Færsluflokkur: Menning og listir

Skyldi hann Jens Guð vita þetta?

Rick hárprúðiRick Wakeman í dagYoutube inniheldur svo ótalmargt skemmtilegt. Var í rólegheitum að hlusta á lagið Sing með Travis og datt svo allt í einu í hug að athuga hvort eitthvað fyrirfyndist þar með snillingnum Rick Wakeman (úr Yes).

Man hvað ég hélt rosalega upp á King Arthur-plötuna, sérstaklega fyrsta lagið sem er að finna hérna neðar. Þetta er 32 ára upptaka frá Wembley, (kræst, hvað við Madonna erum orðnar gamlar). Auðvitað muna allir eftir Rick og þessu lagi. Hvet ykkur samt til að hlusta  ... aftur.

Intróið er alveg tvær og hálf mínúta og þá byrjar einhver gaur að syngja eins og engill. Mig langar svo að vita hvað hann heitir, heyri að þetta er sami gaurinn sem söng fyrsta erindið á plötunni og hef alltaf dáðst að þessarri rödd! Jens Guð er kannski eini maðurinn sem veit þetta! Hann veit allt!
Lagið er óvenjuskemmtilegt miðað við að þetta sé tónleikaútgáfa, yfirleitt vil ég hafa lögin eins og þau koma af kúnni.

King Arthur-platanHárið á Rick Wakeman (þessum ljóshærða á hljómborðunum) er svo flott! Hann er orðinn stutthærðari núna og 30 árum eldri eins og fleiri ... sá nýlegt myndband af Journey to the Centre of the Earth. Ekkert skrýtið þótt maður sé farinn að vanrækja sjónvarpið. 

Hér er lagið:  
http://www.youtube.com/watch?v=d_hM1dtRolY

Best að athuga hvort Ginger Baker-lagið sé þarna einhvers staðar ...


Blöndunartæki með gervigreind

Blöndunartæki frá helvítiKöttur í baðiHorfði haukfránum augum á vatnið renna í baðið áðan, brá mér sama og ekkert frá og tékkaði tortryggnislega á hitastiginu annað veifið.

Allt fór vel og nú veit ég að gervigreind í hlutum er ekki bara bull úr vísindaskáldsögum. Blöndunartækið í baðkeri himnaríkis hefur slíka greind, jafnvel alvörugreind þar sem stríðniselementið er svona ríkjandi. Man hvað ég varð hissa þegar meistari Stephen King fékk mig til að trúa því eitt augnablik að gossjálfsalar flygju upp í loftið og myrtu fólk (Tommyknockers). Nú held ég að bókin sé byggð á sannsögulegum atburðum.  Jæja, farin í heitt bað í fyrsta sinn í marga daga. Volgt er viðbjóður og ketilsaðferðir er seinleg og eyðir allt of miklu rafmagni. Slíkt hefur verið hlutskipti mitt undanfarna daga og í stað taumlausrar baðtilhlökkunar hefur þetta verið eins og kvöð.


Bráðnun í himnaríki

Kælandi dæmiMikill dýrðardagur er þetta, við kettirnir höfum setið úti á svölum og svolgrað í okkur c-vítamínið. Skagamenn vaða í sjónum hérna fyrir neðan, alls óhræddir við krabba, rækjur, hákarla eða krókódíla. Þessi sandur er algjör dýrð, en það eru svalirnar mínar líka.

Tókst bara ágætlega að sofa út, rétt rámar í að hafa slökkt á klukkunni klukkan sex. Á sumrin þýðir ekkert að reyna að sofa mikið lengur en til hádegis en þá fer sólin að baka rúmið og hver vill breytast í marmaraköku eða þaðan af verra.

Þar sem enginn sér á svalirnar góðu nema fuglinn fljúgandi gæti ég þess vegna farið úr peysunni en af tillitssemi við flugumferð ákvað ég að gera það ekki. Hef þó heyrt stöku bremsuhljóð í flugvél ... en þegar vonarneistinn hverfur þá halda þær sína leið.

Megi dagurinn verða ykkur dýrlegur, sólin baka ykkur og ísinn bráðna í munninum. Ætla að taka Jón Kalman (bók) með mér út á svalir núna ... og góðan drykk (kaffi). Ef ykkur verður of heitt, kæru bloggvinir, er hér þessi dýrðarinnar vetrarmynd til að kæla sig við.


Svo ungt og mjótt ...

Himnaríki 042Fann gamla mynd áðan, ansi hreint skemmtilega sem er síðan sumt fólk var ungt og mjótt. Man ekki við hvaða tilefni hún var tekin, gæti eitthvað hafa tengst söngbók.

Líklegast er þó að myndin hafi verið tekin rétt fyrir fræga útvarpsbardagann á Austurvelli. Þvílíkt blóðbað, samkeppnin var líka rosaleg á þessum tíma.

Minnir endilega að við Stjörnufólkið höfum sigrað með miklum yfirburðum og ekki einu sinni fengið blóðnasir, enda var sjálfur Ingólfur Arnarson í liði með okkur.


Fullt að gerast!

VaskakötturTommi er kannski gamall en hann er ekki að farast úr vanafestu, íhaldssemi og værukærð. Reglulega tekur hann upp nýja siði, mispirrandi fyrir okkur hin á heimilinu. Það nýjasta hjá honum er að koma sér fyrir í baðvaskinum þegar ég bý mig undir að fara að bursta tennur-greiða-setja dagkrem-morgunverkin. Þá situr Tommi ofan í vaskinum rosaglaður með að nú fari vatn að renna, úúúúú. Hann fer reglulega í vatnsslag við bununa sem ég læt stundum renna í eldhúsvaskinum. Þetta er tiltölulega nýtt athæfi hjá honum.

Ég er vitanlega ekki að tala um Tomma strætóbílstjóra, heldur gamla, feita og makindalega köttinn minn sem verður seint virðulegur. Við Tommi bílstjóri erum bæði of ung til að binda okkur, eins og hefur komið fram. Auk þess er hann ásatrúarmaður sem aðhyllist mannfórnir sem er svolítið skerí. Magga systir hans er fornleifafræðingur ... ennþá meira skerí! Hún getur grafið eins og vitleysingur án þess að nokkur fatti að hún sé jafnvel að fela lík fyrir bróður sinn. Ef einhver spennusagnahöfundur er ekki kominn með efni í næstu skáldsögu sína þá veit ég ekki hvað!

Strætóferðin gekk að óskum í morgun. Einhver kerling hafði stolið sætinu mínu fremst (þar sem er pláss fyrir fagra fætur mína) svo að ég settist bara í fremsta sætið í aftari hluta vagnsins, við afturdyrnar, þar sem var nóg pláss. Ég er með langar fyrirsætulappir sem þurfa sitt pláss, alla vega þangað til Beta sjúkraþjálfari verður búin að kippa mér í lag. Þá get ég setið í kremju.

vikanFullt af nýjum blöðum komin í hús þegar ég mætti í morgun um 7.30. Bleikt og blátt, jess, alltaf gott að fylgjast með nýjustu straumum í kynlífi ef maður gengur einhvern tíma út. Múahahhaah. Geðveikt Hús og híbýli þar garðar eru skoðaðir. Ísafold er líka komin og á forsíðu er nektarmynd af Ellýju Ármanns. Hvað er þetta með að þurfa alltaf að fá konur úr fötunum? Hjörtur Howser, uppáhaldið mitt, skrifar um matsölustaði í London og hann fær að vera í svörtum stuttermabol og gallabuxum til að vera tekinn alvarlega!

Vikan, sem kemur opinberlega út á morgun, beið líka og mér fannst hún að sjálfsögðu flottust .... Þórdís Tinna, hetjan mikla, er í forsíðuviðtali hjá okkur en hún og Ásta Lovísa heitin ætluðu að koma saman í viðtal hjá okkur fyrir skömmu. Búið var að taka myndirnar af þeim en ekki taka sjálft viðtalið þegar Ásta Lovísa dó. Mér þótti svo vænt um að hitta þær og taka í höndina á þeim. Helst langaði mig að faðma þær og knúsa en kurteisin varð ofan á. Ég las alltaf bloggið hennar Ástu Lovísu, hló með henni og grét  til skiptis og hikaði ekki við að kommenta. Frábær manneskja sem hafði mikil áhrif. Sama er að segja um Þórdísi Tinnu. Það er hreinlega mannbætandi að lesa bloggið hennar og lesa um slíkt æðruleysi. http://blog.central.is/thordistinna  

Enn meira gaman

Svaf í húsi tónlistarskólans í nótt, á hornsófa þar sem spýta skarst upp í bakið á mér ... svaf samt eins og engill. Fannst ég svo örugg þar sem slökkviliðið er á neðri hæðinni.

Nú eru litlu krúttmolarnir að borða hrísgrjónagraut en í kvöld verður steiktur fiskur. Gaman hvað fiskur er vinsæll hjá flestum börnum. Ég þoldi ekki fisk þegar ég var yngri, fékk líklega óverdós af viðurstyggilegum fiski, gellum, nætursöltuðum fiski, reyktri ýsu, hrognum og lifur, saltfiski, skötu, laxi með beinum, síld með enn fleiri beinum ... pyntingaraðferðirnar voru óteljandi.

Davíð er að setja inn myndir núna og þá verður hægt að kíkja á dýrlegheitin.
Nú eru börnin að fara á námskeið fram að kaffi; leiklist, myndlist, grímugerð, kvikmyndagerð og fleira. Kvikmyndagerðin er vinsælust, enda fá þau að gera handrit, velja búninga og leika sjálf í 5 mínútna bíómynd sem verður sýnd á kvöldvökunni síðasta kvöldið. Ég hef einu sinni fengið pínku oggu örhlutverk í einni mynd en Hilda hefur verið heppnari, hún hefur verið myrt í bíómyndum hér, henni hefur verið rænt, hún hefur verið draugur ... og svo framvegis. Aldrei of illa farið með góðan sumarbúðastjóra ...


Sveitasælan sæta

Mikið er gaman í sveitinni. Mér er ekki þrælað mikið út. Fékk að fara í mat og allt ... og kjúklingurinn var ÆÐI! Eftir matinn kíkti ég upp í matsal til sumarbúðabarnanna. Ástandið minnti mig á atriði úr Oliver Twist ... nema börnin fengu aftur og aftur á diskinn. Frönskurnar voru mjög vinsælar (ekki djúpsteiktar), sumir komu nokkrar ferðir. Þau fengu bara hrós fyrir að vera dugleg að borða ... Jenný, ég var ekki að segja að þú værir feit!

Er að skrifa inn í tölvuna lista yfir börnin sem koma á næsta tímabil og þegar diskóið er búið í kvöld kemur tölvan aftur inn á skrifstofu (PC-dýrðin hans Davíðs) verður hægt að skella myndunum inn á heimasíðuna.

Best að kíkja inn á herbergin hjá börnunum og fá að mynda þar ... svo á diskóið.

Bloggums leiter!


Skúbb - Ellý hætt í X-Factor!

Loksins komin á áfangastað. Við lögðum af stað seint um síðir, þurftum að gera mjög áríðandi hluti í Reykjavík, eins og að kaupa kaffi í Kaffitári, koma við á Stokkseyri og kaupa ís á Selfossi.
Að sjálfsögðu var skúffukaka í kaffitímanum, jess, og kjúklingur í kvöldmat. Sorrí þetta með matinn en ég h ef svo oft bara verið í kvöldmat á laugardögum og þá eru fj. pylsur, ekki matur fyrir dömur.

Fékk leyfi hjá Ellýju að skúbba með það að hún ætlar EKKI að vera með í X-Factor næsta vetur.
Ég skil hana vel og er fegin hennar vegna, þvílík vinna sem þetta var á henni sl. vetur, það minnsta var að sitja með hinum dómurunum í sjónvarpinu. Alltaf eitthvað samviskubit út af börnunum og líka myndlistinni!

Ellý er að æfa krakkana í karaókíinu og þau rosaspennt að fá svona stjörnu ... hehehehehe. Spurningar eins og: Fannst þér ekki leiðinlegt að þurfa að senda Alan heim? Ohhh, elskaðir þú ekki Hara-systur? dundu á henni.
Ellý er fín á krakkana, ströng en sanngjörn og kann sitt fag. Sem betur fer verður keppnin annað kvöld þannig að ég get væntanlega hlustað áður en ég fer heim. Davíð frændi er að aðstoða í karaókíinu og gat því ekki hent inn myndunum á sumarbudir.is. Verður gert í kvöld.

Hilda nálgast, best að halda áfram að vinna ...


Breytt áætlun, undarlegt barnaefni og enn undarlegra fullorðinsefni

Hvanneyri 2005Ætla í sumarbúðirnar á morgun, í stað þess að fara á laugardaginn og koma til baka sama kvöld. Það er svo mikið að gera, m.a. í skráningunni, að það er vel þegið að fá eins og einn þræl til hjálpar. Ég þarf líka að fara um allt með myndavélina og fá Davíð frænda til að setja afraksturinn á Netið, www.sumarbudir.is. Þið kíkið kannski á snilld mína á föstudagskvöld/laugardag.
Fæ far með Ellýju en hún heldur utan um karaókíkeppnina um helgina og þjálfar krakkana, mun gera það í allt sumar. Ellý hefur komið að sumarbúðunum í mörg ár og ekki bara séð um tónlistina, heldur líka kennt myndlist og íþróttir. Hún er svo fjölhæf, þessi elska. Smáplögg ... Ellý er með myndlistarsýningu á Draugasetrinu á Stokkseyri og stendur sýningin fram eftir sumri.  

Barnatíminn ...Rosalega hefur barnaefni í sjónvarpi breyst síðan Rannveig og Krummi voru og hétu og ég horfði á Lobba í Stundinni okkar með erfðaprinsinum. Heyrði eftirfarandi í barnatímanum á Stöð 2 í dag: „Ekki segja mér að þú sért í skilorðseftirlitinu. Hvað viltu hitta mig oft?“ sagði sexí kvenkyns teiknimyndapersóna. „Hvernig fórstu að því að útvega tryggingaféð?“

Brooke

 

 

Fleira sexí, nú úr boldinu:
Tómas ætlaði að flytja út frá mömmu vegna andstöðu hennar við Gaby, ólöglega en fallega innflytjandann. Taylor er í losti og getur varla hreyft bólgnu varirnar. Hún trúir því ekki að Tómas sé í alvöru hrifinn af Gaby. Í þættinum í gær hefur Taylor örugglega klagað í útlendingastofnun því að þegar ungu hjónin ætla út úr dyrunum mæta þau löggunni. Gaby er handjárnuð, eins og um morðingja sé að ræða. Hvað er Bush að pæla? Orðum geðþekka geðlæknisins er trúað um að þetta sé sýndarhjónaband en í alvöru elska þau Tómas og Gaby hvort annað, eru meira að segja búin að sofa saman. Á síðustu stundu birtist lögfræðingur Gaby og bjargar henni. „Þið trúið frekar orðum bitrar tengdamóður en ástfanginna hjóna,“ segir lögmaðurinn. Kynslóðaskipti eru greinilega í nánd í boldinu. Kellingarnar eru að verða old news.
Brooke elskar Nick (og hann hana) en gerir allt til að tryggja hamingju Bridget dóttur sinnar. Hún er búin að tæla bjargvætt Taylor, gaurinn sem var svo skotinn í Bridget og reyndi svo ákaft að fá hana til að yfirgefa Nick. Einhver skortur á leikurum í Ameríku veldur því líklega að allir sofa hjá öllum og giftast hver öðrum til skiptis. Mér finnst ekki ólíkleg að Brooke giftist þessum gaur.


Myndir, myndbönd, hetjusaga og meiri neimdroppings

Fegrunaraðgerðir misheppnast ekki allarÞetta var skemmtileg bæjarferð í dag og kvöld og steikti fiskurinn bragðaðist einstaklega vel hjá Laufeyju og Jóni Steini.

 

Ókei, hér er loks mynd sem sýnir þvílíka ægifegurð sem klippara tókst að laða fram með því að einbeita sér að hári, augabrúnum og augnhárum. Var hálffeimin við ljósmyndarann og leit undan. Sætur hattur úr ljósakrónu efst ...  
 

Tommi bílstjóri var á seinni vaktinni, ók mér báðar leiðir, og var eiturhress eins og vanalega. Hann sagði mér að hann hefði þurft að keyra Hvalfjörðinn sl. sunnudag í áætlunarferðinni suður og fór aftast í langa röð bíla. Göngin voru lokuð eftir bílveltu sem við rétt misstum af á leiðinni á Skagann skömmu áður. Þetta setti alla áætlun úr skorðum og tókst bara að hafa eina kvöldferð frá Mosó í stað tveggja.  
Svo ég haldi nú áfram að droppa frægum nöfnum þá mætti ég sjálfum Emil af Moggablogginu í lúmsku brekkunni sem liggur upp að Ártúni.

VikanFór upp í vinnu og sótti nýjustu Vikuna, var spennt að sjá hvernig forsíðuviðtalið kæmi út, það sem ég tók í síðustu viku við Ernu, eiganda Rúfusar, fallega hundsins sem lofaði mér eilífri ást og ég honum. Inga vinkona benti mér á Ernu og sagði að hún ætti heilan helling af lífsreynslusögum handa mér, hún hefði lent í ýmsu í lífinu. Fyrir þá sem ekki vita þá eru lífsreynslusögurnar í Vikunni sannar og stendur yfir eilíf leit að krassandi og góðum sögum.  (gurri@mi.is)

Erna fékkst í viðtal og vá, þvílík saga sem konan hefur að segja!
Níu ára gömul var hún á gangi eftir Hverfisgötunni og á leið í heimsókn til frænku sinnar. Litli bróðir hennar var með í för, fimm ára. Allt í einu stoppaði bíll hjá þeim og tvær konur frá Barnaverndarnefnd gripu börnin og óku þeim í fóstur út á land. Viku seinna var þeim komið í endanlega vistum á Kumbaravogi. Heimilisvinur þar misnotaði nokkur af börnunum, m.a. bróður hennar, og sjálf var hún á stöðugum flótta undan manninum. Mamma Ernu var mjög blíð og góð en átti við drykkjuvandamál að stríða, ekkert þó sem afsakaði að missa svona frá sér börnin. Þegar mamman fékk sér í glas fór Erna alltaf með litla bróður til vinafólks á efri hæðinni og þau gistu þar. Ernu gekk vel í skólanum og var hamingjusamt barn fram að þessu. Saga hennar er sláandi og ein samstarfskona mín sagðist hafa grátið yfir henni.

Þessi hetja ætlar að koma í heimsókn í himnaríki á morgun, ásamt Ingu, og saman ætlum við að læra af Ingu hvernig á að elda góða kjúklingarétti. Inga er sprenglærð í matreiðslu.

Fékk þetta myndband sent frá góðri vinkonu sem býr í USA. Langar að deila því með ykkur:
http://vids.myspace.com/index.cfm?fuseaction=vids.individual&videoid=2022646177


Annað myndband, eiginlega ansi skondið. Ég man ekki eftir þessum megrunarkúr en hann var vinsæll í kringum 1971:
http://www.youtube.com/watch?v=73CKpn-5uc4

Myndin hér að neðan er af nýlegri megrunarkúr! Hehhehehehe! 

Í megrun

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 25
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 721
  • Frá upphafi: 1517301

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 582
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband