Færsluflokkur: Lífstíll

Hægfara beljur - svikin um Schwarzenegger

Kátar kýrÞað var frekar skrýtið að keyra framhjá sveitabænum við Akranes á leiðinni heim. Rétt fyrir sjö í morgun var hópur af kúm á leið í fjósið og staðan virtist síðan algjörlega óbreytt rúmum tíu tímum síðar. Annað hvort var kúrekinn svona lengi að reka beljurnar, tíminn frystur eða mjaltir miðast við áætlun strætó.

Hlakkaði til að horfa á heimsendismynd með Arnoldi sem átti að hefjast strax á eftir dansþættinum sem ég afplánaði lauslega með eyrunum. Hef ekki gaman af dansi yfirhöfuð, ballett getur þó verið ansi flottur við góða tónlist. Girnilegasti kosturinn er að skríða upp í með góða bók og sofna út frá henni. Ég er á því stiginu í augnablikinu að vera að breytast úr A-manneskju yfir í B, eins og alltaf á föstudögum, grútsyfjuð en tek ekki í mál að sofna snemma á föstudagskvöldi.

End of daysÍ Póstinum, aðalblaði okkar Skagamanna, er nefnilega auglýst myndin End of Days. Er veik fyrir sumum myndum með Arnoldi ... einn af mínum örfáu veikleikum. Kíkti á dagskrá Stöðvar 2 á Netinu og þar er engin slík mynd auglýst. Prófaði að athuga hvort hún væri á dagskrá á morgun ... en nei, þá verður sýnd átakanleg fótboltamynd með Billy Bob Thornton. Henni er í alvöru lýst svona á Netinu. Hlýtur að vera mikið um rauð spjöld, illa nýtt færi og sjálfsmörk. Martröð allra aðdáenda fótbolta. Ætla ekki að horfa.

Í fyrrnefndu dagskrárblaði segir að myndin The Thin Red Line verði sýnd. Það er ekki fótboltamynd, held ég. 


Rúllandi Sigþóra í rjómablíðu og bomsupælingar

SkaðræðisvegkanturinnBílstjórinn í morgun stoppaði aðeins fyrr/aftar (fjær Reykjavík, nær Akranesi) þegar hann hleypti okkur Sigþóru út við Vesturlandsveginn, mun aftar en Tommi gerir venjulega og ég upplifði loks að sjá Sigþóru kútveltast niður brekkuna. Það var samt hvorki fögur né fyndin sjón, Sigþóra gerði þetta bara töffaralega og líktist helst njósnara í spennumynd. Líklega hefði þetta verið fögur sjón ef ég hefði séð þetta í slow motion en þetta var svona hviss bang, eina sekúnduna liggjandi og þá næstu staðin upp.

Ég hlæ vitanlega aldrei að svonalöguðu, eins og t.d. Hilda systir myndi gera og margir sem ég þekki ... Aftur á móti sturlaðist ég úr hlátri yfir skemmtiþætti í sjónvarpinu fyrir nákvæmlega sex árum sem sýndi viðbrögð fólks við óþægilegum uppákomum. Þarna sást m.a. líkbíll fara upp bratta brekku ... afturdyrnar opnuðust og kistan rann út og brotnaði (minnir að leikari eða brúða hafi verið í kistunni). Það var óborganlegt að sjá viðbrögð fólks við þessu ... þegar ég sá þetta var ég svona frekar döpur því að pabbi hafði dáið deginum áður. Mikið var gott að geta argað úr hlátri! Ekkert samasemmerki þarna milli dauða pabba og grínsins.  

Held að elskurnar mínar hjá Strætó bs. verði að gera eitthvað fyrir þessa stoppistöð áður en fólk fótbrýtur sig eða rúllar fyrir trukk á leið upp aðreinina, auðvitað feta sig flestir niður vegkantinn þarna niður af stoppistöðinni. Eftir að ég rúllaði þarna niður í fyrra hef ég tekið langan sveig (ef bílstjórinn stoppar á "réttum" stað) til að það gerist ekki aftur og svo vil ég líka halda virðuleika mínum í lengstu lög. 

Merguð, ókeypis hugmynd: Í stað þess að ráðast í, með ærnum tilkostnaði, að gera tröppur þarna niður vegkantinn (sem breytast í rennibraut í snjó og hálku) sting ég upp á MIKLU ódýrari lausn, bara eiginlega næstum því ókeypis lausn! Hún er svo að færa stoppistöðina vestar, eða NÆR Reykjavík, að staðnum þar sem aðreinin og Vesturlandsvegur mætast. Þá erum við farþegarnir á jafnsléttu og getum gengið settlega niður eftir götu. Sigþóra var ekki hress með fallið í morgun, enda hefur hún oft kvartað yfir þessu. Bara færa skiltið, krúttin mín og málið er dautt! Svo verð ég að kaupa nýja vetrarskó (ef leið 18 heldur áfram að rúnta um Árbæinn) til að geta gengið upp brekkuna framhjá góðu lyktinni frá Nóa Síríus í öllum veðrum. Laufey kom með mér í hittiðfyrra í Outletbúð þar sem ég fann hina fínustu X-18 skó. Laufey starði á mig um daginn og spurði hræðslulega: "Ekki eru þetta sömu skórnir og við keyptum saman hérna í gamla daga?" Henni finnst ég ganga of langt í búðahatri og nýtni, samt hata ég nísku. Best að einbeita mér að því að finna góða vetrarskó næst þegar ég fer í Kringluna eða á Laugaveginn. Fer maður annars ekki að komast á bomsualdurinn?

Sólin stubbarVá, hvað ég er fegin að ég fór í svartan stutterma rúllukragabol undir svartan kvarterma jakkann í morgun. 

Þetta gula þarna uppi eirir engu og koma því svartar Casall-buxurnar sér ákaflega vel í hitanum og fara vel við svarta þunna kápuna.  


Sætir frændur og sofandi systir í sófanum

Rétt fyrir aðgerð 2Nú er orðið allt of langt síðan ég hef birt mynd af ástkærum frændum mínum, Úlfi og Ísaki sem fæddust 19. desember sl. Þeir eru tvíeggja en voru samt báðir með skarð í vör á nákvæmlega sama stað, einnig klofinn góm. Önnur myndin af þeim er tekin morguninn sem þeir fóru í aðgerð númer tvö. Þeir eru svo yndislegir ... fékk fiðrildi í hjartað þegar ég sá nýju myndina af þeim, allt of langt síðan ég hef hitt þá.

Elsku krúttin hennar frænku sinnarHilda heimsótti þá í dag og var í svona krúttkasti a la Jenfo á eftir. Hilda er í sólarhringsfríi frá sumarbúðunum ... og sefur inni í stofu, heheheheh! Þyrfti að fara að vekja hana til að hún sofi ekki af sér fríið á Akranesi, hún var búin að hlakka svo til að fara heim í Kópavoginn (of oll pleisis). Hún átti erindi í raftækjaverslun á Skaganum, Hljómsýn, held ég að hún heiti, og mikið fengum við góða þjónustu þar. Kaffi og meðððí á Skrúðgarðinum var næst á dagskrá. Þægilega svalt var inni og galtómt sem er óvenjulegt. Kíkti út í garð og þar sat fjöldi fólks og sólaði sig. Jæja, best að vekja Hildu.    


Enginn munkastrætó hér ...

Sól og blíðaÞað hýrnaði yfir samstoppistöðvarkörlunum mínum þegar Tommi birtist og á hárréttum tíma að vanda. Hann sefur aldrei yfir sig. Ekki það að hinir stundi það en það hefur komið fyrir. Ég hreiðraði um mig hjá Ástu og ætlaði að gera enn eina árangurslausa tilraunina til að sofa þá frétti ég af rökræðum sem stjórnstöð strætó átti við Tomma í gærmorgun. Tommi hafði samband við þá og kvartaði yfir vöntuninni á aukabílnum, því sem leiddi til þess að fólk frá Akranesi og Grafarvogi blandaðist saman í áætlunarvagninn. Tommi fékk þau svör frá einhverjum, örugglega gömlum vini mínum á stjórnstöð, að það ætti bara að sjá um að ég yrði ekki áreitt í strætó. Tommi reyndi eitthvað að mótmæla, sagði að Skagastrætó væri enginn munkabíll ... Veit ekki hvað stjórnstöð er að skipta sér af ánægjustundum mínum .... heheheheh! Beið með mínu fólki í gær og upplifði að vera í kássu og kremju  með Grafarvogsbúum og það er efni í alla vega þrjár lífsreynslusögur í Vikuna ... 

Þegar við komum út úr göngunum tautaði Tommi: „Á hvaða vaskafati er Elli núna?“ Við litum upp og sáum litla bílinn, 25 manna vagninn sem var að fara fyrstu morgunferðina frá Mosó. Vaskafat er nokkuð gott orð yfir litla kvikindið sem er annars þægilegur bíll þegar hann er ekki stappaður af fólki.

„Passa puttana,“ sagði Tommi við húsasmiðinn þegar hún fór út úr strætó. Hún hló bara og lofaði því. Karítas brekkubjútí stóð í brekkunni og við spurðum hana undrandi hvort skólarnir væru byrjaðir aftur, enda vinnur hún í skóla í Rvík. „Nei, sérverkefni á fimmtudögum,“ svaraði hún og flissaði.

Tommi veiðir enn stærri fiska um helginaSéð og heyrt með okkur Tomma í faðmlögum í strætó kemur út í dag og mun Tommi eflaust kaupa blaðið á leið sinni norður í Vesturhóp í veiðiferðina sem hann sagði okkur frá. Þegar við Sigþóra gerðum okkur líklegar til að hoppa út við Vesturlandsveginn sagði ég hlýlega við Tomma: „GÓÐA VEIÐI!“ Tommi greip um stýrið og náfölnaði og hinir farþegarnir frusu. Þegar Sigþóra kom upp orði sagði hún: „Svona segir maður ekki við veiðimann, það táknar að hann veiði ekki neitt!“ Ég reyndi að bæta fyrir þetta með því að tauta nokkrar vel valdar bölbænir á meðan ég gekk niður tröppurnar, óskaði þess m.a. aðTommi mölbryti á sér lappirnar og þess háttar, en er skíthrædd um að ekkert veiðist í Vesturhópinu vegna þessarra óábyrgu orða minna. Ég vissi þetta ekki með hjátrú veiðimanna, hélt að leikarar væru eina fólkið sem fótbrotnaði ekki þótt maður óskaði þeim þess en nú veit ég betur!


Góður túristadagur, guðleg stríðni og ... grobb

RekkkjavikkFór á Skrúðgarðinn vel sjúkraþjálfuð þegar klukkan var að verða hálftólf og það var líklega eins gott því mig minnti að síðasta ferð fyrir fjögurra klukktíma síestu bílstjóranna væri kl. 12.41. Hún er klukkutíma fyrr. Ætlaði að fara að tölta heim á leið og kveðja kettina með kossi þegar Tommi birtist, stórhneykslaður á því að ég hefði ekki verið með í fyrstu ferð í morgun. Í Ártúni tók ég fimmuna og fékk spennandi óvissuferð, sá meira að segja stórt skemmtiferðaskip í Sundahöfn ... sumaráætlun strætó er bara kúl á köflum. Ákvað á Hlemmi að taka ferðamanninn á þetta og labbaði niður Laugaveginn, full hrifningar á þessarri fallegu borg, Rekkjavikk. Sá nýja plötubúð við hlið Skífunnar með plötum sem fást ekki alls staðar. Samt fann ungi strákurinn ekkert með Rick Wakeman, heldur ekki sá ljúfi í Skífunni. Að finna King Arthur-plötuna verður bara nýja takmarkið mitt í lífinu. Hitti Rúnar, son vinkonu minnar, í Bókabúð M&M þar sem hann vinnur. Hann sagðist vera búinn að lesa lífsreynslusögubókina, kannaðist við eina söguna úr henni og fannst það ekki leiðinlegt, sagan líka létt og jákvæð. Latte-inn á Kaffitári var guðdómlegur en þá var tími til kominn að skreppa í viðtalið sem gekk mjög vel.

Þvílík heppni að ná síðan korterísex-strætó heim. Sat við hliðina á skemmtilegri konu á leiðinni, verst að við fórum ekki að spjalla fyrr en síðustu mínúturnar. Hún er húsasmiður og það vekur furðu margra, sagði hún. Frétt í útvarpinu fékk hana til að fara að spjalla og við nutum þess að femínistabeljast svolítið.   

Tomkrús minn almáttugurGetur verið að það sé einhver ósýnilegur þarna úti sem fylgist með mannfólkinu, grípur inn í stöku sinnum inn í og ... finnst gaman að stríða? Jafnvel einhver guðlegur? Kannski nýi frelsarinn, þessi hjá Vísindakirkjunni?

Var ekki fyrr búin að sleppa orðinu hér á blogginu um að ég væri aldrei bitin af pöddum ... þegar ég nældi mér í nokkur bit, líklega staraflóarbit. Það er svona þegar maður bregður sér af bæ. Þetta hefði aldrei gerst í himnaríki!

 

Skemmtiferðarskipið að faraUm leið og ég fór að fylgjast með leiknum sem nú fer fram fyrir neðan austurglugga himnaríkis skoruðu Víkingar mark. Nú held ég mig bara vestanmegin, veit í hjarta mínu að ÍA skorar tvö mörk í seinni hálfleik.

Skemmtiferðarskipið sem ég dáðist að í dag sigldi framhjá himnaríki rétt áðan á leið til frekari ævintýra. Finnur þó vart fegurra land en Ísland. (Þetta mun flokkast undir nýja færsluflokkinn minn)


Ja, dýrt er það ...

West HamÞað kostar mig, M-12 áskrifandann, tæplega 2.800 krónur til viðbótar (við Stöð 2 og Sýn 1) að fá Sýn 2 og þar með Enska boltann. Aðrir borga yfir 4.000. Ég má ekki skipta; fá Sýn 2 og hætta með Sýn 1 af því að ég batt mig við Sýn 1 í ár, sagði sölumaður sem hringdi áðan. Fattaði ekki þá að árið er liðið og rúmlega það. Horfði a.m.k. á heimsmeistarakeppnina í fyrra og hóf áskriftina nokkru fyrr. Sagði honum að ég þyrfti að hugsa þetta vel og vandlega.
„Ja, ég get ekki boðið þetta ódýrara,“ sagði hann.
„Ykkur var nær að stela Formúlunni af RÚV,“ svaraði ég beisk. Við kvöddumst eiginlega með huglægum hnúum og hnefum en kurteislega þó.  

Óléttur karlNú ganga hvort eð er allar auglýsingar út á að aðeins karlmenn horfi á Enska boltann (óléttu karlarnir) og ég get ekki verið svo ókvenleg að glápa á svona karlaefni þegar ég ætti bara að hunskast til að vera kvenleg einu sinni.

Já, ég er jafnvel að hugsa um að sleppa enska boltanum og segja Sýn 1 upp líka í mótmælaskyni ... er frekar fúl út í þetta allt saman. Gæti boðið erfðaprinsinum til Englands í vetur á West Ham-leik eða Manchester United fyrir sparnaðinn. Ætla samt að tékka betur á þessu skiptidæmi þar sem bindiárið er liðið.   


Týnd Esja, hlátur í jarðarför og marktækur draumur ...

EsjanÞað kemur stundum fyrir að farþegar segi þegar komið er alla leið á Skagann: „Where is Eisja?“ Tveir erlendir farþegar fengu aukabíltúr í dag með þessum hætti. Þeir græddu heilmikið á því og gátu litið augum dásemdir Akraness í einhverjar mínútur. Bílstjórinn var splunkunýr og kíkti á kort á milli þess sem hann hleypti fólki út á Skaganum. Þegar hann spurði mig til vegar bauðst ég til þess að fara með honum á endastöð og svo gæti hann hent mér út á leið út úr bænum korteri seinna. Hann þáði þetta með þökkum og þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að nokkrir Skagamenn aka ekki eilífan rúnt í einhverju svartholi á þessarri stundu með rammvilltum bílstjóra. Keypti kaffi í Skrúðgarðinum og tók með heim til að fá eitthvað fyrir minn snúð. Ekki amalegt.
Sit nú og skrifa verulega djúsí lífsreynslusögu sem gömul samstarfskona sagði mér. Hún er um mann sem lenti í klónum á sértrúarsöfnuði og hvarf úr lífi fjölskyldu sinnar.

Afmælisbarn í sumarbúðunumHeyrði í Hildu systur áðan og var mjög gott hljóðið í henni, mikið fjör í sumarbúðunum. Nú eru krakkarnir að undirbúa lokakvöldvökuna og sýna afrakstur námskeiðanna sem þau voru á sl. viku. Svo fara þau heim á morgun. Börnin sem koma í Ævintýraland á miðvikudaginn fá óvæntan glaðning. Guðbjörg úr X-Factor ætlar að kíkja í heimsókn og syngja fyrir þau. Nýja heimasíðan er miklu flottari og auðveldara að skoða myndirnar en áður. www.sumarbudir.is

 

Í dag eru sex ár síðan pabbi dó. Hann fór mjög óvænt og þetta var mikið áfall. Við systkinin ákváðum að hafa jarðarförina í hans stíl, ef hægt er að orða það svo, og  ... það var hlegið nokkrum sinnum. Aldrei verið við slíka jarðarför. Sr. Bjarni Karlsson jarðsöng og sagði nokkrar góðar sögur af pabba sem olli hlátrinum. Ein sú besta var þegar pabbi lenti í bílslysi og var fluttur allur krambúleraður með sjúkrabíl upp á spítala. Þetta var á þeim tíma þegar ekki mátti bjarga lífi fólks nema búið væri að taka skýrslu af því, sumir lifðu það víst ekki af. Pabbi þurfti að svara nokkrum spurningum á meðan læknirinn beið, m.a. nafni, heimilisfangi og kennitölu.
„Ertu giftur?“ spurði hjúkkan að síðustu. „Nei,“ svaraði pabbi, „ég slasaðist svona í umferðarslysi!“

PabbiÞegar þessi saga var sögð í kirkjunni var mikið hlegið en það var frekar skondið þegar gamall skólafélagi hans var við það að skella upp úr aftur þegar allir voru hættir að hlæja og tróð einhverju upp í sig til að verða sér ekki til skammar.

Í byrjun árs 2001 dreymdi mig að ég hefði misst fjórar tennur. Vinkona mín réði drauminn og sagði að þetta gæti táknar fjögur dauðsföll ... Fyrsta dauðsfallið var viku seinna og það fjórða og síðasta rétt fyrir jólin þetta ár. Segið svo að það sé ekkert að marka drauma!


Af þoku, unglingum og miskunnarlausu mýbiti ...

SjóræningjarÞokan sem læddist yfir Skagann seint í gærkvöldi var horfin í morgun. Eins gott, mér varð ekki um sel þegar ég heyrði af og til glamra í hlekkjum framliðinna sjóræningja en sofnaði þó rótt eftir að hafa horft á spennulöggumyndina Chaos með Jason Statham. Slíkar myndir eru róandi í vissum tilfellum.

Tommi hleypti okkur Sigþóru út við Vesturlandsveginn í morgun og við töltum uppeftir. Sigþóra var sátt eftir Írsku dagana og fannst lopapeysuballið mjög skemmtilegt. (Ég hefði átt að fara, nennti bara ekki ein)  Þó hafa böllin verið betri undanfarin ár, að hennar sögn, nú hefur yngst í hópnum sem er galli. Þetta var víst áður magnaður vettvangur til að hitta brottflutta Skagamenn, gamla skólafélaga, ættingja og vini. „Unga liðið þarna með lætin verður til þess að fólk af okkar kynslóð nennir ekki að koma,“ sagði Sigþóra. Jamm, ég varð samstundis níræð við orð hennar ... held reyndar að við séum nú ekki orðnar nógu gamlar til að láta nokkra unglinga með læti hrekja okkur á brott.

Unglingsímyndin byggðHvað er svo unglingur? Jú, það er manneskja sem er hvorki barn né fullorðin og fær að heyra frá barnæsku að þessi hópur sé óalandi og óferjandi og býr sig ósjálfrátt undir að verða þannig ...

Mont: Unglingurinn í fjölskyldunni minni, klári og skemmtilegi frændi minn, var ekki á Írskum dögum þótt hann búi á Skaganum. Hann fór í útilegu á Úlfljótsvatn og var víst étinn í forrétt, aðalrétt og eftirrétt af flugum. Muna, Gurrí, aldrei fara á Mývatn, Úlfljótsvatn eða Laugarvatn á sumrin.

Flugur elska mig ... en ég hef samt reyndar aldrei verið bitin! Fljótari að hlaupa en þær ... eða í "röngum" blóðflokki? Skyldi vera eitthvað athugavert við A+? 


Sætari fyrir eða eftir brottnámið ... og tillaga um breytingar á Írskum dögum

Indverskur kjúklingarétturMamma og erfðaprinsinnFékk notalegt símtal um kvöldmatarleytið. Stóra systir bauð mér í kjúkling. Mágur minn sótti mig á nýja, flotta, svarta bílnum og haldið var til veislunnar. Við ókum fram hjá tjaldstæðinu á leiðinni ... og þar var nú hálfgerð rúst, sumir höfðu bara skilið tjöldin eftir. Finnst ekki ólíklegt að dagskrá Írsku daganna verði eitthvað breytt í kjölfarið. Kannski verða bara þjóðdansasýningar, reiptog og aflraunir, og allt endar svo í spennandi bingóorgíu í Bíóhöllinni. Það ætti að fæla drykkju- og ofbeldisboltana frá. Þeir hafa kannski verið 1% af gestum en settu ljótan svip á. Aðkomumenn, auðvitað. Eflaust Reykvíkingar úr Breiðholti, sagði Mía systir og mamma þóttist ætla að berja hana. Mamma er nefnilega hamingjusamur Breiðhyltingur. Já, mamma var í heimsókn hjá Míu og ég var hálfkvíðin að hitta hana ... eftir að Morgunblaðið birti játningu mína um fyrsta kossinn. Bjóst við skömmum: „Hvað varstu að gera á balli svona ung? Hvernig datt þér í hug að kyssa ókunnugan strák?“ Komst að því að mamma hefur orðið frjálslyndari með árunum og fannst þetta allt í lagi. Hún viðurkenndi þó að hún hefði ekki verið ánægð 1972 með þetta ef hún hefði vitað ... þess vegna segi ég: Höfum unglingana okkar í hlekkjum til þrítugs! Við vitum ekkert hvað þau eru að gera!
Myndin t.v. hér að ofan er af háttvirtri móður minni með erfðaprinsinn, c.a. tveggja ára. 

Lítil vinkona í brúðkaupsveislunniFéll kylliflöt fyrir enn einni Önnunni í brúðkaupsveislunni. Þetta var nokkurra mánaða stelpa sem ég fékk að halda á og við smullum svona líka vel saman. Komst að því að virðuleg móðirin er vinkona Rúnar sem bjó í íbúðinni á móti minni á Hringbrautinni. Rún bjó við það harðræði að hafa bara RÚV á heimilinu og kíkti stundum í heimsókn og fékk að horfa með mér á MTV. Stundum kíktu vinkonur hennar með og þá var fjör. Man vel eftir einu skiptinu þar sem við sátum þarna nokkrar 12 ára og skemmtum okkur yfir Space Man með Babylon Zoo. Það kom í minn hlut að útskýra fyrir þeim að myndbandið fjallaði um venjulegan mann sem geimverur rændu og breyttu ... úúúúúú ... og ein þeirra varð hálfhrædd við myndbandið á eftir. Sorrí.

Óttalegt súkkulaðikvikindi ...Man hvað við Guðrún vinkona vorum algjörlega á öndverðum meiði um hvort hann væri sætari fyrir eða eftir. Hún sagði fyrir, þar sem hann var ósköp venjulegur jakkafatagæi, en mér fannst hann miklu flottari eftir brottnámið ... kominn í blátt pils og allt. Hann er nú óttalegt súkkulaði samt ...
Jamm, svona getur nú komið fyrir góðar konur þegar þær eru tónlistarsveltar í næstum 20 ár og fá svo MTV, sem var skrambi gott í kringum 1995. Hætti að hlusta á nýja tónlist þegar diskóið hélt innreið sína, fannst það skelfilegt (fyrirgefðu Palli). Vaknaði svo upp úr tónlistarkómanu 95. Hér fyrir neðan er lagið Space Man. Hvort finnst ykkur gaurinn sætari sem hallærislegur hagfræðingur eða rosasæt geimvera? Svör óskast!
http://www.youtube.com/watch?v=uE8G-sJ2f4s


Afdrifarík gleymska og smá Evróvisjón-upprifjun

Flotta brúðartertanBýr sig undir að fleygja til þeirra óútgengnuUppgötvaði mér til mikils hryllings að ég yfirgaf brúðkaupið áður en brúðurin kastaði vendinum. Þarna held ég að ég hafi orðið af síðasta tækifæringu til að ganga út. Eftir rúman mánuð verð ég 49 ára og þjóðtrúin segir að verði kona (eða karl) ekki gengin út fyrir þann merkisviðburð geti hún allt eins gleymt því og gerst kattakerling í fullu starfi. Sungu Stuðmenn ekki svo eftirminnilega og réttilega: Hver vill elska 49 ára gamlan mann? Konur eru menn.

 
Allir eru að tala um Evróvisjón ... er það ekki? Rakst á skemmtilegt myndband úr keppninni sem haldin var 1967 en talningakerfið var afar frumstætt á þessum tíma ... mikið um mistök. Sandy Shaw sigraði þetta ár, eins og allir muna.

Sandy ShawTók einu sinni viðtal við merkilega konu sem heitir Kolbrún. Hún sagði m.a. frá því að hún dvaldi eitt sinn á sveitasetri í Englandi hjá vinafólki og þar var stödd engin önnur en Sandy Shaw í helgarheimsókn og notaði sveitakyrrðina til að kyrja. Kolbrún gerðist síðar búddisti. Þegar hún fór að vinna í öskunni eitt árið var mórallinn frekar slæmur hjá körlunum en á stuttum tíma lagaðist hann, hún sagðist hafa kyrjað fyrir því.

Hér er myndbandið frá Evróvisjón 1967: http://www.youtube.com/watch?v=oM0UtIH-Yik

P.s. Veit ekki hvað er að í dag ... horfi á Formúluna með öðru auganu og veit varla hver staðan er!!! Er það sólin sem eyðileggur barnslega gleði manns yfir jafnsjálfsögðu sunnudagshádegisáhorfi og Formúlan er? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 395
  • Frá upphafi: 1532247

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 327
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ruggustóll og sjal
  • Við Keli
  • Ruggustóll og sjal

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband