Færsluflokkur: Vefurinn
19.10.2008 | 17:53
Fésbókarvera ... og sorgleg afdrif Bjarts
Ég skráði mig á Fésbók fyrir tveimur vikum og þótt ég kunni lítið á umhverfið þar hefur mér þó tekist að taka þátt í ýmsum stórmerkilegum könnunum sem mér hafa verið sendar af velmeinandi fésvinum. Ég var t.d. Pablo Picasso í fyrra lífi, Chandler í Friends og réttur aldur minn er 38 ára, ekki 50 ára ... ég svindlaði bara oggulítið í síðastnefnda prófinu og skildi ekki allar spurningar fullkomnlega en þetta er samt hárrétt útkoma. Erfðaprinsinn (28) er 43 ára samkvæmt prófinu, hann hefur greinilega gert einhver mistök. Í morgun reyndi ég að finna út hvaða Harry Potter-persóna ég væri en eftir að hafa svarað samviskusamlega öllum spurningunum ýtti ég líklega á rangan hnapp og fékk upp síðu sem tengist ástarkjaftæði. Nú fæ ég aldrei að vita hvort ég er Harry sjálfur eða jafnvel Snape! Ég kem alltaf út sem karlmaður í þessum prófum sem mér finnst mjög grunsamlegt þar sem ég er svo mikil dama.
Hét mér því, þegar erfðaprinsinn píndi mig til að skrá mig í Fésbók að þetta yrði ekki sami tímaþjófnaðurinn og bloggið og hef staðið við það. Ég á orðið heilan helling af mjög flottum fésvinum sem ég vanræki eins og flesta aðra vini, bæði í bloggheimum og raunheimum.
Ég auglýsti eftir Bjarti á blogginu mínu á dögunum, heittelskuðum ketti systur minnar og mágs sem búa hér á Skaganum. Sæta kettinum sem ég passaði stundum þegar eigendurnir fóru í ferðalög. Bjartur er kominn í kattahimnaríki, elsku karlinn. Ekkert sá á honum þannig að dulin veikindi hafa líklega hrjáð hann. Hann átti einstaklega gott líf þessi sex ár sem hann lifði og hans verður sárt saknað.
15.10.2008 | 23:17
Höfundur kreppujeppanna, smá bold og nýja faðmlagakerfið
Þegar Halldóri frænda leiðist þá gerist alltaf eitthvað skemmtilegt. Hann dúllaði sér m.a. við að gera Game Over-jeppann sem hefur ferðast helling um netheima. Nú hefur hann skapað nýjan bíl (myndin til hægri) sem segir allt sem segja þarf, eins og hinn. Það er kannski ljótt af mér að segja þetta ... en vonandi leiðist honum sem oftast!
Boldið var svakalegt í dag. Stefaníu tókst með klækjum að rústa flottu tískusýningunni fyrir mæðginunum Nick og Jackie. Eftir að glæstar stúlkur höfðu sýnt línuna hans Garrisons (heitir leiðinlegi hönnuðurinn það ekki?) rotaði Thorne hann og Stefanía lét gamla skipperinn sem keypti afnot af Jackie í gamla daga ganga eftir pallinum í stað Garra, öllum til undrunar, líka þeim gamla sem hélt að hann væri í öðrum erindagjörðum, eða að hitta hina fögru Jackie aftur sem saknaði hans eða eitthvað. Steffí fór síðan í hátalarakerfið og kynnti þann gamla sem einn af fjölmörgum elskhugum Jackie sem hefði unnið fyrir sér sem hóra á árum áður. Með þessu vonaði Steffí að stjórn Forrester-tískuhússins heimtaði að það fari aftur í hendur gömlu og réttmætu eigendanna. Taylor, sem er við það að fara að giftast Thorne, hitti bróður Thornes og fyrrum eiginmann sinn til margra ára, hann Ridge, og komst að því hjá honum að eitthvað væri í bígerð. Hún mætti með Ridge á tískusýninguna en of seint. Steffí, móðir Thorne og Ridge og fyrrum og tilvonandi tengdamóðir Taylor, rústaði Jackie fyrir framan elítuna í tískubransanum og fjölda fréttamanna. Tjaldið féll þarna og við tók óbærileg bið eftir næsta þætti sem verður kl. 17.28 á morgun.
P.s. Áríðandi viðbót. Hef ákveðið að loka á faðmlagakerfi mbl.is hjá mér vegna neyðarástands ... a.m.k. í bili! Hef nefnilega fengið c.a. 40 faðmlög bara frá einum bloggvini sem er ekki einu sinni karlkyns ... og litla pósthólfið mitt stíflaðist. Þetta er einhver bilun, viðkomandi bloggvinkona sendi mér bara eitt "knús" og segist hafa fengið mörg frá mér. Ef ég væri t.d. snertifælin væri ég hreinlega komin í köku við allt þetta knús ... hvað er moggablogg að pæla? Kommon, ég á ketti! Er þó búin að endurgjalda knús til þeirra sem sendu mér en nú er allt lok, lok og læs. Já, ég er vond manneskja.
Vefurinn | Breytt 16.10.2008 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.6.2008 | 18:42
Heilmikill söknuður ...
Fyrir nokkrum árum keypti ég mynd og hengdi hana upp á baðvegg hjá mér. Þetta er þekkt mynd sem sýnir brjálað brim og risaöldu sem næstum gleypir vita.
Vitavörðurinn stendur sallarólegur í dyrunum ... eða hvað? Af einskærum brimsöknuði kíkti ég á elsku youtube og fann m.a. áhugaverðar upplýsingar um þessa mynd og að auki klikkaðislega flott myndband af brimi.
Mjög rólegt hefur verið við Langasandinn í sumar og mig hungar í flott brim. Fæ væntanlega góða útrás fyrir það með því að horfa á þessi flottheit aftur og aftur. Þannig verður líka miklu auðveldara að bíða eftir blessuðum haustlægðunum.
Endilega kíkið: http://www.youtube.com/watch?v=fapXUqagiFQ&feature=related
Og hér kemur flotta myndbandið, góða skemmtun:
27.6.2008 | 02:14
Keðjubréf, bæjarferð, Rambo og blúnduhegðun
Þá er ég búin að fá 16 tölvupósta um að kaupa ekki bensín á sumum bensínstöðvum. Ég á ekki bíl! Ég fæ mjög reglulega senda raðpósta, brandara, áskoranir, keðjubréf og fleira. Stundum hef ég sent til baka: Þetta var 23 bréfið um lífsbaráttu kvenna í Afghanistan, nú hlýt ég að fara að ná þessu! Jamm, ég held að ég sé að breytast í nöldurskjóðu. Þetta er ekki illa meint og hvernig á fólk sem ég á í litlum samskiptum við að vita að ég er nauðug á svona 200 póstlistum? M.a. hjá fólki sem ég þekki EKKERT! Ætla að vera jákvæð og hætta að líta á þetta sem ofbeldi. Alltaf gott að láta safna sér. Maður er a.m.k. ekki einmana á meðan maður eyðir t.d. tilkynningum um heppni sína í nígeríska lottóinu, já, það líka.
Við erfðaprins fórum í stutta bæjarferð í dag og ég kíkti aðeins við í vinnuna til að sækja mér blöð. Kvartaði við Vikugellurnar um misbrúnku handleggja og þær hlógu illgirnislega að óláni mínu. Nú fer sumarleyfinu að ljúka ... og líklega góða veðrinu líka. Samkvæmt veðursíðunni minni www.yr.no fer að rigna upp úr helgi. Hægt er að setja velflesta, kannski alla staði Íslands inn og á íslensku, og fá greinargóða veðurspá og langtímaspá. Á ensku eða norsku. Um daginn kíkti ég á Kleppjárnsreyki, þar sem sumarbúðirnar eru, (www.sumarbudir.blog.is) á síðunni og spáð var rigningu ... en eintóm sól hefur skinið þar í bráðum þrjár vikur. Stöku skúrir og búið! Mun sannarlega sólbaðast hér á Skaganum á morgun ... og ætla að muna að hylja hægri handlegginn.
Við flýttum okkur heim fyrir leikinn ... sem var síðan ekkert rosalega spennandi. Vona að úrslitaleikurinn á sunnudaginn verði betri! Við flýttum okkur líka heim því að við héldum að Bjartur gestaköttur yrði sóttur í kvöld en Sigþór pabbi hans hringdi snemma í kvöld og sagði að það yrði seinnipartinn á morgun (föstudag, já, ég er að blogga um miðja nótt)
Hér var horft á Rambo á vídjó í kvöld, rosaleg mynd. Mér fannst hún þrælgóð en þurfti nokkrum sinnum að loka augunum yfir ofbeldisfyllstu atriðunum. Einhver smá blúnda í mér.
Sá fyrr í vikunni Sense and Sensibility (BBC-þættina) og fannst það ekkert leiðinlegt. Einhver gömul væmni virðist vera að taka sig upp án nokkurrar ástæðu. Veit ekki hvar þetta endar. Þið hnippið kannski í mig kæru bloggvinir þegar ég fer að skrifa um fótbolta og Formúlu af viðbjóði!
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.5.2008 | 19:22
Prestar í kröppum dansi
Eftir sjokkerandi tvo fréttatíma í röð ákvað ég að gefa sjónvarpinu frí í kvöld, kannski bjóða erfðaprinsinum út að borða og síðan á Bónusvídeó. Samskipti okkar mæðgina hafa of lengi einskorðast við kommentakerfi bloggsíðna okkar (fylgifiskur tækninnar) og nú verður gerð bragarbót á.
Til að gera ástkærum bloggvinum mínum laugardagskvöldið léttbærara skellti ég inn hressilegu vídjói þar sem prestar koma oftar en ekki við sögu. Góða skemmtun.
27.4.2008 | 15:03
Spádómar þínir, Nostradamus ...
Fyrir einhverjum árum var mikil stemmning fyrir spádómum Nostradamusar. Stór galli er að erfitt er að tímasetja hlutina en mér sýnist á öllu að ég verði væntanlega komin undir græna torfu þegar allt verður vitlaust. Sérfræðingar í þessum málum segja t.d. að anti-kristur hafi fæðst í júlí 1999, líklega asískur, þannig að allar ásakanir um að George W Bush sé sá vondi eru greinilega úr lausu lofti gripnar. Hér koma til gamans 30 fyrirsagnir úr einni þýðingunni og þær fyrstu eiga ágætlega við þjóðfélagsástandið ... og einnig það sem ég ætla að gera 1. maí nk., eða að mótmæla verðbótum lána sem renna óskiptar til bankanna. Vona að ég verði ekki gösuð. Árið 2066 lýkur öllu þessu slæma og spádómar Nostradamusar öðlast viðurkenningu. Góða skemmtun! Til að lesa miklu, miklu nánar um þetta bendi ég á: http://www.snerpa.is/net/nostri/nostr3.htm#uppgangur
Óþarfi að óttast ... þetta er bara úr bók! Bara pæling á lötum sunnudegi eftir lestur á Netinu. Vona að Guðmundur Sigurfreyr fyrirgefi mér að birta þetta!
1. Skapadægur neyslusamfélagsins. Verðbólga og gerræði. Spádómar Nostradamusar rætast
2. Nauðungaruppboð og vaxandi vantrú á getu stjórnmálamanna
3. Efnahagskreppa. Hrun verðbréfamarkaðarins
4. Samsöfnun auðs á fárra hendur og vaxandi þörf fyrir lánsfé
5. Almenningur jafnar reikninginn við vestrænar bankastofnanir
Musterin, þar sem Vesturlandabúar geyma fjársjóði sína á leyndum stöðum, verða brotin upp af hungruðum [lýðnum] sem endurheimtir auðæfin og vinnur ótrúleg spellvirki.Meðal þeirra verða hræðilegar óspektir.
6. Þverrandi trú á stjórnmálamönnum vegna verðbólgu. Glundroði í París
7. Efnahagslegt öngþveiti leiðir til styrjaldar. Beiting kjarnorkuvopna
8. Fjármálakreppa. Stríð á Vesturlöndum
9. Efnahagskreppa og almennur skortur
10. Hörmungartímar renna upp. Ringulreið í Frakklandi og á Ítalíu
11. Afvopnunarviðræður stórveldanna
12. Samningar um vígbúnað og undirbúningur undir nýtt stríð
13. Fráfall háttsetts ráðamanns færir yngri manni völdin
14. Friðarsáttmálar rofnir
15. Friðarsamningar vanvirtir. Sundurlyndi meðal Frakka
16. Egyptar efna til ófriðar við vinátturíki Rússlands. Hryðjuverk í Þýskalandi
17. Friður á Vesturlöndum undanfari stórstyrjaldar
18. Þrettán ára friðsamleg sambúð tveggja stórvelda fyrir bí
19. Aðvörun Nostradamusar. Hungurdauði og undirokun. Hernaðaraðgerðir að frumkvæði hávaxins þjóðarleiðtoga
20. And-Kristur birtist fyrir upphaf Vatnsberaaldarinnar
21. And-Kristur fæðist í júlí árið 1999
22. Trúarleiðtogi þjarmar að andstæðingum sínum. And-Kristur í leikhúsi
Stofnandi sértrúarhreyfinga veldur þeim er sakfella hann mikilli sorg.Dýrið verður í leikhúsinu
[þegar] látbragðsleikurinn er undirbúinn.
23. Dýrið sem varð heilt af banasári sínu
24. Dýrið frá jörðinni
25. Maður blóðsins: Bandaríkin á hátindi máttar síns.
26. Samvinna Bandaríkjamanna og annars stórveldis.
27. Kosning and-Krists. Hann lifir fábrotnu lífi og beitir voldugar þjóðir ofríki
Lævís maður verður kosinn án þess að láta nokkuð uppi. Hann leikur dýrling og lifir fábrotnu lífi. Síðan gerist hann skyndilega yfirgangssamur og beitir öflugustu þjóðir gerræði.
28. And-Kristur kyndir undir ófriði. Írak gegn Ítalíu
29. Yfirstjórn Bretlands í höndum Bandaríkjamanna. Kuldakast í Skotlandi. And-Kristur
30. And-Kristur ræður niðurlögum þriggja ríkja. Dómsdagsstríðið varir í tuttugu og sjö ár
14.4.2008 | 00:06
Baggalútar og Norrisar
Eins og flestir aðrir Íslendingar kíki ég reglulega á Baggalútana mína, www.baggalutur.is. Ég féll fyrir þeim þegar ég sá fyrir nokkrum árum fréttina: Kona nær bílprófi. Sá einstæði atburður ...
Hér til hægri er nýlegt skrípó frá þeim:
Nokkrir Norrisar í vikubyrjun:
Það tekur Chuck Norris 20 mínútur að horfa á 60 mínútur.
Chuck Norris byggði Róm á einum degi.
Chuck Norris á ekki eigið hús. Hann gengur inn í hús af handahófi og íbúarnir flytja.
Chuck Norris ber ábyrgðina á offjölguninni í Kína. Hann stóð fyrir karatekeppni í Peking eitt árið og allar konur innan 1.000 kílómetra radíuss urðu samstundis ófrískar.
Chuck Norris leikur ekki guð. Leikir eru fyrir börn.
Chuck Norris getur margfaldað með núlli.
Hjá sumum karlmönnum er vinstra eistað aðeins stærra en það hægra. Hjá Chuck Norris er hvert eista stærra en hitt.
Bermúdaþríhyrningurinn hét áður Bermúdaferhyrningurinn, eða þar til Chuck Norris tók hringspark og sparkaði einu horninu á brott.
Þegar Chuck Norris spilar Matador hefur það áhrif á efnahagsástandið í heiminum.
Chuck Norris drekkur napalm við brjóstsviða.
Skamstöfun efnaformúlu hins hættulega eiturs cyanide er CN, alveg eins og upphafsstafir Chuck Norris. Það er ekki tilviljun.
Chuck Norris sefur með koddann undir byssunni sinni.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.4.2008 | 00:56
Aldrei of illa farið með góðan dýrling ...
Ég hef alltaf verið svolítið veik fyrir sögum af dýrlingum. Einu sinni sendi Nanna vinkona mér hlekk á kaþólska vefsíðu þar sem mátti finna ALLT um dýrlinga. Á þessum tíma vann ég á Útvarpi Sögu, sem á þeim tíma var í eigu Fíns miðils og þar var bara leikin íslensk tónlist. Ég hóf hvern þátt á því að fjalla aðeins um verndardýrling dagsins. Allir eiga sér nefnilega verndardýrling, þjóðir, starfsstéttir og meira að segja piparsveinar sem eiga sér heila átján verndardýrlinga. Brúðir eiga fjórtán, slátrarar sjö, leigubílstjórar fjóra en strætóbílstjórar aðeins einn ... svo dæmi séu tekin.
Margir dýrlingar þurftu að ganga í gegnum hroðalegar pyntingar og voru líflátnir fyrir trú sína en aðrir komust í helgra manna tölu vegna mannkosta sinna, góðverka og trúrækni svo fátt eitt sé nefnt. Ýmis kraftaverk hafa átt sér stað á helgum stöðum, t.d. við grafir dýrlinganna og nokkur slík gerðust í Skálholtskirkju við gröf Þorláks helga, verndardýrlings Íslands. Veikt fólk fékk bót meina sinna þar sem það stóð við gröf hans en Þorlákur helgi lést þann 23. desember og hefur sá dagur verið kenndur við hann síðan á 12. öld og kallast Þorláksmessa.
Dagur heilags Lawrence er 10. ágúst. Hann lét lífið vegna trúar sinnar eins og svo margir dýrlingar. Hann var bundinn við tein og steiktur yfir eldi en lét sem ekkert væri. Hann sagði við ofsækjendur sína: Þið getið snúið mér við núna, ég er orðinn gegnsteiktur á annarri hliðinni.
Þeir sem eru t.d. að drepast undan tannhvassri tengdamömmu eða tengdapabba geta heitið á eftirtalda dýrlinga til að ástandið batni: Adelaide, Elísabetu af Ungverjalandi, Elísabetu Ann Seton, Godelieve, Helenu af Skofde, Jeanne de Chantal, Jeanne Marie de Mille, Ludmilu, Marguerite d´Youville, Michelinu og Pulcheriu.
Hægt er að heita á sex verndardýrlinga ef maður týnir hlutum. Þeir eru: Anne, Antoníus af Padua, Antoníus af Pavoni, Arnold, Phanurius og Vincent de Paul. Kaþólsk vinkona mín segir að það bregðist sjaldan, hluturinn kemur fljótlega í leitirnar.
Þrír verndardýrlingar vernda fólk sem þjáist af gallsteinum: Benedict, Drogo og Florentius af Strassburg.
Valentínusardagurinn, dagur elskenda, er kenndur við heilagan Valentínus. Engum ætti því að koma á óvart að finna Valentínus á þessum lista. Færri vita kannski um Dwynwen og Rafael, erkiengilinn sjálfan, sem eru einnig verndardýrlingar elskenda og ástarinnar.
Verndardýrlingar sem hægt er að ákalla gegn jarðskjálftum eru fjórir; Agatha, Emidius, Francis Borgia og Gregory Thaumatugus.
Heilög Apollonía er verndardýrlingur tannlækna. Hún var pyntuð af hópi Egypta sem drógu úr henni allar tennurnar, eina af annarri, því hún neitaði að skipta um trú.
Marteinn frá Tours er verndardýrlingur Frakklands, bindindismanna, drykkjumanna, betlara, fanga, vefara, klæðskera, hanska- og hattagerðarmanna, smala, klæðskera, fátæklinga, betlara, holdsveikisjúklinga, þeirra sem fá útbrot á líkamann og höggormsbit, skeifnasmiða, ferðamanna, hestamanna og riddara, hermanna, vopnasmiða, húsdýra, hesta og gæsa.
Eligius er verndardýrlingur járnsmiða, leigubílstjóra, klukkugerðarmanna, gullsmiða, hesta, bensínafgreiðslumanna, veikra hesta, dýralækna, handverksmanna, skeifnasmiða, landbúnaðarverkamanna, logsuðumanna, myntsláttumanna, námuverkamanna, úrsmiða, söðlasmiða og myntsafnara.
Kristófer (einnig kallaður Kitts eða Offero) er verndardýrlingur bogaskyttna, bílstjóra, piparsveina, strætisvagnabílstjóra, leigubílstjóra og annarra sem vinna við að flytja fólk, ávaxtakaupmanna, vörubílstjóra, sjóliða, burðarkarla, tannpínusjúklinga, heilags dauða, skyndilegs dauða og þeirra sem vinna við að flytja fólk.
Zita er verndardýrlingur gegn því að týna lyklum, ráðsmanna, ráðskvenna, vinnuhjúa, þerna, fórnarlamba nauðgana, þjóna og þjónustustúlkna, týndra lykla og fólks sem er gert grín að vegna trúar sinnar. Gæti verið að sumir Moggabloggarar tauti nafnið Zita fyrir munni sér stundum.
Patrik er verndardýrlingur þeirra sem óttast snáka og Fiard passar okkur sem erum hrædd við geitunga.
Varð bara að deila þessu með ykkur þótt ég sé ekki kaþólsk.
4.4.2008 | 11:51
Sumarblíða, Tomma-misskilningur og Chuck Norris á google
Í fyrsta sinn í langan tíma var hálfgert sumarveður í Reykjavík þegar vér Skagamenn skunduðum til borgarinnar með lúxusstrætó ... en kalt var á Skaga og í Mosó. Ég hugleiddi þetta þegar ég lét hugann reika í ökuferðinni góðu í gegnum Mosfellsbæinn. Ég er eðlileg íslensk kona og hugsaði vitanlega um ýmislegt fleira,... eins og kynlíf á 17 sek fresti, veðurhorfur næsta sólarhring á 4 sek fresti og slíkt. Það er frekar gaman að hugsa.
Tommi bílstjóri er dásamlegur, eins og ég hef alltaf sagt, en frekar óupplýstur sem er skrýtið miðað við að hann er ásatrúarmaður. Hann sagði okkur Sigþóru í strætó í gær að ef fólk langaði ekki til að eignast börn ætti það að setja fuglahræðu í garðinn hjá sér svo að storkurinn þyrði ekki að koma með börnin! Hélt að Tommi vissi að það er ekki stemmning fyrir fuglahræðum á Íslandi.
Það er alltaf svo lítið að gera í vinnunni á föstudögum ... (djók) og ég var eitthvað að hugsa um Chuck Norris milli geispanna.
Ég prófaði að setja inn sem leitarorð í google.is: "find chuck norris" (með gæsalöppunum) svo ýtti ég á Freista gæfunnar ... og fékk undarleg skilaboð.
Mana ykkur til að prófa. Múahahahahahah
9.3.2008 | 18:12
einkamál.is ...
Ég hef áður sagt frá því þegar ég fékk þá áskorun um árið að skrá mig á einkamál.is en ég sleppti þó ákveðnum kafla úr. Forsagan er sú að ég hafði sagt eitthvað neikvætt um svona fólk á einkamál.is sem fékk ákveðna manneskju sem ég þekki til að skamma mig fyrir fordóma. Hún skoraði á mig að prófa þetta og sagðist hafa kynnst skemmtilegum mönnum þarna sem væru góðir vinir hennar. Fordómar mínir minnkuðu helling við þetta þar sem þetta er heilbrigð og yndisleg manneskja og fyrst hún þorði ... Þessi kona hjálpaði mér við að skrá mig inn og ég valdi að sjálfsögðu svæðið vinátta/spjall til að losna við áreitni kynóðra perra. Svo beið ég spennt eftir skemmtilegu, heilbrigðu mönnunum sem langaði að spjalla við frábæru konuna í Vesturbænum. Karlmenn eru nefnilega mjög skemmtilegir, sbr. ástkæran Breiðholtshatarann.
Ég var bæði hrædd og spennt daginn eftir þegar ég sá að mér höfðu borist tugir bréfa. Hátt í 90% þeirra voru þó af perralegum toga, t.d. tíu Kanar af Vellinum sem vildu fá mig í hópskemmtun með sér, góð greiðsla í boði og svona ... ungir strákar um tvítugt sem vildu prófa eldri konu, kvæntir karlar í leit að tilbreytingu og fleira í þessum dúr. Ég sjokkeraðist en vandaða og góða konan sem hafði manað mig upp í þetta sagði að ég væri allt of viðkvæm, ég ætti bara að fleygja subbulegu bréfunum og gleyma þeim. Hún er reyndar töffari sem ég er ekki.
Þarna leyndust samt nokkrir (örfáir) sem gaman var að skrifast á við. Einn bar nokkuð af, hann var miklu yngri en ég og virtist bara vilja vináttu/spjall. Honum fannst gaman að kynnast nýju fólki á öllum aldri og ég gat ekki fundið neitt perralegt við bréfin hans. Ég sagði honum í einu bréfinu frá stærsta vandamáli lífs míns þá stundina ... að það þyrfti nauðsynlega að skipta um loftljósið í ganginum á Hringbrautinni, gamla ljósið var brotið og hafði undanfarin 16 ár eða svo sjokkerað alla hávaxna menn sem heimsóttu mig, m.a. erfðaprinsinn, telexprinsinn og fleiri stóra gaura. Nú, þessi elskulegi maður bauðst til að skipta um ljós fyrir mig sem ég þáði og bauð honum í kaffi. Hann fór létt með að skipta um ljós og var hinn skemmtilegasti. Ég bað hann endilega um að kíkja í heimsókn daginn eftir en þá hélt ég upp á enn eitt stórafmælið mitt, 40 og eitthvað. Hann mætti, þessi elska, og þekkti að sjálfsögðu einn afmælisgestinn sem spurði óhjákvæmilega: Hvernig þekkist þið? Ég man ekki hverju ég laug ... en mér fannst þetta afar óþægilegt. Mjög stuttu síðar afskráði ég mig endanlega af einkamál.is. Mér fannst ákveðið frelsi fólgið í því að gefa ekki hverjum sem var færi á því að hella úr sinni andlegu ruslatunnu yfir mig, svona eins og gamli íslenskukennarinn minn í Vörðuskóla hefði orðað það.
Síðan liðu einhver ár. Ég var flutt á Skagann, vinnan mín í Lynghálsinn og lífið var gott. Ég endurheimti æsku mína, sakleysi og trú á mannkynið og gleymdi smátt og smátt þessum vikum mínum á einkamál.is. Lífið hefur þó alltaf lag á því að klína manni upp úr því sem maður vill gleyma, ekki satt?
Einn daginn fyrir nokkrum mánuðum var ég á ferðinni um hálfátta, rétt ókomin í vinnuna. Það var rigning og ég hlakkaði mikið til að fá mér gott kaffi og setjast svo við skrifborðið. Bíll staðnæmdist hjá mér í portinu og ökumaðurinn stakk höfðinu út og heilsaði. Ég er einstaklega ómannglögg og spurði kurteislega hvaðan við þekktumst. Hann hrópaði glaðlega svo glumdi um Lynghálsinn: VIÐ KYNNTUMST Á EINKAMÁL.IS!.
Þetta reyndist vera ungi, indæli maðurinn sem skipti um ljós fyrir mig. Ég leit flóttalega í kringum mig og held að mér hafi tekist að stynja upp: Nei, hæ, en gaman að sjá þig,! Það var líka gaman að hitta hann, enda góður strákur, það var bara svo hræðilegt að þurfa þarna að horfast í augu við hvað ég er forpokuð, snobbuð og fordómafull. Allar gjörðir virðast hafa ákveðin dómínóáhrif og ég bíð bara spennt eftir því að eitthvað álíka gerist þegar t.d. mamma eða erfðaprinsinn eru með í för.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 35
- Sl. viku: 828
- Frá upphafi: 1515923
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 701
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni