Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
7.1.2008 | 20:45
Busl og blessað boldið
Rólegur dagur að kveldi kominn ... Hef ekkert lokað Tomma úti á svölum í allan dag. Ætla að taka einn dag í einu á það. Nú rennur bara í ilmandi freyðibað. Tomma er alla vega óhætt á meðan ég busla með öndinni.
Boldið: Stefanía dró Eric með sér til að hitta Feliciu, dótturina sem hann hélt vera dána. Hann varð öskureiður yfir blekkingunum en jafnaði sig fljótt. Felicia þarf nýja lifur og ætlaði Stefanía að gefa dóttur sinni hluta af sinni. Áður en af því varð fannst lifur við hæfi og nú er líffærateymi á leiðinni.
Brooke er búin að gera upp við sig að hún vill Nick en ekki Ridge! Ridge er miður sín og ég eiginlega líka. Nú eru konurnar sem hann hefur gifst til skiptis í gegnum tíðina báðar á eftir hálfbróður hans, Nick. Taylor með varirnar er náttúrlega geðlæknir og getur hrist upp í hausnum á Nick (talað illa um Brooke) á sannfærandi hátt. Bridget, dóttir Brooke og nýlega fyrrverandi kona Nicks, ætlar að fara að búa með Dante, blóðföður Dominic litla, því að Felicia, móðir drengsins, arfleiddi hana að honum. Bridget talar mikið um gleði sína yfir Dommí en heima í stofu sitja tárvotir áhorfendur sem vita að Felicia lifnaði við og gerir án efa kröfu á að fá barn sitt.
Stærsta spurningin er samt: Hvaða konu getur Ridge hugsanlega farið að gera hosur sínar grænar fyrir? Tvíburarnir eru örugglega dætur hans, nema handritshöfurnarnir fari alveg yfir um, hann var spenntur fyrir Bridget á tímabili en í ljós kom að hann var ekki hálfbróðir hennar. Þegar það kom í ljós þá neistaði eitthvað ... þó var hann kvæntur Brooke, móður Bridget, á þessum tíma. Jackie, mamma Nicks og eiginlega fyrrum stjúpmóðir hans, er líklega of gömul og hún er líka skotin í Eric, pabba hans (ekki blóðskyldum). Darla er gift Thorne ... en hvað með Amber, sem var eitt sinn með Rick, litla bróður hans?
Erfðaprinsinn gaf mér ansi flotta jólagjöf sem ég hef enn ekkert gert með ... eða sett lög inn á.
Jú, iPod var það og ekkert smá flottur spilari. Ætli við notum ekki næstu helgi til að hlaða inn lögum. Ég ætla að setja inn bland í poka af uppáhaldslögum af öllum gerðum! Frábær gjöf!
7.1.2008 | 09:07
Sögur af Vesturlandsveginum
Í morgun, fyrsta dag í ekkijólum var algjört rennifæri í bæinn. Þess vegna skildum við Ásta ekkert í því að bílarnir tveir fyrir framan okkur óku á 70-80 km/klst á Kjalarnesinu. Eftir nokkrar mínútur í nagandi óvissu um það hvort bílarnir færu upp í löglegan hraða ákvað Ásta einhliða og af djarfmennsku að fara fram úr. Það var spennandi augnablik en þar sem enginn bíl var sjáanlegur á móti gekk þetta ákaflega vel og tók stuttan tíma. Ég var alveg sallaróleg en mér til hugarhægðar fór ég þó að hugsa um samtal sem ég átti við Sigrúnu sveitó, samferðakonu mína sl. laugardag, þar sem við ókum saman til höfuðborgar og til baka. Sigrún bjó í Danmörku í mörg ár og sagði m.a. að eftir búsetu þar gæti hún alls ekki farið fram úr hægfara bíl ef hún væri á hægri akrein og sá of hægi á vinstri, slíkur væri vaninn eftir siðmenningarumferðarsiði í DK, fólk héldi sig venjulega hægra megin og notaði þá vinstri til framúraksturs.
Við vorum einmitt á vinstri akrein og búnar að vera það frá Mosó þegar ég sagði Ástu þetta og horfðum á bíl á c.a. 104 km/klst aka fram úr okkur hægra megin. Já, einmitt svona, sagði ég, af því að þú ert á 90 vinstra megin þótt sú hægri sé auð. Ásta brosti blíðlega og fattaði ekki háðslegan undirtóninn hjá mér, enda hver tekur mark á manneskju sem þorir ekki að keyra bíl og hefur allt sitt umferðarvit úr Formúlunni og Útvarpi Umferðarráðs? Ég veit t.d. í gegnum Formúluna að maður ekur ekki yfir heila lína, heldur bíður þar til hún brotnar, en ansi margir Íslendingar hafa gleymt þeirri reglu eða virða hana ekki. Ralf Schumacher þurfti að aka í gegnum þjónustusvæðið í refsingarskyni fyrir að aka yfir heila línu eitt árið í Formúlunni og þannig lærði ég þetta. Til að Formúlu-óaðdáendur skilji hvað átt er við þá er það mikil þolraun að aka í gegnum þjónustusvæðið ... krókódílasíki beggja vegna, langleggja konur í húðlitum sokkabuxum (sem er sko ekki í tísku) trufla, fullt af bensíntittum að reyna að troða bensíni á bílinn, aðrir að skipta um dekk. Sannkölluð martröð að lenda í þessu ... fyrir utan að tefjast kannski um 20 sekúndur við þetta og missa alla von um sigur.
Held að það hafi truflað Ástu frá því að vera hægra megin að við vorum svo ósammála um tónleika. Hún er tónleikasjúk en ég er orðin löt, hætt að þola breytingar á ástkærum lögum. Nenni t.d. ekki á Jet Black Joe-tónleikana af því að ég veit að lögin eiga ekki eftir að hljóma nákvæmlega eins og á plötunum ... Ásta horfði með samúð á mig og hélt sig vinstra megin ... Ég sagðist vera viss um að Sigga Guðna, gamla barnapía erfðaprinsins, myndi ekki syngja Freedom með þeim og svo væri strengjasveit eða brassband með. Svona hallærisdæmi eins og Sálin og Sinfó! Sinfóníuhljómsveitir ættu að halda sig við klassíska tónlist og Sálin við poppið. Ásta hefði ekið upp á gangstétt vinstra megin, ef slíkt hefði verið fyrir hendi, af hneykslan. Tek það fram að ég er hrifin af Sálinni ... fyrir að hafa gefið einni plötu nafnið 12. ágúst, sem er afmælisdagurinn minn!
Ég veit að þetta líka frábæra umferðar- tónleikablogg tekur á engan hátt fram spennandi daður- og næstum kynlífslýsingum úr strætó ... en ætli ég komist nokkuð í strætó fyrr en á föstudaginn ... og einmitt þá þarf ég að vera með spariföt í poka þar sem Útsvar verður um kvöldið. Það er ákveðið stress í gangi, óvíst að einn meðlimurinn geti verið með ... og sá sem er til vara, er heldur ekki 100% um að hann komist. Er nokkuð viss um að þetta sé að undirlagi Ísafjarðarliðsins til að taka okkur á taugum, held að doktorarnir þar óttist speki alþýðunnar/lýðsins/múgsins/öreiganna ... sem les bækurnar áður en þær eru notaðar sem eldiviður! Reykta taðið er steikt á pönnu og etið, ríka fólkið sníður jakka sína og pils niður í ábreiður og gefur fátækum. Jamm, ég er að missa mig hérna í Oliver Twist-fílingi, enda glorhungruð og hálftími síðan opnað var fyrir morgunverð í mötuneytinu. Eigið dásamlegan dag, elskurnar.
6.1.2008 | 18:37
Tommi úti á svölum
Er orðin endanlega fullviss um að himnaríki sé miðpunktur alheimsins. Þrettándabrennan fór fram hérna fyrir neðan austursvalirnar og fjöldi fólks söng jóla- og nýárslög við eldinn. Glæsileg skrúðganga álfa og huldufólks kom eftir Jaðarsbrautinni og dansaði í kringum brennuna á þyrlupallinum. Síðan var glæsileg flugeldasýning í boði Akranesborgar.
Erfðaprinsinn viðraði mig aðeins á kagganum fyrr í dag og auðvitað fórum við í Skrúðgarðinn. Líka í BT þar sem ég keypti hræódýrt minniskort í myndavélina mína. Í tvö ár hef ég bara getað tekið 16 myndir í einu. Við sáum að fartölva erfðaprinsins hafði lækkað um 20.000, ógisslega spælandi, svona er lífið, hefði hinn kaldlyndi, fyrrverandi eiginmaður sagt.
Fyrir utan Skrúðgarðinn var elskan hann Tommi bílstjóri, alveg að fara að leggja af stað með farþega til Reykjavíkur. Mér tókst að smella nýárskossi á hann og litlu munaði að strætó færi ekki síðdegisferðina, segi nú svona. Hehhehe. Tommi minnti mig á að það væri hlaupár og sagði hann eitthvað um mannfórnir sem ég heyrði ekki alveg því að hann hafði hlaupið öskrandi inn í vagninn og lokað. Mér dettur ekki í hug að fórna Tomma þótt það sé hlaupár. Hann var orðinn loðnari í framan (skegg) en alltaf jafnbrosmildur og frábær. Náði samt að segja honum að þegar ég hefði tekið strætó undanfarið hefðu bara verið einhverjir aðrir karlar undir stýri, Heimir og Kiddi og svona. Samt ágætir.
Við keyptum nokkra flugelda sem erfðaprinsinn skaut upp af alkunnri snilld meðan á brennunni stóð. Ég stóð úti á svölum í smástund með Tomma í fanginu (köttinn) til að sýna honum brennuna. Hann var bæði áhugalaus og vanþakklátur svo að ég sleppti honum og naut þess ein að horfa úr dyrunum. Mér tókst síðan einhvern veginn að loka hann úti á svölum. Þegar erfðaprinsinn kom heim þremur mínútum seinna uppgötvaði hann þetta og horfði ásakandi á mig. Nú er Tommi í gjörgæslu, búinn að fá uppáhaldsmatinn sinn og auðvitað knús og klapp á fjögurra sekúndna fresti.
5.1.2008 | 17:33
Vegið úr launsátri
Fimmtudagurinn var ekki auðveldur dagur. Hann var eiginlega alveg hræðilegur. Gefin var út sú fyrirskipun á Akranesi að bæjarbúar ættu að vera vatnslausir lungann úr deginum. Yfirvöld gera stundum svona hluti til að kúga alþýðuna. Þetta var náttúrlega grimm aðför að persónufrelsi mínu og miðaðist að því að halda mér frá baðkerinu, athvarfi mínu í lífinu. Ónotaðar baðbombur lágu í hrúgum inni á baði og rykféllu.
Ekki nóg með það, heldur var ráðist á annan grunnþátt lífs míns, jafnvel á enn grimmdarlegri hátt, sjálft Moggabloggið. Það var óendanlega sárt að vita til þess að ástkærir bloggvinir, þ.a.m. sjálfur erfðaprinsinn, gætu ekki bloggað eða fengið komment á skrif sín. Ég sá fyrir mér skælandi bloggara í þúsundatali og ekki bara það, heldur færslan sem ég skrifaði eldsnemma þennan morgun gat ekki breytt lífi eins eða neins allan heila daginn.
Vatnið var tekið af Akranesi frá klukkan 9 til 18. Það hefði getað reynst örlagaríkt ... Rúmum tveimur tímum áður var ég reyndar flutt með strætisvagni til Reykjavíkur, ásamt nokkrum örvæntingafullum Skagamönnum. Nægilegt heitt var að finna í heittelskaðri höfuðborginni. Ég kom heim kl. 17.30 og þurfti því að verja heilum hálftíma án heita vatnsins og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ekki gat ég huggað mig við blessað bloggið því að það var lamað langt fram á kvöld. Að vísu kíki ég örsjaldan á það í vinnutímanum vegna annríkis en þeim mun meira á kvöldin og um helgar. Samt sem áður upplifði ég þennan dag að vegið hefði verið að tveimur stærstu grunnþörfum lífs míns og það úr launsátri.
4.1.2008 | 17:07
Frekar fúlt bílnúmer á nýja kagganum - hremmingar vinkonu
Eins og margir vita hefur nýtt bílnúmerakerfi verið tekið upp á Íslandi. Þrír bókstafir fremst og þeir geta raðast upp í ýmis orð. Vinkona mín var ansi heppin, eða hitt þó heldur. Hún keypti sér nýjan bíl í vikunni og bílnúmerið hennar verður FAT xxx. Hún er ekki fat (vaskafat) eða feit en hún er ekki hress með þetta, frekar en karlinn á Skaganum sem neitaði að vera með GAY í bílnúmerinu. Einnig hef ég heyrt að samsetningar eins og HIV og GOD verði hugsanlega teknar út. Hver vill láta hlæja að sér í umferðinni? Er ekki nóg að láta níðast á sér þar? Dæmi: Við erfðaprins vorum á leiðinni upp á Skaga seinnipartinn í gær með Sigþóru aftur í, stödd á Kjalarnesi í myrkrinu, þegar varkár prinsinn hægði á sér, fannst hann vera farinn að nálgast bílinn fyrir framan okkur ógnvænlega hratt þótt hann væri sjálfur á löglegum hraða. Ástæðan var nú bara einföld, bílstjórinn fyrir framan beygði inn afleggjara þarna á leiðinni en datt ekki í hug að láta aðra vegfarendur á hraðbrautinni vita ...
Við ræddum um kynlíf yfir matnum í dag og þá óþolandi áráttu karla til að vilja kúra og kela bæði fyrir og eftir ... heheheh Við stelpurnar rifjuðum upp ýmsa frasa: "Bíddu átt þú hvergi heima?" þegar 10 mínútur voru kannski liðnar frá lokum atburðar (æ, ég veit ég er tepra) ... en allt of oft fáum við stelpur að heyra að við séum kynkaldar - á meðan strákarnir eru hæddir fyrir að vera kynóðir (ja, eða hrósað fyrir það). Þetta er vissulega ekki rétt, fólk er misjafnt og stundum reynir það þó auðvitað að standa undir staðalímyndunum, ég hef t.d. margoft reynt að vera rosalega kynköld ... Jamm, föstudagsklámið var í boði Guðríðar sem er alveg að verða búin að vinna í dag. Nú er bíóferð fram undan og meira að segja í lúxussal ... einu sinni prófað, þú getur ekki hætt ...
4.1.2008 | 08:41
Hressandi jarðskjálftaspjall okkar Ástu í morgunsárið
Það er ekkert galið að sofna fyrir miðnætti. Ég fattaði það í morgun þegar ég glaðvaknaði klukkan sex við SMS frá Ástu: "Viltu kíkja á vindhviðurnar á Kjalarnesi!" Ég rauk morgunhress inn í vinnuherbergi og sá að þær voru bara um 25 m/sek. Skreið upp í aftur og dormaði til 6.30, enda er skipulagningin svo hrikalega góð að ég þarf bara 20 mín til að klæða, snyrta og gera latte áður en Ásta rennur í hlað á drossíunni. Við spjölluðum saman á leiðinni að vanda:
Ásta: "Ég keypti völvublaðið, hún er nú svolítið myrk í máli núna, völvan!" Gurrí: "Ekkert svo rosalega, það eykur t.d. bara straum ferðamanna hingað að fá gott eldgos og svo ef stjórnin fellur þá er það væntanlega bara spælandi fyrir Samfylkingu og Sjálfstæðis, spennandi fyrir alla aðra ..." Ásta (spámannslega): "Það kemur eldgos, ekki spurning, og það verður hér í grennd við höfuðborgina, kannski nálægt Hveragerði og Selfossi ..."
Svo allt í einu vorum við farnar að tala um stóra skjálftann árið 2000. Mig langar að skrifa bók (ja, eða bloggfærslu) um það hvað fólk var að gera þegar skjálftinn reið yfir. Ásta: Á þessum tíma leigði ég íbúð í blokkinni bak við Garðabraut 45 og það eru rosalega stórir gluggar á stigaganginum. Við vinkona mín vorum að fara niður í bæ (á Akranesi) með börnin og hún var lögð af stað niður þegar ég fann fyrir höggbylgjunni á undan skjálftanum. Ég argaði á hana að drífa sig upp aftur, ég var svo hrædd um að rúðan myndi springa. Svo sá ég jörðina (bílastæðið) ganga í bylgjum, það var hrikalegt. Gurrí: Vá, hvað þú ert næm að fatta hvað þessi fyrirvarahvinur táknar. Ásta: Já. Gurrí: Þegar eftirskjálftinn kom þarna 2000, þessi seinni, þá fann ég líka fyrir höggbylgju af því að ég bjóst við jarðskjálfta, beið vakandi uppi í rúmi og hugsaði: Er hann að koma núna, er hann að koma núna, er hann að koma núna? Ásta starði á mig með samúðarglampa í augum, sem er sjaldgæft hjá þessu hörkutóli, og sagði: Rosalega rífur í bílinn, það hlýtur að vera meiri vindur en 25 m/sek. Þarna steingleymdi ég um hvað við höfðum verið að tala og náði því ekki að segja henni allar hrikalegu lífsreynslusögurnar sem ég hafði heyrt um 17. júní 2000. Jú, reyndar, um feginleika okkar Hildu systur vegna mömmu að hún skyldi ekki hafa verið heima á efstu hæð í Asparfellinu svona líka jarðskjálftahrædd ... Já, Hilda, hvar er annars sumarbústaðurinn sem mamma er í? Í Grafningi, svaraði Hilda umhugsunarlaust. Svo föttuðum við báðar í einu hvað hún hafði sagt. Ekkert spurðist til mömmu í viku en hún reyndist alveg heil á húfi, ofsaglöð að hafa lent í þessu ævintýri. Jú, og um unga manninn sem sat á klósettinu heima hjá tengdó í sinni fyrstu heimsókn og hún lá á hurðinni: "Opnaðu, það verður að opna allar dyr í jarðskjálfta, opnaðu, segi ég!" Jamm, mér finnst samt best þegar ég heyrði af þýska eða svissneska jarðfræðingnum sem var á ferðalagi á Íslandi og upplifði þetta ævintýri ... hann hafði lært um jarðskjálfta, kennt um þá en aldrei lent í slíkum. Nú fékk hann þetta beint í æð.
Vona að þetta jarðskjálftamálæði mitt viti ekki á stóran skjálfta. Einu sinni helgaði ég Díönu prinsessu næstum heilan útvarpsþátt á Aðalstöðinni og innan við sólarhring síðar lést hún í bílslysi með Dodi sínum.
3.1.2008 | 08:13
Í örmum vetrarnætur ... eða bara Sigþóru í strætó
Strætóferðir heyra til undantekninga núorðið ... svo oft hef ég fengið far upp á síðkastið. Ég sá ekki betur í morgun en að Heimir væri grátbólginn og hálffölur af söknuði eftir okkur. Hann tók líka gleði sína þegar sjálf drottningin úr himnaríki sveif inn í vagninn. Hann hamaðist á útvarpstökkunum til að gera mér til hæfis, held ég, og stillti á Bylgjuna eða Rás 2 til skiptis. Hefur hann aldrei heyrt minnst á X-ið? Rosa væri gaman að heyra í Kent (If you were here) eða Rammstein (Sonne) eða Wu Tan Clang (For Heaven Sake) eða Eminem (The Way I am) og hækka allt í botn í rútunni. Kúrði með elskunni henni Sigþóru sem hafði það rosalega gott um áramótin að sögn. Hún skrapp í Mörkina (Sódóma/Gómorra Akurnesinga) með systur sinni á gamlárskvöld eftir að hún hafði sannfærst um að leigubílstjórinn (jamm, bara einn á Skaganum) væri að vinna. Mér skilst að hann sé ekkert allt of vinnusamur, enda gengur svo sem innanbæjarstrætó til kl. 18 alla virka daga og maður er vissulega ekkert svo marga klukkutíma að ganga Skagann þveran og endilangan.
Við Sigþóra slitum okkur treglega úr faðmlögunum og hlunkuðumst út við Vesturlandsveginn undir hálfátta. Með hendurnar fullar af veski og plastpoka láðist mér að skella einhverju hlýlegu, t.d. horni af einum af þremur treflunum, yfir eyrun. Þegar ég kom í vinnuna var ég ekki bara með blóðbragð í munni eftir áreynsluna (langt síðan mar hefur tekið Súkkulaðibrekkuna svona hratt), harðsperruverki í aftanverðum lærunum ... heldur geðveikan hlustaverk. Eftir að háls-, nef- og eyrnalæknirinn sagði við mig um árið að ég hlyti að vera með viðkvæm eyru (sem var ekki) urðu það áhrínsorð og það má ekki hvessa með éljum á hálendinu án þess að ég fengi gigtarverk í eyrun. Smáýkt, þoli samt illa vindblástur í eyrun, sérstaklega yfir vetrartímann. Græna, prjónaða eyrnaskjólið verður sko sett ofan í tösku í kvöld.
2.1.2008 | 17:54
Músik, mórall, einkamál.is og pínku bold
Við svefnlausu kjéddlíngarnar ókum eins og meistarar á Skagann í dag og geispuðum ekki einu sinni. Af vanda sá ég um að jafna loftþrýstinginn í bílnum á meðan við ókum í gegnum göngin með því að ýta á takka hjá miðstöðinni. Veit ekki hvernig Ásta færi að án mín. Hoppaði út við Skeljungssjoppuna, sem hét Skaganesti í æsku minni, og afhenti þar 20 Völvu-Vikur. Blaðið seldist upp í hvelli fyrir áramótin og viðbótin var vel þegin.
Er að hlusta á ansi hreint ljúfa og notalega plötu sem einn uppáhaldsstrætóbílstjórinn minn var að senda frá sér, hann André Bachmann gleðigjafi. Ef André er ekki þegar búinn að fá fálkaorðu fyrir góðgerðastörf þá hlýtur að fara að koma að honum. Segi nú ekki annað.
Ég er með smá móral. Fór lítinn blogghring í gær og heimsótti m.a. þá sem ég vanræki oftast, fólk úr bloggfortíðinni. Moggabloggarar eru svo fyrirferðarmiklir í lífi mínu að hinir verða útundan. Í einni heimsókninni sá ég færslu um ókunnugt jólakort frá Sissí og Arnari (fölsk nöfn), hjón sem móttakandi kortsins kannaðist ekkert við. Auk þess talaði hann um þybbið barn sem myndskreytti kortið. Af óvæntri hvatvísi kommentaði ég og þóttist vera Sissí og Arnar, rosamóðguð hjón, barnið væri bara stórbeinótt ... hann fengi sko ekki framar jólakort frá okkur ... Efast reyndar um að fórnarlambið hafi trúað mér en ég hef samt áhyggjur af þessu jólakorti og öllum þeim jólakortum sem komast ekki til skila eða sendandinn þekkist ekki. Það versta sem ég lendi í er að fá kort með mynd af börnum sem ég þekki ekki og t.d. undirskriftina Guðrún og fjölskylda ... Ég þekki svo margar Guðrúnar, enda nokkuð algengt nafn. Þetta gætu meira að segja verið barnabörn, ég er komin á þann aldur. Ef ég sendi myndakort þá myndi mynd af köttunum mínum prýða það, hvaða Íslendingur þekkir ekki Kubb og Tomma?
Komin á þann aldur já ... Nú eru bara 223 dagar í viðbót sem ég get sagt að ég sé rúmlega fertug án þess að vera með lygaramerki. Sama má segja um Madonnu. Ég gerði mér grein fyrir þessu um áramótin. Ætla samt ekki að skella mér á einkamal.is, held að strákarnir þar séu of lífsreyndir til að hægt sé að hagræða sannleikanum á nokkurn hátt. Þegar ég tók áskoruninni um árið og prófaði einkamálið undir vinátta/spjall, eins og ég hef áður sagt frá, lauk æsku minni og sakleysi snarlega. Kanar á Vellinum buðu mér reglulega í hóp-lúdó með fjölda frískra karla, ungir strákar vildu prófa eldri konu og slíkt. Einu almennilegu karlarnir sem ég vináttu-spjallaði við komu svo fljótlega út úr skápnum sem kvæntir menn og þá hættu þeir að vera almennilegir í mínum huga. Kannski hefðu flestar konur í mínum sporum hoppað á Kanana, strákana og þá giftu. Þetta segir mér bara að ég hafi klikkaða sjálfsstjórn.
P.s. Langt síðan ég hef boldað. Felicia lifnaði við í sjúkrabílnum, var ég kannski búin að segja frá því? Stefanía fékk lánað barnið hennar til að efla lífsvilja hennar og það virðist ætla að ganga upp. Taylor, geðlæknirinn geðþekki með varirnar, daðrar ósleitilega við Nick og gengur bara vel við það þar sem Brooke ætlar að bíða með að sofa hjá Nick þar til hjónabandi hans og Bridget, dóttur Brooke, lýkur löglega ... eftir sex mánuði. Big mistake ... Læknirinn hennar Feliciu horfir ágirndaraugum á sjúklinginn sinn, frekar ógeðfellt. Skrifast kannski á skort á leikhæfileikum. Kannski á þetta að vera umhyggja. Bridget er farin að jafna sig eftir barnsmissinn og skilnaðinn og hlakkar til að ala upp Dominic litla sem reyndist vera sonur Dante, en ekki Nicks, sú á eftir að fá sjokk þegar Felicia lifnar við. Jackie er farin að kalla Eric (fyrri mann Brooke og Stefaníu og pabba Ridge, þó ekki blóðföður) darling, þau eru greinilega byrjuð saman, fjör hjá öldruðum. Jackie þráir ekkert heitar en að giftast Eric. Verst að hann er enn kvæntur Stefaníu löglega og það er spurning um sex mánuði þar líka???? Gvuð, Stefanía er að fara með Eric að sjúkrabeði Feliciu, hann hefur syrgt látna dóttur sína, enda veit hann ekki að hún lifnaði við í sjúkrabílnum. Tjaldið fellur.2.1.2008 | 08:55
Svefnleysi, Pink Floyd og valið í lífinu ...
Við Ásta vorum frekar framlágar í morgun, þótt ekkert skorti upp á fegurðina. Eins gott að aðstoðarbílstjórinn frá himnaríki mætti með hressandi latte út í bíl. Lítill svefn hjá báðum, Ásta datt ofan í myndina Ray, ég ofan í nýja og þykka ævintýrabók frá Uppheimum um rúnir og slíkt. Las 160 blaðsíður fyrir svefninn og hlakka til að lesa meira í kvöld. Við Ásta náðum þriggja tíma svefni hvor ... að meðaltali, Ásta tveimur tímum, ég fjórum. Mestu mistökin sem maður gerir er að hugsa að nú sé dagurinn ónýtur vegna of lítils svefns ... þá verður hann nefnilega ónýtur. Held að við báðar höfum náð mun meira en átta tíma svefni hverja nótt síðan fyrir jól og þá höfum við nú aldeilis safnað í sarpinn, áttum þetta svefnleysi bara inni. Komum beint í snjóinn í bænum, (auð jörð á Akranesi) alla vega hér í efri byggðum Hálsaskógar. Á leiðinni hlýddum við á tónleikaútgáfu af Shine on you Crazy Diamond og ég hélt að hann ætlaði aldrei að fara að syngja, þvílíkt langt intró. Tónleikaútgáfur þykja mér yfirleitt hundleiðinlegar en Pink Floyd tókst reyndar ekki að eyðileggja þetta guðdómlega lag alveg með nýjum trillum og dúllum. Fyrri hluti lagsins hér:
http://www.youtube.com/watch?v=O_gmXtxScYs&feature=related
Hér í vinnunni var allt fremur draugalegt þegar ég mætti. Ein samstarfskonan kom reyndar rétt fyrir átta og þá þorfði ég loks að koma undan skrifborðinu. Held að flestir mæti svo kl. 10 eftir svona marga frídaga, minnir að það sé venjan á flestum vinnustöðum þegar hægt er að koma því við. Ef ég hefði ætlað að fremja slíkan lúxus hefði ég misst af fari með drossíu upp að dyrum. Lífið er val! Jamm. Vona að ég muni enn hvernig á að skrifa frábærar og stórkostlegar greinar á ljóshraða ...
1.1.2008 | 17:05
Annáll árins 2007 - allt afhjúpað
Janúar: Bloggaði í sakleysi mínu og barnaskap á blog.central.is þegar vélstýran hugumstóra hringdi í mig og sagði að sér fyndist að Lúrt við Langasandinn-bloggið ætti að færast á Moggablogg. Því hlýddi ég þann 14. janúar fyrir tæpu ári og hef ekki verið söm síðan. Fór oft í bað.
Febrúar: Skrifaði bloggsápu sem verið er að kvikmynda nú með Tom Hanks í hlutverki Guðmundar bloggvinar. Fór rosalega oft í bað.
Mars: Davíð frændi alltaf á spítala, barðist við sama lungnasjúkdóm og Björn Bjarnason. Náði góðum bata, eins og Björn. Fór sjaldan í bað.
Apríl: Fann giftingarsögu Brooke á Netinu: Eric 1991, Ridge 1994, Ridge 1997, Thorne 2001, Whip 2002, Ridge 2003, Ridge 2004.
Maí: Sumarið hófst formlega 16. maí og ég komst loks út án sokkabuxna. Hitti óvænt Sverri Stomsker sem kyssti mig. Það leið þó ekki yfir mig, eins og gerðist hjá Evu frænku og varð blaðamál.
Júní: Tók greindarpróf á Netinu og skorið var ... 87!
Júlí: Komst upp á lagið með að freyða mjólk í espressókönnunni minni, hætti að kaupa kaffirjóma.
September: Keypti ryksuguróbótinn Jónas. Tókst að lokka erfðaprinsinn til að flytja upp á Skaga. Nú koma vinirnir í kjölfarið.
Október: Óvenjulítið að gera hjá Jónasi.
Nóvember: Afbrýðisemi erfðaprinsins út í Jónas veldur stríðsástandi, sá fyrrnefndi dustar rykið af venjulegu ryksugunni. Jónas rykfellur. Fór í jólabaðið.
Desember: Jólin og áramótin. Jónas fékk að ryksuga þrisvar.
Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 31
- Sl. sólarhring: 33
- Sl. viku: 665
- Frá upphafi: 1506018
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 538
- Gestir í dag: 22
- IP-tölur í dag: 22
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni