Meint martröð í morgunsárið og meint veikindi Katrínar ...

Nemendur finna vörurAlgjört öngþveiti ríkti í skólastofunni í gær þegar ég tjáði nemendum að hlaupársdagur táknaði að konur gætu beðið sér manns og hann mætti ekki neita, nema greiða henni skaðabætur fyrir. Held að einhleypu konurnar hafi hugsað sitt en karlarnir urðu stressaðir. Ég, aðeins í þeirri viðleitni minni að kenna íslensku, bað einn um að giftast mér og svo brá við að þessi gáfupiltur (ég gæti verið móðir hans) kunni allt í einu enga íslensku. Brosti bara sætt og sagði: „Ég skil ekki.“ Ég var ekki einu sinni búin að kenna þeim að segja það.

Svo um leið og hann og hinir skildu að þetta væri eitthvað gamalt og í raun bara grín, kviknaði íslenskukunnáttan aftur af fullum krafti og léttirinn flæddi um allt. Núna í morgun hittumst við í elsku bókasafninu og spjölluðum heilmikið saman. Til er mjög sniðugt app sem heitir Bara tala - og þau hlóðu því niður í símana. Mjög snjallt til að æfa sig í íslenskunni. Eftir kaffitímann hófst svo martröðin, eða það sem ég hélt að væri martröð í þeirra augum. Ég leyfði þeim að vera tvö til þrjú saman í liði og rétti þeim nokkra handskrifaða miða. Og þótt ég hati dramatík fannst mér vel við hæfi að þau ímynduðu sér að ég lægi fárveik heima, þau væru bestu vinir mínir og myndu algjörlega bjarga mér með því að finna það sem mig vantaði í Krónunni, sem er nánast við hliðina á bókasafninu. Bara bókabúðin og Lindex á milli. Einn hryllingurinn sem ég flissaði subbulega mikið yfir í gærkvöldi þegar ég skrifaði innkaupalistann var: Súputeningur - grænmetis. Einu vísbendingarnar með vörunum voru: Kalt og Ekki kalt. Sem þýddi t.d. að kaffið (Espresso Roma, baunir) var merkt EKKI KALT. En 1 lítri laktósafrí nýmjólk með D-vítamíni var merkt KALT. Einu mistökin, ef mistök mætti kalla, var þar sem ég skrifaði 1 stk. avókadó. Nemendur komu með lífrænt ræktað, 2 í poka, svo lítil samt að þau voru svipuð og eitt venjulegt. Þau fengu öll tíu og A plús. Og innkaupin mín hafa sjaldan gengið jafnhratt og vel ... nema ég var ein um að bera þetta heim, hafði bætt við t.d. súrmjólk og tilbúnum rétti, girnilegri kjúklingasúpu ... með kókos- og karrí-eitthvað, en stráksi fer nefnilega til stuðningsfjölskyldu sinnar í allra síðasta sinn núna um helgina (og ég nenni ekki að elda fyrir mig eina) og næst þegar ég sé hann verður hann orðinn tvítugur!

Skóla lauk því allt of snemma, svo ég þarf lævíslega að ræna af þeim einni mínútu af kaffitímanum í tvær vikur. En vá, þau geta svo miklu meira en ég bjóst við. Fljótlega þarf ég svo að sýna þeim páskaeggjaúrvalið - og segja að það sé skylda að gefa börnunum sínum (og auðvitað sjálfum sér) páskaegg. Ég tjáði þeim að ég hefði alltaf fengið slíkt í morgunmat á páskadag og fékk ekki nokkra samúð, þetta þótti hinn besti morgunmatur. Hvenær glataði ég gleðinni ... og lyst æskunnar á súkkulaði í morgunverð?

 

MYND: Yndin bestu frá Sýrlandi og Palestínu voru ekki lengi að finna kaffirjóma, suðusúkkulaði og kaffipakka. Þær leyfðu að sjálfsögðu myndbirtinguna.  

 

Ég bætti líka orkudrykkjum við, 2 hvítum Monsterum, í þeirri viðleitni að orkan aukist eitthvað sem er ekki vanþörf á. Ég hef rétt haft kraft til að vinna á morgnana, svo er ég bara slappur eymingi. Verkefni sem ég átti helst að skila í dag frestast til mánudags, sem mér bauðst og þáði, svo ég get gert himnaríki ögn fínna í dag og brotið saman smávegis þvottafjall og gengið frá svo helgin geti farið í eintóma vinnu og ekkert nema vinnu. Ég er svo mikill vinnualki að mér finnst bara sjálfsagt að vinna um helgar. Ekki nenni ég að horfa á sjónvarp (sniðgeng Júró) nema þá elskuna hann GMB á föstudögum, hef samt misst af tveimur síðustu þáttum, einhverra hluta vegna.

 

Ég get ekki notað íslensku sjónvarpsfréttirnar til að sýna nemendum hvað gengur á í heiminum, það er örugglega of erfitt fyrir þá sem flúðu stríð eða helför. Eins og við (sem vorum ekki einu sinni fædd) skömmuðumst okkar fyrir hönd Íslands, fyrir að hafa úthýst gyðingum bara til að Hitler gæti myrt þá, og þjóðir heims sögðu í kór: Aldrei aftur, aldrei aftur. Einmitt. Sagan mun ekki gleyma.

Ef ég væri að læra tungumál ríkis sem ég hefði þurft að flýja til, vegna t.d. náttúruhamfara, myndi ég eflaust skæla ef ég þyrfti að horfa upp á brennandi Ísland í þarlendum fréttatíma, til að læra nýja tungumálið. Ég sýni mínu fólki veður.is, vefmyndavélar frá komandi gosstöðvum, íslenska tónlist á YouTube, verst samt hvað ég er hugmyndasnauð og spila eiginlega bara Bríeti, Palla, Bubba ... þigg með þökkum tillögur að tónlist, og jafnvel sjónvarpsefni á RÚV.is eða YouTube (sem inniheldur ekki eitthvað vandræðalegt). Jú, Kaleo líka, en þau eru of ung til að muna eftir Björk og sum ekki með nógu stórkostlegan tónlistarsmekk til að meika Skálmöld (nema þá helst Úkraínukarlar). Ekki sem sagt nóg að kenna þeim bara tungumálið - það er svo margt annað sem er gott að kunna. Hvar antíkmarkaðurinn er, frískápurinn (mæli líka með að gefa fuglunum afganga niðri við sjó) og fleira og fleira. Reyni að hugsa: Hvað myndi ég vilja vita ef ég byggi hálfmállaus í nýju landi? Akraneskaupstaður stendur sig rosalega vel varðandi aðstoð og utanumhald til þeirra sem þurfa en ... hér hittist t.d. hópur í matarklúbbi Rauða krossins, einu sinni í mánuði, þar er eldað og spjallað og kynnst og borðað og hlegið.  

 

Katrín MiddletonÁ Facebook o.fl.

Alþjóðlegur dagur hróss er í dag - svo hrósum hvert öðru í drasl, eins og ein fb-vinkonan orðar það.

 

Á Instagram er skemmtileg íslensk síða fyrir aðdáendur kóngafólks, Royalicelander, sem flytur fréttir af fólkinu með bláa blóðið. Mér fannst ótrúlega fyndið að lesa í gær um áhyggjur fólks af Katrínu hans Vilhjálms, en hún fór í leyndardómsfullan uppskurð (ég giska á legnám) fyrir mánuði og hirðin tilkynnti að kæmi aftur í sviðsljósið eftir páska (það tekur einmitt tvo mánuði að jafna sig eftir legnám). Þar sem hún hefur ekkert sést opinberlega fór orðrómur af stað - ýmsar sögur og hér eru þær helstu: 

- Hún er í dái.

- Vilhjálmur drap hana. 

- Hún fór í rasslyftingu. 

- Henni er haldið í kjallara hallararinnar af því að hún vill skilnað en höllin leyfir það ekki.

- Hún er horfin og höllin veit ekki einu sinni hvar hún er. 

-Hún er dáin. 

- Hún gaf Karli tengdaföður sínum nýra og er að jafna sig (skv. þessu er Karl með krabbamein í nýra og þurfti nýtt).

- Hún er að safna í topp. 

- Hún rakaði af sér hárið. 

- Hún fór í lýtaaðgerð.  


Bloggfærslur 1. mars 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 159
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 1640
  • Frá upphafi: 1454109

Annað

  • Innlit í dag: 141
  • Innlit sl. viku: 1378
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 133

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband