Færsluflokkur: Spil og leikir

Flottur leynivinur

Inga LáraKomst að því í dag að ástkær leynivinur minn í sumarbúðunum var engin önnur en Inga Lára snillingur. Mig grunaði það vegna sætu, sniðugu bréfanna sem fylgdu gjöfunum ... en lymskan í starfsfólkinu þarna var svo mikil að Inga Lára gat alveg eins hafa verið fengin til að skrifa bréfin og blekkja mig þannig. Gluggarnir í himnaríki verða þrifnir með góða, umhverfisvæna trefjaklútnum og allar snilldarhugmyndir skrifaðar í litlu, sætu vasabókina svo að þær gleymist ekki. Ég er löngu búin að smjatta á namminu sem hún gaf mér líka og fiðrildasólgleraugun koma sér vel ef lífið verður flókið. Snilldargjafir. Held að Þóra starfsmannastjóri hafi bara verið ánægð með sínar gjafir sem ég laumaði til hennar með hjálp Hildu. Fótanuddkrem, blómadropar sem auka orku kennaraháskólanema, kerti og servíettur, sérlega hollt en gott súkkulaði, lítil ilmsprittkerti og eitthvað fleira. Ég missi mig alltaf gjörsamlega í svona leynivinaleikjum þótt fólk sé beðið um að hemja sig.


Loksins, loksins ...

Maðurinn og stóllinnKurteis og bráðmyndarlegur maður hringdi í mig áðan frá Rúmfatalagernum. Hann ætlar að heiðra himnaríki með nærveru sinni núna eftir hádegi og kíkja á skakka leisígörl-stólinn. Þess vegna er ég komin heim og ætla að vinna þar í dag. Miðað við fljótheitin á sumum snemma á morgnana, eins og sjá má í síðustu montfærslu, mun mér takast að ná að setja mósaíkflísar á baðið, hrauna loftin, veggfóðra eldhúsið, pússa hlekkina og ryksuga áður en hann mætir á svæðið.

Nú, ef ég er heppin þá veit RL ekki nákvæmlega hvert þessi maður á að fara innan 300 Akranes og hæg heimatökin að kyrrsetja hann um tíma, eins og ég gerði við Pólverjana sem fluttu Birtíng á milli húsa á síðasta ári. Þá fallegu menn tók ég eignarnámi, eins og lesendur gömlu blog.central-síðunnar minnar muna kannski eftir. Þetta var skömmu eftir að ég slasaði á mér hnén á ógæfumölinni og ég man einmitt hvað þeir voru miklar dúllur þegar þeir æptu allir sem einn, „Nje, nje,“ þegar ég dansaði fyrir þá og lyfti upp pilsinu þannig að það sást í svolítið krambúleruð hnén á mér. Þeir höfðu greinilega verið að læra íslensku án þess að ég vissi .... þessi krútt. Það varð smám saman erfitt að halda uppi 15 manns þótt þetta væri óhemjuskemmtilegur tími þannig að ég skildi viljandi eftir ólæst einn morguninn ... og það hefur verið sorglega mann-laust í himnaríki síðan.

Annars er ég víst orðin þekkt fyrir þetta. Sendlarnir í Einarsbúð koma t.d. alltaf tveir saman, eins og löggan reyndar gerir líka og vottar Jehóva taka á sig krók fram hjá himnaríki. Orðsporið hefur ekki borist til Reykjavíkur þannig að nú er von.


Við prinsessan ...

Díana og KalliÉg á 27 ára brúðkaupsafmæli í dag. Þennan dag árið 1980 giftist ég heima hjá mömmu og þáverandi stjúpföður sem bjuggu við Rauðalæk. Prestur sem síðar varð biskupinn yfir Íslandi gaf okkur saman og skírði síðan erfðaprinsinn svo að hann yrði nú ekki óskilgetinn. Ekki hefur nú eiginmaðurinn druslast til að gefa mér blóm í dag, kannski vegna þess að við skildum fyrir 25 árum og hann gekk út aftur, annað en ég. Ég vil bara nota þetta tækifæri til að óska mér innilega til hamingju með daginn.

Ekki á morgun, ekki hinn, heldur hinn hefðu Díana prinsessa og Karl Bretaprins mögulega getað átt 26 ára brúðkaupsafmæli.


Einkamal.is - framhald

Var beðin um að birta afar kvenfjandsamlegan lista yfir blekkingar kvenna sem stunda veiðar á einkamal.is. Til að jafna leikinn gerðist ég líka karlfjandsamleg. Góða veiði ...

Konur sem auglýsa eftir mönnum

einkamal.is 1Mjúk: Akfeit.

Stór: Mjög, mjög feit.

Ljóshærð: Með litað hár.

Rauðhærð: Notar Henna sjampó.

Há og grönn: Þjáist af lystarstoli.

Glæsileg: Hrokafull snobbhæna.

Listunnandi: Brjáluð snobbhæna.

Hefur góðan húmor: Kjaftaskur.

Rómantísk: Aðeins fögur við kertaljós.

Rúmlega þrítug: 39 ára.

Rúmlega fertug: 49 ára.

Opin: Yfirþyrmandi, á enga vini.

Falleg: Í afneitun.

Ber aldurinn vel: Um sjötugt.

Hlýleg: Eigingjörn, kaffærir menn í ást.

Hagsýn: Ógeðslega nísk.

Umhyggjusöm: Móðurleg ... „vertu með trefil elskan!“.

Sjálfstæð: Einfari.

Vill engin höft: Er stelsjúk með vott af íkveikjuæði.

Dýravinur: Klikkuð kerling sem safnar köttum.

Jarðbundin: Hundleiðinleg.

Börn ekki fyrirstaða: Er á nippinu með að fara í sæðisbanka.

Andlega sinnuð: Er í sértrúarsöfnuði.

Nýaldarsinnuð: Snarbiluð.

Einlæg: Algjör lygalaupur.

Þroskuð: Hrukkótt skrukka.

Ungleg: Þegar þú horfir á hana í gegnum dökk sólgleraugu.

Leið húsmóðir: Vill að maðurinn hennar fái að horfa á.

Er á milli sambanda: Búin að gera hina gæjana gjaldþrota, leitar að fyrirvinnu.

Leitar að föstu sambandi: Pantaðu prestinn strax!

 

Karlar sem auglýsa eftir konum

einkamal.is 2Hress: Vill gera það fyrir framan sjónvarpið yfir fótboltanum.

Fagmaður: Hreykinn eigandi Wolksvagen bjöllu. Gyrðir skyrtuna ofan í nærbuxurnar.

Efnaður: Ég á nóg til að bjóða þér í glas ... en þú verður að endurgjalda það.

Rómantískur: Les kvennablöð og segir við þig hluti sem hann heldur að þú viljir heyra.

Vel gefinn: Segir stað konunnar vera á heimilinu.

Myndarlegur: Monthani

Aðlaðandi: Eyðir löngum stundum á baðherberginu við snyrtingu. Notar rakspíra í óhófi.

Vel á sig kominn: Ekki búast við meiru en sjortara frá honum því hann er alltaf á leið í ræktina.

Frambærilegur: Þolanlegur við kertaljós.

Ævintýramaður: Finnst í lagi að sofa hjá vinkonu þinni líka.

Leitar að hlýjum, vitsmunalegum félagsskap: Vill eftirmiðdagskynlíf án nokkurra skuldbindinga.

Þroskaður: Í útliti, en er þriggja ára inn við beinið.

Samræðugóður: Hefur engar skoðanir.

Heiðarlegur: Algjör lygari.

Virðulegur: Gráhærður, líklega samt sköllóttur.

Ljóðrænn: Semur rímur sem hann sendir konum sem hann er skotinn í.

Hugsunarsamur: Muldrar TAKK þegar þú tekur illa þefjandi sokka af honum upp úr gólfinu og setur í óhreina tauið.

Víðsýnn: Gengur í kloflausum nærbuxum. Spenntur fyrir sadó/masó.

Vill samband án skuldbindinga: Kvæntur.

Blíður: Óöruggur og ósjálfstæður og leitar að staðgengli móður sinnar.

Bangsalegur: Feitur, sköllóttur og loðinn á skrokkinn.

Aldur skiptir ekki máli: Örvæntingarfullur, eltist við allt sem gengur í pilsi.

Óheftur: Brjálaður flagari.

Vill yngri konur: Saurlífisseggur.

Ungur í anda: Að verða sjötugur.

Bisnessmaður: Er með bás í Kolaportinu um helgar.

Svolítið þybbinn: Ógeðslega feitur.

Rekur eigið fyrirtæki: Atvinnulaus.

Menntaður: Með barnaskólapróf.

Fjármálaráðgjafi: Varhugaverður tryggingasali.

Grannur: Horaður, vannærður aumingi með innfallna bringu.

Snyrtilegur: Er ekki kominn út úr skápnum.


Litrík fortíð ...

MennnnnnNú mun ég aldrei þora að skrá mig á stefnumótavefinn einkamal.is aftur (já, ég á mér litríka fortíð). Segjum svo að ég hætti við frelsaða manninn í KFUM og ákveði að freista gæfunnar á Netinu. Þá get ég nú átt von á ýmsu. Fékk þetta sent í morgun til viðvörunar:

Menn á einkamal.is  
Rúmlega fertugur: 52 ára og leitar að 25 ára gellu.
Íþróttamannslegur: Horfir mikið á akstursíþróttir.
Frjálslyndur: Myndi sofa hjá systur þinni.
Myndarlegur: Hrokafullur.
Mjög myndarlegur: Heimskur.
Heiðarlegur: Sjúklegur lygari.
Kelinn: Óöruggur mömmustrákur.
Þroskaður: Eldri en pabbi þinn.
Mjög tilfinningaríkur: Hommi.
Andlegur: Gerði það einu sinni í kirkjugarði.
Tillitssamur: Afsakar sig þegar hann rekur við.

Litríka fortíðin - fréttaskýring
Fyrir nokkrum árum lét ég eitthvað hæðnislegt út úr mér um fólk sem fer á „svona stefnumótavefi“ eins og einkamal.is. Var skömmuð fyrir hroka og ráðlagt að prófa þetta áður en ég dæmdi. Ég tók vinkonu mína á orðinu og hún hjálpaði mér að skrá mig á Vinátta/Spjall. Ekki átti ég von á því að fá mörg bréf en fyrsta daginn kom heill hellingur. Ungir strákar, jafnaldrar erfðaprinsins, sendu mér beiðni um kynlíf með „eldri konu“, sadómasókistar lýstu í smáatriðum hvað væri áhugavert að gera með mér og ungir hermenn á Vellinum buðu mér gull og græna skóga fyrir að „taka“ svona tíu í einu. Það komu líka bréf frá ágætlega heilbrigðum mönnum ... reyndar flestum kvæntum í leit að tilbreytingu ... Ég spurði einn þeirra hvort honum fyndist ekki vera trúnaðarbrestur að skrifast á við aðrar konur á Netinu. Hann hélt nú ekki en móðgaðist greinilega og hætti að senda mér bréf. Æ, æ.
Eftir að hafa bitið á jaxlinn um tíma gafst ég upp og skráði mig út. Hugsa að margir karlarnir á einkamal.is hafi velt fyrir sér hvað varð um „Hot sexy-lips“ ... DJÓK!!!! Man ekki einu sinni hvaða dulnefni ég valdi mér. Þarna lauk æsku minni og sakleysi endanlega. Já, ég veit ... er ekki töffari, gat ekki einu sinni hlegið að þessu, fylltist bara hryllingi yfir sumum bréfunum. Núna fyrst finnst mér þetta að verða fyndið og tel mig vera nokkuð lífsreyndari.
Frétti seinna af konum sem stunda einkamal.is til þess að kvelja kvænta menn sem eru í leit að alvörutilbreytingu. Þær þykjast vera til í tuskið og samþykkja stefnumót. Þegar hann síðan mætir á staðinn hittir hann fyrir nokkrar illskeyttar konur sem skamma hann og segja honum að hunskast heim til konunnar og barnanna. Skyldi þetta vera satt?

Í stað þess að grúfa mig ofan í Potter í gærkvöldi horfði ég á myndina Ghost Rider og hafði gaman af. Hver nýtur þess ekki að horfa á Nicholas Cage sem logandi sendiboða skrattans en góðmenni inn við beinið? Mun segja strætóbílstjóranum undan og ofan af söguþræði GR til að hann fyrirgefi mér Potter-svikin. Nú verður unnið heima í dag, eins og iðulega á þriðjudögum, enda næg verkefnin. Er gapandi hissa ... Brooke og Eric hafa greinilega gift sig, Stefaníu til hrellingar. Þau hefja brúðkaupsnæturkeliríið þrátt fyrir að Stefanía sé á staðnum til að vara fyrrum eiginmann sinn við kvendinu. Eric hefur verið kvæntur Brooke áður og veit ... Samt er Stefanía búin að ryðja brautina fyrir Brooke og Nick með því að segja hinni óléttu Bridget, dóttur Brooke að Nick sé skotnari í mömmu hennar. Tókst ekki að njósna meira um nágranna mína í næsta stigagangi.


Týnd Esja, hlátur í jarðarför og marktækur draumur ...

EsjanÞað kemur stundum fyrir að farþegar segi þegar komið er alla leið á Skagann: „Where is Eisja?“ Tveir erlendir farþegar fengu aukabíltúr í dag með þessum hætti. Þeir græddu heilmikið á því og gátu litið augum dásemdir Akraness í einhverjar mínútur. Bílstjórinn var splunkunýr og kíkti á kort á milli þess sem hann hleypti fólki út á Skaganum. Þegar hann spurði mig til vegar bauðst ég til þess að fara með honum á endastöð og svo gæti hann hent mér út á leið út úr bænum korteri seinna. Hann þáði þetta með þökkum og þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að nokkrir Skagamenn aka ekki eilífan rúnt í einhverju svartholi á þessarri stundu með rammvilltum bílstjóra. Keypti kaffi í Skrúðgarðinum og tók með heim til að fá eitthvað fyrir minn snúð. Ekki amalegt.
Sit nú og skrifa verulega djúsí lífsreynslusögu sem gömul samstarfskona sagði mér. Hún er um mann sem lenti í klónum á sértrúarsöfnuði og hvarf úr lífi fjölskyldu sinnar.

Afmælisbarn í sumarbúðunumHeyrði í Hildu systur áðan og var mjög gott hljóðið í henni, mikið fjör í sumarbúðunum. Nú eru krakkarnir að undirbúa lokakvöldvökuna og sýna afrakstur námskeiðanna sem þau voru á sl. viku. Svo fara þau heim á morgun. Börnin sem koma í Ævintýraland á miðvikudaginn fá óvæntan glaðning. Guðbjörg úr X-Factor ætlar að kíkja í heimsókn og syngja fyrir þau. Nýja heimasíðan er miklu flottari og auðveldara að skoða myndirnar en áður. www.sumarbudir.is

 

Í dag eru sex ár síðan pabbi dó. Hann fór mjög óvænt og þetta var mikið áfall. Við systkinin ákváðum að hafa jarðarförina í hans stíl, ef hægt er að orða það svo, og  ... það var hlegið nokkrum sinnum. Aldrei verið við slíka jarðarför. Sr. Bjarni Karlsson jarðsöng og sagði nokkrar góðar sögur af pabba sem olli hlátrinum. Ein sú besta var þegar pabbi lenti í bílslysi og var fluttur allur krambúleraður með sjúkrabíl upp á spítala. Þetta var á þeim tíma þegar ekki mátti bjarga lífi fólks nema búið væri að taka skýrslu af því, sumir lifðu það víst ekki af. Pabbi þurfti að svara nokkrum spurningum á meðan læknirinn beið, m.a. nafni, heimilisfangi og kennitölu.
„Ertu giftur?“ spurði hjúkkan að síðustu. „Nei,“ svaraði pabbi, „ég slasaðist svona í umferðarslysi!“

PabbiÞegar þessi saga var sögð í kirkjunni var mikið hlegið en það var frekar skondið þegar gamall skólafélagi hans var við það að skella upp úr aftur þegar allir voru hættir að hlæja og tróð einhverju upp í sig til að verða sér ekki til skammar.

Í byrjun árs 2001 dreymdi mig að ég hefði misst fjórar tennur. Vinkona mín réði drauminn og sagði að þetta gæti táknar fjögur dauðsföll ... Fyrsta dauðsfallið var viku seinna og það fjórða og síðasta rétt fyrir jólin þetta ár. Segið svo að það sé ekkert að marka drauma!


Hvernig Valsararnir fóru með Skagastelpuna ...

Gaui Þórðar snillingurVið sigruðum! ÍA-Valur ... 2-1. Ætla ekki að reka upp siguröskur því að þá hættir Magga vinkona að tala við mig. Ég ber líka alltaf frekar hlýjar tilfinningar til Valsmanna (og er hrædd við Möggu) síðan ég spilaði handbolta með Val þegar ég var nýflutt í bæinn. Bjó á Bollagötunni og fannst voða gaman að kanna umhverfið fyrstu mánuðina.

Í einni rannsóknarferðinni fann ég Valssvæðið og ungur maður, væntanlega þjálfari hjá Val, bauð mér að vera með í handbolta. Liðið samanstóð af stelpnaklíku úr Hlíðaskóla, minnir mig, og það var ekki vegur fyrir 13 ára stelpu í Austurbæjarskóla að komast inn þannig að ég hætti fljótlega að mæta. Mér fannst ekki nóg að vera umborin. Ég hafði aldrei æft handbolta og var því látin spreyta mig í markinu. Þrátt fyrir nokkra nærsýni reyndist ég vera dúndurgóður markvörður og snögg að sjá hvaðan boltinn kom. Í úrslitaleik þar sem við kepptum um kókkassa var ég í markinu í fyrri hálfleik og fékk ekkert mark á mig. Af hálfvitaskap skipti þjálfarinn um markmann og sú stelpa var ekki jafnæðislega dásamlega fær og ég ... hitt liðið fékk kókkassann, ég átti ekki krónu og fór dauðþyrst heim. Þarna lauk farsælum handboltaferli mínum.

Jú annars, það var eiginlega bara gott, eiginlega bara alveg frábært að Valur tapaði í kvöld.


Enn meira gaman

Svaf í húsi tónlistarskólans í nótt, á hornsófa þar sem spýta skarst upp í bakið á mér ... svaf samt eins og engill. Fannst ég svo örugg þar sem slökkviliðið er á neðri hæðinni.

Nú eru litlu krúttmolarnir að borða hrísgrjónagraut en í kvöld verður steiktur fiskur. Gaman hvað fiskur er vinsæll hjá flestum börnum. Ég þoldi ekki fisk þegar ég var yngri, fékk líklega óverdós af viðurstyggilegum fiski, gellum, nætursöltuðum fiski, reyktri ýsu, hrognum og lifur, saltfiski, skötu, laxi með beinum, síld með enn fleiri beinum ... pyntingaraðferðirnar voru óteljandi.

Davíð er að setja inn myndir núna og þá verður hægt að kíkja á dýrlegheitin.
Nú eru börnin að fara á námskeið fram að kaffi; leiklist, myndlist, grímugerð, kvikmyndagerð og fleira. Kvikmyndagerðin er vinsælust, enda fá þau að gera handrit, velja búninga og leika sjálf í 5 mínútna bíómynd sem verður sýnd á kvöldvökunni síðasta kvöldið. Ég hef einu sinni fengið pínku oggu örhlutverk í einni mynd en Hilda hefur verið heppnari, hún hefur verið myrt í bíómyndum hér, henni hefur verið rænt, hún hefur verið draugur ... og svo framvegis. Aldrei of illa farið með góðan sumarbúðastjóra ...


Hálfgert letilíf og heilmiklar tölvuspælingar

Málað í fríinuVoða letilíf er þetta í sumarfríinu. Sumir í mínum sporum væru búnir að mála baðið, taka skápana, helluleggja garðinn, ganga upp á Akrafjall, bera á sig brúnkukrem, koma upp kryddjurtagarði, læra að elda nýstárlegan mat, skrifa eina smásögu og kynna sér nýjustu strauma í tísku og tónlist.

Sat reyndar við tölvuna í gær fram á nótt og skrifaði langt viðtal ... sumarfríið lengist bara í hina áttina í staðinn. Mjög djúsí, eiginlega stórmerkilegt viðtal við algjöra hetju sem lenti í skelfilegum hlutum í æsku. Kemur í Vikunni á fimmtudaginn í næstu viku.  
Annars er mjög spennandi viðtal í nýjustu Vikunni við Ungfrú Ísland um það sem gerðist á bak við tjöldin í keppninni. Ekki var það allt fallegt.

Veit einhver tölvuvitur bloggvinur hvað er í gangi þegar tölvan fer í hægagang, næstum frýs og allar aðgerðir taka fáránlega langan tíma? Ég hef hingað til getað endurræst hana og þá verður hún hraðari. Ætli sé vírus í gangi? Kann ágætlega á word, tölvupóstinn og bloggið og það hefur nægt mér. Dánlóda aldrei neinu nema þá myndum úr google til að myndskreyta færslur, kann ekki einu sinni að stela músik og myndum ef ég hefði áhuga á því.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 31
  • Sl. sólarhring: 426
  • Sl. viku: 1910
  • Frá upphafi: 1454784

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1554
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband