Færsluflokkur: Spil og leikir

Besta eða versta jólagjöfin?

StöðumælirSit hér og vinn, hálfmáttlaus eftir allar játningarnar í gær. Þetta var samt bara rétt byrjunin ... Bæjarstjórnin hringdi og tjáði mér að það væru engir stöðumælar á Akranesi og þess vegna gæti dóttir mín ekki verið stöðumælavörður hér. Þetta er svo rangt. Árangur hennar í starfi hefur verið mikill, einmitt í ljósi þess að hér eru engir stöðumælar.

JólagjafirÉg er að vinna grein og gæti þurft hjálp ykkar við hana. Hver er versta jólagjöfin sem þú gætir hugsanlega fengið, en sú besta? Stjörnumerkið þarf að fylgja með líka. Þetta er bara til gamans gert ... en samt í fullri alvöru. Hjálp, einhver? Þar sem ég er heima get ég ekki hlaupið á milli samstarfsmanna minna. Prófaði að spyrja erfðaprinsinn, Hrútinn huggulega, hver væri mögulega versta gjöfin sem hann gæti fengið. Hann svaraði án umhugsunar: Lúffur.

LúffurÞetta á sér vissulega sögu. Þegar hann var lítill varð hann fyrir vonbrigðum með jólagjafirnar sínar ein jólin. Væntingarnar voru svo miklar ... og svo fékk hann bara bók frá ömmu og afa, nærföt frá einhverjum, ljóta peysu, ... og alls kyns svona mjúka pakka. Sem ábyrgur uppalandi sagði ég þegar við komum heim að enginn væri skyldugur til að gefa honum jólagjafir, við gætum bara skilað þeim. Hann var orðinn ánægðari með gjafirnar þá og sagði að þess þyrfti ekki. Ég talaði um þetta við vinkonu mína sagði mér að ungur frændi hennar hafi bara fengið lúffur í jólagjöf, í alvöru, næstum bara lúffur leyndust pökkum hans. Stráksi brosti við hverja gjöf og sagði glaður: „Vá, lúffur, en æðislegt,“ mörgum sinnum þetta aðfangadagskvöld. Ég sagði erfðaprinsinum þetta og síðan hefur þetta verið ættarbrandari. Hann fékk lúffur tveimur árum seinna, brosti blítt og sagði: „Vá, lúffur, en æðislegt!“ og meinti það en við hlógum samt eins og vitleysingar.  


Bara sooooo gaman

Takk fyrir kveðjurnar, hjartagullin mín, þetta gekk bara ljómandi vel, og frábært að Skagaliðið sigraði. Það var heilmikil pressa á okkur, frétti rétt fyrir þáttinn að Skessuhorn hefði sagt að við værum síðasta von Vesturlands! Dramatíkin að fara með þá ... Mér fannst eiginlega best þegar ljóshærða fegurðardrottningin í Skagaliðinu var með á hreinu hvað eitthvað hérað í Indlandi hét. Hún horfði svellköld á Hafnfirðingana og sagði GÓA! Þau voru annars alveg frábær í hinu liðinu, gaman ef þau hefðu komist áfram líka. Bjarni Ármanns er einstaklega hress og skemmtilegur og ég er fegin að hann píndi mig til að taka Oliver Twist-flokkinn. Var aðeins of fljótfær í síðustu spurningunni þar.

Nú er víst "fárviðri" á Kjalarnesi og ég sit í Galtalindinni í Kópavogi, gisti hjá Hildu í nótt og Inga ætlar að skutla mér í fyrramálið á Skagann, eldsnemma. Útvarpsþátturinn hefst kl. 11 í Skrúðgarðinum og ég á eftir að finna tónlist og fleira, gera það sem ég hefði gert heima í kvöld ef ... Hviðurnar eru reyndar ekki nema 33 m/sek, næstum strætófært en Inga er þreytt og mér líst líka vel á fyrramálið.


Annir pannir og flóðaspenna

Heimir Schumacher kom okkur örugglega í bæinn í morgun. Við Sigþóra þrýstum okkur hvor að annarri, önnur var ástríðuþrungin, hinni var ískalt. Til að viðhalda spennunni segi ég ekki hvor var hvor nema ég bendi á til að auðvelda að Sigþóra á hlýrri úlpu.  

FlóðMikið vildi ég að ég gæti verið heima núna að horfa á Sky News - þótt ég elski vinnuna mína! Var ég nokkuð búin að minnast á í bloggheimum að ég væri mikið fyrir náttúruhamfarir? (þá á ég við svona algjör flottheit og enginn deyr) Það er frekar ógnvekjandi að eiga von á þriggja metra hárri flóðbylgju á hverri stundu.

Jæja, vitlaust að gera, blaðið fer í prentsmiðju í dag og ritstýran mín hefur verið veik. Slíkt ætti að banna. Fékk reyndar að draga í krossgátunni og veit að tvær konur  með póstnúmerin 350 Grundarfjörður og 108 Reykjavík verða ósköp glaðar þegar þær fá senda bók. Í næstu Viku og kannski fleirum verður nýja matreiðslubókin úr smiðju Gestgjafans í krossgátuverðlaun. Endilega takið þátt, mamma segir að þessar gátur séu ógisssslega léttar en það segir hún svo sem líka um gátuna í Sunnudagsmogganum! Þegar mamma byrjar að tala um þá gátu dett ég alltaf út og fer að slefa ...


Skagasápan (3:3) Leiksoppur örlaganna

BlómaskreytinginDyrabjallan hringir í himnaríki. „Ekki opna, þetta gæti verið brúðkaupsdjöfull!!!“ öskrar Anna en það er of seint, allt of seint, búið er að ýta á takkann. Þrír blómasendlar feta sig varlega upp stigann og halda á stórri blómaskreytingu þar sem uppistaðan er rauðar rósir. Hvítar, afar sjaldgæfar fjólur sjást inn á milli, ásamt grænum túlípönum. Á korti sem fylgir með stendur: Veistu hvað þú ert að gera? Hugsaðu þig betur um. Þínir einlægir, 14 sætir sveinar.
Þetta er neyðarblómaskreyting sem 14 strætóbílstjórum datt í örvæntingu sinni í hug að senda Gurrí svo að hún giftist nú ekki einhverjum karli á jeppa sem gæti látið sér detta í hug að leyfa frúnni að vera samferða sér í bæinn á jeppanum.

Tískutrend frá AkranesiÁ sama tíma í sundlauginni: Laufey sundlaugarstarfskona horfir áfergjulega á Þröst. Aldrei hefði hana grunað að nokkur karlmaður gæti værið svona sætur í sundbol. Hún ætti kannski að prófa að fara í sund svona einu sinni. Þetta er greinilega að verða nýtt trend því að nokkrir menn á sundskýlum hafa komið hlaupandi inn í afgreiðslu til hennar og fá að skipta á skýlu og bol. Enn eitt tískufordæmið hefur verið sett á Skaganum.

Á sama tíma á Akureyri: Anno býr sig undir að stíga upp í þyrlu sína þegar Magnús Geir hringir og segir spámannslega: „Það verður ekkert brúðkaup haldið í himnaríki í dag.“ Anno hlær, „Við sjáum nú til með það!“ og setur þyrluna í gang.

Strætisvagnar við GarðabrautÞröstur hefur hugsað nóg og drífur sig upp úr. Það bjargar lífi hans og líka það að hann æðir óvart inn í kvennabúningsklefann og fer þannig naumlega á mis við Má sem er á leiðinni að drekkja honum. Hann ekur áleiðis til himnaríkis þótt það sé í göngufæri. Á Garðabraut, rétt við Höfðabraut er umferðaröngþveiti, fjórtan strætisvögnum hefur verið lagt þannig að enginn kemst nálægt himnaríki nema fuglinn fljúgandi. Þröstur flýgur síðustu metrana. Guðmundur er búinn að aftengja dyrabjölluna en Þröstur deyr ekki ráðalaus. Fyrst Jónatan mávur kemst á svalirnar, kemst hann líka. Hann er laus við stirðleika eftir langa setu í heita pottinum og kemst upp efstu á svalirnar á undraverðum hraða. Hann kastar kuldalega kveðju á Jónatan og gengur inn í stofuna. Þar finnur hann Gurrí fyrir aleina. Allir bloggvinirnir eru frammi í eldhúsi að reyna að troða blómaskreytingunni frá 14 sætum sveinum í pínulítinn blómavasa.   

Vináttuhringurinn„Það verða greinilega 16 manneskjur í þessu hjónabandi, er það ekki fjórtán of mikið? spyr hann greindarlega og hugsar bílstjórunum þegjandi þörfina. „Í rauninni 17 aðilar, þar sem ég veit að þú elskar Stöð 2 plús meira en nokkuð annað,“ heldur hann áfram, „ja, eiginlega 18 með SkjáEinum plús og 19 með RÚV plús. Þú sérð að þetta gengur ekki. Við skulum bara vera vinir. Hér færðu vináttuhring frá mér.“

Þröstur þurrkar tár af hvarmi, þetta er örugglega meiri fórn en nokkur maður hefur nokkru sinni þurft að færa í skvísumálum og það er ekki verið að tala um verðgildi hringsins. „Fæ ég samt ekki afnot af Jónasi annan hvern dag,“ spyr hann glettnislega.

----    -----    -----    -----    -----
Bobby í himnaríkiVekjaraklukkan hringir. Gurrí hrekkur upp og hleypur fram í stofu. Enginn Þröstur, engin blómaskreyting. Hvað varð um bloggvinina? Flytur Katrín ekki örugglega samt heim til Íslands? Á Anno þyrlu í alvörunni?

Hún heyrir að einhver er í sturtu, skrýtið, það er bara baðker í himnaríki. Hún veit hver þetta er en má ekkert vera að því að sápa hann. Hún þarf að búa til latte handa Ástu sem kemur rétt fyrir sjö og sækir hana.

Vinnan bíður í bænum með öllum sínum ævintýrum í matsalnum.  


Skagasápan (2:3)

HBÞÞÞGísli bæjarstjóri hefur þungar áhyggjur. Fyrirhuguð stærsta sameining í sögu bæjarins er við það að klúðrast. Á bæjarstjórnarfundum hefur giftingin verið rædd í þaula og hagsmunir margra í húfi. Sameining Skagasápunnar og himnaríkis ef. gæti verið það stærsta síðan HB&Co sameinaðist ÞÞÞ.
„Hvers vegna getur Þröstur ekki verið tengdasonur minn?“ segir Gurrí dapurlega við Hörpu þar sem þær sitja og horfa á Sementsverksmiðjuna. Gurrí blaðar annars hugar í Harry Potter-bókinni og hrærir í vöffludeigi í leiðinni. „Það hefði gert ástríðurnar svo miklu meiri! En ... engin dóttir ... enginn tengdasonur!“

Ógnvænlegir atburðir á SkaganumÁ sama tíma í sundlauginni: Dulbúinn maður með sólgleraugu gefur sig á tal við Þröst þar sem þeir sitja í heita pottinum. „Þú veist, er það ekki, að þú þarft að elda?“ Þröstur brosir að þessum brandara. Allir vita að konum líður best við eldavélina og gefa þann stað ekki svo glatt eftir. „Eitthvað fleira?“ spyr hann töffaralega. „Og ryksuga líka ...“ bætir maðurinn við. Þröstur rífur sólgleraugun af manninum. Í ljós kemur að þetta er Már, einn af fyrri eiginmönnum himnaríkis. „Bíddu karlinn, ég veit ekki betur en að þið Gurrí hafið aldrei hist, heldur ekki allan þann tíma sem þið voruð gift, svo er ryksuguróbót í himnaríki, kjánaprik,“ segir Þröstur sárreiður. Már segir spekingslega: „Ég veit mínu viti vel/ virðist Gurrí góð/ bíddu þar til hún veiðir sel/ og verður við það rjóð!“ Már lætur sig hverfa. Eftir situr Þröstur í sjokki. Þetta hafði honum ekki dottið í hug. Ekki hvarflar að honum að eitthvað sé gruggugt við það hversu margir reyna að koma í veg fyrir brúðkaupið.

Á sama tíma í Englandi: Katrín hringir nokkur mikilvæg símtöl, m.a. í íslensku lögregluna, Orkuveituna, Egil Helgason og forstjóra Sementsverksmiðjunnar. Hún brosir kvikindislega og veit að ekkert verður af brúðkaupinu kl. fjögur í dag. Hún áttar sig ekki á því að sími hennar er dauður eftir heimsókn "símamanns" og ógnin vofir enn yfir vinkonu hennar í himnaríki.


Skagasápan - fyrsti hluti

Hjónalíf ...Brúðkaup stendur fyrir dyrum á Akranesi. Himnaríki er undirlagt af bloggvinum. Gurrí veit innst inni að hún tekur mikla áhættu með því að giftast Þresti þar sem hún hafði áður verið gift manni með fuglsnafn (Má Högnasyni) og einnig átt í eldheitu en slítandi sambandi við Jónatan máv. Það vekur henni örlítinn ugg að hún hefur aldrei hitt Þröst en hún setur það þó ekki alvarlega fyrir sig. Hugurinn reikar. Drekkur hann bara te, hvernig kreistir hann tannkremstúpuna, er hann kannski morgunhani um helgar, heldur hann ekki örugglega með West Ham, hrýtur hann hátt?

Saumakonan kemur hlaupandi með brúðarkjólinn sem hún hafði prjónað í snarhasti eftir að Jónas í afbrýðikasti hafði étið þann handsaumaða sem Jenný hafði fyrir rest lagt blessun sína yfir. Mátunarhjálparliðið býr sig undir að troða. Skyndilega kemst allt í uppnám þegar Brooke kemur æðandi með slúðurblaðið Skessuhorn og sýnir viðstöddum. Þar má finna paparazzi-myndir af því þegar Guðmundur borðaði nýlega með tilvonandi brúði í Galito. Þar má líka lesa að Keli svaramaður er flúinn til Danmerkur. Jóna hnígur niður í sófann og heimtar kaffi. SkagasápanErfðaprinsinn er undarlega þögull og horfir stjarfur á Steingerði. Getur verið að Guðný Anna hafi verið með puttana í þessu? Doddi blikkar Eddu laumulega og þau hverfa út á suðursvalirnar og loka á eftir sér. Krossgata er komin með sunnudagsmoggann í hendurnar og hefur misst áhugann á öllu öðru. Halldór lánar henni penna.

Á sama tíma í Englandi: Katrín tekur þá ákvörðun að flytja heim til Íslands í hvelli.

Á sama tíma í Ameríku: Bertha hefur áhyggjur af þessu öllu saman en ætlar ekki að flytja til Íslands. Það hefur þau áhrif að Kristín ákveður að vera um kyrrt í Kanada.

Jeppi á GarðabrautÁ sama tíma í rauðum jeppa á miðri Garðabrautinni: Þröstur situr þögull með Skessuhorn í sætinu við hlið sér. Hann bærist ekki þótt Tommi strætóbílstjóri flauti stöðugt en hann þarf að halda áætlun.
Í aftursæti rauða jeppans er stór ferðataska full af fimmþúsundköllum, fyrsta greiðsla frá erfðaprinsinum. Næsta afborgun, helmingi stærri, mun berast á eins árs brúðkaupsafmælinu. Á hann að afplána þetta ár til að fá næstu greiðslu eða á hann að fara á eftir Kela til að fá einhver svör? Hvað með séra Eðvarð, hefur hann kirkjukórinn alveg í vasanum? Þröstur hrukkar gáfulegt ennið og ákveður að skella sér í sund til að geta hugsað enn meira. Hann er svo þungt hugsi að hann leigir óvart bleikan sundbol og gult handklæði ... framhald síðar ...


Mótokross á Langasandi, bold og margt fleira

Mótokross á LangasandiNú er komin útskýring á fánunum á hlaðinu. Á sandinum stendur yfir mótokross! Dásamlegar drunur fylla himnaríki, þýðandi og þulur með gjallarhorn eykur enn frekar á stemmninguna. Vildi að fólkið hefði fengið betra veður. Enginn gluggi snýr í vestur en frá suðurglugganum sé ég yfir sandinn og í austur yfir íþróttavöllinn. Í norðurátt sést svo yfir húsþök sem getur verið spennandi, eða væri það ef sótarastéttin væri ekki útdauð. Held að þessi íbúð sé sérsniðin fyrir mig.

Þegar við erfðaprins skutumst út um hádegisbil var Tommi á biluðum strætó á Garðabraut, stoppistöðinni minni, kúplingin farin. Ekki nema korter í næstu ferð til Reykjavíkur. Fannst frábært að vera fyrst með þessar fréttir á Skrúðgarðinum þar sem nokkur fjöldi fólks beið eftir strætó í bæinn. Það varð ekki mikil seinkun og Tommi fékk Séðogheyrtið mitt til að lesa á leiðinni ... ja, eða í síestunni, sem er líklegra. Margir spurðu eftir súpu í Skrúðgarðinum en á laugardögum verður fólk að sætta sig við kaffi og brauð eða kökur, okkur tókst það léttilega!

Við skruppum í Eymundson og prófuðum kaffið þar á litlu og sætu kaffihúsi. Ung og falleg kona sem vinnur á símadeildinni kom til okkar og spurði mig hvort erfðaprinsinn væri fæddur í kringum miðjan apríl 1980. Jú, það var rétt. Þá lá þessi kona með mér á fæðingardeildinni á Skaganum fyrir 27 árum og sonur hennar er degi yngri en erfðaprinsinn. Hún er að verða tvöföld amma af hans völdum og ég horfði ásakandi á son minn. Mér fannst margar ungar stúlkur líta son minn hýru auga í dag, kannski þarf ég ekki að bíða allt of lengi. Ég lofa að verða góð tengdamamma og einstök amma, pant fá að passa oft!

MótokrossNú eru jólin búin og stutt í gamlárskvöld. Brooke er að tala við geðþekka geðlækninn, Taylor, um ást sína og tengdasonarins Nicks, ástina sem var svo powerful. Á meðan spjalla mæðgurnar, Stefanía og Felicia, saman og ná að tengjast vel.
„Styrkur Nicks og ást, snart mig meira en nokkur líkamleg ást,“ heldur Brooke áfram. Verst að Taylor er komin með leið á Ridge, annars myndi henni létta við að vera laus við Brooke sem keppinaut um Ridge. Slökkviliðsmaðurinn Hector reynir enn við Taylor en hún ætlar að reyna að láta hjónabandið ganga. Nick og Bridget skoða barnaherbergisinnréttingar ... fyrir Dominic litla, þau ætla greinilega að taka hann að sér þar sem Felicia á ekki langt eftir. Úps, nú prílar Bridget upp á stól ... og ... DETTUR. Nick kemur hlaupandi, Bridget fer á sjúkrahús og beint í aðgerð. Æ, dúllan. Mögnuð gjafaveisla (Baby Shower) er fyrirhuguð fyrir Bridget og Nick, Jackie og Massimo, fyrrum hjón og foreldrar Nicks, hlakka mikið til að fá barnabarnið í heiminn. Ef þau bara vissu ... Læknirinn segir reyndar: Það verður allt í lagi með barnið. Í sónarnum heyrist enginn hjartsláttur.
Í þætti á SkjáEinum var Baby Shower þýtt sem barnasturta þótt það væri gjörsamlega út úr kú miðað við samtalið sem þar átti sér stað.

P.s. Sjúkrabíll var niðri á sandi áðan, vona að viðkomandi hafi ekki slasast mikið.

P.s. Valur var að skora mark, til hamingju!  


Það er byrjað ...

Flags of our FathersGemsinn hringdi inni í stofu rétt fyrir 10 í morgun. Ég svaf svefni hinna óraunsæu sem halda að hægt sé að vakna útsofinn um þetta leyti þrátt fyrir að hafa hunskast seint í rúmið. Erfðaprinsinn kom hlaupandi með símann. Eftir símtalið:

„Hver var þetta?“

„Þetta var húsfélagsformaðurinn, hann kemur eftir svona hálftíma!“

„Hvað vill hann?“ Tortryggnin vöknuð, enda er Níels ekkert óhuggulegur maður.

„Hann þarf að kíkja á svalirnar og stunda kynmök með móður þinni.“

„Jæja!“

(Eins og sést t.v. á myndinni hefur nokkrum fyrirtækjum á Akranesi dottið það snjallræði í hug að auglýsa inni á blogginu hjá mér. Nú sést ýmist Olís eða Tengi eða önnur stórkostleg fyrirtæki þegar ég tek mynd yfir hafið og skelli á bloggið mitt. Mikið ofboðslega er ég hreykin að hafa verið valin. Nema ég hafi misskilið eitthvað og það eigi að taka bíómynd, t.d. Flags of our Mothers. hér á hlaðinu.) 


Tveir kettir og einn stríðinn mávur

Hvítir mávarSlapp heim fyrir lokun Einarsbúðar og gat pantað nauðsynjar á borð við mjólk. Latte er hinn nýi drykkur himnaríkis og bragðast ansi vel. Kaffirjómi heyrir sögunni til þangað til ég fer næst í fitun. Einnig frétti ég nýlega að Einarsbúðarhangikjötið (álegg) væri svo guðdómlegt að fólk kæmi utan af landi til að kaupa það sem álegg í flatkökuveislur. Keypti að sjálfsögðu eitt bréf og líka flatkökur.

Kettirnir komust í hann krappan, eða hefðu gert ef svalaglugginn hefði verið opinn. Risastór mávur sat á svalahandriðinu og sendi þeim ósvífið augnaráð, naut þess að hafa öruggt gler á milli sín og þeirra.  

Aðrar nauðsynjar á borð við boldið voru einnig teknar inn og þar er að verða heitt í kolunum, a.m.k. hjá sumum. Í ljós kom að Eric stefnir ekki að því að hætta með Brooke, heldur ætlar neyða hana til að gleyma Nick, tengdasyni þeirra. Eric rifjar þó upp góðar stundir með Stefaníu, fv. konu sinni, en akkúrat á sama tíma eru Nick og Brooke að rifja upp trylltar ástríður sínar. Nick ætlar þó staðfastur að fórna sér og verða fjölskyldumaður með Bridget, verst að hún vill það ekki, enda komu skilnaðarpappírarnir í morgun. Eric bíður eftir nýlegri brúði sinni, Brooke, (sem ætlar að segja honum upp) með kampavín og rómantískan glampa í augum og neitar að hlusta á það sem hún segist þurfa að segja honum. Hann ætlar að sofa hjá henni í nótt. Nick ræðst inn á Bridget og Stefaníu og segir þeim að hjónabandi Erics og Brooke ljúki í kvöld en samt elski hann bara Bridget og barnið og þrái heitast að vera með henni. „Þú ert ástin mín,“ segir Nick við Bridget. „Treystu mér, verum fjölskylda!“ „Skrifaðu undir, Bridget,“ segir Stefanía. Tjaldið fellur.


Af hastarlegu hvarfi Bols og uppáþrengjandi spákonum!

BolurinnFátt hefur vakið meiri athygli en skyndilegt og hastarlegt brotthvarf Bols Bolssonar úr bloggheimum. Hér er afhjúpunin: http://blogg.visir.is/henry Ungmeyjarnar skæla, sérstaklega ég þar sem ég missti af þessari mannvitsbrekku sem átti þó að heita bloggvinur minn. Mér finnst mikil snilld að komast þetta langt á bullinu, en hvað gerðu ekki Emil og Hrólfur? Hafa þeir nú sameinast í einhvers konar hefnd? (nei, ýtið á hlekkinn)

SpákerlingDear Gudridur, I'm writing to you one last time about this, Gudridur, because I want to make absolutely certain that I have done everything possible to alert you. So please click here. Bethea. Nenni ekki að skrifa Betheu til baka og segja henni að það komi ekki til greina að ég kaupi þetta galdrahálsmen sem hún hefur í örvæntingu reynt að selja mér í nokkra mánuði og ég er á síðasta séns til að öðlast lífshamingjuna. Fann Betheu á Netinu, nú losna ég ekki við hana.

KristallarEinu sinni var ég á skólaferðalagi í New York og við fórum nokkrar skólasysturnar til spákonu í Greenwich Village. Eitthvað í svipinn á mér virðist æsa upp falsspákonur sem sértrúarsöfnuði. Held að ég sé vanmetinn og gáfusvipurinn sem ég set reglulega upp er greinilega misskilinn sem bjánasvipur. Samt er ég aldrei með opinn munninn vegna geitunganna. En alla vega ... spákonan í New York horfði alvörugefin á mig þegar hún var búin að spá mér einhverjum hryllingi og bað mig lengstra orða að hringja í sig þegar ég kæmi aftur til Íslands. Ég ætlaði ekki að gera það en ein skólasystirin æsti mig til þess og þetta var stórmerkilegt símtal. Spákonan sagði að ef ég ætti að njóta einhverrar gæfu í lífinu yrði ég að senda henni rúmlega 200 þúsund krónur, í dollurum auðvitað, og til baka fengi ég nokkra kristalla sem ég ætti að hugleiða yfir. Síðan yrði ég að senda steinana til baka og hún ætlaði að láta nokkrar nornir hugleiða yfir þeim. That´s it! Ég sýndi henni þá kurteisi að hlæja ekki upphátt og tjáði henni að ég kynni ekki að hugleiða yfir steinum og ætti auk þess ekki 200 þúsund krónur, enda nýútskrifuð úr skóla og væri að leita mér að vinnu. Þannig fór nú um gæfuríka lífið mitt ... kannski væri ég gift einhverjum Ævari og byggi með honum í flottu húsi í Grafarholti. ÆvarHann alltaf að grilla og við skryppum reglulega til Parísar til að viðhalda rómantíkinni. Hann væri búinn að senda mig í nokkra æfingatíma hjá ökukennara og nýi bíllinn minn væri WV Polo, svona sætur, sjálfskiptur konubíll. Vissulega er Ævar sannkallaður happdrættisvinningur en ég afsalaði mér honum á grimmdarlegan hátt! Talandi um grimmd ...

Stefanía lýsti yfir ást á Eric, fyrri manni sínum, og sparkaði svo í punginn á honum! Núverandi eiginkona Erics, Brooke, hneykslaðist en þá sagði Stefanía: „Hafðu engar áhyggjur, þú vilt hvort eð er ekki sofa hjá honum!“ hvernig svo sem hún veit það! Nú á að breyta Forrester-tískuhúsinu og færa það nær upprunanum, segi löglegi eigandinn, eða Stefanía. Taylor með varirnar verður hið nýja andlit tískuhússins. Hún er nefnilega virðuleg. Múahahhahaha! Svo er Thorne orðinn nýi forstjórinn, ekki Ridge. Allt að verða vitlaust í boldinu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband