað sem fín dama ætti ekki að vita. Það sem heilinn ákveður að geyma ...


Ofverndun Jónasar, landsliðslukkudýr og nýr bókmenntaþáttur ...

FótboltiFór í matinn hjá Míu og Sigþóri og það var eins gott því að Ísland vann Norður Írland, alveg eins og mágur minn hélt. Get samt ekki annað en vorkennt Írum, nú er von þeirra um að komast áfram úr sögunni. Sáum svo seinni hálfleik Englendinga og Rússa þar sem þeim síðarnefndu var slátrað ... við Sigþór rifjuðum upp leikinn Manchester United og Manchester City þegar landsliðsmarkvörðurinn okkar varði  fyrir síðarnefnda liðið ... ég slökkti á leiknum þegar staðan var 3-0 í hálfleik. Nagaði mig í handarbökin þegar ég heyrði fréttir næsta morgun. Þeir sem ekki muna ... Manchester City gerði allt vitlaust og skoraði fjögur mörk, vann leikinn. Okkar maður í markinu þeirra átti góðan leik. Mjög spælandi. Sigþór horfði einu sinni á svo spennandi fótboltaleik að hann hélst hreinlega ekki við og fór að taka til í garðinum. Það varð til þess að hans menn sigruðu, án efa West Ham, ættarliðið okkar í enska boltanum.
Mía sagði okkur frá hressum körlum sem hún fékk í tónfræðitíma til sín í dag, þeir sögðust vera vel inni í þessum málum og voru með g-strenginn á hreinu.

kollaNú er að hefjast bókmenntaþátturinn hans Egils Helgasonar, Kiljan. Mikið hlakka ég til. Kolbrún og Páll Baldvin verða vonandi í essinu sínu. Kolla hóf einmitt feril sinn sem gagnrífandi í bókmenntaþætti hjá mér á Aðalstöðinni sálugu. Síðan stal Pressan henni frá mér, þá RÚV ... og svo man ég ekki meira.

Keypti soldið sniðugt í dag, eða áskrift að vef hjá Eddu. Hef nú aðgang að orðabókum, Matarást Nönnu minnar, Kortabók, Nöfnum Íslendinga og fleira í gegnum svokallaðan vefvísi sem er neðst í hægra horninu á tölvunni minni. Meira að segja mér, tölvuónördinum, tókst að koma þessu áfallalaust í tölvuna mína. Þarf reyndar að tékka á því hvort ég megi líka skella þessu í vinnutölvuna mína ... efast samt um það. Ég borga nokkra hundraðkalla á mánuði fyrir þessa snilld. Nú þarf ég ALDREI að standa upp og fletta í bókum!

Himnaríki 260Hitti ryksuguR-óbótamanninn í morgun þegar hann afhenti okkur tækið sem verður í næstu krossgátuverðlaun. Eftir hádegi á morgun, fimmtudag, verður dregið úr réttum lausnum og ég ítreka þá von mína að einhver bakveikur sem þolir ekki að ryksuga fái hana. Mjög margar lausnir hafa borist nú þegar. Það þarf t.d.15 beljaka til að bera þær inn ... tvisvar á dag! Jamm. Pósturinn á alla vega eftir að koma tvisvar með lausnir áður en dregið verður. Mér heyrðist á góða róbótamanninum að hann ætlaði að gefa annan Jónas í verðlaun fyrir jólin!
Hann sagði mér að ég hefði ekki þurft að raða hlutum á gólfið hjá kósíhorninu (sjá mynd) til að Jónas lenti ekki í sjálfheldu, Jónas myndi sjálfur læra á þetta og bjarga sér. Nákvæmlega þarna fattaði ég elementið í mér sem hefur fengið mig til að bjarga erfðaprinsinum algjörlega að óþarfa í gegnum tíðina ... Ég hef líka verið svo stressuð vegna loftnetssnúra á gólfum og skellt hlutum fyrir, maðurinn átti ekki orð yfir mig, tækið væri einmitt snillingur í að hreinsa snúrur á gólfinu. Mikið er ég fegin að ég spurði hann út úr.

P.s. Er nokkurt fyrirtæki eftir í Kaupmannahöfn sem við Íslendingar eigum ekki? Nú er það sérstaklega tekið fram ef hús þar eru ekki í eigu Íslendinga ... við rúlum!


Opinberanir og staðfestingar ...

Einn í félagslitunumEinhvern veginn vissi ég að þetta yrði frábær dagur þegar ég varð númer 007 í gjaldkeraröðinni í bankanum. Gemsinn minn hringdi að vanda þar sem ég lá á bekknum hjá Betu, eitthvert lögmál, held ég. Tommi bílstjóri var í Skrúðgarðinum og upplýsti mig um dularfulla manninn sem ég hitti þar á laugardaginn, þennan sem fór óvart inn í bílinn hjá Míu. Hann heitir Doddi (Þórður).

Hitti annan mann í Skrúðgarðinum sem staðfesti við mig að lið Skagamanna í spurningakeppninni á RÚV á föstudagskvöldum í vetur verði ekki bara valið eftir fegurð, heldur líka greind. Skagaliðið mætir ekki fyrr en í lok október þannig að nægur tími gefst til lýtaaðgerða ... eða gæfist ef á þyrfti að halda sem er ekki.  

Tommi lokaði strætódyrunum fyrir mig rétt áður en geitungur flaug inn og sagðist hafa bjargað einum slíkum úr kjafti fósturkattar síns á laugardaginn. Ástæðan, jú, geitungurinn er í félagslitunum!


Kuldavandamál leyst, myndarskapur og fleira

Men in TreesÉg hef alls ekki gaman af væmna konuþættinum Men in Trees, beið bara spennt eftir nýja lögguþættinum, Amazing Grace. Sá á eftir að taka áhorf frá Omega.
Þrjár afar girnilegar kiljur bíða eftir athygli og fá hana ... eftir CSI New York á SkjáEinum plús ef ég nenni að standa upp til að skipta um stöð ...

Ansi áhugaverð álit komu fram í kvöld í Íslandi í dag um efnahagsmál og heimsendi í þeim efnum mögulega, kannski, jafnvel, líklega bráðlega. Saknaði þess að engin kona sagði álit sitt, hélt reyndar að þær væru í meirihluta í viðskiptafræðinni og hefðu haslað sér völl í þessum geira.
Nú er það er hreinlega spurning um að hugsa sig rosavel um áður en ég veð út í framkvæmdir í himnaríki þar sem ég á ekki digra sjóði á reikningi, ekki frekar en flestir. Verst er að nýju svalirnar leka og parkettið liggur undir skemmdum. Veit ekki hvort ég á að hringja í smiðinn minn, hann er alla vega ekki búinn að segja mér upp og hefur enn lykla að himnaríki, eða aðilana sem settu upp svaladyrnar. Ef smiður bæði mín í dag myndi ég líklega játast honum þótt ég sé alls ekki í giftingarstuði. Gerir maður ekki allt fyrir gamla, slitna parkettið sitt?  

Inga stoppaði stutt í dag en fékk að sjá ofurmennið Jónas butler ryksuga himnaríki. Nú hefur Inga öðlast tilgang í lífinu og stefnir á eitt svona krútt. Hún hefði átt að sjá til mín þegar ég bjó mér til latte með öllu tilheyrandi með butler í stuði við að þrífa eldhúsgólfið. Nú veit ég með vissu að ég kann enn að hoppa og er ansi efnileg í ballett. Vil ekki breyta heilabúi Jónasar þar sem hann er búinn að læra himnaríki utanbókar ... ef hann rekst í löpp sem er fyrir honum gæti hann forritað það inn á minnið. Held ég.

Myndarskapurinn var geysimikill í himnaríki í kvöld. Rótargrænmeti, laukur, chili og fleira skellt í ofninn og kjötbiti steiktur. Það sem gerði þetta enn frekar óhugnanlega skrýtið var að Jamie Oliver var akkúrat að elda og spjalla í sjónvarpinu um leið.
Eitthvað varð að gera þegar kuldinn var allt að drepa, snilldarhugmyndin um að skrúfa frá ofnunum eftir sumarfríið virkaði líka vel. Það blæs nefnilega og rignir frá Ameríkunni, mjög líklega hefur lítill fellibylur fokið hingað. Nú er vel hlýtt og notalegt. Stutt í háttatíma.


Uppdeit af boldi og tvær samviskuspurningar

Kaffið fyrstMamma var svo sæt að færa mér kaffi heima hjá Hildu í gærkvöldi. Eitthvað fannst mér bragðið skrýtið en liturinn var þó réttur. Ástæðunni laust ofan í huga minn, ég horfði rannsakandi á hana og spurði: „Settir þú mjólkina á undan kaffinu?“ „Já,“ svaraði mamma og var ekki einu sinni skömmustuleg á svipinn. Hún gerir þetta alltaf þegar hún fær sér kaffi og ég get ekki skilið það. Þetta gjörbreytir bragðinu til hins verra. Ég spyr bloggvini mína nær og fjær, til sjávar og sveita: Hvort er betra, að hella kaffinu fyrst í bollann eða mjólkinni? Ekki hika við að svara sannleikanum samkvæmt en ef þú ert með sama smekk og mamma þætti mér athyglisvert að fá rökstuðning fyrir því ...

Felicia, systir Ridge, Thorne og fleiriÞeir sem þykjast ekki hafa áhuga á boldinu ættu ekki að lesa lengra því að hér kemur upp-stefnumót af nýjustu atburðum hjá Forresterunum og fylgifiskum þeirra.
Eric spilar lymskulega á Stefaníu, fyrrverandi eiginkonu sína, og þykist vera hættur að þola Brooke, mjög nýlega fyrrverandi eiginkonu sína. Sú aðferð mun skila honum fyrirtækinu aftur, vill hann meina.  Hann trúir Brooke fyrir þessu og segist gabba Taylor og Ridge á sama hátt til að Stefanía láti örugglega sannfærast, hún sé alltaf svo veik fyrir honum.
Brooke dreymir kynæsandi dagdrauma um Nick, sem hún elskar, en ætlar að fórna hamingju sinni fyrir hamingju dóttur sinnar sem á von á kvenkyns stúlkubarni með Nick, eins og allir vita. Margt hefur gerst síðustu dagana, eiginlega er allt að verða vitlaust í boldinu.

Felicia, dóttir Erics og Stefaníu, hefur stungið upp kollinum og heldur til í strandhúsinu en þangað hleypir hún engum. Þar felur hún nefnilega ungbarn sem hún á með engum öðrum en NICK!!! Eins og allir vita er skortur á leikurum í Hollywood þannig að Nick var látinn deita Feliciu einhvers staðar á milli sambanda hans við Bridget og móður hennar. Þetta fór alveg fram hjá mér.
Felicia og Bridget eru sko hálfsystur ... sumir fara ekkert út fyrir fjölskylduna í leit að einhverju til að sofa hjá ... eða réttara sagt; snjallt að samnýta gaurinn ef hann er svona æðislegur.
Fatahönnun er í genunum á Forresterunum og er Felicia víst algjört séní á því sviði, móðir hennar biður hana um að koma og vinna hjá sér. Felicia er með krabbamein en fjölskylda hennar heldur ranglega að hún hafi læknast. Stefanía komst að þessu með barnið fyrir algjöra tilviljun, enda er konan sú yfirleitt með nefið niðri í öllu, blessunin. Tjaldið féll þegar hún hvatti Feliciu til að segja Bridget leyndarmálið! Hvað gerist í næstu viku? Úúúúúúú ...

Ég veit hvað er framundan. Gúgglaði mynd um daginn og lenti á síðu þar sem ég sá hvernig næstu vikurnar þróast hjá þessum hjartkæru heimilisvinum himnaríkis. Hefur einhver áhuga á því að fara svolítið fram í tímann og ég skelli næstu atburðum hér inn? Þá er engin hætta á að nokkur verði að hanga yfir sjónvarpinu í stað þess að undirbúa jólin. Það tekur sinn tíma að þrífa, baka, skreyta og lesa jólabækurnar. Er ekki bara gott að sleppa við boldið til áramóta?  


Mannlegur róbót og "átakanlegt" sjónvarpefni

Tommi og róbótinn í kröppum dansiEitthvað er nú andlegt ástand orðið sérkennilegt hér á bæ. Nú er ég farin að spjalla hástöfum við vélmennið. „Svona, suss, ekki fara hingað, þú lendir bara í sjálfheldu!“ Hmmm, ég er ekki enn búin að kaupa batterí í hnullungana tvo sem varpa geisla sem róbótinn kemst ekki fram hjá. Vá, ef tækni nýrrar aldar hefur ekki hafið innreið sína í himnaríki þá veit ég ekki hvað. Fljúgandi bíll er ekki svo fjarlægur möguleiki lengur ...

Það er eins og vélmanninum finnist það sérstök áskorun að komast niður þennan sentimetra sem gólfið er lægra í kósíhorninu (sjá mynd) en kannski getur hann alveg bjargað sér þarna, komist bæði upp og niður af sjálfsdáðun, prófa það næst. Ég er samt búin að koma fyrir alls kyns  hindrunum sem hann reynir að ýta frá til að þrífa, þrífa, þrífa!!! Ég elska þetta kvikindi! Það sést orðið í mynstrið á kattaháramottunum, ég meina fínu persnesku teppunum!
Nú hefur þessi elska hreinsað eldhús, stofu og gang vel og vandlega og ég þarf bara að hagræða snúrum betur í svefnherberginu áður en ég hleypi honum þangað, ef hann fær aðgang. Ekki hver sem er kemst í meyjarskemmuna! Hann rakst tvisvar á Tomma í dag þar sem Tommi flatmagaði á stofugólfinu en það er engin hræðsla í gangi hjá hetjuketti himnaríkis. Meira að segja Kubbur fer alveg að taka hann í sátt! Ég bíð eftir að þeir

Hvað er í gangi á Stöð 2? Ekkert nema átakanlegir þættir eða myndir. Nú var að hefjast framhaldsmynd mánaðarins, átakanleg mynd um Natalie Wood. Nýlega var átakanleg fótboltamyndá dagskrá og mig minnir að framhaldsþátturinn um Henry VIII sé líka auglýstur átakanlegur. Er þetta kannski átakanlegur skortur réttra orða í íslensku? Eða er þetta svona söluvænt orð? Ég skipti í hvelli yfir á SkjáEinn þegar átakanlega framhaldsmyndin hófst og ætla að horfa á VEÐURMYND sem heitir Superstorm! Vonandi verður fullt af brimi í henni, kannski eitthvað í líkingu við þetta:
http://www.youtube.com/watch?v=bVU43tNSXXc&NR=1

Á eftir Superstorm hefst nýr læknaþáttur. Ætla að gefa honum séns þótt hann virðist væminn. Í treilernum sýnist mér læknirinn vera að segja konunni sinni og börnunum upp svo að hann geti fórnað sér enn frekar fyrir sjúklingana. Ég hlýt að hafa misskilið eitthvað og þess vegna ætla ég að horfa. Svo hefst House á fimmtudaginn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 649
  • Frá upphafi: 1524964

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 551
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband