Færsluflokkur: Sjónvarp

Jólaundirbúningur, bold og skrýtin sjúkdómseinkenni á mbl ...

Jólin nálgastVið Ásta kíktum í Húsasmiðjuna á heimleiðinni. Ég keypti kannabis (ilmdropa) og eitt jólaskraut. Jólin nálgast óðfluga, eins og sést í búðum. Líklega verður þetta eini jólaundirbúningurinn í himnaríki, a.m.k. í október. 

----    ----   ----   ------     -----    -----     -----     ----- 

Belgískar vöfflurÞar sem Ridge er búinn að segja Taylor upp þarf hann að finna sér nýja konu í staðinn. Hann kíkir á minnisblaðið. Bíddu, jú, Brooke er hætt með Nick, tengdasyni sínum, og nýskilin við Eric, pabba Ridge. Hún ætti að vera nokkurn veginn á lausu. Hann fer og biður hennar. Nick birtist í miðjum klíðum með Hope litlu, dóttur Brooke og hins tengdasonarins sem Brooke tældi, Deacon. Þau voru úti í búð til að kaupa belgískar vöfflur. Hann spyr Ridge hvaða erindi hann eigi við Brooke. Nokkuð mikil afbrýðisemi hjá tengdasyninum. Af hverju er hann ekki hjá óléttu konunni sinni?  Brooke tekst að koma þeim út og heldur áfram að hafna Ridge.

Meiri belgískar vöfflurÁ sama tíma heima hjá Taylor: Stefanía kemur í heimsókn og sér að Taylor liggur döpur í sófanum. Steffí vill meina að hjónabandi þeirra Ridge sé aldeilis ekki lokið, hann hafi bara brugðist of harkalega við eldgamla framhjáhaldinu og kossi brunakarlsins!
Brooke segir Ridge að fara aftur til Taylor! Hann segist eiga heima hjá Brooke og börnunum.  
„Þú særðir mig meira en nokkur hefur gert,“ segir Brooke. Hún afhjúpaði Stefaníu, eða gervihjartaáfall hennar sem var sett á svið til að neyða Ridge til að velja Taylor, og með hjálp Jackie, mömmu Nicks, og ekki dugði það til að opna augu Ridge þannig að loks þegar Ridge hefur áttað sig er það of seint. Ridge elskar Brooke. „Ekki gera mér þetta,“ segir hún.
Stefaía kveður sorgmædda Taylor og hviss, bang, brunakarlinn birtist með rauða rós. Hann á erfitt með að fela gleði sína yfir skilnaðinum. Hvar er Amber? Hvar eru Rick og unga brúðurin hans?   

„Vefköku notanda vantar“ ... kemur stundum þegar ég reyni að blogga eða kommenta. Eru þetta ekki aðeins of miklar upplýsingar um viðkomandi bloggara? Þetta minnir á sjaldgæfan sjúkdóm.


Menningarlifnaður í himnaríki ...

HugleikurLas Eineygða köttinn og Leyndarmálið á leiðinni heim með strætó. Algjör snilldarbók eftir Hugleik Dagsson. Ekki fyrir viðkvæma og heldur ekki DVD-myndin Hot Buzz sem við erfðaprinsinn orguðum af hlátri yfir nú í kvöld. Bráðfyndin bresk gamanmynd með dassi af hryllingi og spennu. Stundum verulega ógeðsleg. Lögreglumaður er fluttur til í starfi vegna of mikils dugnaðar og sendur í lítið fyrirmyndarsveitaþorp. Þar hitnar fljótlega í kolunum. Mikil menning í himnaríki í kvöld. Eftir smástund verður haldið áfram með Árna Þórarinsson, Dauða trúðsins, er næstum hálfnuð með hana og finnst hún ansi skemmtileg. 

RidgeRidge tókst næstum að sýna leikhæfileika þegar hann sagði Taylor, konu sinni, upp í dag. Hvað verður nú um Tómas og tvíburana? Taylor viðurkenndi nefnilega að hafa sofið hjá öðrum manni fyrir löngu, já, og kysst brunakarlinn nýlega. Þetta var meira en Ridge gat þolað. Samt kjaftaði hann af sér þegar hann sagðist enn elska Brooke, Taylor fattaði bara ekki að hann notaði játningu hennar til að binda enda á hjónabandið. Verst að Ridge hefur ekki séns í Brooke lengur, hún er svo hrifin af Nick, tengdasyni sínum. Þau Nick horfast reglulega í augu á átakanlegan hátt en fórna sér fyrir Bridget.


Uppgötvun sjónvarpssjúklings ...

EMHEEinu sinni voru skemmtilegustu sjónvarpskvöldin á þriðjudögum. Þá voru sýnir góðir spennuþættir, jafnvel tveir eða þrír. Breytingarnar hafa gerst svo lymskulega að ég var að fatta þetta. Ég fann lífsþrek mitt hreinlega dofna í kvöld þegar Bjöggi þula taldi upp hvað boðið verður upp á. Eitt: Byggt verður hús fyrir næstum heimilislausa fjölskyldu, well, allt í lagi með það. Tvö: Síðan verður fjallað um stríðið í Írak í þættinum Kompási, eitthvað sem verður ekkert endilega meira spennandi þótt íslenskir fréttamenn fjalli um það. Þrjú: Þar á eftir verða eflaust svik bandarísks fyrirtækis rædd í þaula í 60 mínútum. Ó, hvað ég nenni ekki að horfa á elsku Stöð 2 í kvöld, slík eru sárindin eftir þessa miklu og óvæntu uppgötvun. 

NCIS_CastingÞegar NCIS hefst er kominn háttatími í himnaríki (minni á ókristilegan fótaferðartíma) en ég verð samt að stelast til að horfa á þáttinn sem ég elska að hata vegna eineltisins þar. Jethro Gibbs leggur alla í einelti nema Abby á rannsóknarstofunni, hann elskar hana, ég líka. Sætari karlkynsundirmaður hans leggur hinn undirmanninn, þennan þybbna, í andstyggilegt einelti, enda gefur útlit hans eiginlega á hann veiðileyfi. Í flestum bíómyndum eru þeir þybbnu, ég tala nú ekki um þá sem eru með gleraugu, alltaf étnir af risaeðlum. Hafið þið ekki tekið eftir því?

------         ---------        ---------         -----------        --------- 

HeartlandHeartland verður reyndar á SkjáEinum í kvöld, vei! Not. Það er skelfilegasti vonnabí-kjútílegur-sjúkrahúsþáttur sem ég hef séð. Aðallæknirinn fórnar öllu fyrir velferð sjúklinga sinna, þá meina ég ÖLLU. Er ekki nóg að horfa upp á slíkt í raunheimum hér á Íslandi svo ekki sé búin til væmin vella um það í Bandaríkjunum?

Sjónvarpsrýni dagsins var í boði Guðríðar af himnaríki.  


Mamma og Lennon

Yoko og JohnÞótt 67 ára sé enginn aldur í dag þá hefur John Lennon verið miklu nær mömmu í aldri en mig grunaði. Aldrei hugsaði ég út í það hér áður fyrr, enda lentu Bítlarnir í raun tónlistarlega mitt á milli okkar mömmu, komu of seint fyrir hana og of snemma fyrir mig. Mamma fílaði Al Jolson, t.d. lagið Mama, á meðan ég hlustaði á Uriah Heep, Pink Floyd, Jethro Tull, King Crimson, Genesis, Rick Wakeman og fleiri snillinga. Fannst reyndar lagið Oh Darling með Bítlunum æðislegt þegar stóra systir spilaði það en Come Together skelfilega leiðinlegt, veit ekki hver Bítlanna samdi það.
Friðarsúlan hennar Yoko er flott, hlakka til að sjá kveikt á henni í kvöld, held að ég muni sjá hana mjög vel úr himnaríki.

Stefanía hvetur tengdadóttur sína, Taylor, til að þegja yfir því við Ridge að hún hafi kysst Hecor brunakarl. Það geri engum gagn. (Uppgerðarhjartaáfall Stefaníu yrði þá til einskis, innsk. blm)  Það er nóg að hún missti heilan eiginmann vegna þess og það í klærnar í Brooke í nokkra daga. Ridge er að koma heim til LA og hringir í elskuna sína af flugvellinum. „Við höfum um margt að tala,“ segir Taylor.

BrookeNick og Brooke tala um Ridge en Brooke segist ekki vilja hann, hún elski einn mann, Nick. Nick þurfi að hugsa um Bridget, barnið og Dominic. Nick krumpast aðeins í framan vegna fórnarinnar sem hann hefur fært. Hræðilegt að þurfa að vera með dóttur Brooke þegar tengdamamman er svo miklu girnilegri. Nick reynir að vera fyndinn og ráðleggur Brooke að gera sér upp hjartaáfall. Brooke vill bara að sannleikurinn komi í ljós, um kossinn forboðna. „Ef Taylor segir honum þetta ekki, geri ég það,“ segir hún.

„Ó, ég saknaði þín,“ segir Ridge ástreitinn við Taylor og hótar því að fara aldrei framar frá henni. Þessir bjánar í boldinu ættu að vita að sannleikurinn kemur alltaf upp á yfirborðið fyrr eða síðar og þá er verra að hafa þagað yfir kossum og svona.


Sein Miss Marple og dularfulla farþegahvarfið ...

SloppadagurMikið var gott að geta bara skrifað sápuóperu á bloggið um helgina. Það losaði mig undan því að þurfa að lenda jafnvel í hættulegum ævintýrum til að skrifa um. Held að þið vitið ekki hvað ég fórna mér fyrir þetta blogg og ylhýra bloggvini mína; ævintýri á strætóför, daðra við tæknimenn ... horfa á Bold and the Beautiful og allt. Það var nú bara letilegur sloppadagur í gær af þessum sökum, ég steingleymdi algjörlega að klæða mig, sem kom sér vel í gærkvöldi þegar ég þurfti ekki að fara að hátta og ansi fljótlegt var líka að fara í bað.

Við Ásta ókum fram hjá tómum Skagastrætó á leiðinni, litum hræddar, óttaslegnar og skelfingu lostnar hvor á aðra og fengum hroll. Báðar mundum við eftir Stephen King-bókinni FURÐUFLUG þar sem farþegarnir sem voru vakandi í flugvélinni hurfu endanlega en þeir sem sofnuðu hurfu ekki, heldur lentu í óhugnanlegu ævintýri þar sem svarthol kom m.a. við sögu (er ekki að tala um svæðið í kringum 101 Reykjavík). Held að þetta hafi ekki gerst í morgun, þá hefði Sigþóra átt að sjást, hún sofnar alltaf í strætó.

------       ----------        --------------          ---------         ---------     -----

Miss MarpleNæstsíðasti frábæri atburður helgarinnar var þegar SMS kom frá Ástu um drossíufar í morgun og sá síðasti var Miss Marple þáttur á Stöð 2. Hann var ekki búinn fyrr en kl. 1 í nótt og nú er ég með hausverk. Vildi að þessir viðbjóðslegu fokkings Tudor-þættir um eiginkonumorðingjann Hinrik VIII hætti svo að ég geti farið að sofa klukkutíma fyrr, Miss Marple-myndirnar eru alveg frábærar, nema ALLT of seint á dagskrá sunnudagskvöldanna. Annars var lögfræðingaspennuþáttaröðin sem hófst á Stöð 2 í gærkvöldi (á eftir Monk) alveg ferlega spennandi, mæli með honum.

Eigið góðan, frábæran, æðislegan dag! Mæli svo um og legg á!!!


Rómantík, ólétta, matarvenjur og bold

Í matsalnumDagurinn gekk frábærlega vel. Það var meira að segja ágætur matur í hádeginu. Sigga Dögg, gamla nágrannakona mín af Hringbrautinni og skólasystir úr hagnýtri, settist við borðið hjá okkur í matsalnum og tjáði okkur að barnið í maganum á henni væri strákur. Hún á tvær stelpur fyrir og eitthvað af stjúpdætrum svo að þetta var bara gaman. Guðröður litli á að koma í heiminn í febrúar.

 

SviðÞegar ég settist við borðið var þar hluti umbrotsdeildar, ógurlega hressir og skemmtilegir strákar. Þeir voru að tala um hvað Íslendingar kunnu lítið í matseld á öldum áður, nýtnin hafi verið svo yfirgengileg og litað matarmenninguna mikið. Einn þeirra var um tíma í skóla í Ástralíu eða á Nýja Sjálandi og valdamaður þar (forsætisráðherra?) fordæmdi hvalveiðar Íslendinga um svipað leyti. Unga manninum datt í hug að spyrja skólafélaga sína álits og þeim var eiginlega slétt sama þótt þeir segðust ekki treysta sér sjálfir til að drepa hval. Svo var farið að tala um matarvenjur og okkar maður sýndi þeim m.a. mynd af sviðahaus. Þá varð allt vitlaust og fólki fannst þetta viðbjóður. Við komumst að þeirri niðurstöðu við matarborðið að hvalveiðar hefðu sama og engin áhrif á íslenskan ferðamannaiðnað, það væri frekar úldni maturinn sem við montuðum okkur af við útlendinga. Einhver minntist svo á að svartir sviðahausar seldust miklu síður en þeir hvítu í íslenskum matvörubúðum sem sýndi að við værum enn meiri rasistar en við héldum. Já, alltaf fjör í matsalnum.

HeilsubæliðÍ gær stoppaði mig einn krúttmolinn af Stöð 2, dýrðarinnar tæknimaður sem frétti í hádeginu nýlega að ég hefði leikið stórt hlutverk í Heilsubælinu í Gervahverfi; m.a. bláa öxl í sjúkrasloppi, hjúkkukappa og vinstri fót í brúðkaupi. Hann skellti þáttunum yfir á DVD og færði mér. Þessi elska. Ég kyssti hann að sjálfsögðu fyrir þótt ég sé vanalega afar sparsöm á kossa. Áður en maðurinn var horfinn úr salnum voru samstarfskonur mínar búnar að gifta mig honum í bak og fyrir. Svona þarf nú lítið til að rómantíkin ríði rækjum í vinnunni minni.

Náði strætó klukkutíma fyrr en vanalega á föstudögum, eða 17.45 og sat næstum við hliðina á einum af sætukarlastoppistöðinni, hressum manni sem sagðist hafa lesið fyrstu blaðsíðuna í Harry Potter í bókabúð um daginn ... og þá síðustu. Hann vill meina að allt fari ósköp vel miðað við þetta, ég verð að fara að klára bókina fyrir Jennýju og Ella bílstjóra. Hef dottið ofan í nokkrar nýjar bækur í millitíðinni og steingleymt galdrastráknum.  

TaylorTaylor, geðþekki geðlæknirinn, er í vondum málum. Brooke virðist hafa áttað sig á að hún ætti sér aðdáanda; Hector, huggulega brunakallinn. Held að hann hafi falið sig inni í skáp eða baðherbergi þegar Brooke birtist og fattaði að eitthvað væri í gangi. Að sjálfsögðu þarf Brooke að fleygja hinni heilögu Taylor af stallinum og ætlar eflaust að blaðra í Ridge, sem var reyndar ekki heima hjá konu sinni á gamlárskvöld, eins og kom fram í síðasta bloggi.

Mér sýndist bjargvættur Taylor, þessi sem hefur verið að gera hosur sínar grænar fyrir Bridget, vera orðinn yfir sig ástfanginn af Feliciu, þessari sem neitar að fara í krabbameinsmeðferð, og er búin að arfleiða Nick (pabbann) og Bridget að barninu sínu. Skrýtið með ástina í boldinu. Brooke hefur átt sér nokkra sálufélaga og aldrei elskað jafnmikið og heitt nokkra menn fyrr og síðar í hvert skipti. Undir þetta falla þeir Ridge, Nick og Deacon svo fátt eitt sé nefnt af úrvalinu í boldinu. Að vísu eru karlanir samnýttir í tætlur og ættum vér íslenskar konur að taka þetta upp, ég meina hver nennir eftir karli til Hveragerðis ef hægt er að hafa t.d. tvo eða þrjá Skagamenn í takinu í eigin sápuóperu?


Völvan og dollan ...

Forsíðustúlka völvublaðsins ...Völvan okkar á Vikunni var búin að spá því að FH-ingar yrðu ekki Íslandsmeistarar en hún gat ekki séð hvaða lið hampaði titlinum 2007. Ég get upplýst hér og nú að það voru Valsmenn. Magga mín, innilega til hamingju! Ó, þeir eru svo glaðir, enda ekkert skrýtið, 20 ár síðan þeir fengu dolluna síðast.

Við (ÍA) höfnuðum í 3. sæti, gæti verið verra, í fyrra vorum við í svipuðum sporum og KR núna ... næstum fallin.

Mótokrossið búið og hálfeinmanalegt að sitja við gluggann og sjá bara gröfur að taka til og svona. Þröstur minn þarf ekki að óttast varanlegar skemmdir á sandinum ... sjórinn lagar allt á næstu klukkutímum, þessi elska.

Guðmundur var að hringja og c.a. klukkutími í hann. Þá er bara að skella kökunni í ofninn, ég er búin að hræra deigið. Nú ættu bara Þröstur og Edda að skella sér í nýbakaða köku, eplaköku með vanillu- og súkkulaðifyllingu ... þetta yrði þá óvænt og bragðgott bloggvinamót. 


Vandræðalegar uppákomur, pínkubold og góð súpa

Sendum klámmyndir múahahahhaYlfa Mist skrifaði svo hryllilega fyndið komment hérna nýlega og sagði frá mjög persónulegu SMS-i sem hún sendi á rangt gemsanúmer ... fékk til baka fjandsamlegt svar þar sem hvorugt hjónanna í þessu númeri sagðist kannast við að þekkja hana ... arggggg! Ég hafði skömmu áður kommentað hjá Ólínu Þorvarðar sem bloggaði um það þegar einhver braust inn í gemsann hennar og sendi ótal skilaboð til hinna ýmsu ... Í fréttum komu síðan leiðbeiningar um það hvernig ætti að gera þetta og nú er ég hrædd. Sérstaklega eftir þetta sem kom fyrir mig og sagði frá hjá Ólínu ...þegar tölvan mín hóf að senda ókunnugum manni klámmyndir frá mér og ég vissi ekkert fyrr en hann baðst vægðar ... en ég var alsaklaus af þessu. Vírusar gengu mikið á þessum tíma, meira að segja í vinnutölvum. Óttast mest að vera klámdrottning í huga þeirra sem fengu kannski svona glaðning frá „mér“ og héldu að ég væri í alvörunni að senda dónapóst.  
Æ, höfum við ekki öll lent í einhverju svona hræðilega vandræðalegu?

Húsmóðir að bakaSúpan hennar Maríu í Skrúðgarðinum er einstaklega góð í dag. Bragðmikil og hlýjaði um hjartarætur sem veitir ekki af í þessu slagviðri. Ágætis bragðauki var svo að fá elskuna hann Tomma á staðinn þótt hann skammaði mig fyrir svik við Strætó bs, að hanga svona í einkabílum, eins og einhver prinsessa. Hélt hann vissi af bláa drossíublóðinu sem rennur um æðar mér ...   

Þegar ég vaknaði í morgun var boldið byrjað og rekkjusnakk stóð yfir, ég bjóst við einhverju krassandi en þá voru það bara Nick og Bridget að væmnast eitthvað. Í gær voru jólin hjá Forrester-fjölskyldunni og sonur Nicks og Feliciu (dauðvona dóttur Erics og Stefaníu) var skírður, eða það stóð til. Stefanía og Felicia báðu hvor aðra innilega afsökunar á því að vera a) vond móðir, b) vond dóttir. Meira sá ég nú ekki ...

Jæja, best að fara að baka. Týndi sonurinn fer alveg að koma.   


Frægukarlablogg og flottar öldur

Kubbur og sjórinnÞegar ég sat og gúffaði í mig góðum mat í hádeginu settist hjá mér enginn annar en Örn Árnason. Hann var að fara að lesa inn á risaeðluþáttinn sem er á Stöð 2 á laugardagskvöldum, minnir mig. Ég bjóst við einhverju svakalega fyndnu Spaugstofugríni en ... maðurinn sagði: „Er ekki Steingerður enn að vinna með þér?“ Ég hló samt kurteislega til öryggis og sagði honum allt um snillinginn hana Steingerði. Þau Örn voru saman í bekk í gamla daga og miðað við blikið í augum hans held ég að hann hafi verið skotinn í henni í 10 ára bekk. Ég játaði fyrir Erni að ég hefði verið yfir mig ástfangin af Jakobi Þór leikara á sama aldri. Svona geta nú leyndarmálin fokið óvænt upp úr manni næstum 40 árum seinna þegar maður er að reyna að veiða leyndarmálin upp úr öðrum. Fleiri frægukarlar voru á vappinu í vinnunni minni, sætir íþróttafréttamenn, alla vega einn, og sjálfur Egill Helgason, sem hefur bjargað fyrir mér alltofkvenmiðuðusjónvarpsefnis - miðvikudagskvöldunum með Kiljunni, þættinum sem ég ætla sannarlega að horfa á í kvöld.

Svo fékk ég drossíufar heim með hálflasinni Ástunni minni og hef eiginlega setið við gluggann síðan og horft á öldurnar, þær eru ekkert smáflottar núna. Ljósmynd nær þeim engan veginn. Gluggarnir eru orðnir vatnsheldir en enn er smáleki við svaladyrnar. Nú verð ég að fara að hringja í góða smiðinn minn áður en hann gleymir mér alveg. Eftir að hann er búinn að gera sitt má veturinn koma í allri sinni dýrð!


Rólegur stormur og ömurleg laugardagsmynd ...

FjallgöngumennÞetta voru nú meiri æsiveðurfréttirnar. Enginn stormur enn og bara rúmur hálftími til miðnættis. Dauðskammast mín fyrir að hafa varað samstarfskonur mínar við veðurofsanum sem átti að vera í dag. Hviðurnar á Kjalarnesi fara rétt yfir 20 núna, strætó keyrir þegar þær eru 34 m/sek. Hef varið kvöldinu í tölvunni og óhjákvæmilega hlustað á sjónvarpið. Á Stöð 2 var að ljúka heimildamynd um hrakningar fjallgöngumanna og mjög grafískar lýsingar hafa verið á skelfilegum fótbrotum, þorsta, hungri og öðru miður kræsilegu. Viðtöl við hundleiðinlega fjallgöngumenn inn á milli leikinna atriða. Var ekki hægt að sýna t.d. True Lies í 18. skiptið? Það er laugardagskvöld!  

Þorstanum svalaðÓkei, ég hef heyrt um stelpu sem drukknaði á lækjarbakkanum af því að hún nennti ekki að fá sér vatn. Ég er reyndar þyrst og ætla að gera eitthvað í því eftir augnablik en hef ekki nennt að labba þessa örfáu kílómetra inn í stofu til að skipta um stöð eða bara slökkva á tækinu ...

Held að þetta hljóti að vera leiðinlegasta mynd sem hefur sýnd á laugardagskvöldi í sögu Stöðvar 2. Hver ber ábyrgð á þessu? 

P.s.

Hahhahaha, ég varð að bæta þessu við. Auðvitað þoldi ég ekki myndina þar sem henni er lýst sem átakanlegri, uppáhaldsorð einhvers á Stöð 2. Horfði ekki á m.a. átakanlegu fótboltamyndina um daginn og heldur ekki átakanlega þáttinn um Hinrik VIII frekar en annað þar sem þetta lýsingarorð er notað. Hér kemur lýsingin af vef Stöðvar 2:

Hættulegt klifur
Touching the Void er átakanleg og sönn saga tveggja fjallaklifrara sem lentu í skelfilegum hremmingum á leiðinni á topp Siula Grande í Perú. Myndin hefur farið sigurför um heiminn og sló í gegn þegar hún var sýnd í bíóhúsum hér á landi. Aðalhlutverk: Richard Hawking, Brendan Mackey. Leikstjóri: Nicholas Aaron.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 634
  • Frá upphafi: 1524949

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 539
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband