30 ár af engu og hagsmunir innflytjenda nefdropa ...

Svei mér þá ...Yfirleitt nota ég frekar hófstillt orð til að lýsa ýmsum athöfnum daglegs lífs og fékk hálfgert áfall þegar ég heyrði konu eitt sinn segja: „Ég ætla að frussa úr Friðriku.“ „Bíddu, ha?“ sagði ég, hvað var þetta? Komst svo að því að konan ætlaði að bregða sér á snyrtinguna, kasta af sér vatni! Þið vitið.

 

Mér fannst eðlilegra í denn að börn kölluðu frá snyrtingunni: „Búin/n, viltu koma og þurrka!“ Frekar en hitt! Úff.

 

Sumir (stundum frekar ruddalegt fólk) vilja kalla hlutina „sínum réttu nöfnum“ en hvað er athugavert við t.d. magapest? Magapest getur átt við sitt af hverju, ógleði, jafnvel botnlangakast (fyrsta greining kannski?), hver vill heyra orð sem ber nánast í sér grafískar lýsingar?

 

Ég vaknaði sem sagt með magapest í morgun og mundi eftir því að ég hafði keypt Pepto Bismol (bleika magalyfið sem bragðast eins og allt of sætt sælgæti en róar óhressan mallakút) síðast þegar ég heimsótti Elfu og Tom í Conway, WA. Þetta virkar mjög vel á brjóstsviða og alls konar óþægindi, skilst mér. Kynntist þessu í raun ekki fyrr en kona nokkur bað mig um að kaupa svona fyrir sig í Ammríkunni, og ég keypti mér líka. 

 

Bleika gumsið sem ég fann í einni skúffunni á baðinu rann að vísu út í apríl á þessu ári en óopnuð flaska svo ég hafði engar áhyggjur. Það er komið inn í ísskáp núna, svona ef svo ólíklega vill til að þess verði þörf næstu mánuði. En þegar ég leit betur á flöskuna þar sem stóð Pepto Diarrhea (arg) ... rifjaðist upp fyrir mér hvað ég hafði ætlað að vera sniðug með nokkrar síðbúnar jólagjafir, lenti sem sagt á Íslandi 7. jan. 2020, svaf í nokkra klukkutíma, fór síðan í jólaveislu og gaf heimilisfólki bland í poka-jólagjafir. Þetta voru flottir sokkar, reykelsiseldspýtnabréf, Pepto Bismol-magamixtúra, klósettsprey til að taka lykt, var ekki komið til Íslands þá, pakki af flensupillum sem sparar kaup á t.d. nefdropum, verkjalyfi, hálsbrjóstsykri, hóstamixtúru því í flensulyfinu er þetta allt innifalið - og eitthvað fleira. Fólkið var alsælt og fannst bara fyndið að fá Pepto Diarrhea sem ég keypti óvart en fólkið sem ég þekki fær held ég aldrei þessa verstu tegund magapestar, frekar en ég ... Ég lagði vonir við í morgun að ég lagaðist þótt tegundin væri ekki alveg rétt, og jú, mér líður miklu betur.

 

Það rifjaðist líka upp augnaráðið sem ég fékk frá kassakonunni í Walmart þarna í janúar 2020. Blanda af samúð og kátínu. Ég gat síst af öllu sagt: „Ehhhehe, þetta eru sko jólagjafir,“ því jólin voru búin og ég stórefast um að niðurgangsmixtúra sé vinsæl eða algeng jólagjöf þarna westra. En á Íslandi þar sem það fæst ekki er það bara sniðugt með í jólapakka, eins og ein dós af bjór hefði verið jólin 1988. En ég ætlaði samt að kaupa Pepto Bismol.

 

Miðað við allt frjálsræðið hér eins og að fá að kaupa Seríos sem fæst ekki í sumum útlöndum sem þykjast vera frjálslynd, er alveg ótrúlegt að megi ekki kaupa Pepto Bismol eða flensulyf. Um 350 milljón manns búa í Bandaríkjunum og þar er fólki betur treyst til að eyðileggja ekki í sér lifrina eða eitthvað, með ofneyslu flensulyfja sem við Íslendingar gætum nú samt auðveldlega gert með bara Íbúfeni. Þvílík forræðishyggja - eða þekkir kannski einhver (sem ræður þessu) einhvern (sem flytur inn nefdropa)? Beiskjan í þessu bloggi er alfarið í mínu boði.

 

Eftir að ég uppgötvaði flensulyf hef ég iðulega keypt mér einn eða tvo pakka og tekið með mér heim. Mér batnar auðvitað ekki en líðanin verður svo miklu betri, ég get unnið sem er merki um ekta Íslending sem missir helst ekki úr vinnu og er skilgreindur eftir dugnaði sínum við að vinna, þess vegna ætti að leyfa flensulyf. Og ég myndi aldrei misnota svona lyf, frekar en eflaust lang-, langflestir Íslendingar. Þetta er álíka klikkað og að leyfa okkur að kaupa vodka og brennivín lengst af en ekki bjór. Um leið og bjórinn var leyfður hér 1989 hætti mér eiginlega að finnast hann góður.

 

Partí nú til dagsRúmur áratugur er síðan mér var boðið í partíið sem markaði þáttaskil í samkvæmislífi mínu. Partíið var snyrtivörukynning, kaffi, spjall, skemmtilegar konur, engir strákar, ekkert brennivín. Mig grunaði samt ekki þá að nú væri þetta bara búið, að hér eftir biði mín eins konar Tupperware- og Herbalife-tilvera nema ég passaði mig þeim mun betur. Ég passaði mig það vel að það er ekkert djamm og heldur engar kynningar.

 

Myndin er einmitt frá partíinu fyrir ellefu árum - upp á dag. Facebook rifjaði upp.

 

 

Ætli þetta verði svona þar til ég flyt í fjörið á Höfða, eftir kannski 20 ár? Verða þetta þá allt í allt 30 ár af ... engu? Og svo loksins langþráð stuð? Ég er búin að biðja um Uriah Heep í græjurnar þar í stað harmonikku og sushi eða lasagne (ég er svo sigld) í stað sviða - svo ég hef engar áhyggjur. En hvað á ég þá af mér að gera næstu tuttugu árin? Ég fæ reyndar sólmyrkva í afmælisgjöf 2026 sem ég er strax farin að hlakka til. Æ, það er alltaf eitthvað skemmtilegt sem kemur. Jól, páskar, bolludagur, afmælið mitt ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst er sala á Cheerios-morgunkorni hvergi bönnuð. cool

Sú tegund af Cheerios sem Íslendingar þekkja best (í gulum pakka) er hins vegar yfirleitt ekki í boði í verslunum í Evrópusambandsríkjunum.

Þess vegna hefur sú sögusögn gengið manna á milli að sala á Cheerios sé bönnuð innan sambandsins.

Af því hafa síðan sprottið getgátur um að Cheerios yrði ekki lengur til sölu hér á landi ef Ísland gengi í Evrópusambandið.

Hið rétta er að íslenskir innflutningsaðilar gætu áfram flutt inn og selt hér hefðbundið Cheerios í gulum pökkum frá Bandaríkjunum, þó svo að Ísland gengi í Evrópusambandið."

"Staðreyndin er sú að framleiðandi Cheerios í Bandaríkjunum, General Mills, á í samstarfi við evrópska matvælaframleiðandann Nestlé, sem framleiðir tvær tegundir af Cheerios og dreifir á evrópskum markaði."

Evrópusambandið og Cheerios - Evrópuvefurinn

Hin almenna matvælalöggjöf Evrópusambandsins hefur verið innleidd hér á Íslandi á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).


Því gilda sömu reglur hér og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, sem og um opinbert eftirlit með matvælum. cool

Matvælalöggjöf Evrópusambandsins - Evrópuvefurinn

Þorsteinn Briem, 22.10.2021 kl. 16:22

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hmmmmmmmmmm ... Ég sagði ekki bannað ... meira svona: FÆST EKKI. 

Harðbannað samt að skemma ýkjusögu með staðreyndum.

Guðríður Haraldsdóttir, 22.10.2021 kl. 16:40

3 identicon

Þekkti konu sem talaði um að skvetta úr skjóðunni = pissa. Enda tala karlar um að skvetta úr skinnsokknum. Ágætlega hnyttið orðalag á góðri íslensku.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 22.10.2021 kl. 21:11

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Skvetta úr skjóðunni er öllu betra ... en ég var nú mest bara að gera grín að sjálfri mér fyrir að engjast yfir svona talsmáta. ;)

Guðríður Haraldsdóttir, 23.10.2021 kl. 16:23

5 identicon

Við sjómennirnir köllum þetta að lensa,og þegar menn setjast á páfastólinn er það kallað að sleppa að aftann.T.D. er rúgbrauð og brauðsúpa kölluð Aftansöngur.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 26.10.2021 kl. 07:59

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hahahaha, Tommi, æ, hvað ég sakna þín úr strætó! :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 26.10.2021 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 245
  • Sl. sólarhring: 417
  • Sl. viku: 2362
  • Frá upphafi: 1456312

Annað

  • Innlit í dag: 222
  • Innlit sl. viku: 1980
  • Gestir í dag: 218
  • IP-tölur í dag: 214

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband