... um sjóferð þá

Kaup á GylfaÉg veit stundum ekki hvað er að mér. Eftir að hafa eytt stórfé og í raun blóði, svita og tárum hefði ég alveg getað mætt ómáluð á joggingbuxum og netabol á stefnumótið í gær. Það var samt alveg skemmtilegt. 

Ég sveif inn í strætó klukkan 17.30, full tilhlökkunar, og sá að bílstjórinn þekkti mig ekki, 1-0. Enda var ég mjög glæsileg eftir að hirðförðunardama himnaríkis hafði farið um mig höndum. Var svo komin alla leið í Kollafjörð þegar ég áttaði mig á því að við höfðum bara talað um tíma - ekki stað, 1-1. Sem betur fer sá hann SMS-ið frá mér en hann kom líka af fjöllum. Já, hvert ættum við að fara til að borða? Hann stakk upp á ýmsum stöðum, eins og BSÍ og Argentínu en ég var viss um að þeir væru ekki til lengur, 1-2. Ég hafði verið svo viss um að hann ætlaði að bjóða mér á Grillið eða Holtið, 1-4, og að þyrlan sem lenti hér á hlaðinu í fyrrakvöld hefði verið í æfingarflugi, 1-15, og mér yrði komið á óvart með þyrlufari í bæinn daginn eftir - í versta falli myndi hann senda limmósínu, 1-20 og hætt að telja, eftir mér. Það má láta sig dreyma.

Við ákváðum fyrir rest að hittast á Stjörnutorgi í Kringlunni og láta bara ráðast hvað við fengjum okkur að snæða. Ég náði leið 3 eða 4 niður á Miklubraut og var komin á góðum tíma - til að uppgötva að það var verið að loka. Veðurfræðingurinn (Vilmundur) kom aðvífandi og eldri kona í humáttina á eftir honum.

„Þetta er mamma, Vilborg,“ sagði hann brosandi, „hún vildi endilega koma með, er það ekki í lagi?“

„Jú, auðvitað,“ svaraði ég. Fyrir svona feimnisdollu eins og mig var bara fínt að hafa þriðja aðila með okkur. Þegar gamla konan (85) komst að því að allt væri lokað, hún vildi athuga það sjálf, dreif hún okkur bara með heim til sín og eldaði gamaldags kjötbollur úr saltkjötsfarsi með kartöflum, brúnni sósu og grænum Ora-baunum. Þegar hún svo kom með rabarbarasultu voru jólin komin, sagði Vilmundur svo réttilega. 

Vilborg sagðist iðulega skella mynd af kvöldmatnum á Facebook-síðuna Gamaldags íslenskur matur - og alltaf slá í gegn, fá yfir hundrað læk og beiðni um uppskriftina.

Þetta var eins og að heimsækja kært frændfólk, mjög heimilislegt. Ég var auðvitað fyrir löngu búin að hneppa fjórum efstu tölunum á blúnduskyrtunni upp í háls - það var engin stemning fyrir skoru. Við spjölluðum um svo margt yfir matnum, allt svo eðlilegt. Ég sagði þeim til dæmis að ég hefði leikið stórt aukahlutverk í Heilsubælinu í Gervahverfi um árið og einnig að ég hefði fengið að fara út í sjoppu fyrir sjálfa Shady Owens þegar við unnum saman í Ísfélagi Vestmannaeyja. Þeim þótti báðum mikið til þess koma, sérstaklega þetta með Heilsubælið því þau elskuðu þá þætti og áttu á spólum. Vilborg sagði mér svo að Vilmundur hefði eitt sinn teflt við Jón L. Árnason. Ég lyfti brúnum af hrifningu en Vilmundur sagði rjóður: „Æ, mamma, hættu, það var ekki á neinu stórmóti!“

LúdóÉg var alveg búin að steingleyma því hvað lúdó er skemmtilegt. Svo skemmtilegt að með miklum naumindum náði ég síðasta strætó heim (klukkan 23) en mæðginin voru svo elskuleg að skutla mér í Mjóddina og af því að við vorum of sein, elta strætó alla leið út á Kjalarnes, fínu flottu bensínstöðina sem er að gera allt vitlaust hjá sælgætisgrísum þessa lands - þar sem okkur tókst loksins að ná leið 57. Gamla konan keyrir ansi hægt og Vilmundur keyrir alls ekki frekar en ég. Hún þorir þó ekki að keyra í gegnum jarðgöng, hvað þá göng sem liggja undir sjó, annars hefði hún skutlað mér alla leiðina heim, sagði hún. Klukkan var orðin of margt til að fara fjörðinn, fannst okkur.

Þetta var fín kvöldstund, ég var södd og sæl og fékk að sitja í framsætinu í strætóeltingarleiknum, en það mun taka mig mjög, mjög marga mánuði að jafna mig fjárhagslega. Var það þess virði fyrir kjötbollur og spilamennsku? Kannski, kannski ekki. Við mintumst ekkert á að hittast aftur en við Vilborg erum orðnar góðar Facebook-vinkonur.

Ég vil segja þessa sögu mína körlum til lærdóms, að þeir verði alltaf búnir að ákveða staðinn líka, ef þeir bjóða konu á deit. Stundum er líka sniðugt að sleppa því að hafa mömmu sína með þótt það hafi verið allt í lagi í þessu tilfelli. EM í fótbolta karla hefst í dag sem þýðir að ég verð óviðræðuhæf í mánuð og ekki til í dæminu að ég nenni á stefnumót svo það var sennilega gott að þetta fór svona og ég þyrfti ekki í staðinn að bjóða honum og mömmu hans í fótboltaheimsóknir í himnaríki. En þvílík þöggun varðandi EM, ég gat ekki gúglað mér til gagns og þurfti að spyrja Davíð frænda hvar hægt væri að sjá keppnina og ætla að gerast áskrifandi að Stöð 2 sport. Það hlýtur að vera hægt í mánuð, kannski lengur ef Formúlan er á sömu rás.

MYND*: Fróðir menn segja mér að þyrluheimsóknin í fyrrakvöld hafi mögulega tengst því að ÍA sé sennilega kannski mögulega að kaupa Gylfa, annar sagði Roman Abramovich. Það stóð yfir leikur akkúrat þá og gaurarnir í þyrlunni (Gylfi og vinir hans?) hurfu bak við stúkuna um hríð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í strætó fór á Stjörnutorg,
og stafkarlinn þar hitti,
makalaust það marhnútsdorg,
en mamman stundir stytti.

Þorsteinn Briem, 11.6.2021 kl. 14:12

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vó - akkúrat!

Guðríður Haraldsdóttir, 11.6.2021 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 244
  • Sl. sólarhring: 417
  • Sl. viku: 2361
  • Frá upphafi: 1456311

Annað

  • Innlit í dag: 221
  • Innlit sl. viku: 1979
  • Gestir í dag: 217
  • IP-tölur í dag: 213

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband