Færsluflokkur: Menning og listir

Frábær Astrópía of fleira stöff ...

astrópíaAstrópía var afar skemmtileg. Við erfðaprinsinn veltumst um af hlátri, held að þetta sé fyndnasta íslenska mynd síðan ... uuu .... Sódóma-Reykjavík. Lítið um allt of skýrmælta ofleikara, held ég bara enginn slíkur, og það gerir allt miklu eðlilegra.
Við horfðum líka heilluð á Kalda slóð í gærkvöldi, hún er alveg frábær, spennandi og vel leikin.

Bíóhöllin á Akranesi 1942Einstök upplifun var að koma í Bíóhöllina í kvöld. Þar átti ég margar góðar stundir í æsku. Ný sæti, þunn og þægileg, áður voru þykk og þung leðursæti og sérstakt hljóð heyrðist þegar maður stóð upp og sætið skelltist á sinn stað. Þegar ég gekk inn í salinn hækkaði meðalaldurinn um svona 30 ár. Þrátt fyrir fjölda unglinga held ég að börn hafi verið í miklum meirihluta. Það var svo margt í kvöld að ein starfsstúlkan þurfti að hlaupa upp á svið og biðja fólk um að færa sig saman. Mikil stemmning í kvöld.
Bekkurinn minn í BíóhöllinniSigþóra var í bíó og líka Harpa bloggvinkona (ekki á Moggabloggi). Gaman að hitta þær.  Ég var búin að eyða mörgum klukkutímum í að gera mig sætari (eins og það sé hægt) og svo voru eiginlega engir sætir karlar þarna.

Sjö ára bekkurinn minn flutti ljóð í Bíóhöllinni fyrir nokkrum árum. Sjá mynd. Ég er þessi gærulega í stysta kjólnum með svart belti um mig miðja. Man nöfn allra bekkjarsystkinanna og nokkra afmælisdaga að auki.

Nú er það bara rúmið, hitapoki, heitir múrsteinar, toddí, nátthúfa og Miss Marple . Svo í fyrramálið verður spennandi að vita hvort strætó fari í bæinn vegna óveðurs. Það er byrjað að hvessa og fiskibræðslufýlan sem við fundum í hléinu og fyrir myndina var fokin til Borgarness, held ég. Annars var meira rok við Bíóhöllina en himnaríki, svona ef ég má metast smá ...


Mánudagskvöld til þriðjudagsmorguns

Kópavogur, séð til RvíkurMikið var skrýtið og skemmtilegt að gista á höfuðborgarsvæðinu í nótt, hlusta á háværan umferðarniðinn, heyra öskrin í fólki sem ribbaldar voru ábyggilega að misþyrma, sjokkerandi brothljóð í búðagluggum, dúndrandi tónlist, bunuhljóð í laumulegum körlum og æsispennandi sírenuhljóð. Lyktin var líka framandi; krydd, olía, vín, tóbak, piss, reiði, popp og fleira.

Sagði við Hildu þegar við ókum niður að Galtalindinni hennar að það væri munur fyrir hana að hafa stærsta hús landsins svona nálægt en sá turn er í byggingu í næsta nágrenni hennar. Ef það yrði sprengt í loft upp af morðóðum múslimum (sorrí, Shabana) eða vondafólkinu í Veginum (sorrí, Jónas frændi) eða klikkuðum kaþólikkum (sorrí, erfðaprins) þá hefði hún þetta líka fína útsýni.

AldaTil að fyrirbyggja allan misskilning þá elska ég líka sjávarnið, brimgný og fuglagarg (þótt Jónatan mávur hafi yfirgefið mig).

Ég gisti sem sagt í Kópavoginum í nótt en ferðaðist aðeins um sjálfa höfuðborgina í morgun, 101 Reykjavík, og fannst það unaðslegt. Er búin að átta mig á því að þótt ég vinni í Reykjavík þá er 110 Reykjavík enn meira utanbæjar en nokkurn tíma 300 Akranes. Á Skaganum eru tvö kaffihús, hér í 110 Reykjavík er ekki neitt (held ég).  

Mikið nýt ég borgarinnar betur eftir að ég varð dreifbýlistútta. Hlakka samt gífurlega til að fara heim eftir vinnu og hitta Kubb, Tomma og Jónas. Inga kíkir á eftir og hótaði því að sleppa mér ekki út úr bílnum fyrr en við himnaríki, í þetta sinn ætlar hún að þiggja kaffi.


Veður-, kvikmynda- og frændablogg

Rás 1Heyrði ekki mikið í veðrinu í morgun svo að ég reif heimasmíðuðu hlerana síðan í gærkvöldi af gluggunum. Það reyndist vera mjög gott veður úti! Samkvæmt norsku veðursíðunni www.yr.no kemur stormurinn ekki fyrr en í kvöld og nótt. Fer kannski að rigna eftir smástund en ekkert rok að ráði fyrr en undir miðnætti.

Tomorrow
23.09.2007

Rain

Strong breeze, 12.4 m/s from north-northeast

Hviðurnar á Kjalarnesi eru alltaf slæmar fyrir strætó í austlægum áttum. Vona að strákarnir mínir fari varlega þegar þeir keyra á milli.

Í himnaríki hljómar nú kvikmyndaþátturinn Kvika á Rás 1 (sjá mynd fyrir ofan). Mundi ekki eftir honum kl. rúmlega 10 en tæknin er orðin svo svakalega mikil að það var ekkert mál að ýta á takka til að hlusta á hann (www.ruv.is ) Ljúf tónlist, skemmtileg viðtöl. Ísold Uggadóttir er t.d. að skrifa handrit sem heitir Flæktar sálir og fáein símanúmer (vinnuheiti), gerist 1995 hjá „núll þremur“(118). Vona að úr verði kvikmynd.

3 mánaða snúllurElsku bestu frændurnirKíki reglulega á síðuna hjá ástkærum frændum mínum, tvíburunum hugumstóru. Þeir eru alveg dýrlegir. Segi eins og Jenný bloggvinkona, fer í krúttkast við tilhugsunina um þá.
Hér koma tvær myndir af þeim. Á annarri eru þeir bara þriggja mánaða en hin var tekin nýlega. Ísak t.v. Á myndinni vinstra megin eru þeir að garga eftir mat, Úlfur svo fyndinn á svipinn að ég gat ekki annað en stolið henni. Bloggvinir mínir hafa fylgst með tvíburunum frá fæðingu og mér ber ánægjuleg skylda til að birta reglulega af þeim myndir. Í gegnum þá kynntist ég sjálfri Jónu ofurbloggara. Ég sat við tölvuna á laugardagskvöldi fram á nótt og var að lesa ýmis blogg. Datt niður á bloggið hennar Jónu og las það langt aftur í tímann, enda stórskemmtilegt. Í einni færslunni sá ég að hún var að auglýsa eftir Úlfi og Ísaki, hafði séð myndir af þeim á blogginu og mundi ekki hvar. Minnir að hún hafi viljað sýna einhverjum sem á barn með skarð í vör myndirnar. Ég flýtti mér að skella kommenti inn og síðan höfum við eiginlega verið óaðskiljanlegar, ekki síst þegar við komumst að því að við höfðum unnið saman á Aðalstöðinni á tíunda áratugnum. Lítill heimur.     


Borgarnes vs Akranes - stríð?

MósaíkSá bækling hjá Míu systur nýlega um alls kyns námskeið sem verða haldin á Vesturlandi í vetur.

Þótt ég sé í klíkunni (hélt ég) hjá nýbökuðu ömmunni í Borgarnesi og einum af skipuleggjendum þá sá ég að ekkert mósaíknámskeið verður haldið á Skaganum, bara í Borgarnesi! Hefði líka kosið indverskt matreiðslunámskeið, það verður líka í Borgarnesi. Hmmmm

Fátt eftir handa okkur Skagamönnum nema þá helst íslenska fyrir byrjendur! Tek það fram að ég fletti bæklingnum hratt, kannski leynist þarna kjarneðlisfræði í framkvæmd, lúdó fyrir lengra komna, gardínuhekl fyrir enn lengra komna, fiskeldi, fluguhnýtingar og annað spennandi, best að fá bæklinginn lánaðan hjá Míu. Hef eflaust fleygt mínum í ógáti.

 

 ------------------ 000 ---o-O-o---000 --------------------

 

Fyrir hádegiEftir hádegiPólverjarnir eru farnir, rigningin fældi þá á brott (já, Þröstur). Annars rignir ekki í augnablikinu en bleytan gerði þeim erfitt fyrir að spartla, eða líma, eins og þeir kölluðu það. They will be back, þessar elskur. Nema Borgnesingar steli þeim af mér!

Ég komst að því í dag að pólsk tónlist er verulega skemmtileg.  Kannski tilviljun ... en þegar svona dramatískur Opruh-legur umræðuþáttur á pólsku stöðinni hófst þá fóru strákarnir! Ekki þó fyrr en þröskuldurinn var silfurklæddur og búið að hylja „svampinn“ undir svalaglugganum.


Sjónvarpsósk og ömmuástir

Mikið vildi ég að þáttur Conan O´Briens verði sýndur í íslensku sjónvarpi! Á youtube.com er reyndar hægt að finna heilmörg myndbrot úr þáttum hans, m.a. þetta:

http://www.youtube.com/watch?v=bfoEM2Fm6LM&mode=related&search=

Smábold:
Bold-fólkiðDante er brjálaður úr reiði og beiskju. Bridget hans ætlar að láta reyna á hjónabandið með Nick en Dante veit að Nick elskar hana ekki nógu mikið, Dante elskar hana meira, auk þess vita allir að Nick elskar mömmu hennar Bridget. Legháls Bridget er eitthvað slappur (orðalag læknisins) og möguleg hætta á fósturmissi. Væntanlegt barn er stúlka. Nick fór á fund Brooke og tilkynnti henni að hann ætlaði að vera dóttur hennar góður eiginmaður og hún virtist hálfspæld. Stefanía æðir inn á ljótu, nýju skrifstofuna hans Erics og kemur að honum að kyssa Jackie, mömmu Nicks. Alltaf sama fjörið hjá öldruðum. Jackie fer og fyrrverandi hjónin rífast eins og gömul núverandi hjón sem kemur illa saman. „Þú býrð til vonda Martini-drykki!“ „Þú syngur falskt!“ ... osfrv.
„Við eigum von á kvenkyns stúlku,“ sagði Nick gáfulega við Brooke. „Jibbí, ég verð amma!“ sagði Brooke og horfði tælandi og jafnframt sorgmæddu augnaráði á tengdason sinn. Þau haldast í augu ... og svo hendur. Þau elska hvort annað. Nick fer, Brooke grætur og Nick horfir saknaðaraugum á hana úr fjarlægð. Tjaldið fellur. Ætli íslenskar ömmur séu jafneftirsóknarverðar og þær ammmrísku?

Myndatexti: Fremsta röð f.v.: Taylor, Ridge, Brooke, Bridget, Nick og Jackie. Miðröð f.v. óþekktur, Tómas, Dante, Stefanía, Eric, Sally, hönnuður Sallyar. Í öftustu röð þekki ég bara Massimo (með skeggið), Dörlu og Thorne. Veit ekkert um manninn lengst til vinstri eða svarthærðu konuna við hlið hans, þau sem standa fyrir aftan Tómas. Held að sú svarthærða sé Felicia, dóttir Stefaníu og Erics, sem sagt systir Ridge og Thorne. Hún kemur bráðum við sögu. Mun skrifa langa færslu um líf þessa dásamlega fólks ... fram í tímann. Miðilshæfileikar eða Netið? Þegar stórt er spurt ...  Margt afar spennandi fram undan. 


Stolin snilld

Gat ekki stillt mig um að ræna þessu af síðunni hennar Mögnu sem vinnur með mér, þetta er þrælfyndið og enginn má missa af þessu. 

Þetta byrjar þannig að kona á barnalandi biður um hjálp við að skrifa orðið virðingarfyllst á ensku en hún er sem sagt að skrifa bréf. Hún er hjálparþurfi og skrifar: „Hvernig segir maður „kær kveðja“ á ensku, sorrý er ekki klár í henni, er að senda út til UK vegna gallaða dótsins“
Hún fær svör, þakkar fyrir sig og skrifar:

„Ókei, takk æðislega, ég er geggjað slöpp í ensku, sérstaklega að skrifa hana, getiði sagt mér án þess að drulla yfir mig hvort að það sé hægt að skilja eitthvað af þessu bréfi hehe“

Hún lætur bréfið fylgja með:

Hello
Dóra landkönnuðurI am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray
I by a toy in Iceland from fisher price ,, little people.. and dora explorer and this toy ar maid in China 2002-2007.
One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but i am not sure made 2003.
Are something wrong this toy or?????
What can I do??
Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????
I hope you can anther stand what I am writing
And thank you

Respectfully
XXXXX

Einum notenda á barnalandi.is finnst þetta greinilega jafnfyndið og okkur öllum og ákvað að þýða bréfið hennar beint yfir á íslensku!

Halló.
Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka. Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.
Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.
Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????
Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo að ég geti anther staðið þetta betur????

Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa. Virðingarfyllst 

http://magna1.blog.is  Takk Magna!


Annir, flugur, keppni, verðlaun og menning

Alltaf gott að koma heim á föstudögum, sérstaklega eftir skemmtilega strætóferð með Tomma. Við höfum ansi líkan tónlistarsmekk og ef Magnús hefði ekki gefið mér King Arthur-diskinn með Rick Wakeman í afmælisgjöf hefði Tommi lánað mér plötuna (vínyl) og ég getað látið Bergvík afrita hana yfir á geisladisk.

West-Ham-02Þetta var vægast sagt MJÖG annasamur dagur, við vorum að ljúka við mjög djúsí blað (já, lögfræðingur hringdi og allt ... kannski fer ritstjórinn minn í fangelsi Police). Aukablað með geggjuðum uppskriftum fylgir líka næstu Viku ... Ritstjórinn fer í frí á mánudaginn og undirrituð þarf að leysa hana af í tvær vikur. Það verður bara spennandi, ég væri eflaust þrælstressuð ef ég ynni ekki með jafnmiklum dúndurkonum og ég geri. Velgengnin hefur verið slík síðustu mánuðina að við vorum verðlaunaðar, fengum gjafakort á tvo flugmiða með Iceland Express. Langar mikið að nota þá í að bjóða erfðaprinsinum í fótboltaferð til Englands í vetur. Það hefur verið draumur okkar að fara á leik, t.d. með West Ham, uppáhaldsliðinu okkar. Kannski skreppa til Katrínar í leiðinni!

FlugaÁ meðan sumir kljást við geitunga þessa dagana er allt fullt af stórum og pattaralegum fiskiflugum í himnaríki, ég sé alla vega eina núna. Mig grunar að þær komi mun fleiri inn yfir daginn þar sem kettirnir hafa sjaldan verið þriflegri. Þetta sparar mér gífurlega fjármuni í kattamat ... hvað er hollara en fljúgandi ferskt og stökkt sushi, fullt af próteini og vítamínum! Verð reyndar að viðurkenna að ef mér tekst ekki að bjarga viðkomandi risaflugu út þá tek ég fyrir eyrun áður en smjattið hefst, enda finnst mér smjatt einstaklega ógeðfellt hljóð ... bæði hjá köttum og mannfólki.

Katrín Snæhólm

 

Mig langar að benda á einstaklega skemmtilega keppni sem fram fer á bloggsíðunni hennar Katrínar Snæhólm, svona sögu- og ljóðakeppni. Hún hvatti gestkomandi til að semja ljóð eða sögur um myndir sem hún birti og nú keppist fólk við að tilnefna það sem því þykir best.

Er búin að lesa þetta einu sinni yfir og þarf að gera það aftur ef ég á mögulega að geta valið. Það er erfitt að gera upp á milli, kannski get ég það ekki.

Hélt að ég væri ekki mikil ljóðamanneskja en þar skjátlast mér, þarna eru fín ljóð. Tilnefningar/kosningin er ekki bara fyrir bloggvini Katrínar, heldur alla þá sem kíkja við á síðunni hennar. Hér er slóðin:  
http://katrinsnaeholm.blog.is/blog/katrinsnaeholm/entry/287784/#comments

MenningarkvöldMegi svo kvöldið verða gott hjá ykkur, krúsídúllurnar mínar. Held að mitt verði guðdómlegt. Fékk DVD-disk með fyrsta þættinum úr nýrri míníseríu sem byrjað verður að sýna á SkjáEinum í næsta mánuði og hlakka til að horfa á hann! Svona er nú hægt að sameina vinnu og skemmtun. Vissulega gæti einhver sagt að ég eigi mér ekkert líf en hamingjan liggur í litlu hlutunum ... Á morgun ætla ég t.d. að njósna með stjörnukíkinum um fólk sem djammar á menningardeginum hinum megin við Faxaflóa. Held að ég nenni ómögulega í bæinn og mun njóta þess í tætlur að horfa á t.d. flugeldasýninguna í gegnum stjörnukíkinn. Hér er þó ekkert til að borða nema landnámshænuegg og möffins síðan úr afmælinu, ég klúðraði helgarinnkaupunum algjörlega, neyðist líklega til að fara í einhverja Óeinarsbúð eða bensínstöð á morgun. Það vantar alla vega kattamat og mjólk út í latte!

Óvænt stefnumót, glatt barn og afmæli Madonnu eða Elvisar

madonnaElvis var nú sæturÞað er aldeilis að það vekur athygli að nokkur ár eru í dag síðan einhver poppstjarna dó! Það muna vissulega nokkrir eftir honum Elvisi, sem var ábyggilega fínn og allt það, en gleymist ekki aðalatriðið, eða það hver á afmæli í dag? Madonna, ef þú ert að lesa þetta, til hamingju með 49 ára afmælið, elskan! Það var ekki minnst á afmæli hennar á Rás 2 í morgun, bara það að Elvis dó þennan dag!!! Common!

Átti óvænt stefnumót í súkkulaðibrekkunni í morgun. Inga vinkona, ætíð fyrst á fætur, var í hverfinu og þegar ég hoppaði út úr strætó við Vesturlandsveginn var bíllinn hennar það fyrsta sem ég sá, sannarlega fögur sjón ... en maður fær svo sem ekki flottan rass á því að fá skutl upp brekkuna! Aumingja Sigþóra að vera í sumarfríi og missa svona af því að fá far uppeftir.

Svaf ekki jafnlengi í nótt og nóttina á undan og uppskar höfuðverk og pínkuponsu geðillsku fyrir bragðið. Allavega fann ég fyrir hálfgerðum pirringi út í útlensku mömmuna sem gerir ekkert til að þagga niður í barninu sínu á morgnana þegar flestir reyna að sofa í strætó! Krakkinn er hreinlega að springa út orku og taldi svona 100 sinnum upp að tólf ,,. í röð! Mér datt reyndar í hug að mamman væri svona lúmsk og væri í raun að reyna að þagga endanlega niður í stelpunni með því að festa hana aldrei í öryggisbelti og velja alltaf fremsta sætið. Ég myndi gæta þess að þetta barn fengi ekki nægan svefn svo að það myndi sofa í strætó, eins og allt almennilegt fólk!

Smiðurinn sem fer út á Kjalarnesinu, skömmu eftir Kollafjörð, svaf svo fast að ef bílstjórinn væri ekki svona athugull (eða kvensamur, þetta er glæsilegur kvensmiður) hefði hún rúllað með alla leiðina í bæinn. Hann stoppaði, þessi elska, kíkti aftur í og þar svaf Þyrnirós ... en ekki lengi, sjálfboðaliðar vöktu hana. Svo er hún Karítas farin að standa daglega í brekkunni í Mosó og fá far með okkur, sem segir manni að veturinn sé alveg að hefjast en Karítas er kjarneðlisfræðingur eða eitthvað við einn skólann í Grafarvogi. Verst að sexan er eini vagninn sem hún nær í Ártúni og hún þarf alltaf að bíða í 28 mínútur´eftir honum ... alla vega á sumaráætlun. Held að daginn sem framhaldsskólarnir hefjast verði troð-, troð-, troðfullt í strætó. Vona að aukabíllinn dugi.

Kingdom lögmaður er á RÚV í kvöld! Flottir þættir og stórskemmtilegir ... er líka að reyna að venja mig AF Stöð 2 ef ég segi henni upp vegna okurs á Sýn 2 (sem ég ætla sko EKKI að kaupa).


Ósýnileg morgunhjálp og afmælistilhlökkun hafin

VindurinnAð mörgu leyti er betra að sitja aftar en í fremsta sæti í strætó, sérstaklega þegar það eru hviður á Kjalarnesinu. Eftir nokkra afslappandi, dormandi morgna aftarlega undanfarið stóð ég mig að því að fylgjast grannt með úr fremsta sætinu að ljósin við Hvalfjarðargöngin breyttust örugglega úr rauðu yfir í grænt. Ég hjálpaði líka bílstjóranum heilmikið við að halda strætó á veginum í verstu vindhviðunum með því að gera mig stífa þegar þær skullu á okkur. Ég segi ekki að ég sé mjög þreytt eftir ferðina í bæinn, kannski frekar svolítið uppgefin.

------------------ o O o -----------------

Mamma, Atli og TinnaByrjaði að lesa ansi áhugaverða bók í gær og kíkti aðeins á hana í strætó í morgun áður en hjálpsemin við bílstjórann náði yfirhöndinni. Bókin heitir Móðurlaus Brooklyn og er eftir Jonathan Lethem. Leynilögreglusaga ... en ekki hefðbundin. Sú á eftir að stytta mér stundir, ásamt Potter-restinni, nú um helgina og svo er ég komin í frí fram að afmæli. Ég er farin að undirbúa afmælið í huganum. Ég vona að sem flestir "nánir" bloggvinir mínir mæti, alla vega þeir sem geta keypt almennilega afmælisgjöf handa mér. (djók) Þetta er nú hálfgert stórafmæli ... eða 49 ára. Mér skilst að Jenný Anna ætli örugglega að koma og þá hittumst við í fyrsta skiptið, gaman, gaman. Já, og þetta er ekki konupartí, það kemur alltaf hellingur af sætum körlum, nema Þröstur, hann verður í Danmörku! Þeir sem reykja fá heilt, stórt og flott herbergi fyrir sig, eins og í fyrra, eða bókaherbergið (sjá mynd), og þar sat t.d. Auður Haralds á milli þess sem hún sótti sér tertur og kaffi. Mikið fjör þar, eins og í öllum herbergjum. Jamm, ég er sko farin að hlakka til. Er þó ekki byrjuð á afmælisboðskortinu, ætli ég hringi ekki bara þetta árið og sendi tölvupóst og sms ... geri bara geggjað stórafmælislöglegamiðaldrakort næsta ár.


Hefnd álfanna

Álfar og huldufólkÍ fyrri færslu minni var ég vitanlega að gantast þegar ég sagðist ekki trúa á álfa, huldufólk og tröll. Mér hefndist fyrir þetta hallærislega grín ... allt fór nefnilega úrskeiðis í himnaríki skömmu eftir að ég ýtti á Vista færslu. Diskur brotnaði, ég missteig mig og Tommi gubbaði á baðgólfið, að auki hófst þáttur með Oprah Winfrey í sjónvarpinu. Eins gott að passa það sem maður segir.

„Afsakaðu að ég bý á efstu hæð,“ sagði ég við móðan sendil sem kom með Tandoori-kjúklinginn til mín áðan. „Ekkert að afsaka,“ muldraði sendillinn hræðslulega og rétt þorði að fá borgað. Sumir hafa ánægju af þessu smáa í lífinu ... en ætlunin var nú ekki að hræða drenginn. Jú, letin hafði yfirhöndina og hringt var eftir góðum mat í stað þess að elda sjálf. Einu sérþarfirnar sem ég hef í sambandi við þennan tiltekna mat er að það þarf að krydda kjúklinginn meira en venjulega og sleppa furuhnetunum í salatið, þá er þetta líka algjörlega fullkominn kvöldmatur á sunnudegi og þannig var hann líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 696
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 563
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband