Færsluflokkur: Menning og listir
21.7.2007 | 15:47
Mikið haft fyrir Harry Potter
Dagurinn hófst ótrúlega eðlilega og það var ekkert sem bjó mig undir þær miklu hremmingar sem síðar gerðust þar sem lögreglan, kattagras, matvörur með sjálfstæðan vilja, Skessuhorn og Harry Potter komu við sögu. Þetta byrjaði allt ósköp sakleysislega með símtali.
Penninn, góðan dag!
Góðan dag, hvað verður opið lengi í dag?
Til klukkan tvö.
Eigið þið nýju Harry Potter-bókina?
Já.
Ég tölti af stað, alveg að drepast í bakinu sem ég hefði átt að líta á sem aðvörun. Nei, ég óð beint út í skelfinguna. Nokkur fjöldi fólks var í bókabúðinni. Ég leit í kringum mig og sá nokkrar gamlar Potter-bækur í hillu og eina splunkunýja sem ég greip feginsamlega. Tók einnig Skessuhorn, hið frábæra vikublað Vestlendinga, og bjó mig undir að borga. Einhver hrollur fór um mig svo að ég fór aðra leið heim, gekk framhjá apótekinu og stóðst freistinguna að fara þar inn, fór Arnarholtið og horfði á gamla æskuheimili mitt, skærgult á lit en samt ótrúlega ógnvekjandi. Skagabrautin var mannlaus sem var frekar skerí. Sundurlausar hugsanir þutu í gegnum höfuðið og ein sat þar föst. Kattagras fyrir Tomma og Kubb! Einmitt það sem hefur lengi vantað fyrir innikettina mína. Ég áttaði mig svo á því á leiðinni í Krónuna að ef undirgöng væru undir gamla Skaganesti hefði gönguleið mín verið eins og rembihnútur.
Til að styðja við bakið tók ég innkaupakörfu (göngugrind) og gekk óhrædd inn í Krónuna. Ætlunin var að kaupa kattagras fyrir 129 krónur, ekkert meira þótt það væri reyndar svolítið tómlegt í ísskápnum þar sem ég komst ekki í Einarsbúð í gær. Í búðinni fóru undarlegir atburðir að gerast. Ýmsar matvörur duttu ofan í körfuna, chili-pipar, hvítlaukur, tilbúinn fiskréttur, mjólk, skyr, jarðarber og annað sem ég myndi aldrei í lífinu kaupa. Ég hristi Potter-bókina reiðilega en allt kom fyrir ekki. Galdrarnir kostuðu mig rúmlega 6.000 krónur. Þá var hryllingurinn bara rétt að hefjast. Óþægileg en ókeypis plastpokahöldin skárust svo í lófana að ég þurfti nokkrum sinnum að gera hlé á leið minni heim til að pústa og leyfa mislitum höndum mínum að anda. Hvar eru Þrestir á rauðum jeppum þessa heims þegar þeir eiga að vera úti að rúnta og hjálpa bloggvinkonum sínum heim með vörur? Þetta var orðið þvílíkt lögreglumál að ég nötraði af þreytu þegar ég staulaðist inn úr dyrunum. Setti kælidótið inn í ísskáp af veikum mætti og bjó mér til róandi latte sem ég er að drekka núna. Þegar ég var að skola mjólkurkönnuna sá ég tvær löggur (sjá sönnun á mynd) út um eldhúsgluggann. Það verður sko bið á því að ég hætti mér út um helgar, hvað þá að ég kaupi næstu bók með Harry Potter!
20.7.2007 | 21:32
Sósuskortur, spennusögur og nýr, undarlegur útlitsgalli
Loksins komst ég í strætó í dag. Hafði rúman hálftíma til umráða eftir lendingu í Mosó og hvað gera konur þá? Nú auðvitað fara þær í KFC og kaupa Zinger-salat ... mér finnst það svo gott. Gat þó ekki torgað nema helmingnum þar sem bara einhver hryllingssósa var til út á salatið, Honey Mustard-uppáhaldssósan búin. Svona gerir maður ekki þreyttri og svangri Skagakonu.
Vonaði að Tommi væri á vaktinni en ég er alveg komin út úr vaktaplönum strætóbílstjóranna eftir allt þetta rand á einkabílum undanfarið. Tommi keyrir líklega um helgina. Kom of seint heim til að geta horft á boldið á Stöð 2 plús ... en það gerist hvort eð er allt svo löturhægt þar, líklega nægir að horfa á fimmtudaginn næsta til að ná auðveldlega þræði margra daga. Ekki séns að ég nenni að horfa á þættina endurtekna eftir hádegi á morgun. Þá er nefnilega tímataka í Formúlunni! Hver lendir á ráspól? Spenna, spenna!
Fyrir einhverjum vikum kom út kiljan Þrír dagar í október. Hún er eftir Fritz nokkurn Jörgensson. Sagan fór svolítið hægt af stað þannig að ég sat ekki stöðugt við hana ... fyrr en líða fór á, þá negldi ég hana á tveimur kvöldum og ætlaði ekki að tíma að gera hlé til að fara að sofa. Steingerður mælti líka með henni sem hvatti mig til dáða. Þetta er splunkunýr spennusagnahöfundur sem lofar góðu.
Nú er ég að lesa svona Da Vinci bók um starfsmann Rannsóknarréttarins sem er í leynilegum erindagjörðum til að hafa upp á Predikaranum. Sjálfur Leonardo Da Vinci er persóna í bókinni. Með rigningunni kom eirðin og stefnan er að gera skurk í lestri um helgina.
Hvað mynduð þið segja ef ég opinberaði það hér og nú að ég þjáðist af stórfelldum útlitsgalla? Hægri höndin á mér (og handleggurinn) er nokkuð brún, á meðan sú vinstri er bara ljósbrún, eiginlega ljósdrapplituð.
Til að enginn taki eftir þessu væri t.d. snjallt að hafa aðra höndina á sífelldri hreyfingu en það gæti þó hrætt fólk. Hvernig getur svona gerst? Sólin skín vissulega meira á þá hægri þegar ég sit við tölvuna heima í sólskini en ég hélt ekki að væri hægt að verða brúnn í gegnum glerrúðu og ekki hef ég haft hægri handlegginn út um bílgluggann hjá Ástu eða Birki ... Allir sem ég þekki eru jafnbrúnir, hvað er eiginlega í gangi? Næstu sólböð verða framin í langerma bol öðrum megin og stutterma hinum megin. Hver veit nema það verði nýtt trend.
15.7.2007 | 13:02
Svalir óttans
Hef verið með hrikalegan athyglisbrest síðustu vikurnar, ekki getað eirt almennilega við lestur og það er alveg fáránlegt! Girnilegar, ólesnar bækur bíða í bunkum, meira að segja tvær Dean Koontz-bækur sem ég fékk lánaðar á dögunum. Þegar ég kom heim á föstudaginn hefði ég átt að fara að lesa en nei, ég fór að þrífa ísskápinn! Svona gerir maður ekki. Held að ég prófi að setjast út á svalir með Leyndu kvöldmáltíðina ... eða Þrjá daga í október ... eða Skurði í rigningu ... eða The Bad Place ... eða By the Light of the Moon.
Það hljómar vissulega afar vel að setjast út á svalir en samt gerðist eitthvað þar í gærkvöldi sem fær mig til að halda að þetta gætu mögulega verið Svalir skelfingarinnar ...
Tommi kom nefnilega veinandi inn í bókaherbergi snemma í gærkvöldi og þar sem ég skil ekki kattamál fór ég inn í stofu. Mætti þar Kubb sem kom úfin og stressuð af svölunum.
Eitthvað hrikalega skelfilegt hlýtur að hafa gerst, hárin risu á Kubbsu og hún jafnaði sig ekki fyrr en hún fékk að borða og mikið klapp. Jamm, hér gerast sko hin dularfyllstu ævintýri.
14.7.2007 | 22:33
Tommi tölvuséní, góður eftirréttur, heimsókn og sjónvarpsdiss
Tommi köttur (ekki strætóbílstjóri) gekk yfir lyklaborðið mitt til að sýna mér extra-ástreitni og áður en ég náði að setja hann niður á gólf hafði honum einhvern veginn tekist að lita eitt bréfið í tölvupóstinum appelsínugult. Þetta gæti ég ekki gert þótt lífið lægi við. Mjög dularfullt. Fannst ég vera komin inn í Dean Koontz-bók, nema Dean notaði labradorhund sem ofurgáfað kvikindi í einni bóka sinna. Appelsínugulur litur er sagður mjög góður og skapandi. Hér með birti ég litaða bréfið frá samstarfskonu minni, líklega var það tilgangurinn með þessu öllu saman, guði sé lof að þetta var saklaust bréf. En svona er bréfið:
GÓÐUR EFTIRRÉTTUR
750 g vanillu skyr.is án viðbætts sykurs
1 peli þeyttur rjómi
Hrært saman og berjum blandað í (t.d. jarðarberjum og/eða bláberjum)
Látið standa í kæli í um eina klst. og skreytt með berjum.
Ath: hægt að setja smá ósætt hafrakex í botninn!
Gömul vinkona af Skaganum kom í heimsókn seinnipartinn og sat með mér á svölunum í smástund. Þótt ég sé hálfgerður hermit þá finnst mér fólk í raunheimum bara virkilega skemmtilegt. Ég leyfði Huldu að smakka góða eftirréttinn úr tölvupóstinum sem ég klessi saman á einni mínútu en notaði mun minni uppskrift. Huldu fannst þetta MJÖG gott og mér líka. Þoli ekki bláber (ormar í þeim) og notaði jarðarber.
Horfði á America´s Got Talent áðan í fyrsta sinn, missti af fyrsta þættinum. Miðað við það sem ég hef séð á youtube.com hefði ég miklu frekar viljað fá Britain´s Got Talent. Ant og Dec, kynnarnir í bresku þáttunum, eru svo æðislegir ... og kannski er maður bara búinn að fá nóg af ammmrískum svona þáttum. Ég er tryggasta kvikindi sem fyrirfinnst en treysti mér t.d. ekki til að horfa á ameríska ædolið sl. vetur ... þá var ég búin að fá nóg, löngu á eftir öllum sem ég þekki.
Nokkrir breskir þættir hafa reyndar verið á dagskrá undanfarin misseri, m.a. draugagangsþáttur og tískuþáttur en mér fannst þeir reyndar alveg skelfilegir. Draugaþátturinn er með þekktum miðli sem finnur fyrir framliðnum í þekktum draugahúsum og sjónvarpsfólkið með honum skrækir ógurlega. Tískuþátturinn er þannig að tvær gellur auðmýkja nokkrar kerlingar í hverjum þætti, fá þær helst til að skæla og viðurkenna hvað þær eru ljótar og hallærislegar en svo redda gellurnar öllu! Arggg!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.7.2007 | 22:26
Hægfara beljur - svikin um Schwarzenegger
Það var frekar skrýtið að keyra framhjá sveitabænum við Akranes á leiðinni heim. Rétt fyrir sjö í morgun var hópur af kúm á leið í fjósið og staðan virtist síðan algjörlega óbreytt rúmum tíu tímum síðar. Annað hvort var kúrekinn svona lengi að reka beljurnar, tíminn frystur eða mjaltir miðast við áætlun strætó.
Hlakkaði til að horfa á heimsendismynd með Arnoldi sem átti að hefjast strax á eftir dansþættinum sem ég afplánaði lauslega með eyrunum. Hef ekki gaman af dansi yfirhöfuð, ballett getur þó verið ansi flottur við góða tónlist. Girnilegasti kosturinn er að skríða upp í með góða bók og sofna út frá henni. Ég er á því stiginu í augnablikinu að vera að breytast úr A-manneskju yfir í B, eins og alltaf á föstudögum, grútsyfjuð en tek ekki í mál að sofna snemma á föstudagskvöldi.
Í Póstinum, aðalblaði okkar Skagamanna, er nefnilega auglýst myndin End of Days. Er veik fyrir sumum myndum með Arnoldi ... einn af mínum örfáu veikleikum. Kíkti á dagskrá Stöðvar 2 á Netinu og þar er engin slík mynd auglýst. Prófaði að athuga hvort hún væri á dagskrá á morgun ... en nei, þá verður sýnd átakanleg fótboltamynd með Billy Bob Thornton. Henni er í alvöru lýst svona á Netinu. Hlýtur að vera mikið um rauð spjöld, illa nýtt færi og sjálfsmörk. Martröð allra aðdáenda fótbolta. Ætla ekki að horfa.
Í fyrrnefndu dagskrárblaði segir að myndin The Thin Red Line verði sýnd. Það er ekki fótboltamynd, held ég.
5.7.2007 | 08:26
Þyrnirós ...
Hvernig í ósköpunum er hægt að sofna klukkan 19 á miðvikudagskvöldi og sofa af sér mest spennandi leik Landsbankadeildarinnar EVER, sérstaklega þar sem ég bý við hliðina á íþróttavellinum. Þar að auki missti ég af fyrri hluta framhaldsmyndar Stöðvar 2 sem fjallar um náttúruhamfarir, jörðina að farast, fljóðbylgjur og læti ... ??? Ég er vitlaus í náttúruhamfarir, læt mig meira að segja hafa það að horfa á illa leiknar, lélegar svona myndir, bara til að fá útrás fyrir þennan kinkí smekk.
Það kemur vissulega fyrir að unglingurinn í mér tekur völdin og vill sinn svefn og stundum kemur það fyrir á miðvikudagskvöldum vegna sérlega kvenmiðaðrar sjónvarpsdagskrár (sem ég þoli ekki, Oprah, kvensjúkdómaþættir og væl) en nú var þetta afar ósmekklega valinn miðvikudagur. Ég ætlaði að horfa á leikinn af svölunum mínum og hefði getað hlustað á lýsinguna á Sýn með. Að ég hafi ekki vaknað við slagsmálin og lætin og rauðu spjöldin og gargið ... er mér hulin ráðgáta. Mér dettur reyndar eitt í hug. Ætlunin var að ryksuga og taka svolítið fínt til í himnaríki fyrir leikinn, jafnvel parkettleggja og skipta um eldhúsinnréttingu í tilefni af hátíðinni, ... en kannski hef ég bara sofnað úr leiðindinum við tilhugsunina ... en hvílíkar afleiðingar! Afasakaðu tiltektarguð, ég klikka ekki oftar á þessu!
Voða var skrýtið að geta varla lokað augunum í strætó í morgun. Ég var svo hryllilega útsofin að þau glenntust alltaf upp aftur. Kíkti í gegnum DV en þar sem ég þurfti að kúldrast á þriðja bekk í strætó voru bæði lappir og áhöld til blaðalesturs í kremju. Eins gott að ég er ekki fjarsýn. Ef Beta sjúkraþjálfari heldur áfram þessarri snilld mun ég fljótlega krefjast þess að sitja í kremju, bara af því að ég get það! Núna er það bara vont! Svo finnst mér fólkið í fremstu sætunum ekki eiga skilið að fá að vera þar í ókremju. Ekkert þeirra notar öryggisbelti. Mér finnst sérlega slæmt að sjá útlensku mömmunum með barnið (glaða barnið með hvellu röddina) sitja þarna fremst og vita að barnið getur slasast ef strætó þarf að bremsa snögglega. Sumir bílstjórarnir hafa tekið rispur og minnt fólk á beltin ... eiginlega skipað því að nota þau en vissulega getur verið að konan sé bæði lífsleið og ekki mikið fyrir börn.
Skagamenn lögðu Keflvíkinga á dramatískan hátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.7.2007 | 16:16
Frægðin og furðulegur kjúklingur
Forsíðuviðtalið okkar þessa vikuna er við 55 ára konu sem lifir lífinu til fulls, svo vægt sé til orða tekið. Börnin eru uppkomin og búin að gera hana að þrefaldri ömmu. Hún málar, ferðast, skrifar og bara nýtur þess að vera til. Hún á virkilega myndarlegan og góðan kærasta sem er 27 ára. Geri aðrir betur. Hlakka til að lesa viðtalið við hana í strætó á leiðinni heim. Verð greinilega að hætta að glápa græðgislega á þessa gráhærðu gaura og ... nei, annars.
Gunni ljósmyndari skutlar mér í Mosó á eftir og tekur mynd af mér í strætó kl. 16.45 ... fyrir Séð og heyrt, já, ég legg ekki meira á ykkur. Fyrst er það Wall of Fame hérna á Moggablogginu, loksins tekin í sátt eftir að hafa skrifað ódauðlegar færslur hér síðan í lok janúar án nokkurrar viðurkenningar ... og nú er það Séð og heyrt! Ástæðan fyrir þessu síðarnefnda er útkoma bókarinnar með lífsreynslusögunum.
Ein bókabúðasamsteypa er strax búin að panta fullt í viðbót ... úje! Þetta heyrir maður þegar labbað er fram hjá lagernum.
Þetta er náttúrlega ótrúlega skemmtilegt lesefni í flugvél, sumarbústað, strætó, uppi í rúmi, inni í eldhúsi, í vinnunni í felum bak við tölvuna, á rauðu ljósi og fleira og fleira ... Ég er mjög montin af þessu og bíð spennt eftir viðtökunum. Ég ítreka að þetta eru dagsannar sögur, nöfnum yfirleitt alltaf breytt og stundum aðstæðum. Þarf að leggja til við yfirmenn mína að ég fái að ferðast um landið og safna sögum!
Kjúklingurinn í hádeginu var ... uuu, áhugaverður. Við héldum fyrst að hann væri reyktur en þetta var bara kryddið. Náði ekki að klára bringuna, fíla ekki mikið saltan mat. Mætti ég þá frekar biðja um vel sterkt indverskt eða mexíkóskt!
3.7.2007 | 21:26
Já, hún? Ohh, hún er alltaf svo flott klædd!
Því er haldið fram í Blaðinu í dag að klæðaburður Ellýjar í X-Factor hafi á tíðum vakið meiri athygli en orð hennar. Veit ekki alveg hvort hann Einar Bárðar tæki undir það, hann gleymdi sér alla vega ekki við að horfa á flottu fötin hennar (sem eru úr Nínu á Akranesi), heldur var iðulega ósammála dómum hennar, Palli svo sem líka ... en það er annað mál. Palli mætti stundum ansi frumlega klæddur í þættina en ég hef hvorki heyrt það notað gegn honum né með.
Hvað er þetta með konur og fötin sem þær klæðast? Eitthvað var meira talað um klæðaburð stjórnmálakvenna en -karla fyrir síðustu kosningar, jafnvel meira en málefnin sem þær stóðu fyrir. Rosalega er ég orðin þreytt á þessu.
Athugasemdin í Blaðinu segir jú að Ellý hafi verið fín og flott en það má lesa út úr henni að hún sé heimsk. Ég hef þekkt Ellýju í bráðum 20 ár og hún er ekki heimsk. Ég dáðist alveg að henni sl. vetur fyrir að geta afborið að hlusta á þetta misskemmtilega popp sem er í svona þáttum því að hún er meira fyrir trans-tónlist og rokk.
Ég talaði við Ellýju áðan og hún var hvorki að springa úr gleði né sorg yfir þessu, átti frekar von á því að fjölmiðlar einbeittu sér að nýja dómaranum, Þórunni Lárusdóttur.
Ég vona að Þórunn verði ekki látin gjalda þess í vetur að hún sé meira í klassísku deildinni. Skyldi hún þurfa að klæðast drapplituðu til að orð hennar verði gjaldgeng? Hvað ef hún lendir oft í að senda keppendur hinna heim? Verður hún þá umdeild, jafnvel óvinsæl? Hmmm! Eins gott að henni verður ekki dembt beint í djúpu laugina, eins og Ellýju, Þórunn er þaulvön í sjónvarpi og ég hlakka mikið til að horfa á hana í vetur. Hún er alltaf svo flott klædd!
2.7.2007 | 23:05
Sjálflæknandi tölva, gamlar myndir og sönnun!
Kveikti á tölvunni upp á von og óvon í kvöld. Nákvæmlega það sama gerðist og í gærkvöldi: Ekkert. Næstum hálftíma seinna heyrðust óhljóð úr horni og þegar ég kíkti var elskan mín komin í gang. Hún hafði greinilega haft gott af hvíldinni eða óttaðist fáránlega tillögu Braga bloggvinar um að ég fengi mér Makka. Ég hló hæðnishlátri þegar ég hugsaði um þetta.
Nú get ég unnið heima á morgun ... og t.d. skrifað ódauðlega lífsreynslusögu sem fer væntanlega í bók eftir nokkur ár! Svo endar með því að þetta verður eins og Ísfólkið, yfir 40 bindi, og ég fæ ekkert að blaðamennskast, heldur fer á milli staða á landsbyggðinni og safna djúsí sögum frá fólki.
Skoðaði gamlar myndir í kvöld, bæði eldgamlar og nýrri. Þar sem ég kann lítið á tölvur og hræðist tæknilega hluti á borð við skanna ákvað ég að taka myndir af myndunum. Þær eru kannski pínku skrýtnar þar sem þurfti að passa upp á glampann frá flassinu en þær eru samt flottar. Mun því skreyta þessa færslu með ýmsum nostalgíumyndum.
Ein myndin sannar það sem ég hef oft sagt um okkur Madonnu. Þótt við séum orðnar 48 ára og þar með verulega rosknar í hugum ungbarna, þá höldum við okkar striki enn í dag, förum í tónleikaferðir og hlöðum niður börnum eins og okkur sýnist. Fann reyndar engar nýlegar sviðsmyndir af sjálfri mér (Madonna er duglegri að ota sínum tota) en hér er ein gömul og góð síðan við Siggi Hreiðar sungum á Wembley á níunda áratugnum fyrir þúsundir. Dúettinn kallaðist Guru and the Gang.
P.S. Elsku fullkomna PC-tölvan mín geymdi bloggfæsluna sem átti að fara inn í gærkvöldi:
Hlutirnir gerast hratt hér í himnaríki. Ég var ekki fyrr búin að blogga um The RÖDD I love þegar ég fékk símtal og skömmu síðar heimsókn. Fyrir algjöra tilviljun var upptökuvélin í gangi:
http://www.grapheine.com/bombaytv/index.php?module=see&lang=uk&code=758333dd76b29a409302406e98796ef9
2.7.2007 | 14:56
Leyndarmál síðustu viku opinberað!
Hver man ekki eftir sögunni Ég fyrirleit mágkonu mína? úr lífreynslusögudálki Vikunnar? Ein vinkona mín sagði mér þá sögu og ég breytti bara nöfnunum. Þessi vinkona mín mátti horfa upp á tilvonandi mágkonu sína kyssa ókunnan mann sama kvöldið og hún var kynnt fyrst fyrir tengdafjölskyldunni. Endirinn kemur reyndar skemmtilega á óvart ... Einn ávöxturinn út úr því sem gerðist í sögunni í raunveruleikanum er þekktur, rithöfundur og allt! Þori ekki að segja meira ...
Það kemur oft fyrir að ég þarf að verja lífsreynslusögurnar og sannfæra fólk um sannleiksgildi þeirra. Margir halda nefnilega að þetta séu þýddar eða frumsamdar sögur úr dönsku eða norsku blöðunum.Ég gerði lítið annað á meðan. Hver nennir að lesa sögur um t.d. Norðmenn?
Well, jæja, get loksins opinberað það sem ég var að gera í síðustu viku og var svona mikið leyndó.
Ég varð meira að segja að senda Jennýju okkar allra tölvupóst um málið til að hún dæi ekki úr forvitni.Frá og með deginum í dag (eða á morgun eða hinn) má ég kalla mig rithöfund, skáld eða jafnvel hirðskáld. Sjúr, alla vega tók ég saman 50 "gamlar" og vel valdar lífsreynslusögur úr Vikunni sem nú koma út í kilju upp á 250 síður. Elskan hún Steingerður almáttugur skrifaði 18 þeirra á sínum tíma og ég hinar. Mágkonusagan er auðvitað með í bókinni.
Ég vona innilega að þetta slái í gegn svo að ég verði frægur rithöfundur/skáld/hirðskáld þá þori ég kannski að fara að skrifa í alvörunni og senda frá mér bók sem Amy Engilberts spákona sagði tvisvar með löngu millibili að ég myndi skrifa. Kannski átti hún bara við Nafnabók Vikunnar (2005) í fyrra skiptið og Lífsreynslusögubók Vikunnar í það seinna.Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 9
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 705
- Frá upphafi: 1517285
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 571
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni