Örferð til skjálfandi höfuðborgar

JardskjalftamaelarMig langar að ítreka eitt, að gefnu tilefni, þegar ég segi rækt, á ég við líkamsrækt. Einhverjir voru gripnir nýlega í Borgarfjarðarsýslum við „ræktun“ og fjöldi fólks dró af því rangar ályktanir. Hrmpf ...

 

Hér á myndinni eru þrír ólíkir mælar og ókomið eldgos. Lampinn sér til þess að ég upplifi ekki ímyndunarskjálfta (nokkrum sinnum á dag) og hitt dæmið, hangandi engill í trékörfu er bara tilraun, heimatilbúinn skjálftamælir. Kötturinn, sá þriðji, en hann þýtur í burtu þegar skelfur mikið, þá veit ég að stærðin er 4,5 plús. Afsakið litasamsetninguna. 

 

Ég skrapp í örferð til Reykjavíkur í gær, til að kaupa rauðan sófa handa mömmu sem er að koma sér vel fyrir á Eir. Í Mjódd beið ég smástund eftir Hildu systur og hitti þar eldgamlan karl sem reyndist vera bekkjarbróðir minn úr æsku, sprækur, unglegur og sætur. Þar sem við stóðum og spjölluðum reið yfir jarðskjálfti og ég sagði greindarlega: „Ahh, þessi var 3,5.“

 

Þessi nýi samkvæmisleikur, að giska á stærð jarðskjálfta, er það sem gerir tilveruna léttbærari á þessum óvissutímum - en af því að viðmiðið hefur verið á Akranesi þar sem finnst vart fyrir skjálftum nema þeir séu um 4 að stærð, skjátlaðist mér hroðalega, eða skjálftaðist, hahaha. Hann reyndist vera mun stærri, eða 3,8, sannir jarðskjálftaáhuganördar vita að það er mikill munur á 3,8 og 3,5 þegar kemur að skjálftum.

 

Við Hilda héldum í þessa kvíðvænlegu ferð að finna sófa - en allir vita að konur hata í raun búðaráp, það eru bara hinir snjöllu karlar sem hafa talið okkur trú um hið gagnstæða til að þeir sleppi sjálfir. Við byrjuðum í Smáratorgi og beint fyrir framan okkur var Dorma. „Eigum við að byrja hér?“ spurði ég. Systir mín var til í það en hafði haldið að þar fengjust bara rúm. Ég vissi betur, eftir að ég keypti rúmið mitt og Simba-dýnuna þar og varla fengið bakverk síðan. Og þar leyndist sá rauði sem mamma fær sendan til sín í dag. Ekki bara fallegur, heldur líka þægilegt að sitja í honum. Alltaf gaman að spara sér nokkurra klukkutíma búðavesen.

 

Hilda laumaði að mér fimmtíu krónum, sem voru mútur til að ég kæmi með henni í Costco. Hún hefði ekki þurft að gera það, en alltaf gaman að græða. Ég keypti þar fimm hluti að þessu sinni, þar af tvær erlendar kiljur. Pennanum var nær að hætta með erlendar bækur í sölu hér á Skaganum. Við keyptum ógurlega fallegan gulan kexdunk í Costco, fullan af sítrónukexi ... héldum við, páskalegt og fínt handa mömmu en þegar við opnuðum hann og ætluðum að bjóða henni kex, reyndist þetta vera risastór sítrónukaka (namm) en henni var skipt á milli heimilisfólks á deildinni í kvöldkaffinu. Fínustu mistök bara.

 

Það voru ekki fín mistök, vonandi mistök þó, að þegar við gengum inn á Eir þurftum við nánast að skáskjóta okkur fram hjá bifreið frá útfararstofu sem stóð með opinn afturhlutann að dyrunum. Maðurinn á líkbílnum var rétt fyrir framan okkur og rúllaði vagni á hjólum á undan sér, greinilega að sækja látinn íbúa. Að nota aðaldyrnar og gera þetta í heimsóknartímanum?  Ótrúlegt tillitsleysi við bæði heimilisfólk og aðstandendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegir pistlarnir þínir, fagna endurkomu! 
Varð þó fyrir vonbrigðum með síðustu málsgreinina þína. Mér finnst nefnilega virðing fólgin í því að bera látna frá heimili sínu um aðaldyr.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2021 kl. 07:45

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sammála þér, Sigrún, ég fann því miður enga virðingu í gangi þarna, það var bara verið að sækja hratt og ekki á forsendum neins nema þeirra sjálfra. Ég á vinkonu sem vinnur á öðru hjúkrunarheimili og hún og samstarfsfólk hennar er ósátt við aðfarirnar, engin tillitssemi, engin virðing.

Guðríður Haraldsdóttir, 8.3.2021 kl. 13:21

3 identicon

Leitt að heyra. Nokkuð viss um að við þessar aðstæður er ekki í boði að ganga um þröngar bakdyr - Virðingin er a.m.k. alla leið frá hendi hjúkrunarheimilanna sjálfra, þekki það af eigin raun eins og vinkona þín. Og mætti þá hér nefna útfarastofu eða senda kvörtun í stað þess að nefna nafn hjúkrunarheimilis í þessu sambandi. 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.3.2021 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 428
  • Sl. sólarhring: 487
  • Sl. viku: 2545
  • Frá upphafi: 1456495

Annað

  • Innlit í dag: 368
  • Innlit sl. viku: 2126
  • Gestir í dag: 359
  • IP-tölur í dag: 352

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband