Færsluflokkur: Lífstíll
8.7.2007 | 00:34
Frábært brúðkaup og fréttir af blautri frænku á Hróarskeldu
Rauðhærður, vígalegur strætóbílstjóri sat undir stýri þegar ég tók vagninn í bæinn. Þetta reyndist bara vera Tommi dulbúinn sem Íri í tilefni Írsku daganna. Hann ók nokkrum rosalega slöppum unglingum heim til Reykjavíkur með fyrsta strætó í morgun, þeir voru alveg búnir á því. Kalt í tjaldinu, þeir voru svangir og vildu komast heim til mömmu. Steinsváfu alla leiðina, þessar dúllur, að sögn Tomma.
Þetta varð síðan algjör lasagna-dagur. Anna, brúðkaup, Anna, brúðkaupsveisla, Anna.
Anna beið í Mosó og við fórum beint í Kringluna í brúðkaupsgjafar- og latteleiðangur. Ég ætlaði að kaupa Matreiðslubók Nönnu handa brúðhjónunum en hún var greinilega uppseld þannig að ég keypti nýju, stóru Kjúklingauppskriftabókina, hún er voða flott. Bætti við plötu með Ljótu hálfvitunum og smellti svo Lífsreynslusögubókinni með. Vona að þau verði ánægð. Kannski lauma ég bók Nönnu að þeim síðar.
Fór svo heim með Önnu á Álftanesið og vá, hvað húsið hennar hefur tekið miklum breytingum! Hef fylgst náið með endurbótunum á blogginu hennar en alltaf er skemmtilegast að sjá þetta með berum augum.
Brúðkaupið var mjög fallegt og látlaust. Milli brúðkaups og veislu naut ég þess að vera með Önnu aftur og nú var Ari, maðurinn hennar, kominn heim. Þarna var ákveðið að þau hjónin færu upp í sumarbústað í Borgarfirði um kvöldið og myndu skutla mér heim á Skaga í leiðinni.
Veislan var algjört æði. Sat við borð með hluta af fjölskyldu brúðgumans og Guðrúnu, föðursystur brúðarinnar. Kaffi Konditori Copenhagen í Hafnarfirði sá um veisluna og fólk var mjög ánægt með kræsingarnar.
Reyktur lax í forrétt, nautakjöt m/rótargrænmeti og gratíneruðum hvítlaukskartöflum í aðalrétt og glæsileg terta í eftirrétt. Þegar danski krónprinsinn trúlofaði sig var boðið upp á svona tertu. Kaffið með kökunni var gott en það er ekki algengt, yfirleitt kaupir fólk allt það fínasta í veislur en býður svo upp á vont kaffi með.
Upp úr níu komu Anna og Ari og sóttu mig. Það var gaman á leiðinni, mikið spjallað og Anna lét einn góðan flakka:
Viðskiptavinurinn: Ég ætla að fá bensín fyrir 200 krónur.
Bensínafgreiðslumaðurinn: Viltu svo að ég hræki í rúðupissið fyrir þig?
Ellen, systurdóttir mín, hringdi í mig rétt áðan frá Hróarkeldu.
Varð að láta þig vita að ég er á tónleikum með Red Hot Chili Peppers, hlustaðu!
Vá, grát, mig langar að koma, ertu nokkuð að drukkna í rigningunni, elskan?
Neibbs, ég keypti mér ný föt og nýtt tjald og þarf bara að vera eina nótt í viðbót hérna, svo fer ég til Köben! Hringi í þig ef lagið þitt kemur og leyfi þér að hlusta!
Það heitir Road Trippin, já, hringdu ef það kemur.
http://www.youtube.com/watch?v=LZvRj726ipg
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.7.2007 | 10:20
Rjúkandi rústir og vísir að grill-einelti?
Vaknaði um níuleytið í morgun, sem eru hálfgerð helgi-spjöll, en brúðkaupið bíður með öllum sínum dásemdum í dag. Allt var þögult, eins og um hánótt væri, en núna um tíuleytið eru unglingarnir farnir að streyma að Langasandinum. Ja, alla vega fólk sem var einu sinni unglingar og annað sem stefnir hratt í það. Hjá einum bloggvini mínum, Skagamanninum Þresti, http://motta.blog.is/blog/motta/#entry-257259 má lesa að Skaginn sé ónýtur eftir læti næturinnar. Allt sefur maður nú af sér, eins og mest spennandi fótboltaleik síðustu ára og nú þetta.
Allir á Skaganum voru úti á grilla í gærkvöldi, götugrill og gleði um allar götur. Við Þröstur vorum útundan ... göturnar okkar sökka greinilega, nema þetta sé bara undarleg tilviljun ... Grillmatur er hvort eð er náttúrlega algjör viðbjóður.
Hef verið frekar ódugleg við að bolda undanfarið en nýjustu fréttir eru þessar:
Nick fullvissaði Bridget um ást sína og hún var að springa úr hamingju. Það stóð ekki lengi, þegar Bridget átti erindi á skrifstofu mömmu sinnar var Stefanía þar og blaðraði öllu í Bridget sem stirðnaði upp. Taylor og Ridge eru við það að taka saman aftur. Hann hefur þó viðurkennt fyrir henni að vera veikur fyrir Brooke. Það er líka Eric pabbi hans, þó ekki blóðfaðir, en hann er farinn að deita Jackie, sem er fyrrum eiginkona blóðföður hans og móðir Nicks. Eric var einu sinni kvæntur Brooke og á með henni tvö börn; Bridget og Rick.
Er komin með það á hreint að til að spara leikaralaun er fólkið í þáttunum látið deita hvert annað, giftast og skilja og svona og lítil endurnýjun verður. Mögulega má rekja furðulegt hegðunarmynstrið til skyldleikaræktunar.
Strætó leggur af stað frá Skaganum kl. 11.41, ef það er þá ekki búið að kveikja í honum, og hinum megin við rörið, eða í Mosó, mun elskan hún Anna bíða. Við náum að eiga stund saman áður en brúðkaupið hefst hálfþrjú. Nú er það bara bað, flott föt, spartl í andlitið og hír æ komm!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.7.2007 | 01:11
Fyrsti kossinn 07.07.72
Þann 7. júlí 1972 fór ég á afdrifaríkt ball í Aratungu. Ég var of ung, eða tæplega 14 ára, en afar fullorðinsleg eftir aldri, hélt ég, þar sem mér var hleypt inn. Komst að þeirri niðurstöðu síðar að dyraverðirnir hafi vitað að þetta væri kaupakonan á Felli, enginn vandræðagemsi. Hitti aðrar stelpur úr sveitinni, m.a. eina sem var í sveit í Fellskoti, og hékk með þeim. Myndardrengur bauð mér upp og hjartað fór að slá hraðar. Hann var á sveitabæ í nágrenninu og ég hafði nokkrum sinnum séð hann og fannst hann sætur ... og við dönsuðum nokkra dansa saman.
Skellur þá ekki á þetta líka rosalega vangalag og ... til að gera stutta sögu enn styttri ... þarna fékk ég fyrsta kossinn. Heimurinn snerist ... og eins gott að þetta var vangadans með stuðningi, annars hefði ég hnigið beint niður á gólf. Ég varð samstundis rosalega skotin í honum. Sú ást entist eitthvað fram á veturinn þótt ég hafi ekki hitt hann aftur þetta sumar. Með kænsku og snilli tókst mér um haustið að hafa upp á símanúmerinu hans. Ég bað vinkonu mína (sem hafði aldrei hitt hann) um að hringja í hann og setti eyrað á mér upp við tólið svo að ég heyrði líka. Henni tókst að veiða upp úr honum eitthvað um sumarið og stelpurnar í sveitinni en það var eins og hann myndi ekkert eftir mér ... Ég steinhætti að vera skotin í honum, fannst ekki taka því, enda var annar eiginlega kominn til sögunnar, maður sem löngu síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn.
Tuttugu árum seinna, á Radíuskvöldi með Davíð Þór og Steini Ármanni, hitti ég unga kaupamanninn næst og hann mundi eftir mér, merkilegt nokk.
Saklausasti brandarinn þetta kvöldið og sá eini sem ég man eftir var: Veistu hvað skýlið sem hýsir Fokkerflugvélarnar á nóttunni heitir? Svar: Mother-fokker. Fólk skemmti sér flest mjög vel, nema þessi fyrstakossmaður sem hvarf af vettvangi nokkru síðar fölur á vangann. Hann sagði mér í kveðjuskyni að hann hefði ekki smekk fyrir svonalöguðu.
Eftir þennan fyrsta koss var greinilega engin leið að hætta ... sem sannast best á því að erfðaprinsinn fæddist tæpum átta árum síðar.
Hér fyrir neðan er rómantíska vangalagið í boði youtube.
http://www.youtube.com/watch?v=IcQRI1vzd-0
6.7.2007 | 09:02
Furðulegt háttalag kattavinar um morgun
Alveg furðulegur fjandi kom yfir mig í strætó í morgun. Aðstæður voru þannig að góðlega konan (sem ég held að sé þroskaþjálfi) hafði hlammað sér fremst og hjartahreini (hélt ég) djákninn tróð sér fram fyrir mig og settist hjá henni. Að vanda hafði móðirin, sem ekkert er fyrir börn, skellt sér hinum megin við ganginn með óbundið barn sitt svo að ég þurfti að setjast aftar. Þreytan var líka að yfirbuga mig og syfjan ... mér hafði reyndar tekist að klæða, bursta og það allt á tíu mínútum án þess að nokkurt stress væri í gangi, fumleysi einkenndi athafnir mínar, eins og svo oft.... Jæja, byrjar svo ekki útvarpið í strætó að baula beint inn í eyrað á mér. Sem betur fer var það Rás 2, annars hefði ég andast þarna í sætinu. Mér fannst einhvern veginn svo óyfirstíganlegt að losa öryggisbeltið, fara alla leið fram í til Tomma og biðja hann um að lækka. Hávaðinn var of mikill til að ég gæti kallað ...
Þá byrjaði þetta skrýtna að færast yfir mig og ég skildi fyrst ekki hvað þetta var ... það var ekki fyrr en á Kjalarnesinu, rétt eftir göngin, að ég fattaði að þetta var VÍSIR AÐ GEÐILLSKU! Það er tilfinning sem ég hef ekki fundið fyrir mjög lengi, mjög, mjög lengi! Nú, í stað þess að láta það bitna á samferðamönnum mínum reyndi ég að hugsa um eitthvað skemmtilegt, eins og brúðkaupið sem ég er að fara í á morgun, hjá elskunni minni henni Önnu Ósk sem ég hef þekkt síðan hún fæddist. Það er svo langt síðan ég hef farið í brúðkaup ... ekki síðan á Gay Pride í hittiðfyrra (gagnkynhneigt brúðkaup) þarna þegar ég varð fyrir móðgun sama dag í Lífstykkjabúðinni sem hefur markað mig ævilangt, ... að ég veit ekki alveg hvað ég á að kaupa í brúðargjöf. Ég var svo blönk í hitt skiptið að ég hafði bara efni á því að kaupa matreiðslubókina Súkkulaði sem vakti reyndar ógurlega lukku og var ein af fáum gjöfum sem ekki var skipt ... en ég er aðeins ríkari núna.
Ef ykkur, hjartkæru, fallegu bloggvinir, dettur eitthvað sniðugt í hug til að gefa í brúðkaupsgjöf þá er heilt kommentakerfi hérna fyrir neðan sem bíður eftir gáfulegum athugasemdum ykkar.
Á leið út úr strætó laumaði ég því að Tomma að taugar mínar hefðu verið orðnar úfnar eins og gaddavírsgirðing eftir útvarpsofbeldið ... og Tommi varð eiginlega alveg miður sín ... hann sagði að þetta væri hipparútan með sérkerfi fyrir farþegana og málið væri bara að biðja um lækka ...
Geðillska mín gufaði endanlega upp þegar mér hafði tekist að eyðileggja daginn fyrir Tomma ... en ég gaf honum samt DV-ið mitt í kveðjuskyni. Á móts við Harðviðarval fann ég að kramdi fóturinn var óðum að jafna sig og heltan á undanhaldi. Líklega verð ég að labba niður á Skrúðgarð á morgnana til að geta notað samgöngutækið strætó (og sitja fremst) ... eða biðja Betu sjúkraþjálfara um túrbómeðferð.
5.7.2007 | 19:13
Grillarinn Úlfar, Írskir dagar og heimsókn Freyju
Hann Úlfar kokkur á Gestgjafanum býr í Mosfellsbæ og fannst ekki mikið mál að skutla mér á stoppistöðina mína á leiðinni heim. Úlli er mikill dýramaður sem hætti m.a. í golfi til að geta einbeitt sér að kanínunum sínum! Hann og fjölskylda áttu eitt sinn glæsilegan kött sem var svona næstum því inniköttur. Hann hætti sér stundum út í Grafarvoginum þar sem þau bjuggu og eitt sinn lenti hann í skelfilegum slag við frekan fresskött úr nágrenninu. Konan hans Úlla sagði blíðlega við kettina: Svona, hættið þessarri vitleysu! en Úlli greip blautt handklæði og bjó sig undir að skilja þá að með því að slá til þeirra. Ekki vildi betur til en svo að konan hans beygði sig eitthvað og varð fyrir handklæðinu. Hún datt niður ... ómeidd en nágrannarnir öskruðu úr hlátri yfir þessu fyndna fólki sem nýflutt var í hverfið. Bakgarðarnir voru í einni hrúgu, svona eins og sameiginleg lóð. Freki fresskötturinn kom ekki framar inn á yfirráðasvæði glæsikattarins.
Einu sinni sem oftar grillaði Úlli. Nágrannarnir, sem líka voru úti að grilla, fylgdust spenntir með þessum fræga sjónvarpskokki, sem hann var þá. Allt gekk vel. Úlli var með fjórar litlar nautakjötssneiðar sem hann bjóst svo sem ekkert við að þurfa en skellti þeim samt á grillið, sneri þeim við eftir smástund, slökkti á grillinu og lokaði því. Hálftíma seinna opnaði hann grillið til að tékka á málum, og fjórar eldsúlur stóðu upp í loftið við mikla gleði grannanna. Hann hafði sett grillið á hæsta í stað þess að slökkva á því!
Tommi kom eftir smástund á strætó þótt heill hálftími væri í brottför og ég náði sætinu mínu! Rúntaði með honum inn í Mosfellsdal og til baka í Mosó þar sem ungarnir hans (farþegarnir) komu fljótlega með leið 15. Tommi sagði mér að mikill viðbúnaður væri fyrir Írsku dagana nú um helgina. Við fáum heilan hasshund og allt til að þefa af farþegunum, enda er pínuoggulítið um drykkju og dópneyslu ungmenna (undir 18 ára) á svona skipulögðum fjölskylduskemmtunum sem eru nánast um hverja helgi yfir sumartímann.
Lítil hætta er þó á því að ég verði handtekin á morgun. Elskan hún Steingerður ætlar að koma með mér á Skagann og taka Freyju með. Kannski við viðrum voffa á Langasandinum. Flóð verður líklega um kvöldmatarleytið svo að við ættum að ná smá sandræmu. Steingerður vill helst ekki leggja á kettina mína að fá Freyju í heimsókn en Freyja lítur á ketti sem skemmtileg þroskaleikföng, enda á hún tvo ketti sjálf; Matta og Týru. Akkúrat núna er ég að horfa á mann með ansi fjörugan sjefferhund niðri á sandi.
Stal þessarri stórkostlegu mynd af blogginu hennar Steingerðar. www.steingerdur.blog.is
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.7.2007 | 18:01
Ævintýri á stoppistöð og bold-uppdeit
Við Tommi bílstjóri komumst aldeilis í hann krappan áðan. Gunni ljósmyndari skutlaði mér í Mosó og svo hófust myndatökur. Reynsla mín úr ótal fegurðarsamkeppnum og fyrirsætustörfum nýttist sérlega vel. Það er bara á passamyndum sem ég lít út eins og vélsagarmorðingi. Vandamálið hófst ekki fyrr en Gunni vilda mynda okkur Tomma saman. Ég var nánast komin í fangið á honum þegar Gunni sagði með svona B&B rödd: Jæja, Tommi, kyssa Gurrí núna! Þá áttuðum við okkur á alvarleika málsins og ég fleygði Gunna öfugum út úr strætó og við ókum af stað þótt enn væru nokkrar sekúndur í brottför. Skyldi hún Magga mágkona standa á bak við þetta?
Gaf Tomma Séð og heyrt-ið mitt þegar ég var búin að lesa það og tautaði eitthvað um að þetta væru skaðabætur fyrir að plata hann í myndatökuna. Hann þáði blaðið en sagðist bara líta á þetta sem upphaf að frægðarferli. Næst ætlar hann að komast í Golfblaðið.
Skrýtið ... hin heilaga Taylor er allt í einu orðin vondi karlinn í boldinu. Hún uppfyllir mýtuna um að vera leiðinleg tengdamóðir og reynir af alefli að stía Tómasi sínum og Gaby sundur. Önnur tvíburadóttirin þolir hana ekki og svo hefur hún hrakið Ridge frá sér.
Nick kelar við tengdamömmu sína og tjáir henni ást sína. Hún reynir að sýna þroska því að dóttir hennar ber barn Nicks undir belti. HAHHHH, of seint, Stefanía, óvinur Brooke númer eitt, sér eitthvað í garðinum, nær í kíkinn og barúmmm, sér hún ekki Nick og Brooke! Skömmu síðar mætir hún á skrifstofuna hjá Brooke og hundskammar hana!
4.7.2007 | 08:47
Svefnvana í Skagastrætó
Það kemur sér vel að vera náttúrubjútí (eða nærsýn) og þurfa ekki mikið viðhald þegar maður vaknar og aðeins 10-15 mínútur í brottför strætó frá Akranesi. Það sem fékk mig fram úr var að ég ákvað að sofa í strætó ... samt get ég aldrei sofið í rútum eða flugvélum, læt samt alltaf gabbast.
Fyrsta sem gladdi hjartað í dag, fyrir utan ljúfu karlana á stoppistöðinni, var að sætið mitt var laust og veika löppin þurfti ekki að vera í kremju. Ég lokaði augunum og vonaði að svefninn miskunnaði sig yfir mig en krakki sem sat við hliðina á mér, hinum megin við ganginn, babblaði hátt og snjallt við mömmu sína með þessarri líka skerandi röddu. Hver getur amast út í lífsglatt barn sem finnst strætó hrikalega spennandi? Ekki ég! Svo er líka næg hvíld í því að loka augunum og slaka á í 40 mínútur.
Ég er svo fegin að hafa ekki farið í peysu í morgun, heldur í þunnan jakka utan yfir örþunnan, sumarlegan bolinn, sem þó er með rúllukraga. Hálsfestin með grænu steinunum sýnir smekkvísi með uggvænlegum hætti og undirstrikar grænleit augun. Pilsið er saumað upp úr nokkrum tvíd-ábreiðum sem gefnar voru fátækum en ég rændi. Klippingin er enn rosa kúl ... sé það á því að ég fæ enn áfergjuaugnaráð frá samferðamönnum mínum í stað samúðar ... Æ, er að missa mig út í einhverja vitleysu, sumt er þó rétt. Þetta heitir bull og svefngalsi og kallar á meira kaffi og morgunverð.
Matseðillinn í hádeginu er ekki af verri endanum: Gulrótar- og appelsínusúpa, Steiktar kjúklingabringur Toscana með hýðisgrjónum og kaldri Miðjarðarhafs-dressingu. Grænmetisrétturinn er kús kús með baby-gulrótum, kóríander og karrí. Best að borða nógu mikið í dag, á morgun verður pasta í öllu og ég er hætt að borða pasta í bili og brauð og sælgæti og ... bara svona mikið kolvetni!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.7.2007 | 21:26
Já, hún? Ohh, hún er alltaf svo flott klædd!
Því er haldið fram í Blaðinu í dag að klæðaburður Ellýjar í X-Factor hafi á tíðum vakið meiri athygli en orð hennar. Veit ekki alveg hvort hann Einar Bárðar tæki undir það, hann gleymdi sér alla vega ekki við að horfa á flottu fötin hennar (sem eru úr Nínu á Akranesi), heldur var iðulega ósammála dómum hennar, Palli svo sem líka ... en það er annað mál. Palli mætti stundum ansi frumlega klæddur í þættina en ég hef hvorki heyrt það notað gegn honum né með.
Hvað er þetta með konur og fötin sem þær klæðast? Eitthvað var meira talað um klæðaburð stjórnmálakvenna en -karla fyrir síðustu kosningar, jafnvel meira en málefnin sem þær stóðu fyrir. Rosalega er ég orðin þreytt á þessu.
Athugasemdin í Blaðinu segir jú að Ellý hafi verið fín og flott en það má lesa út úr henni að hún sé heimsk. Ég hef þekkt Ellýju í bráðum 20 ár og hún er ekki heimsk. Ég dáðist alveg að henni sl. vetur fyrir að geta afborið að hlusta á þetta misskemmtilega popp sem er í svona þáttum því að hún er meira fyrir trans-tónlist og rokk.
Ég talaði við Ellýju áðan og hún var hvorki að springa úr gleði né sorg yfir þessu, átti frekar von á því að fjölmiðlar einbeittu sér að nýja dómaranum, Þórunni Lárusdóttur.
Ég vona að Þórunn verði ekki látin gjalda þess í vetur að hún sé meira í klassísku deildinni. Skyldi hún þurfa að klæðast drapplituðu til að orð hennar verði gjaldgeng? Hvað ef hún lendir oft í að senda keppendur hinna heim? Verður hún þá umdeild, jafnvel óvinsæl? Hmmm! Eins gott að henni verður ekki dembt beint í djúpu laugina, eins og Ellýju, Þórunn er þaulvön í sjónvarpi og ég hlakka mikið til að horfa á hana í vetur. Hún er alltaf svo flott klædd!
Er alveg grútspæld. Þessi breyting kemur sér alla vega illa fyrir mig.
Ef ekki væri svona mikið að gera hjá iðnaðarmönnum á sumrin væru endurbæturnar í himnaríki að baki og ég búin að taka fyrirhugað endubótalán.
Efast um að ég geti reitt fram 20% úr eigin vasa þótt forrík sé. Skrambans verðbólguþrýsingur. Held að ég verði að bjóða upp á eitthvað betra en kaffi til að lokka til mín iðnaðarmennina.
P.s. Æ, ég gat ekki stillt mig um að fylgja tískunni í fyrirsögnum hér á Moggablogginu. Ellý, Jenný, Jón Valur eru fyrirmynd mín að þessu sinni.
![]() |
Lánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað í 80% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2007 | 15:42
Hugsandi smiður og færri vetraráhyggjur
Hver sá sem fann upp á sjúkraþjálfun á alla mína aðdáun og ást. Eftir aðeins þrjú skipti hjá Betu sjúkraþjálfara skoppa ég um Skagagrundir eins og léttfætt hind. Kom svo við í Einarsbúð, gerði upp skuldir mínar og keypti inn. Bíð nú spennt eftir réttum kattasandi. Kettirnir líka.
Hringdi í Glerhöllina og lýsti yfir áhyggjum með yfirvofandi vetur (það er nú kominn júlí). Þótt ég hafi gullfiskaminni á stjórnmálaloforð man ég þó eftir vondum vetrarlægðum með tilheyrandi rigninu og hvassviðri í suðlægum áttum ... beint upp á gluggana mína við opið Atlantshafið. Þröskuldurinn út á nýju svalir er enn óklæddur og það lekur inn! Það var ekki að spyrja að þjónustunni, innan 15 mínútna kom indæll maður sem kíkti á aðstæður, sýndi mér samúð og sótti svo kítti og þar með hefur vetraráhyggjunum fækkað um eina. Ég hef upplifað of margar Nætur hinna 30 handklæða í sambandi við gluggana mína til að þurfa ekki að hafa áhyggjur af svaladyrunum líka. Hann fékk lánaða ryksuguna og mér fannst voða heimilislegt þar sem ég sat hér við tölvuna að heyra ryksuguhljóð í fjarska. Gat ekki stillt mig um að kveðja hann með: Já, og takk fyrir að ryksuga! Hann ryksugaði samt ekkert að óþörfu og hló bara.
Þar sem dugnaðurinn var orðinn svona geigvænlegur ákvað ég að hringja líka í smiðinn minn. Hann hefur mikið að gera en er alltaf að hugsa um mig (jibbí). Býst við honum fljótlega. Held að við ráðumst ekkert í eldhúsmartröðina fyrr en eftir afmælið mitt. Stofan gengur fyrir.
Muna ekki allir eftir þessu lagi? Í íslensku þýðingunni heitir það: Aldrei að giftast strætóbílstjóra ...
http://www.youtube.com/watch?v=r4o4Yq75ur0
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.8.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 396
- Frá upphafi: 1532248
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 328
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni