Óvænt heimsókn og fljótfærni Orðsins á götunni ...

Blautur kettlingurVar búin að pakka mér inn í teppi með hitapoka á öxlum og baki, sat í leisígörl með nýja bók eftir Noru Roberts í fanginu og Silfur Egils í Sjónvarpinu þegar dyrabjallan hringdi. Ég, blýföst í peysu utan yfir hitapokann, bað erfðaprinsinn að fara til dyra. „Það er verið að spyrja eftir þér!“ kallaði hann og ég stóð treg upp út hægindunum og fór til dyra. Þetta var Ásta, hundblaut. „Af hverju hringdir þú ekki á undan þér?“ spurði ég. „Þú veist að ég þoli ekki óvæntar gestakomur,“ ... ég brosti til að draga úr dónaskapnum. „Ég hringi aldrei á undan mér,“ sagði Ásta snaggaralega, „ég var í göngutúr, komst ekki lengra vegna veðurs og vantaði latte.“ Vegna væntumþykju á þessum blauta kettlingi dró ég hana inn og gaf henni kaffi og lagköku sem elskan hún Didda fyrir norðan bakaði og færði Hildu í haugum og Hilda gaf mér hluta af, eins og venjulega. Þetta var skemmtileg stund þótt ég fari ekki ofan af því að fólk eigi að hringja á undan sér ... Ásta var ekki með síma á sér og maður bjargar sko vinum sínum inn úr ofviðrinu. Hún er heldur ekki vön að gera svona. Það hefði getað staðið hryllilega á, ég alveg mögulega með allsberan elskhuga í baði með mér ... alltaf gaman að enda árið á spennandi hátt ... og Ásta hefði þá bara verið dregin inn í gamanið ... en það stóð ekkert illa á þannig að þetta var bara fínt. Það er bara eitthvað fast í mér að vilja taka vel á móti fólki, geta haft eitthvað með kaffinu ... enga óhreina sokka á gólfinu (sem var nú ekki) og slíkt. Það hefði getað verið fínna í himnaríki en Ásta kvartaði ekki.

MatarboðEin vinkona mín átti vinkonu sem kom í tíma og ótíma, hún hringdi vissulega á undan sér ... en dyrabjöllunni ... og spurði: „Stendur núna vel á?“ og rauk svo inn. Búið var að biðja hana um að hringja á undan sér svo hægt væri að njóta betur samverunnar við hana ... Hún kom inn í miðjan saumaklúbb, matarboð og oftast inn í daglega rútínu sem erfitt er að taka pásu frá til að hella upp á og spjalla, rútínu eins og að hjálpa börnunum að læra, taka til, undirbúa kvöldmatinn og eitthvað slíkt. Vinkonan smellti sér bara til gestanna í matarboðinu, nartaði í matinn og spjallaði við fólkið, tók þátt í saumaklúbbnum þótt hún þekkti engan ... það reyndist ómögulegt að setja henni mörk. Fyrir rest þurfti vinkona mín að loka á hana.

 

Orðið á götunniOrðið á götunni fjallaði um völvuspá Vikunnar í gær. Hér kemur þetta orðrétt:
Spádómurinn sem rættist
Það er gamalt sport í þjóðfélaginu að sökkva sér í þær kellingabækur sem birtast í völvuspám blaða og tímarita um áramótin. Lengst hefur völva Vikunnar verið að störfum og hefur stundum ratast satt orð á munn um óorðna hluti.

Orðið á götunni er að sjaldan hafi Völvu Vikunnar tekist betur upp en fyrir áramótin í fyrra þegar hún spáði þessu: “Ég sé læti í kringum Davíð Oddsson og tengi það tilraun Björns Bjarnasonar til að koma manni Davíðs inn í héraðsdóm, jafnvel syni Davíðs.”Þarna hitti Völvan naglann beint á höfuðið, því einmitt þetta gerðist í lok ársins. Þeim mun undarlegra er að í síðasta tölublaði Vikunnar þar sem birt er spáin vegna þessara áramóta og rifjað upp það sem rættist úr þeirri síðustu minnist Völvan ekki á þetta mikla afrek sitt í því að sjá framtíðina fyrir. Þessi mikli spádómur uppgötvaðist ekki fyrr en Valgerður Sverrisdóttir sat norður á Lómatjörn og blaðaði gamalli viku, rak augun í þetta og bloggaði um það á heimasíðu sinni.

Ég minni á bloggfærslu mína frá 22. desember sl, þar sem þetta kom m.a. fram: Völvuspá í fyrra: „Ég sé læti í kringum Davíð Oddsson og tengi það tilraun Björns Bjarnasonar til að koma manni Davíðs inn í héraðsdóm, jafnvel syni Davíðs!“

Málið er að völvublaðið var frágengið og komið í prentsmiðju þegar ráðning Þorsteins Davíðssonarvarð opinber og því of seint að grobba sig af þessu þar. Held að Orðið á götunni hefði getað druslast til að lesa bloggið mitt áður en þeir birtu þetta, ormarnir. Og mér finnst líka að stjórnmálamenn og aðrir sem rugga þjóðarskútunni geti líka hunskast til að láta atburðina gerast FYRIR miðjan desember, það myndi koma okkur á Vikunni mun betur.  Jammmmm.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Alveg er ég þér sammála um að fólk bjalli á undan sér, það gæti jú staðið allavega á hehehe samanber elskhugann og baðið (óvíst að hann hefði viljað ábótina)  ég vil frekar vita af því ef einhver ætlar að koma í kaffi, nú ég bjalla á undan mér ef ég er að koma mér í frítt kaffi einhversstaðar, finnst þetta bara sjálfsagt.

Maður lætur nú fólk samt ekki verða úti í veðurofsa þó það hringi ekki hehehehehe 

Megi áramótin í Himnaríki vera full friðar og kærleika og nýja árið færa ykkur mæðginunum allt það besta.

Stórt áramótaknús til ykkar, og takk fyrir samveruna hér í bloggheimi 

Guðrún Jóhannesdóttir, 30.12.2007 kl. 18:52

2 identicon

Svo sammála með að hringja á undan sér. Ég á erfitt með að þola óvæntar heimsóknir vegna þess að heima hjá mér er alltaf allt á hvolfi, og ég þoli ekki að opinbera það fyrir gestum og gangandi. Þess vegna vil ég vita þegar fólk ætlar að kíkja inn svo ég geti sópað mesta draslinu úr augsýn!  En það er alltaf gaman þegar fólk vill kíkja til manns í kaffibolla.

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 20:16

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Vikan er frábær og ekki orð um það meir   Ball Drop 

Ásdís Sigurðardóttir, 30.12.2007 kl. 21:11

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mér fannst ekki tiltökumál að fá óvænt gesti  hérna í denn en svo breytist maður smám saman ... þegar ellin nálgast ...

Leisígörl er fínasti hægindastóll sem fæst í Rúmfatalagernum og kostar í kringum 20 þúsund kall, Páll.

Risaáramótaknús, Guðrún!

Já, Lísa, það er alltaf gamanað fá gesti og ég varð nú ekkert fúl þótt Ásta kíkti, hún kemur örsjaldan og mikið gaman að fá hana ... þótt ég hafi ætlað að horfa á Silfur Egils. Það get ég alltaf séð á Netinu.

Guðríður Haraldsdóttir, 30.12.2007 kl. 22:23

5 Smámynd: Vilborg Valgarðsdóttir

Gleðilegt ár Gurrí og takk fyrir bloggárið 2007! Eigðu skemmtilegt gamlárskvöld og gangi þér allt í haginn í framtíðinni Vonandi færðu enga óboðna gesti á nýjársnótt

Vilborg Valgarðsdóttir, 30.12.2007 kl. 22:36

6 Smámynd: Jens Guð

  Vegna konunnar sem kemur í heimsókn í tíma og ótíma er gaman að segja frá því að í Færeyjum gerir fólk ekki boð á undan sér né heldur bankar á dyr (það eru engar dyrabjöllur í Færeyjum).  Fólk veður bara inn í hús eins og það eigi heima þar og leitar síðan eitthvað af heimilisfólkinu uppi.  Ef enginn er heima sest fólk kannski niður og bíður eftir að einhver komi heim. 

  Það var mjög óþægilegt að taka upp þennan sið í Færeyjum en vandist hratt. 

Jens Guð, 30.12.2007 kl. 22:47

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Þessi völva, þessi völva, hver er þetta eiginlega?

Þetta sem þú lýsir Jens, að sé lenzka í Færeyjum, var einnig tíðkað á Álftanesinu, meðan ég bjó þar, allavega hjá ákveðnum hópi. Mér fannst það algerlega dásamlegt og sakna þess alltaf. Hins vegar hef ég líka vanizt hinu, þannig að ég skil þig alveg líka, Gurrí, þetta getur verið fremur óþægilegt ... á stundum.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 30.12.2007 kl. 23:23

8 identicon

Aumingja Ásta.....eins og blautur kettlingur.......hvað var hún annars að þvælast úti í þessum veðurofsa. Fólk á að halda sér innandyra í svona veðri :)

Óvæntar gestakomur kannast ég svo vel við. Á mínu heimili er svo mikill gestagangur að kallinn minn hafði á orði við mig um daginn að ég þyrfti að fara að setja upp kaffihús. Þá var búið að vera linnulaus gestagangur allan daginn....einn tók við að öðrum. Getur stundum verið ferlega þreytandi, sérstaklega ef maður er búin að plana eitthvað annað. Finnst þér vanta kaffihús í Hvalfjarðarsveit Gurrí?

Sigga (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 23:45

9 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hún Ásta var sko í gönguferð ... hún þáði ekki einu sinni að erfðaprinsinn skutlaði henni heim, nei, hún ætlaði sko að ganga, dugnaðarstelpan.

Hugsa að sumarbústaðafólk myndi alveg þiggja kaffihús í Hvalfjarðarsveit ... og ég annað hvert ár þegar ég fer Hvalfjörðinn með Ingu vinkonu, ef það er GOTT kaffi. 

Það væri nú allt í lagi að fá einhverja óboðna gesti á nýársnótt, t.d. álfa og huldufólk, ef það er til, en ekki drukkið! Það yrði nú meiri martröðin. 

Óska ykkur líka frábærra áramóta, elskurnar! 

Guðríður Haraldsdóttir, 30.12.2007 kl. 23:54

10 identicon

Það er þettað með heimsóknirnar,fyrir nokkrum árum var ég staddur tímabundið í Svíþjóð við gagnaöflun,vegna handrita.Ýmsu fólki kynntist maður þarna og að sjálfsögðu er fullt af Íslendingum einnig,það sem að mér fannst athyglisvert þarna í sambandi við heimsóknir á milli fólks var það,að fólk þurfti að helst að hringja með tveggja til þriggja daga fyrirvara ef það ætlaði að koma í heimsókn,tók eftir því að Íslendingarnir sem búnir voru lengi að búa þarna voru líka með þennan sið.Svo að öðru máli, er þú minnist á eða Valvan nefnir réttara sagt,það er þettað með ráðningu sonar Davíðs Hæstráðanda Oddssonar,,þettað er nú bara ekki hægt.Megi nýja árið vera gleði og gæfuríkt hjá ykkur í Himnaríki á Skaganum,og takk fyrir líðandi ár.

jensen (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 00:32

11 identicon

Ég mátti til að bæta hér inn smá örsogu.Þannig mál var að í æsku átti ég skemmtilega frænku eina sem kölluð var tóta,en alltaf samt Tóta Tuska,,hún var alltaf með hreina tuskur á sér stundum tvær,fyrst byrjaði hún á því þegar hún kom í heimsókn að láta okkur bræðurna fara inn á klósett,til að snýta okkur þótt oft við þyrftum þess ekki og oft þóttumst við vera að gera það að snýta okkur,næst tók við hjá henni að skoða í eyrun á okkur og skoða undir neglur á höndum,oft létti hún á .En það fór stundum í heimilisfólk þegar hún byrjaði að þurrka af,þó að nýbúið væri að gera það.En nei Tóta Tuska þurfti  að taka þetta fagmannlega út,voru stigvélin rétt röðuð og hrein,og allt eftir hennar bókum,þetta tók stundum doldin tíma,en hún var bara svo skemmtilegur karakter,Tóta,bjó ekki einusinni þarna en leit oft við,og við krakkarnir rifumst aldrei í henni ,höfðum frekar gaman af.Skemmtilegast þarna í bröggunum var þó þegar heyrðist skruð í bréfpoka hjá Tótu,alltaf við brottför lét hún skrjáfið í pokanum heyrast,möndlur súkkukúlur karamellur súkkuvindlar og rauði kóngabrjóstsykurinn,,og öllu skipnt jafnt undir árvökulu augum TuskuTótu,en að sjálfsögðu unnum við fyrir þessu með því að aðstoða hana og eflaust kenndi hú okkur margt um hirðusemi og annað.

jensen (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 01:02

12 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Takk fyrir bloggárið...megirðu eiga jafn gott ár framundan. Er hér tíður gestur þó ég kvitti ekki oft. Shame on me

Brynja Hjaltadóttir, 31.12.2007 kl. 01:08

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

En hvað um Eið Smára og þótt hann væri drukkin blessaður Ljósálfurinn!?

En þú meinar semsagt að aðdáun þín frá Aðalstöðvarárunum á BB sé nú snarlega fyrir bí?

Aumingja hann að missa slíka glæsidívu úr aðdáendaklúbbnum, sem nú ekki er of stór fyrir!

Magnús Geir Guðmundsson, 31.12.2007 kl. 01:46

14 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

allt er gott í hófi og allt það. Ég væri samt alveg til í að það væri algengara á þessu heimili að óvænta gesti bæri að garði. En svo hlýtur hitt að geta orðið afar þreytandi.. þ.e. ef það er stöðugur gestagangur.

Knús til þín Gurrí mín og takk fyrir bloggárið sem er að líða.

Jóna Á. Gísladóttir, 31.12.2007 kl. 02:23

15 identicon

Mér finnst alveg ótrúlegt að nokkrum skuli finnast að VINKONA þurfi að hringja á undan sér þó hún kíki við í heimsókn. Ef ég væri Ásta hefði ég snúið við í dyrunum og hugsað mig vel um áður en ég kíkti aftur við hjá svona fýlu-skjóðu.

Maður á að njóta vina sinna og vandamanna og taka þeim fagnandi þegar þeir birtast, hvort heldur sem einhver sokkur liggur á gólfinu eða ekki.

Þórunn (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 02:55

16 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Leit bara við til að segja gleðilegt ár, Gurrí mín, og takk fyrir öll gömlu, góðu!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.12.2007 kl. 03:09

17 Smámynd: Páll Einarsson

Gott er ad fá góda heimsókn en...

Sjálfsagt er ad hringja unand sér, hef nefnilega lent í ýmsu med "óbodna"gesti.

Eitt sinn kíkti ég til félaga míns eftir ad hafa labbad um øll tingholtin og langadi  ad kasta á hann kvedju. ÉG hringdi bjølluni, hann opnadi , horfdi á mig vandrædalegur klæddur í slopp, ég baud gott kvøld, hann rodnadi og rodnadi... ég spurdi hvort ég hitti illa á. Hann hvísladi ad mér "ég er ad láta taka erótískar myndir af mér fyrir konuna"

Ég kvaddi.... hringi unand næst.

Páll Einarsson, 31.12.2007 kl. 09:40

18 Smámynd: Marta B Helgadóttir

GleðilegT ár Gurrí og takk fyrir það gamla

Marta B Helgadóttir, 31.12.2007 kl. 10:37

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er alveg dedd á því að það er gaman að fá fólk spontant í heimsókn, svona oftast.  Minnir á gamla tíma.

Verð að játa á mig að ég hef verið aðeins of fljót að dissa völvuna

Takk fyrir árið sem er að líða mín kæra og gleðilegt nýtt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.12.2007 kl. 11:06

20 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Góðir vinir og vandamenn eru alltaf velkomnir, Þórunn. Það var ekki málið. Eins og í dæminu með "vinkonu" vinkonu minnar þá held ég að hún hafi ekki verið jafngóð vinkona og hún hélt og heimsóknir hennar voru oftar en ekki truflun og hreinn dónaskapur. Þegar fólk vinnur mikið eða er hálflasið þá eru hvíldarstundirnar ótrúlega dýrmætar og þá þarf kannski að útbúa tíma fyrir "vinina", þegar fólk er sjálft tilbúið til að taka vel á móti þeim.

Guðríður Haraldsdóttir, 31.12.2007 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 441
  • Sl. viku: 2252
  • Frá upphafi: 1456548

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1883
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband