Viðburðaríkur systrabröns

Ostaeitthvað með hnetumSystrabröns er eitthvað sem óhætt er að mæla með. Við vorum þarna þrjú systrapör og einn hjúkrunarfræðingur til öryggis. Allt fór fram með ró og spekt, að mestu leyti. Flestar fullbólusettar, hinar hálf-, en ekkert kjassað og knúsað, bara snædd geggjuð karrísúpa með meiru og spjallað. Þegar tvær vildu fá uppskrift að einhverju ostadæmi með hnetum utan á (ekki ég) kveinaði ein (systir gestgjafans) sem hatar umræðuefnið „uppskriftir“. Ég stakk upp á að tala frekar um uppáhaldið mitt Verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum en eftir smástund af því þurfti hjúkkan að gefa hressingarlyf.

MYND: Ég tók mynd af uppskriftinni á símann minn þegar gestgjafinn sagði töfraorðið ... eða „steinselja“. Biðst afsökunar á Ý í partí og bandstriki í heitinu Partíostakúla. (Þetta er, svei mér þá, að breytast í matarblogg. Himnaríkismatur með hörpuslætti og söng, Matreitt í himnaríki, ég finn eitthvað)

 

Boðið var upp á hið fínasta Lavazza-kaffi með mokkafrómasinum í eftirrétt og ég trúði stelpunum fyrir því að EF ég fengi mér einhvern tíma mann yrði hann að kunna að búa til sítrónufrómas, eins og ég hef áður sagt. Mér skilst á ritstjóra Gestgjafans að mikið hafi verið haft samband við hana upp á síðkastið og beðið um óskauppskrift í blaðið, einmitt sítrónufrómas - skref fyrir skref. Ein í hópnum horfði sár á mig, hún er ógift eins og ég, og sagði með vonbrigðahreim: „Þig langar sem sagt í mann!“ Ég sagði brjáluð á milli samanbitinna tannanna: „Nei, ég á ketti og ég á uppþvottavél!“ Þótt hún væri að hitta mig í fyrsta sinn hefði hún átt að skilja að grínið fjallaði um sítrónufrómasinn, eða skilyrðin sem ég set þeim fyrir „inngöngu í himnaríki“ sem ég líki því við að viðkomandi frómasgerðarmanni myndi hlotnast. Þarna kom hjúkkan aftur að mjög góðum notum og hvíslaði róandi að mér að hugsa alltaf áður en ég talaði.

 

Veiðiferðin norðurÞótt enn sé talsvert langt í „sumarfríið“ okkar Hildu, helgarferðina norður sem gengur undir vinnuheitinu veiðiferðin, finn ég fyrir spenningi og tilhlökkun. Það er víst ekki hægt að skrifa eins konar opinberar bloggfærslur á Tinder, eins og ég hélt. Ég þarf að læra að blogga í gegnum símann minn. Hilda varð mjög glöð þegar ég viðurkenndi að ég gæti bara bloggað við tölvuna heima, vill sennilega ekki að alþjóð frétti nánast í beinni, hvers konar ferð þetta verður ... ef allt gengur að óskum. 

Hún er alveg til í að fara til Húsavíkur í ár, þrátt fyrir meint kattahatur þeirra sem þar stjórna. Okkur systrum er sennilega alveg óhætt að heilsa þriðju hverri manneskju, því þetta eru allt meira og minna ættingjar okkar þarna, pabbi fæddur á Flatey á Skjálfanda, Uppibæ. Það gæti samt orðið vandræðalegt að snara sér út úr bílnum þegar áberandi myndarlegt fólk er á ferðinni, heilsa því en svo væru þetta bara túristar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gurrí veiðir margan mann,
og mikinn á hún kvótann,
en prestinn hún í fjöru fann,
feiknarlega ljótan.

Þorsteinn Briem, 16.5.2021 kl. 15:16

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hahahaha, hann virkaði nú ekkert ljótur á þessum myndum en þú hefur auðvitað skáldaleyfi til að yrkja um meintar karlaveiðar og fleira. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 16.5.2021 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 216
  • Sl. sólarhring: 423
  • Sl. viku: 2333
  • Frá upphafi: 1456283

Annað

  • Innlit í dag: 197
  • Innlit sl. viku: 1955
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 191

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband