Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Fínasta áramótaskaup!

Kósí á gamlárskvöld 2007Fínasta skaup. Mörg fyndin atriði. Nenni reyndar aldrei að setja mig í stellingar og bíða eins og herptur handavinnupoki (munnsvipurinn) eftir því að þetta fólk þarna í sjónvarpinu láti mig hlæja stanslaust í klukkutíma. Það er eflaust erfitt að gera öllum til hæfis. Sum atriðin höfðuðu mjög til mín, önnur ekki og það er bara allt í lagi. Gat útskýrt brandarann um hamingjusömu hjónin í fjörunni fyrir erfðaprinsinum, setti nefnilega myndbandið með íslensku, hamingjusömu Herbalife-hjónunum á bloggið mitt fyrr á árinu, ýmsum bloggvinum til skemmtunar. Lúkasinn og bloggvinamótið rosafyndið og fleira og fleira. Hlakka til að horfa á það aftur á Netinu.

Til að þurfa ekki að afplána sirkusinn (slæmar æskuminningar, erfið bið eftir áramótum) setti ég á Stöð 2 plús og ætlaði að sjá Anchorman sem er nokkuð fyndin mynd. Þá voru Stuðmannatónleikarnir enn á, hryllilegt sjónvarpsefni, eflaust gaman fyrir aðdáendur að vera á sjálfum tónleikunum en þetta höfðar ekki til mín í sjónvarpi. Ég hafði reyndar mjög gaman af Stuðmönnum á áttunda áratugnum og Í bláum skugga er enn eitt af uppáhaldslögunum mínum.

Það hvín og blæs í himnaríki en hugumstórir Skagamenn láta rokið ekki aftra sér frá því að sprengja. Ef ég rýni út um gluggann sé ég flugeldana yfir höfuðborgarsvæðinu líka, leitt að skyggni skuli vera svona slæmt.

Það eru 8 mínútur eftir af gamla árinu. Best að fara að varalita sig ... og kyssa svo erfðaprinsinn á báðar kinnar á slaginu tólf! Múahahhaha! Engin áramótaheit verða þetta árið. Las að slíkt yki á streitu. Held að það sé heilmikið til í því.


Fjörið að hefjast!

Gamlárskvöld 2007Við erfðaprinsinn sitjum hérna tvö ein í kósíheitum og höfum verið að horfa á Bubba. Gestirnir fóru í fússi strax eftir matinn af því það var majónes í hrísgrjónasalatinu. Nei, djók. Þau langaði til að leggjast í eigin leisígörls og dorma, enda illa sofin. Landsbankinn á Akranesi var opinn í morgun og þar var Sigþór. Krembrauðsverksmiðjan var líka opin og þar var Mía fremst í biðröðinni fyrir kl. fimm í morgun, það er nefnilega eldgamall siður hér á Skaganum að kreista krembrauð þegar klukkan slær 12 á miðnætti. Það boðar eitthvað æðislegt, eilífa nammidaga og svona.

Maturinn heppnaðist stórkostlega. Samkvæmt Matreiðslubók Nönnu á ekki að sjóða hamborgarhrygg í kássu! Ég frétti það í gær. Sauð því 1,9 kg hrygg í 40 mínútur og lét hann liggja aðeins í soðinu. Svo frétti ég á aðfangadag að maður notaði aldrei blásturinn í ofninum á kjöt, bara kökur, þannig að ég gljáði hrygginn í 10-15 mín í sjóðheitum ofni án blásturs. Þetta varð líka safaríkasti og besti hamborgarhryggur í manna minnum í himnaríki. Reyndar sá fyrsti síðan ég flutti. MaturinnMía sósusnillingur bjó til gljáann og gerði líka hrikalega góða sósu með. Ég hætti við að brúna kartöflurnar þar sem sykurhúð var á hryggnum og sætt ávaxtasalatið í Einarsbúð fullnægði allri sykurþörf, það reyndist vera rétt ákvörðun.
Þegar ég bauð systur minni og mági sagði ég þeim í leiðinni að þau mættu alveg fara strax eftir matinn og þyrftu ekkert að hanga yfir okkur allt kvöldið ef þannig stæði á. Þau virtust alveg dauðfegin að sleppa, elsku dúllurnar. Fyrsta verk þeirra, eftir að erfðaprinsinn skutlaði þeim heim, var að fara í gönguferð til að gefa krummunum ýmsa afganga úr frystinum. Svo átti bara að setjast niður og hafa það gott yfir sjónvarpinu.

Við erfðaprins horfum t.d. alltaf á annál ársins á Stöð 2. Á nýársdag sest ég svo niður og glápi á RÚV-annálinn í endursýningu. Eftir þann gjörning sleppi ég tökunum á gamla árinu og hugsa aldrei um það aftur ... ALDREI!!! Maður lifir sko ekki í neinni fortíð á þessum bæ. Jæja, annállinn er byrjaður ... það heyrist líka í flugeldum, æði!
 

Er að hugsa um að skrifa smá blogg-annál á morgun. Ótrúlegustu hlutir hafa gerst á árinu, ég mun birta sjokkerandi myndir og afhjúpa dularfull atvik. Ryksuguróbót, Sverrir Stormsker og fleiri stórmenni munu leika stór hlutverk.


Gleðilegt ár!

Himnaríki lengst til hægriFór í áramótabíltúr með erfðaprinsinum undir hádegi og tók myndavélina með. Kann samt ekki við að birta enn eina myndina af vita, það gæti fattast. Sáum að Einarsbúð var opin og drifum okkur inn til að kaupa the salat, eitthvað sem Einarsbúð er svo fræg fyrir. Sætt og gott ávaxtasalat með hamborgarhryggnum. Ætlaði að kaupa svona með matnum á aðfangadagskvöld en biðröðin í kjötborðið var svooooo löng á Þorláksmessu. Náði að kyssa elsku kaupmannshjónin, sem ég hef þekkt næstum frá fæðingu, og óska þeim gleðilegs árs. Ellý var stödd þarna líka svo við erfðaprins gátum kysst hana líka. Hún keypti mikið af flugeldum, sagði hún, enda algjör stelpa í sér, hefur mjög gaman af sprengingum og látum. Hún fussaði þegar við erfðaprins spáðum því að hún þyrfti að geyma meirihlutann til þrettándans. Ætluðum að kíkja í Skrúðgarðinn á eftir og kaupa heitt súkkulaði en væntanlega var lokað kl. 12. Knúsa bara Maríu eftir áramótin.  
Mía systir og Sigþór mávur ætla að koma í mat til okkar í kvöld og verður frábært að fá þau. Alltaf hátíðlegra þegar það eru fleiri.

Ef ég næ ekki að blogga meira áður en hátíðin gengur í garð þá vil ég óska ykkur öllum innilega gleðilegs árs. Megi nýja árið færa ykkur ómælda gleði.  


Stormurinn byrjaður ...

Hviður á KjalarnesiVið erfðaprins ákváðum í morgun að skella okkur á bíó í bænum, Kópavogi of all pleisis, og sjá Gyllta áttavitann. Við vissum svo sem að það ætti að hvessa seinnipartinn en á straumlínulaga kagga kemst maður heim í meira roki en t.d. strætó sem fer ekki ef það eru yfir 30 m/sek í hviðum. Það voru ekki nema 17 m/sek hviður á Kjalarnesi skv. skiltinu í Mosó. Þar sem hviðumælirinn er staðsettur var ljómandi veður en þegar nær dró Hvalfjarðargöngunum og við vorum komin framhjá Grundahverfinu var orðið svolítið blint. Mun meira rok en mælirinn sagði til um feykti snjó yfir veginn og þurftum við að aka hægt og varlega. Svo sáum við nokkra bíla stopp þarna og greinilega hafði orðið árekstur. Einn bíll kominn út af. Vona innilega að enginn hafi slasast. Snilldarökumaðurinn, sonur minn, reyndi að gera bílunum á móti viðvart með því að blikka nokkrum sinnum háu ljósin og vonandi komst það til skila. Fórum til öryggis venjulegu leiðina heim á Skaga en hefðum átt að fara neðri leiðina. Heilmiklir hálkublettir á leiðinni og ekki mjög þægilegt heldur að vera með bíl í rassg... alla leiðina frá göngum. Nú á að fara að rigna og þá þarf að koma fyrir handklæðum og dagblöðum við svaladyrnar, gaman, gaman.

Lýra í Gyllta áttavitanumVið skemmtum okkur konunglega á myndinni, ég bauð prinsinum meira að segja í lúxussal, aldrei keypt mig inn á lúxussýningu áður. Það var ansi notalegt að liggja í leisíboj og maula poppið. Fína og fræga fólkið lét sig ekki vanta. Fyrir aftan okkur sátu Bubbi Morthens og sonur hans og í sömu bekkjarröð Einar Bárðar og elskan hún Áslaug, konan hans. Áslaug var fulltrúi Icelandair í blaðamannaferð sem ég fór í til Þýskalands fyrir nokkrum árum og reyndist alveg frábær. Gaman að hitta hana í hléinu. Eins og ég sagði þá var myndin frábær og mæli ég hiklaust með henni!!!

 ------     ------------        ---------     ---------       ---------

West HamRosalega hefði verið gaman að vera á leik MU og West Ham í dag, arggggg! Mig langar mikið að sjá þessi tvö keppa læf. Það stendur til að fara í West Ham-fótboltaferð til Englands eftir áramót, kannski í febrúar. Ég á miðana og ætla að bjóða erfðaprinsinum með, Mía systir og Sigþór, mávur minn, koma líka en Sigþór er formaður West Ham aðdáendafélagsins á Akranesi, jafnvel á öllu landinu.

Mía og Sigþór gáfu erfðaprinsinum svona treyju í jólagjöf. Ég fékk náttkjól frá þeim ... fegin að það var ekki nál og tvinni. Sjúkkittt! Erfðaprinsinn segir mér að þessi leikmaður sé kominn yfir í MU, sá hlýtur að vera spældur í dag ... múahahhahahaha ...  


mbl.is Stormi spáð á öllu landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsilegt næturlíf himnaríkis

HimnaríkiðDaginn sem ég flutti í himnaríki, 10. febrúar 2006, ríkti mikil hræðsla og ógurlegt óöryggi hjá Kubbi og Tomma. Steingerður flutti mig, expressóvélina og kettina í hundabúri upp á Skaga og köttunum var komið fyrir inni á stóru baðherberginu við komu. Kubbur fann sér samstundis öruggari stað inni í tómum baðskáp. Hún þrýsti trýninu fast upp að veggnum svo sá á henni í nokkra daga á eftir. Þetta voru vel uppaldir kettir sem sváfu ekki í rúminu hjá „mömmusín“, heldur í eigin rúmum annars staðar í íbúðinni við Hringbraut. Þegar flutningamennirnir höfðu borið upp búslóðina og höfðu kvatt með kossi (minnir mig) þurfti að sinna elskunum hræddu. Ég bjó um mig í meyjarskemmunni og hvatti kettina til að lúlla hjá mér. Bara í þetta eina sinn ...

Ekki er allt sem sýnistNúna, tæpum tveimur árum seinna, er kominn ákveðin hefð á þessi mál. Kubbur eignaði sér rúmið mitt með tímanum og hefur rekið Tomma þaðan með harðri loppu ef hann reynir að koma, Tomma tekst að lauma sér ef Kubbur hefur sofnað undir sænginni hjá mér. Jamm, það er allt látið eftir þessum elskum. Þegar erfðaprinsinn flutti í himnaríki í september sl. helgaði Tommi sér rúmið hans og þangað má Kubbur ekki koma. Kettirnir reka hver annan úr rúmum okkar erfðaprinsins og við fáum engu um þetta ráðið. Fjölbreytni í gæludýrum er því ekki fyrir hendi. Ég sef með stelpunni og erfðaprinsinn með stráknum. Að vísu hef ég á tilfinningunni að Kubbur sé bara að svæfa mig með mali því að hún fer oft fram í stofu eftir smástund og sefur þar, held ég.

Nývöknuð Kubbur í rúmi Þessi óvænta og hreinskilna opinberun á næturlífi himnaríkis var í boði himnaríkis. Gæti sagt öllu svakalegri sögur síðan ég var yngri og bjó á Hringbrautinni með biðla í röðum og innbrot Fjólu the cat á viðkvæmum augnablikum ... en legg það ekki á prúða bloggvini mína. Hef reyndar sagt æsilegustu söguna hér, þegar ókunni, fulli maðurinn komst alla leið á rúmstokkinn hjá mér og fór að klappa Fjólu, sem lá til fóta hjá mér, í stað þess að hlýða mér strax og yfirgefa staðinn. Verndari heimilisins, 11 ára gamall erfðaprinsinn, varð alveg æfur yfir því að ég vakti hann ekki svo hann gæti fleygt manninum út með handafli. Svo stækkaði hann og stækkaði og hefur fleygt öllum biðlum út jafnóðum. Á nýja árinu þegar hann ætlar að finna sér eigin íbúð kvikna þá væntanlega vonir hjá einhverjum.

Eru karlmenn veikgeðja?

Tommi að sjóða fiskKarlmenn eru veikgeðja ... þegar kemur að vælandi gæludýrum. Bara í virðulegri fjölskyldu minni má finna tvö dæmi; erfðaprinsinn og mág minn. Í himnaríki má Tommi ekki væla á sérstakan máta, í frekjulegum vælutón eins og hann sé að deyja úr hungri, þá hleypur erfðaprinsinn upp til handa og fóta og gefur honum uppáhaldsmatinn (blautfæði frá Whiskas úr litlum poka) þótt báðir matardallarnir séu blindfullir af þurrmat. Það eru sko farnar sérferðir út í Einarsbúð til að kaupa nammið fyrir Tómas. Kubbur vill bara alvörukattamat, þurrmat, og hleypur í burtu ef reynt er að gefa henni eitthvað annað, túnfiskur í vatni freistar þó stundum!

Bjartur í pössun í himnaríkiErfðaprinsinn er þó ekkert á við mág minn sem þrammar daglega út í fiskbúð, að sögn systur minnar, og kaupir ferskan fisk fyrir Bjart sinn. Yfirleitt er þríréttað hjá Bjarti. Þurrmatur, blautmatur og nýsoðinn fiskur. Rækjur og rjómi þegar systir mín sér ekki til?

Getur þetta verið rétt? Leika kettir sér að tilfinningum karla? Fresskettir í þokkabót! Já, þessi hávísindalega rannsókn mín sýnir svo ekki verður um villst að grábrúnbröndóttir og hvítir fresskettir opinbera veikleika karlmanna. Þann eina sem ég hef rekist á hingað til. Að öðru leyti eru karlmenn fullkomnir. Heart


Breiðholtshatarinn, fólkið mitt frá Pakistan og fegurðarsamkeppni femínista

Meira af Þorláksmessupartíi Breiðholtshatarans: Þegar einn virtasti leikstjóri landsins kom þangað hitti hún fyrir eina virtustu leikkonu landsins, þjóðargersemi á áttræðisaldri. „Hvernig þekkist þið eiginlega?“ spurði virti leikstjórinn Breiðholtshatarann. Breiðholtshatarinn, rétt rúmlega þrítugur, greip utan um þjóðargersemina og svaraði: „Við kynntumst á einkamal.is!“ Og allir gleyptu við  þessu. Það þorði alla vega enginn að hlæja. Enginn veit hvernig ástamálum 101-skrílsins er í raun háttað. Það gæti þótt kúl að eiga ömmulega kærustu.

Gestabókarfærslan 1976Hér er stillt á Sky News, við erfðaprins horfum gáttuð á fréttir frá Pakistan um morðið á Benazir Bhutto. Þegar ég var au pair í London fyrir um 30 árum kynntist ég pakistanskri konu, Mrs. Rehana Zubair, sem var með syni sína í sama skóla og börnin sem ég gætti. Við urðum góðar vinkonur þótt nokkur aldursmunur væri á okkur. Mig minnir að maðurinn hennar hafi verið í vinnu í London fyrir ríkisstjórn sína (kannski njósnari?) en ég hitti hann aldrei. Ég fræddist aðeins um landið hennar og þegar hún sagði mér að það væri stundum rosalega kalt þar ákvað ég að gefa henni lopapeysuna mína, það styttist í heimför hjá henni. Hún varð svolítið skrýtin á svipinn, sagði að það tíðkaðist ekki í heimalandi hennar að yngri konur færðu sér eldri manneskjum gjafir en þáði samt peysuna. Nokkrum dögum seinna gaf hún mér fallega útsaumaða mussu sem ég gekk mikið í. Ég hugsa oft til hennar þegar ég sé fréttir frá Pakistan. Á þessum árum átti ég gestabók (II. bindi), allir sem heimsóttu mig skrifuðu í hana og m.a. skólabróðir minn frá Pakistan sem kom einu sinni í kaffi í 57 Park Drive. Hann safnaði frímerkjum og ég átti mikið af íslenskum frímerkjum, fékk mörg bréf til London. Rehana varð skrýtin á svipinn þegar hún las skrifin hans (á úrdú) og sagði flissandi að þetta hefði verið afar kurteisleg ástarjátning hjá honum. Hún bætti því við að hann skrifaði ótrúlega fallega skrift. Ég fann gestabókina og þess vegna er ég með nafnið hennar á hreinu. Vona innilega að henni og fjölskyldu hennar hafi farnast vel í lífinu.

FegurðarsamkeppniFegurðarsamkeppni femínista. Að reyna að gera grín að fólki er ekkert annað en tilraun til að þagga niður í því. Hélt að allir eðlilegir karlar vildu hag mæðra sinna, eiginkvenna og dætra sem mestan og að þær fengju sömu möguleika í þjóðfélaginu og þeir sjálfir.

Margir þeirra virðast kjósa að misskilja málflutning femínista sem aðför að karlmönnum, hafa tekið hluti úr samhengi, velt sér upp úr aukaatriðum, hafa gert femínistum upp skoðanir og líka reynt að finna „meira viðeigandi“ viðfangsefni fyrir femínista (Hvar eru femínistar nú? Ættu þeir ekki að berjast fyrir þessu?) og svo framvegis.

Ef allri orkunni, sem hefur verið eytt í að níða niður málflutning femínista, væri beitt til að jafna hlut kvenna og karla þá værum við í betri málum. 


Krumminn á svölunum

Kubbur og krummiKrummarnir hafa verið flögrandi allt í kringum um himnaríki í dag, greinilega svangir. Ég setti smá brauð út á svalir og vona að þeir þori að gæða sér á því með æsispennta Kubbsu hinum megin við gluggarúðuna.

Hér í himnaríki hefur verið afar rólegt. Við erfðaprins hituðum upp kalkún í gær með öllu tilheyrandi og notuðum að sjálfsögðu nýja, flotta örbylgjuofninn til þess. Matseðillinn í dag verður alveg eins. Í dag á bara að hafa það rólegt og notalegt. Kvefið er á undanhaldi og með þessu áframhaldi verður það horfið fyrir áramót. Vegna slappleika aflýsti ég árlegu hangikjötsboði sem átti að vera í gær. Sem betur fer, veðrið var nefnilega frekar slæmt og ekki gaman að fá fólk frá Reykjavík í fljúgandi hálku og hríðarveðri. Held samt að Mía systir hafi fengið akandi úr bænum-gesti í hangikjötið í gær. Þarf að hringja í hana á eftir og tékka á málum. 

Sound of MusicTókst að ljúka við Eldvegg Hennings Mankell í nótt, sannarlega spennandi bók. Nú eftir áramót þegar húsfélagsformaðurinn fer út á sjó með hana í farteskinu á hann lítið eftir að elda fyrir áhöfnina, hann mun liggja í bókinni.

Núna kl. 14 verður Sound of Music sýnd á Stöð 2. Ég hlakka mikið til þótt ég eigi reyndar myndina. Á ferðalagi á Írlandi einu sinni sá ég blað, aukablað sunnudagsblaðs, þar sem afdrif barnanna úr Sound of Music komu fram.  Sagan um að yngsta stelpan hefði dáið í bílslysi á frumsýningarkvöldinu var ósönn, stelpuskottið er enn í fullu fjöri, næstum hundrað árum eftir að myndin var fyrst sýnd. Skrifaði að sjálfsögðu grein um Tónaflóðsbörnin í Vikuna skömmu eftir heimkomu.  Reyni að finna blaðið og setja þetta svo á bloggið. Hvern langar ekki að vita hvað blessuð börnin tóku sér fyrir hendur?

West Ham – Reading í dag, mikið vildi ég að það kostaði ekki svona mikinn pening að vera áskrifandi að Sýn 2 ... ekki séns að ég nenni út á pöbb að horfa ... þótt ég gæti ábyggilega lent á séns þar ...  


Dýrðarinnar aðfangadagskvöld ...

Jólaborðið 2007Mikið var þetta yndislegt aðfangadagskvöld.  Ekki verra að fá þrumur og eldingu, hefði bara mátt vera svo miklu, miklu meira ... var því miður í leisígörl þegar eldingin kom en ekki úti í glugga.

SmjörsprautunargræjanOkkur Ingu reiknaðist til að kalkúnninn yrði tilbúinn kl. 19.20 og það passaði alveg. Þess vegna gátum við sest niður og spjallað saman á meðan kalkúnninn mallaði. Inga var nefnilega búin að undirbúa næstum allt annað. Maturinn heppnaðist ofboðslega vel. Ég varð svolítið hrædd þegar ég sá skrýtið áhald sem Inga hélt á og líktist helst stólpíputæki, eins og ég ímynda mér að það líti út. Nei, þetta reyndist vera voða flott amerískt smjörsprautunargræja, smjörið í forminu var sogið upp í hana og svo sprautað yfir kalkúninn, aftur og aftur og aftur. Inga bjó til ananasfrómas í morgun og það var eftirrétturinn. Næstu þrjá daga munum við erfðaprins borða kalkún og meðlæti.

Jólagjafirnar og Jónas í baksýnJólagjafirnar voru bara snilld. Kvenlegur, rósóttur hamar, rósóttur tommustokkur og rósótt hallamál vakti mikla lukku, alvörugræjur. Svo fékk ég óskabókina Konur eru aldrei hamingjusamar því þær eru með svo LITLAN heila – og karlar rosa pirrandi.
Fleira flott; m.a. hvít rúmföt, hitapoka, nammi, skálar, bækur, DVD (Tell no one, spennandi franska mynd), handklæði, náttkjól ... og hvorki meira né minna en örbylgjuofn!

Rúnar og Gísli Ingusynir að kveðjaVið spiluðum spil sem heitir Life, eitthvað slíkt, og var með vísan í Simpsons-fjölskylduna og aðra íbúa Springfield. Það var svo flókið að hver umferð tók næstum hálftíma, þá er ég að tala um hringinn hjá okkur fimm. Svo gekk þetta hraðar eftir því sem við lærðum betur á það. Ég sigraði ... stóð uppi með rúmlega 1,5 milljón dollara þótt ég hafi kosið að ganga ekki menntaveginn (í spilinu). Lengi vel var ég Hómer en c.a. um miðbikið mátti ég skipta um starfsgrein, dró mér miða og varð kennslukonan (Miss Krappabel). Erfðaprinsinn, sem menntaði sig, (Comic Book Guy) lenti í öðru sætinu. 

Nú eru gestirnir farnir og uppþvottavélin malar værðarlega. Mig langar mest að halda í bólið með Henning Mankell, kiljan (Eldveggur) sem kom út eftir hann fyrir jólin er algjör dýrð, ég er langt komin með hana og lofaði að lána húsfélagsformanninum hana út á sjó eftir áramótin. Hann er hrifinn af bókum Mankells eins og ég. Wallander minn er mjög ólíkur Wallander í kvikmyndunum sem hafa verið gerðar eftir bókunum, minn er þónokkuð sætari þótt hann sé enginn sykurgrís og mun skemmtilegri.

Þið sem ekki eruð farin að sofa, reynið að leggja á minnið drauma ykkar í nótt, það er víst svo mikið að marka það sem mann dreymir á jólanótt!

Jólagaldrar ...

Jólin jólinHér er hlustað á guðdómlega, rólega og notalega Rás 1 og jólin tekin beint í æð. Hellingur af jólapökkum undir ja ... það er reyndar ekki jólatré í himnaríki, nema eitt pínulítið glitrandi, gert úr herðatrjám og keypt á 1.500 kall fyrir mörgum, mörgum árum af föndurkonu. Kaupin á jólatrjám í gegnum tíðina hafa miðast við smæð íbúðarinnar á Hringbraut, 56 fermetra íbúð ber ekki mjög stórt jólatré. Nú er himnaríki helmingi stærra (og var nokkuð ódýrara) og ég er ekki enn búin að venjast því. Veit ekki einu sinni hvar á Akranesi jólatré eru seld! Við erfðaprins erum á leiðinni út í Einarsbúð til að kaupa það allra, allra síðasta til að jólin geti komið, svona eins og smjör og kattasand. 

Elsku dúllurnar mínar. Óska ykkur innilega innilega gleðilegra jóla. Svo koma galdrarnir: Ég mæli svo um og legg á að þið fáið fullt af jólapökkum, hörðum og góðum, sem líta út eins og bækur ...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 626
  • Frá upphafi: 1506025

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 512
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband